Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. sem er að finna á þskj. 1097 um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990 og 130/1990 --- og er þá mikið sagt. Nál. er frá 3. minni hl. félmn.
    ,,Þriðji minni hl. er samþykkur þeirri breytingu sem frv. gerir ráð fyrir, að hætt verði að taka við umsóknum um húsnæðislán samkvæmt lögum nr. 54/1986. Að því er hins vegar ekki staðið á fullnægjandi hátt með þessari afgreiðslu málsins.
    Í frv. og í meðförum nefndarinnar hafa ekki fengist fullnægjandi svör við því hvernig ætlunin er að fjármagna þau lán sem afgreidd verða samkvæmt lánakerfinu frá 1986 og afgreidd verða samkvæmt þessu kerfi miðað við ákvæði laganna.
    Nefndinni gafst nær enginn tími til að fjalla um málið, en þó liggur fyrir að mörgum óvissuþáttum verður vísað til næstu ríkisstjórnar.
    Að slíkri afgreiðslu getur 3. minni hl. ekki staðið og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta ritar Anna Ólafsdóttir Björnsson.