Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Það er orðið dálítið langt um liðið síðan við ræddum lánsfjárlögin hér í Ed. í desember sl. og lögðum mikla vinnu í að ganga frá þeim till. eins og þær liggja fyrir núna. Ég fagna því að loksins er lokið umræðu í Nd. um þennan mikilsverða málaflokk sem skiptir okkur alla miklu máli.
    Ég vildi minnast á nokkur atriði í örfáum orðum. Í fyrsta lagi fagna ég því að það stendur, sem um hefur verið talað, að veitt sé 100 millj. kr. lánsheimild til kaupa á björgunarþyrlu, þó svo að ég telji að vísu að sú heimild hafi verið inni í fjárlögunum í 6. gr., eins og ég hef minnst á áður hér í ræðu. Þar er að vísu sett það skilyrði að jafnframt verði sett á stofn happdrætti til fjáröflunar til þessarar þyrlu en ég vona að menn sættist á það að með þessari lánsfjárheimild, sem er árétting á því sem sagt er í fjárlögunum, verði gengið til pöntunar á þessu mikilsverða björgunartæki okkar.
    Þá vil ég líka fagna því að það skuli hafa náðst samstaða um það í Nd., a.m.k. hjá meiri hluta deildarinnar, að taka inn nauðsynleg ákvæði til þess að hægt sé að halda áfram undirbúningi að Fljótsdalsvirkjun og undirbúningi að álverksmiðjunni á Keilisnesi, jafnframt því að gefa heimild, ef ekki semst um kaup á landi í Vatnsleysustrandarhreppi, til eignarnáms ef á þyrfti að halda, sem ég vona að sjálfsögðu að ekki komi til.
    Þá tek ég líka mjög undir það sem ég held að hafi reyndar gleymst í frágangi fjárlaganna, en það er 10. brtt., þ.e. á eftir 31. gr., sem verður 33. gr., komi ný gr. um heimild fyrir menntmrh. að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, svo og til mannúðar- og líknarstarfsemi. Þetta ákvæði er búið að vera í gildi í fjöldamörg ár og mér er kunnugt um það að þetta hefur valdið vissum vandkvæðum í upphafi árs. Ýmis mannúðarfélög, ég get bent á Lions - hreyfinguna og ýmis fleiri, sem safna fjármagni til kaupa á ýmsum tækjum til þessarar starfsemi hafa haldið að sér höndum við gjafir og hefur það valdið ýmsum óþægindum. Þetta ákvæði er búið að vera í lögum frá því löngu áður en við tókum upp virðisaukaskattinn og var áður í söluskattslögunum og reyndar í tollalögunum líka og það er mjög gott að það skyldi koma.
    Jafnframt fagna ég því að tekin er inn heimild hér til að fella niður opinber gjöld af fyrirhuguðum framkvæmdum Flugleiða við byggingu nýs viðhaldsflugskýlis á Keflavíkurflugvelli. Þetta er framkvæmd sem við Suðurnesjamenn og reyndar allir landsmenn hafa horft mjög til að kæmi sem fyrst í framkvæmd. Við eigum marga mjög hæfa flugvirkja hér á landi sem gætu tekið að sér miklu fleiri verkefni en hefur verið fram að þessu. Ég vona að þetta gefi Flugleiðum byr til þess að ganga til þessara framkvæmda hið allra fyrsta því að flugvirkjum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og reyndar líka á jörðu niðri, ef ég má orða það svo, eftir að Flugleiðir tóku í notkun hinn nýja flugflota sinn. Með þessu geta þeir hætt að starfa

sem leiguliðar á varnarliðinu og geta tekið að sér miklu fleiri óbundin verkefni á alþjóðlegum vettvangi.
