Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Ólafur G. Einarsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég geri athugasemd við að þetta mál skuli tekið til 2. umr. Ég vísa til þess að á undanförnum tveimur vikum a.m.k. hafa þingflokksformenn og forsetar farið margsinnis yfir óskalista ríkisstjórnarinnar yfir mál sem hún hefur viljað fá afgreidd fyrir þinglausnir. Strax og við byrjuðum á að fara yfir þessa óskalista lá það fyrir af minni hálfu að þetta mál, opinber réttaraðstoð, og einnig tvö önnur mál sem hér eru á dagskránni, almenn hegningarlög, 319. mál, og sjóðshappdrætti til stuðnings kaupum á björgunarþyrlu, 237. mál, væru ekki líkleg til þess að ná afgreiðslu á þessu þingi.
    Ég vil upplýsa það að allshn. Nd., sem hafði þessi mál tvö, opinbera réttaraðstoð og almenn hegningarlög, til meðferðar, eyddi töluverðum tíma í að fara yfir þau. En nefndin var með fleiri mál til meðferðar frá hæstv. dómsmrh. sérstaklega, þar af þrjá mjög veigamikla og stóra lagabálka: meðferð opinberra mála, gjaldþrotaskipti og skipti á dánarbúum. Nefndin mat það svo eftir viðtöl við ýmsa aðila að þau þrjú mál væru veigameiri en þessi. Og þótt það væri fjarri því, eins og ég gat um við 3. umr. þeirra mála, að nefndin hefði notað þann tíma sem hún hefði í raun og veru þurft til þess að fara yfir þau, ákvað hún að afgreiða þau út úr nefndinni og þau eru þegar orðin að lögum.
    Ég er að velta því fyrir mér hvað hæstv. dómsmrh. hefði gert ef hann hefði staðið frammi fyrir því í kvöld að velja af þessum sex sem hann var með, hvaða mál hann hefði valið. Hvort það hefðu verið þau mál sem nú þegar eru orðin að lögum eða hvort hann hefði valið þessi sem hann nú gerir kröfu til að verði afgreidd. Hann svarar því kannski á eftir.
    Þrátt fyrir þær staðreyndir sem ég hef hér verið að nefna, að þessi mál hafa fyrir löngu farið í sviga, svo ég kveði ekki fastar að, á fundum þingflokksformanna og forseta, þá hefur samt verið haldið áfram að nudda með að þau fengju afgreiðslu. Ég féllst á það eftir tilmæli frá hv. formanni allshn. Nd. að ég mundi ekki gera neitt veður út af því þótt meiri hl. nefndarinnar skilaði nál. og tæki þau út úr nefndinni. Við sjálfstæðismenn í nefndinni tókum ekki þátt í þeirri afgreiðslu og erum bókaðir á nál. sem fjarverandi, sem var alveg rétt. Ég lét þess hins vegar getið að ef þessi mál kæmu til frekari meðferðar mundi ég rekja gang þessa máls eins og ég hef nú að nokkru leyti gert. Ég lét þess einnig getið að ekki yrði við það unað að haldið yrði áfram meðferð þessara mála.
    Ég leit svo á, þótt enginn endanlegur samningur hafi í raun og veru enn verið gerður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála fyrir þinglausnir, að það mætti treysta þeim orðum sem hafa fallið á þessum fundum okkar. Ég leyfi mér að ganga út frá því enn þá að staðið verði við það sem um hefur verið rætt varðandi þessi mál. Ég minnist þess aðeins einu sinni að þingflokksformenn hafi í samningum um afgreiðslu mála á lokadögum þings þurft að gera skriflegan samning um það hvaða mál næðu afgreiðslu. Ég

hef látið í ljós þá von að aldrei þurfi til þess að koma aftur að þingflokksformenn þurfi að setja stafi sína undir þau orð sem hafa fallið á fundum þeirra. Og ég leyfi mér að líta enn þá svo á að það sem við höfum rætt varðandi afgreiðslu þessara mála standi. Ef menn vilja hins vegar eyða síðustu tímum þingsins í að ræða þessi mál sem hér eru á dagskrá þá er ég svo sem til en menn sem vilja koma þeim í gegn njóta þess auðvitað hvernig röddin í mér er og vita að ég mun ekki halda langar ræður. En kannski verða einhverjir aðrir til að tala í þessum málum ef það á að nota þessa aðferð við að koma þeim í gegnum þingið.
    Það sem ég er að segja á við þau þrjú mál sem eru á dagskránni. Ég ætla ekki við þetta tækifæri að fara að ræða neitt efnislega um þau, það á heldur ekki við í þingskapaumræðu, en ef haldið verður áfram mun ég að sjálfsögðu taka þátt í umræðu um þau öll.