Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem upp til þess að lýsa stuðningi við þessa þáltill. Sannleikurinn er sá að við þurfum auðvitað að stefna að því að fá tvær slíkar þyrlur og önnur væri þá staðsett utan Reykjavíkur til öryggis. Það er spurning hvar slík þyrla ætti að vera
og hvenær kemur að því en númer eitt er að reyna og sjá hvernig hún reynist okkur og hvort það sýnir sig ekki að það sé ekki nægjanlegt. Þetta er sérstaklega áríðandi núna þar sem þær nýju reglur sem verið er að setja í sambandi við smábáta, að kvóti þeirra í sept. 1994 eigi að miðast við þann afla sem þeir ná á krókaveiðum, þeir sem hafa lítinn kvóta. Þá er hætt við því að það verði til þess að sókn verði miklu meiri af þessum ástæðum. Ég tel að þetta ákvæði í nýjum lögum um kvótaveiðar sé rangt og þurfi að endurskoðast, en þetta er í dag. Þar af leiðir að það er hættara við því að menn sæki af kappi og þá þarf auðvitað á fleiri björgunartækjum að halda.
    Ég styð þessa till. og það er eiginlega undur að ekki skuli vera hafist handa við að kaupa slíka þyrlu áður.