Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Með réttu ættu þær tilnefningar á mönnum í stjórnir og ráð sem hér eru til umræðu að vera á verksviði framkvæmdarvaldsins en eru á verksviði þingsins. Þau hrossakaup sem nú virðast eiga sér stað ýta undir þá skoðun að þessu verði að breyta því hér er verið að leggja það til að kosningu skuli frestað fram yfir þann tíma sem umboð þeirra aðila til setu nær í þeim stjórnum sem hér er um að ræða.
    Það má gera ráð fyrir nokkrum umræðum um stjórnarmyndun áður en næsta ríkisstjórn verður mynduð, þó að hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 1. þm. Reykv. hafi gengið í nokkuð góðum takti hér áðan og í þá fylkingu hafi bæst formaður þingflokks Alþb., hv. 4. þm. Suðurl.
    Ég fæ ekki betur séð en að með því tiltæki, að vilja fá þessu frestað, hafi það gerst að Sjálfstfl. hafi verið með of mikinn styrk í þessum stjórnum og ráðum sl. fjögur ár og óttist að hann verði ekki nægilega sterkur ef kosið verður nú. Ég get ekki skilið þetta á annan veg. En ég hafna því alfarið að ég hafi tekið þátt í neinu samsæri gegn Kvennalistanum í því að þær eigi eðlilegan rétt til hlutdeildar í þeim stjórnum og ráðum sem hér er um að ræða með því að kosið verði. En einkavinur þeirra, hv. 3. þm. Vesturl., hefur náttúrlega á því sína skoðun eins og svo mörgu öðru.
    Mér finnst að Alþingi Íslendinga geti illa hafa haft þetta mál á dagskrá allan þennan tíma og auglýst það þar með sem stefnu forseta að þessar kosningar eigi að fara fram, en taka svo ákvörðun um það nú að fresta þeim. Mér finnst að það séu ekki drengileg vinnubrögð gagnvart þeim aðilum sem í góðri trú hafa unnið hér að því að koma málum áfram að á bak við hafi örfáir aðilar samið um þessa hluti og samið um að halda þeim leyndum. Ég er ekki viss um að þetta sé gæfuleg byrjun hjá hv. 1. þm. Reykv. á því möndli á Alþingi Íslendinga sem hann vafalaust verður mikill ráðamaður að á næsta þingi.