Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1990. -- 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. -- 104 . mál.




Ed.

108. Frumvarp til laga



um skipti á dánarbúum o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)




1. ÞÁTTUR


Almenn ákvæði um skipti dánarbúa.


I. KAFLI

Lögsaga við skipti dánarbúa o.fl.

1. gr.

    Eftir fyrirmælum laga þessara skal skipta dánarbúum eftir þá menn sem áttu lögheimili eða höfðu annars fasta búsetu hér á landi á dánardægri, nema skiptin fari fram í öðru ríki eftir reglum þjóðaréttar eða ákvæðum samnings sem íslenska ríkið hefur gert við annað ríki og hefur lagagildi hér á landi.
    Ákvæði laga þessara taka einnig til skipta eftir íslenska ríkisborgara þótt þeir hafi ekki átt lögheimili eða haft fasta búsetu hér á landi á dánardægri ef dánarbúinu verður ekki skipt í því ríki þar sem sá látni var þá heimilisfastur.

2. gr.

    Þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.
    Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim látna þegar hann lést, nema réttarreglur eða löggerningar kveði á um brottfall þeirra eða það leiði af eðli þeirra. Við andlát falla enn fremur á dánarbú þær fjárhagslegu skyldur sem sá látni hefur lagt á það með erfðaskrá eða öðrum dánargerningi.
    Dánarbú nýtur hæfis til að eiga og öðlast réttindi og hæfi þess til að bera og baka sér skyldur helst þar til skiptum þess lýkur endanlega eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum.

3. gr.

    Dánarbúi skal skipta í því umdæmi þar sem sá látni átti lögheimili á dánardægri. Hafi hann ekki átt lögheimili hér á landi skulu skipti fara fram í því umdæmi þar sem hann átti fastan dvalarstað á dánardægri en hafi hann engan slíkan dvalarstað átt þá í því umdæmi þar sem hann lést. Hafi maki látna fengið leyfi til setu í óskiptu búi ræðst umdæmi með sama hætti af lögheimili makans, dvalarstað eða eftir atvikum dánarstað hvort sem skipti fara fram að honum lifandi eða skipt er búi eftir bæði hjónin.
    Rísi ágreiningur um það í hverju umdæmi skipti fari fram eða þyki það annars óvíst skal leita ákvörðunar dómsmálaráðherra um það.
    Sá sem æskir skipta hér á landi eftir 2. mgr. 1. gr. skal leita ákvörðunar dómsmálaráðherra um það í hverju umdæmi skiptin geti farið fram.

4. gr.

    Dómsmál verður ekki höfðað í héraði gegn dánarbúi nema svo sé fyrir mælt í lögum eða um opinbert mál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem má ákvarða á hendur dánarbúi. Má þá höfða málið í þeirri þinghá þar sem skiptin fara fram.
    Halda má máli til dóms sem hefur verið höfðað á hendur þeim látna en dómur ekki gengið í fyrir lát hans ef þær skyldur, sem málið varðar, falla á dánarbúið og þeim sem fer með forræði dánarbúsins er tilkynnt um málið. Tekur dánarbúið þá við aðild málsins en ella fellur það niður hvað þann látna og búið varðar.
    Kröfu um aðför, kyrrsetningu, lögbann, löggeymslu, nauðungarsölu eða gjaldþrotaskipti verður ekki komið fram gegn dánarbúi nema að því leyti sern heimilað er í lögum þessum.

II. KAFLI

Tilkynning um andlát og fyrstu aðgerðir skipta.

5. gr.

    Þegar maður er látinn og skipti eftir hann fara fram hér á landi skal svo fljótt sem verða má tilkynna andlátið sýslumanni eða umboðsmanni hans. Að öðru jöfnu skal tilkynnt í því umdæmi þar sem ætla má að dánarbúinu verði skipt eftir ákvæðum 3. gr. Sýslumaður eða umboðsmaður hans lætur tilkynnanda í té vottorð um að skyldu þessari hafi verið fullnægt.
    Skylda til að tilkynna andlát hvílir jafnt á þeim sem getur átt lögerfðarétt eftir þann látna og þeim sem hefur vitneskju um bréferfðarétt sinn eftir hann. Sé um engan slíkan að ræða skal sá tilkynna andlát sem hefur átt heimili með þeim látna, en ella sá sem hlutast til um útför hans. Ef enginn slíkur er heldur fyrir hendi skulu yfirvöld, sem hafa afskipti af málum þess látna, tilkynna andlátið. Heimilt er öðrum að tilkynna andlát, en sýslumanni er ætíð rétt að synja um afhendingu vottorðs skv. 1. mgr. ef sá sem gefur sig fram í því skyni getur ekki veitt þær upplýsingar sem um ræðir í 7. gr. og ætla má að engin veruleg hindrun sé í vegi fyrir að annar maður, sem það getur, tilkynni fremur andlátið.
    Útför þess látna má ekki fara fram fyrr en prestur eða annar sá, sem hana annast, fær í hendur vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt.

6. gr.

    Sýslumanni eða umboðsmanni hans er því aðeins heimilt að taka við andlátstilkynningu og gefa vottorð um hana að framvísað sé einhverju eftirtalinna sönnunargagna um andlátið:
     1.      dánarvottorði sem hefur verið gefið út af lækni hér á landi,
     2.      annars konar embættisvottorði útgefnu hér á landi af þeim sem er bær vegna opinberra starfa sinna um að votta andlátið,
     3.      lögregluskýrslu sem hefur verið gerð hér á landi og staðfestir andlátið,
     4.      dómi uppkveðnum hér á landi um lát horfins manns,
     5.      dómsúrskurði uppkveðnum hér á landi um að skipta megi eftir horfinn mann sem hann væri látinn.
    Sýslumanni eða umboðsmanni hans er enn fremur heimilt að taka við andlátstilkynningu og gefa vottorð um hana ef samsvarandi erlendu sönnunargagni er framvísað fyrir andlátinu, enda telji hann ekki ástæðu til að draga sönnunargildi þess í efa. Hafi sá sem tekur við andlátstilkynningu ekki næga kunnáttu í hlutaðeigandi tungumáli er honum rétt að krefja tilkynnanda um þýðingu á erlendu sönnunargagni.

7. gr.

    Þegar andlát er tilkynnt skal leitað sem gleggstra upplýsinga hjá tilkynnanda um atriði sem varða þann látna og þá einkum um:
     1.      hvort rétt sé farið með atriði um þann látna í því sönnunargagni fyrir látinu sem er framvísað,
     2.      hverjir geti talið til lögerfðaréttar eftir þann látna og hvar þeir séu niður komnir,
     3.      hvort tilkynnanda sé kunnugt um erfðagerning þess látna og ef svo er hvar hann sé varðveittur og hvers efnis hann sé í meginatriðum,
     4.      hverjar séu helstu eignir sem sá látni láti eftir sig og hver hafi þær í vörslum sínum eða umsjón með þeim,
     5.      hvort sá látni hafi verið í hjúskap eða óvígðri sambúð eða haft leyfi til setu í óskiptu búi.
    Tilkynnandi skal greina frá nafni sínu, kennitölu og heimilisfangi og upplýsa hver þau tengsl hans hafi verið við þann látna eða málefni hans sem valdi því að hann tilkynni andlátið.
    Að því leyti sem tilkynnanda er það fært er honum skylt að veita sýslumanni eða umboðsmanni hans upplýsingar um þau atriði sem hann er krafinn svara um samkvæmt framansögðu.
    Heimilt er sýslumanni eða umboðsmanni hans að gefa vottorð um móttöku andlátstilkynningar en veita tilkynnanda skamman frest til að mæta á ný eða senda annan í sinn stað til að gefa upplýsingar um þau atriði sem getið er í 1. mgr.
    Sýslumanni eða umboðsmanni hans er eftir atvikum rétt að leiðbeina tilkynnanda um hvernig staðið verði að búskiptum og fela honum að kynna það öðrum hlutaðeigendum.

8. gr.

    Hafi umboðsmaður sýslumanns tekið við andlátstilkynningu skal hún send sýslumanni svo fljótt sem verða má.
    Telji sýslumaður sem hefur tekið við andlátstilkynningu að skipti eigi að fara fram í öðru umdæmi skal hann án ástæðulauss dráttar senda hana sýslumanni þar. Sýslumanni er þó rétt að leita áður ákvörðunar dómsmálaráðherra skv. 2. mgr. 3. gr. ef honum þykir ástæða til.

9. gr.

    Þegar andlátstilkynning hefur borist þeim sýslumanni sem skiptin eiga undir getur hann andlátsins og þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í dánarskrá.
    Um form og efni dánarskrár, svo og gerðabókar sem sýslumaður færir eftir lögum þessum, fer eftir nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Upplýsingar má ekki veita úr dánarskrá eða gerðabók sýslumanns nema sá sem æskir þeirra hafi lögvarða hagsmuni af því að fá þær.
    Hafi sá sýslumaður, sem skiptin eiga undir, annarra hagsmuna að gæta af þeim en varða embætti hans eða sé hann svo skyldur eða mægður erfingja eða öðrum sem hefur verulega hagsmuni af skiptunum að hann væri vanhæfur til að vera dómari í einkamáli sem sá ætti aðild að skal hann tilkynna það dómsmálaráðherra án tafar eftir að andlátstilkynning hefur borist honum, nema skiptum hafi þá þegar verið lokið skv. 25. gr. Skipar þá ráðherra annan löghæfan mann til að annast störf sýslumanns við skiptin en þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun ráðherra úr ríkissjóði.

10. gr.

    Hafi ónógar upplýsingar komið fram um eignir þess látna eða erfðaréttindi eftir hann skal sýslumaður ekki síðar en mánuði eftir að andlát var tilkynnt leita vitneskju um þau efni.
    Skylt er tilkynnanda andláts eða öðrum, sem sýslumaður telur eftir því sem fram erkomið að geti veitt frekari upplýsingar um eignir þess látna eða erfðaréttindi eftir hann, að verða við kvaðningu um að koma á fund sýslumanns og veita þær upplýsingar sem honum er kostur. Heimilt er sýslumanni að fela umboðsmanni sínum eða öðrum sýslumanni að kveðja hann á sinn fund ef hentugra þykir.
    Opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum og sýslunarmönnum, svo og viðskiptabönkum og sparisjóðum, er skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst. Það sama á við um aðra sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

11. gr.

    Frá því andlát ber að höndum og þar til skiptum er lokið skv. 25. eða 26. gr., eftirlifandi maka látna er veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum er veitt leyfi til einkaskipta eða dánarbúið er tekið til opinberra skipta er sá sýslumaður sem skiptin eiga undir einn bær um að ráðstafa hagsmunum dánarbúsins og svara fyrir skyldur þess.
    Á þeim tíma, sem sýslumaður fer með forræði dánarbús skv. 1. mgr., skulu ekki gerðar ráðstafanir um hagsmuni þess nema þær séu nauðsynlegar til að varna tjóni eða til að tryggja varðveislu eigna þess, sbr. 16. gr. Sýslumanni er þó rétt að láta af hendi fjármuni búsins eða heimila ráðstöfun þeirra til að standa straum af kostnaði við útför þess látna.
    Ráðstafana, sem sýslumaður grípur til skv. 2. mgr., skal getið í gerðabók hans eða dánarskrá.

12. gr.

    Ekki er nauðsyn að krefja þann sem gefur sig fram við skiptin og kveður sig vera lögerfingja eftir þann látna um sannanir fyrir skyldleika eða tengdir við þann látna, nema aðrir lögerfingjar rengi eða sérstakt tilefni þyki annars til að draga frásögn hans í efa. Sá sem styður erfðarétt við erfðaráðstöfun þess látna skal framvísa löggerningi hans.
    Sá sem gefur sig fram við skipti og tjáir sig hafa umboð til að koma fram af hálfu erfingja skal sanna það með skriflegu umboðsskjali, undirrituðu af erfingjanum og vottuðu af tveimur vitundarvottum, lögbókanda eða hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni. Sé ekki getið sérstakra takmarkana á umboði skal litið svo á að það nái til sérhverra ráðstafana og yfirlýsinga af hálfu erfingjans varðandi búskiptin.

13. gr.

    Ef erfingi þess látna er ófjárráða vegna æsku eða hefur verið sviptur fjárræði eða sjálfræði og lögráðamaður hans hefur sjálfur hagsmuna að gæta af skiptunum skal sýslumaður skipa erfingjanum sérstakan lögráðamann til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin.
    Nú er fjárráða erfingi ófær um að gæta hagsmuna sinna við skiptin vegna heilsufars síns og horfur eru ekki á að breyting verði þar á í bráð og getur þá sýslumaður skipað erfingjanum málsvara til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin ef ætla má að sú ráðstöfun geti orðið til að komist verði hjá nauðsyn þess að erfinginn verði sviptur fjárræði.
    Ef vitað er um mann sem á rétt til arfs úr búi en ókunnugt er hvar hann er niður kominn og enginn gefur sig fram í umboði hans skal sýslumaður skipa erfingjanum málsvara sem kemur þá fram fyrir hans hönd við skiptin þar til erfinginn kann sjálfur að gefa sig fram eða umboðsmaður hans.
    Ákvæði lögræðislaga um hæfi og heimildir lögráðamanna taka til málsvara sem eru skipaðir erfingjum skv. 2. og 3. mgr.

14. gr.

    Þegar svo stendur á sem segir í 13. gr. skipar sýslumaður, sem skiptin eiga undir, hlutaðeigandi erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara svo fljótt sem verða má, nema talið verði að ljúka megi skiptum án þess að atbeina erfingjans verði þörf. Áður en skipun fer fram skal sýslumaður, eftir því sem við verður komið, leita tillagna aðstandenda erfingjans um það hverjum megi fela starfann.
    Ákvörðun sýslumanns um skipun sérstaks lögráðamanns eða málsvara skal skráð í gerðabók hans.
    Þóknun sérstaks lögráðamanns eða málsvara, ef áskilin er, skal ákveðin af sýslumanni og greiðast af arfi hlutaðeigandi erfingja.

15. gr.

    Telji sýslumaður ákvarðanir, athafnir eða yfirlýsingar sérstaks lögráðamanns eða málsvara, sem hefur verið skipaður skv. 14. gr., varhugaverðar fyrir hagsmuni erfingjans er honum rétt að veita lögráðamanninum eða málsvaranum áminningu og fyrirmæli um rækslu starfans. Fari sérstakur lögráðamaður eða málsvari ekki að fyrirmælum sýslumanns eða ef háttsemi hans er annars slík að sýslumaður telji áminningu ekki munu koma að haldi er sýslumanni rétt að víkja honum úr starfi og skipa annan mann í hans stað með bókun í gerðabók.
    Yfirlýsingar eða ráðstafanir lögráðamanns, sérstaks lögráðamanns eða málsvara sem eru gefnar eða gerðar við skiptin og geta bakað skjólstæðingi hans ábyrgð á skuldbindingum búsins eru því aðeins bindandi fyrir skjólstæðinginn að sýslumaður samþykki þær.
    Að því leyti sem lögráðamaður, sérstakur lögráðamaður eða málsvari þarf að gefa aðra yfirlýsingu eða gera aðra ráðstöfun í þágu skjólstæðings síns við skiptin en getur í 2. mgr. og afla þyrfti sérstaks samþykkis fyrir henni undir öðrum kringumstæðum eftir reglum um ráðstöfun hagsmuna ólögráða manna skulu þær bornar undir sýslumann til samþykkis.
    Ef opinber skipti fara fram fer skiptastjóri með það vald sem sýslumanni er falið í 2. og 3. mgr.

16. gr.

    Skylt er þeim sem hefur eign dánarbús í vörslum sínum eða hefur umsjón með henni að gæta hennar þar til annar hefur fengið heimild til umráða hennar vegna skiptanna. Fram að því er þó sýslumanni hvenær sem er rétt eftir kröfu erfingja eða ótilkvaddur að taka eign undir sína umsjón á kostnað búsins ef hann telur óbreytta skipan óviðeigandi eða ótrygga eða ef sá krefst sem fer með vörslur eignar eða hefur umsjón með henni, enda hafi sá kostnað, fyrirhöfn eða áhættu af eigninni.
    Hafi enginn með höndum gæslu eignar dánarbús skal sýslumaður taka hana undir umsjón sína á kostnað búsins svo fljótt sem verða má eftir að honum verða atvik kunn.
    Sýslumaður getur þeirra eigna í gerðabók sem hann tekur undir umsjón sína. Þær skulu metnar til peningaverðs samkvæmt því sem hér á eftir segir ef erfingi krefst.

17. gr.

    Meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta er erfingja heimilt að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Kröfu um þessar aðgerðir skal beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir og skal eftirfarandi tiltekið í henni svo skýrt sem verða má:
     1.      um hvert dánarbú sé að ræða og hver hafi kröfuna uppi,
     2.      hverjar eignir eða hvers konar sé krafist að verði skrásettar, að hverju marki sé krafist mats á þeim og hvar þær sé að finna,
     3.      hverjir aðrir séu erfingjar þess látna ásamt upplýsingum um heimilisföng þeirra.
    Hafi sá látni verið í óvígðri sambúð þegar hann lést er sambýlismanni hans heimilt að krefjast skrásetningar eigna dánarbúsins og mats á þeim þótt hann njóti ekki réttar til arfs eftir þann látna ef þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem getur í 100. gr. Nýtur hann þá sömu stöðu og erfingi samkvæmt ákvæðum 18.–24. gr.
    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést er erfingja heimilt að krefjast skrásetningar og mats á hjúskapareignum og séreignum maka hans. Erfingja er og heimilt að krefjast skrásetningar og mats á eignum sambýlismanns þess látna hafi hann verið í óvígðri sambúð þegar hann lést og þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem getur í 100. gr.

18. gr.

    Nú er krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum dánarbús og þær eru varðveittar utan umdæmis þess sýslumanns sem kröfunni er beint til og getur hann þá falið sýslumanninum í því umdæmi, þar sem eignirnar er að finna, að annast verkið.
    Sé þess krafist að eignir verði að einhverju leyti eða öllu metnar til verðs skal sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra er haldið. Ef krafist er mats á eign sem sérþekkingu þarf til að meta skal sýslumaður tilnefna sérfróðan mann. Heimilt er sýslumanni að tilnefna fleiri en einn matsmann og skipta með þeim verkum þannig að hver þeirra meti tilteknar eignir. Sýslumaður skal geta tilnefningar í gerðabók en hafi hlutaðeigandi ekki áður gegnt hlutverki matsmanns skal hann undirrita heit, sem sýslumaður varðveitir, um að hann muni gegna starfinu af samviskusemi og óhlutdrægni.
    Matsmenn skv. 2. mgr. bera skyldur sem opinberir starfsmenn og má tilnefna þá eina til starfans sem eru fjárráða og hafa forræði á búi sínu, óflekkað mannorð og þá almennu þekkingu sem þarf til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. Um hæfi þeirra til matsstarfa gilda ákvæði réttarfarslaga um hæfi matsmanna eftir því sem átt getur við.
    Heimilt er sýslumanni að fela matsmanni, umboðsmanni sínum eða öðrum starfsmanni að annast skrásetningu eigna.

19. gr.

    Sá sem annast skrásetningu eigna skal svo fljótt sem verða má ákveða hvar og hvenær hún fari fram eða byrji og tilkynna það þeim sem hefur krafist hennar. Öðrum erfingjum, sem vitað er um, skal einnig tilkynnt þetta með þeim fyrirvara að þeir geti verið viðstaddir ef því verður komið við án þess að verulegar tafir eða óhagræði hljótist af.
    Erfingjum, sem eru viðstaddir þegar skrásetning eigna fer fram, skal gefinn kostur á að tjá sig um atriði sem kunna að skipta máli, svo sem um tilvist eigna sem hefur ekki áður verið upplýst um og eignarrétt að einstökum munum.
    Áður en skrásetningu eigna er lokið samkvæmt kröfu sem hefur komið fram skv. 17. gr. getur erfingi krafist þess skriflega við þann sem annast hana að aðrar eignir verði einnig skráðar og eftir atvikum metnar til verðs. Þeim sem sýslumaður hefur falið að annast skrásetningu í byrjun er rétt að leysa verkið af hendi án þess að bera það undir sýslumann, nema tilnefna þurfi matsmann sérstaklega vegna kröfunnar eða eignirnar séu utan umdæmis hans.
    Vörslumanni eignar, sem hefur verið krafist skrásetningar á, er skylt að veita sýslumanni eða þeim sem hann felur verkið nauðsynlegan aðgang að henni í þessu skyni, nema sýslumaður telji sýnt að eignin hvorki tilheyri dánarbúinu né að efni séu til að skrásetja hana eftir 3. mgr. 17. gr. Sinni vörslumaður ekki skyldu til að veita aðgang að eign getur sýslumaður að kröfu þess sem hefur krafist skrásetningar eignarinnar kveðið á með bókun í gerðabók um dagsektir á hendur vörslumanni þar til hann láti af mótþróa sínum, en áður skal þó gefa vörslumanni kost á að tala máli sínu. Ákvörðun um dagsektir má fullnægja með aðför ogrenna þær í ríkissjóð.

20. gr.

    Við mat á eign til peningaverðs skal miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Hvíli höft á eign sem ætla má að standi áfram þótt eigendaskipti verði skulu þau metin til peningaverðs og miðað við staðgreiðslu mismunar á þeim og kaupverði.
    Heimilt er erfingja, hvort sem hann hefur sjálfur krafist mats á eign í öndverðu eða ekki, að krefjast þess að matsmaður meti að auki eign til verðs á öðrum tilteknum forsendum en þeim sem getur í 1. mgr. ef ætla má að slíkt mat hafi þýðingu fyrir hagsmuni hans við skiptin. Kröfu sem þessa skal að öðru jöfnu hafa uppi áður en hafist er handa um mat samkvæmt því sem í 1. mgr. segir.

21. gr.

    Þegar skrásetningu og mati á eignum er lokið skal sá sem annaðist verkið afhenda sýslumanni eignaskrá þar sem matsverðs eigna er getið eftir því sem hefur verið krafist. Í eignaskrá skal enn fremur getið hverjir hafi verið viðstaddir skrásetningu og hverjar athugasemdir þeir kunni að hafa haft uppi, sbr. 2. mgr. 19. gr.
    Sýslumaður varðveitir eignaskrá með öðrum skjölum sem varða skipti dánarbúsins. Þegar kostnaður af skrásetningu og mati hefur verið greiddur skal sýslumaður senda erfingjum, sem er vitað hvar megi finna, afrit eignaskrár í ábyrgðarpósti eða með öðrum sannanlegum hætti.

22. gr.

    Sá sem hefur krafist skrásetningar eignar og eftir atvikum mats á henni getur haft uppi aðfinnslur við sýslumann ef hann telur hana ranglega skráða eða að vanrækt hafi verið að skrá eða meta tiltekna eign. Komi aðfinnslur fram án ástæðulauss dráttar og telji sýslumaður þær á rökum reistar getur hann lagt fyrir þann sem annaðist skráningu eða mat að bæta úr.
    Vilji erfingi ekki una mati á eign sem kemur fram í eignaskrá er honum heimilt, meðan skiptum er ólokið og innan fjögurra vikna frá því að skránni var komið á framfæri við hann eða honum verður kunnugt um matið á annan hátt, að krefjast þess skriflega við sýslumann að yfirmat fari fram á tiltekinni eign, enda hafi annar erfingi ekki þegar krafist þess. Komi ekki fram krafa um yfirmat innan þess tíma er matið bindandi fyrir erfingja.
    Þegar krafa er komin fram um yfirmat tilnefnir sýslumaður tvo yfirmatsmenn samkvæmt því sem er mælt fyrir um í 2. og 3. mgr. 18. gr. Um störf yfirmatsmanna fer eftir 1. og 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr. eftir því sem átt getur við.
    Yfirmat bindur erfingja um verðgildi eignar að því leyti sem það hefur þýðingu við skiptin hvort sem þeir hafa átt þess kost á að gæta hagsmuna sinna við það eða ekki.
    Ef leggja á erfingjum út eignir á grundvelli matsverðs og meira en þrír mánuðir líða frá því mats var aflað á eignum þar til skiptum lýkur skal hækka matsverð hverrar eignar sem nemur meðaltali hæstu vaxta af innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum frá matsdegi, nema erfingjar semji um annað. Eins skal farið að ef maki þess látna hyggst leysa til sín eignir umfram búshluta og arfshluta og meira en þrír mánuðir líða frá öflun mats þar til hann greiðir innlausnarverð.

23. gr.

    Sýslumaður ákveður hvað skuli greiða fyrir skrásetningu eigna og mat á þeim, þar á meðal þóknun og ferðakostnað þess sem hann hefur kvatt til að leysa starfann af hendi. Hafi maður verið ráðinn til þessa starfs í eitt skipti fyrir öll rennur þóknunin í ríkissjóð.
    Sá sem hefur krafist skrásetningar eignar, mats á henni eða yfirmats ábyrgist greiðslu kostnaðar sem sýslumaður ákvarðar. Sýslumanni er heimilt að áskilja tryggingu fyrir greiðslu áður en nokkuð verður aðhafst vegna kröfunnar.
    Þeim sem greiðir kostnað af skrásetningu og mati er rétt að krefja dánarbúið um endurgreiðslu, nema aðgerðin sem fór fram verði talin hafa verið þýðingarlaus eða bersýnilega ástæðulaus.

24. gr.

    Meðan sýslumaður fer með forræði dánarbús samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 11. gr. getur erfingi leitað skriflegrar heimildar hans til að krefjast upplýsinga hjá öðrum um eignir búsins og skuldastöðu þess. Skylt er þeim sem erfingi krefur upplýsinga í skjóli slíkrar heimildar að veita þær ef sýslumaður gæti krafist þeirra sjálfur skv. 3. mgr. 10. gr.

