Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði eru lánsfjárlögin aftur komin til Ed. eftir að hafa fyrst verið til umfjöllunar hjá okkur í desembermánuði. Síðan hafa þau verið að velkjast í Nd. í janúar og febrúar og nú er kominn miður mars og meira en það.     Á meðan við í Ed. fjölluðum um lánsfjárlögin í desembermánuði hækkuðu óskir ríkisstjórnarinnar um lántöku um 2,2 milljarða. Núna, næstum þremur mánuðum seinna, eru lánsfjárlögin komin til okkar og hafa aftur hækkað um 2 milljarða og meira til. Þannig bætum við sífellt við lánaóskirnar og skuldir okkar vaxa jafnt og þétt.
    Auðvitað er því þannig háttað að við borgum eitthvað af lánum til baka og vexti á þessum sama tíma en þetta eru án efa miklu hærri upphæðir en við höfum greitt á sama tíma. Því segi ég það að við erum enn þá að bæta við skuldafen okkar. Af þeim nærri 2,1 milljarði, sem lánsfjárlögin gera núna ráð fyrir að tekinn verði, eiga 735 millj. að fást á erlendum markaði en hitt innan lands svo við höldum áfram að reyna að taka meiri hlutann af lánum okkar innan lands og hefur ríkisstjórnin nú hælt sér af því. Vafalaust má segja að á vissan hátt sé það mjög gott. En þessi sífellda ásókn ríkisvaldsins í lán innan lands hefur átt sinn þátt í að halda raunvöxtum mikið meira uppi en eðlilegt er. Það er auðvitað vandséð hvort hægt er að gera þetta öðruvísi. Það er samt sérkennilegt að nú skuli einstaklingar og ríkisvaldið vera helstu lántakendur á Íslandi á meðan fyrirtæki halda að sér höndum og reyna að komast hjá að taka lán. Það segir nokkuð til um raunverulegt fjárhagsástand á Íslandi að einstaklingarnir skuli neyðast til að taka lán til þess að lifa en fyrirtækin reyni í lengstu lög að forðast að taka lán til framkvæmda vegna þess að þau þora ekki að gera það.
    Þær hækkanir sem ég sé strax að eru einna mest áberandi í þessari nýju útgáfu er að 14 milljarðar 140 millj., sem upphaflega var í okkar meðförum 14 milljarðar og 60 millj., er orðið núna 14 milljarðar og 700 millj. Þar hefur hækkunin orðið 560 millj. á þessum þremur mánuðum.
    Einnig höfum við gert ráð fyrir að taka 100 millj. kr. lán til að kaupa þyrlu. Er það auðvitað bráðnauðsynlegt. Við vitum að þyrlur eru ein nauðsynlegustu björgunartæki sem íslenska þjóðin hefur yfir að ráða og er náttúrlega vandséð hvort 100 millj. séu ekki bara dropi í það haf sem við þurfum að leggja í til að þyrluvæða okkur eins og skyldi. En þetta er góð byrjun og ég tala nú ekki á móti því að við tökum þau lán.
    Um 735 millj. ætlum við að taka í erlendri mynt sem eiga að skiptast á milli ýmissa stofnana sem við erum að reyna að lappa upp á, eins og úreldingarsjóð loðnuverksmiðja. Síldarverksmiðjur ríkisins svo og Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga eru allt stofnanir og sjóðir sem standa mjög höllum fæti og þarf að hjálpa upp á.

    Landsvirkjun er fyrirtæki sem við gerum ráð fyrir í þessum lánsfjárlögum að fái aukið fé. Gert er ráð fyrir a.m.k. 400 millj. kr. fjáraukningu til Landsvirkjunar og í erlendri mynt.
    Þetta er mér þyrnir í augum því ég hef þá trú að við eigum ekki að vera að undirbúa byggingu álvers á Keilisnesi. Landsvirkjun vildi í upphafi fá helmingi hærri upphæð en þetta til að undirbúa raforkuvinnslu til að þjóna þessu álveri sem því miður allt of margir virðast álíta að sé eina bjargarleið íslensku þjóðarinnar. Þeir eru haldnir þeirri undarlegu glýju að halda að eitt álver á einum stað á landinu geti hjálpað íslenskri þjóð út úr atvinnu - og efnahagsörðugleikum. Á meðan við erum að óhreinka umhverfi okkar, óhreinka hlið Íslands, vegna þess að flestir ferðamenn sem koma til Íslands koma til Keflavíkur og það fyrsta sem þeir sjá eru verksmiðjur sem þeir vita að eru mengandi. Það þýðir ekkert fyrir umhvrh. Íslands eða aðra pótintáta á Íslandi að halda því fram að ekki komi mengun og óhreinindi frá þessum verksmiðjum. Fólk veit mikið betur. Sú ímynd sem hæstv. forsrh. vill skapa fyrir Ísland, þ.e. ímynd hreinleikans, kámast í augum ferðamannsins um leið og hann lendir í Keflavík vegna þess að við erum svo heimsk að ætla að hlaða þar niður verksmiðjum sem allir vita að eru mengandi.