    Ég ætla nú ekki að gera alvarlega athugasemd við g-liðinn í brtt. Ég tek undir það að það sé heimilt að ganga til samninga við Sláturfélag Suðurlands um kaup á húseigninni á Laugarnesvegi 91. Mér hefði þótt nóg að setja punktinn þar á eftir. Ég er ekki viss um að sú könnun sé nægilega mikil og nægilega mikil samstaða um að það eigi að nota þetta húsnæði fyrir Handíða- og myndlistarskólann, Listdansskólann og fleiri slíka skóla. Ég held að það sé ýmislegt fleira sem kæmi til greina að nýta þetta húsnæði til. Ég nefni þar til m.a. Þjóðminjasafnið og tel ekki ástæðu til þess að setja það fast í lánsfjárlögum til hvers eigi að nota húsið, en ég er sammála því að fjmrh. sé veitt heimild til að ganga til samninga um kaup á þessu húsi.
    Hér er eitt mál á dagskrá sem er brtt. við frv. frá Guðna Ágústssyni um að á eftir 7. gr. komi ný gr. er verði 8. gr., þ.e. að Ölfushreppi verði heimilt að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð 35 millj. kr., eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til endurbóta á hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn, enda verði af byggingu þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn. Ég held að það sé varla tímabært að taka afstöðu til þess að það komi til byggingar þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn. Mér er kunnugt um það að hið erlenda fyrirtæki sem er að velta þessu fyrir sér er með ýmsa staði til skoðunar í þessum tilgangi. Ég held að það sé varhugavert fyrir Alþingi að fara að taka afstöðu til þess á þessu stigi áður en þeir hafa lokið sínum rannsóknum um hvar þessi verksmiðja eigi að vera.
    Mér er hins vegar ljóst að það þurfa að fara fram ýmiss konar endurbætur á Þorlákshöfn og finnst sjálfsagt út af fyrir sig að Ölfushreppi sé veitt heimild til lántöku til þess að bæta hafnaraðstöðu þar. Að vísu mun þurfa líka að laga ýmislegt þarna í höfninni, m.a. vegna hinnar nýju Vestmannaeyjaferju, en ég skil það svo að bara sú aðstaða sem þarf að lagast í Þorlákshöfn vegna nýju ferjunnar muni kosta um 140 millj. kr. Ég dreg mjög í efa að þær tölur sem nefndar hafa verið til þess að bæta hafnaraðstöðuna í Þorlákshöfn upp á 135 millj. kr., sem þessar 35 millj. eiga að vera fyrsti áfangi að, dugi fyrir væntanlega þilplötuverksmiðju. Samkvæmt upplýsingum Vita- og hafnamálastofnunar mun það duga til að reisa þarna viðlegukant á 7 metra dýpi sem tekur 5000 -- 8000 tonna skip inn í höfnina. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá þessum erlenda aðila eru þeir að velta fyrir sér skipum af stærðargráðunni 12.000 -- 15.000 tonn.
    Ég er hins vegar sannfærður um það að þegar þar að kemur og ef hinn erlendi aðili velur Þorlákshöfn til sinnar aðstöðu þá mun að sjálfsögðu ekki standa á okkur að standa við bakið á þeim Ölfushreppsbúum að lagfæra höfnina hjá þeim. En ég held að það sé ekki skynsamlegt að Alþingi taki afstöðu á þessu stigi til þess hvar þilplötuverksmiðjan eigi að vera. Hinn erlendi aðili er að skoða þessi mál og mér er kunnugt um að það muni ekki líða margar vikur þangað til

hann mun koma með sína hagkvæmniskoðun á þessum stöðum og þá er fyrst tímabært að skoða þetta. Ég hefði út af fyrir sig getað fallist á fyrri setninguna í þessari tillögu, þ.e. að Ölfushreppi verði heimilt að taka lán árið 1991, og ætti að vísu að vera ,,auk þeirra framkvæmda sem eru nauðsynlegar vegna ferjunnar``, upp að 35 millj. kr. eða jafnvirði í erlendri mynt, til endurbótar hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn, en sleppt verði niðurlagi setningarinnar: ,, . . . enda verði af byggingu þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn,`` sem ég held að sé langt í frá að vera tímabært að við hér á Alþingi tökum afstöðu til.
    Að öðru leyti stend ég bak við þær till. sem hér eru fluttar og tel að það sé til mikilla bóta að fella niður þau skerðingarákvæði sem verið hafa í lánsfjárlögunum og við með hálfum huga samþykktum þegar við gengum frá þessu í desember sl.