Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hér komi skýrt fram að afstaða Alþb. hefur verið sú, eins og fram kom fyrir nokkrum dögum, að ef samstaða væri um það innan þingsins að fresta þessum kosningum, eins og formaður þingflokksins greindi hér frá, þá værum við tilbúin til þess. Það hefur hins vegar komið greinilega fram í þessum umræðum að það er ekki samstaða um það. Hér hafa fulltrúar flokka talað án þess að lýsa afstöðu þingflokka. Þingflokkur Alþb. kom saman til fundar í þessu fundarhléi hér áðan og markaði þá skýru afstöðu að við værum reiðubúin og vildum að þessar kosningar færu fram nú í ljósi þess sem hér hefur gerst.
    Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að það væri eðlilegt við þessar aðstæður, þar sem ekki hefur komið fram skýr afstaða annarra þingflokka, að greidd yrðu atkvæði um það hér í þingsalnum hvort menn vildu láta þessar kosningar fara fram eða ekki, svo það liggi ekki í loftinu að minni hluti hafi beitt meiri hluta einhverjum þrýstingi til þess að knýja fram það sem er andstætt vilja meiri hlutans. Það er skiljanlegt að forseta sé nokkur vandi á höndum. Ég skil það mjög vel. Þetta er mjög óvenjuleg staða í þingsögunni. Ég hugsa að hún hafi ekki komið upp áður. Ég vil því taka undir þá ósk að það verði gert hér stutt hlé til að menn geti borið saman bækur sínar.