25. gr.

    Lýsi tilkynnandi andláts því yfir þegar andlát er tilkynnt að andvirði eigna dánarbús nemi ekki eftir bestu vitund hans meira en kostnaði af útför þess látna og sýslumaður telur ekki ástæðu til að draga réttmæti þeirrar yfirlýsingar í efa má sýslumaður ljúka skiptum þá þegar án frekari aðgerða með því að framselja þeim sem kostar útförina þær eignir sem liggja fyrir. Eins má fara að ef einhver sá, sem má telja að hafi næga yfirsýn yfir hag búsins, gefur sams konar yfirlýsingu síðar á þeim tíma sem sýslumaður fer með forræði þess skv. 1. mgr. 11. gr.
    Þegar andvirði eignar er ákvarðað skv. 1. mgr. skal tekið tillit til veðkrafna og annarra kvaða sem hvíla á henni en því aðeins er þá heimilt að ljúka skiptum með framsali eignar að sá sem tekur við henni taki einnig að sér efndir þeirra skuldbindinga.
    Ef fleiri en einn gefa sig fram við sýslumann áður en skiptum er lokið og lýsa yfir vilja sínum til að kosta útför þess látna gegn framsali eigna skal eftirlifandi maki eða sambýlismaður ganga fyrir öðrum, en því næst aðrir erfingjar. Fáist ekki niðurstaða þannig og samkomulag verður ekki um annað skal hlutkesti ráða.
    Þótt skiptum hafi verið lokið með framsali eigna getur erfingi, sem rökstyður fyrir sýslumanni að eignir kunni að hafa verið vantaldar, krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum skv. 17.–23. gr. Komi þannig í ljós að ekki hafi verið skilyrði til skiptaloka eða það verður uppvíst síðar með öðrum hætti skal sýslumaður taka skiptin upp á ný.
    Skiptalok samkvæmt þessari grein falla sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er tekið síðar til
opinberra skipta.

26. gr.

    Ef hvorki tilkynnandi andláts né aðrir, sem sýslumaður krefur svara um hag búsins, geta upplýst um neinar eignir þess en telja sig þó ekki hafa þá vitneskju að þeir geti gefið slíka yfirlýsingu sem getur í 1. mgr. 25. gr. og önnur athugun sýslumanns skv. 10. gr. leiðir engar eignir í ljós er sýslumanni heimilt að ljúka skiptum. Berist sýslumanni síðar vitneskja um eign búsins skal hann taka skiptin upp á ný.
    Komi fram upplýsingar með þeim hætti sem um ræðir í 1. mgr. um eignir sem má ætla að nemi þó ekki meira að andvirði en útfararkostnaði má sýslumaður ljúka skiptum með því að framselja þær þeim sem hefur kostað útför þess látna. Verði ekki uppvíst hver hafi kostað útför eða eignir eru annars svo óverulegar að þær svari ekki kostnaði af frekari aðgerðum getur sýslumaður komið þeim í verð og lokið skiptum með greiðslu andvirðis þeirra í ríkissjóð.
    Skiptalok samkvæmt þessari grein falla sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er tekið síðar til opinberra skipta.

27. gr.

    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést gilda reglur erfðalaga um heimildir til að ljúka skiptum með útgáfu leyfis handa maka hans til setu í óskiptu búi.
    Þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi er öðrum erfingjum heimilt að krefjast skrásetningar eigna og mats á þeim ef ætla má að þeir hafi hagsmuni af því til að staðreyna hvort þeir eigi rétt á að krefjast skipta vegna fjárstjórnar makans. Skal þá farið eftir fyrirmælum 17.–23. gr. eftir því sem átt getur við, að öðru leyti en því að búið verður ekki endurkrafið um kostnað skv. 3. mgr. 23. gr. nema til skipta komi af því tilefni.

28. gr.

    Á þeim tíma, sem sýslumaður fer með forræði búsins skv. 1. mgr. 11. gr., getur hann veitt erfingjum þess látna leyfi til einkaskipta ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      að erfingjar eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvarar óski allir eftir einkaskiptum í beiðni sem fullnægir ákvæðum 29. gr.,
     2.      að ekki sé óhjákvæmilegt að opinber skipti fari fram vegna fyrirmæla þess látna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 37. gr. og 39. gr.,
     3.      að erfingjar sanni erfðaréttindi sín fyrir sýslumanni að því leyti sem þess verður krafist eftir 1. mgr. 12. gr.,
     4.      að erfingjar lýsi yfir að þeim sé ekki kunnugt um að aðrir geti talið til arfs eftir þann látna, enda hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að ætla að svo geti verið,
     5.      að erfingjar hafi tekið að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku,
     6.      ef erfingi er ófjárráða eða honum hefur verið skipaður málsvari skv. 2. eða 3. mgr. 13. gr., að aðrir erfingjar ábyrgist að hann muni ekki þurfa að gjalda fyrir ábyrgð sína á skuldbindingum búsins umfram arfshluta sinn. Ef erfingjar eru allir ófjárráða eða þeim hafa öllum verið skipaðir málsvarar má í stað ábyrgðar annarra erfingja koma sams konar ábyrgð hvers lögráðamanns eða málsvara gagnvart skjólstæðingi sínum.

29. gr.

    Beiðni um leyfi til einkaskipta skal vera skrifleg og undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum. Í henni eða fylgigögnum með henni skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
     1.      hver sá látni hafi verið, kennitala hans, dánardagur og heimilisfang á dánardægri,
     2.      nöfn erfingja, kennitölur þeirra og heimilisföng, ásamt upplýsingum um grundvöll erfðaréttar hvers þeirra; getið skal umboðsmanna erfingja, lögráðamanna eða málsvara, ef því er að skipta,
     3.      hverjar séu eignir búsins og hvert verði talið andvirði hverrar þeirra eftir þeim reglum sem gilda um ákvörðun gjaldstofna til greiðslu erfðafjárskatts, en þó má tiltaka heildarsafn muna í einu lagi ef verðgildi einstakra muna er óverulegt. Hafi eignir verið skrásettar og eftir atvikum metnar til verðs skv. 17.–23. gr. má vísa til eignaskrár um þau atriði sem hún geymir upplýsingar um,
     4.      hverjar og hvers efnis einstakar skuldbindingar búsins séu, þar á meðal við gjafþega,
     5.      yfirlýsingar um atriði sem eru talin í 28. gr. eftir því sem þörf krefur,
     6.      að erfingjar muni hlíta þeim skilyrðum sem sýslumaður kann að setja fyrir heimild þeirra til einkaskipta, sbr. 31. gr.
    Séu erfingjar fleiri en einn er þeim rétt að tilnefna í beiðni sinni einn eða fleiri úr sínum hópi eða annan tiltekinn mann sem má beina tilkynningum til í þágu búsins. Í beiðni má einnig tilnefna erfingja eða annan mann og veita honum eða þeim heimild til að gera tilteknar ráðstafanir í nafni búsins um hagsmuni þess. Sé annar tilnefndur í þessu skyni en erfingi skal hann rita samþykki sitt fyrir því á beiðnina.
    Með beiðni um leyfi til einkaskipta skulu fylgja, eftir því sem átt getur við, erfðagerningur þess látna, kaupmáli eða annars konar samningur um fjármál hjóna eða sambýlisfólks og önnur skjöl sem geta haft þýðingu með sambærilegum hætti fyrir skipti búsins eða réttindi annarra á hendur því.

30. gr.

    Sýslumaður kannar hvort skilyrði séu til að verða við beiðni um leyfi til einkaskipta svo fljótt sem verða má eftir að hún berst honum. Telji hann beiðninni í einhverju áfátt eða frekari upplýsingar skorta eða gögn getur hann veitt erfingjum tiltekinn frest til úrbóta.
    Byggi erfingjar, sem æskja leyfis til einkaskipta, rétt sinn til arfs á erfðaskrá þess látna er sýslumanni heimilt að neita að taka afstöðu til beiðninnar þar til þeir hafi kynnt þeim erfðaskrána sem gætu talið til lögerfðaréttar.
    Ef lögráðamaður eða málsvari kemur fram af hálfu erfingja og sýslumaður telur upplýsingar um eignir búsins eða skuldir ónógar getur hann lagt fyrir hlutaðeiganda að leita nánari vitneskju um efnahag búsins áður en afstaða verði tekin til beiðninnar, þar á meðal með því að fá eignir skrásettar og metnar eftir 17.–23. gr.
    Þótt yfirlýsing hafi komið fram skv. 6. tölul. 28. gr. um ábyrgð gagnvart erfingja sem lögráðamaður eða málsvari kemur fram fyrir við skiptin getur sýslumaður synjað um leyfi til einkaskipta ef hann telur hagsmunum erfingjans stefnt í hættu vegna ábyrgðar hans á skuldbindingum búsins eða neitað að taka afstöðu til beiðninnar nema lögð sé fram viðunandi trygging fyrir ábyrgð gagnvart erfingjanum.
    Hafi erfingjar tiltekið verðgildi eigna búsins að einhverju leyti eða öllu eftir eigin mati í beiðni sinni er sýslumanni heimilt að neita að verða við henni nema fengið sé mat á þeim eftir 17.–23. gr. ef hann telur slíkt mat nauðsynlegt til að erfðafjárskattur verði réttilega á lagður.
    Telji sýslumaður skilyrðum til að veita leyfi til einkaskipta ekki fullnægt eða telji hann sýnt að erfingjar muni ekki geta lokið skiptum innan hæfilegs tíma skal hann synja um leyfið, enda hafi tilmælum hans eða ábendingum skv. 1.–5. mgr. ekki verið sinnt ef því er að skipta. Erfingjar geta krafið sýslumann um stuttan skriflegan rökstuðning fyrir synjun hans.

31. gr.

    Þegar sýslumaður telur skilyrðum til einkaskipta fullnægt veitir hann erfingjum leyfi til þeirra með áritun sinni á beiðni þeirra eða með annarri skriflegri yfirlýsingu sem nægir erfingjum til að sýna fram á forræði sitt á dánarbúinu í lögskiptum við aðra.
    Við veitingu leyfis til einkaskipta skal sýslumaður ákvarða erfingjum frest til að ljúka skiptum sem skal að jafnaði ekki vera lengri en nemur einu ári frá andláti. Að auki er sýslumanni heimilt að skilyrða leyfi til einkaskipta með eftirfarandi hætti, ef hann telur efni til:
     1.      að erfingjar leggi fram innan tiltekins frests nánari upplýsingar um eignir búsins eða verðgildi þeirra eða afli mats á þeim skv. 17.–23. gr. ef það verður talið nauðsynlegt til álagningar erfðafjárskatts,
     2.      að lögráðamaður eða málsvari erfingja geri reglubundið grein fyrir framvindu skiptanna meðan á þeim stendur,
     3.      að erfingjar efni tilteknar gjaldfallnar skuldbindingar búsins eða þær allar eða setji tryggingu fyrir þeim innan ákveðins frests.
    Sýslumanni er heimilt að lengja frest til að ljúka einkaskiptum eftir skriflegri og rökstuddri beiðni erfingja ef hann telur óviðráðanleg atvik, sem erfingjum verður ekki gefin sök á, standa í vegi fyrir að skiptum verði lokið án frekari tafa.

32. gr.

    Ef skiptum hefur ekki verið lokið skv. 25. eða 26. gr., eftirlifandi maki hefur ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjar hafa ekki fengið leyfi til einkaskipta og krafa hefur ekki komið fram um opinber skipti á búinu innan fjögurra mánaða frá andláti skal sýslumaður skora bréflega á erfingja sem honum er kunnugt um að efna til einhverra þessara aðgerða innan tiltekins frests að því viðlögðu að hann muni ella krefjast opinberra skipta á búinu. Sýslumanni er þó heimilt að láta það hjá líða um sinn ef vænta má að erfingjar bæti úr innan skamms tíma, enda hafi þeir gert honum grein fyrir ástæðum þess að dráttur hafi orðið og hann telur erfingjum það afsakanlegt.

III. KAFLI

Sérstök réttindi erfingja við skipti dánarbúa.

33. gr.

    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést getur maki hans krafist þess að fá til eignar muni sem ella hefðu talist til eigna dánarbúsins skv. 1. mgr. 2. gr. ef þeir eru honum nauðsynlegir til að leggja áfram stund á atvinnu sína eða menntun eða þeirra hefur aðallega eða eingöngu verið aflað til afnota hans og eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      að verðgildi munanna sé ekki slíkt að afhending þeirra verði talin ósanngjörn gagnvart öðrum erfingjum eða skuldheimtumönnum þess látna,
     2.      að sá látni hafi ekki ráðstafað mununum sérstaklega á annan veg með erfðaskrá,
     3.      að makinn taki að sér skuldbindingar sem hvíla á mununum eða hafa orðið til vegna öflunar þeirra.
    Maki þess látna getur krafist þess við skiptin að ekki verði tekið tillit til eigna sinna sem ákvæði 1. mgr. geta átt við.
    Börn þess látna, stjúpbörn eða fósturbörn sem áttu heimili hjá honum og voru á framfæri hans þegar hann lést, njóta réttar skv. 1. mgr. að maka hans frágengnum.

34. gr.

    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést fer um vörslur eigna dánarbúsins og maka hans, afnot af þeim og rétt til að ráðstafa þeim eftir ákvæðum 107. og 108. gr. að því leyti sem átt getur við.
    Fjárslit milli dánarbúsins og maka þess látna skulu fara eftir því sem segir í 109. gr.

35. gr.

    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést er maka hans heimilt að leysa til sín einstakar eignir dánarbúsins eða þær allar, hvort sem þær voru hjúskapareignir þess látna eða séreignir í lifanda lífi, gegn greiðslu til búsins á því sem hann á ekki tilkall til af matsverði þeirra að arfi og búshluta, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum á annan veg með erfðaskrá.
    Að því leyti sem greiðslu frá maka skv. 1. mgr. yrði varið til arfs ófjárráða niðja þess látna getur makinn krafist þess að fá gjaldfrest á greiðslu til þeirra þar til hver þeirra um sig verði fjárráða. Ákvæði lögraeðislaga um lán af fé ófjárráða manna taka að öðru leyti til skilmála og trygginga eftir því sem átt getur við.

36. gr.

    Að því leyti sem maki þess látna neytir ekki réttar skv. 35. gr. getur hver erfingi um sig krafist þess að fá útlagðar eignir búsins eftir matsverði til greiðslu arfs, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum sérstaklega með erfðaskrá. Með sama hætti getur maki krafist þess að fá eignir lagðar sér út upp í búshluta hvort sem þær voru hjúskapareignir þess látna eða séreignir.
    Krefjist fleiri erfingjar en einn að fá sömu eign lagða sér út gengur maki alltaf fyrir öðrum erfingjum, en ella ræður hlutkesti. Verði talið að eignin hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja öðrum fremur skal hann þó ganga fyrir um útlagningu, en eigi það við um fleiri erfingja en einn skal hlutkesti milli þeirra ráða.

2. ÞÁTTUR


Opinber skipti á dánarbúum.


IV. KAFLI

Upphaf opinberra skipta.

37. gr.

    Verði skiptum ekki lokið samkvæmt því sem segir í 25.–27. gr. skal sýslumaður krefjast opinberra skipta á dánarbúi svo fljótt sem eitthvað eftirfarandi liggur fyrir og þær upplýsingar hafa komið fram sem eru nauðsynlegar til að gera kröfuna skv. 42. gr.:
     1.      hafi sá látni mælt fyrir um opinber skipti í erfðaskrá eða tilnefnt þar ákveðinn mann til að annast skiptin,
     2.      hafi ekki verið upplýst um neinn erfingja þannig að ætla megi að arfur muni falla til ríkisins,
     3.      sé vafi um hverjir geti kallað til arfs úr búinu sem sýslumaður telur ekki verða greitt úr með öðrum hætti,
     4.      hafi erfingi látið uppi við sýslumann slíka afstöðu til atriðis sem getur í 28. gr. að hún girði fyrir að skilyrði geti orðið til einkaskipta,
     5.      hafi sýslumaður hafnað beiðni um leyfi til einkaskipta eða fellt slíkt leyfi niður,
     6.      hafi erfingjar ekki orðið við áskorun skv. 32. gr.

38. gr.

    Hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.–27. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta ef erfingi krefst þess hvort sem leyfi hefur áður verið veitt til einkaskipta eða ekki.
    Þótt skiptum hafi verið lokið skv. 25. eða 26. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta samkvæmt kröfu erfingja hvort sem sýslumaður hefur tekið skiptin upp á ný eða ekki ef sýnt er fram á að skilyrði hafi ekki verið til að ljúka skiptum með þeim hætti sem var gert.
    Þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi getur erfingi krafist þess að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta hafi hann heimild til þess eftir ákvæðum erfðalaga.
    Sá sem hefur verið í óvígðri sambúð með látna þegar hann lést getur krafist opinberra skipta með sama hætti og erfingi skv. 1. og 2. mgr. ef þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem koma fram í 100. gr.

39. gr.

    Verði skiptum ekki lokið skv. 25.–27. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta eftir kröfu þess sem hefur verið tilnefndur í erfðaskrá þess látna til að annast skiptin.

40. gr.

    Hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.–27. gr. og erfingjar ekki fengið leyfi til einkaskipta innan sex mánaða frá andláti má taka dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á gjaldfallna kröfu á hendur búinu.
    Þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta má hvenær sem er, meðan þeim er ólokið, taka dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á gjaldfallna kröfu á hendur búinu ef báðum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      að sýnt sé fram á að framferði erfingja eða ráðstafanir þeirra á hagsmunum búsins séu með þeim hætti að sérstök hætta sé á að krafan fáist ekki efnd með öðru móti,
     2.      að áður hafi verið skorað á erfingja að efna kröfuna og þeim verið veittur sanngjarn frestur til þess í ljósi atvika.
    Taka má dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á kröfu á hendur því þótt skiptum hafi áður verið lokið skv. 25. eða 26. gr., sýni hann fram á að ekki hafi verið skilyrði til að ljúka skiptum með þeim hætti sem var gert, enda eigi hann ekki önnur úrræði til að fá kröfu sinni fullnægt.

41. gr.

    Þótt svo standi á sem segir í 38.–40. gr. verður dánarbú því aðeins tekið til opinberra skipta að áður sé leitt í ljós að andvirði eigna þess hrökkvi fyrir kostnaði af skiptunum eða sá sem krefst skiptanna hafi sett tryggingu fyrir kostnaðinum.
    Sá sem krefst opinberra skipta ber ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar þótt trygging fyrir honum hafi ekki verið áskilin í byrjun.
    Krefjist sýslumaður opinberra skipta skv. 37. gr. greiðist kostnaður af þeim úr ríkissjóði ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir honum.

42. gr.

    Kröfu um opinber skipti skal beint skriflega til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      hver sá látni hafi verið og eftir atvikum hvort skiptum hafi áður verið lokið skv. 25.–27. gr. eða erfingjum verið veitt leyfi til einkaskipta,
     2.      nafn, kennitala og heimilisfang þess sem krefst opinberra skipta og á hverju hann byggi rétt sinn til þess,
     3.      hverjir séu líklegir eftir fyrirliggjandi upplýsingum til að hafa uppi kröfu um arf eftir þann látna og hvar verði náð til þeirra, umboðsmanna þeirra, lögráðamanna eða málsvara,
     4.      hverjar þekktar eignir búsins séu í helstu atriðum og hverjar þær skuldbindingar þess séu sem vitað er um.
    Með kröfu um opinber skipti skulu fylgja eftirrit úr dánarskrá og gerðabók sýslumanns og af erfðaskrá og öðrum gögnum sem hann kann að hafa tekið við vegna skiptanna og geta skipt máli. Kröfunni skulu einnig fylgja önnur gögn sem hún er studd við.
    Ef krafist er opinberra skipta skv. 38.–40. gr. skal sá sem hefur kröfuna uppi senda samrit hennar þeim sýslumanni sem skiptin eiga undir.

43. gr.

    Berist héraðsdómara krafa um opinber skipti sem hann telur þegar ljóst að skilyrði séu ekki til að verða við getur hann kveðið upp úrskurð um höfnun hennar án frekari aðgerða. Ella ákveður hann stað og stund til þinghalds þar sem beiðnin verður tekin fyrir og tilkynnir það í símskeyti, ábyrgðarbréfi eða með öðrum jafntryggum hætti þeim sem hefur kröfuna uppi og þeim sem þar er greint að kunni að telja til arfs eftir þann látna eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum, enda hafi áðurverið setttrygging skv. 1. mgr. 41. gr. ef hennar er þörf. Í tilkynningu skal jafnframt tekið fram hver hafi krafist opinberra skipta og á hvaða grundvelli, svo og hverju það varði ef ekki verður sótt þing.
    Tilkynning skv. 1. mgr. skal berast þeim sem henni er beint til eða þeim sem er hæfur til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd með sama fyrirvara og birta þyrfti honum stefnu í einkamáli. Héraðsdómari má þó ákveða skemmri fyrirvara ef hann telur brýna hagsmuni í húfi.
    Ef ekki verður ráðið af því sem fram er komið hverjir geti krafist arfs eða hvar verði náð til þeirra og héraðsdómari telur ekki að ætlast megi til að sá sem krefst opinberra skipta geti aflað nánari vitneskju stendur það ekki í vegi opinberra skipta þótt þeim verði ekki tilkynnt um kröfuna.

44. gr.

    Sæki sá ekki þing sem hefur uppi kröfu um opinber skipti þegar hún er tekin fyrir skal hún talin fallin niður. Ef krafist er getur héraðsdómari úrskurðað þeim ómaksþóknun sem hafa sótt þing vegna kröfunnar úr hendi þess sem hafði hana uppi.
    Ef sá sækir þing sem krefst opinberra skipta, andmæli koma ekki fram gegn henni og ákvæðum 43. gr. er fullnægt tekur héraðsdómari kröfuna til úrskurðar.
    Komi fram andmæli gegn kröfu um opinber skipti skal farið með hana eftir 1. mgr. 120. gr.
    Héraðsdómari kveður upp úrskurð um hvort búið verði tekið til opinberra skipta hvort sem kröfu um það hefur verið mótmælt eða ekki. Hann skal gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu til þeirra þótt ekki hafi verið móti því mælt.
    Þótt úrskurður héraðsdómara um að bú verði tekið til opinberra skipta sé kærður til æðra dóms frestar það ekki framkvæmd þeirra, en þess skal gætt að aðgerðir raski ekki réttindum málsaðila meira en nauðsyn krefur meðan mál er enn óútkljáð.
    Héraðsdómari skal tilkynna sýslumanni, sem skiptin eiga undir, um niðurstöður dómstóla
um kröfu um opinber skipti.

45. gr.

    Nú koma mótmæli fram gegn kröfu um opinber skipti og getur þá sá sem krefst skiptanna krafist að héraðsdómari kveði á um það í úrskurði að réttaráhrif leyfis, sem hefur verið veitt erfingjum til einkaskipta eða maka til setu í óskiptu búi, falli niður að einhverju leyti eða öllu ef sérstök hætta þykir á að ráðstafanir verði annars gerðar sem gætu rýrt réttindi þess sem krefst opinberra skipta. Héraðsdómari skal fara með slíka kröfu eftir 2. mgr. 120. gr.
    Taki héraðsdómari til greina kröfu skv. 1. mgr. tekur sýslumaður á ný við forræði búsins
að sama marki þar til héraðsdómari kveður á um hvort opinber skipti fari fram. Verði kröfu um opinber skipti síðan hafnað rakna réttaráhrif leyfis sjálfkrafa við.
    Taki héraðsdómari eða æðri dómur til greina kröfu um opinber skipti fellur sjálfkrafa úr gildi leyfi til einkaskipta sem erfingjum kann að hafa verið veitt. Það sama á við um leyfi til setu í óskiptu búi að því leyti sem krafa um opinber skipti nær fram að ganga.

V. KAFLI

Skiptastjórar.

46. gr.

    Þegar héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú sé tekið til opinberra skipta skipar hann skiptastjóra til að fara með skiptin með bókun í þingbók. Sé krafa um opinber skipti fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi skipar héraðsdómari skiptastjóra svo fljótt sem þau úrslit verða honum kunn.
    Engan má skipa í starf skiptastjóra neina hann lýsi sig fúsan til að taka starfann að sér og:
     1.      sé orðinn 25 ára gamall,
     2.      sé lögráða og hafi ekki misst forræði á búi sínu,
     3.      sé svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt starfanum,
     4.      hafi ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum,
     5.      hafi lokið embættisprófi í lögum eða hafi annars þá þekkingu á lögum sem verður talin nauðsynleg til rækslu starfans,
     6.      eigi hvorki sjálfur kröfu til arfs úr búinu eða aðra kröfu á hendur því né maki hans né skyldmenni hans eða maka hans í beinan legg eða 1. lið til hliðar.
    Hafi sá látni tilnefnt ákveðinn mann í erfðaskrá til að framkvæma skipti eftir sig skal sá skipaður skiptastjóri, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. Hafi sá látni tilnefnt fleiri menn en einn til að framkvæma skiptin í sameiningu skulu þeir báðir eða allir skipaðir til starfans ef ætla má að skiptin verði umfangsmikil eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því, en annars skal héraðsdómari skipa einn eða fleiri úr þeirra hópi.
    Andist skiptastjóri áður en skiptum er lokið, biðji hann héraðsdómara um lausn frá starfanum eða víki héraðsdómari honum frá skv. 47. gr. skal héraðsdómari tafarlaust skípa annan mann í hans stað.
    Héraðsdómara er rétt að krefja skiptastjóra um tryggingu eða skilríki fyrir að hann hafi ábyrgðartryggingu vegna starfans og getur sett honum tiltekinn frest til að setja tryggingu eftir að skipun hefur átt sér stað.
    Ákvörðun héraðsdómara um skipun manns í starf skiptastjóra verður ekki skotið til æðra dóms.

