Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá orð um þessa brtt. sem hér hefur verið dreift. Við 2. umr. þessa máls var samþykkt tillaga sem var í raun óskyld efni þessa frv. sem fjallar um búseturéttarfélög, en hún kvað á um það að húsnæðismálastjórn væri heimilt að veita sérstök lán til allt að þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður.
    Ég hef greint frá því í mínu máli í þessum ræðustól, hver var ástæðan fyrir því að nefndin sem fjallaði um félagslega húsnæðiskerfið fyrir einu og hálfu ári síðan lagði til að þetta ákvæði, sem hér var endurvakið við 2. umr. og samþykkt, yrði fellt niður. Í örfáum orðum voru rökin þessi að það lá fyrir að þetta ákvæði hafði ekki náð tilgangi sínum og hjálpað því fólki sem því var ætlað að hjálpa til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Of mikið var um það að fólk lenti í vanskilum þrátt fyrir það að það fengi 100% lán. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa um 500 -- 600 manns fengið slík lán en Húsnæðisstofnun áætlar að um 400 þeirra hafi lent í vanskilum og ekki haft fjárhagslega getu til að festa kaup á félagslegri íbúð, jafnvel þó að lánað væri 100%. Greiðslubyrðin var mjög þung af þessum lánum þar sem þau voru aðeins til þriggja ára. Má taka sem dæmi um íbúð upp á 7,5 millj. kr., að greiðslubyrði hjá þessu fólki var um 250 þús. kr. á ári fyrstu árin auk þeirrar greiðslubyrði sem var af 90% láninu. Því var brugðið á það ráð að leggja til að í stað þessa ákvæðis yrði felld niður skylda sveitarfélaga til að leggja fram 10% af kaupverði hverrar íbúðar, sem var óafturkræft framlag, en í stað þess láns þá lána sveitarfélögin fyrrgreind 10% til félagslegra kaupleiguíbúða til 15 ára þannig að allt kaupverð íbúðarinnar er lánað 100% í þeim íbúðum. Afborgun með því fyrirkomulagi þegar það er lánað til 15 ára var því af íbúð sem ég lýsti hér áðan 50 þús. í stað 250 þús. kr.
    Hér er með þessu ákvæði raunverulega verið að endurvekja það að ríkið hafi þessa skyldu sem setja átti á sveitarfélögin í stað afnáms á óafturkræfu framlagi. Síðan voru felld niður stimpilgjöld af félagslegum íbúðum sem kostaði fólk sem eignaðist félagslega íbúð kannski allt að 100 þús. kr. Síðan var hækkað lánshlutfall í leiguíbúð úr 85% í 90% og öðrum félagslegum íbúðum til að auka möguleika sveitarfélaga á að koma upp leiguíbúðum í stað eignaríbúða í félagslega kerfinu og síðan var lánstími leiguíbúða lengdur úr 43 árum í 50 ár. Allt það sem ég hef hér lýst átti að koma í staðinn fyrir það ákvæði sem nefndin, sem í áttu sæti m.a. ASÍ og BSRB, lagði til að yrði fellt niður.
    Ég tel að tillagan, eins og hún hefur verið samþykkt við 2. umr. málsins, nái ekki þeim markmiðum sem ég hygg að flm. ætlist til og tel nauðsynlegt til þess að hún nái þessum markmiðum að bætt verði við þessa málsgrein að umsækjandi þurfi að sýna fram á greiðslugetu samkvæmt c-lið 1. mgr. 80. gr. og er

þá átt við, virðulegi forseti, eins og þar stendur að viðkomandi þarf að ,,sýna fram á greiðslugetu sem metin er hjá húsnæðisnefnd sveitarfélaga eða öðrum aðilum sem hún vísar til. Við það mat skal miðað við að greiðslubyrði lána fari ekki yfir þriðjung af tekjum.``
    Ég tel að hér sé um raunhæft ákvæði að ræða og til samræmis við það markmið sem sett hefur verið almennt um félagslegar íbúðir með þeim breytingum sem gerðar voru á þessu á síðasta þingi. Það segir sig sjálft að fólk með lágar tekjur, 50 -- 60 þús., sem þarf kannski að borga 25 -- 30 þús. af því á fyrstu þremur árunum, að slíkt ákvæði nær ekki markmiði sínu og eins og ég nefndi áður lentu fjórir af hverjum fimm oft í miklum greiðsluerfiðleikum þrátt fyrir þessa fyrirgreiðslu og oft kom það upp að staðan var verri en áður en viðkomandi byrjuðu og í staðinn fyrir að eignast íbúð þá eignaðist fólkið skuldir. Ég tel því að með þessari breytingu sem hér er lögð til nái þetta ákvæði frekar markmiði sínu og þeim tilgangi sem flm. ætluðu með þessu ákvæði, fyrir utan það að ég tel að á ákvæðinu eins og það var samþykkt í neðri deild sé nokkur galli einnig af því að þar er kveðið á um að lána til þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun en ekki nefnd útborgun við kaup á íbúð. Það mætti því túlka það þannig að það væri einnig heimilt að lána t.d. búseturéttarfélögum sem greiða 10% búseturéttargjald, en ég hygg að það hafi ekki verið tilgangur flm. þessarar till.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér gert grein fyrir ástæðum fyrir flutningi þessarar till. Ég vil geta þess að till. er flutt í góðu samkomulagi við 1. flm. þeirrar brtt. sem samþykkt var hér við 2. umr. málsins.