Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Þetta framhaldsnefndarálit er á þskj. 1102 og er frá fjh.- og viðskn. og er svohljóðandi:
    ,,    Eftir afgreiðslu frv. við 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný til að fjalla um frv. Á fund nefndarinnar komu Jóhann Antonsson og Sigurgeir Jónsson sem sitja í stjórnarnefnd ábyrgðadeildar fiskeldislána.
    Nefndin telur að æskilegt hefði verið að frv. fengi þinglega meðferð. Hins vegar er ljóst að vegna þess hversu stutt er til þingloka má gera ráð fyrir að frv. dagi uppi. Nefndin vill því með þessu áliti gera grein fyrir framkomnum hugmyndum um lausn þess máls sem frv. fjallar um. Vill nefndin í þessu sambandi vísa til samþykktar stjórnarnefndar ábyrgðadeildar fiskeldislána frá 18. mars og yfirlýsingar bankastjórnar Landsbanka Íslands í dag. Hvort tveggja er birt sem fylgiskjal með áliti þessu. Nefndin væntir þess að á grundvelli yfirlýsingar Landsbanka Íslands megi finna viðunandi lausn í málefnum fiskeldisfyrirtækja. Það er von nefndarinnar að í kjölfar yfirlýsingar Landsbankans fylgi aðgerðir er tryggi rekstur lífvænlegra fiskeldisfyrirtækja enda mikilvægt að einhver fiskeldisfyrirtæki lifi af þessa erfiðu tíma til þess að halda við verkkunnáttu í fiskeldi.
    Matthías Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta rita Ólafur Þ. Þórðarson, Friðrik Sophusson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ragnar Arnalds og Páll Pétursson.
    Á nál. er birt sem fskj. I samþykkt stjórnarnefndar ábyrgðadeildar fiskeldislána frá 18. mars 1991. Og sem fskj. II munnleg yfirlýsing bankastjórnar Landsbanka Íslands, 19. mars. 1991, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Landsbankanum hefur ekki gefist kostur á ítarlegri athugun á samþykkt stjórnarnefndar ábyrgðadeildar fiskeldislána, en virðist lítill slægur í tillögunum. Bankinn er þó af sinni hálfu reiðubúinn til frekari viðræðna um málið ef leiða kynni til bitastæðra lausna.``