Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hlaupa í skarðið fyrir hv. 5. þm. Austurl. en það stendur nú vel á að ég segi hér nokkur orð um þessa þáltill. sem hér er til umræðu. Hér er hreyft mjög brýnu máli og þörfu. Ég tek í sjálfu sér undir efni till. að því leyti til að það er nauðsynlegt að keypt verði fullkomin björgunarþyrla fyrir Landhelgisgæsluna. Hins vegar verð ég að benda á að það er alls ekki nóg að gert fyrir gæsluna að hafa aðeins eina þyrlu í rekstri. Það er á ýmsan hátt óhagkvæmt og verður að búa svo um hnútana að þessar þyrlur geti verið a.m.k. tvær. Og það er í rauninni alveg nauðsynlegt að önnur þyrlan sé staðsett úti á landi því að það eitt eykur viðbragðsflýtinn ef eitthvað kemur fyrir, t.d. á hafsvæðinu fyrir norðan eða austan land. Flug frá Reykjavík eða Keflavík eftir atvikum er æði langt ef eitthvað kemur fyrir fyrir norðan eða austan. Þannig að þó ég taki undir þessa till. --- hún er þörf og hreyfir við þessu máli og ég veit að hv. flm. er mikill áhugamaður um þessi mál --- þá þarf að líta á þetta til frambúðar í því samhengi að þessi rekstur verði staðsettur einnig á öðrum hlutum landsins en hér á suðvesturhorninu.
    Ég flutti á Alþingi í fyrra till. um að þessi mál yrðu skoðuð í alþjóðlegu samhengi, hvort við gætum tekið saman höndum við aðrar þjóðir um björgunarmál hér á Norður-Atlantshafi. Sú till. var samþykkt fyrir þinglok í fyrra og hún er í meðferð ríkisstjórnarinnar. Ég sé í skýrslu um afdrif þáltill. að skipuð hefur verið nefnd til að skoða þessi mál og sú nefnd er að störfum. Ég tel að það sé nauðsynlegur þáttur í skipulagningu þessara mála þó að slíkt megi að sjálfsögðu á engan hátt tefja fyrir því að fullkomið öryggi verði í þessum efnum og bráður bugur verði undinn að því að bæta þyrlukost Landhelgisgæslunnar. En auðvitað verða menn líka að líta yfir þessi mál til lengri framtíðar og hvernig þessum málum verður háttað í framtíðinni.