Sighvatur Björgvinsson :
    Herra forseti. Það er ekkert nýtt í sögu okkar þjóðar að menn hafi orðið fyrir því að afli hefur ekki gengið eftir þeim vonum sem menn höfðu gert sér og má frekar kalla það reglu en undantekningu að á hverju ári í sögu landsins hafi afli á einhverri tegund fiskjar orðið minni heldur en menn bjuggust við. Menn bregðast nú við því með misjöfnum hætti og ég efast um að nokkurn tímann hafi verið brugðist jafnskjótt og jafnrösklega við aflabresti eins og til stendur að gera nú vegna þess að afli á loðnu hefur ekki orðið jafnmikill og hinir vísustu menn voru búnir að áforma og áætla og á ég þar bæði við hæstv. sjútvrh. og fiskifræðinga. Væri nú gott ef menn mættu eiga von á því í framtíðinni að ef afli af einhverjum ástæðum mundi ekki verða sá sem menn hefðu gert ráð fyrir þá væri ríkissjóður reiðubúinn til að hlaupa undir bagga bæði með því að auka framkvæmdir og með alls konar annarri fyrirgreiðslu, m.a. af því tagi sem hér er áformað að gera.
    En það er ekki sama hvort menn heita Jón eða séra Jón. Oft hefur nú þessi aflabrestur orðið frekar af mannavöldum en náttúrunnar völdum eins og er um að ræða í þessu tilefni. Mig langar til að segja ykkur í örfáum orðum tvær dæmisögur þar um.
    Ísfirðingar eru brautryðjendur í rækjuvinnslu á Íslandi. Verðmæti útfluttrar rækju frá Ísafirði er álíka mikið og útflutningsverðmæti á frystum fiski. Þetta er annar af tveimur undirstöðuatvinnuvegum í kaupstaðnum og ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því en ég ætla að ítreka það að útflutningsverðmæti af rækjunni er álíka mikið og útflutningsverðmæti af frystum fiski frá þremur öflugustu frystihúsum landsins sem á Ísafirði eru rekin.
    Ísfirðingar voru frumkvöðlar að þessum veiðum. Bæði á veiðum innfjarðarækju og á veiðum úthafsrækju ásamt Norðlendingum. Svo háttaði til þegar veiði á úthafsrækju hófst að þá leigðu Ísfirðingar sér skip til þess að stunda þær veiðar sem voru í eigu annarra sem ekki töldu sig hafa þörf fyrir að nýta þau skip. Þegar nokkuð góð reynsla var komin á þessar veiðar, úthafsveiðar Ísfirðinga, þá höfðu rækjuvinnslustöðvarnar, sem frumkvæði höfðu haft að þessum veiðum og byggt upp þá reynslu sem öðrum hefur síðan komið að gagni, áhuga á því að fá sér eigin skip. En að beiðni stjórnvalda var frá því horfið og í staðinn leigð skip frá útgerðarmönnum sem ekki töldu ástæðu til þess að hafa þau í öðrum rekstri, útgerðarmönnum sem ekki áttu heima á staðnum, ekki einu sinni í héraðinu. Ég held að það hafi verið u.þ.b. 7000 tonn af rækju sem þá voru unnin á Ísafirði.
    Síðan er tekin sú ákvörðun að innleiða kvóta á rækju. Og kvótinn er innleiddur þannig að þeir sem höfðu haft allt frumkvæði að því að byggja upp þennan iðnað fengu ekki neitt af því að þeir áttu ekki skip. En þeir sem áttu skipin og höfðu ekki annað fyrir þessum veiðum haft, þessum tilraunaveiðum sem gáfu svona góða raun eins og þarna um ræðir, þeim var afhentur kvótinn til eignar þannig að rækjuvinnslustövar sem höfðu unnið samtals 7000 tonn af rækju stóðu uppi eftir þessi mannanna verk með tvo báta í sinni eigu sem hvor um sig hafði 40 tonna rækjukvóta. Allur annar kvóti rækju hjá vinnslustöðvunum sem höfðu unnið 7000 tonn á ári var afhentur samkvæmt ákvörðunum Alþingis eigendum skipa sem ekkert höfðu til málsins lagt annað en það að leigja skip sín að beiðni stjórnvalda til þessara aðila sem höfðu skotið fótum undir þennan atvinnuveg.
