Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þar sem lagt er til að nýr kafli um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt verði hluti af húsnæðislöggjöfinni. Frv. þetta er flutt því að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að réttaróvissa komi upp í tengslum við starfsemi húsnæðissamvinnufélaga. Réttindi og skyldur íbúanna og félaganna þurfa að vera ótvíræð í lögum.
    Húsnæðissamvinnufélög hafa nú þegar byggt hátt í 100 íbúðir og þess er að vænta að á næstu missirum bætist við 100 -- 200 slíkar íbúðir víða á landinu.
    Að því er varðar einstakar greinar frv. skal vikið að því helsta. Fjallað er um stofnun, starfshætti og slit húsnæðissamvinnufélaga. Í frv. er einnig að finna skilgreiningu á búseturéttargjaldi, en það er greiðsla fyrir eignarhlutann sem tryggir leigjendum búseturétt. Einnig er opnaður möguleiki fyrir sveitarfélög og almannasamtök að fjármagna og ráðstafa búseturétti í allt að 20% af íbúðum. Sett er sú meginregla að réttur búseturéttarhafa er ekki framseljanlegur og reglur eru settar um ráðstöfun búseturéttar. Þá er kveðið á um vanskil og að búseturéttargjald standi sem trygging fyrir skilvísri greiðslu búsetugjalds. Einnig er að finna skilgreiningu á búsetugjaldi, sem er eins konar leigugjald, sem greitt er mánaðarlega. Búsetugjald miðast við afborganir lána, rekstrarkostnað, fasteignagjöld, tryggingar og viðhald íbúðar. Þá er kveðið á um það hvernig háttað er veðsetningu íbúða.
    Í frv. er einnig fjallað um framleigu á íbúðum með búseturétt. Þá er ákvæði um viðhaldssjóð en greiðsla í hann er hluti af búsetugjaldi. Þá er fjallað um fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga sem er með hliðstæðum hætti og hjá byggingarsamvinnufélögum. Þá er að lokum ákvæði sem leggur bann við sölu íbúða með búseturétti á meðan á þeim hvíla lán úr Byggingarsjóði verkamanna.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.