Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa talað og lýst stuðningi við þessa till. Ég vona að sá góði andi sem þeim hefur fylgt geti smitast út í aðra þingmenn og orðið til þess að loksins verði tekið á málinu og það samþykkt.
    Ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að hér er um mjög kostnaðarsamt mál að ræða. Það er ekki bara mjög dýrt að kaupa þyrlu heldur er einnig mjög dýrt að reka hana og halda uppi viðhaldi og varahlutalager. En það er óhjákvæmilegur fylgifiskur sem við verðum að taka með, því eins og ég sagði áðan þá setjum við ekki verðmiða á mannslíf.
    Ég tek alveg undir sjónarmið hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur um það sem hún sagði um happadrætti og að ekki mætti einblína á þá tekjulind til þess að fjármagna kaupin á björgunarþyrlu, enda eiga kaup á slíku tæki ekki að vera undir því komin hversu mikil spilafíkn þjóðarinnar er.
    Hitt er svo annað mál að ávallt er talað um slíka björgunarþyrlu sem sjúkrabifreið sjómannsins og í raun ekkert athugavert við það, hún nýtist fyrst og fremst til bjargar úti á sjó. En það má heldur ekki gleyma því að slík þyrla, útbúin afísingarbúnaði, er ákaflega nauðsynleg landi eins og Íslandi, þar sem við getum átt von á slysum uppi á hálendinu hvenær sem er að vetrarlagi. Þá er ekki hægt að komast þar að til bjargar við ísingaraðstæður nema eiga slíka þyrlu. Ég vildi aðeins benda á að þetta snýr ekki eingöngu að sjómönnum og sjómannastéttinni.
    Eins og kom fram hjá mér og einnig hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og reyndar einnig hv. þm. Jóni Kristjánssyni þá þurfum við náttúrlega fleiri en eina þyrlu, það held ég að allir geri sér grein fyrir. Hins vegar er þyrla af þessari stærðargráðu það stór biti fyrir ekki stöndugra þjóðfélag en okkur að við verðum að reyna að taka þetta fyrsta skref á þennan hátt, að sætta okkur við aðeins eina til að byrja með en með það að langtímamarkmiði að önnur verði keypt.
    Hinu má svo ekki gleyma að við eigum í dag tvær þyrlur og ég geri nú ráð fyrir því að a.m.k. önnur þeirra yrði endurnýjuð þannig að það yrðu alla vega tvær þyrlur til staðar, önnur af þessari stóru og fullkomnu gerð og svo hin af þeirri gerð sem TF-Sif er, og er reyndar mikið endurbætt og fullkomnari en sú þyrla sem TF-Sif er núna.
    Ég verð að segja það að þegar verið er að verja skattpeningum þjóðarinnar þá verður að setja þá í ákveðna forgangsröð. Ég get ekki komist hjá því að benda á þann fjáraustur sem nú fer fram, t.d. í kringum Þjóðleikhúsið. Sú nýsmíði á Þjóðleikhúsinu kostar andvirði einnar slíkrar þyrlu. Þar finnst mér að forgangsröðin sé röng. Varðandi Þjóðleikhúsið hefði mátt komast miklu, miklu ódýrara frá því dæmi með því að fara út í einfalt viðhald en ekki, eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði hér um daginn, að byggja nýtt Þjóðleikhús inni í gamla kassanum. Þannig er hægt að tína upp mörg dæmi þess að forgangsröðin í eyðslu skattpeninga þjóðarinnar er röng.

    Varðandi þá hugmynd sem hv. þm. Kristinn Pétursson kom með, og er reyndar ekki ný af nálinni, um samstarf við varnarliðið vil ég segja að það er vissulega möguleiki sem má skoða en ég er ansi hræddur um að hann sé ekki raunhæfur og yrði mjög vandsótt að fara þá leið. En ég vil ekki afneita honum, ég tel að alla kosti megi skoða, alla möguleika eigi að skoða, en ég er hræddur um að ef við færum að ákveða að fara slíka leið þá mundi það verða til þess að tefja verulega þetta mál og að við eignuðumst ekki slíkt björgunartæki fyrr en allt of seint.