    Ekki þótti þetta tiltökumál þó svo þarna væri á einni nóttu tekinn af aðilum rækjukvóti sem samsvarar 6940 tonnum af rækju. Þá var ekki hlaupið upp til handa og fóta. Þessum aðilum var ekki afhentur þorskveiðikvóti til þess að bjarga þeim úr þessum aflabresti sem mannanna verk höfðu yfir þá leitt. Það var ekki hlaupið upp til handa og fóta og sett ákvæði inn í lánsfjárlög um að auka skólaframkvæmdir eða vegagerð eða hafnarframkvæmdir til mótvægis við þetta. Það var ekki hlaupið til og ákveðið að auka kvóta af úthafsrækju um eins og 5000 tonn til að afhenda þessum aðilum sem höfðu byggt þennan atvinnuveg upp á leiguskipum að tilmælum stjórnvalda og sátu nú uppi aflaheimildarlausir á þessum veiðum. Það var talað fyrir daufum eyrum þegar þess var farið á leit að stjórnvöld aðhefðust eitthvað í þessum aflabrestsmálum af mannavöldum. Og rækjuvinnslustöðvarnar, sem höfðu byggt upp þennan atvinnuveg, urðu að gjöra svo vel og kaupa af eigendum leiguskipanna þennan kvóta aftur.
    Nú stendur þessi fyrrum svo trausta atvinnustarfsemi vestur á Ísafirði, sem framleiðir álíka mikið verðmæti til útflutnings og þrjú öflugustu frystihús landsmanna, á fallandi fæti. Svo virðist sem það geri ekkert til. Það er ekki hlaupið undir bagga hjá þeim með úthlutun þorskveiðikvóta. Og það var ekki heldur hlaupið undir bagga hjá þeim á þeim tíma með úthlutun á loðnukvóta jafnvel þó svo að loðnuveiði stæði þá í blóma.
    Virðulegur forseti. Þetta er ekki eina dæmisagan sem hægt er að tína til, þær eru margar. Svo ég haldi mig eingöngu við mitt kjördæmi þá missti annað sjávarpláss þar um 2 / 3 hluta af sínum aflamöguleikum á einu ári. Það var um að ræða fjöldabrottflutning fólks. Íbúðir fólksins seldust ekki og fólkið vildi fara og selja ofan af sér til þess að koma fótum undir sig einhvers staðar annars staðar. Forsvarsmenn sveitarfélagsins og atvinnufyrirtækjanna gengu á fund ríkisvaldsins, báðu um aðstoð, spurðu hvort þeir gætu fengið þorskveiðikvóta til úthlutunar til þess að standa undir þessum mikla aflabresti, sem nam 2 / 3 hlutum af þeim afla sem þetta sjávarútvegspláss hafði áður haft. Því var ekki til að dreifa að þar væri nokkur möguleiki. Forsvarsmenn sveitarfélagsins vildu gjarnan fá að ljúka við sinn skóla sem hafði verið í byggingu í tíu ár til þess að geta kannski svarað einhverju af atvinnuþörfum atvinnulauss fólks vegna þessa aflabrests af manna völdum. Það var ekki við það komandi.
    Það voru engin ákvæði sett inn í lánsfjárlög til að leysa þennan vanda. Það voru engin ákvæði sett í lög um stjórn fiskveiða til að heimila sjútvrh. að auka við

aflaúthlutanir sínar til að leysa þennan vanda. Það er sem sé ekki sama hvar aflabresturinn verður eða af hverju hann stafar. Það er ekki sama hvort það er aflabrestur af náttúrunnar völdum á loðnu eða aflabrestur af manna völdum á rækju eða aflabrestur vegna hruns atvinnulífs í einu litlu sjávarplássi.
    Ég er ekki að gera lítið úr vanda þeirra sem eiga nú um sárt að binda vegna aflabrests á loðnu, ég er aðeins að vekja athygli á því að viðbrögðin hjá stjórnvöldum og hinu háa Alþingi eru öll önnur þegar sá vandi kemur upp heldur en voru hjá þessum sömu aðilum þegar erfiðari vandamál vegna aflabrests af manna völdum komu upp á sínum tíma.
