Sektir vegna mengunarbrota á hafnarsvæðum
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög þörfu og brýnu máli. Mengun er ekki bara mengun frá álveri sem við höfum svo oft og mikið rætt um á þessu þingi heldur er mengun næstum því allur sá úrgangur sem frá okkur kemur, ekki síst efnaúrgangur. Hér er því mjög þörfu máli hreyft.
    Við viljum gjarnan halda þeirri ímynd okkar gagnvart erlendum þjóðum að land okkar sé hreint og allar framleiðsluvörur okkar ómengaðar. Við ætlum að græða á því að selja úrvalsfisk, úrvalsmatvæli og úrvalsvatn til útlanda. Ef við ætlum að halda þessari ímynd og ef við ætlum að standa undir því nafni sem við viljum hafa þá verðum við að ástunda mengunarvarnir á öllum sviðum og ekki síst í höfnum. Hver einasta manneskja sem kemur niður að Reykjavíkurhöfn eða öðrum höfnum á Íslandi sér brákina sem liggur á vatnsborðinu og við vitum að þetta er óhollt fyrir allt sjávarlíf. Af ofangreindum ástæðum öllum álít ég að við þurfum að taka á, ekki bara á því eina sviði sem um ræðir í þessari þáltill. heldur miklu, miklu víðar og miklu ákveðnar en gert hefur verið.
    Ég vil skora á stjórnvöld að taka nú til hendinni, reyna að stuðla að því að ímynd Íslands verði áfram hrein. Við megum ekki menga landið okkar með þeim subbuskap sem öllum álverum fylgir og annarri stóriðju. Við megum heldur ekki samfara matvælaframleiðslu okkar og fiskveiðum stunda mengun í hafinu kringum landið okkar sem er þó einn mikilvægasti þátturinn í tilveru okkar. Löngum hefur verið sagt, eins og flm. sagði áðan að ,,lengi tekur sjórinn við`` og hefur löngum verið notað sem afsökun og ég er hrædd um að þeir á litlu bátunum hugsi ekki um það að margt smátt gerir eitt stórt. Það er líka orðatiltæki sem við Íslendingar notum. Þegar einn lítill bátur hleypir olíu í höfnina þar sem hann liggur þá er hann bara að bæta í einn stóran og mikinn mengunarsjóð sem við þurfum því miður að gera stórátak til að útrýma. Því styð ég þetta mál af heilum hug og vona að það nái í höfn.