Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Mér er ekki kunnugt um að það liggi fyrir formleg haldbær ákvörðun um að kalla saman þing á nýjan leik fyrr en lög gera ráð fyrir að hausti.
Þar með liggur það þá fyrir að fulltrúar í þessar fjórar stjórnir og ráð verða ekki kosnir með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Nú háttar þannig til að skv. lögum ber Alþingi að kjósa fulltrúa í þessar stjórnir. Hina fyrstu frá og með 20. apríl og síðan frá og með 27. maí og frá og með 1. júlí í tveimur tilvikum. Það er ein af skyldum Alþingis skv. lögum að sjá til þess að þessar stjórnir séu mannaðar með lögmætum og eðlilegum hætti.
    Nú er það sjálfsagt þannig að meiri hluti hv. Alþingis getur tekið um það ákvörðun að fresta slíkri kosningu og enginn tekur það vald af hv. Alþingi, enda liggi það þá ljóst fyrir að meiri hluti Alþingis hafi tekið þá ákvörðun með formlegum hætti, þannig að fyrir liggi að meiri hluti Alþingis hafi ákveðið að fresta kosningunni. Að öðrum kosti tel ég að þessi kosning hljóti að fara fram samkvæmt venjum. Ég óska þess vegna eftir því að það verði gert fundarhlé og það komi fram hver vilji meiri hluta Alþingis er í þessu efni.