Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Það kom mér sannarlega ekki á óvart að Sjálfstfl. væri sjálfum sér ósamkvæmur í þessu máli eins og öðrum. Það er ekki nema einn sólarhringur síðan hv. 1. þm. Reykv. stóð hér í pontu og álasaði ríkisstjórninni fyrir að velta húshitunarkostnaðarvandamálum yfir á næstu ríkisstjórn. En nú stendur hann upp og vill velta kosningum í nefndir og ráð yfir á næsta þing.
    Þessu eigum við svo sem að venjast og kippum okkur ekki upp við þetta en mér finnst eðlilegast að það þing sem á að taka á húshitunarkostnaði taki líka á kjöri í nefndir og ráð.