    Öll þekkjum við mörg dæmi þess víðs vegar að af Íslandi að sveitarfélög riða til falls, fólkið streymir þaðan ef það mögulega kemst í burtu frá eignum sínum vegna þess að eitthvað hefur bjátað á til sjávarins þannig að það er ekki lengur afli og það er ekki lengur vinna á þessum stöðum. Til þess m.a. að vinna gegn slíku, til þess að reyna að bjarga því sem bjargað yrði var með lögum á síðasta þingi settur upp svokallaður Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins sem átti að fá allt að 12.000 tonnum af kvóta af óskiptu til þess að það væri fært að hlaupa undir bagga með þessum byggðarlögum, til þess að bjarga atvinnu fólksins.
    Meginatriðið í hugmyndum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins var ekki sala aflaheimildanna vegna þess að stjórn sjóðsins gat ákveðið gegn hvaða gjaldi yrði selt. Meginhugmyndin með Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins var að fyrir tilverknað hans gæti stjórn sjóðsins hlaupið undir bagga og bjargað því sem bjargað yrði í þeim byggðarlögum við sjávarsíðuna þar sem mikill og viðvarandi atvinnuvandi er uppi vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Þau eru nokkur. Ég ætla ekki að tefja tímann hér með því að telja þau upp. En bæði sveitarstjórnirnar í þessum byggðarlögum og fólkið sem þar býr og þarf að ganga á skrifstofu verkalýðsfélags síns vikulega til að sækja atvinnuleysisbæturnar, þessu fólki var sagt: Þarna er ykkar von. Þarna er verið að reyna að búa til úrræði ykkur til bjargar.
    Nú stendur til, vegna aflabrests á loðnu sem ég ætla ekki að gera lítið úr, að samþykkja lög um að loka þessum möguleika, um að taka þessar aflaheimildir og úthluta þeim án endurgjalds, ekki til þeirra byggðarlaga í landinu sem standa höllum fæti, þar sem fólkið gengur atvinnulaust, heldur til eigenda loðnuveiðiskipa. Þeir ráðstafi síðan þessum aflaheimildum eins og þeir kjósa, annaðhvort til veiða á skipum sínum, loðnuveiðiskipum eða öðrum, ellegar til sölu til þriðja aðila. Með þessu móti er ekki aðeins verið að koma í veg fyrir þá hugmynd sem sumir lögðu mikla áherslu á, að þarna væri verið að gera tilraun um sölu veiðileyfa, þarna er miklu fremur verið að koma í veg fyrir það að staðið verði við það loforð sem Alþingi gaf byggðarlögunum við sjávarsíðuna, sem eiga erfiðleikum að mæta, að fyrir tilstyrk Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins væri hægt að koma þeim til liðs.
    Á þskj. 995 flytjum við nokkrir alþingismenn brtt.

við frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum. Í 1. brtt. gerum við ráð fyrir því að ákvæði verði sett inn í lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins sem eru alveg sambærileg við þau ákvæði sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt til og efri deild samþykkt að beitt verði varðandi aukinn kvóta af úthafsrækju. Með öðrum orðum að á fiskveiðitímabilinu 1. jan. til 31. ágúst sé sjútvrh. heimilt að auka leyfðan heildarafla af úthafsrækju umfram það sem ákveðið hefur verið með reglugerð nr. 465 frá 27. nóv. 1990, um fiskveiðar í atvinnuskyni. Þarna eru ekki, fremur en í afgreiðslu efri deildar og tillögum sjútvrh., tekin af nein tvímæli um það hversu mikið eigi að auka þennan leyfða heildarafla úthafsrækju. Hæstv. sjútvrh. leggur ekki til að það sé ákvarðað í lögunum og það er ekki heldur lagt til í þessu orðalagi að viðbótaraflinn sé afmarkaður heldur fær hæstv. sjútvrh. heimild til að ákvarða það með nákvæmlega sama orðalagi samkvæmt þessum brtt. og eru í afgreiðslunni sem gerð var í efri deild á málinu.
