Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulagi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. er hér á ferðinni frv. sem tekur fyrst og fremst á tveimur meginatriðum. Annars vegar er hlutfall tekjuskatts á fyrirtækjum lækkað og hins vegar eru gerðar breytingar vegna frádráttar sem einstaklingar njóta þegar þeir fjárfesta í atvinnufyrirtækjum. Ég vil fyrst segja það að ég hefði kosið að þessi tvö atriði hefðu komið fram í tveimur aðskildum frv., enda sýnist mér að þótt þau tengist ríkissjóði sé ekki sá samgangur milli þessara efnisatriða að ástæða hafi verið til að tengja þau saman í einu frv.
    Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að ég styð það efnisatriði að lækka tekjuskatta af fyrirtækjum. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta er eðlileg afleiðing þeirrar vinnu sem kom fram í nefnd sem rannsakaði þetta mál og lagði reyndar til að þetta gerðist um leið og tryggingagjaldið var sett á á sínum tíma. Ástæðan fyrir því að tekjuskattshlutfallið er lækkað er einfaldlega sú að með minnkandi verðbólgu hefði skattbyrði fyrirtækjanna hækkað á yfirstandandi ári ef skatthlutfallið væri það sama. Þetta skýrist af því að eins og allir vita er ekki um að ræða staðgreiðsluskatt hjá fyrirtækjum heldur er tekjuskattur lagður á einu sinni á ári. Skatturinn rýrnar því í verðbólgunni og hefur margoft verið bent á að í raun og veru hefur verðbólgustigið áhrif á skattbyrðina með sama hætti og var um tekjuskattinn á sínum tíma áður en staðgreiðslulögin voru samþykkt.
    Í hv. nefnd verður að sjálfsögðu fjallað um þetta mál og önnur þau atriði sem tengjast fyrirtækjunum, eins og hlutfall af ágóða sem leggja má í vara- eða fjárfestingarsjóði. Öll þessi mál þarf að skoða í sameiningu og verður það að sjálfsögðu gert í hv. nefnd.
    Hins vegar er ástæðan fyrir því að ég tek hér til máls sú --- önnur en að lýsa yfir stuðningi við fyrri megintilgang lagafrv. --- að fjalla um síðari hlutann. Um þau áhrif sem frv. kynni að hafa á þá þróun sem að undanförnu hefur átt sér stað og lýsir sér í því að mikill fjöldi einstaklinga hefur kosið að spara og leggja fram sparifé sitt til hlutabréfakaupa, m.a. vegna þeirrar skattalegu hvatningar sem finnst í tekju- og eignarskattslögunum og lögunum nr. 9/1984, sem fjalla um frádrátt vegna framlaga í atvinnufyrirtæki.
    Ég tel ástæðu til þess að rifja það upp, virðulegi forseti, að á þessu kjörtímabili beitti hv. fjh.- og viðskn. Nd. sér fyrir nokkrum breytingum á tekju- og eignarskattslögunum um þetta atriði að frumkvæði sjálfstæðismanna. Helstu breytingarnar sem gerðar voru á síðasta þingi voru þær að í fyrsta lagi var heimild til frádráttar frá tekjum einstaklinga í atvinnulífi hækkuð verulega eða í 115 þús. kr. á ári og 230 þús. kr. fyrir hjón.
    Í öðru lagi, og því var einnig breytt á síðasta þingi, var samþykkt að heimila það að flytja frádráttinn á milli ára og nýta hann á næstu fimm árum.
    Í þriðja lagi var breytt viðmiðun um hlutafjáreign fyrirtækja sem gætu nýtt sér þessa heimild með því að láta skrá sig hjá ríkisskattstjóra samkvæmt heimild í

lögum nr. 9/1984.
    Einnig var lágmarksfjölda hluthafa breytt. Í stað 50 var hluthöfum fækkað í 25 þannig að fyrirtæki, þar sem um var að ræða 25 hluthafa eða fleiri, gátu sótt um það að vera skráð hjá ríkisskattstjóra og notið þess að einstaklingar gætu lagt fram hlutafé og fengið þau skattfríðindi sem um getur í lögum.
    Í raun og veru hefur löggjafinn sífellt frá 1984 verið að slaka á kröfunni um það hvað geti talist almenningshlutafélög. Nú er svo komið að flest þau fyrirtæki, sem kjósa að fá fjármuni til sín með þeirri skattalegu hvatningu sem nú er í tekju- og eignarskattslögum, eiga að vera fær um það vegna þess að skilyrðin eru það rúm, auðvelt hlýtur að vera að safna hlutafé og hluthafar þurfa ekki að vera nema 25. Ef ég man rétt þurftu þeir að vera 100 samkvæmt frv. sem lagt var fram í upphafi, 1984, en hv. fjh.- og viðskn. breytti þá frv. og breytti tölunni 100 í 50.