47. gr.

    Erfingjum og öðrum þeim, sem hafa uppi kröfur á hendur búinu, er, meðan á opinberum skiptum stendur, heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft aðfinnslur uppi á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Héraðsdómara er heimilt að kveðja fleiri hlutaðeigendur á fund sinn af slíku tilefni.
    Telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar getur hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frests. Verði skiptastjóri ekki við því eða ef framferði hans í starfi hefur annars verið slikt að ekki verði talið réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum skal héraðsdómari víkja honum úr starfi þegar í stað með úrskurði. Héraðsdómari skal með sama hætti víkja skiptastjóra úr starfi ef hann setur ekki tryggingu skv. 5. mgr. 46. gr. innan tilskilins frests eða ef skiptastjóri fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 46. gr.
    Fallist héraðsdómari ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi skv. 2. mgr. getur sá sem hafði uppi aðfinnslur um störf hans krafist úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóranum verði vikið frá. Með sama hætti getur erfingi eða annar sá, sem hefur uppi kröfu á hendur búinu og telur skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðurn 2. mgr. 46. gr., krafist að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum. Farið skal með slíkar kröfur eftir 121. gr.

48. gr.

    Skiptastjóri annast öll störf sem lúta að meðferð búsins, en honum er heimilt á kostnað þess að leita sér aðstoðar eða þjónustu til að leysa af hendi einstök verk á sína ábyrgð.
    Skiptastjóri á rétt til þóknunar fyrir störf sín sem greiðist af búinu eða þeim sem ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar skv. 41. gr. Honum er heimilt að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun sína meðan á skiptum stendur, enda kynni hann ákvörðun um það á skiptafundi og það teljist tryggt að hann gangi ekki með þessu á hlut þeirra sem eiga rétthærri kröfur á hendur búinu.
    Sá sem hefur verið skipaður skiptastjóri telst opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum.
    Skiptastjóra ber að bæta tjón sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum.

49. gr.

    Skiptastjóri sér um reikningshald fyrir búið og gefur skýrslur til yfirvalda um fjármuni þess og rekstur eftir því sem þörf krefur.
    Hafi skiptum ekki verið lokið innan sex mánaða frá því búið var tekið til opinberra skipta skal skiptastjóri gera yfirlit yfir efnahag og rekstur búsins, en upp frá því um hver áramót og mitt hvert ár þar til skiptum er lokið. Hver erfingi og hver sá, sem hefur lýst kröfu í búið en hefur ekki fengið efndir hennar, getur krafist að fá að sjá reikninga búsins. Skiptastjóra er heimilt á kostnað búsins að fela löggiltum endurskoðanda að gera reikninga þess eða endurskoða þá ef þess er krafist eða hann telur annars sérstaka ástæðu til.

50. gr.

    Skiptastjóri skal halda skiptafundi með erfingjum og þeim sem hafa uppi kröfur á hendur búi eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum eða hann telur annars þörf.
    Skiptastjóri ákveður hvar skiptafundir verða haldnir og hvenær, með hverjum fyrirvara þeir verði boðaðir og hvert fundarefni verði, að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum. þessum. Leitast skal þó við að skiptafundir verði haldnir á slíkum stað og tíma að ætla megi að sem flestir fundarmenn eigi hægt með að sækja þá.
    Skiptastjóri skal boða til skiptafunda með þeim hætti að fram komi í aðalatriðum hvert fundarefni verði og sannað verði hvort fundarmanni hafi borist eða mátt berast fundarboð, en fundarmenn skulu þó einir gjalda þess hafi þeir ekki veitt skiptastjóra nægar upplýsingar um hvar til þeirra verði náð. Misfarist fundarboð til eins eða fleiri fundarmanna getur skiptastjóri ákveðið að fresta fundi eða að halda hann með áskilnaði um rétt þeirra sem voru ekki boðaðir til að hafa uppi athugasemdir síðar um það sem þar fer fram.
    Skiptastjóri stjórnar skiptafundum og atkvæðagreiðslum sem fara þar fram og ákveður í hverri röð málefni verði tekin fyrir og fundarmenn fái að tjá sig. Skiptastjóra er heimilt að vísa óviðkomandi mönnum af fundi, svo og fundarmönnum sem spilla þar starfsfriði.
    Skiptastjóri færir fundargerðir á skiptafundum og skal hann gæta þess að fundarmönnum sé kynnt efni þeirra áður en fundi verður slitið og gefinn kostur á að hafa uppi athugasemdir um það.

51. gr.

    Skiptastjóri tekur við skjölum sem hafa þýðingu fyrir skiptin og varðveitir þau um sinn eftir að hann lýkur störfum, að því leyti sem þau hafa ekki áður verið lögð fram í dómi eða afhent sýslumanni við lok opinberra skipta. Um afhendingu skjalanna til varðveislu á Þjóðskjalasafni skal farið eftir sömu reglum og eiga við um skjöl sem eru lögð fram í dómsmálum.
    Sá sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta getur krafist að fá aðgang að skjölum búsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum.

52. gr.

    Þeim sem geta kallað til arfs eða gjafar úr búi og þeim sem hafa eignir þess í umráðum sínum er skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni þess látna eða búsins sem hann krefst. Sama skylda hvílir á opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum og sýslunarmönnum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, svo og öðrum sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús vegna viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
    Verði einhver sá, sem getur í 1. mgr., ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Skal farið eftir reglum um meðferð einkamála í héraði um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við.

VI. KAFLI

Fyrstu aðgerðir við opinber skipti.

53. gr.

    Skiptastjóri skal svo fljótt sem verða má eftir skipun hans boða til skiptafundar þá erfingja sem eru þekktir og vitað er hvar megi finna eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara.
    Ef náð verður til allra sem má telja af því sem fram er komið að geti krafist arfs úr búinu eða umboðsmanna þeirra, lögráðamanna eða málsvara skal skiptastjóri krefja þá svara á skiptafundi skv. 1. mgr. um hvort erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins, nema þeir hafi áður fengið leyfi til einkaskipta og allir lýst yfir þeirri ábyrgð þá. Mæti ekki allir erfingjar til fundarins skal skiptastjóri skora bréflega á þá sem hafa ekki tjáð sig að láta uppi afstöðu sína innan tiltekins skamms frests hafi enginn erfingi áður hafnað að takast á hendur ábyrgð. Fáist ekki með þessum hætti ábyrgð allra erfingja á skuldbindingum búsins skal litið svo á að þeir hafi allir hafnað að takast hana á hendur.
    Skiptastjóri kannar af sjálfsdáðum hvort kröfur um arf eftir þann látna eigi við rök að styðjast. Telji hann framkomna kröfu ekki fá staðist eða verði annars ágreiningur um réttindi til arfs skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.

54. gr.

    Skiptastjóri skal leita vitneskju um hverjar eignir tilheyri búinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra eða hafi umsjón með þeim. Hann skal tafarlaust gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu eigna og taka ef með þarf við umráðum þeirra eða umsjón með þeim, nema hann telji hættulaust að munir búsins verði áfram í vörslum annarra, enda lýsi vörslumaður þá yfir að hann sé fús til að gæta þeirra áfram á eigin áhættu.
    Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést skal skiptastjóri, hvort sem erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins eða ekki, þegar í stað leita svara maka þess látna við því hvort hann vilji neyta réttar síns til að leysa til sín eignir búsins skv. 35. gr. Lýsi maki yfir vilja til þess skal skiptastjóri krefjast mats á þeim eignum búsins sem nauðsyn ber til hafi þess ekki þegar verið aflað eða sammæli orðið um verðmat þeirra sem skiptastjóri getur fallist á.
    Hafi allir erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og maki þess látna hefur ekki neytt réttar til að leysa þær til sín skal skiptastjóri leita svara erfingja á skiptafundi við því hvort þeir krefjist útlagningar á tilteknum eignum til greiðslu arfs. Komi fram krafa um útlagningu skal skiptastjóri krefjast mats á þeim eignum hafi þess ekki þegar verið aflað, nema sammæli verði um verðmat þeirra sem hann getur fallist á. Hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum bús en síðar kemur í ljós að eignir muni koma til arfs skal farið eins með þær eignir sem hefur ekki þá þegar verið ráðstafað við skiptin.
    Ákvæði 17.–23. gr. taka til mats sem skiptastjóri krefst á eignum bús og nýtur hann þá einnig þeirrar stöðu sem erfingjum er þar veitt.
    Ef ágreiningur rís um réttindi maka til að leysa eignir búsins til sín éða um kröfur maka eða annarra erfingja um að fá þær lagðar sér út skal skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Eins skal farið að ef ágreiningur verður um mat á eignum búsins sem skiptastjóri krefst.

55. gr.

    Skiptastjóri skal, svo fljótt sem við verður komið, leita vitneskju um skuldbindingar búsins, eftir atvikum með könnun gagna þess látna og þinglýstra heimilda og með fyrirspurnum til erfingja, innheimtumanna opinberra gjalda og þeirra sem er vitað eða má telja líklegt að hafi átt í viðskiptum við þann látna.

VII. KAFLI

Meðferð krafna á hendur búi ef erfingjar ábyrgjast ekki

skuldbindingar þess.

56. gr.

    Skiptastjóri skal gefa út og fá birta innköllun vegna skiptanna ef yfirlýsingar hafa ekki komið fram af hálfu allra, sem af því sem fram er komið verða taldir erfingjar eftir þann látna, um að þeir taki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins. Eins skal farið að ef ekki er vitað um neinn erfingja eða tilefni er annars til að ætla að ekki sé vitað um þá alla.
    Í innköllun skal koma fram nafn þess látna, kennitala, dánardagur og heimilisfang hans þá og að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta samkvæmt úrskurði uppkveðnum tiltekinn dag. Í henni skal skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því innköllunin birtist fyrra sinni og skal tekið fram hvert kröfur skuli sendar. Ef óvíst er hvort allir erfingjar hafi gefið sig fram eða ekki hefur náðst til allra þekktra erfingja skal enn fremur skorað á þá sem telja sig eiga rétt til arfs eftir þann látna að lýsa kröfum sínum innan sama frests.
    Innköllunin skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði.

57. gr.

    Kröfulýsing skal vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð svo að ekki verði um villst. Í henni skulu kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur búinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur búi á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna.
    Þau gögn skulu fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við.
    Skiptastjóri skal staðfesta móttöku kröfulýsingar ef eftir því er leitað.
    Kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgja sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berst honum.

58. gr.

    Ef kröfu á hendur búi er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 56. gr. fellur hún niður gagnvart búinu nema:
     1.      kröfunni sé lýst áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu og ef eignir búsins koma til greiðslu arfs, að allir erfingjar samþykki að krafan fái komist að, en ef eignir koma ekki til greiðslu arfs, að samþykki fáist fyrir því hjá 3/ 4 hlutum þeirra kröfuhafa sem færu á mis við greiðslu með því að krafan kæmist að, talið bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum,
     2.      kröfuhafinn sé búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um opinberu skiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
     3.      krafan hafi fyrst orðið til eftir upphaf opinberra skipta og henni er lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
     4.      ráðstafa megi eign búsins við nauðungarsölu til lúkningar kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar,
     5.      krafan sé höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu búsins, enda hafi sá sem krefst skuldajafnaðar átt kröfu sína áður en búið var tekið til opinberra skipta.
    Krafa um afhendingu eignar, sem búið hefur haft í vörslum sínum, fellur þó ekki niður þótt henni sé ekki lýst innan kröfulýsingarfrests. Hafi búið ráðstafað eigninni áður en kröfu um afhendingu hennar er lýst fer um réttindi á hendur búinu eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti.
    Krafa um arf eða gjöf úr búi fellur heldur ekki niður þótt henni sé ekki lýst.

59. gr.

    Þegar kröfulýsingarfresti er lokið skal skiptastjóri tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafa komið fram þar sem hann lætur í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Í skránni skal getið hvers efnis kröfurnar séu fjárhæða þeirra og umkrafinnar stöðu í skuldaröð ef því er að skipta. Skiptastjóra er þó óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja má fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti viðskiptin.
    Þegar kröfuskrá hefur verið gerð skv. 1. mgr. skal skiptastjóri boða erfingja og þá sem hafa lýst kröfum til skiptafundar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Skiptastjóri skal senda erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum eintak af kröfuskrá með boðun sinni. Í boðun til þess sem hefur lýst kröfu skal tekið fram hverja afstöðu skiptastjóri hafi tekið til viðurkenningar kröfu hans eða honum sent eintak kröfuskrár með bóðuninni. Í boðun skiptastjóra skal tekið fram hver áhrif það hafi eftir 3. mgr. 60. gr. að andmæli komi ekki fram gegn afstöðu hans til viðurkenningar krafna.

60. gr.

    Kröfuhafi, sem vill ekki una afstöðu skiptastjóri til viðurkenningar kröfu sinnar á hendur búinu, skal lýsa yfir mótmælum sínum á skiptafundi sem er boðað til skv. 59. gr. eða tilkynna það skiptastjóra með bréfi sem berst honum ekki síðar en á þeim fundi. Með sama hætti er erfingja eða kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin.
    Skiptastjóri leggur fyrir kröfuskrá og kröfulýsingar á skiptafundi ásamt mótmælum sem kunna að hafa borist skv. 1. mgr. Þar skal hann eftir föngum veita fundarmönnum þær skýringar sem þeir æskja um efni einstakra krafna, ástæðurfyrir afstöðu hans til viðurkenningar þeirra og framkomin mótmæli gegn þeim. Komi fram mótmæli á fundinum gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu og þeir eru staddir þar báðir eða allir sem hafa mótmælt og mótmæli beinast gegn skal skiptastjóri reyna að jafna ágreininginn, en annars skal hann boða þá sem eiga hlut að máli sem fyrst til sérstaks fundar í því skyni. Verði ágreiningur ekki leystur með þeim hætti skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.
    Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.

61. gr.

    Ef kröfu er lýst eftir að kröfulýsingarfresti er lokið en ekki er víst að hún sé fallin niður fyrir þær sakir skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig hann telji eiga að viðurkenna hana. Hann skal boða erfingja og þann sem hefur lýst kröfunni til skiptafundar með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 59. gr., svo og aðra kröfuhafa ef ekki er orðið ljóst að búið geti efnt kröfur þeirra. Ákvæði 60. gr. gilda um rétt til mótmæla gegn afstöðu skiptastjóra, meðferð mótmæla sem kunna að koma fram og þýðingu þess að engum mótmælum sé hreyft.

62. gr.

    Á skiptafundi, sem er haldinn skv. 59. og 60. gr., skal skiptastjóri gera grein fyrir efnahag búsins og tilkynna fundarmönnum hvort hann muni fara með búið eftir því sem segir í 2. mgr. eða 3. mgr.
    Telji skiptastjóri víst að andvirði eigna búsins muni nægja til að efna viðurkenndar kröfur á hendur því, að viðbættum kröfum sem ágreiningur stendur enn um og kröfum sem vitað er um og mætti koma að við skiptin þótt þeim hafi ekki verið lýst, skal hann greiða viðurkenndar og gjaldfallnar kröfur eftir því sem fé liggur þegar fyrir og berst síðar, en taka frá fé vegna ógjaldfallinna, umdeildra, skilyrtra eða óframkominna krafna sem hann greiðir þegar efni verða til. Frá skiptafundinum fer þá um skiptin eftir þeim reglum þessara laga sem gilda þegar erfingjar ábyrgjast skuldbindingar búsins eftir því sem þær geta átt við, en ekki verða erfingjar taldir bera ábyrgð á skuldbindingum búsins skv. 3. mgr. 80. gr. af þessum sökum.
    Verði ekki farið þannig að sem segir í 2. mgr. skal skiptastjóri tilkynna héraðsdómara það skriflega og fara með búið upp frá því samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti án þess að frekari dómsúrskurðar, innköllunar, auglýsinga eða tilkynninga sé þörf. Verði afgangur eigna þegar skuldbindingar búsins hafa verið efndar skal farið með búið upp frá því eftir ákvæðum 2. mgr.
    Erfingi eða kröfuhafi, sem vill ekki una ákvörðun skiptastjóra um það hvort hann fari með búið eftir 2. eða 3. mgr., getur mótmælt henni á þeim skiptafundi þar sem hún er kynnt. Komi slík mótmæli fram og takist skiptastjóra ekki að jafna ágreininginn skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.

VIII. KAFLI

Meðferð krafna á hendur búi ef erfingjar ábyrgjast skuldbindingar þess.

63. gr.

    Hafi erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins skal innköllun því aðeins gefin út vegna skiptanna að einhver þeirra krefjist þess um leið og hann lýsir yfir ábyrgð af sinni hendi. Skiptastjóri má þó verða við ósk erfingja um útgáfu innköllunar sem kemur fram síðar ef hann ætlar að það muni ekki leiða til teljandi tafa, enda hafi erfingjar ekki þegar fengið útlagðar eignir eða greiðslur upp í arf.
    Ef innköllun er gefin út skv. 1. mgr. gilda ákvæði 56.–58. gr. um efni hennar, birtingu og réttaráhrif og um kröfulýsingar og frest til að koma þeim fram.
    Þótt innköllun hafi ekki verið gefin út er hverjum þeim sem telur sig eiga kröfu á hendur búinu heimitt að lýsa henni fyrir skiptastjóra í því formi og með þeim áhrifum sem mælt er fyrir um í 57. gr.

64. gr.

    Skiptastjóri skal boða erfingja til skiptafundar og kynna þeim kröfur sem er lýst fyrir honum eftir því sem þær berast eða annars svo oft sem hentugt þykir. Hafi innköllun verið gefin út skal þetta að jafnaði gert á einum fundi að liðnum kröfulýsingarfresti.
    Hafi kröfu verið lýst og erfingi mótmælir henni hvort sem innköllun var gefin út eða ekki skal skiptastjóri boða hlutaðeigendur til sérstaks fundar til að leitast við að jafna ágreining þeirra, en takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Svo lengi sem kröfunni hefur ekki verið hrundið fyrir dómi nýtur sá sem hefur lýst henni þeirrar stöðu sem er kveðið á um í 2. mgr. 65. gr.
    Mótmæli erfingjar ekki lýstum kröfum sem hefur verið fjallað um á skiptafundi og gjaldfallnar eru skal skiptastjóri efna þær fyrir búið í þeirri röð sem þeim var lýst og eftir því sem efni þess hrökkva til, nema erfingjar efni þær sjálfir eða taki að sér efndir þeirra með samþykki hlutaðeigenda. Standi ágreiningur um viðurkenningu gjaldfallinnar kröfu skal taka frá fé eða gera aðrar ráðstafanir til að mæta henni verði hún viðurkennd fyrir dómi.

65. gr.

    Hafi innköllun verið gefin út má ekki leggja erfingjum út eignir úr búinu eða greiða þeim arf á annan hátt meðan kröfulýsingarfresti er ólokið.
    Að öðru leyti má ekki leggja erfingjum út eignir eða greiða þeim upp í arf nema allar lýstar kröfur hafi verið efndar að því leyti sem efndatími þeirra er kominn og þær eru óumdeildar, en fé tekið frá eða trygging sett fyrir efndum umdeildra gjaldfallinna krafna eða hlutaðeigandi kröfuhafar samþykki annars slíkar ráðstafanir.

66. gr.

    Þótt kröfu hafi verið lýst á hendur búi samkvæmt því sem segir í þessum kafla breytir það ekki rétti þess sem það hefur gert til að höfða mál um kröfu sína eða krefjast fullnustugerða án undangengins dóms eða sáttar á hendur erfingjum, einum eða fleiri, í skjóli ábyrgðar þeirra á skuldbindingum búsins.

IX. KAFLI

Bústjórn og skiptafundir um ráðstöfun hagsmuna búsins.

67. gr.

    Meðan á opinberum skiptum stendur fer skiptastjóri með forræði dánarbúsins og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Hann kemur fram af hálfu búsins fyrir dómi og gerir samninga og aðra löggerninga í nafni þess.
    Skiptastjóri skal einkum gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, að réttindum búsins verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt að því leyti sem þau verða ekki lögð erfingjum út, að kröfur þess og innstæður verði heimtar inn, að engin þau réttindi þess fari forgörðum sem geta haft verðgildi og að gripið verði til þeirra aðgerða sem verða annars taldar nauðsynlegar til að forða það tjóni. Hann skal og gæta þess að peningaeign búsins beri sem hagkvæmasta vexti á reikningi við banka eða sparisjóð með tilliti til þess um hve langan tíma megi ætla að hann hafi hana undir höndum.

68. gr.

    Skiptastjóri skal þegar eftir skipun sína gera ráðstafanir um atvinnurekstur bús, gagnkvæma samninga þess og önnur atriði sem verða talin mikilvæg fyrir hagsmuni þess og þola ekki bið. Verði því komið við án þess að hætta sé á að hagsmunir búsins spillist skal skiptastjóri þó áður ráðfæra sig við þá erfingja og kröfuhafa sem eiga helstra hagsmuna að gæta við skiptin eftir því sem fram er komið eða málefnið getur varðað sérstaklega.
    Að öðru leyti en því sem er mælt fyrir um í 1. mgr. skal skiptastjóri bera undir skiptafundi hvort mikilsverðum réttindum búsins skuli ráðstafað, hve fljótt það verði gert og hvernig, hvort kröfum verði haldið uppi eða réttindi gefin eftir sem einhverju nema, svo og aðrar ráðstafanir sem geta skipt miklu fyrir hag búsins, nema taka verði ákvörðun til að afstýra tjóni með svo skjótum hætti að því verði ekki komið við. Skiptastjóri getur borið aðrar ráðstafanir undir skiptafundi þótt óskylt sé.
    Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem búið kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur erfingi gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Sá erfingi, sem vill gera slíkt, skal tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og bera sjálfur kostnað og áhættu af aðgerðum sínum, en hann getur krafið búið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem því áskotnast fé af þeim.
    Kröfuhafi, sem getur ekki vænst fullra efnda kröfu sinnar frá búinu, hefur sömu heimild og erfingjar njóta skv. 3. mgr.
    Hafi erfingi eða kröfuhafi tekið að sér hagsmuni búsins skv. 3. eða 4. mgr. getur skiptastjóri hvenær sem er ákveðið að búið taki við þeim á ný, en aður skal þó hlutaðeiganda greiddur sá kostnaður sem hann hefur orðið að bera af þessum sökum.

69. gr.

    Þótt erfingjar hafi ekki tekið ábyrgð á skuldbindingum búsins skal boða þá til skiptafunda, nema farið sé með það eftir fyrirmælum 3. mgr. 62. gr.
    Hafi erfingjar ekki tekið ábyrgð á skuldbindingum búsins skulu kröfuhafar boðaðir til skiptafunda sem eru haldnir meðan kröfulýsingarfresti er ólokið. Þeir kröfuhafar, sem hafa ekki þegar fengið fullar efndir úr hendi búsins, skulu einnig boðaðir til skiptafunda eftir þann tíma. Hafi kröfuhafi uppi kröfu um annað en peningagreiðslu skal hann þó aðeins boðaður til fundar ef fjallað verður um hagsmuni hans.
    Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins þarf ekki að boða aðra en þá til skiptafunda.
    Að því leyti sem þarf að ákveða atkvæði á skiptafundum ráðast þau meðal erfingja af arfshlutföllum þeirra, þó þannig að maki þess látna nýtur einnig atkvæða af búshluta sínum ef ákvörðun varðar hjúskapareign. Meðal kröfuhafa ráðast atkvæði af fjárhæðum krafna þeirra, en að því leyti sem krafa er tryggð að hluta, ógjaldfallin, umdeild eða skilyrt, skal skiptastjóri ákveða henni atkvæði til bráðabirgða. Fari erfingjar og kröfuhafar í senn með atkvæði skal hvor hópur fara samanlagt með helming atkvæða. Séu atkvæði greidd um málefni sem varða sérstaka hagsmuni einstaks erfingja eða kröfuhafa skulu atkvæði hlutaðeiganda falla niður.
    Skiptastjóra er heimilt að boða aðra til skiptafunda en skylt er skv. 1.–3. mgr. ef fundarefni varðar hagsmuni þeirra eða nærvera þeirra gæti orðið til hagræðis. Slíkir fundarmenn njóta ekki málfrelsis eða tillöguréttar nema að því leyti sem skiptastjóri ákveður.

70. gr.

    Skiptafundur er ályktunarfær ef hann er sóttur af þeim sem fara með minnst þriðjung atkvæða skv. 4. mgr. 69. gr.
    Ef skiptafundur er ekki ályktunarfær skal skiptastjóri ráða fundarefninu til lykta, nema hann kjósi fremur að boða til nýs fundar um það.
    Skiptastjóri er bundinn af ákvörðun ályktunarfærs skiptafundar hafi allir fundarmenn verið á einu máli. Telji skiptastjóri slíka ákvörðun þó andstæða lögum, óheiðarlega, óframkvæmanlega eða bersýnilega fara í bága við hagsmuni erfingja eða kröfuhafa, sem sóttu ekki fundinn eða geta enn gefið sig fram, má hann virða ákvörðunina að vettugi og annaðhvort leggja málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráða málefninu sjálfur til lykta.
    Greini fundarmenn á um ákvörðun er skiptastjóra að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktun meiri hlutans. Það skal þó ekki gert ef efni eru til að víkja frá henni vegna þeirra atvika, sem eru talin í 3. mgr., eða ef ætla má að meirahlutavaldi sé misbeitt minni hlutanum til tjóns. Telji skiptastjóri ekki fært að fara að ályktun meiri hlutans getur hann lagt málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráðið því sjálfur til lykta.
    Falli atkvæði jöfn á skiptafundi eða fáist annars ekki ályktun meiri hluta skal skiptastjóri ráða málefninu til lykta á þann veg sem hann telur best eiga við, nema hann kjósi fremur að boða til nýs fundar um það.

