Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur æði oft verið til umræðu hér. Hjá því verður ekki komist að minnast lítillega á þessi mál þrátt fyrir það að skammur tími sé til stefnu. Það er náttúrlega mjög ámælisvert að hér skuli vera verið að taka þessi mál til umræðu nú á síðasta degi þingsins vegna þess að þetta mál varðar býsna marga.
    Hér er búið að breyta húsnæðislögunum æ ofan í æ og alltaf hefur það átt að vera til bóta. Nú er enn ein breytingin sem siglir hér inn í Alþingi og svo virðist sem hennar sé þörf þrátt fyrir allar þessar breytingar sem hafa átt sér stað á undanförnum fjórum árum. Það sannar það sem hér hefur verið sagt að þær breytingar hafa verið ófullnægjandi og það hefur aldrei verið fullkomlega heil hugsun í þeirri stefnu sem núv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. hafa haft í þessum málaflokki. Um þetta hefur hv. 1. þm. Vesturl. margoft komið inn á, en hann var einn af þeim sem stóðu fyrir hinu eldra kerfi sem hefur verið fjallað um.
    Í þessum málaflokki eru mörg álitamál. Ég vil benda á að nú undanfarið hefur það verið svo að húsbréfin, sem áttu að leysa vanda hins almenna borgara, hafa aukið vanda þeirra, einfaldlega af því að vextir af húsbréfum og afföll hafa aukist það mikið að mjög alvarlegt ástand hefur skapast víða út af því.
    Þá verður ekki hjá því komist í þessari umræðu að minnast á skattastefnu ríkisstjórnarinnar, annars vegar þær tillögur sem ríkisstjórnin veitti brautargengi hér um að hækka fasteignagjöld allverulega með nýjum reglum um fasteignagjöld úti á landi, og hins vegar með eignarsköttum þar sem ráðist er á þá aðila sem hafa reynt að eiga hlutina sjálfir. Það er talið að hækkun á milli ára í þessum málaflokki sé um 12 -- 40% á sama tíma og laun hækka um 6%.
    Það er nokkuð ljóst að núv. ríkisstjórn hefur með þessari stefnu orðið þess valdandi að fjöldi fólks hefur verið svikinn fjárhagslega. Því hefur verið komið svo fyrir að margir sem reiknuðu með hjálp frá ríkinu til að eignast húsnæði, hafa verið sviknir um það og haft af þeim stórfé af núv. ríkisstjórn. Það má minna á að reikna má með að sumir hafi tapað allt að 0,5 millj. til 1,5 millj. af aðgerðum núv. ríkisstjórnar vegna þess að núv. ríkisstjórn hefur breytt hinum ýmsu reglum til verri vegar fyrir þessa aðila sem treystu því að þeir gætu farið eftir þeim reglum þegar þeir gerðu sínar ráðstafanir.
    Það er því áhyggjuefni að enn skuli koma hér fram breytingar sem ekki sést fyrir um hvernig muni bitna á hinum almenna borgara og nokkuð ljóst miðað við það sem á undan er gengið að þær verða ekki til bóta. Þær verða ekki til bóta, vegna þess að reynslan hefur sýnt að stefna núv. ríkisstjórnar og hæstv. félmrh. hefur leitt til þess að hagur ákveðinna hópa hefur farið síversnandi og allar breytingarnar hafa verið gerðar á kostnað sjálfseignarstefnunnar.
    Áður þótti mönnum rétt að spara og fara vel með og safna sér fyrir íbúð, þeirri stefnu hefur verið kollvarpað af núv. félmrh. með svívirðilegum hætti. Í stað þess að ráðdeild og sparsemi ríki hjá húsbyggjendum þá hefur þeim aðilum sem hafa viljað fara þannig að verið fyrirmunað að eignast húsnæði með þeim hætti nema vera mismunað allverulega. Núverandi stefna gengur út á það að best sé að eyða öllum sínum fjármunum í einhver önnur gæði lífsins en húsbyggingar og koma því þannig fyrir að menn eigi sem minnst og hafi sem mesta möguleika á því að vinna svart, það er stefnan sem núv. ríkisstjórn hefur tekið upp í húsnæðismálum.