    Á síðasta þingi voru gerðar fleiri breytingar í öðru frv. sem hv. nefnd stóð einnig að með sama hætti og þær fyrri. Um það náðist gott samkomulag á milli hv. nefndar annars vegar og hæstv. fjmrh. hins vegar. Efnisatriði nýja frv., sem varð að lögum á sl. ári, eru í fyrsta lagi að söluhagnaður einstaklinga verður skattfrjáls ef hann fer ekki yfir ákveðna upphæð eftir fjögurra ára eignarhaldstíma.
    Í öðru lagi var heimilt að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við 15% í stað 10%.
    Í þriðja lagi varð arður frádráttarbær hjá fyrirtækjum allt að 15% af nafnverði hlutabréfa. Ég tek það fram að í langflestum tilvikum er nafnverð hlutabréfa talsvert miklu lægra en raunverð og nefni sem dæmi að fyrir aðalfund Eimskipafélagsins sem er eitt af stærstu almenningshlutafélögunum var gengi bréfanna sexfalt þannig að í raun og veru voru menn að fá innan við 3% arð af raunverulegri eign sinni hjá fyrirtækinu ef það gaf út arðmiða að hlutfallinu 15%.
    Í fjórða lagi varð heimilt fyrir fyrirtæki að draga frá tekjum tapaða hlutafjáreign ef hún varð til sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu í greiðsluerfiðleikum.
    Í fimmta lagi breyttist 74. gr. skattalaganna á þann veg að auðveldara varð að hefja viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands en áður.
    Þetta rifja ég upp hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel ástæðu til að öllum sé kunnugt um að hv. fjh.- og viðskn. stóð á sínum tíma fyrir þeim gagngerðu breytingum á tekju- og eignarskattslögunum sem hafa í raun valdið byltingu í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Ég minni á að það er vegna þessara breytinga, sem gerðar voru á lögunum, sem fyrirtæki --- ég leyfi mér að segja alvörufyrirtæki sem hafa áhuga á því að afla áhættufjár --- hafa getað gert það með sparnaði almennings. Það má gera ráð fyrir því að um sé að ræða nýjan sparnað að verulegu leyti, sparnað sem kemur í stað eyðslu en ekki sparnað sem tekur af öðrum sparnaði. Þetta er mjög mikilvægt og það er ekki síður mikilvægt fyrir hæstv. fjmrh. að átta sig á því að með þessum aðgerðum tókst að veita nýju fjármagni, nýju áhættufjármagni, til fyrirtækjanna og jafnframt að koma í veg fyrir að þau þyrftu að sama

skapi að afla lánsfjár og keppa þannig við síhungraðan, banhungraðan ríkissjóð og opinbera aðila sem sífellt hafa verið að taka meira og meira til sín af almennum nýjum sparnaði.
    Ég minni á þetta vegna þess að það hefur þýðingu í þessari umræðu að gera sér ljóst að ríkissjóður og opinberir aðilar gætu ekki náð á innlendum lánsfjármarkaði þeim fjármunum sem þeir hafa náð að undanförnu nema af nokkrum ástæðum sem ég tel helstar vera þessar:
    Í fyrsta lagi þær breytingar sem gerðar voru á tekju- og eignarskattslögunum og í öðru lagi frelsisákvæðin sem sett voru í vaxtalögunum og bankalögunum á sínum tíma og hafa gert það að verkum að sparnaður á Íslandi hefur aukist verulega á undanförnum fimm til sex árum.
    Þetta eru kannski merkilegustu lagabreytingar sem hafa átt sér stað á Íslandi á undanförnum árum og hafa í raun skilað sér í því að bæði fyrirtæki og ríkissjóður hafa notið þess.
    Ég minni á þetta hér vegna þess að í þessu frumvarpi gætir þess allnokkuð að hæstv. ráðherra og starfsmenn hans í fjmrn. séu að hverfa af þessari braut, séu að hverfa af þeirri braut að veita skattalega ívilnun þeim til handa sem spara og leggja áhættufjármagn í fyrirtækin. Mér er að sjálfsögðu fullkunnugt um að víðast erlendis, ekki síst í nágrannalöndunum í Evrópu, þekkist það ekki á sama hátt og hér að veitt sé skattaleg ívilnun þeim til handa sem leggja áhættufé í fyrirtæki.
