Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum hér með grunnskólafrv. eins og það lítur út eftir 2. umr. í neðri deild og með brtt., bæði brtt. ráðherra og líka þeim sem menntmn. hefur orðið ásátt um að gera.
    Frv. hefur tekið nokkuð miklum breytingum frá upphaflegu formi og hefur það sjálfsagt orðið til bóta en sumt er kannski ekki eins róttækt og skyldi. En þetta er það form sem fólk hefur komið sér saman um og við sættum okkur við það.
    Sú breyting að skipa tólf manna ráð held ég að sé til bóta og ég held líka að samsetningin á ráðinu sé til bóta. Í 13. gr. er talað um samstarfsráð. Það held ég líka að sé skýrara en upphaflega orðið sem ég sá um þetta, skólamálaráð, sem hefði verið villandi vegna þeirra aðstæðna sem eru hér í Reykjavík.
    Það að koma upp skólaráði álít ég að sé mjög gott en ég held að skólaráð eigi að koma oftar saman en þrisvar á ári. Ég hef setið í skólanefndum og skólaráðum í mörg ár og ég veit að það að koma þrisvar á ári í níu mánaða skóla til skrafs og ráðagerða og áætlanagerða dugar afskaplega skammt. Í grunnskóla þar sem upp koma geysilega mörg vandamál og einmitt svona ráð gæti átt þátt í að leysa álít ég að enn þá meiri þörf væri fyrir að ráðið hittist oftar til að ráða fram úr þeim málum sem upp geta komið.
    Þetta er allveigamikið frv. og tekur á mjög mörgum þáttum. Ekki er tími til að ræða um þá alla hér. Ég vel 25. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Í skólahúsi skal, auk kennsluaðstöðu fyrir allar kennslugreinar, gera ráð fyrir skólasafni; aðstöðu fyrir nemendur til náms, annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda; aðgengi og aðstöðu fatlaðra; aðstöðu til að neyta málsverðar; snyrtiherbergjum; skrifstofu- og vinnuherbergjum skólastjórnenda og kennara; aðstöðu til heilsugæslu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu,`` --- það er mjög mikilvægt --- ,,íþróttaiðkana og almennrar félagsstarfsemi í þágu nemenda; húsnæði til sérkennslu og sálfræðiþjónustu og annars þess er lög þessi gera ráð fyrir. Ef henta þykir má ætla aðstöðu til íþrótta eða annarrar kennslu í öðru húsnæði í nágrenni skólans.``
    Þetta eru háleit markmið og raunar sjálfsögð. En það verður að harma það hversu oft skortir á að þessum markmiðum sé náð í skólum landsins. Ég tel að ef skólamannvirki okkar kæmust eitthvað í námunda við þessa veru þá værum við búin að ná langt á því sviði.
    Ég vildi líka nefna að í brtt. við 74. gr. er talað um að nemendur í 1. bekk verði ekki fleiri en 18 en hins vegar verði þeir 22 eða 28 í öðrum bekkjum. Ég held að þetta sé allt saman ívið of margt en þó álít ég að þetta ákvæði um 18 nemendur í yngsta bekknum sé mjög til bóta og afskaplega mikið í samræmi við það sem ég hef sagt áður í þessum ræðustól um þessi lög. Mér finnst að ýmislegt sem hér er komið inn sé mjög mikið í takt við það sem ég hef áður sagt hér líka, t.d. fjöldi kennslustunda.
    Í lokin vildi ég nefna að þó að við höfum háleit

markmið sem við ætlum að ná um húsakynni þá er hitt aðalatriðið hvernig atlæti nemendur fá og umgengni frá hinum fullorðnu. Í b-lið 7. brtt. er talað um að koma á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla þar sem þörf er á. Það liggur við að ég haldi að það séu flestir skólar þar sem slík þörf er fyrir hendi. Ég veit ekki hvort það eiga að heita skólaathvörf en alla vega verða það að vera athvörf þar sem nemendur geta ekki bara dvalist heldur líka iðkað það nám sem þeir þurfa að iðka og fengist við ýmis störf sem henta þeim í frístundum. Þetta eru ekki bara dvalar- eða geymslustaðir, þetta eiga að vera staðir til uppeldis og þroska fyrir nemendur og er bráðnauðsynlegt að þetta ákvæði komist til framkvæmda eins fljótt og auðið er. Við sem höfum unnið með nemendur á skólaskyldualdri, og raunar utan skólaskyldualdurs, hér á Reykjavíkursvæðinu sjáum að það er stærri og stærri hópur nemenda sem þarf nauðsynlega á þessari þjónustu að halda.
    Fremst í þessu lagafrv. stendur í 4. gr.: ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.`` Þar er ekki talað um hver eigi að greiða málsverðinn, hvort það á að verða ríkið, bæjarfélagið, sveitarfélagið eða þeir sem neyta hans og verður sjálfsagt kveðið nánar á um það í reglugerð. Þess vegna finnst mér dálítið sérkennilegt að það skuli eiga að greiða gjald fyrir dvöl í skólaathvörfum. Hv. síðasti ræðumaður, Salome Þorkelsdóttir, sagði að þetta gjald ætti að vera fyrir þrif og annan kostnað sem af skólaathvörfunum hlytist. Má vera að það sé ekki hægt að koma á skólaathvörfum í þessum stíl nema með greiðslum og þá verður sjálfsagt að gera það, en samt finnst mér þetta vera hálfnöturlegt að allt í einu eigi að fara að taka greiðslu fyrir þrif og gæslu og umönnun þeirra nemenda sem hafa kannski langmesta þörf fyrir umönnun og aðstoð. Mörg þeirra hafa alls ekki fé handa á milli til að greiða eitt né neitt. Þess vegna held ég að þetta greiðsluákvæði verði að falla burtu ef þetta á að gegna þeim tilgangi sem hugsað er, þ.e. að þeir nemendur sem mesta þörf hafa fyrir það fái að vera þarna. Ég legg því eindregið til að út úr þessum brtt. verði fellt greiðsluákvæðið fyrir vist í skólaathvörfunum en álít að að flestu leyti séu brtt. þær sem nú eru fram komnar til bóta.