Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér erum við að fjalla um grunnskólalög, þ.e. skyldu yngstu þegna þjóðfélagsins til þess að hlýða lögum þessa lands, undir þeim aga að foreldrum er ætlað að sjá til þess að þau virði lögin. Þá er ekki óeðlilegt að það sé metið hvort hægt sé að líta svo á að ákveðinn hluti af þeirra viðveru í skólanum teljist ekki til skólastarfsins. Ef börnin eru að hlaupa úti á gæsluvelli þá eru þau ekki í námi. Engu að síður hefur engum óvitlausum manni dottið annað í hug en þau væru í skólanum. Ég hygg þess vegna að það sé ákaflega hæpin túlkun að hægt sé að segja sem svo: Nú skírum við bara ákveðinn viðverutíma barnanna öðru nafni. Við skírum það upp á nýtt. Við köllum það athvarf. Þ.e. krakkarnir fá að fara inn í kennslustofu, vera þar og fara yfir sitt heimanám. Nú er það svo að það er mjög til bóta að þetta sé gert. En því eins er það ásættanlegt að það gerist ekki að foreldrar sem minnst fjárráð hafa taki ákvörðun um það að þeirra börn mæti ekki til þessarar starfsemi. Ef slík ákvörðun er tekin má gera ráð fyrir að bilið á milli barnanna í námi muni vaxa en ekki minnka.
    Mér er ljóst að sumir telja að með því að skíra þetta skólaathvarf sé hægt að komast þannig að þessu máli að hægt sé að segja að þetta sé ekki tengt skólanum. Nafnið sjálft, skólaathvarf, bendir til þess að þetta sé nátengt skólanum svo ekki sé meira sagt. Þetta sé starfsemi í skólanum. Það er dálítið merkilegt að hæstv. menntmrh., sem hefur orðið að sætta sig við það að fallið hefur dómur sem úrskurðar að óheimilt sé að leggja á gjöld til að borga fyrir bækur, telji nú að það sé ásættanlegur hlutur að það sé gengið þannig frá málum að hægt sé að leggja á gjald fyrir að gæta barnanna í skólanum vissan tíma.
    Menn geta svo rétt gert það upp við sig hvernig þetta kemur út í heimakstri skóla þar sem kannski yrði tekin ákvörðun um að af 20 börnum ættu 18 að vera í athvarfinu en tvö ættu að fara heim. Ég er ekki búinn að sjá að það væri auðvelt að skipuleggja slíkt skólastarf.
    Hvað segir þá gamla íslenska stjórnarskráin um þetta atriði? Hvað segir hún um þetta, þessi gamla úrelta stjórnarskrá sem menn eru að tala um? Í 70. gr. stendur svo, með leyfi forseta: ,,Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja``, stendur hér. Og í 71. gr.: ,,Hafi foreldrar eigi efni á að fræða sjálf börn sín eða séu börnin munaðarlaus og öreigar, er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.`` Segjum nú svo að Jón Jónsson lýsi því yfir við skólastjóra að hann hafi ekki efni á að borga þetta skólaathvarf en hann vilji að barnið sé í skólaathvarfinu. Á það þá að fara fyrir dómstóla hvort maðurinn sé að ljúga því til að hann hafi ekki efni á þessu eða hvernig er hugsunin að framkvæma þetta? Á skólastjórinn að fara heim og skoða það hjá viðkomandi manni hvort hann meti það svo að rétt sé frá sagt eða ekki? Hver á að úrskurða?

Og hvað á að gera við barnið á meðan þessi deila stendur? Ég sé að ráðherrar stynja. Það er erfitt stundum að þurfa að hugsa. Mikið lifandis skelfing getur það verið erfitt.
    Ég verð að segja það eins og er að mér finnst það móðgun við mannréttindi á því herrans ári sem við lifum á ef við göngum þannig frá þessum málum nú að við tökum ákvörðun um að setja í lög Íslands um grunnskóla að það sé heimilt að taka upp námsgjald í reynd, ekkert annað en námsgjald. Ég vil vekja athygli á því að í 74. gr. í frv. til laga að nýrri stjórnarskrá, sem Gunnar Thoroddsen, fyrrv. forsrh., lagði fyrir Alþingi Íslendinga, stendur: ,,Allir skulu eiga rétt til að njóta menntunar og fræðslu eftir því sem nánar er á kveðið í lögum.`` Þetta atriði er mjög rúmt sé það grannt skoðað.
    Ég verð að segja það að miðað við ýmsar ráðstefnur um réttindi barna sem hafa verið haldnar og áhuga hæstv. forseta sameinaðs þings á umboðsmanni barna um réttindi þeirra þá finnst mér það koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum að mönnum detti í hug á lokamínútum þessa þings að fara að leggja skatt á barnafjölskyldur í landinu. Og að það skuli vera menntmn. Alþingis sem tekur ákvörðun um það. Yfirleitt hefur nú verið talið rétt að fjh.- og viðskn. sæi um að fara yfir skattamálin.
    Ég hef leyft mér, herra forseti, að flytja brtt. við 46. gr. um að síðari málsl. seinustu málsgr. falli brott. Það sem lagt er til að falli brott er eftirfarandi: ,,Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.`` Þarna er líka tekin ákvörðun um það að framselja skattlagningarvaldið. Það hafa fallið hæstaréttardómar á Íslandi sem staðfesta að það er óheimilt.
    Mér er ljóst að það líður mjög á dag og lítill tími eftir, en svona vopnaburð, að annaðhvort skuli menn kyngja því að grunnskólalögin innihaldi þessi ákvæði eða engin grunnskólalög verða samþykkt, er gjörsamlega ólíðandi að búa við. Það gerist að sjálfsögðu að annaðhvort samþykkja menn þetta og þetta fer til efri deildar eða að menn fella og hafa orðið sér alvarlega til skammar á Alþingi Íslendinga.