Starfslok efri deildar
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Forseti (Jón Helgason) :
    Þetta er síðasti fundur efri deildar á þessu þingi þar sem þinglausnir hafa verið ákveðnar á morgun. Ég vil þakka hv. þingdeildarmönnum kærlega fyrir mjög gott samstarf og ánægjulega samvinnu á þessu þingi sem nú er að ljúka. Ég vil þakka skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsfólki þess kærlega fyrir ágæta samvinnu og frábært starf, sem best hefur komið fram í önnum síðustu daga þegar með ótrúlega skipulagðri og góðri vinnu hefur tekist að koma því til skila sem hv. þm. hafa viljað fram færa. Ég vil einnig þakka skrifurum deildarinnar og varaforsetum fyrir ágæta aðstoð sem mér hefur verið veitt.
    Það er ekki aðeins að þessu þingi sé nú að ljúka heldur er kjörtímabilinu að ljúka þannig að nú munu hverfa hér úr deildinni nokkrir sem setið hafa á Alþingi um alllangt skeið og sumir áratugum saman. Ég vil sérstaklega þakka þeim fyrir samstarf á þessu þingi og á liðnum árum og árna þeim allra heilla.
    Ég vil svo óska ykkur öllum velfarnaðar í þeirri baráttu sem fram undan er hjá þeim sem áfram ætla að leita eftir kjöri en auðna verður að ráða hver okkar muni mæta á næsta þingi sem áætlað er að halda ekki löngu eftir næstu alþingiskosningar. Þegar leiðir nú skilja þá árna ég öllum utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og öllum hv. þingdeildarmönnum allra heilla.