Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 44 . mál.


Ed.

44. Frumvarp til laga



um norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Stofna skal norrænt fjármögnunarfélag samkvæmt samningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns fjármögnunarfélags á sviði umhverfismála sem undirritaður var í Reykjavík 2. mars 1990.

2. gr.


     Sjóðurinn skal undanþeginn ákvæðum laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, svo og annarra laga er setja kunna hömlur á greiðslur í erlendum gjaldeyri eða gjaldeyrisviðskipti, að svo miklu leyti sem slík ákvæði hindra eða torvelda starfsemi sjóðsins eða efndir skuldbindinga hans.

3. gr.


     Sjóðurinn skal vera undanþeginn aðstöðugjaldi, landsútsvari, tekjuskatti og eignarskatti, svo og öðrum gjöldum sem lögð kunna að vera á tekjur, eignir eða veltu til ríkis eða sveitarfélaga.

4. gr.


     Lánssamningar, sem sjóðurinn er aðili að, skulu vera undanþegnir stimpilgjöldum og öðrum gjöldum hins opinbera.

5. gr.


     Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Það er nokkuð langt síðan Norðurlandaþjóðum var ljóst að nauðsynlegt mundi að grípa til ráðstafana til að draga úr umhverfismengun frá löndum Austur-Evrópu.
     Snemma árs 1989 voru þessi mál sérstaklega rædd á fundi umhverfisráðherra Norðurlanda. Embættismannanefnd á vegum þeirra var falið að kanna hvernig standa mætti að ráðstöfunum til úrbóta með það í huga að nýta fjármagn frá Norðurlöndum í því skyni.
     Embættismannanefndin lagði fyrir ráðherranefndina í maímánuði 1989 tillögu um stofnun norræns fjármögnunarfélags á sviði umhverfisverndar sem hefði það að markmiði að stuðla að umhverfisbótum í Austur-Evrópu.
     Tillagan hlaut góðar undirtektir á fundum umhverfisráðherra og samstarfsráðherra sem haldnir voru í ágúst 1989 og sömuleiðis á aukaþingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn á Álandseyjum í nóvember sama ár.
     Var ákveðið að leggja tillöguna fyrir 38. þing Norðurlandaráðs, sem haldið var í Reykjavík dagana 27. febrúar til 2. mars 1990. Þar voru umhverfismál aðalviðfangsefnið eins og sjá má af því að fimm af tólf tillögum ráðherranefnda snertu þann málaflokk.
     Á meðal hinna fimm ofangreindu tillagna um umhverfismál var tillagan um fjármögnunarfélagið, en frá henni hafði verið endanlega gengið á fundum þeirra ráðherranefnda sem áður er getið.
     Norðurlandaráð féllst á tillöguna og 2. mars 1990 undirrituðu umhverfisráðherrar Norðurlanda samning um stofnun félagsins.
     Samningur um stofnun norræns fjármögnunarfélags á sviði umhverfisverndar er meðfylgjandi á fskj. I með frumvarpi þessu, en meðfylgjandi á fskj. II eru samþykktir fyrir norræna fjármögnunarfélagið á sviði umhvefisverndar.
     Þegar mál þetta kom til umræðu á öndverðu ári 1989 höfðu margháttaðar aðgerðir farið fram á Norðurlöndum til úrbóta í umhverfismálum sem engan veginn höfðu borið þann árangur sem að hafði verið stefnt. Því olli m.a. aðgerðarleysi í nágrannalöndum, ekki síst í Austur-Evrópulöndum, en þar fékkst lítið að gert.
     Eftir að sú þróun hófst í Austur-Evrópu, sem enn stendur yfir, hefur komið í ljós að umhverfismál þar eru í mun meiri ólestri en almennt var áður talið. Er ástæðulaust að rekja það frekar.
     Sem dæmi um áhrif þessarar mengunar frá Austur-Evrópu á Norðurlönd má nefna að talið er að sá hluti brennisteinssambanda í úrkomu á Norðurlöndum, sem kemur frá Austur-Evrópu, sé 22% í Danmörku, 40% í Finnlandi, 5% á Íslandi, 23% í Noregi og 34% í Svíþjóð. Þrjú Norðurlandanna fá meira af brennisteinssamböndum í úrkomu frá Austur-Evrópu en úr útblæstri eigin verksmiðja og orkuvera en heimaframleiðslan nemur 23% í Finnlandi, 7% í Noregi og 12% í Svíþjóð. Hluti köfnunarefnissambanda í úrkomu Norðurlanda, sem talinn er upprunninn í Austur-Evrópu, er enn hærri.
     Fjárhagsstaða Austur-Evrópulanda er með þeim hætti að fátt er til ráða. Sú hugmynd var rædd að stofna sérstakan norrænan sjóð sem hefði það hlutverk að greiða niður vexti af fjárfestingarlánum til umhverfisbóta, en frá þeirri hugmynd var horfið, enda væri takmarkað gagn í því að flytja hreinsibúnað til einstakra fyrirtækja.
     Almennt er nú viðurkennt að mestum árangri megi ná með því að koma á fót í Austur-Evrópu fyrirtækjum til að framleiða hreinsibúnað eða önnur tæki sem stuðla með öðrum hætti að umhverfisbótum. Með stofnun slíkra fyrirtækja er þess vænst að ná megi meiri árangri en ef fé væri lagt í hreinsibúnað einstakra orkuvera eða skolphreinsistöðva í þessum löndum.
     Því var það ákveðið að hlutverk fjármögnunarfélagsins væri að leggja fram hlutafé, ábyrgðir eða lán til samstarfsfyrirtækja norrænna aðila og heimamanna í landi því sem í hlut á. Þessi fyrirtæki gætu unnið að framleiðslu á hreinsibúnaði, verklegum framkvæmdum sem væru til umhverfisbóta, t.d. hitaveituframkvæmdum, og ýmiss konar ráðgjöf.
     Gengið er út frá því að hér verði um að ræða verkefni sem séu hvort tveggja, framkvæmanleg tæknilega og arðbær.
     Fyrst um sinn mun stuðningur fjármögnunarfélagsins bundinn við samstarfsfyrirtæki/verkefni í Austur-Þýskalandi, Póllandi, Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi, enda samræmist slíkur stuðningur hagsmunum Norðurlanda.
     Gert er ráð fyrir, að Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) í Helsinki sjái um rekstur fjármögnunarfélagsins. Peter Laurson, bankastjóri við NIB og yfirmaður alþjóðadeildar bankans, kynnti forsvarsmönnum ýmissa íslenskra fyrirtækja og stofnana, sem tengjast verkefnaútflutningi, undirbúning að stofnun fjármögnunarfélagsins á fundi í Reykjavík 26. febrúar 1990. Á fundinum var rætt um á hvern hátt íslensk fyrirtæki gætu tengst starfsemi fjármögnunarfélagsins. Fram kom að hitaveituframkvæmdir munu t.d. falla undir verksvið sjóðsins. Þannig geti fjármögnunarfélagið lagt fram hlutafé (áhættufjármagn) í sameignarfyrirtæki íslenskra aðila og heimamanna í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu, svo nokkuð sé nefnt, sem hafa það að markmiði að hanna og/eða koma á fót hitaveitum í Austur-Evrópu. Eins mun framleiðsla og uppsetning hreinsibúnaðar í verksmiðjur og fiskvinnslustöðvar falla undir verksvið fjármögnunarfélagsins.
     Stofnfé sjóðsins er 36 milljónir sérstakra dráttarréttinda (SDR) og skiptast framlög
Norðurlanda þannig:


