Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil rétt minna á það, ef það er orðin algild viðmiðun að mál sem hafa gengið milli deilda eigi að verða að lögum, að 229. mál og 379. mál voru samþykkt bæði tvö með samhljóða atkvæðum í Nd. og gengu til Ed. sem lýsti þar með samhljóða vilja sínum um að gera þau mál að lögum. Hér er um að ræða annars vegar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, þess efnis að allir eigi rétt á atvinnuleysistryggingum sem borga í Atvinnuleysistryggingasjóð, sem eru nú reyndar allir launþegar, svo sjálfsagt mál sem það nú er, og hins vegar um breytingar á almannatryggingum að því er varðar fæðingarorlof.
    Nú vildi ég feta í fótspor hins góðkunna 2. þm. Vestf. sem í fyrra kvaddi sér hljóðs um þingsköp til þess að inna forseta Nd. eftir því hvernig gengi að mjaka málum fram í Ed. Ef ég man rétt tók hæstv. forseti það að sér, e.t.v. nauðugur viljugur, að grennslast fyrir um það hvað liði framgangi þingmála í Ed. Og ég minnist þess að hv. 2. þm. Vestf. krafðist þess að forseti deildarinnar beitti sér fyrir því að þetta tiltekna frv. sem hann bar fyrir brjósti, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og sem búið var að afgreiða héðan úr deildinni, næði fram að ganga í Ed.
    Nú vil ég rifja það upp, virðulegi forseti, að það mál var og er umdeilt mál og er búið að koma hér nokkrum sinnum fyrir deildina. Var að vísu samþykkt frá deildinni með nokkrum meiri hluta atkvæða, en gekk til Ed. En þessi tvö mál sem ég er að nefna, nr. 229 og nr. 379, voru ágreiningslaus mál sem bæði gengu héðan til Ed. á grundvelli fullkominnar samstöðu. Að vísu er kannski rétt að rifja upp að í öðru málinu kom fram frávísunartillaga sem að sjálfsögðu var felld, en eftir að hún var felld sameinaðist deildin um að standa að baki málinu. Ég minnist þess sérstaklega að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar og aðrir mektarmenn hér í deildinni greiddu því frv. atkvæði sitt.
    Ég vil nú í mestu vinsemd og með tilvísun til fordæma sem skapast hafa í samskiptum þeirra hv. 2. þm. Vestf. og forseta deildarinnar leyfa mér að óska eftir því að sami háttur verði hafður á varðandi þessi tvö mál. Ef það er orðin hin algilda regla að mál sem hafa gengið milli deilda verði að lögum vænti ég þess að forseti deildarinnar taki þetta til athugunar.
    Varðandi það hvort þingskapaumræða tekur lengri eða skemmri tíma hygg ég að ég sem varaforseti í deildinni megi fara nokkrum orðum um þingsköp með sama hætti og forseti deildarinnar á föstudaginn, þannig að fullt jafnræði sé með mönnum í því efni.
    Þetta er það sem ég vildi vekja athygli á og sömuleiðis það að einnig er hér á dagskrá í þessari deild --- og þarf forseti ekki að ráðfæra sig við forseta Ed. um það efni --- þingmannafrv. nr. 178 um virðisaukaskatt sem þingmaður í Ed. hefur flutt og er sömuleiðis komið milli deilda og komið hér til afgreiðslu í Nd. Þetta er mál sem ég hygg að ekki sé nokkur einasta andstaða gegn, hvað sem líður afstöðu manna

til undanþága í virðisaukaskatti almennt séð. Hér er ekki um að ræða frv. sem gerir ráð fyrir því að það séu auknar undanþágur á vörum sem ganga yfir almennt búðarborð, heldur á sjóntækjum til manna sem hafa til þess sérstakt læknisvottorð að nota slíkar vörur. Er það ætlun ríkisstjórnar og stjórnarliða að stöðva það frv. um að aflétta skattlagningu á sérstök hjálpartæki manna sem samkvæmt læknisvottorði eru næstum því blindir og þurfa á sérstökum hjálpartækjum að halda?
    Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, ef verið er að taka fyrir einhver mál sem ekki er samkomulag um, hvað líður þá þeim málum sem ýmist er samkomulag um milli allra flokka eða hefur verið algjör samstaða um hér í deildinni eða í Ed.? Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta og annarra þeirra manna sem nú ráða ferðinni hér í störfum þingsins.