    Við skulum aðeins gæta að okkur því lánsfjármarkaðurinn íslenski og hlutabréfamarkaðurinn er nýr, óþroskaður, og það tekur nokkurn tíma að fá fólk til þess að spara, leggja fé til hliðar á þessum markaði, ekki síst hér á landi þar sem fólk hefur vanist því áratugum saman að allt geymt fé sé glatað. Þess vegna eru allar breytingar, eins og þær sem hæstv. ráðherra er að leggja til hér, varasamar og okkur ber að ganga gætilega um þessar dyr.
    Ég ætla ekki í þessari ræðu við 1. umr. að fara efnislega ofan í hverja grein frv. Ég kemst þó ekki hjá því, ef ég skil rétt, að benda á að 3. gr. er ekki í samræmi við 3. gr. í athugasemdunum. Svo virðist sem að í upphafi hafi verið áætlað að draga meira úr þeirri heimild fyrirtækjanna að geta lækkað skattskyldar tekjur sínar með því að draga frá þeim framlög í fjárfestingarsjóð. Ég fagna því að frá því hefur verið horfið og í stað þess að setja 7,5%, eða lækka um helming, er talan 10%, þ.e. lækkunin er einungis um þriðjung.
    Það hefði verið ástæða til þess að fá nýrri upplýsingar um frádrátt vegna fjárfestinga manna í atvinnurekstri en um getur í grg. með frv. Ég tel að slíkar upplýsingar liggi nú þegar fyrir, ekki síst hjá verðbréfafyrirtækjunum sem fyrir alllöngu síðan gáfu upp hve mikil hlutabréfaviðskipti áttu sér stað í lok sl. árs. Mig langar einnig til að minna á að hæstv. fjmrh. gerði mikið veður úr því um áramótin að menn á Íslandi sem keyptu sér hlutabréf keyptu þau nánast eingöngu til þess að selja þau aftur eftir áramót og njóta

þannig skattfríðindanna. Ég tel að kominn sé tími til þess hér og nú að segja frá því að þetta gekk ekki eftir eins og hæstv. ráðherra hélt, gekk ekki eftir fremur en svo margt sem hæstv. ráðherra hefur verið að spá um í sínum ræðum. Það er nefnilega þannig að
Íslendingar spara í hlutabréfum til þess að eiga. Jafnvel þótt þróunin hafi verið sú að undanförnu að hlutabréf hafa hækkað talsvert fram yfir annað í þjóðfélaginu, á sl. ári að meðaltali um 66% samkvæmt skráningu hlutabréfamarkaðarins, sem er mjög mikið, þá hafa menn ekki verið ginnkeyptir fyrir að selja, kannski einmitt vegna þess að þeir hafa búist við áframhaldandi góðri afkomu. Við skulum hins vegar ekki dylja neinn þess að auðvitað kemur sá tími, þegar framboð og eftirspurn verða í jafnvægi á markaðinum, að hlutabréfin hætta að hækka í verði. Meðan skortur er á framboði hlýtur verðið að vera hátt á hlutabréfum, en um leið og framboðið verður meira án þess að eftirspurnin vaxi næst viðunandi jafnvægi á þessum markaði.
    Virðulegi forseti. Ég minni á í lokin að á sama tíma og hæstv. ráðherra er að draga úr heimildum til frádráttar fyrir einstaklinga sem leggja fjármuni í atvinnulífið þá hreyfast ekki þau ákvæði í tekju- og eignarskattslögunum sem gefa verðbréfum ríkissjóðs nánast algjöra sérstöðu á verðbréfamarkaðinum. Ég bendi á að öll opinber verðbréf, húsbréf, víxlar, spariskírteini og öll þau verðbréf sem ríkið selur, njóta algjörra skattfríðinda. Í bankakerfinu er talið að slík fríðindi jafngildi 1,3% í vöxtum ef viðkomandi aðili sem kaupir slík bréf greiðir eignarskatt að fullu. Með öðrum orðum, til að jafna vextina á þessum opinberu bréfum við vextina á almennum verðbréfum þarf að bæta 1,3% við vextina á almenna markaðinum til þess að um jafnræði sé að ræða. Slíkur er forgangur ríkisins á þessum verðbréfamarkaði og það ættum við að hafa ofarlega í huga nú þegar hæstv. ráðherra, í nafni þess að verið sé að breyta íslenskum lögum til samræmis við lög í öðrum löndum, mælist til þess að þingið dragi úr frádráttarheimildum frá skatti þeirra einstaklinga sem leggja fyrirtækjum lið með áhættufjármagni í formi hlutabréfa.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri. Mér gefst tækifæri til þess í nefndinni að fjalla frekar um þetta frv. en ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er full ástæða til þess að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.