Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason) :
    Herra forseti. Það er auðvitað sjálfsagt ef þess er óskað að menntmn. þessarar hv. deildar komi saman til fundar og fjalli um þetta mál. Í lok fundar menntmn. sem haldinn var hér áðan, og má vera að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal hafi verið farinn af vettvangi, þá ræddum við þetta lauslega, viðurkennt skal það. Þar sem hér er eingöngu um að ræða leiðréttingar, ekki efnisbreytingar, leiðréttingar þess sem komst inn á þskj. nánast fyrir mistök og uppgötvaðist í Nd., var ekki talin ástæða til að halda sérstakan fund. En sé þess óskað þá er auðvitað ekkert sjálfsagðara en að nefndin komi saman til stutts fundar og fari yfir málið. ( HBl: Fyrst nefndin hefur farið yfir málið, þá styð ég það þó ég hafi ekki verið við.) Ég heyri að hv. 2. þm. Norðurl. e. er sáttur við þessi málalok og þarf þá ekki raunar fleira um málið að segja.