Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka forsrh. fyrir varnarræðu hans fyrir dagpeningum og fyrir það að flytja þingi sögu dagpeninga og hvernig þeir hafa verið að þróast síðustu árin. Ég held að það hefði verið hyggilegra fyrir hæstv. ráðherra að lesa fsp. og snúa sér að því að svara henni beint heldur en eyða þessum stutta tíma sem hér er til umráða í að drepa málinu svona á dreif með þessum hætti. En það var engu að síður athyglisvert að fá að heyra þessa upplesningu. Hún bara kemur þessu máli ekkert við lengur. Spurningin er að hér er ákveðið kerfi við lýði sem er óviðunandi og á að taka á, hver sem forsaga þess máls er.
    Það er rétt að það komi fram varðandi dagpeninga ráðherra, því að það kom fram í máli ráðherra að það mátti skilja það sem svo að þeir þyrftu að greiða af því hótel einnig. Það er ekki rétt. Það kemur fram í svari við fsp. að hótelkostnaður er sérstaklega greiddur og á þessu tímabili sem ég fór yfir hér áðan er hann tæpar 2 millj. Og það mátti einnig skilja að þeir ættu eftir að greiða skatt af þessu, en það er einnig rangt. Þær tölur sem ég fór með hér áðan voru að frádregnum sköttum.
    Varðandi maka og ferðalög yfirleitt, þá hef ég ekki gert neinar athugasemdir við það. Mér finnst ósköp eðlilegt að ráðherrar ferðist með mökum og mér finnst ekkert óeðlilegt við það að ráðherrar ferðist yfir höfuð ef þeir meta það svo að þeir þurfi að gera það fyrir þjóðina. Ég geri engar athugasemdir við það og hef aldrei gert. Og ég sagði það hér í upphafi míns máls að ráðherra ætti að ferðast með reisn. Það eina sem ég er að gera athugasemdir við eru þessir siðlausu dagpeningar, það er ekkert annað, ekki um makana eða hversu margar ferðir menn fara.
    Og að ég nota orðið ,,ferðahvetjandi``, það er komið úr viðtali við sjálfan forsrh. í DV og er nú reyndar í fyrirsögn þar. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Steingrímur Hermannsson um ferðakostnað ráðherra: Kerfið er ferðahvetjandi.`` Þetta er ekkert orð sem ég var að finna upp. Þó að ég sé ungur, og ég veit ekkert hvort ég er hraustari en hæstv. forsrh., þá er ég ekkert spenntur fyrir ferðalögum yfir höfuð þannig að þetta hefur ekkert með það að gera. En hæstv. forsrh. sagði einmitt í þessu viðtali þegar hann er spurður um hvort ferðir séu ferðahvetjandi, með leyfi forseta:
    ,,Ef ráðherra sparar mikið og borðar á kaffiteríu má eflaust segja að ferðalögin séu launahvetjandi.``
    Ef forsrh. kýs að borða á kaffiteríu, þá er það hans mál. Hann er á mánaðarlaunum eins og allir aðrir og hann getur borgað þann kostnað af þeim launum alveg eins og við gerum hér. Hann þarf að borða jafnt hvort hann er á Íslandi eða í útlöndum þannig að það skiptir bara engu máli.
    Ég fagna því hins vegar að málið skuli vera í athugun. En mér finnst þetta gamall frasi sem maður er að heyra hér alltaf þegar eitthvað kemur við kaunin á ráðherrum, þá eru málin kölluð ,,að vera í athugun`` eða ,,sett í nefnd`` eða eitthvað slíkt. Ég ber ekki mikið traust til þessara yfirlýsinga en ég vona samt að ég hafi rangt fyrir mér.
    Ég vil benda á það að víða hefur verið tekið á dagpeningagreiðslum í fyrirtækjum og þar sem ég þekki til er yfirleitt allur útlagður kostnaður greiddur, eins og það á að vera, og sett einhver lítil upphæð í dagpeninga, samsvarandi yfirleitt 10% af því sem hér er verið að tala um.
    Hins vegar vil ég benda hæstv. forsrh. á að það er vel þess virði að skoða dagpeningagreiðslur til einstakra ráðherra því að þær virðast vera mjög mismunandi háar eftir því hver á í hlut. Og ég bendi alveg sérstaklega á dómsmrh. sem virðist vera með mjög háar dagpeningagreiðslur.