71. gr.

    Skiptastjóri skal kynna niðurstöður um fundarefni skv. 70. gr. jafnharðan á skiptafundum, ema hann telji nauðsynlegt að fresta ákvörðun til nýs fundar. Þá skal hann einnig kynna ráðstafanir sem hann hefur gert um hagsmuni búsins frá því fundur var síðast haldinn og geta skipt máli.
    Mæti erfingi eða kröfuhafi ekki til skiptafundar, sem hann hefur verið sannanlega boðaður til, glatar hann rétti til að hafa uppi mótmæli eða kröfur vegna ákvarðana og ráðstafana sem hafa verið teknar þar eða kynntar.
    Erfingi eða kröfuhafi, sem á atkvæði um málefni búsins og telur ákvörðun eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta, getur mótmælt henni þegar á þeim fundi sem hún er kynnt, en ella á næsta fundi, sem hann er boðaður til, hafi hann ekki glatað rétti til þess skv. 2. mgr. Komi slík mótmæli fram skal skiptastjóri leitast við að jafna ágreininginn, en takist það ekki skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Meðan ágreiningur hefur ekki verið leiddur til lykta skulu ekki gerðar ráðstafanir um málefnið nema nauðsynlegt sé til að réttindi eða munir fari ekki forgörðum eða rýrni að mun.

X. KAFLI

Lok opinberra skipta og endurupptaka þeirra.

72. gr.

    Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og það kemur í ljós, þegar eignum búsins hefur verið komið í verð og kröfulýsingarfresti er lokið ef innköllun hefur verið gefin út, að andvirði eigna nægi ekki nema til að greiða lýstar kröfur að nokkru leyti eða öllu, skal skiptastjóri ráðstafa fénu til greiðslu skiptakostnaðar og krafna samkvæmt því sem segir í 3. mgr. 64. gr., en gera síðan yfirlit um það fé sem hann hefur tekið við í þágu búsins og ráðstöfun þess. Að því gerðu skal hann boða erfingja til skiptafundar með minnst tveggja vikna fyrirvara til að ljúka skiptunum. Eintak yfirlitsins skal fylgja boðuninni.
    Komi ekki fram ábendingar um frekari eignir eða réttindi búsins á skiptafundi sem er haldinn skv. 1. mgr. ritar skiptastjóri á yfirlit sitt að skiptum sé lokið með þeim ráðstöfunum sem þar koma fram. Skal hann tilkynna þetta héraðsdómara skriflega, svo og sýslumanni sem skiptin áttu undir.
    Verði ágreiningur um hvort skilyrði séu til að ljúka skiptum samkvæmt því sem segir í 2. mgr. skal skiptastjóri leitast við að jafna hann á skiptafundinum eða á sérstökum fuadi með hlutaðeigendum. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.
    Skiptum má ljúka samkvæmt framansögðu þótt svo standi á sem segir í 76. gr., en þá skal farið eftir ákvæðum þeirrar greinar eftir því sem átt getur við.

73. gr.

    Nú hefur sá látni verið í hjúskap, erfingjar hans hafa tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins eða farið er með skiptin eftir 2. mgr. 62. gr. og kröfulýsingarfresti er lokið ef innköllun hefur verið gefin út, og maki þess látna tilkynnir skiptastjóra skriflega að hann óski eftir að setjast í óskipt bú með einhverjum samerfingja sinna eða þeim öllum. Skal þá skiptastjóri, ef hann telur skilyrðum laga fullnægt fyrir slíkri heimild, senda þeim sýslumanni, sem skiptin áttu undir, umsókn makans um leyfi til setu í óskiptu búi og samrit þeirra gagna sem hann hefur undir höndum og geta skipt máli við mat á umsókninni. Veiti sýslumaður leyfið skal skiptastjóri ljúka opinberum skiptum þá þegar, eftir atvikum að því leyti sem efni eru til, og láta makanum í té forræði á þeim eignum sem renna til óskipta búsins, enda hafi kostnaður af skiptunum þá verið greiddur.
    Ekki stendur það í vegi fyrir að opinberum skiptum ljúki skv. 1. mgr. að gjaldfallnar kröfur hafi ekki greiðst eða trygging verið sett fyrir þeim, en skiptastjóri skal þá tilkynna hlutaðeigandi kröfuhöfum um málalokin. Ef dómsmáli er ólokið til að leysa úr ágreiningi um kröfu á hendur búinu skal því þó haldið áfram ef kröfuhafinn kýs svo, en maki þess látna tekur þá við málsaðild af búinu og verður bundinn af niðurstöðu þess ef þeir hagsmunir sem um er að tefla renna til óskipta búsins eða falla á það.
    Skiptastjóri tilkynnir héraðsdómara um lok opinberra skipta skv. 1. mgr.

74. gr.

    Ef skilyrðum 28. gr. er fullnægt geta erfingjar komið því á framfæri við skiptastjóra að þeir óski eftir að fá leyfi til einkaskipta á búinu, enda sé kröfulýsingarfresti lokið ef innköllun hefur verið gefin út og lýstar og gjaldfallnar kröfur greiddar, trygging sett eða fé tekið frá fyrir þeim eða ófullnægðir kröfuhafar samþykkja ósk erfingjanna skriflega. Telji skiptastjóri að skilyrði geti verið fyrir einkaskiptum skal hann senda beiðni erfingjanna um heimild til þeirra þeim sýslumanni sem skiptin áttu undir. Veiti sýslumaður leyfið skal skiptastjóri ljúka opinberum skiptum þá þegar og láta erfingjum í té forræði á eignum búsins, en áður skal þó kostnaður af skiptunum greiddur.
    Ef leyfi er veitt til einkaskipta skv. 1. mgr. og dómsmál er rekið til að leysa úr ágreiningi um kröfu á hendur búinu skal því haldið áfram ef gagnaðili búsins kýs svo, en erfingjar taka þá við fyrirsvari fyrir búið af skiptastjóra.
    Skiptastjóri tilkynnir héraðsdómara um lok opinberra skipta skv. 1. mgr.

75. gr.

    Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldum og skilyrðum 65. gr. er fullnægt, eða ef svo er ástatt sem segir í 2. mgr. 62. gr., getur skiptastjóri afhent þeim þær eignir, sem er afráðið að þeir fái lagðar sér út að arfi, þótt skiptum verði ekki enn lokið vegna annarra ástæðna. Skiptastjóri skal þó gæta þess að útlagning eigi sér ekki stað nema fé liggi fyrir til greiðslu skiptakostnaðar og að erfingi eigi enn tilkall til fjár sem nægi til greiðslu erfðafjárskatts úr hendi hans eða hann reiði það af hendi.
    Kröfur gjafþega skulu efndar jafnskjótt og afráðið er um réttmæti þeirra og að búið geti efnt þær, enda greiði gjafþegi skiptastjóra um leið erfðafjárskatt vegna gjafarinnar og kostnað sem kann að leiða af varðveislu og afhendingu hennar.

76. gr.

    Skiptastjóri getur ákveðið að ljúka skiptum þótt kröfu hafi verið lýst sem er háð ókomnu skilyrði eða dómsmál er rekið um, eða sá tími er ókominn sem búið getur krafist að fá að efna hana ef fyrirséð þykir að nokkur bið verði enn eftir málalokum. Hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum skal fé tekið frá til að efna slíkar kröfur, svo og endranær ef dómsmál er rekið um gjaldfallna kröfu, en um varðveislu þess og endurupptöku skipta til úthlutunar á því fer eftir 82. gr.
    Ef búið telur til eigna eða réttinda sem eru umdeild eða má vænta að teljandi bið verði eftir að megi koma í verð eða komi til greiðslu getur skiptastjóri ákveðið að ljúka skiptum án tillits til þeirra. Hann skal þó fylgja réttindunum eftir og taka skiptin upp á ný skv. 83. gr. þegar búið getur ráðstafað þeim. Skiptastjóra er rétt að taka fé frá til að mæta útgjöldum af þessum sökum, en um meðferð þess skal farið eftir 1. mgr. að því leyti sem það nýtist ekki til fulls.

77. gr.

    Þegar opinberum skiptum lýkur ekki skv. 72.–74. gr., lýstar kröfur á hendur búinu hafa eftir atvikum verið efndar og eignum þess hefur verið komið í verð að öðru leyti en því sem leiðir af fyrirmælum 75. og 76. gr., skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, gera frumvarp til úthlutunar úr búinu. Í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram eftir því sem tilefni er til:
     1.      Yfirlit um eignir búsins, þannig að ráða megi af því hvað hafi verið til í reiðufé, fengist fyrir einstaka muni, innheimst af kröfum, unnist í vexti o.s.frv., en eignir sem hafa verið útlagðar erfingjum eða gjafþegum skulu greindar á því verði sem hefur verið metið eða ákveðið á annan hátt.
     2.      Yfirlit yfir kostnað af útför þess látna og af skiptunum sjálfum, en síðan skal greint hvað hafi verið greitt hverjum skuldheimtumanni, afhent gjafþegum eða varið á annan hátt til að efna skuldbindingar búsins.
     3.      Yfirlit um eignir sem koma ekki enn til skipta og fé sem er tekið frá um sinn, sbr. 76. gr.
     4.      Hversu mikið hver erfingi fái að arfi og að hverju marki hann fái muni lagða sér út og greiðslu í peningum, en tiltekið skal hverri fjárhæð verði haldið eftir til greiðslu erfðafjárskatts hvers erfingja eða eftir atvikum hvort erfingi hafi þegar reitt hann af hendi.
    Það skal og tekið fram í frumvarpi ef erfðafé verður varðveitt eftir ákvæðum 81. gr. og með hverjum hætti það verði gert.

78. gr.

    Skiptastjóri skal boða erfingja, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar með minnst tveggja vikna fyrirvara og skal eintak þess fylgja boðuninni. Það skal tekið fram í boðun að verði fundurinn ekki sóttur af hálfu erfingja eða hafi hann ekki uppi mótmæli þar gegn frumvarpinu þá verði litið svo á að hann samþykki það.
    Á skiptafundi, sem er haldinn skv. 1. mgr., skal skiptastjóri leggja frumvarpið fram og veita þær upplýsingar sem erfingjar æskja um það. Erfingjum er rétt að krefjast aðgangs að gögnum um reikningshald búsins sem skiptastjóri hefur undir höndum.
    Hafi erfingjar ekki uppi mótmæli á fundinum skal frumvarpið talið endanlega samþykkt af þeirra hendi, hvort sem þeir sækja fundinn eða ekki. Skiptastjóri skal þá rita á frumvarpið að það hafi verið samþykkt sem úthlutunargerð úr búinu og að skiptum sé þar með lokið.

79. gr.

    Komi fram mótmæli gegn frumvarpi á skiptafundi skv. 78. gr. og þau varða önnur atriði þess en þau sem hlutaðeigandi hefur þegar glatað rétti til að mótmæla skv. 2. mgr. 71. gr. skal skiptastjóri krefja þann svara sem hefur mótmælin uppi um hverjar breytingar hann telji eiga að gera á frumvarpinu.
    Komi eingöngu fram mótmæli sem skiptastjóri telur efni til að fallast á getur hann breytt frumvarpinu þeim til samræmis og lokið skiptum, ef aðeins eru leiðréttar augljósar eða óverulegar skekkjur eða fundurinn er sóttur af hálfu allra erfingja og þeir gera engar athugasemdir. Verði það ekki gert skal skiptastjóri boða til nýs fundar skv. 78. gr. um frumvarpið svo breytt.
    Verði mótmælum ekki sinnt með þeim hætti, sem segir í 2. mgr., skal skiptastjóri kveðja þá til fundar sem mótmælin varða, séu þeir ekki á skiptafundinum, og leitast við að jafna ágreininginn. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Meðan slíkur ágreiningur er ekki leiddur til lykta verður skiptum ekki lokið nema allir hlutaðeigendur samþykki. Þegar ágreiningur hefur verið leiddur til lykta skal skiptastjóri gera nýtt frumvarp til úthlutunar og boða til fundar um það, sbr. 77.–79. gr., nema forsendur fyrra frumvarps standi óhaggaðar og telst það þá samþykkt.

80. gr.

    Þegar frumvarp hefur verið samþykkt skal skiptastjóri standa skil á erfðafjárskatti og greiða erfingjum, umboðsmönnum þeirra eða lögráðamönnum arf og láta þeim í té skilríki fyrir eignarheimildum að því leyti sem það hefur ekki þegar verið gert.
    Skiptastjóri skal tilkynna héraðsdómara skriflega að skiptum sé lokið. Einnig skal hann tilkynna það sýslumanni sem skiptin áttu undir og láta eintak úthlutunargerðar fylgja.
    Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og innköllun hefur ekki verið gefin út við opinber skipti bera þeir ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn á þeim skuldbindingum þess látna sem kunna síðar að koma fram þótt ekki hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum lauk. Hafi innköllun verið gefin út bera þeir aðeins ábyrgð á þeim skuldbindingum sem var lýst eða halda gildi þrátt fyrir vanlýsingu en voru ekki greiddar við skiptin.

81. gr.

    Hafi erfingi ekki gefið sig fram við skiptin og ókunnugt er hvar verði náð til hans skal skiptastjóri leggja erfðafé hans á reikning við banka eða sparisjóð, sem beri svo háa vexti sem kostur er. Hann skal afhenda sýslumanni, sem skiptin áttu undir, skilríki fyrir slíkum reikningi til varðveislu.
    Hafi sýslumanni verið afhent skilríki fyrir arfi skv. 1. mgr., en innköllun hefur ekki verið gefin út til erfingja við skiptin, skal hann svo fljótt sem verða má fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði áskorun til erfingjans um að vitja arfsins að því viðlögðu að fénu verði ráðstafað skv. 3. mgr.
    Gefi erfingi sig ekki fram við sýslumann til að vitja arfs, sem er varðveittur skv. 1. mgr., eða einhver sá sem getur sannað rétt sinn til fjárins innan tíu ára frá því innköllun til erfingja var birt eða áskorun skv. 2. mgr., geta erfingjar þess, sem féð var varðveitt fyrir, krafist að fá það afhent eins og sá hefði ekki lifað þegar arfurinn féll. Komi slík krafa ekki fram innan eins árs frá lokum þess frests skal sýslumaður greiða féð í ríkissjóð.
    Hafi erfingja verið skipaður málsvari skv. 2. mgr. 13. gr. og erfinginn getur ekki tekið við arfi sínum við lok skipta skal skiptastjóri fara svo að sem segir í 1. mgr. Sýslumaður varðveitir þá arfinn þar til erfinginn verður fær um að taka við honum eða annar sannar rétt sinn til að taka við honum í stað erfingjans.

82. gr.

    Hafi skiptastjóri lokið skiptum en tekið frá fé til að mæta skilyrtri kröfu, umdeildri eða ógjaldfallinni, skal það lagt á sérgreindan reikning við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur er. Skiptastjóri varðveitir skilríki fyrir slíkum reikningi.
    Þegar komið er í ljós um skilyrði fyrir kröfu, ágreiningur um hana hefur verið leiddur endanlega til lykta eða sá tími er kominn að hana megi efna, skal skiptastjóri taka skiptin upp á ný, ótilkvaddur eða samkvæmt kröfu erfingja eða þess sem á rétt til greiðslu. Skiptastjóri skal þá greiða kröfuna hafi málalok orðið á þann veg, en standi eitthvað eftir af því sem tekið var frá skal hann tafarlaust gera frumvarp til viðbótarúthlutunar til erfingja og fara að öðru leyti svo að sem segir í 78.–81. gr. Nemi sú fjárhæð svo litlu sem kæmi í hlut hvers erfingja að hún standi ekki undir kostnaði af viðbótarúthlutun má skiptastjóri þó greiða hana í ríkissjóð.

83. gr.

    Hafi skiptum verið lokið án tillits til eignar sem búið gat þá ekki ráðið yfir, sbr. 2. mgr. 76. gr., skal skiptastjóri ótilkvaddur og tafarlaust taka skiptin upp á ný ef eignin stendur búinu til ráðstöfunar. Standi andvirði eignarinnar undir kostnaði af því skal skiptastjóri boða til skiptafundar um ráðstöfun hennar ef nauðsyn ber til, en að ráðstöfun lokinni skal hann gera frumvarp til viðbótarúthlutunar til erfingja og fara annars svo að sem segir í 78.–81. gr. Að öðrum kosti ráðstafar hann eigninni og greiðir andvirði hennar í ríkissjóð.
    Komi fram eign eftir skiptalok, sem hefði átt að falla til búsins, skal skiptastjóri taka skiptin upp á ný, ótilkvaddur eða eftir kröfu erfingja. Að öðru leyti skal farið eftir fyrirmælum 1. mgr.

84. gr.

    Opinber skipti verða ekki endurupptekin að öðru leyti en heimilað er í 82. og 83. gr.
    Gefi einhver sig fram innan tíu ára frá lokum opinberra skipta sem hefði átt rétt til arfs eða gjafar úr búinu en gengið var framhjá við skiptin getur hann krafið hvern þann fyrir sig sem naut arfs í hans stað um endurgreiðslu fyrir sitt leyti. Sá sem naut arfsins verður ekki krafinn um arð eða vexti af fénu nema hann hafi tekið við arfinum gegn betri vitund.

3. ÞÁTTUR


Einkaskipti dánarbúa.


XI. KAFLI

Staða erfingja og kröfuhafa við einkaskipti.

85. gr.

    Frá því erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi skv. 31. eða 74. gr. og þar til skiptum lýkur eða leyfi þeirra fellur niður fara þeir í sameiningu með forræði búsins og eru einir bærir um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, þar á meðal við samningsgerð, fyrir dómi eða stjórnvöldum.
    Erfingjum er heimilt að fela tilteknum manni, einum eða fleiri, að koma fram af hálfu búsins gagnvart öðrum í vissum lögskiptum eða í öllu tilliti eftir því sem þeir ákveða nánar, sbr. 2. mgr. 29. gr.

86. gr.

    Við ráðstöfun á málefnum búsins verða erfingjar að vera einhuga um ákvörðun nema þeir semji um annað. Samningur milli erfingja um að ákvörðun ráðist af atkvæði meiri hluta þeirra girðir ekki fyrir að hver þeirra geti um sig krafist opinberra skipta á búinu skv. 1. mgr. 38. gr.

87. gr.

    Erfingjum er heimilt að gefa út og fá birta innköllun í Lögbirtingablaði og skora þar á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess að lýsa þeim fyrir tilgreindum manni innan ákveðins frests. Slík innköllun hefur ekki þau áhrif sem er mælt fyrir um í 58. gr.
    Hvort sem erfingjar gefa út innköllun eða ekki getur hver sá sem telur sig eiga rétt á hendur búinu lýst kröfu sinni fyrir erfingjunum eða þeim manni sem þeir hafa tilnefnt til að svara fyrir hagsmuni búsins. Slík kröfulýsing hefur ekki þau áhrif sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 57. gr., nema mál sé rekið um hana eftir 2. mgr. 90. gr.
    Mál verður ekki höfðað á hendur dánarbúi þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta nema að því leyti sem mælt er fyrir um heimild til þess í 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 88. gr. og 2. mgr. 90. gr. Þó má hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms á hendur dánarbúi ef það hefur höfðað mál um sína hagsmuni.

88. gr.

    Fjárnám verður ekki gert í eign dánarbús þótt erfingjar hafi leyfi til einkaskipta, hvorki til fullnustu kröfu á hendur þeim látna né erfingja, einum eða fleiri, nema eignin standi að fyrra bragði til tryggingar fyrir kröfunni. Það sama á við um kyrrsetningu og löggeymslu.
    Hafi erfingjar leyfi til einkaskipta getur sá sem hefur aflað sér dóms á hendur þeim látna um skyldu hans til athafnar fylgt kröfu sinni samkvæmt dóminum eftir með aðför á hendur dánarbúinu að því leyti sem kröfunni verður fullnægt eftir aðalefni sínu án fjárnáms. Þá má einnig beina kröfu að dánarbúi um útburðar– eða innsetningargerð án undangengins dóms og sáttar. Kröfu um málskostnað, sem kann að vera lagður á búið vegna ágreinings um aðför eftir þessari málsgrein, má fullnægja með fjárnámi á hendur erfingja, svo og kröfu um kostnað af gerðinni sem hefur verið ákveðinn við framkvæmd hennar.
    Sá sem telur athöfn erfingja í nafni búsins brjóta gegn lögvörðum rétti sínum getur krafist að lögbann verði lagt við henni eftir almennum reglum, ef þeir hafa leyfi til einkaskipta. Mál til staðfestingar á lögbanni verður þá höfðað á hendur dánarbúinu og má sækja það í þeirri þinghá þar sem skiptin fara fram. Í slíku máli má dæma búið til greiðslu skaðabóta vegna brots á lögbanni og málskostnaðar, en slíku dómsákvæði má fullnægja með fjárnámi hjá erfingja.
    Krefjast má nauðungarsölu á eign dánarbús eftir almennum reglum ef erfingjar hafa leyfi til einkaskipta og þeirri kröfu verður komið fram án aðgerða sem ákvæði 3. mgr. 87. gr. eða 1. mgr. þessarar greinar girða fyrir.

89. gr.

    Ákvæði 87. og 88. gr. breyta í engu rétti þess sem telur sig eiga kröfu á hendur dánarbúi til að sækja hana á hendur erfingja í skjóli ábyrgðar hans á skuldbindingum búsins.

90. gr.

    Ef ágreiningur rís milli erfingja við einkaskipti, hvort sem er um réttindi þeirra til arfs, réttindi eða skyldur búsins eða ráðstafanir á hagsmunum þess, getur einn þeirra eða fleiri leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið eftir 123. gr. meðan skiptum er enn ólokið. Dómsmál verður ekki höfðað með öðrum hætti til að fa leyst úr slíku ágreiningsefni.
    Ef ágreiningur verður um kröfu sem er beint að dánarbúi skv. 2. mgr. 87. gr. og erfingjar og sá sem hefur hana uppi eru allir á einu máli um það geta þeir leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið eftir ákvæðum 123. gr. meðan skiptum er enn ólokið.
    Einkaskiptum verður ekki lokið meðan máli skv. 1. eða 2. mgr. er ólokið nema allir hlutaðeigendur séu á það sáttir, en málinu má þá halda áfram í óbreyttu horfi þótt skiptum sé lokið.

XII. KAFLI

Niðurfelling leyfis til einkaskipta.

91. gr.

    Sýslumaður skal fella niður leyfi til einkaskipta og taka við forræði búsins á ný ef erfingjar ljúka ekki skiptum innan þess frests sem hann hefur veitt þeim, þeir hlíta ekki öðrum skilyrðum sem hann hefur sett fyrir einkaskiptum eða hann synjar um staðfestingu einkaskiptagerðar skv. 2. mgr. 94. gr. Erfingjum skal þó að jafnaði gefinn kostur á að tala máli sínu áður en leyfi verður fellt niður og er sýslumanni heimilt að veita þeim tiltekinn frest til úrbóta ef hann telur það geta borið árangur.
    Leyfi til einkaskipta verður ekki að öðrum kosti fellt niður nema eftir ákvæðum 45. gr.

92. gr.

    Ráðstafanir erfingja á hagsmunum búsins gagnvart þriðja manni, sem þeir hafa gert í skjóli leyfis til einkaskipta, raskast ekki af því einu að leyfi þeirra sé síðar fellt niður. Ákvarðanir, sem erfingjar hafa tekið um réttindi sín á milli, binda þá eftir reglum um gildi loforða, sbr. þó 2. mgr.
    Hafi erfingjar fengið eignir búsins útlagðar við einkaskipti og leyfi þeirra er síðan fellt niður ber hverjum þeirra að skila því aftur sem hann hefur tekið við ef búið krefst þess. Geti erfingi ekki skilað eign má búið krefja hann um fjárhæð sem nemur andvirði hennar þegar útlagning átti sér stað ásamt vöxtum.

XIII. KAFLI

Lok einkaskipta.

93. gr.

    Þegar erfingjar telja málefnum búsins nægilega ráðið til lykta og innan þess frests sem þeim hefur verið ákveðinn til að ljúka einkaskiptum skulu þeir leggja einkaskiptagerð fyrir sýslumann. Í henni skal eftirfarandi m.a. koma fram:
     1.      Nafn þess látna, kennitala. dánardagur og heimilisfang á dánardægri.
     2.      Hverjir séu erfingjar þess látna, kennitölur þeirra og heimilisföng, og eftir atvikum hverjir hafi komið fram af þeirra hálfu sem lögráðamenn eða málsvarar.
     3.      Hverjar eignir búsins hafi verið í byrjun og hvað hafi fengist í arð eða vexti af þeim, en tiltekið skal verðgildi einstakra muna eða safns samkynja muna sem erfingjar leggja til grundvallar um skiptin sín á milli.
     4.      Hverjar kröfur hafi komið fram á hendur búinu, hverjar þeirra hafi verið greiddar og hvernig fari um þær sem hafa ekki enn verið efndar.
     5.      Hvernig hver erfingi hafi fengið eða muni fá arf sinn greiddan eða lagðan sér út.
    Einkaskiptagerð skal vera skrifleg og undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum. Þau gögn skulu fylgja henni sem erfingjar telja horfa til skýringa.
    Við afhendingu einkaskiptagerðar skulu erfingjar leggja þær yfirlýsingar fyrir sýslumann til staðfestingar sem þeir þurfa á að halda til að þinglýsa eða skrá eignarréttindi sín að munum eða réttindum sem þeir taka að arfi. Þá skulu erfingjar enn fremur afhenda sýslumanni þær skýrslur og skjöl sem þeim er skylt til ákvörðunar og greiðslu erfðafjárskatts.
    Nú eru eignir búsins óverulegar eða einkaskiptin eru einföld í sniðum af öðrum ástæðum, og er þá sýslumanni heimilt að ósk erfingja að láta hjá líða að krefja þá um einkaskiptagerð ef honum þykja nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu um þann látna, erfingja hans, eignir búsins og skuldbindingar þess. Ef einkaskiptagerð er ekki lögð fyrir sýslumann skal litið svo á að erfingjar hafi fengið allar eignir búsins lagðar út eftir arfshlutföllum, eftir atvikum með tilliti til búshluta maka þess látna.

