Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það út af fyrir sig að hv. þm. þyki ekki gott að ég reki sögu þessara dagpeningagreiðslna, en ég er þeirrar skoðunar að fyrrv. fjármálaráðherrar hafi reynt að meta þetta af skyldurækni og hafi komist að niðurstöðu um hvað væri sanngjarnt og því er það sannarlega innlegg í þetta mál, það hlýtur að vera það.
    Ég verð að biðja virðulegan forseta, þótt hann sé ekki hér, afsökunar á því ef ég hef farið með rangt mál, en ég ætla að leyfa mér að lesa það sem við fengum frá Alþingi. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Rekstrarskrifstofa Alþingis hefur gefið út reglur um greiðslu ferðakostnaðar á vegum Alþingis. Þar gilda eftirfarandi reglur:
    Forsetar Alþingis: Gistikostnaður og símtöl, dagpeningar samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar auk 20% álags.
    Skrifstofustjóri, alþingismenn, varaskrifstofustjóri og aðrir forstöðumenn sem gegna sérstökum embættisskyldum á vegum Alþingis: Gistikostnaður og símtöl, fullir dagpeningar samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar.
    Aðrir starfsmenn Alþingis í fylgd þingmanna eða forseta: Gistikostnaður og símtöl, fullir dagpeningar samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar.``
    Ég mun að sjálfsögðu láta athuga hvernig stendur á því ef ég hef fengið rangar upplýsingar, eins og hér var upplýst áðan, frá skrifstofu Alþingis.
    Ég vek athygli á því sem hv. þm. las. Ég hélt að hann væri nógu reyndur til þess að taka ekki fyrirsagnirnar einar gildar, og reyndar kom það fram því hann las það sem ég sagði. Ég sagði: ,,Eflaust mætti segja ...`` og svaraði þar spurningu fréttamanns. Það er rétt að ríkisskattstjóri lítur svo á með því að skattleggja helminginn af t.d. dagpeningum hv. þm. og helminginn plús 20% sem ég fæ þegar við ferðumst. Ég skildi hv. þm. hins vegar svo að við ættum að greiða okkar fæði erlendis af okkar launum heima og þar er nú komið enn þá nýtt innlegg í málið sem ég held að engum hafi dottið fyrr í hug. Ég hef skilið það svo að dagpeningar ættu að standa undir öllum ferðakostnaði, þar með uppihaldi, þ.e. fæðiskostnaði o.s.frv. Og það er mín skoðun að svo eigi það að vera. Mín skoðun er sú að dagpeningar t.d. þingmanna og ráðherra og allra eigi að vera vel ríflegir þannig að þeir þurfi ekki að skera við nögl, en þeir eigi ekki að vera óhóflegir. Það eiga þeir alls ekki að vera. Og það kann að vera að þessir dagpeningar séu það, a.m.k. virðist ríkisskattstjóri líta svo á, þó að ég sé þeirrar skoðunar að sá helmingur sem er skilinn eftir í almennan kostnað sé ekki ríflegur. Ég held að hv. þm. hljóti að hafa fundið að svo er ekki.