    Aftur á móti held ég að ef við hefðum ætlað að taka 400 millj. kr. lán til þess að bæta umhverfi á Íslandi og skapa betri og sterkari mynd af hreinu landi þá værum við á réttri braut. Þessar 400 millj. hefðu átt að fara í það. Um allt land þarf að hreinsa til og bæta umhverfið því víða er pottur brotinn um allar byggðir og í fjörum landsins. Þangað þyrftu 400 millj. að fara til að við gætum staðið vel undir nafni hreinleikans. Við getum selt þá ímynd Íslands. Við getum selt hreint vatn. Ég geri ráð fyrir að þingmenn viti það mætavel að hreint og tært vatn er fimm sinnum dýrara en bensín í Evrópu í dag. Með þessari álversfávisku okkar, sem ég vil helst kalla það, ætlum við að eyðileggja möguleika okkar á að nýta aðrar auðlindir landsins. Þar á ég ekki síst við þetta, hið hreina Ísland. Það er skömm að því að við skulum ekki sjá betur fram á veginn en þetta. Við ætluðum að bjarga efnahag okkar næstu þrjú, fjögur, kannski tíu árin með því að hafa fullt af fólki í vinnu við að byggja orkuver og koma svo 600 -- 800 manns í vinnu í þessu sama álveri en um leið eyðileggjum við framtíðarmöguleikana fyrir fjölda fólks um land allt og sölumöguleika á því sem miklu auðveldara væri fyrir okkur að framleiða en ál.
    Ég lít svo á að það sé af hinu góða að 18. gr. í þessu frv. falli brott því það hlýtur að þýða að framlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs mun ekki verða skert. Það tel ég mjög gott.
    Í brtt. er líka gert ráð fyrir því að 23. gr. lánsfjárlaga falli brott, sem fjallar um að framlag til Kvikmyndasjóðs skuli eigi vera hærra en 81 millj. kr. Ég tel að þetta sé líka góðs viti. Ég tel að þarna hafi þingmenn álitið að ríkisvaldið eigi að standa við lagaákvæðið um framlög til kvikmyndagerðar á Íslandi.

    Kvikmyndagerð á Íslandi er að mínum dómi framtíðarmál. Ég held að við eigum eftir að framleiða kvikmyndir sem verði á heimsmælikvarða. Við getum átt blómatíma í kvikmyndum á sama hátt og við höfum átt blómatíma í bókmenntum á vissum aldursskeiðum þessarar þjóðar.
    Einnig er kveðið á um að 30. gr. falli brott. Hún er um skerðingu á framlögum til málefna aldraðra og ég held að það verði líka að teljast harla gott.
    31. gr., sem líka á að falla brott, fjallar um málefni fatlaðra og að framlög til þeirra eigi aðeins að vera 225 millj. á árinu. Ég held líka að það sé til mikilla bóta og sjálfsagt að fella þessi ákvæði niður og geri þar af leiðandi ráð fyrir að bæði aldraðir og fatlaðir fái þau framlög sem lög kveða á um.
    Á eftir 31. gr. á að koma grein sem verður 33. gr. og fjallar um að endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, mannúðarmála og líknarstarfsemi. Jafnframt er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af rannsóknatækjum sem vísindastofnunum eru gefin eða eru keypt fyrir styrki. Ég álít að þetta sé harla góð viðbót við lánsfjárlögin og ég álít að það sé mjög af hinu góða að þetta er komið inn. Það mættu gjarnan koma fleiri ákvæði í þessa átt þannig að við gætum styrkt bæði mannúðar- og líknarstarfsemi meira en gert er ráð fyrir í þessari grein.
    Síðan koma sjö nýjar greinar í brtt. Allar þessar sjö greinar ganga út á það að auka útgjöld ríkissjóðs. 1. gr. fjallar um það að ríkisstjórnin hafi heimild til að stofna til skuldbindinga upp á 1 milljarð og 700 millj. með útgáfu skuldabréfa. Þetta er í takt við það að þeir reyni að fá sem mest lán innan lands. En þetta er hærri upphæð en kveðið er á um í upphafi þessara brtt. Ef það tekst að selja skuldabréf fyrir þessa upphæð, þá stöndum við í enn þá stærri fjárhagsskuldbindingum en áður.
    Í 37. gr. er áætlað að ríkið yfirtaki skuldir Byggðastofnunar frá Framkvæmdasjóði, allt að 1 milljarð og 200 millj. Þetta er bara tilfærsla því auðvitað eru þessar skuldir nú fyrir hendi hjá þjóðinni. Ég tel ekki hægt að segja annað en það sé harla eðlileg ráðstöfun.