Eini munurinn er sá að í staðinn fyrir það, eins og í tillögum hæstv. ráðherra fólst, að hann fengi að úthluta þessum viðbótarkvóta til loðnuskipa sem sum hver hafa hvorki rækjuveiðileyfi né búnað til rækjuveiða, þá verði þessi viðbótaraflakvóti á úthafsrækju boðinn til kaups þeim sem heimildir hafa og búnað hafa til veiði á úthafsrækju, þannig að það sé alveg ljóst að allur þessi viðbótarkvóti komi til þeirra beint sem heimildirnar hafa án þess að það þurfa að fara í gegnum einn eða annan millilið.
    Mér er það auðvitað ljóst að hluti loðnuskipanna hefur úthafsrækjuveiðileyfi og er búinn til veiða á úthafsrækju, en hluti þessara loðnuskipa er það ekki og getur því ekki nýtt þessar aflaheimildir á úthafsrækju öðruvísi en með því að selja þær þriðja aðila, þá væntanlega að vali þess sem selur. Við gerum hins vegar tillögu um að það sé Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins sem fái þennan viðbótarkvóta til sölu til þeirra skipa sem vilja kaupa, hafa búnað til veiða og hafa öll þau tilskilin leyfi sem til veiðanna þarf. Og með sama hætti og hæstv. sjútvrh. gerir ráð fyrir því að rækjukvótanum sé úthlutað til loðnuskipanna þannig að verðmæti viðbótarkvótans í úthafsrækju komi loðnuskipunum að gagni erum við honum alveg sammála um það en leggjum til að það verði þá gert með ráðstöfun á því fé sem fæst fyrir þann kvóta sem boðinn yrði til sölu.
    Ég veit að hæstv. ráðherra mun væntanlega segja: Á nú að fara að afhenda mér svona og svona marga tugi milljóna til ráðstöfunar? Það er verið að afhenda hæstv. ráðherra svona og svona marga tugi milljóna til ráðstöfunar vegna þess að það breytir ekki neinu í því sambandi hvort hæstv. ráðherra er að úthluta verðmætunum sem felast í aflakvóta eða verðmætunum sem felast í því endurgjaldi sem fyrir þennan aflakvóta fæst. Þetta eru sömu verðmætin, bara í mismunandi mynd. Og það er hæstv. ráðherra sem er að biðja um heimild Alþingis til að úthluta þessum verðmætum og það skiptir engu máli í þessu sambandi á hvaða vog þau verðmæti eru mæld. Þetta eru sömu

verðmætin.
    Ég vek athygli á því að þessi 1. brtt. okkar stendur alveg sjálfstætt. Menn geta samþykkt hana eða hafnað hvað sem líður öðrum þáttum í þessari tillögu. Menn eru hér að velja um það hvort það eigi að úthluta þessum verðmætum beint til einhverra útgerða án tillits til þess hvort þær útgerðir hafa þann búnað og þau leyfi sem tilskilin eru, eða hvort það eigi að bjóða þessi verðmæti þeim aðilum sem hafa búnað og leyfi í lagi og eru reiðubúnir til og munu sækjast eftir að kaupa þessi verðmæti og geta greitt fyrir það. En ég ítreka það að hæstv. ráðherra er að biðja Alþingi um heimild til að ráðstafa þessum verðmætum og verðmæti eru þetta, hvort sem menn mæla þau í þorskígildum eða í peningum. Um er að ræða sömu verðmæti.
    Í 2. brtt. okkar er síðan gert ráð fyrir því að söluandvirði veiðiheimilda á árinu 1991, sem Hagræðingarsjóður ræður yfir, sem yrði þá 8000 tonn í þorskígildum og sá viðbótarkvóti í úthafsrækju sem sjútvrh. mundi ákvarða samkvæmt heimildum þar um sem honum væru veittar, yrði ráðstafað til loðnuútgerðar og sjómanna. Þetta eru sömu heimildir og ráðherrann er að biðja um. Hann er að biðja um að fá umboð Alþingis til að ráðstafa þessum verðmætum. Hann vill bara fá að ráðstafa þeim með því að afhenda mönnum þorskveiðikvóta í staðinn fyrir að afhenda mönnum einhver önnur verðmæti, en verðmætin eru hin sömu, óskin er hin sama og takmarkanirnar eru hinar sömu í öllum tilvikum.
