Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. fjh.- og viðskn. mætti hér til fundar strax eftir að atkvæðagreiðslu í Nd. var lokið til að ræða frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991. Það kom í ljós að frv. hafði tekið nokkuð mörgum breytingum frá því að það fór frá þessari deild fyrir jól og töluvert fleiri lánsheimildir gefnar en þá var mælt fyrir um.
    Meiri hl. nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að mæla með samþykkt frv. eins og það lítur út nú. Hins vegar verð ég að segja fyrir mig, og tala þá ekki sem formaður fjh.- og viðskn. heldur í eigin persónu, að mér þykir töluvert mikið á lánsfjárlögin lagt og miklar heimildir gefnar fyrir lántökum á þessu ári.
    Það virðist því miður vera svo að eftir afgreiðslu fjárlaga, þar sem mælt er fyrir um bæði tekjur og gjöld, kemur annað frv. sem heitir lánsfjárlög þar sem eru engar tekjur, bara gjöld.
    Þetta ber þess töluverð merki að það er verið að redda málunum fyrir horn og gefa heimildir til ýmissa framkvæmda. Sumar er ekki víst að verði framkvæmdar á þessu ári en aðrar eru nokkuð nauðsynlegar og kannski ekki óeðlilegt að ríkið taki lán til að greiða þær. Í sjálfu sér ætla ég ekki að nefna einstök dæmi í lánsfjárlögunum, eins og þau líta út nú, því til sönnunar. Eins og komið er finnst mér menn líta svolítið einkennilega á lánsfjárlögin, að ýta svo miklum vanda, eins og þar er mælt fyrir um, yfir á komandi kynslóðir í staðinn fyrir að afla tekna á móti fyrir því sem eytt er nú um stundir.
    Ég ætla ekki að vera á móti þessum auknu heimildum heldur kem ég til með að greiða þeim atkvæði þrátt fyrir það sem ég hef sagt nú. Þetta er skoðun sem ég lýsti þegar málið var afgreitt úr deildinni og er enn þá þeirrar sömu skoðunar að ég tel að betur eigi að huga að því, þegar menn huga að framkvæmdum, hvernig eigi að fjármagna þann kostnað.
    Þetta er kannski eitt af meginvandamálum Íslendinga, að við erum að auka skuldabyrðina ár frá ári. Ég er ekki að segja að þessi ríkisstjórn sé eitthvað betri en þær sem setið hafa. Þetta hefur því miður verið landlægt hjá okkur Íslendingum að taka eilíf lán fyrir þeirri eyðslu hvers og eins árs.
    Eitt er þó það mál sem ég sakna nokkuð að hafi ekki hlotið náð í hv. Nd. og gæti leitt til þess að hér yrðu skapaðir nýir atvinnumöguleikar með samstarfi við erlenda aðila. Þannig er að ákveðnir enskir aðilar hafa lýst því yfir að þeir væru tilbúnir til að setja upp þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn. Ef af slíkri framkvæmd verður, sem óvíst er, þarf að bæta höfnina í Þorlákshöfn. Þess vegna legg ég það til í brtt. að ef til samninga komi af þessu tagi milli íslenskra og þessara ensku aðila verði fjmrh. veitt heimild til að koma upp þilplötuverksmiðju á þessum stað.
    Ég hef þá mælt fyrir nál. sem frsm. fjh.- og viðskn. og skýrt frá því hvaða umræða var í nefndinni vegna þessa tiltekna máls. Ég vona að hv. Ed. sjái að sú brtt. sem ég legg fram sé í þá átt að skapa hér og auka atvinnutækifæri og bið deildarmenn að samþykkja hana.