    Danmörk          SDR
7
,8 millj.
    Finnland          SDR
7
,4 millj.
    Ísland          SDR
0
,4 millj.
    Noregur          SDR
7
,0 millj.
    Svíþjóð          SDR
13
,4 millj.

     Í fjárlögum Íslands fyrir 1990 var gert ráð fyrir framlagi Íslands, samkvæmt samningum 5,6 m.kr., og hefur það verið greitt eins og samningurinn áskilur.
     Um ákvæði frumvarpsins er þetta að segja að vegna 6. gr. samningsins virðist nauðsynlegt að fá lagaheimild fyrir þeim undanþágum sem þar greinir.
     Ákvæði 2. - 4. gr. frumvarpsins eru samhljóða ákvæðum í lögum nr. 14. frá 7. maí 1989, um Norrænan þróunarsjóð, og þurfa ekki skýringar við.



Fylgiskjal I.

SAMNINGUR


um stofnun norræns fjármögnunarfélags


á sviði umhverfisverndar.


     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem vilja stuðla að auknum fjárfestingum, sem samrýmast norrænum umhverfisverndarhagsmunum í Austur-Evrópu, sem lið í norrænu samstarfi á sviði umhverfismála, hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. gr.


     Norræna fjármögnunarfélagið á sviði umhverfisverndar, hér eftir nefnt félagið, er stofnað í þeim tilgangi að stuðla að auknum fjárfestingum, sem samrýmast norrænum umhverfisverndarhagsmunum í Austur-Evrópu, með því að fjármagna framkvæmdir fyrirtækja þar.


2. gr.


     Félagið er sjálfstæður lögaðili.

3. gr.