    Þá er ekki fráleitt að líta á hvernig aðrar þjóðir gera þetta. Við getum t.d. litið á Svía sem hafa aðra húsnæðisstefnu hvað varðar sjálfseignarstefnuna. Þeir hafa gert mönnum mögulegt að eiga sínar íbúðir sjálfir, en það er oft vitnað til þessa lands, og með skattalöggjöf sem gefur þeim m.a. möguleika á að draga frá vexti út af húsnæði. Þetta hjálpar fólki náttúrlega. Þessir hlutir voru algjörlega sniðgengnir af núv. ríkisstjórn. Það var farið út í það að þeir sem höfðu keypt sér húsnæði eða farið að byggja eftir kerfinu frá 1986 voru sviknir um þær húsnæðisbætur sem samkvæmt því kerfi voru og eru nú í verulegum greiðsluerfiðleikum margir hverjir út af því.
    Fram hjá þessu er ekki hægt að líta þegar rætt er um þessa hluti. Og í komandi kosningum hlýtur að vera skýr krafa um það við tilkomu nýrrar ríkisstjórnar að breytt verði um stefnu í þessum málum á þann veg að þeir sem eiga sitt húsnæði sjálfir verði ekki skattpíndir með þeim hætti sem núv. ríkisstjórn hefur gert.
Ekki verði lagðir á íbúðarhúsnæði hæstu skattar í heiminum og jafnframt verði veittar skattaívilnanir með sama hætti og áður hefur tíðkast. Ef núverandi stefna í húsnæðismálum á að ríkja áfram þýðir það milljarða aukningu í beinum útgjöldum ríkisins í þessum málaflokki og milljarða tap fyrir þjóðfélagið.
    Ég verð að segja það eins og er að þessi málaflokkur verður ekki útræddur á þessu þingi í stuttu máli. Það er alveg óþarfi að halda að það sé hægt að afgreiða þessi mál bara á færibandi eins og virðist vera ásetningur núv. ríkisstjórnar og það verður ekki gert. Það er ýmislegt sem á eftir að ræða í þessu og það verður svo að vera, því það verður ekki hleypt hér í gegn þessum frv. sem um þessi mál fjalla umræðulaust.
    Hæstv. forseti. Það hlýtur að verða að draga inn í þessa umræðu frekar þær margháttuðu hremmingar sem hæstv. félmrh. hefur sett yfir þjóðina. Þær eru með þeim hætti, eins og ég kom að hér áðan, að það er vegið að sjálfseignarstefnunni á öllum sviðum. Húsbréfin, sem áttu að verða lausn þessara mála, með þau hefur farið, eins og ég spáði hér, að vegna þess að það var ekki tekið upp heildstætt kerfi um húsbréfin þá er það ekki nema að hálfu leyti til bóta. Þess vegna á að taka upp þau kerfi sem hafa verið þróuð annars staðar og hafa gefið góða raun. Þá verður ekki hægt að draga út úr umræðunni það að þeir sem voru þegar búnir að sækja um í kerfinu 1986 hafa sumir þurft að bíða árum saman. Þeim hefur verið mismunað með svívirðilegum hætti af núv. félmrh. með þeirri löggjöf sem hann hefur látið gera, þannig að þeir hafa verið settir aftur í röðina og sumir reyndar gerðir alveg réttindalausir eins og einhleypingar. Það er full þörf á að ræða það hér. Hæstv. félmrh. hefur stigið á þann hóp þjóðfélagsins með þeim hætti að kjör einhleypinga hafa versnað allverulega við þær aðgerðir sem núv. félmrh. og núv. ríkisstjórn hafa staðið að. Í sameiningu hafa þessi mál verið þannig að afkoma einhleypinga hefur versnað svo mjög að það hefur komið fram í könnunum að rekstur þeirra á eigin húsnæði er nánast útilokaður í dag. Núverandi ríkisstjórn getur ekkert skotið sér undan því að hún hefur látið þetta yfir þjóðina koma og með þeim hætti að það er óviðunandi.
    Ef við lítum á þessi mál í víðara samhengi þá mun íslensk þjóð standa frammi fyrir því á næsta kjörtímabili að það er ókleift fyrir menn að eiga eigið húsnæði, nema það sé svo lítið að menn geti bara tæpast búið í svo smáu húsnæði.
    Það er vafalaust svo að hæstv. félmrh. hefur það eitt í hyggju að ganga af sjálfseignarstefnunni dauðri, annað er ekki hægt að finna út úr þessu. Það er því nokkuð ljóst að hæstv. félmrh. verður að gera grein fyrir þessum hlutum og ég vænti þess að þetta mál verði tekið vel fyrir í nefndinni, og fjallað um það í víðara samhengi.