    Ég sagði hér áðan í fyrri ræðu minni að ég vildi fá að glugga hér ofan í umsögn Stýrimannaskólans, þeirra sem taka við flotanum. Þessi umsögn er síðan í mars 1988. Jafnvel eru einhverjir þessara nemenda nú þegar farnir að stjórna úti á sjó. Umsögnin er nokkuð athyglisverð, einkum vegna þess að nemendurnir taka tvö raunhæf dæmi um það hvernig þessi mál eru. Ég ætla því að fá að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, á því að grípa hér aðeins ofan í umsögn nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það ætti ekki að þurfa að ítreka fyrir neinum hversu mikilvægt er að starfsöryggi allra starfshópa sé í sem bestu lagi. Það sem aðallega vantar á að starfsöryggi sjómanna komist í viðunandi horf er fullkomin björgunarþyrla. Sú þyrla sem er í eigu Landhelgisgæslunnar er langt frá því að standast þær kröfur sem teljast mættu eðlilegar. Sjómenn og aðstandendur þeirra hafa í allt of langan tíma þurft að búa við mjög svo falskt öryggi. Til að færa rök fyrir þessum staðhæfingum langar okkur að nefna tvö dæmi sem að okkar mati sýna vel það óöryggi er sjómenn þurfa að búa við. Gleggsta dæmið er þegar Barðinn GK-475 fórst undan Hólahólum á Snæfellsnesi í mars á síðasta ári. Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Sif, var komin á slysstað og hafði hafið björgun var ljóst að áhöfn Barðans var of fjölmenn til að þyrlan gæti tekið hana alla í einni ferð, en áhöfnin taldi 11 menn. Þyrlan þurfti að fara tvær ferðir í mjög tvísýnu veðri og var algjörlega óvíst hvort það tækist. Bæði var ísingarhættan mikil um þetta leyti ásamt því að skipið lá undir stöðugum áföllum. Varðandi ísingarhættuna þá er rétt að það komi fram að ef hitastig hefði verið 1 -- 2 gráðum lægra hefði þyrlan aldrei komist í loftið vegna þess að hún hefur ekki afísingarbúnað og hefði þá ekki þurft að spyrja um afdrif þessara 11 manna.
    Annað og nýlegra dæmi er þegar Hrafn Sveinbjarnarson GK-11 strandaði við Hópsnes þann 12. febr. sl. [þ.e. 1988] þá þurfti þyrlan TF-Sif að fara þrjár ferðir til að koma áhöfninni í land. Sem betur fer var veður gott á strandstað. Varðandi þetta slys þá hafa menn velt því fyrir sér hvernig farið hefði ef veðrið hefði ekki verið það gott að hægt var fyrir þyrluna að fara þrjár ferðir án þess að áhöfnin væri í neinni verulegri hættu á meðan á stóð. Hvað hefði gerst ef verið hefði suðvestan brim þegar Hrafn Sveinbjarnarson III. strandaði?
    Af þessum dæmum má vera alveg ljóst að í þessi

skipti mátti litlu muna að ekki færi illa.
    Það er hægt að nefna fleiri dæmi til að sýna fram á hversu oft litlu hefði mátt muna að mannslíf týndust vegna annmarka þeirrar þyrlu sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða.
    Það er okkur nemendum Stýrimannaskólans í Reykjavík nokkuð áhyggjuefni hvernig þessum málum er háttað. Við getum ekki undir neinum kringumstæðum sætt okkur við að vera settir í þá aðstöðu að þurfa kannski að velja hverjum eigi að bjarga ef skip sem við kunnum að vera yfirmenn á ferst. Það er ekkert sem segir að togari með 20 -- 24 manna áhöfn geti ekki farist hér við Íslandsstrendur. Yfirmenn þess skips mundu hugsanlega verða settir í þá aðstöðu að velja hverjum bæri að bjarga vegna þess að sú þyrla sem nú er í eigu Landhelgisgæslunnar hefði bara tíma til að fara eina ferð og gæti einungis tekið lítinn hluta áhafnarinnar vegna smæðar sinnar og ekkert skip væri statt á nálægum slóðum. Yfirmönnum þessa sama skips bæri siðferðileg skylda til að undanskilja sjálfa sig.
    Af þessu ætti að vera ljóst að þessum málum verður að kippa í liðinn hið allra fyrsta. Slysin gera ekki boð á undan sér og engin ástæða er til þess að bíða eftir þeim áður en einhverjar úrbætur verða gerðar.
    Við nemendur Stýrimannaskólans í Reykjavík skorum hér með á alla þingmenn Alþingis Íslendinga að beita sér fyrir því að fjármagni verði veitt til kaupa á þyrlu sem þessari. Það væri óbærilegt til þess að hugsa ef það þyrfti eitthvert stórslys til að þyrla sem þessi yrði fengin til landsins. Það þarf ekki að taka fram að að sjálfsögðu mundi slík þyrla einnig nýtast til björgunarstarfa og sjúkraflutninga á landi.``
    Hæstv. forseti. Ég held það sé ekkert hægt að færa betri rök með málinu.