94. gr.

    Sýslumaður skal, svo fljótt sem verða má, taka afstöðu til einkaskiptagerðar og þeirra skjala sem erfingjar leggja fyrir hann eftir 3. mgr. 93. gr. Honum er heimilt að krefja erfingja um nánari skýringar á sérhverju því sem hann telur þörf og frekari gögn um einstök atriði.
    Telji sýslumaður skorta á að einkaskiptagerð fullnægi ákvæðum 1. og 2. mgr. 93. gr. eða að eignir eða skuldbindingar búsins kunni að vera svo vantaldar eða ranglega metnar að hætta sé á að erfðafjárskattur verði ekki réttilega ákveðinn eða að brotið verði gegn réttindum erfingja sem lögráðamaður eða málsvari kemur fram fyrir skal hann að öðru jöfnu gefa erfingjum kost á að bæta úr því sem er áfátt, þá þegar eða innan tiltekins frests. Sinni erfingjar því ekki eða telji sýslumaður annmarka svo verulega að ekki megi ætla að erfingjar muni bæta úr skal hann synja um staðfestingu einkaskiptagerðar. Eins skal farið að ef annmarkar eru á þeim gögnum sem erfingjum ber að láta af hendi eftir 3. mgr. 93. gr., en sýslumanni er þó heimilt að staðfesta einkaskiptagerð þótt ekki liggi fyrir fullnægjandi yfirlýsingar um eignarréttindi erfingja að einstökum munum eða réttindum búsins.
    Ef sýslumaður telur einkaskiptagerð og önnur framkomin skjöl fullnægjandi skal hann árita hana um staðfestingu.

95. gr.

    Einkaskiptum er lokið þegar sýslumaður hefur staðfest einkaskiptagerð skv. 3. mgr. 94. gr.
    Einkaskipti verða ekki tekin upp á ný nema síðar komi fram eignir sem hefðu átt að koma til skipta. Erfingjar skulu tilkynna sýslumanni ef slíkt tilefni verður til að taka skiptin upp, en leyfi til einkaskipta skal þá gefið út á ný eftir fyrri umsókn þeirra, eftir atvikum að fengnum yfirlýsingum þeirra sem koma í stað látinna erfingja. Skiptum skal síðan lokið á ný eftir ákvæðum 93. og 94. gr., en við endurupptöku verður ekki hreyft við því sem áður var gert við skiptin.
    Ákvæði 2. mgr. 84. gr. gilda um rétt þess sem kann að hafa verið gengið fram hjá við einkaskipti.

96. gr.

    Hafi sérstakur lögráðamaður verið skipaður skv. 1. mgr. 13. gr. skal hann tafarlaust afhenda reglulegum lögráðamanni erfingjans arfinn eða skilríki fyrir honum þegar útlagning hefur átt sér stað eða einkaskiptum hefur verið lokið.
    Hafi erfingja verið skipaður málsvari skv. 2. eða 3. mgr. 13. gr. skal málsvarinn standa skil á arfinum eftir 1. eða 4. mgr. 81. gr. Hafi málsvari verið skipaður eftir 3. mgr. 13. gr. skal sýslumaður fara svo að sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 81. gr.

97. gr.

    Eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið.

4. ÞÁTTUR


Opinber skipti á öðru en dánarbúum.


XIV. KAFLI

Opinber skipti til fjárslita milli hjóna o.fl.

98. gr.

    Hafi annað hjóna eða þau bæði sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng, en sammæli hafa ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi, getur annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra, enda séu ekki leiddar að því líkur að umsókn um leyfi til skilnaðar kunni að verða hafnað.
    Hafi dómsmál verið höfðað til skilnaðar hjóna að borði og sæng, lögskilnaðar þeirra eða ógildingar hjúskaparins, getur annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari framtil fjárslita milli þeirra.

99. gr.

    Annað hjóna getur krafist opinberra skipta til fjárslita milli sín og maka síns þótt hjúskapnum hafi ekki verið slitið:
     1.      ef maki þess rýrir hjúskapareign sína með vangæslu á fjármálum sínum, misbeitingu á ráðum yfir hjúskapareign eða annarri óhæfilegri framkomu, eða gefur sérstakt tilefni til óttast að svo fari,
     2.      ef bú maka þess er tekið til gjaldþrotaskipta.
    Hjón geta að auki krafist opinberra skipta til fjárslita milli sín ef þau eru sammála um það.

100. gr.

    Ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins getur annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra.

101. gr.

    Krafa um opinber skipti skal vera skrifleg og skal henni beint til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem aðilarnir eiga eða áttu síðast sameiginlegt lögheimili, nema þeir semji um annað.
    Í kröfu um opinber skipti skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Nöfn aðilanna, kennitölur þeirra beggja og heimilisföng, ásamt upplýsingum um umboðsmenn sem þau kunna að hafa tilnefnt vegna málefnisins.
     2.      Hvor aðilanna hafi uppi kröfu um opinber skipti og á hverju hann byggi rétt sinn til þess.
     3.      Hverjar séu helstu eignir og skuldir aðilanna, en greint skal sérstaklega milli hjúskapareigna og séreigna ef um hjón er að ræða.
    Gögn skulu fylgja kröfunni til stuðnings því að skilyrði séu fyrir opinberum skiptum skv. 98., 99. eða 100. gr., svo og önnur gögn sem má ætla að hafi þýðingu við mat á kröfunni.
    Krafa um opinber skipti verður því aðeins tekin til greina að telja megi sýnt af því sem fram er komið að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði eða sá sem hefur kröfuna uppi setji tryggingu fyrir honum. Sá sem krefst opinberra skipta ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu í byrjun.
    Farið skal eftir ákvæðum 43. gr. og 1.–5. mgr. 44. gr. við meðferð kröfu og úrskurð héraðsdómara um opinber skipti samkvæmt þessum kafla.

102. gr.

    Skiptin teljast byrjuð þegar héraðsdómari kveður upp úrskurð um að opinber skipti fari fram eða krafa um þau er fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi. Skipar héraðsdómari þá skiptastjóra til að fara með þau með bókun í þingbók. Ákvæði V. kafla taka til skiptastjóra við opinber skipti eftir þessum kafla.

103. gr.

    Ef aðili að opinberu skiptunum er ólögráða kemur lögráðamaður fram af hans hálfu við þau, þar á meðal varðandi kröfu um þau.
    Hafi krafa um opinber skipti verið tekin til greina og svo er ástatt um aðila að þeim sem segir í 2. eða 3. mgr. 13. gr. skal skiptastjóri fara þess á leit við sýslumann að hann skipi aðilanum málsvara til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin, nema skiptastjóri telji að það megi ljúka þeim án þess að atbeina aðilans verði þörf. Ákvæði 4. mgr. 13. gr., 14. gr., 15. gr. og 2. mgr. 96. gr. gilda um slíka málsvara.

104. gr.

    Ef ekki verða sammæli um annað koma aðeins til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem verða ekki taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar, héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita milli hjóna án skilnaðar eða ógildingar hjúskapar, eða óvígðri sambúð var slitið. Að auki skulu koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðan af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal aðeins tekið tillit til skulda aðilanna sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er hvoru hjóna um sig heimilt að krefjast að fá muni til eignar utan skipta, sem því eru nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni eða hefur eingöngu eða aðallega verið aflað til afnota þess, hvort sem munirnir eru hjúskapareignir þess sjálfs eða hins hjónanna, ef verðgildi munanna er ekki slíkt að þetta verði talið ósanngjarnt gagnvart hinu hjónanna, og það hjónanna sem fær muni með þessum hætti tekur að sér þær skuldir sem hvíla á mununum eða hafa orðið til vegna öflunar þeirra. Með sömu skilyrðum getur það hjónanna sem fer með forsjá sameiginlegs ófjárráða barns þeirra krafist af hálfu barnsins að það fái til eignar utan skipta muni sem það hefur haft afnot af úr hjúskapareign hvors hjónanna um sig. Við fjárslitin skal ekki tekið tillit til eigna og skulda sem er farið með á þennan hátt.
    Sambýlisfólk og sameiginleg ófjárráða börn þeirra njóta sama réttar og mælt er fyrir um í 2. mgr. þegar opinber skipti fara fram við slit óvígðrar sambúðar.

105. gr.

    Skiptastjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir skipun hans, boða aðilana, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar og leita þar vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta skv. 104. gr., hvorum aðilanum þær tilheyri, hvert verðmæti þeirra sé, hvar þær sé að finna, hver fari með umráð þeirra og hvort séreignir séu fyrir hendi og þá hverjar.
    Skiptastjóri héldur svo oft skiptafundi sem hann telur þörf til að afla upplýsinga um þau atriði sem er getið í 1. mgr. Að öðru leyti leitar hann ekki vitneskju um þau sjálfur, nema annar aðilinn eða báðir krefjist þess og honum verði talið kleift að verða við því.
    Verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin getur hvor aðilinn sem er krafist að skiptastjóri æski mats á þeim eftir 17.–23. gr. og njóta þá báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum er veitt í þeim ákvæðum. Skiptastjóra skal gefinn kostur á að vera viðstaddur þegar mat fer fram.
    Hafi eignum eða réttindum, sem ættu að koma til skipta, verið ráðstafað eftir þann tíma, sem getur í 1. mgr. 104. gr., en áður en opinber skipti byrjuðu og sammæli verða ekki annaðhvort um að taka ekki tillit til þeirra eða um verðgildi þeirra, skal það ákveðið með mati með sama hætti og segir í 3. mgr.

106. gr.

    Á skiptafundum sem eru haldnir skv. 105. gr. skal skiptastjóri enn fremur afla upplýsinga um þær skuldir aðilanna sem koma til álita eftir 1. mgr. 104. gr. Að öðru leyti leitar hann ekki sjálfur vitneskju um skuldir, nema annar aðilinn eða þeir báðir krefjist þess og honum verði talið kleift að verða við því.
    Telji annað hjóna sig eiga endurgjaldskröfu á hendur hinu eða að hinu beri að greiða skuld af séreign sinni skal það koma fram á skiptafundi þegar leitað er vitneskju um skuldir að öðru leyti.
    Ef annar aðilinn eða báðir óska eftir því á fyrsta skiptafundi skal skiptastjóri gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á þá sem telja til skulda á hendur aðilunum að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því innköllunin birtist fyrra sinni. Skiptastjóri má verða við ósk um þetta, þótt hún komi síðar fram, ef skiptin eru enn skammt á veg komin og hann telur innköllun munu þjóna tilgangi og ekki leiða til óþarfa tafa.
    Innköllun skv. 3. mgr. hefur ekki þau áhrif sem er mælt fyrir um í 4. mgr. 57. gr. og 58. gr. og veitir hún kröfuhöfum hvorki rétt til afskipta né til að krefjast efnda við skiptin. Við skiptin skal tekið tillit til krafna sem berast eftir lok kröfulýsingarfrests en áður en skiptum lýkur.
    Hvort sem innköllun er gefin út eða ekki skal skiptastjóri gefa báðum aðilunum kost á að tjá sig á skiptafundi um þær skuldir sem upplýst er um.

107. gr.

    Aðilarnir eiga hvor um sig rétt á að hafa vörslur þeirra eigna sem koma til skipta skv. 104. gr. og þeir höfðu í vörslum sínum þegar opinber skipti byrjuðu, þar til skiptastjóri kveður á um annað skv. 2. mgr. Það sama á við um afnot eigna að því leyti sem afnotin rýra ekki verðgildi þeirra óeðlilega.
    Skiptastjóri getur ákveðið að annar aðilinn verði sviptur vörslum eignar eftir kröfu gagnaðilans og að hann taki við vörslunum sjálfur eða fái þær gagnaðilanum:
     1.      ef meðferð vörsluhafans á eigninni gefur sérstakt tilefni til að óttast að hún geti farið forgörðum, spillst eða rýrnað verulega í verði,
     2.      ef teljandi munur er á verðgildi eða afnotagildi þeirra eigna sem hvor aðilinn hefur í vörslum sínum, unnt þykir að jafna aðstöðu þeirra með því að vörsluskipti verði á einhverjum þessara eigna og ástæða er til að ætla að aðilarnir muni ekki fá þær eignir lagðar sér út við skiptin sem hvor þeirra hefur í vörslum sínum í byrjun,
     3.      ef gagnaðili vörsluhafans eða barn þeirra á rétt til eignarinnar án tillits til skiptanna, sbr. 104. gr.,
     4.      ef ákveðið hefur verið að ráðstafa eigninni við skiptin og vörsluhafinn þykir torvelda að þeirri ákvörðun verði framfylgt,
     5.      ef eigninni hefur þegar verið ráðstafað eða hún hefur verið útlögð gagnaðila vörsluhafans og hann lætur hana ekki af hendi.
    Ef um skipti er að ræða milli hjóna verður annað þeirra ekki svipt vörslum séreignar sinnar nema því hafi verið mótmælt við skiptin að um séreign sé að ræða, ágreiningur um það hafi ekki verið leiddur til lykta og svo standi á sem segir í 1. tölul. 2. mgr.
    Neiti vörsluhafi að hlíta boði skiptastjóra um að láta eign af hendi getur skiptastjóri krafist úrskurðar héraðsdóms um skyldu hans til þess. Farið skal með slíkt málefni eftir 1. mgr. 124. gr. Taki héraðsdómari kröfu skiptastjóra til greina má kveða svo á í úrskurðinum að honum megi fullnægja með aðför án aðfararfrests. Kæra úrskurðarins frestar ekki heimild til aðfarar eftir honum.

108. gr.

    Meðan opinber skipti standa yfir er skiptastjóri einn bær um að ráðstafa þeim eignum sem koma til skipta skv. 104. gr. og til að taka við þeim eða greiðslu andvirðis þeirra úr hendi þriðja manns, nema þær hafi þegar verið lagðar aðilum út skv. 110. gr.

109. gr.

    Við skiptin skal greina milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum í senn.
    Þegar ákvarðað er hvað hvor aðili eigi að fá í sinn hlut og ef sammæli verða ekki um aðra skipan skal lagt saman varðandi hvorn þeirra fyrir sig verðmæti eigna, sem tilheyra honum einum, og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðilanum. Frá þessari heildareign hvors um sig skal síðan dregin fjárhæð skulda, sem beinast að hvorum þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum.
    Hvor aðilinn um sig á aðeins rétt á að fá eignir í sinn hlut móti skuldum sínum að því marki sem eignir hans sjálfs, þar á meðal hlutdeild í sameign, hrökkva fyrir skuldunum. Að því leyti sem eignir aðilans nægja ekki fyrir skuldum hans verður ekki tekið tillit til skuldanna sem umfram eru, nema aðilar ákveði annað.
    Ef annar aðilinn á eignir umfram skuldir skal hrein eign hans koma til skipta milli þeirra beggja eftir því sem leitt verður af reglum um fjármál hjóna eða sambýlisfólks. Eigi báðir aðilarnir eignir umfram skuldir skal hrein eign þeirra lögð saman og ákveðið eftir sömu reglum hvað hvorum þeirra ber að tiltölu af henni. Hlutdeild annars aðilans í hreinni eign hins eða í samanlagðri hreinni eign þeirra beggja skal þó skerðast að því leyti sem hinn aðilinn á endurgjaldskröfu á hendur honum, sbr. 2. mgr. 106. gr.
    Hvor aðilinn um sig á rétt á að fá eignir lagðar sér út eftir 110. gr. og greiðslu af andvirði eigna sem er ráðstafað eftir 111. gr. til fullnustu á því sem honum ber skv. 3. og 4. mgr.

110. gr.

    Eftir því sem ráðið er hverjar eignir komi til skipta, hvorum aðila þær tilheyri og hvert verðmæti þeirra verði talið við skiptin, svo og til hverra skulda verði tekið tillit og með hvaða hætti, skal skiptastjóri gefa hvorum aðilafyrir sig kost á því á skiptafundi að fá eignir lagðar sér út eftir ákvæðum 2.–4. mgr. hafi aðilarnir ekki þegar komið sér saman um annað. Eftir því sem skiptastjóri telur skilyrðum þessarar greinar fullnægt til að verða við kröfum um það skal hann leggja aðilunum út eignir þegar í stað til frjálsrar ráðstöfunar þótt enn sé óvíst um eignir og skuldir að öðru leyti, enda þyki sýnt að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þessum hætti en hann muni eiga rétt á að endingu. Skiptastjóri gefur út heimildarskjöl um útlagningu, ef þeirra er þörf, og hafa þau sömu áhrif og ef hann hefði umboð aðilanna til útgáfu þeirra.
    Fyrst í stað skal skiptastjóri gefa hvorum aðila um sig kost á að fá lagt út af þeim eignum sínum sem eru ekki í sameign aðilanna upp í þann hlut sem honum ber skv. 3. og 4. mgr. 109. gr. Verði ekki sammæli um annað á hvorugur aðilanna rétt á að fá eignir hins lagðar sér út með þessum hætti.
    Þegar aðila hefur verið útlagt það sem kostur er skv. 2. mgr., skal skiptastjóri því næst gefa honum kost á að fá útlagðar eignir sem eru í sameign aðilanna, enda sé verðmæti eignanna innan marka þess sem aðilinn á enn rétt á að fá í sinn hlut skv. 3. og 4. mgr. 109. gr. Eigi báðir aðilarnir þennan rétt til að fá eignir útlagðar úr sameign þeirra og þeir krefjast báðir útlagningar á sömu eign skal sá þeirra ganga fyrir sem má ætla að hafi meiri þörf fyrir eignina, en ella skal varpað hlutkesti um í hvors hlut hún komi ef ekki verða sammæli um annað.
    Nú hefur útlagning farið fram skv. 2. og 3. mgr. og annar aðilinn eða þeir báðir eiga enn rétt á að fá eignir í sinn hlut skv. 3. og 4. mgr. 109. gr., en verðmæti einstakra eigna, sem eftir standa, fer fram úr því sem hvor aðili um sig á rétt á. Skal skiptastjóri þá gefa þeim sem þetta á við um kost á að fá slíkar eignir í sinn hlut með því að hann fái það lagt út af verðmæti þeirra sem réttur hans stendur ennþá til, en reiði af hendi afgang verðmætisins með peningagreiðslu. Ef báðir aðilarnir krefjast að fa sömu eign í sinn hlut með þessum hætti og sammæli verða ekki um annað skal sá þeirra ganga fyrir í þessum efnum sem á eignina, en sé hún í sameign aðilanna skal sá ganga fyrir sem má ætla að hafi meiri þörf fyrir hana, en ella skal hlutkesti ráða.
    Ef sammæli verða ekki um annað getur hvorugur aðilinn krafist að fá eignir lagðar sér út skv. 2.–4. mgr. móti skuld sem hvílir á þeim báðum í senn, nema hann taki skuldina einn að sér og gagnaðilinn verði leystur undan skuldinni eða hann veiti gagnaðilanum nægilega tryggingu að mati skiptastjóra fyrir því að gagnaðilinn eigi ekki á hættu að verða sóttur til greiðslu skuldarinnar. Ef báðir aðilar krefjast útlagningar gegn því að taka að sér sameiginlega skuld með þessum skilyrðum skal sá þeirra ganga fyrir sem ber endanlega ábyrgð á greiðslu hennar, en sé ábyrgð þeirra jöfn skal varpað hlutkesti um hvor þeirra taki skuldina að sér.
    Eignir verða ekki allar lagðar út aðilunum nema skiptakostnaður sé áður greiddur.

111. gr.

    Að því leyti sem eignir verða ekki lagðar aðilunum út skv. 110. gr. skulu teknar ákvarðanir á skiptafundi um ráðstöfun þeirra.
    Aðilarnir eiga einir atkvæðisrétt á skiptafundi, en atkvæði hvors þeirea ræðst af því hlutfalli sem hann á tilkall til af hreinni eign þeirra, sbr. 4. mgr. 109. gr. Ákvæði 70. og 71. gr. gilda að öðru leyti um þessa skiptafundi eftir því sem átt getur við.
    Skiptastjóri framfylgir ákvörðunum sem eru teknar á skiptafundum. Hann gefur út heimildarskjöl við ráðstöfun eigna aðilanna með sömu áhrifum og ef hann hefði umboð þeirra til þess.
    Andvirði eigna, sem er ráðstafað við skiptin, verður ekki varið til greiðslu skulda nema sá aðili sem skuld hvílir á æski þess sjálfur. Ef skuld hvílir þó á báðum aðilum í senn og annar þeirra tekur hana ekki að sér með þeim hætti sem í 5. mgr. 110. gr. segir getur hvor þeirra um sig krafist að hún verði greidd að fullu af andvirði eigna eftir því sem það hrekkur til.

112. gr.

    Ef ágreiningur rís milli aðila við opinber skipti samkvæmt kafla þessum um þau atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.–111. gr. taka til skal skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beinir skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. Slíkur ágreiningur verður ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt.

113. gr.

    Ef báðir aðilarnir eru sammála um það og hvorugur þeirra hefur neytt réttinda sem eru lögum samkvæmt háð þeirri forsendu að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra geta þeir hvenær sem er ákveðið að fella skiptin niður, enda hafi áfallinn kostnaður af þeim þá verið greiddur. Þótt þetta sé gert haggast ekki gildi þeirra ráðstafana sem hafa áður verið gerðar um eignir þeirra og skuldir skv. 111. gr.
    Takist samkomulag milli aðilanna um tilhögun fjárslita eftir að opinber skipti eru byrjuð skal skiptastjóri gera skriflegan samning milli þeirra og árita hann um að skiptunum sé lokið samkvæmt honum, enda hafi kostnaður af skiptunum verið greiddur.
    Ef skiptum lýkur ekki með þeim hætti sem segir í 1. eða 2. mgr. og þegar eignir hafa verið lagðar aðilunum út eða þeim hefur verið ráðstafað skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, gera frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna. Um efni frumvarpsins, meðferð þess og aðgerðir við lok skipta skal farið eftir 77.–79. gr., 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 96. gr. eftir því sem átt getur við.
    Þegar skiptum hefur verið lokið skv. 2. eða 3. mgr. verða þau ekki tekin upp á ný, nema fram komi eign sem hefði átt að koma til skipta og annar eða báðir aðilarnir krefjast þess. Við endurupptöku verður ekki hreyft við því sem áður var gert, nema báðir aðilar séu sammála um það.

114. gr.

    Þegar skipti eru felld niður eða þeim er lokið skv. 113. gr. skal skiptastjóri tilkynna það héraðsdómara skriflega.
    Þegar opinberum skiptum til fjárslita milli hjóna hefur verið lokið áður en hjúskapnum er endanlega lokið getur aðili að þeim fengið samning eða úthlutunargerð skv. 2. eða 3. mgr. 113. gr. skrásett eins og um kaupmála væri að ræða. Upp frá því skal það sem hvor aðilanna fékk í sinn hlut við skiptin og eignast eftir þann tíma sem um ræðir í 1. mgr. 104. gr. teljast séreign hans í hjúskapnum.

115. gr.

    Þótt opinber skipti fari fram samkvæmt kafla þessum breyta þau ekki rétti annarra til að höfða mál á hendur aðilum að skiptunum eða krefjast fullnustugerða á hendur þeim.

XV. KAFLI

Opinber skipti til slita á félögum þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð.

116. gr.

    Að því leyti sem heimilt er að lögum að félagsmaður í félagi þar sem báðir eða allir félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess krefjist slita á því getur hann krafist opinberra skipta í því skyni, ef félagssamþykkt eða aðrir löggerningar standa því ekki í vegi.
    Slitum verður ekki komið fram með opinberum skiptum eftir lögum þessum á öðrum félögum en þeim sem 1. mgr. tekur til.

117. gr.

    Ef krafist er opinberra skipta til slita á skrásettu félagi skal beiðni um þau beint skriflega til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem félagið á varnarþing. Sé félag óskrásett skalbeiðninni beint til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem félagið hefur aðalstöðvar. Ráðist umdæmi ekki með þessum hætti skal krafist skipta í umdæmi þar sem formaður félagsstjórnar á heimilisvarnarþing, en sé formaður enginn, þá í umdæminu þar sem sá sem krefst skiptanna á heimilisvarnarþing.
    Í kröfu um opinber skipti skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Um hvert félag sé að ræða, kennitala þess og heimilisfang, hvenær það hafi verið stofnað og hver tilgangur þess sé.
     2.      Hver hafi uppi kröfu um opinber skipti og á hverju hann byggi rétt sinn til þess.
     3.      Hverjir aðrir félagsmenn séu, kennitölur þeirra og heimilisföng, að því leyti sem kunnugt er um þá.
     4.      Hverjar eignir félagsins séu í helstu atriðum og hverjar þær skuldbindingar séu sem kunnugt er um.
    Gögn skulu fylgja kröfunni því til stuðnings að skilyrði séu til að verða við henni. Eftir því sem við á skulu einnig fylgja samþykktir félagsins, upplýsingar um það sem hefur verið tilkynnt firmaskrá um félagið og síðustu reikningar þess.
    Krafa um opinber skipti til slita á félagi verður ekki tekin til greina, nema sýnt þyki af því sem fram er komið að eignir þess muni nægja til greiðslu skiptakostnaðar eða sá sem krefst skiptanna leggi fram tryggingu fyrir skiptakostnaði. Hann ábyrgist greiðslu kostnaðarins þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu.
    Um meðferð kröfunnar og úrskurð um hana gilda ákvæði 43. gr. og 1.–5. mgr. 44. gr.

