Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra umræðna og orðaskipta sem hér hafa átt sér stað sýnist mér nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. taki til máls og skýri út sinn skilning á þessu máli. Ef það er rétt, sem mér skilst á hæstv. forsrh., að það eigi að bera þetta mál undir hvern þingflokk fyrir sig þá þýðir það í raun að tillaga hv. alþýðubandalagsmanna verður samþykkt jafnvel þótt hún falli, því auðvitað getur Alþb. sagt hvenær sem er að þeir geti ekki samþykkt að framkvæmdir hefjist eða að heimildin verði virk nema farið sé að þeirra skilyrðum. Þannig skildi ég orð hæstv. forsrh. Það má vera að ég hafi ekki skilið hann nákvæmlega rétt, en ef ég hef misskilið hann þá getur verið að aðrir hafi einnig gert það. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess að hæstv. iðnrh., sem fer með þessi mál í hæstv. ríkisstjórn, segi hér skýrt og umbúðalaust hvernig hann telji að fara eigi með þessi mál.