Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru um stjórn fiskveiða hefur hæstv. sjútvrh. heimildir til að skerða rétt fiskveiðiflotans almennt og færa fiskveiðiheimildir til loðnuflotans vegna þess aflabrests sem þar hefur orðið. Ég teldi slíka skerðingu mjög alvarlegt mál og treysti mér ekki til að standa að þeirri niðurstöðu sem yrði af slíku.
    Ég viðurkenni að það er dálítið sérstæð staða að fyrst skuli fiskinum í sjónum skipt til eignar á hin ýmsu skip og svo skuli greiddar bætur ef hann ekki fiskast. En þetta eru í sjálfu sér millifærslur innan greinarinnar og ég tel að miðað við aðstæður sé þetta betri lausn en hin fyrri. Ég segi því já.