118. gr.

    Ef krafa um opinber skipti til félagsslita er tekin til greina skulu skiptin fara að fyrirmælum V., VI., VIII., IX. og X. kafla um skipti á dánarbúi, þegar erfingjar ábyrgjast skuldbindingar þess, með þeim breytingum sem leiða af eðli máls.

5. ÞÁTTUR


Málsmeðferð fyrir dómstólum.


XVI. KAFLI

Hver ágreiningsatriði verða lögð fyrir héraðsdóm og hvernig það verður gert.

119. gr.

    Hver sá, sem telur aðgerð eða ákvörðun sýslumanns skv. II., XII. eða XIII. kafla brjóta gegn réttindum sínum og hefur lögvarða hagsmuni af að fá henni hnekkt, getur krafist þess við sýslumann að hann láti af aðgerð sinni og grípi eftir atvikum til annarrar aðgerðar eða að hann falli frá ákvörðun sinni og taki eftir atvikum aðra ákvörðun. Verði sýslumaður ekki við því getur sá sem á hlut að máli krafist úrlausnar héraðsdómara um ágreiningsatriðið.
    Krafa um úrlausn héraðsdómara skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og skal henni beint til þess sýslumanns sem í hlut á. Þegar sýslumanni hefur borist krafan skal hann tafarlaust senda hana þeim héraðsdómstól sem hefur lögsögu í umdæmi hans, ásamt upplýsingum um eftirfarandi, að því leyti sem þær koma ekki fram í kröfunni:
     1.      Hvert það dánarbú sé sem ágreiningsefnið tengist.
     2.      Nafn þess sem krefst úrlausnarinnar, kennitala hans og heimilisfang.
     3.      Hver sú aðgerð eða ákvörðun sé sem úrlausnar er krafist um, hvernig hún varði þann sem krefst hennar og hverjar kröfur hann hafi gert við sýslumann.
    Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem má telja að hafi þýðingu fyrir úrlausn ágreiningsins, þar á meðal samrit gagna úr dánarskrá.
    Héraðsdómari fer með ágreiningsmál samkvæmt þessari grein eftir ákvæðum XVII. kafla. Sá sem krefst úrlausnar héraðsdómara verður sóknaraðili í ágreiningsmálinu fyrir dómi en sýslumaður varnaraðili.
    Meðan ágreiningsmálið hefur ekki verið leitt til lykta skal sýslumaður gæta þess eftir föngum að aðrar aðgerðir hans varðandi dánarbúið raski ekki frekar en nauðsyn krefur þeim hagsmunum sem málið varðar.

120. gr.

    Ef ágreiningur verður á dómþingi um það hvort krafa um opinber skipti skuli tekin til greina, sbr. 3. mgr. 44. gr., skal héraðsdómari taka ágreiningsmálið þegar í stað til meðferðar án sérstakra tilkynninga skv. 127. og 128. gr. með þingfestingu máls eftir ákvæðum XVII. kafla, þar sem ráðið verði til lykta hvort opinber skipti fari fram. Sá sem krefst opinberra skipta skal vera sóknaraðili í málinu, en sá sem andmælir þeirri kröfu verður varnaraðili. Leyst skal úr ágreiningi um kröfu um opinber skipti í einu máli þótt fleiri en einn krefjist þeirra eða fleiri en einn hafi uppi andmæli gegn henni og hver þeirra á sínum grunni.
    Ef krafa kemur fram þess efnis sem segir í 1. mgr. 45. gr. skal héraðsdómari fara með hana sem hluta máls skv. 1. mgr. og gefa þá aðilum þess kost á að tjá sig sérstaklega um þá kröfu án þess að skriflegar greinargerðir verði lagðar fram um hana, nema aðilar æski þess. Héraðsdómari skal síðan kveða upp sérstakan úrskurð um þennan þátt málsins svo fljótt sem auðið er. Úrskurðinum verður ekki skotið til æðra dóms.

121. gr.

    Sá sem krefst úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra verði vikið úr starfi skv. 3. mgr. 47. gr. skal beina skriflegri kröfu sinni um það til þess héraðsdómstóls þar sem skiptastjórinn var skipaður til starfans. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Nafn þess sem hefur kröfuna uppi, kennitala hans og heimilisfang, ásamt skýringu á því hvernig hann telji sig eiga aðild að slíkri kröfu.
     2.      Hver sá skiptastjóri sé sem krafist er að verði vikið úr starfi og til hverra starfa hann hafi verið skipaður.
     3.      Röksemdir fyrir kröfunni ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.
    Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem hún er studd við.
    Héraðsdómari fer með kröfu skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XVII. kafla. Sá sem krefst frávikningar skiptastjórans skal vera sóknaraðili máls en skiptastjórinn varnaraðili.

122. gr.

    Ef ágreiningur rís um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laga þessara kveða sérstaklega á um að skuli beint til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem koma upp við opinber skipti, skal skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Hver þau opinberu skipti séu þar sem ágreiningur hefur risið.
     2.      Nöfn þeirra sem eiga aðild að ágreiningnum, kennitölur þeirra og heimilisföng.
     3.      Um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.
     4.      Hvort skiptastjóri telji hlutaðeigandi dánarbú þurfa að eiga aðild að máli um ágreininginn eða eftir atvikum hvort hann telji sig þurfa að gæta hagsmuna vegna opinberra skipta skv. XIV. kafla við meðferð málsins.
    Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem varða ágreiningsefnið.
    Héraðsdómari fer með ágreiningsatriði skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XVII. kafla. Ef ágreiningsefni málsins varðar hvort krafa erfingja eða kröfuhafa verði viðurkennd við opinber skipti skal sá sem hefur kröfuna uppi að öðru jöfnu verða sóknaraðili málsins en búið eða sá sem andmælir kröfunni verður varnaraðili. Ef ágreiningsefni málsins er annað skal héraðsdómari ákveða eftir eðli þess hvernig aðild verði háttað.

123. gr.

    Erfingi sem æskir úrlausnar héraðsdómara um ágreining milli sín og annarra erfingja við einkaskipti á dánarbúi, sbr. 1. mgr. 90. gr., skal beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem veitti leyfi til einkaskipta. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
     1.      Um hvaða dánarbú sé að ræða og hvenær erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta.
     2.      Nafn þess sem krefst úrlausnarinnar, kennitala hans og heimilisfang.
     3.      Hverjir aðrir séu erfingjar, kennitölur þeirra og heimilisföng.
     4.      Um hvaða atriði ágreiningur standi ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.
     5.      Hvers sá sem krefst úrlausnarinnar krefjist varðandi ágreiningsefnið.
    Ef sammæli hafa orðið um að leggja ágreiningsefni, sem hefur risið milli erfingja og kröfuhafa við einkaskipti, undir úrlausn héraðsdómara skv. 2. mgr. 90. gr., skulu aðilarnir sameiginlega beina skriflegri kröfu til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem veitti erfingjunum leyfi til einkaskipta. Í kröfunni skulu þau atriði koma fram sem eru talin í 1. mgr., ásamt upplýsingum um nafn, kennitölu og heimilisfang hlutaðeigandi kröfuhafa.
    Þau gögn skulu fylgja kröfu skv. 1. eða 2. mgr. sem varða ágreiningsefnið, þar á meðal skilríki fyrir að erfingjunum hafi verið veitt leyfi til einkaskipta.
    Þegar héraðsdómara hefur borist krafa skv. 1. eða 2. mgr. skal hann kanna hvort málefnið geti átt undir úrlausn hans. Telji hann svo ekki vera getur hann neitað að fara með málið, en vilji sá sem beindi kröfunni til hans ekki una þeirra ákvörðun getur sá krafist úrskurðar um neitunina.
    Ef héraðsdómari telur skilyrðum fullnægt til þess skal hann fara með málið eftir ákvæðum XVII. kafla, en ekki er hann bundinn við þá afstöðu ef síðar er krafist frávísunar málsins. Ef um ágreining er að ræða, sem 1. mgr. tekur til, skal sá sem beindi kröfunni til héraðsdómara að jafnaði vera sóknaraðili málsins en aðrir erfingjar varnaraðilar.
    Ef mál er komið til að hætti 2. mgr. skal hlutaðeigandi kröfuhafi að jafnaði vera sóknaraðili en dánarbúið varnaraðili.

124. gr.

    Telji dánarbú, sem er til opinberra skipta, til réttinda á hendur erfingja eða maka þess látna og úrlausn um þau hefur þýðingu fyrir skipti búsins, ekki verður leyst úr um þau í máli sem ber að eftir 122. gr. og unnt væri að höfða einkamál í héraði til að sækja þau eftir almennum reglum getur skiptastjóri, ef hann kýs svo, krafist úrlausnar héraðsdómara um kröfur búsins eftir ákvæðum XVII. kafla. Skal skiptastjóri þá senda þeim héraðsdómstól, þar sem hann var skipaður til starfans, stefnu og önnur sóknargögn sem gerð eru úr garði eftir reglum um meðferð einkamála í héraði að öðru leyti en því að í stefnu skal þess dómþings ekki getið þar sem málið verður þingfest. Með gögnum þessum skal fylgja skrifleg beiðni um þessa málsmeðferð, þar sem m.a. er rökstutt að skilyrðum sé fullnægt fyrir henni.
    Telji aðili að opinberum skiptum eftir XIV. kafla til réttinda á hendur gagnaðila sínum sem tengjast fjárslitum milli þeirra, án þess þó að leyst verði úr um þau í máli sem ber að eftir 122. gr. og unnt væri að höfða einkamál í héraði til að sækja þau eftir almennum reglum, getur hann, ef hann svo kýs, krafist úrlausnar héraðsdómara um kröfur sínar á hendur gagnaðila sínum eftir ákvæðum XVII. kafla. Skal aðilinn þá senda þeim héraðsdómstól sem kvað á um opinberu skiptin stefnu og önnur sóknargögn ásamt beiðni, svo sem lýst er í 1. mgr.
    Þegar héraðsdómara berst beiðni ásamt sóknargögnum skv. 1. eða 2. mgr. skal hann kanna hvort skilyrðum sé fullnægt til að verða við henni. Telji hann það ekki getur hann neitað að fara með málið með skriflegri ákvörðun, en vilji sá sem beindi málinu til hans ekki una þeirri ákvörðun getur sá krafist úrskurðar um neitunina. Ella fer héraðsdómari með málið eftir ákvæðum XVII. kafla, en ekki er hann bundinn af þeirri afstöðu ef siðar er krafist frávísunar málsins.

125. gr.

    Nú telur dánarbú til réttinda á hendur öðrum en þeim sem 1. mgr. 124. gr. tekur til, hvort sem búið er til opinberra skipta eða einkaskipta, réttindin hafa þýðingu fyrir skiptin og þau mætti sækja í einkamáli í héraði eftir almennum reglum, og getur þá sá eða þeir sem hafa forræði á málefnum þess leitað úrlausnar héraðsdómara um réttindin eftir ákvæðum XVII. kafla, ef sá eða þeir sem kröfur beinast að eru því samþykkir.
    Nú rís ágreiningur milli hjóna um fjárslit milli þeirra vegna skilnaðar eða ógildingar hjúskapar án þess að opinber skipti fari þó fram og um ágreining er að tefla, sem mætti leysa úr skv. 122. gr. eða 2. mgr. 124. gr., ef opinber skipti skv. XIV. kafla væru viðhöfð, og geta þá hjónin, ef þau eru sammála um það, leitað úrlausnar héraðsdómara um ágreininginn eftir ákvæðum XVII. kafla.
    Um önnur atriði varðandi mál skv. 1. og 2. mgr. fer samkvæmt ákvæðum 124. gr. eftir því sem átt getur við.

126. gr.

    Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla verður ekki leyst úr um skyldur þriðja manns í málum sem fara eftir ákvæðum XVII. kafla, nema um sé að ræða:
     1.      Skyldu til greiðslu málskostnaðar eða réttarfarssektar vegna máls sem er rekið eftir XVII. kafla.
     2.      Skyldu til greiðslu gagnkröfu, hvort sem er til skuldajafnaðar eða sjálfstæðrar dómsúrlausnar, ef hlutaðeigandi hefur sjálfur gert kröfu um réttindi sín, ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir ákvæðum XVII. kafla, skilyrði væru til að höfða gagnsök um gagnkröfuna eða hafa hana uppi til skuldajafnaðar í einkamáli um kröfu hans og hann hefur sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dómi.
     3.      Skyldu til greiðslu kostnaðar varðandi muni sem hlutaðeigandi hefur krafist að fá afhenta ef ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir XVII. kafla, en aðeins verður þá kveðið á um slíka skyldu sem skilyrði fyrir afhendingu.

XVII. KAFLI

Málsmeðferð fyrir héraðsdómi.

127. gr.

    Þegar ágreiningsmál hefur borist héraðsdómara til úrlausnar með þeim hætti sem segir í XVI. kafla og hann hefur eftir atvikum staðreynt að skilyrði séu til að fara með það eftir ákvæðum þessa kafla, ákveður hann stað og stund til þinghalds þar sem málið verður þingfest, og sendir öllum aðilum málsins tilkynningu um það, þar sem eftirfarandi skal koma fram:
     1.      Hver hafi krafist úrlausnar hans.
     2.      Hverjir séu aðilar að málinu til sóknar og varnar ásamt kennitölum þeirra og heimilisföngum.
     3.      Hvert ágreiningsefnið sé sem krafist er úrlausnar um og hverjar kröfur sóknaraðili málsins hafi gert að því leyti sem þegar er kunnugt um þær.
     4.      Hvar og hvenær málið verði þingfest.
     5.      Hverjar afleiðingar það hafi ef aðilar til sóknar og varnar sækja ekki þing.
    Með tilkynningunni skal fylgja samrit þess skjals sem var beint til héraðsdómara samkvæmt ákvæðum XVI. kafla í því skyni að leita úrlausnar hans. Sé um mál að ræða skv. 124. eða 125. gr. skal samrit stefnu einnig fylgja tilkynningunni. Héraðsdómara er þó heimilt þess í stað að taka upp í tilkynningu sinni texta þess eða þeirra skjala sem hefðu ella fylgt henni.

128. gr.

    Tilkynning skv. 127. gr. skal birt málsaðila eða þeim sem væri bær til að taka við birtingu stefnu fyrir hans hönd með þeim fyrirvara sem héraðsdómari hefur metið hæfilegan.
    Birting skv. 1. mgr. skal fara fram með sama hætti og stefna verður birt í einkamáli.

129. gr.

    Mál samkvæmt þessum kafla telst höfðað við þingfestingu þess, en þá leggur héraðsdómari fram þau gögn um málið sem honum hafa borist og hann telur hafa þýðingu fyrir úrlausn þess, ásamt tilkynningum skv. 127. gr. með gögnum um birtingu þeirra.
    Ef sóknaraðili mætir ekki við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal málið fellt niður, en héraðsdómari má þá úrskurða varnaraðila ómaksþóknun ef hann sækir þing og krefst hennar. Hafi gagnkröfur verið hafðar uppi í málinu skv. 4. mgr. 130. gr. skal þó aðeins fella niður aðalsök en leyst skal þá úr gagnkröfunum á hendur sóknaraðila eftir reglu 3. mgr.
    Ef varnaraðili sækir ekki þing við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal farið með málið eftir almennum reglum um útivist stefnda í einkamáli, en sóknaraðila skal þá gefinn kostur á að leggja fram greinargerð og frekari gögn samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 130. gr.

130. gr.

    Ef sótt er þing af hálfu beggja eða allra aðila við þingfestingu og ekki verður sátt í málinu skal héraðsdómari gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð, þar sem fram komi til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Heimilt er þó að veita sóknaraðila skamman frest í þessu skyni ef ekki er um mál að ræða sem 124. eða 125. gr. taka til og stefna og sóknargögn hafa þegar komið fram í.
    Að framkomnum gögnum sóknaraðila skv. 1. mgr. skal varnaraðila gefinn kostur á skömmum fresti til að leggja fram greinargerð af sinni hendi, þar sem fram komi kröfur hans um formhlið og efnishlið máls og á hverju þær séu byggðar, ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Komi fram krafa af hendi varnaraðila um frávísun málsins skal farið með hana eftir almennum reglum um meðferð einkamála í héraði.
    Ef sótt er þing af hálfu sóknaraðila getur varnaraðili haft uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi um úrlausn sakarefnisins í greinargerð og skal þá farið með þær sem gagnkröfur í málinu. Slíkri kröfu verður þó því aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XVI. kafla, sbr. þó 126. gr. Gefa má sóknaraðila kost á að skila stuttu skriflegu svari við gagnkröfum, en málið skal rekið í einu lagi um kröfur á báða vegu.

131. gr.

    Héraðsdómari leysir úr málum samkvæmt lögum þessum með úrskurðum. Forsendur skulu fylgja ályktunarorði úrskurðar.
    Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt þessum kafla.

132. gr.

    Dómsmálaráðherra setur fyrirmæli í reglugerð um skrár sem héraðsdómari heldur um mál samkvæmt lögum þessum og um opinber skipti.


XVIII. KAFLI

Málskot til æðra dóms.

133. gr.

    Að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum sæta úrskurðir og ákvarðanir héraðsdómara samkvæmt þeim kæru til Hæstaréttar. Þó verða ekki kærðir úrskurðir eða ákvarðanir sem eru kveðnir upp eða teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða heldur ekki kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli.
    Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.
    Að því leyti sem ekki er kveðið á annan veg í lögum þessum hefur kæra sömu áhrif á meðferð máls í héraði og ef um almennt einkamál væri að ræða.

6. ÞÁTTUR


Ýmis ákvæði.


XIX. KAFLI

Gildistaka, brottfallin lög o.fl.

134. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

135. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi ákvæði laga:
     1.      1.–81. gr. og 90.–101. gr. laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., nr. 3 12. apríl 1878, með áorðnum breytingum.
     2.      Tilskipun um takmörkin milli lögsagna hinna einstöku uppboðshaldara og skiptaráðenda, 21. júní 1793.
     3.      1. mgr. 1. gr. opins bréfs kansellíis um það hvers gæta skal til að tryggja fjármuni opinberra stofnana, 10. apríl 1795.
     4.      Tilskipun um forgöngurétt ómyndugra o.fl., 19. desember 1821.
     5.      Kansellíbréf um tilkynningu um andlát eða gjaldþrot skuldunauta hins opinbera o.fl., 17. maí 1823.
     6.      Opið bréf er lögleiðir á Íslandi með breytingum lög 30. nóvember 1857 um innkallanir í búum, 4. janúar 1861.
     7.      Lög um stefnur til æðri dóms í skiptamálum, nr. 19 2. október 1895.
     8.      3. gr. laga um viðauka við lög 8. nóvember 1895 um hagfræðiskýrslur, nr. 20 3. október 1903.
     9.      2. og 3. málsl. 13. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14 20. október 1905, svo og í 1. málslið sömu greinar orðin „samkvæmt skiptalögum 12. apríl 1878, eða búinu er skipt af löggiltum skiptaforstjórum“.
     10.      Í 2. mgr. 4. gr. laga um hefð, nr. 46 10. nóvember 1905, orðin „af skiptarétti“.
     11.      VI. kafli laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20 20. júní 1923, svo og 47. gr., 1. og 3. mgr. 48. gr., 49.–51. gr. og 56.–59. gr. laganna.
     12.      2. gr. laga um nauðasamninga, nr. 19 4. júní 1924.
     13.      21. gr. hjúalaga, nr. 22 7. maí 1928.
     14.      9. mgr. 37. gr. A, 3. mgr. 185. gr., 3. mgr. 190. gr. og 238. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936.
                  Í 2. mgr. 5. gr. sömu laga orðin „þar á meðal fógeta-, skipta-, uppboðs- eða þinglýsingarrétti“.
                  Í 1. mgr. 42. gr. sömu laga, sbr. b-lið 21. gr. laga nr. 92 1. júní 1989, orðin „þar á meðal við skipti, fógetagerðir og uppboð“.
                  Í 1. mgr. 45. sömu laga orðin „þar á meðal skipta-, fógeta- og uppboðsréttur“.
                  Í 6. mgr. 188. gr. sömu laga orðin „og til fógeta-, skipta- og uppboðsgerða, eftir því sem við á“.
     15.      Í 3. mgr. 5. gr. laga um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942, orðin „og tekur þetta einnig til skipta-, fógeta- og uppboðsgerða, eftir ákvörðun dómara, ef sækja þarf þar mál eða verja með líkum hætti og fyrir venjulegum dómi“.
     16.      Í 1. mgr. 20. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973, orðin „96. gr. skiptalaga nr. 3 12. apríl 1878, lögtakslaga nr. 29 16. desember 1885“.
     17.      4. mgr. 13. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6 5. maí 1978.
     18.      Í 2. mgr. 28. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50 24. maí 1988, orðið „búskipta“.

