Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það var heldur döpur reynsla í fyrra af því að hafa áhrif á vinnugleði þeirra í efri deild. Þrjú ár í röð hafa þeir geymt þar gott mál sem hefur verið samþykkt hér í neðri deild. Hins vegar vil ég játa að þetta var ekki orðið kalalaust af minni hendi. En nú þegar það blasir við að deildin er niður lögð og völd hennar þar með úr sögunni á næstu þingum þykir mér ekki rétt að bera neinn hefndarhug í hennar garð og vænti þess að hv. 14. þm. Reykv. fyrirgefi henni einnig mikið á þessu kvöldi. En ég vil taka undir það með honum að það er náttúrlega ekki líðandi að hv. 2. þm. Norðurl. e., sem er í efri deild, verði fyrir því að hæstv. fjmrh. leggi svo fast á hann að hann vilji stöðva hér mál sem komið er til atkvæða og algerlega ólíðandi miðað við það sem við höfum sagt um vítaverð vinnubrögð í efri deild. ef við ekki fylgjum þeim ágæta dreng, hv. 2. þm. Norðurl. e., fast eftir í þeim efnum að hann fái hér afgreiðslu á sínu máli. Og ég trúi því hreinlega ekki að forseti láti það gerast hér í kvöld að málið komi ekki til atkvæða, ég trúi því hreinlega ekki.
    Það er náttúrlega grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að allt tal um samninga getur ekki verið á þann veg að menn segi að það eigi að hætta að láta afl atkvæða ráða í þinginu, heldur eigi það bara að vera einhver spil sem rétt eru yfir borðið hvað sé afgreitt og hvað ekki. Auðvitað hlýtur afl atkvæða að ráða úrslitum. Og í máli sem þessu er það algert hneyksli þegar mál er komið á lokastig ef menn þora ekki að greiða atkvæði um það.