    Það eru alls lags fleiri heimildir um ríkisábyrgðir fyrir ýmsum lánum í næstu greinum. Upphæðir þeirra lána sem talað er um að eigi að fá ríkisábyrgðir eru alls ekki tilgreindar. Við vitum því ekkert hversu miklar ábyrgðir við erum að veita ríkisstjórninni heimild til þess að taka á sig. Þetta tel ég vera harla sérkennilegt og vissa áhættu í því fólgna, þó auðvitað verði að treysta því að ríkisstjórnin, hver sem hún verður á þessum tíma, muni koma fram af ábyrgð og reyna að ganga eins stutt í þessum málum og mögulegt er.
    Einnig er þarna heimild til að fella niður opinber gjöld sem tengjast framkvæmdum Flugleiða við byggingu nýs viðhaldsflugskýlis á Keflavíkurflugvelli. Flugleiðir standa ekki sérlega vel að vígi og þetta mun auka vinnu á Suðurnesjum og innan lands vegna þess að það er meiningin að flytja heim þá starfsemi sem Flugleiðir hafa orðið að hafa erlendis. Þetta má

telja að sumu leyti a.m.k. mjög gott. Hins vegar er einokun Flugleiða á Keflavíkurflugvelli geysimikil og sýnist manni stundum kannski að það mætti taka tillit til fleiri flugfélaga og annarrar starfsemi en bara millilandaflugs Flugleiða. T.d. tel ég það harla sérkennilegt að það skuli ekki vera hægt að þjóna innanlandsfluginu í Keflavík eins og sakir standa og væri ástæða til þess að gera þar á mikla bragarbót.
    Í g-lið þessara brtt. er gert ráð fyrir því að fjmrh. hafi heimild til að ganga til samninga við Sláturfélag Suðurlands um kaup á húseigninni Laugarnesvegi 91. Það er stórt og sjálfsagt vandað hús sem byggt var í allt öðrum tilgangi en nú á að nota það til og er ekki að efa að það er ekki nóg að kaupa þetta hús. Það þarf að eyða stórfé til að breyta því og bæta það. Í þessum áætlunum er ekkert um það að fé þurfi til að gera húsið hæft til notkunar fyrir þá skóla sem þarna eiga að fá húsaskjól, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listdansskóla Þjóðleikhússins og fleiri menningarstofnanir. Með því að veita heimild til þess að ganga til þessara samninga erum við án efa að skapa okkur mikil útgjöld til viðbótar.
    Ég hefði gjarnan viljað sjá ákvæði um það að Ferðamálaráð fengi meira fé handa á milli en tókst að koma inn í lánsfjárlögin fyrir jólin. Ferðamál og ferðamannaiðnaður, ef svo má kalla, er ein þeirra atvinnugreina sem lofa hvað bestu hér á Íslandi þessa dagana og þyrfti að styðja mikið betur við bakið á þeirri grein. Ekki virðist hv. Nd. hafa tekist það frekar en okkur í Ed.
    Ég hef þegar rætt um Kvikmyndasjóð og Framkvæmdasjóð aldraðra og fatlaðra og ætla ekki að eyða fleiri orðum í það.
    Allir vita að mastrið á langbylgjustöðinni á Vatnsendahæð hrundi í óveðri sem kom hér eftir jólin. Í desember skrifaði ég í athugasemdum mínum í nál. við lánsfjárlög að langbylgjustöðin á Vatnsendahæð væri orðin 60 ára og illa komin eftir mikla og góða þjónustu og að lampar og sendibúnaður væru orðnir að forngripum, tæringin í möstrunum væri náttúrlega slík að þau gætu fallið í næsta stormi sem líka varð raunin á. Ég benti líka á það að langbylgjustöðin sé eitt helsta öryggistæki Íslendinga því engin önnur stöð nær eins langt á haf út og til annesja. Ekki er í þessu lánsfjárlagafrv. neitt sem bendir til að við ætlum að eyða fé í að endurbæta þessa stöð. Er fróðlegt að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að bregðast við í þeim málum.
    Kannski eru til aðrar leiðir. Alla vega verður þá að reyna þær leiðir og grípa til þeirra úrræða sem þarf til þess að gera því fólki sem vinnur við verstu aðstæðurnar, því fólki sem er á hafi úti og býr afskekktast á Íslandi tilveruna tryggari en núna er. Það er því nauðsyn að eitthvað komi inn í lánsfjárlögin sem bendir til að eigi að fara að vinna að því máli.
    Ég hef ekki skrifað nál., enda komu þessi lánsfjárlög fyrir okkur hér í Ed. fyrir örstuttu síðan og ekki hægt að vænta þess að nál. sé hrist fram úr erminni á andartaki. Ég skrifaði nál. fyrir jólin sem er að miklu leyti í fullu gildi. Auk þess leyfi ég mér að

vísa til nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, 12. þm. Reykv. og kvennalistaþingkonu, og geri orð hennar að mínum hér í Ed. til viðbótar því sem ég hef þegar sagt um lánsfjárlögin. Þau hafa hækkað, eins og ég sagði, um meira en 2 milljarða á þremur mánuðum og manni býður í grun að svona muni þetta halda áfram. Það lofar satt að segja ekki allt of góðu um fjárhagsástandið hjá þjóðinni.