Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. 2. þm. Reykn. að á dagskránni eru þrjú mál sem eru flutt af dómsmrh., opinber réttaraðstoð, almenn hegningarlög og svo 11. dagskrármálið, sjóðshappdrætti. Það er líka rétt sem í máli hans kom fram að áður hafa þrjú mál, stórir lagabálkar, verið afgreidd af þinginu sem lög, lög um meðferð opinberra mála, gjaldþrotalög og skiptalög.
    Ég tel að lagabálkarnir þrír hafi í rauninni aldrei komið til neinna samninga undir þinglok milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þess vegna hafi, eftir því sem ég hef spurnir af fundum þingflokksformanna og forseta þingsins, einungis verið um að ræða þau þrjú sem hér eru á dagskránni flutt af dómsmrh. Ég vil taka það fram að það mál sem hér er gerð tilraun til þess að fá rætt, 2. umr. í seinni deild, er 55. mál Ed., lagt fram á þinginu mjög snemma í haust, raunar í annað sinn. Hér er um að ræða löggjöf sem búin er að vera í undirbúningi ákaflega lengi, raunar mörg ár. Hugsunin að baki er margflutt í þinginu.
    Ég leit svo á, vegna þess að breytingar hafa engar orðið á frv. frá því það var lagt fyrst fram, að hér hafi í raun verið um svo mikilsvert mál að ræða sem almennt samkomulag var um, að þess væri að vænta að þingheimur bæri gæfu til þess að ná saman um það þó á seinustu stundum þingstarfsins væri. Þess vegna legg ég á það eins þunga áherslu og mér er unnt að sú verði raunin að í framkvæmd komist sá blær sem ég frétti í dag af fundum þingflokksformanna að það væri samkomulagsvon um þetta mál. Svo margir eiga hér undir því að þetta viðhorf verði ofan á að ég þykist mega vænta þess að sú verði raunin.
    Hv. 2. þm. Reykn. beindi til mín þeirri spurningu hvernig ég hefði valið ef ég hefði staðið frammi fyrir því að velja á milli þessara mála. Ég tel að það þurfi í rauninni ekkert að hugsa um þau mál sem eru orðin að lögum. Ef ég stæði hins vegar frammi fyrir vali milli þeirra þriggja sem eftir eru þá er það í þeirri röð sem þau eru á dagskránni og þetta mál, opinber réttaraðstoð, yrði númer eitt. Það eiga það margir undir því að við náum saman um þetta og því bið ég menn eindregið að taka tillit til þess.