    Að lokum, virðulegi forseti, hefur það orð jafnan legið á að hæstv. sjútvrh. hafi um tvennt að velja. Annaðhvort að fá viðbótaraflakvóta í þorski og úthafsrækju til úthlutunar, annaðhvort í formi kvótans sjálfs eða þeirra verðmæta sem hann stendur fyrir. Þetta væri annar kosturinn sem hæstv. ráðherra hefði. Hinn kosturinn væri sá að beita ákvæði 9. gr. laga nr. 38 frá 15. maí 1990 um skerðingar á bolfiskaflaveiði fiskiskipa í því skyni að flytja aflamark á botnfiski frá skipum sem hafa aflahlutdeild í botnfiski yfir til skipa með aflahlutdeild í loðnu vegna aflabrests á sérveiðum.
    Hæstv. ráðherra hefur sagt: Það er um þetta tvennt að velja, annaðhvort að ég fái þær heimildir sem ég hef beðið þingið um eða að nýta þetta ákvæði. En eins og afgreiðsla hv. efri deildar stendur þá hefur hún ekki valið þarna annaðhvort/eða. Hún hefur gefið ráðherranum hæstv. heimildirnar bæði/og vegna þess að efri deild Alþingis hefur ekki ákveðið að heimildin í 9. gr. yrði þá ekki notuð fyrst hæstv. ráðherra fær þær heimildir til annarra úrlausna sem hann hefur beðið um. Og ég hef ekki heyrt hæstv. sjútvrh. lýsa því afdráttarlaust yfir að fengi hann þær heimildir sem hann hefur beðið um mundi hann ekki nota 9. gr.
    Ég held þess vegna að það sé tímabært, alveg án tillits til þess hvort menn velja þá leið til að styðja loðnuútgerðirnar og loðnusjómenn sem lögð er til á þskj. 995, ellegar menn velja þá leið til þess sem hæstv. sjútvrh. hefur beðið um, alveg án tillits til

þeirrar niðurstöðu held ég að það sé nauðsynlegt að Alþingi taki af öll tvímæli um það að fyrst veita eigi sjútvrh. þær heimildir þá sé það ljóst að hann noti þá ekki líka heimildirnar í 9. gr. um skerðingu á þorskveiðiafla þorskveiðiskipanna. Það er Alþingi sjálft sem á að taka af þessi tvímæli við þessar afgreiðslur með tillögu á borð við þá sem er í 3. tölul. á þskj. 995. Ég tel það fráleitt, ef Alþingi fellst á með einum eða öðrum hætti að veita hæstv. ráðherra þær heimildir sem hann hefur beðið um til þess að ekki verði gripið til 9. gr., að Alþingi afgreiði þær þannig að það sé einhver vafi á um vilja Alþingis í þessu efni, þ.e. að Alþingi vilji þá ekki að hæstv. ráðherra hafi möguleika á því að nota þessa heimild í 9. gr. líka, til hliðar við þær heimildir sem hann er að biðja hæstv. Alþingi um.
    Ég ítreka það enn, virðulegi forseti, að þetta er nauðsynlegt að gera og þetta er hægt að samþykkja gjörsamlega án tillits til annarra ákvæða sem samþykkt kunna að verða, hvort heldur það eru ákvæðin sem koma til okkar frá efri deild, ákvæðin sem felast í brtt. 995 eða þau ákvæði sem finnast í brtt. Kvennalistans.
    Ég tel að það eigi að taka af öll tvímæli um það að fyrst Alþingi velur einhverja af þessum leiðum, þá velji það ekki þá leið sem felst í 9. gr. og láti þá koma skýrt fram við þessa afgreiðslu sem hér á fram að fara, þannig að það sé alveg ljóst að Alþingi ætlast þá ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi heimild til þess að nota ákvæði 9. gr. líka, ef það skyldi verða niðurstaða hans nú eða síðar að það yrði gert.
    Ég legg því áherslu á það, virðulegi forseti, að hvað sem líður afgreiðslu á 1. og 2. brtt. á þskj. 995, þá verði meiri hluti fyrir því að tryggja það að sú leið sem kunni að verða valin, hvort sem það er leið efri deildar, leiðir á þskj. 995 eða leið Kvennalistans, þá sé sett undir þann leka í eitt skipti fyrir öll að á árinu 1991 verði líka notuð ákvæði 9. gr. laganna um skerðingu aflaveiðiheimilda hjá botnfiskveiðiskipum.