Greiðslujöfnun fasteignaveðlána
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. er lagt til í 1. gr. að misgengi sem orsakast af vaxtahækkun hafi ekki í för með sér greiðslujöfnun. Raunvaxtahækkun af lánum Byggingarsjóðs ríkisins mundi því skila sér beint í sjóðinn en ekki leggjast við höfuðstól skuldanna og fela í sér lengri lánstíma. Lántakendur eiga þá kost á vaxtabótum vegna vaxtahækkunar uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði skattalaga um vaxtabætur, en þeir fengju annars ekki vaxtabætur. Raunverulegur tilgangur laganna stendur eftir sem áður óbreyttur, að misgengi lánskjara og launa valdi fólki ekki fjárhagslegri byrði.
    Í 2. gr. frv. er lögð til breyting við gerð lánssamninga hvað vexti varðar. Er það til samræmis við ákvæði 1. gr., þ.e. greiðslumark ræðst eftirleiðis ekki af upphaflegum vöxtum heldur þeim vöxtum sem eru á hverjum gjalddaga.
    Með fyrrgreindu tillögunni er ekki hróflað við upphaflegum tilgangi laganna, sem er að aðstoða þá lántakendur sem höfðu farið illa út úr misgengi launa og lánskjaravísitölu, og með frv. er opnuð leið fyrir lántakendur að fá vaxtahækkunina bætta gegnum vaxtabótakerfið.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.