Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Við höfum orðið vitni að því á undanförnum dögum, raunar vikum, að þinghaldið fyrir þinglok er með afbrigðilegum hætti. Það hefur verið mjög óreglulegt hvernig mál hafa verið tekin á dagskrá. Það hefur verið horfið frá atkvæðagreiðslu áður en henni er lokið í einstökum málum og málum skákað til á dagskránni með mjög einkennilegum hætti sem allt upplýsir að engin samstaða er í liði hæstv. ríkisstjórnar um það hvernig skuli ljúka þingi eða hvaða málum skuli fram komið.
    Ég skal ekki misnota tíma minn, herra forseti, en miðað við það að gert hefur verið ráð fyrir að þetta væri síðasti dagur þessa Alþingis, þá þykir mér tími til þess kominn að spyrja hæstv. forsrh. hvort þingi skuli ljúka í kvöld. Ef svo er, hvaða mál eru það sem hæstv. ríkisstjórn ætlast til að verði afgreidd á þessu kvöldi fyrir þinglok af þeim sem hér eru á dagskrá, eða eru það einhver önnur? Ef samkomulag hefur verið gert, stendur það samkomulag eða stendur það ekki?
    Það ræðst af svörum við þessum spurningum hvað verður um framhald umræðna af þessu tagi á þessum kvöldfundi.