     Félagið skal rekið í samræmi við þær samþykktir sem fylgja samningi þessum. Samþykktum má breyta með ákvörðun norrænu ráðherranefndarinnar.

4. gr.


     Aðilarnir leggja félaginu til stofnfé. Kveðið er á um upphæð stofnfjár, skiptingu þess, greiðslu og hækkun á stofnfjárframlagi í 2. gr. samþykkta félagsins.

5. gr.


     Starfsstöð félagsins skal vera á aðalskrifstofu Norræna fjárfestingarbankans.

6. gr.


         Félagið skal undanþegið greiðslu- og gjaldeyrishömlum og ráðstöfunum á lánsfjármarkaði sem komið gætu í veg fyrir eða torveldað starfsemi þess.
     Eignir og tekjur félagsins skulu undanþegnar skattlagningu.
     Að því er fjármögnunarstarfsemina varðar skal félagið undanþegið stimpilgjöldum og öðrum gjöldum til hins opinbera.

7. gr.


     Norræna ráðherranefndin skal eigi síðar en 1. janúar 1996 taka afstöðu til áframhaldandi starfsemi félagsins.
     Ef norræna ráðherranefndin ákveður að slíta félaginu skal það gert í samræmi við ákvæði í 10. gr. samþykkta félagsins.

8. gr.


     Samningurinn og samþykktirnar, sbr. 3. gr., öðlast gildi 30 dögum eftir þann dag sem allir aðilar hafa tilkynnt finnska utanríkisráðuneytinu að þeir hafi samþykkt samninginn.
     Finnska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum aðilum um móttöku þessara tilkynninga og um það hvenær samningurinn tekur gildi.

9. gr.


     Eftir 1. janúar 1996 getur hver aðili sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu þar að lútandi til finnska utanríkisráðuneytisins sem skýrir öðrum aðilum og stjórn félagsins frá móttöku tilkynningarinnar og efni hennar.
     Uppsögnin gildir aðeins gagnvart þeim aðila sem hana hefur sent og tekur gildi við lok þess reikningsárs sem uppsögnin var send á, að því tilskildu að hún hafi átt sér stað í síðasta lagi fyrir lok júnímánaðar, en annars tekur hún gildi við lok næsta reikningsárs.
     Taki norræna ráðherranefndin ekki ákvörðun um að slíta félaginu, eftir að aðili hefur sent uppsögn, skal hún ákveða, áður en uppsögnin tekur gildi, hvernig staðið skuli að uppgjöri félagsins gagnvart þeim sem gengur úr því. Við uppgjörið skal ganga tryggilega frá því að sá, sem gengur úr félaginu beri ásamt hinum aðilunum ábyrgð á skuldbindingum sem á því hvíla við úrsögn hans.

10. gr.


     Frumriti samningsins skal komið til vörslu hjá finnska utanríkisráðuneytinu sem skal senda staðfest afrit hans til hinna aðilanna.
     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

     Gjört í Reykjavík 2. mars 1990 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og skulu allir textar jafngildir.

Fylgiskjal II.


SAMÞYKKTIR


fyrir norræna fjármögnunarfélagið á sviði umhverfisverndar.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa með samningi 2. mars 1990 ákveðið að stofna norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar.
     Um félagið gildir eftirfarandi:

Markmið.


1. gr.


     Markmið norræna fjármögnunarfélagsins á sviði umhverfisverndar, hér eftir nefnt félagið, er að stuðla að auknum fjárfestingum, sem samrýmast norrænum umhverfisverndarhagsmunum í Austur-Evrópu, með því að fjármagna framkvæmdir fyrirtækja þar.
     Heiti félagsins á ensku er Nordic Environment Finance Corporation (NEFCO).

Stofnfé félagsins.


2. gr.


     Stofnfé félagsins er 36 milljónir sérstakra dráttarréttinda (SDR), og skiptist það sem hér segir: Hluti danska ríkisins er 7,8 milljónir SDR, finnska ríkisins 7,4 milljónir SDR, íslenska ríkisins 0,4 milljónir SDR, norska ríkisins 7 milljónir SDR og sænska ríkisins 13,4 milljónir SDR.
     SDR skulu skilgreind í samræmi við þær reglur um samsetningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ákvað frá og með 1. janúar 1981. Verði breyting á þeim reglum fylgir félagið þeirri ákvörðun sem stjórn Norræna fjárfestingarbankans tekur um aðlögun bankans að hinum nýju reglum.
     Félagið fær stofnféð til ráðstöfunar vaxtalaust.
     Stofnféð greiðist félaginu í hlutagreiðslum eftir tilmælum stjórnar félagsins. Fyrsta greiðslan greiðist eigi síðar en 1. október 1990.
     Greiðslur fara fram í gjaldeyri viðkomandi lands eða öðrum skiptanlegum gjaldeyri á því gengi sem gildir fyrir SDR á greiðsludegi.
     Norræna ráðherranefndin tekur ákvörðun um aukningu stofnfjár að fengnum tillögum stjórnar félagsins. Skipting stofnfjáraukningar á milli landanna fer eftir þeirri reiknireglu sem á hverjum tíma gildir um skiptingu samnorrænnar fjármögnunar.

