Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Leyfist mér að inna eftir því fyrst hvort ætlunin hafi verið að boða til fundar í hv. menntmn. út af þessu máli, eins og oft er gert þegar mál koma til einnar umræðu? ( RA: Ef þess er óskað.) Ég er að vísu ekki í nefndinni og hef ekkert umboð til að óska eftir því. ( FrS: Það á að fara beint til nefndar.) Ég hygg að það megi finna fordæmi þess að mál fari beint til nefndar áður en til einnar umræðu kemur þegar svona stendur á. En hvað sem því líður, ég reikna með að hv. formaður nefndarinnar boði til fundar ef óskað er, enda hafa verið gerðar mjög miklar breytingar á þessu frv. í efri deild, það fer ekkert milli mála. Það voru gerðar miklar breytingar á frv. og sennilega allar til bóta.
    En það sem ég vildi leyfa mér að gera hér, virðulegi forseti, er að gera grein fyrir örsmárri brtt. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 1109 og er reyndar endurflutt í tilefni þess að þetta mál kemur nú fyrir deildina á nýjan leik. Ég flutti nokkrar brtt. þegar málið var hér til 2. umr. Nokkrar þeirra sem voru felldar í neðri deild á sínum tíma hafa fundið náð fyrir augum hv. efri deildar og eru komnar inn í frv. eins og það kemur frá hv. efri deild og fagna ég því að sjálfsögðu. Það eru nokkrar ágætar tillögur sem neðri deild sá ekki ástæðu til að samþykkja þegar málið var hér til meðferðar en fær nú tækifæri til að samþykkja. En það er hér ein smátillaga sem efri deild hefur yfirsést að taka til greina af mínum fyrri tillögum og það er sú sjálfsagða tillaga að skólanefnd heima í héraði geti sjálf ákveðið nafn á skólastofnun sem verið er að setja á laggirnar en þurfi ekki að fela menntmrn. og örnefnanefnd að taka slíka ákvörðun.
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað leiðinlegt á síðasta kvöldi þingsins að vera að tala um slíkt smámál, á þessum síðustu mínútum kjörtímabilsins, en ég hygg að þingdeildarmenn séu mér sammála um það að ef skólanefndir heima í héraði eru færar um eitthvert verkefni þá er það það að gefa skólunum í héraðinu nafn. Þær ættu nú að geta gert það upp á sitt eindæmi. Ég hygg að ef menn hefðu haft augun hjá sér þegar þessi brtt. var borin upp við 2. umr. þá hefði hún fundið náð fyrir augum viðstaddra deildarmanna. Hygg ég nú að vandfundinn sé sá þingdeildarmaður sem hefur athugasemdir við þetta mál eða kann að vera á annarri skoðun.
    Ég ætla ekki að flytja um þetta langt mál, virðulegi forseti. Það er ekki tilefni til þess. Ég vil bara vekja athygli á því að þessi brtt. er endurflutt, örlítið breytt reyndar, því að nú er gert ráð fyrir samráði við menntmrn. og það er eðlilegt vegna þess að það kann að vera svo að annars staðar í landinu séu skólar með sama heiti og viðkomandi skólanefnd kann að hafa haft í huga. Þess vegna er rétt að það sé gert í samráði, en auðvitað að skólanefndin heima fyrir hafi síðasta orðið.
    Ég lét þess getið þegar þetta kom hér til umræðu við 2. umr. að hér í deildinni eru margir nafntogaðir og yfirlýstir valddreifingarpostular að því er varðar

málefni sveitarfélaga og ég fæ ekki séð að þeir rísi undir nafni ef þeir fella þessa tillögu, það verð ég að segja, virðulegi forseti.