136. gr.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirtalin ákvæði laga sem hér segir:
     1.      Í 1. mgr. 113. gr. vatnalaga, nr. 15 20. júní 1923, falla niður orðin „skiptaforstjóra án dómsvalds“ en í stað þeirra kemur: skilanefndar við slit hlutafélags.
                  Í 5. mgr. 113. gr. sömu laga falla niður orðin „eða skiptaráðandi“.
     2.      Í 1. málsl. 5. gr. laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926, falla niður orðin „gegna fógetastörfum eða skjalaskrifarastörfum, halda skiptafundi, uppboðsþing eða gegna öðrum dómsstörfum“ en í stað þeirra kemur: eða dómþing.
     3.      Í 1. mgr. 36. gr. laga um samvinnufélög, nr. 46 13. júní 1937, falla niður orðin „getur hann annaðhvort afhent félagsbúið skiptarétti til meðferðar eða kosið“ en í þeirra stað kemur: skal hann kjósa.
                  Í 2. mgr. 36. gr. sömu laga falla niður orðin „á félagsbúi gilda ákvæði skiptalaganna“ en í þeirra stað kemur: gilda ákvæði hlutafélagalaga.
                  Í 1. mgr. 37. gr. sömu laga falla niður orðin „2. gr. laga nr. 19 frá 4. júní 1924“ en í stað þeirra kemur: VII. kafla laga um skipti á dánarbúum o.fl.
                  Í 2. mgr. 37. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptarétt þann, er átt hefði að fara með bú félagsins, ef það hefði verið tekið til opinberra skipta“ en í stað þeirra koma orðin: héraðsdóm á varnarþingi félagsins eftir 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.
                  Í sömu lögum fellur niður 2. málsl. 1. mgr. 39. gr.
                  Í 2. mgr. 39. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaréttur“ en í stað þess kemur: skiptastjóri.
     4.      Í 1. málsl. 3. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldserinda, nr. 64 16. desember 1943, falla niður orðin „skiptaréttur fer með“ en í þeirra stað kemur: eru til opinberra skipta.
     5.      Í 1. málsl. 47. gr. erfðalaga, nr. 8 14. mars 1962, fellur niður orðið „skiptaforstjóra“ en í stað þess kemur: skiptastjóra.
                  Í sömu lögum fellur niður 56. gr.
     6.      Í 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laga um loftferðir, nr. 34 21. maí 1964, falla niður orðin „beina fógetaaðgerð“. Í sama ákvæði falla enn fremur niður orðin „fógeta eða skiptaráðanda (skiptaforstjóra)“ en í stað þeirra kemur: þeim, sem fer með þá gerð.
     7.      Í 2. málsl. 6. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966, falla niður orðin „slit á fjárfélagi eða búskipti“ en í stað þeirra kemur: fjárslit milli hjóna.
                  Í 1. málsl. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
     8.      Í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um skrásetningu réttinda í loftförum, nr. 21, 16. apríl 1966, fellur niður orðið „skiptaréttar“ en í stað þess kemur: sýslumanns.
                  Í niðurlagi sama ákvæðis falla niður orðin „eða til einkaskipta“.
                  Í 2. mgr. 11. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðanda (skiptaforstjóra)“ en í stað þeirra kemur: skiptastjóra.
     9.      Í lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60 29. maí 1972, falla niður 55., 58. og 59. gr. og 1. og 2. mgr. 81. gr.
                  Í 31. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðandi hafi tekið eigur bús til uppskriftar og skiptameðferðar“ en í stað þeirra kemur: úrskurður hafi gengið um að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra.
     10.      Í 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. höfundalaga, nr. 73 29. maí 1972, falla niður orðin „slit á fjárfélagi né við búskipti“ en í stað þeirra kemur: fjárslit milli hjóna.
     11.      Í 1. mgr. 7. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 79 23. desember 1975, falla niður orðin „skiptaráðandi eða skiptaforstjóri án dómsvalds fer með“ en í stað þeirra kemur: koma til opinberra skipta.
                  Í 8. gr. sömu laga falla niður orðin „tekur skiptaráðandi bú til skiptameðferðar, en framselur það“ en í stað þeirra kemur: er bú tekið til opinberra skipta en það er síðan framselt.
                  Í 1. mgr. 9. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðendur eða skiptaforstjórar lúka skiptum í búum“ en í stað þeirra kemur: opinberum skiptum er lokið.
                  Í sömu lögum fellur niður 2. mgr. 9. gr. og 10. gr.
     12.      Í 5. mgr. 6. gr. jarðalaga, nr. 65 31. maí 1976, falla niður orðin „bússkipti vegna skilnaðar“ en í stað þeirra kemur: fjárslit milli hjóna.
                  Í 3. mgr. 55. gr. sömu laga falla niður orðin „Náist eigi samkomulag, sker skiptaráðandi úr“ en í stað þeirra kemur: Verði ágreiningur um þetta skal leyst úr honum eftir ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.
     13.      Í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga um stimpilgjald, nr. 36 10. maí 1978, falla niður orðin fógetagerðir, skipti og.
                  Í 1. málsl. 5. mgr. 16. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptabókum eða öðrum“.
                  Í 2. málsl. 5. mgr. 16. gr. sömu laga falla niður orðin „Undanskildir stimpilgjaldi eru þó útdrættir úr skiptabók og önnur“ en í stað þeirra kemur: Undanskilin stimpilgjaldi eru þó.
             Í 1. mgr. 34. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaforstjórum“ en í stað þess kemur: skiptastjórum.
     14.      Í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga, nr. 39 10. maí 1978, falla niður orðin „skipta erfingjar búi einkaskiptum“ en í stað þeirra kemur: hafa erfingjar lokið einkaskiptum á dánarbúi.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumanns.
                  Í 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: skiptastjóra.
     15.      Í 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. barnalaga, nr. 915. apríl 1981, falla niður orðin „skiptaráðanda eða skiptaforstjóra“ en í stað þeirra kemur: skiptastjóra.
     16.      Í fyrirsögn I. kafla laga um horfna menn, nr. 44 26. maí 1981, fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: héraðsdómari.
                  Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: héraðsdómari.
                  Í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 4. málsl. 2. mgr. 1. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðandi getur ákveðið, að frá uppsögu dómsins“ en í stað þeirra kemur: héraðsdómari getur kveðið á um það í úrskurði sínum, hafi þess verið krafist, að frá uppsögu úrskurðarins.
                  Í 3. mgr. 1. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: héraðsdómara.
                  Í 1. málsl. 2. gr. sömu laga falla niður orðin „telur skiptaráðandi eigi fært að taka bú horfins manns til skiptameðferðar samkv. 1. gr.“ en í stað þeirra kemur: er kröfu skv. 1. mgr. 1. gr. hafnað í úrskurði héraðsdómara eða fyrir æðra dómi.
                  Í 16. gr. sömu laga falla niður orðin „bú manns er tekið til skipta samkvæmt 1. gr. laga þessara“ en í stað þeirra kemur: úrskurður hefur gengið skv. 1. gr. og hans hefur verið neytt til sönnunar á andláti til að koma fram skiptum á dánarbúi.
     17.      Í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 14. september 1981, falla niður orðin „þrotabúum og öðrum búum sem hér er skipt“ en í stað þeirra kemur: og þrotabúum.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 90. gr. sömu laga falla niður orðin „þrotabú og önnur bú undir skiptum“ en í stað þeirra kemur: og þrotabú.
                  Í 2. mgr. 91. gr. sömu laga falla niður orðin „Skiptaráðendur og skiptaforstjórar skulu telja fram fyrir þrotabú, dánarbú og önnur bú er þeir hafa undir skiptum“ en í stað þeirra kemur: Skiptastjórar skulu telja fram fyrir þrotabú og dánarbú.
                  Í 2. málsl. 4. mgr. 114. gr. sömu laga fellur niður orðið „búskipta“.
     18.      Í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 83 25. maí 1984, falla niður orðin: „eða af löggiltum skiptaforstjóra“.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: Sýslumaður.
                  Í 1. málsl. 4. mgr. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í 6. mgr. 7. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í J-lið 1. mgr. 9. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í 3. mgr. 9. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
             Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumanns.
                 Í 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: Sýslumaður.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í 1. mgr. 12. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: Sýslumaður.
                  Í 1. málsl. 2. mgr. 12. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  1. mgr. 13. gr. sömu laga verður svohljóðandi:
                  Nú greinir erfingja á við sýslumann um gjaldstofn vegna tiltekinnar eignar eða annað sem hefur áhrif á fjárhæð erfðafjárskattsins og skal sýslumaður þá veita þeim allt að tveggja vikna frest til að leggja fram gögn til stuðnings kröfum sínum. Sýslumaður má lengja þennan frest um allt að tvær vikur. Að frestinum liðnum skal sýslumaður ákvarða erfðafjárskattinn á grundvelli framkominna gagna og tilkynna erfingjum þá ákvörðun með sannanlegum hætti. Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun hans geta þeir innan þriggja vikna frá því þeim berst tilkynning sýslumanns krafist úrlausnar héraðsdómara um skattskyldu eða skattfjárhæð eftir ákvæðum 119. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.
                  Í sömu lögum fellur niður 2. mgr. 13. gr.
                  Í 3. mgr. 13. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  1. mgr. 14. gr. sömu laga verður svohljóðandi:
                  Þegar dánarbúi er skipt opinberum skiptum skal skiptastjóri útfylla erfðafjárskýrslu í samræmi við frumvarp til úthlutunar úr búinu og undirrita hana einn en leggja hana síðan fyrir sýslumann til bráðabirgðaákvörðunar á erfðafjárskatti áður en skiptafundur verður haldinn um frumvarpið. Innan viku frá því skiptum er lokið skal skiptastjóri leggja skýrsluna á ný fyrir sýslumann í þríriti til endanlegrar ákvörðunar skattsins og áritunar.
                  2. mgr. 14. gr. sömu laga verður svohljóðandi:
                  Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts skv. 1. mgr. skal farið með ágreining um hana eftir 1. mgr. 13. gr. en ef erfingjar samþykkja getur skiptastjóri lokið skiptunum með því að greiða þá skattfjárhæð, sem sýslumaður hefur ákvarðað, með fyrirvara um endurheimtu. Komi til endurgreiðslu skatts að leystum ágreiningi tekur skiptastjóri upp skiptin á ný til að úthluta því sem er endurgreitt.
                  1. mgr. 15. gr. sömu laga verður svohljóðandi:
                  Gjalddagi erfðafjárskatts er sá dagur, sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu skv. 2. mgr. 12. gr., ef um einkaskipti er að ræða, en skv. 1. mgr. 14. gr. sé um opinber skipti að ræða.
                  Við 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. sömu laga bætast orðin: samkvæmt vaxtalögum.
                  2. málsl. sömu málsgreinar fellur niður.
                  Í 16. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðendur“ en í þess stað kemur: Sýslumenn.
                  Í 17. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðendur“ en í þess stað kemur: Sýslumenn.
                  Í 1. mgr. 18. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumanni.
                  Í 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumann.
                  Í 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumanns.
                  Í 1. mgr. 19. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í 2. mgr. 19. gr. sömu laga falla niður orðin „skiptaráðandi þá kveðið upp úrskurð um skyldu hans í þessu sambandi. Þann úrskurð má kæra til Hæstaréttar“ en í stað þeirra kemur: sýslumaður þá neytt þess úrræðis sem skiptastjórum er veitt í 2. mgr. 52. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.
                  Í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðandi“ en í þess stað kemur: Sýslumaður.
                  Í 3. málsl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í þess stað kemur: sýslumaður.
                  Í 4. málsl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: sýslumaður.
                  Í 1. mgr. 21. gr. sömu laga fellur niður orðið „Skiptaráðandi“ en í stað þess kemur: Sýslumaður.
                  Aftan af 1. mgr. 21. gr. sömu laga falla orðin „samkvæmt lögum nr. 29 1885“.
                  Í 3. mgr. 25. gr. sömu laga fellur niður orðið „skiptaráðanda“ en í stað þess kernur: sýslumanni.
     19.      Í 6. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67 28. júní 1985, falla niður orðin „skiptaráðanda erfingjum er heimilt að halda starfsemi“ en í stað þeirra kemur: þeim, sem hefur tekið starfsemi að arfi, er heimilt að halda henni.
     20.      Í 1. mgr. 19. gr. laga um skipulag ferðamála, nr. 79 2. júlí 1985, falla niður orðin „eða viðurkenning skiptaréttar“ en í stað þeirra kemur: viðurkenndar hafa verið við gjaldþrotaskipti eða önnur opinber skipti.
     21.      Í 1. málsl. 3. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 55 30. mars 1987, falla niður orðin „samkvæmt ákvæðum III. kafla í lögum nr. 3/1878, um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl.“ en í stað þeirra kemur: opinberra skipta eftir lát hans og erfingjar hans taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins.

XX. KAFLI

Ákvæði til bráðabirgða.

137. gr.

    Ef skiptum er ólokið á dánarbúi þegar lög þessi öðlast gildi skulu skiptin fara fram í því umdæmi sem leiðir af 1. mgr. 3. gr. nema búið hafi áður verið tekið til opinberra skipta eða leyfi til einkaskipta verið veitt en þá skal ljúka skiptunum þar sem þau hafa byrjað.
    Ákvæðum 2. og 3. mgr. 3. gr. skal beitt eftir því sem átt getur við þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara.

138. gr


    Hafi andlát manns, sem lést fyrir 1. júlí 1992, ekki verið tilkynnt þegar lög þessi öðlast gildi skal staðið að tilkynningunni og upplýsingagjöf með þeim hætti sem kveðið er á um í 5.–9. gr.
    Nú hefur andlát verið tilkynnt fyrir 1. júlí 1992 og skiptum hefur ekki verið lokið þá, dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta og leyfi til einkaskipta ekki verið veitt og þær upplýsingar liggja ekki fyrir sem eru taldar í 1. mgr. 7. gr. og skal þá sýslumaður leita vitneskju um þau efni að hætti 10. gr. áður en tveir mánuðir eru liðnirfrá gildistöku laga þessara.

139. gr.

    Við gildistöku laga þessara taka sýslumenn við því forræði á dánarbúum, sem kveðið er á um í 11. gr., af þeim skiptaráðendum sem fóru með það að hætti eldri laga.

140. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 12. gr. gilda aðeins um umboð sem erfingi veitir eftir gildistöku laga þessara.

141. gr.

    Beita má ákvæðum 13. og 14. gr. um skipun sérstakra lögráðamanna og málsvara þótt skipti hafi byrjað á dánarbúi fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. gilda frá 1. júlí 1992 um fjárhaldsmenn sem voru skipaðir fyrir þann dag en upp frá því skulu þeir sjálfkrafa teljast sérstakir lögráðamenn eða málsvarar eftir því sem á við.

142. gr.

    Hafi uppskrift eigna og eftir atvikum virðing á þeim átt sér stað að hætti eldri laga fyrir gildistöku laga þessara skal sú aðgerð mefin ígildi skrásetningar og eftir atvikum mats eftir ákvæðum 17.–21. gr. Krefjast má yfirmats eftir 22. gr. á virðingargerð eftir eldri lögum innan fjögurra vikna frá gildistöku laga þessara þótt lengri tími sé liðinn frá því virðing fór fram ef eignunum hefur ekki þegar verið ráðstafað og ný virðing hafði ekki farið fram eftir 47. gr. eldri laga.
    Hafi uppskrift eigna og eftir atvikum virðing að hætti eldri laga ekki farið fram verður reglum 17.–23. gr. um skrásetningu eigna og mat beitt þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi fyrir gildistöku laga þessara eða skiptum verið lokið eftir ákvæðum 10. gr. eldri laga eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi, sbr. 4. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 27. gr.

143. gr.

    Þótt andlát hafi borið að höndum fyrir gildistöku laga þessara skal ljúka skiptum eftir ákvæðum 25.–27. gr. ef skilyrði eru til.
    Taka má skipti upp á ný skv. 4. mgr. 25. gr. þótt þeim hafi verið lokið fyrir gildistöku laga þessara eftir ákvæðum 10. gr. eldri laga.

144. gr.

    Ákvæði 28.–31. gr. gilda um skilyrði fyrir leyfi til einkaskipta, beiðni um slíkt leyfi og veitingu þess þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara ef fyrst er sótt um leyfið eftir þann tíma. Hafi skuldheimtumaður lýst kröfu á hendur dánarbúinu fyrir skiptaráðanda fyrir gildistöku laga þessara þótt aðgerðir við opinber skipti hafi ekki verið byrjaðar skal leyfið þó ekki veitt nema að fullnægðum skilyrðum 1. mgr. 9. gr. eldri laga.
    Leyfi til einkaskipta, sem varveitt fyrir gildistöku laga þessara, haggast ekki þótt skilyrðum 28. gr. væri ekki fullnægt eða þær upplýsingar voru ekki veittar sem eru taldar í 1. mgr. 29. gr. Framlengja má frest til að ljúka einkaskiptum skv. 3. mgr. 29. gr. þótt leyfi til þeirra hafi verið veitt fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 3. þáttar og 123. gr. taka til einkaskipta frá gildistöku laga þessara þótt leyfi hafi verið veitt til þeirra fyrir þann tíma að því leyti sem bindandi ráðstafanir hafa ekki áður verið gerðar á annan veg.

145. gr.

    Ef svo stendur á þann 1. júlí 1992 að skiptum á dánarbúi hefur ekki verið lokið eftir 10. gr. eldri laga, maka þess látna hefur ekki verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum hefur ekki verið veitt leyfi til einkaskipta og opinberra skipta hefur ekki verið krafist og lengri tími er þá liðinn frá andláti en fjórir mánuðir skal sýslumaður beina áskorun skv. 32. gr. til erfingja áður en tveir mánuðir eru liðnir frá því lög þessi öðlast gildi. Ef skemmri tími en fjórir mánuðir er liðinn frá andláti þegar lög þessi öðlast gildi skal farið eftir ákvæðum 32. gr.

146. gr.

    Beita má ákvæðum III. kafla við skipti dánarbús þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara ef skiptum hefur ekki verið lokið þá og bindandi ráðstafanir hafa ekki þegar verið gerðar á annan veg en ákvæði þessi mæla fyrir um.

147. gr.

    Ákvæði 37.–41. gr. gilda um skyldu og heimild til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara. Eins gilda ákvæði 2. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 40. gr. þótt skiptum hafi verið lokið eftir 10. gr. eldri laga. Farið skal með kröfu um opinber skipti undir þessum kringumstæðum eftir reglum IV. kafla.
    Ef krafa hefur komið fram um opinber skipti fyrir gildistöku laga þessara en afstaða hefur ekki verið tekin til hennar gilda ákvæði IV. kafla um hana.

148. gr.

    Ef dánarbú er til opinberra skipta þann 1. júní 1992 og ekki þykir víst að skiptum verði lokið fyrir gildistöku laga þessara skal skiptaráðandi, sem fer með skipti þess, boða til skiptafundar fyrir 1. júlí 1992 til að ákvörðun verði tekin um framhald skipta. Eins skal farið að ef dánarbú kemur fyrst til opinberra skipta eftir 1. júní 1992.
    Ef fram kemur á skiptafundi skv. 1. mgr. að erfingjar vilji fá leyfi til einkaskipta og skilyrðum þessara laga er fullnægt til að verða við því þótt svo hafi ekki verið að eldri lögum skal skiptaráðandi veita leyfi til einkaskipta sem öðlast gildi 1. júlí 1992. Ef þess er þörf skal skiptaráðandi jafnframt skipa erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara eftir ákvæðum 13. gr. en sú skipun öðlast þá gildi um leið og leyfið.
    Ef fram kemur á skiptafundi að skilyrði séu ekki til ráðstafana skv. 2. mgr. skal skiptaráðandi skipa skiptastjóra eftir ákvæðum 46. gr. Öðlast sú skipun gildi 1. júlí 1992 og tekur þá skiptastjóri við forræði á búinu af skiptaráðanda. Ákvæði laga þessara skulu gilda um framhald opinberra skipta eftir þann tíma, sbr. þó 150. gr., og lok þeirra en fyrri ráðstafanir og ákvarðanir skulu ekki haggast af þeim sökum.
    Ákvæði laga þessara um stöðu og störf skiptastjóra gilda um þá sem eru skipaðir eftir 3. mgr. að öðru leyti en því að skylda til reikningsgerðar eftir 2. mgr. 49. gr. kemur ekki til framkvæmdar fyrr en í árslok 1992.

149. gr.

    Hafi skiptaforstjóri verið löggiltur af dómsmálaráðherra til að fara með opinher skipti skv. 91. gr. eldri laga og þeim er ekki lokið við gildistöku laga þessara skal hann sjálfkrafa teljast skiptastjóri í búinu frá 1. júlí 1992 án sérstakrar skipunar.
    Ákvæði 3. mgr. 148. gr. gilda um framhald skiptanna. Ákvæði laga þessara um stöðu og störf skiptastjóra gilda að öllu leyti um þá sem 1. mgr. tekur til frá gildistöku þeirra.

150. gr.

    Hafi innköllun við opinber skipti verið birt fyrir 1. júlí 1992 gilda ákvæði eldri laga um lengd kröfulýsingarfrests, réttaráhrif kröfulýsingar og áhrif vanlýsingar þótt kröfulýsingarfresti ljúki ekki fyrr en eftir þann tíma. Kröfulýsing skal talin réttilega komin fram ef hún berst skiptastjóra eða þeim, sem gaf innköllunina út, eftir gildistöku laga þessara en innan kröfulýsingarfrests.
    Hafi afstaða ekki verið tekin til lýstra krafna við opinber skipti fyrir gildistöku laga þessara skal farið eftir ákvæðum þeirra í þeim efnum.
    Innköllun, sem hefur verið gefin út fyrir 1. júlí 1992 en hefur ekki birst í fyrsta sinn fyrir þann tíma, skal metin ógild.

151. gr.

    Ákvæði 2. og 3. mgr. 81. gr. gilda um meðferð á erfðafé þótt það hafi verið tekið til varðveislu fyrir gildistöku laga þessara. Tekur þetta einnig til erfðafjár sem hefur ekki verið vitjað eftir ákvæðum 1. mgr. 56. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, við gildistöku laga þessara en hafi fé verið afhent samkvæmt því ákvæði eftir 30. júní 1987 gilda reglur 2. mgr. sömu greinar um rétt til að endurheimta það þótt þess sé fyrst krafist eftir gildistöku laga þessara.

152. gr.

    Ákvæði 98.–100. gr. gilda um heimildir til að krefjast opinberra skipta til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks þótt þau atvik, sem þar eru áskilin, hafi átt sér stað fyrir gildistöku laga þessara. Hafi komið fram krafa um slík opinber skipti en afstaða hefur ekki verið tekin til hennar við gildistöku laga þessara gilda ákvæði 101. gr.
    Ef opinber skipti standa yfir til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks þann 1. júlí 1992 skal farið eftir fyrirmælum 1., 3. og 4. mgr. 148. gr. og 150. gr.
    Eftir því sem átt getur við skal farið eftir ákvæðum 103.–115. gr. og 142. gr. þótt opinber skipti til fjárslita hafi verið byrjuð fyrir gildistöku laga þessara hafi bindandi ákvarðanir eða ráðstafanir ekki þegar verið teknar eða gerðar á annan veg.
    Hafi verið krafist opinberra skipta til slita á félagi fyrir gildistöku laga þessara en afstaða hefur ekki verið tekin til kröfunnar gilda ákvæði 116. og 117. gr.
    Hafi opinber skipti byrjað fyrir gildistöku laga þessara til slita á félagi eftir ákvæðum 90. gr. eldri laga, hvort sem það væri heimilt eftir fyrirmælum laga þessara eða ekki, sbr. 2. mgr. 116. gr., skal skiptum fram haldið og lokið eftir ákvæðum laga þessara, sbr. 1., 3. og 4. mgr. 148. gr. og 150. gr.

153. gr.

    Ef dómsmál hefur verið þingfest í skiptarétti fyrir gildistöku laga þessara en úrskurður ekki gengið í því fyrir 1. júlí 1992 skal málinu sjálfkrafa fram haldið fyrir þeim héraðsdómstól sem tekur við lögsögu í hlutaðeigandi umdæmi þann dag. Ákvæðum XVII. og XVIII. kafla skal beitt upp frá því um meðferð málsins en það sem þegar hefur verið gert í því skal standa óhaggað.
    Hafi úrskurður gengið í skiptarétti fyrir 1. júlí 1992 sem hefði sætt áfrýjun til æðra dóms eftir eldri lögum og aðili að málinu vill skjóta honum til Hæstaréttar eftir gildistöku laga þessara skal það gert með kæru enda hafi áfrýjunarstefna ekki þegar verið tekin út, almennur áfrýjunarfrestur ekki verið á enda og öðrum skilyrðum áfrýjunar verið fullnægt. Telst kærufrestur þá byrja að líða 1. júlí 1992.
    Hafi úrskurði skiptaréttar þegar verið áfrýjað fyrir 1. júlí 1992 skal málinu lokið fyrir Hæstarétti eftir reglum um meðferð áfrýjunarmála.
    Hafi ákvörðun eða athöfn skiptaráðanda, sem átti sér stað fyrir 1. júlí 1992, verið kærð til Hæstaréttar fyrir þann tíma skal málinu lokið þar fyrir rétti eftir ákvæðum eldri laga þótt athöfnin verði ekki talin til dómsathafna eftir reglum þessara laga. Slíkar ákvarðanir og athafnir verða einnig kærðar eftir gildistöku laga þessara ef kærufrestur er ekki liðinn þá.
    Skiptagerð við opinber skipti, sem var lokið fyrir 1. júlí 1992, verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar eftir gildistöku laga þessara þótt áfrýjunarfrestur hafi ekki verið liðinn þá. Hafi skiptagerð verið áfrýjað fyrir þann tíma skal málinu lokið fyrir Hæstarétti eftir ákvæðum eldri laga.

154. gr.

    Ekki má leita úrlausnar héraðsdómara skv. 119. gr. um ákvarðanir eða athafnir skiptaráðanda sem voru teknar eða áttu sér stað fyrir gildistöku laga þessara.
    Ef ágreiningur hefur risið við opinber skipti fyrir gildistöku laga þessara en mál hefur ekki verið þingfest í skiptarétti til að leiða ágreininginn til lykta má leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið eftir 122. gr.
    Leysa má úr kröfum í dómsmálum skv. 124. og 126. gr. þótt opinber skipti hafi byrjað fyrir gildistöku laga þessara.

155. gr.

    Skipti verða ekki endurupptekin eftir gildistöku laga þessara nema að fullnægðum skilyrðum þeirra þótt skiptunum hafi verið lokið fyrir þann tíma.

156. gr.

    Hafi skiptaráðanda borist krafa skv. 1. gr. laga nr. 44/1981 en úrskurður hefur ekki gengið um hana fyrir gildistöku laga þessara skal hún koma sjálfkrafa til kasta héraðsdóms eftir ákvæðum 153. gr. Leyst skal úr kröfunni eftir reglum nefndra laga eins og þeim er breytt með 16. tölul. 136. gr. laga þessara.

157. gr.

    Hafi skiptaráðandi kveðið upp úrskurð skv. 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 19. gr. eða 2. mgr. 20. gr. laga nr. 83/1984 fyrir gildistöku laga þessara gilda ákvæði 4. mgr. 153. gr. um kæru.
    Hafi ágreiningur um ákvörðun erfðafjárskatts, sem hefur risið fyrir 1. júlí 1992, ekki verið leiddur til lykta fyrir þann tíma skal farið með hann eftir það eftir reglum laga nr. 83/1984 eins og þeim er breytt með 18. tölul. 136. gr. laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Hefur verið unnið að gerð þess í samráði við réttarfarsnefnd, en jafnframt voru drög að því kynnt stjórnum Lögmannafélags Íslands, Dómarafélags Íslands og Sýslumannafélags Íslands, svo og sifjalaganefnd, og var leitað tillagna þeirra og ábendinga.
    Frumvarpinu er einkum ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., nr. 3 12. apríl 1878, en að auki tekur það til efnis ýmissa annarra laga eins og ráða má af talningu brottnuminna lagaákvæða í 135. gr. þess.
    Helsta viðfangsefni frumvarpsins, líkt og laga nr. 3/1878, er að mæla fyrir um hvernig staðið verði að aðgerðum við skipti á dánarbúum. Frumvarpið hefur einnig, eins og umrædd lög, að geyma reglur um skipti við slit hjúskapar og óvígðrar sambúðar og félagsslit ef ekki semst um þau milli hlutaðeigenda, en slík skipti fara að miklu leyti eftir sömu reglum og gilda um skipti á dánarbúum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um sérstök úrræði til að fá úrlausn dómstóla um ágreining sem rís í tengslum við skipti, en reglur frumvarpsins um þetta eru um margt svipaðar ákvæðum laga nr. 3/1878.
    Frumvarpið er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði og er sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 921. júní 1989. Þau lög leiða til umfangsmikilla breytinga á skipan dómstóla og framkvæmdarvalds í héraði sem einar út af fyrir sig krefja að löggjöf um skipti á dánarbúum verði löguð að þeirri nýskipan, enda geta ákvæði laga nr. 3/1878 ekki fallið að henni. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 92/1989, var lýst ráðagerðum um hvernig mætti haga skiptalöggjöf að breyttri skipan dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði og hefur þeirri stefnu, sem þar kom fram, verið fylgt í öllum helstu atriðum við samningu þessa frumvarps.
    Frumvarp, sem varð að lögum nr. 3/1878, var að mestu þýðing á lagafrumvarpi sem var gert um sama efni í Danmörku í lok 7. áratugar síðustu aldar og var lögfest þar á árinu 1874. Þau lög eru enn í gildi lítið breytt í Danmörku en heildarendurskoðun þeirra mun nú standa yfir. Lögum nr. 3/1878 hefur ekki verið breytt svo neinu nemi frá upphaflegri mynd ef frá er talin endurskoðun á reglum 8. kapítula þeirra um skuldaröð sem átti sér stað við setningu laga nr. 32/1974 og 23/1979. Lítils háttar breytingar voru þó gerðar á lögunum í tengslum við setningu laga um nauðasamninga, nr. 19/1924, laga um nauðungaruppboð, nr. 57/1949, erfðalaga, nr. 8/1962, og laga um hreppstjóra, nr. 32/1965, auk þess að 90. gr. laga nr. 3/1878 var breytt með lögum nr. 13/1986 á þann veg að tekið var af skarið um að skipti gætu farið fram eftir ákvæðum laganna við slit óvígðrar sambúðar. Í heild má allt að einu segja að hér hafi verið búið við nánast óbreytta löggjöf á þessu sviði í ríflega eina öld. Þótt lög nr. 3/1878 hafi verið vönduð og að auki hafi greinilega verið leitast við að laga reglur frumvarps að þeim betur að íslenskum staðháttum en almennt var gert á því tímabili við lögfestingu ýmissa annarra frumvarpa á sviði réttarfars af dönskum uppruna fer af augljósum ástæðum ekki hjá því að lögin séu aldurs síns vegna úrelt í fjölmörgum atriðum. Hefur þetta valdið því að í framkvæmd hefur áratugum saman verið vikið frá bókstaflegri fylgni við orð laganna í ýmsum atriðum og nokkrum ákvæðum þeirra hefur ekki verið beitt um lengri tíma, en þessa hefur gætt í auknum mæli á síðustu árum, einkum eftir setningu gjaldþrotalaga, nr. 6/1978. Kallar þetta ekki síður en setning laga nr. 92/1989 á endurskoðun skiptalöggjafarinnar, en þess má geta að venjur hafa myndast um fjölmörg atriði á þessu sviði í framkvæmd sem verulegt tillit hefur verið tekið til við samningu frumvarpsins.
    Samhliða gerð þessa frumvarps hefur verið samið heildarfrumvarp til nýrra laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og er gengið út frá að frumvörpin tvö verði lögð fyrir Alþingi um líkt leyti. Hefur verið leitast við að samræma ákvæði þessara frumvarpa í þeim mæli sem unnt er, enda er um náskyld svið að ræða.
    Áður en vikið verður nánar að einstökum ákvæðum frumvarpsins verður gerð nokkur grein fyrir meginefni þess og helstu breytingunum sem eru lagðar til frá núgildandi lögum.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.