Starfsemi.


3. gr.


     Félagið fjármagnar framkvæmdir fyrirtækja í Austur-Evrópu í tengslum við norræn fyrirtæki, með sameign, yfirfærslu tækniþekkingar eða með annars konar samvinnu, vinnu að verkefnum er beinast að gerð mengunarvarnabúnaðar eða að annarri hagnýtingu sem byggist á umhverfisverndartækni við framleiðslu eða veita þjónustu á sviði umhverfisverndar.
     Félagið getur í þessu skyni gerst hluthafi eða meðeigandi í slíku fyrirtæki, ásamt því að veita slíku fyrirtæki lán og ábyrgðir á viðskiptagrundvelli. Heimilt er að veita lán með sérstökum kjörum, þ.e. lán sem endurgreiðist og ber vexti í samræmi við þær tekjur sem af framkvæmdinni verða.
     Skilyrði er að verkefni séu tæknilega framkvæmanleg og arðbær. Forgangur skal veittur verkefnum sem miklu máli skipta fyrir umhverfisvernd á Norðurlöndum.
     Félagið getur og gert aðrar þær ráðstafanir sem tengjast starfsemi þess.

4. gr.


     Ráðstöfunarfé félagsins ber að ávaxta tryggilega og vaxtatekjur af því ásamt hagnaði af starfseminni skal nota til rekstrar félagsins. Ef stjórn félagsins ákveður er félaginu heimilt að greiða aðildaríkjunum arð.

5. gr.


     Bókhald félagsins skal færa í SDR. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
     Ársskýrslu félagsins og ársreikning skal senda norrænu ráðherranefndinni.

Stjórn.


6. gr.


     Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum og skipar hvert ríki einn stjórnarmann til allt að sex ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Stjórnin velur úr sínum hópi formann og varaformann til eins árs í senn. Fulltrúar ríkjanna skiptast á um formennsku og varaformennsku í stjórninni.
     Stjórnin er ályktunarfær þegar formaður eða varaformaður og þrír stjórnarmenn eða atkvæðisbærir varamenn hið minnsta eru viðstaddir. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði en varamaður fer því aðeins með atkvæði að aðalmaður sé fjarverandi. Til ákvörðunar þarf atkvæði meiri hluta þeirra sem eru á fundi. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns.
     Stjórnin kemur saman eftir ákvörðun formanns eða eftir tilmælum minnst tveggja stjórnarmanna eða Norræna fjárfestingarbankans.
     Stjórnin getur sér sjálf starfsreglur.
     Norræni fjárfestingarbankinn og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar taka þátt í stjórnarfundum án atkvæðisréttar.

7. gr.


     Stjórnin tekur ákvarðanir í öllum málum, sem varða félagið, en hún getur framselt ákvörðunarvald sitt að svo miklu leyti sem hagkvæmt þykir til Norræna fjárfestingarbankans, sem sér um daglegan rekstur félagsins í samræmi við reglur sem félagið og bankinn gera samkomulag um.

8. gr.


     Firma félagsins rita tveir eftirtalinna manna: Stjórnarmenn, varamenn þeirra eða þeir sem stjórnin hefur veitt umboð til þess.



Önnur ákvæði.


9. gr.


     Eftirlitsnefnd skal gæta þess að starfsemi félagsins sé í samræmi við samþykktir þess. Nefndin ber ábyrgð á endurskoðun reikninga og skilar árlega endurskoðunarskýrslu til norrænu ráðherranefndarinnar.
     Eftirlitsnefnd er hin sama og norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa kjörið til að hafa eftirlit með starfsemi Norræna fjárfestingarbankans.

10. gr.


     Norræna ráðherranefndin getur tekið ákvörðun um breytingar á samþykktum félagsins eða viðbót við þær. Ráðherranefndin skal í síðasta lagi 1. janúar 1996 taka afstöðu til áframhaldandi starfsemi félagsins.
     Ákveði norræna ráðherranefndin að slíta félaginu útnefnir hún menn til að sjá um slitin.
     Slit félagsins með endurgreiðslu eða annarri ráðstöfun eigna félagsins getur ekki orðið fyrr en félagið er laust við skuldbindingar.