Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram að á bak við hugsunina hjá hæstv. félmrh. er að hann er efnislega ósammála þeirri löggjöf sem var sett hér í gær sem er út af fyrir sig athyglisvert. En ég held að hæstv. félmrh. verði að beygja sig fyrir lögunum eftir sem áður. Alþingi hefur samþykkt lögin eins og þau liggja fyrir og ég held að félmrh. verði að una því.
    Ég bað um að fá frest til þess að ég gæti athugað þetta mál og óskaði eftir að hlé yrði gert á umræðunni til þess að ég gæti athugað þetta mál. Ég hafði satt að segja búist við því að félmn. mundi bregðast öðruvísi við. Ég sé að brtt. Guðmundar H. Garðarssonar fjallar um 34. gr. eins og frv. kemur frá Nd. Við getum tekið þessa grein fyrir efnislega frá orði til orðs þegar við tölum um málið efnislega.
    En ég vil ítreka beiðni mína. Ég óska eftir því að það verði gert hlé á umræðunni þannig að mér gefist svigrúm til þess að athuga í samráði við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson hvort við finnum einhvern annan flöt á þessu máli. Það er komið í ljós að það er efnislegur ágreiningur sem ræður úrslitum hjá hæstv. félmrh. Hann hugsar sér að það ákvæði sem er í þessu frv. verði ráðandi og telur óraunhæft að könnun fari fram á hverju ári. Ég tel því nauðsynlegt að þingmönnum gefist kostur á því að athuga aðeins sinn gang.
    Það er líka í samræmi við þessi vinnubrögð. Það er verið að sigla hér í gegnum deildina hverju málinu á fætur öðru. Við höfum ekki undan og eigum erfitt með að setja okkur inn í mál. Þess vegna er þetta eðlileg beiðni sem ég ber nú fram.