Frv. um fæðingarorlofsgreiðslur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég kom inn í umræðuna án þess að heyra allt mál hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals en ég hygg að hann sé að tala um frv. sem flutt er af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og hefur fengið afgreiðslu í Nd. Efnislega er málið þannig vaxið að Tryggingastofnun ríkisins er með hliðstætt mál, eða það sem þetta tiltekna þingmál raunverulega fjallar um, fyrir dómstólum. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og það er ákvörðun Tryggingastofnunarinnar og heilbrrn. að standa þannig að því. Þess vegna hefur mér þótt óeðlilegt að afgreiða þetta frv. hér og nú frá Alþingi á þessu stigi. Efnislega umræðu ætla ég ekki að taka upp um málið að öðru leyti. Þetta er mín afstaða og ég vil að þingið viti hvernig málið er vaxið af hálfu heilbrrn. og Tryggingastofnunarinnar, en vissulega er það þingsins að taka afstöðu til mála og kannski ekki hægt að hafa áhrif á það hvernig menn afgreiða hér mál eða hvernig þingmenn og þingdeild taka á málinu. En þetta er það viðhorf sem ég vildi láta koma fram í deildinni af minni hálfu.