Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti vill benda á vegna þess að menn hafa haft hér í frammi stór orð um, ef ekki stjórnarskrárbrot, ekki man ég hvað hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði, en það var alla vega alvarleg ásökun á þingið. Ég vil benda á að það er ekkert sem skyldar þetta Alþingi til að kjósa í þrjú þessara ráða vegna þess að Alþingi á að kjósa áður en umboðið rennur út. Umboð í stjórn Landsvirkjunar rennur út 30. júní, umboð í orkuráð rennur út 1. júlí og í stjórn Viðlagatryggingar Íslands 27. maí. Þetta Alþingi hefði ekki endilega þurft að sitja allt kjörtímabilið þannig að það getur hvaða Alþingi sem er kosið í þessi ráð og nefndir verði það gert fyrir tilskilinn tíma.
    Að mínu viti er eina stjórnin sem æskilegt hefði verið að kjósa í, svo öllum formsatriðum væri fullnægt, stjórn Kísiliðjunnar. Þó hin málin frestist er það ekki brot á einum eða neinum lögum eða reglum.
    Þar sem þrautreynt er að ná samkomulagi um þessa kosningu vill forseti leyfa sér að verða við þeirri eindregnu beiðni um að þessum kosningum verði frestað. --- Hv. þingheimur er nú að setja forseta sinn í meiri háttar vanda. Hér áttu að fara fram þinglausnir og forseta er mjög þvert um geð að halda hér áfram umræðum um þingsköp fram eftir degi. Forseta er hins vegar illa við að nýta þennan næstsíðasta fund til að taka af skarið sem forseti getur gert. Reynt hefur verið til þrautar að nota ekki forsetavald á fundum þingsins. Ég hef ekki gert það hingað til og mér þætti leitt að þurfa að gera það á þessum fundi. Ég mun því leyfa þingskapaumræðu eitthvað um sinn en ítreka það að hér er ekki verið að brjóta nein lög eða reglur.