Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég óskaði eftir að skrifa undir álit 1. minni hl. félmn. með fyrirvara. Sá fyrirvari er vegna þess að ég er andvígur því að leggja niður húsnæðislánakerfið frá 1986 og vísa í ályktun flokksþings Framsfl. um að það kerfi verði við lýði áfram og nýtist þeim sem festa kaup á sinni fyrstu íbúð. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir því að tekið verði til við afgreiðslu þeirra lána, sem lánsloforð eru þegar fyrir um, úr Byggingarsjóði ríkisins og eyðir það óvissu um þann hóp lántakenda svo framarlega sem fjármögnun er tryggð. Ég mun því ekki spilla fyrir samkomulagi um afgreiðslu mála hér á síðustu klukkustundum þingsins með því að leggjast gegn frv. eða styðja á því breytingar. En ég lýsi því yfir að ég tel nauðsynlegt að setja þessi mál í gagngera endurskoðun með það að markmiði að taka upp lán úr Byggingarsjóði ríkisins fyrir þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Þennan lánaflokk er hægt að taka upp á grundvelli síðustu málsgr. 3. gr. frv. Slík endurskoðun þarf að fara fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem hafa lagt húsnæðiskerfinu til fjármagn í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Þetta vildi ég láta koma fram við 2. umr. málsins.