I.


    Eins og áður var nefnt er helsta viðfangsefni frumvarpsins að mæla fyrir um hvernig verði staðið að aðgerðum við skipti dánarbúa. Eftir lögum nr. 3/1878 hefjast þær aðgerðir með því að andlát er tilkynnt skiptaráðanda, en um framhald þeirra eru ýmsir kostir. Skiptum getur lokið þegar við tilkynningu andláts eða síðar með yfirlýsingu aðstandanda þess látna um eignaleysi dánarbús, en ef eignir eru fyrir hendi umfram kostnað af útför er um þrjár meginleiðir að tefla. Í fyrsta lagi kann maki þess látna að atla sér leyfis til setu í óskiptu búi, en veiting slíks leyfis hefur í för með sér að skiptum lýkur eða er slegið á frest um ótiltekinn tíma. Í öðru lagi geta erfingjar sammælst um að annast skiptin sjálfir í einkaskiptum, en loks getur í þriðja lagi komið til þess að opinber skipti fari fram á dánarbúi. Frumvarpið hefur með sama hætti og lög nr. 3/1878 að geyma reglur um tilkynningu andláts, lok skipta vegna eignaleysis dánarbús, einkaskipti og opinber skipti, en reglur um skilyrði fyrir leyfi til setu í óskiptu búi og veitingu þess er að finna í erfðalögum, nr. 8/1962, og taka ákvæði frumvarpsins ekki beinlínis til þess efnis frekar en lög nr. 3/1878.
    Tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir um það hve mörg andlát séu tilkynnt árlega á landinu öllu eða í hverjum mæli sé um eignalaus dánarbú að ræða og hvernig staðið sé að frágangi mála þegar eignir eru fyrir hendi. Til hliðsjónar má þó hafa upplýsingar um þetta frá Reykjavík vegna áranna 1988 og 1989 sem eru eftirfarandi:

1988 1989
Tilkynnt andlát: 847 811
Eignalaus dánarbú: 291 208
Leyfi til setu í óskiptu búi: 280 242
Einkaskipti: 184 154
Opinber skipti:
Dánarbú sem hafa byrjað
í opinberum skiptum en gengið síðan til einkaskipta:
32 35
Dánarbú sem hefur verið lokið
að skipta við opinber skipti:
36 29
Ólokið: 24 143

    Sem fyrr segir ná ákvæði frumvarpsins eins og reglur laga nr. 3/1878 einnig til opinberra skipta við slit hjúskapar og óvígðrar sambúðar og félagsslit. Upplýsingar liggja ekki fyrir af landinu öllu um slík opinber skipti, en í Reykjavík var fjöldi þeirra eftirfarandi á árunum 1988 og 1989:

1988 1989
Opinber skipti við hjúskaparslit: 11 6
Opinber skipti við slit óvígðrar sambúðar: 5 2
Opinber skipti við félagsslit: 1 1

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að leitað verði úrlausnar dómstóla um ágreining sem rís í tengslum við skipti eftir sérstökum reglum, en hér er um að ræða svipaðar reglur og nú gilda. Markmið þessara sérreglna er ekki síst að stuðla að því að hægt sé að leysa úr slíkum ágreiningsatriðum á skjótan hátt þannig að skipti þurfi ekki að dragast úr hófi vegna þeirra. Verða ekki frekar en um áðurnefnd atriði fundnar upplýsingar um fjölda slíkra dómsmála af landinu öllu, en á árinu 1988 var leyst úr átta málum af þessum toga í Reykjavík og á árinu 1989 voru þau þrjú talsins.

II.


    Ein helsta breytingin frá núgildandi lögum, sem stefnt er að í frumvarpinu, felst í því hverjir annist störf sem tengjast skiptum á sviði frumvarpsins. Í núgildandi lögum eru þessi störf nánast öll lögð í hendur dómara, skiptaráðenda, sem meðal annars taka við tilkynningum um andlát, veita leyfi til setu í óskiptu búi og einkaskipta á dánarbúum, annast framkvæmd opinberra skipta, leggja á erfðafjárskatt og innheimta hann, auk þess að leysa úr ágreiningi í héraði í dómsmálum sem verða rekin eftir sérreglum laga nr. 3/1878.
    Frumvarp þetta er sem fyrr segir meðal annars byggt á þeim grunni sem var lagður með setningu laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum eru ein þýðingarmestu markmið þeirra annars vegar að framkvæmdarvaldsstörf verði tekin úr höndum dómara og hins vegar að breytt verði eðli ýmissa umsýslustarfa sem dómarar hafa haft með höndum og hafa talist dómstörf, þannig að þau verði talin til starfa framkvæmdarvaldshafa í framtíðinni eða falin að einhverju marki öðrum en handhöfum ríkisvalds. Með þessu munu héraðsdómstólar framvegis svo til eingöngu fást við eiginleg dómstörf, en handhafar framkvæmdarvalds ríkisins í héraði, sýslumenn, munu annast fjölmörg önnur verk sem dómarar hafa haft með höndum til þessa.
    Af þeim störfum, sem dómarar annast nú í tengslum við skipti á sviði þessa frumvarps, verða aðeins sárafá talin til eiginlegra dómstarfa, en af þeim má einkum nefna annars vegar ákvörðun um hvort opinber skipti fari fram og hins vegar úrlausn ágreiningsmála sem rísa í tengslum við skipti. Önnur störf, sem núgildandi lög fela dómurum í þessu sambandi, eru hins vegar almennt því marki brennd að vera annaðhvort framkvæmdarvaldsstörf, t.d. álagning og innheimta erfðafjárskatts, eða umsýslustörf sem eiga fátt ef nokkuð skylt við almennt hlutverk dómara, t.d. að taka við dánartilkynningum, veita ýmis leyfi og framkvæma opinber skipti. Til samræmis við grundvöll laga nr. 92/1989 er byggt á því í frumvarpinu að héraðsdómstólar muni nánast aðeins fást við fyrrnefnd eiginleg dómstörf, en önnur verk á sviði þess verði ýmist í höndum sýslumanna eða falin sérstökum skiptastjórum.
    Nánar tiltekið er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að sýslumenn muni hafa með höndum mikinn hluta þeirra starfa á sviði þess sem skiptaráðendur annast eftir núgildandi lögum, annarra en eiginlegra dómstarfa, og að störf þessi verði þannig talin til framkvæmdarvaldsathafna. Af helstu viðfangsefnunum, sem sýslumönnum er ætlað á þessum vettvangi, má nefna að ákvæði frumvarpsins fela þeim meðal annars að taka við andlátstilkynningum, veita leyfi til setu í óskiptu búi eða einkaskipta, skipa sérstaka lögráðamenn eða málsvara fyrir erfingja sem þess þurfa með, annast skráningu og mat á eignum dánarbúa, hafa með höndum forræði á málefnum dánarbúa frá andláti þar til frekari aðgerðir við skipti hefjast, veita erfingjum leiðbeiningar og aðhald varðandi frágang mála og leggja á og innheimta erfðafjárskatt. Þau störf, sem hér um ræðir, verða eftir eðli sínu að teljast fara betur í höndum framkvæmdarvaldshafa en dómara, enda eiga þau ekkert skylt við almenn störf dómara og hætta getur að auki verið á að ágreiningur verði um framkvæmd þeirra sem væri ófært að einn og sami embættismaður annist og kveði síðan upp dómsúrlausn um réttmæti sinna eigin aðgerða. Að auki verður ekki litið fram hjá því að þessi störf eru um margt þjónusta við almenning sem sýslumenn munu einmitt annast í ríkum mæli á öðrum sviðum í framtíðinni.
    Eitt þeirra viðfangsefna, sem skiptaráðendur hafa haft með höndum eftir ákvæðum laga nr. 3/1878, er að annast framkvæmd opinberra skipta. Hér er um að ræða verk sem tekur til fjölbreytilegra atriða, en af þeim má nefna að ákvæði þessara laga gera ráð fyrir að skiptaráðandi byrji opinber skipti með því að skrásetja og eftir atvikum láta meta eignir dánarbús og skuldbindingar eða skrifi upp búið eins og það hefur lengi verið kallað í framkvæmd. Að því búnu er ætlast til að skiptaráðandi boði erfingja til skiptafunda og leiti þar afstöðu þeirra til þess hvort þeir taki ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins og hvernig eigi að ráðstafa eignum þess. Þá er ætlast til að skiptaráðandi afli vitneskju um skuldbindingar búsins, ýmist með því að gefa út innköllun til skuldheimtumanna eða án þess. Skiptaráðanda er síðan ætlað að leysa úr um réttmæti krafna skuldheimtumanna og erfingja, framfylgja ákvörðunum um ráðstöfun eigna og verja eftir atvikum fé búsins til greiðslu skulda og arfs, en hann kemur fram af hálfu búsins út á við í öllu tilliti, hvort sem er við samningsgerð, gagnvart yfirvöldum eða sem fyrirsvarsmaður þess í dómsmálum. Þau viðfangsefni, sem hér um ræðir, eru nánast að öllu leyti umsýsluverkefni þar sem ekkert reynir á dómsvald skiptaráðenda nema ágreiningur rísi, en slíkt er sjaldgæft við opinber skipti dánarbúa. Af þessum sökum fengi það engan veginn samrýmst markmiði laga nr. 92/1989 að dómarar hefðu þetta hlutverk með höndum. Við gerð þessa frumvarps voru metnir þeir kostir sem þóttu tiltækir um það hverjir gætu annast framkvæmd opinberra skipta, en tæpast verður sagt að þeir kostir séu nema tveir, annaðhvort að sýslumenn annist þetta verk eða sérstaklega skipaðir skiptastjórar sem dómari mundi tilnefna að gengnum úrskurði um að opinber skipti fari fram. Síðarnefndi kosturinn þótti í flestu tilliti eiga betur við, en af þeim mörgu atriðum sem þykja mæla með honum má nefna eftirfarandi:
     1.      Eftir ákvæðum gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, hafa sérstakir bústjórar til bráðabirgða og skiptastjórar að meginreglu með höndum framkvæmd gjaldþrotaskipta ef eignir eru á annað borð fyrir hendi í þrotabúi. Sú tilhögun er í samræmi við löggjöf í flestum ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku og var tekin hér upp að þeirri fyrirmynd, en hún hefur gefið sérlega góða raun hér á landi. Framkvæmd opinberra skipta á dánarbúum og við slit hjúskapar, óvígðrar sambúðar og félaga er í flestum atriðum keimlík framkvæmd gjaldþrotaskipta og má telja eðlilegt að sömu reglur gildi í öllum tilvikum, en í þessum efnum er einnig við erlendar fyrirmyndir að styðjast.
     2.      Í 91. gr. laga nr. 3/1878 er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti löggilt sérstaka skiptaforstjóra án dómsvalds til að framkvæma opinber skipti dánarbúa í stað skiptaráðenda, hvort heldur að ósk erfingja eða eftir fyrirmælum þess látna í erfðaskrá. Þessi heimild hefur lítið verið notuð hér á landi en tiltölulega meira í Danmörku. Í báðum löndunum hefur þessi tilhögun þótt gefast vel þegar reynt hefur á hana. Verksvið skiptaforstjóra eftir núgildandi lögum er að miklu leyti hliðstætt því sem frumvarpið gerir ráð fyrir um skiptastjóra.
     3.      Telja má að margt vinnist með því að fela sérstökum skiptastjóra að framkvæma opinber skipti fremur en að starfsmaður ríkisins hafi verkið með höndum. Reynslan við framkvæmd gjaldþrotaskipta hefur sýnt að skiptastjórum sé hægara en starfsmönnum ríkisins að gæta hagsmuna búa gagnvart öðrum og skipti hafa almennt tekið skemmri tíma og gefið betri fjárhagslegan árangur. Skiptastjórar eru einnig almennt í góðri aðstöðu til að leitast við að ná sáttum um ágreiningsefni við skipti. Þá má einnig benda á að þessi háttur gefur kost á að fyllsta trúnaðar verði gætt um það sem fer fram við opinber skipti, en sambærilegur trúnaður, sem getur verið keppikefli fyrir hlutaðeigendur, verður varla tryggður ef stjórnvald annast verkið í ljósi viðhorfa um upplýsingaskyldu þeirra.
     4.      Ákvæði frumvarpsins og ýmissa núgildandi laga hafa í för með sér að sýslumenn muni gegna fjölbreytilegum störfum sem mundu samræmast því illa að þeir annist framkvæmd opinberra skipta. Í IV. kafla frumvarpsins er til dæmis gert ráð fyrir að sýslumenn krefjist opinberra skipta á dánarbúum ef erfingjar hlutast ekki sjálfir til um skiptin. Sýslumenn munu einnig annast álagningu og innheimtu erfðafjárskatts hvort sem dánarbúi yrði skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum. Þá hafa sýslumenn með höndum innheimtu opinberra gjalda í fjölmörgum umdæmum landsins og reynslan er sú að slíkar kröfur beinist mjög oft að búum sem eru til opinberra skipta. Meðal annars af þessum ástæðum getur sýslumaður þurft að gegna skyldum embættis síns vegna sem væru ósamþýðanlegar því að framkvæma opinber skipti og hafa þannig með höndum forræði á málefnum dánarbús.
     5.      Eins og vikið verður sérstaklega að hér á eftir miða ákvæði frumvarpsins að því að draga verulega úr nauðsyn opinberra skipta á dánarbúum í tilvikum sem erfingjar æskja þeirra ekki sjálfir og má ætla að talsvert minna verði um þau fyrir vikið. Má þannig telja sennilegt að ef frumvarpið verður að lögum muni opinber skipti einkum koma til að ósk hlutaðeigenda, eftir atvikum vegna ágreinings eða ósamkomulags þeirra um hvernig staðið verði að verki þótt vissulega geti aðrar ástæður leitt til opinberra skipta. Umfang starfa við framkvæmd opinberra skipta er verulega misjafnt hverju sinni. Eftir núgildandi reglum í lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 79/1975 ber að greiða skiptagjald í ríkissjóð vegna opinberra skipta sem nemur 1,5% af heildarandvirði þeirra eigna sem koma til skipta, en gjaldinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem ríkið verður að bera vegna framkvæmdar opinberra skipta í höndum starfsmanna þess. Í reynd hefur hins vegar verið hendingu háð hvort þetta gjald hafi verið í eðlilegu samhengi við þann kostnað sem hefur orðið að standa undir af almannafé vegna framkvæmdar opinberra skipta í höndum skiptaráðenda því að ýmist getur gjaldið orðið of hátt í samanburði við verkið eða of lágt. Telja verður eðlilegra í alla staði að kostnaður af opinberum skiptum verði með öllu greiddur af þeim eignum sem koma til skipta, ekki síst í ljósi þess að ákvæði frumvarpsins stefna að því að afnema að verulegu leyti skyldu til opinberra skipta gegn vilja erfingja eða arfláta og að kostnaðurinn miðist við umfang verksins, en verði hvorki borinn af ríkissjóði né gerður að tekjulind hans. Með þeirri skipan frumvarpsins, að skiptastjórum verði falin framkvæmd opinberra skipta og þeir fái greidda þóknun sína af því fé sem þeir sýsla með, má telja að í senn verði unnt að haga málum á þann veg að kostnaður standi í eðlilegu samræmi við vinnuframlag og að ríkissjóður hvorki hagnist af né gjaldi fyrir að hlutaðeigendur kjósi að opinber skipti eigi sér stað. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að benda á að þóknun skiptastjóra, sem yrði einkum ákveðin í ljósi tímans sem væri varið til verksins, yrði tæpast meiri en sá kostnaður sem ríkið ber af þessum sökum í reynd eftir núgildandi reglum þegar tillit er tekið til vinnulauna skiptaráðenda, launatengdra útgjalda, kostnaðar af skrifstofuhaldi o.fl. Má enn fremur hafa í huga að ákvæði frumvarpsins tryggja að hægt verði að fá úrlausn dómstóla um fjárhæð kostnaðarins ef þurfa þykir.

III.


    Í lögum nr. 3/1878 er byggt á því að dánarbú teljist formlega vera til opinberra skipta frá andláti hlutaðeiganda þar til eftirlifandi maka hans er veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum hans er veitt leyfi til einkaskipti eða skiptum er annaðhvort lokið án frekari aðgerða vegna eignaleysis dánarbúsins eða í reynd með opinberum skiptum. Af þessum sökum miða ákvæði laga nr. 3/1878 við að skiptaráðandi fari með forræði dánarbús frá andláti þar til eitthvað af framangreindu hefur átt sér stað og að hann hefjist handa um framkvæmd opinberra skipta ótilkvaddur ef erfingjar hlutast ekki til um aðrar ráðstafanir innan skamms tíma frá andláti. Þótt þessar reglur laganna standi óbreyttar má heita að í framkvæmd hafi að mörgu leyti verið horfið frá því að fylgja ætlan þeirra fyrir áratugum síðan. Að vísu hefur ekki verið vikið frá þeirri grundvallarreglu að skiptaráðandi hafi formlegt forræði á málefnum dánarbús frá andláti fram til þess tíma að maki þess látna eða erfingjar kunni að taka við því forræði á grundvelli áðurnefndra leyfa, en á hinn bóginn heyrir til undantekninga að skiptaráðandi hefjist handa um beinar aðgerðir við skiptin nema fram komi beiðni erfingja um það. Af þessum sökum hefur hlutverk skiptaráðenda að mestu beinst inn á þá braut að eftir viðtöku andlátstilkynninga fylgjast þeir með og veita aðhald um að erfingjar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að ljúka skiptum og gefa erfingjum eftir þörfum heimildir til þessara ráðstafana. Hefur framkvæmdin þannig þróast á þann veg að skiptaráðendur hafa fremur gegnt eftirlitshlutverki en að eiga þátt að framkvæmd skipta, nema í þeim tilvikum sem opinber skipti eiga sér stað í eiginlegri mynd. Síðustu áratugi hafa opinber skipti hins vegar almennt ekki átt sér stað nema erfingi hafi beinlínis leitað eftir því, enginn erfingi hafi gefið sig fram eða vegna ákvæða laga nr. 3/1878 sem skylda annars að opinber skipti fari fram við ákveðnar aðstæður, en að þessu verður nánar vikið hér á eftir.
    Ákvæði frumvarpsins mótast mjög af þeirri framkvæmd sem hér hefur verið lýst. Kemur þetta einkum fram í því að eftir frumvarpinu mun dánarbú ekki teljast sjálfkrafa vera til opinberra skipta frá andlátsstund hlutaðeiganda, heldur skapast við andlátið millibilsástand þar sem sýslumaður hefur til bráðabirgða forræði á málefnum dánarbúsins. Jafnframt er sýslumanni ætlað að gegna því hlutverki við eftirlit og gæslu almannahagsmuna varðandi skipti dánarbúa sem skiptaráðendur hafa annast til þessa í framkvæmd, bæði meðan á fyrrnefndu millibilsástandi stendur og í framhaldi af því við einkaskipti. Þetta hlutverk sýslumanna samkvæmt frumvarpinu felst nánar tiltekið í því að þeim er ætlað að taka við andlátstilkynningum og veita um leið leiðbeiningar um hvernig staðið verði að framhaldi aðgerða og málalokum, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Málalok geta orðið þau að dánarbú verði talið eignalaust og skiptum þess verði þá lokið þegar í stað fyrir sýslumanni, sbr. 25. og 26. gr. frumvarpsins. Þau geta einnig orðið á þann veg að maki þess látna fái leyfi sýslumanns til að setjast í óskipt bú, sbr. 27. gr. frumvarpsins og ákvæði II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þá getur sýslumaður orðið við umsókn erfingja um að veita þeim leyfi til einkaskipta, sbr. 29.–31. gr. frumvarpsins, en að fengnu slíku leyfi öðlast erfingjar heimild til að ráða yfir hagsmunum dánarbúsins í stað sýslumanns og ljúka síðan skiptunum með því að afhenda sýslumanni gögn og greiða erfðafjárskatt, sbr. XIII. kafla frumvarpsins. Loks getur farið svo að krafist sé opinberra skipta á dánarbúinu og að dómsúrskurður gangi um slíka kröfu eftir ákvæðum IV. kafla frumvarpsins, en ef krafan er tekin til greina verða skiptin upp frá því í höndum sérstaks skiptastjóra sem tekur við forræði á dánarbúinu af sýslumanni. Hvernig sem staðið yrði nánar að aðgerðum hverju sinni er sem fyrr segir gert ráð fyrir þeirri meginreglu í 11. gr. frumvarpsins að sýslumaður hafi með höndum formlegt forræði á málefnum dánarbús til bráðabirgða, eða nánar tiltekið á tímabilinu frá andláti fram að því að eitthvað af framangreindu gerist, og er þetta nánast það sama og nú tíðkast í framkvæmd samkvæmt áðursögðu. Þá er gert ráð fyrir því að sýslumaður greiði á ýmsan hátt fyrir aðgerðum á þessu tímabili, t.d. með skipun sérstakra lögráðamanna og málsvara fyrir erfingja eftir ákvæðum 13. og 14. gr. frumvarpsins og með því að láta fara fram skrásetningu og eftir atvikum mat á eignum eftir beiðni erfingja, sbr. 17.–23. gr. frumvarpsins, en ráðstafanir sem þessar verða ekki gerðar eftir núgildandi lögum nema við opinber skipti. Þá er loks ætlast til að sýslumaður gegni sérstöku aðhaldshlutverki með því að áminna erfingja ef dráttur verður á aðgerðum af þeirra hendi á umræddu tímabili, sbr. 32. gr. frumvarpsins, og eftir atvikum að bregðast við athafnaleysi erfingja eða þeirri aðstöðu að erfingi neiti að taka þátt í einkaskiptum eða enginn erfingi gefi sig fram með því að krefjast opinberra skipta skv. 37. gr. frumvarpsins.
    Þótt sú skipan frumvarpsins, sem hér er lýst, feli í sér allnokkra breytingu að formi til frá fyrirmælum núgildandi laga líkist hún mjög þeirri framkvæmd sem hefur verið ríkjandi áratugum saman.

IV.


    Eins og getið var hér á undan miða ákvæði laga nr. 3/1878 við það að dánarbú séu alltaf talin vera til opinberra skipta frá því andlát ber að höndum og þar til slíkum skiptum lýkur eða skiptaráðandi veitir maka þess látna leyfi til setu í óskiptu búi eða erfingjum hans leyfi til einkaskipta. Svo sem áðurgreindar tölulegar upplýsingar um framkvæmd í Reykjavík á árunum 1988 og 1989 gefa til kynna er reyndin hins vegar sú að beinar aðgerðir við opinber skipti dánarbúa eiga sér ekki stað í verulegum mæli því að komist er hjá þeim vegna eignaleysis þess látna eða með setu í óskiptu búi eða einkaskiptum í samtals um 91% tilvika. Þegar aðgerðir við opinber skipti byrja á annað borð sýna þessar tölur jafnframt að horfið er frá þeim í allmörgum tilvikum með því að erfingjum sé veitt leyfi til einkaskipta eða eftir atvikum að maka sé veitt leyfi til setu í óskiptu búi, en það sé aðeins í 4,4% allra tilvika sem opinber skipti fari í reynd fram allt til enda. Eftir fyrirmælum laga nr. 3/1878 geta ýmis atvik leitt til þess að nauðsynlegt sé að aðgerðir við opinber skipti á dánarbúi eigi sér stað að einhverju leyti eða öllu, en eftirfarandi eru helstu orsakir þess:
     1.      að erfingi sé ófjárráða eða ófær af heilsufarsástæðum um að gæta hagsmuna sinna sjálfur,
     2.      að bú erfingja sé til gjaldþrotaskipta,
     3.      að ekki verði náð til erfingja, t.d. með því að ekki sé vitað um dvalarstað hans eða hann sé horfinn,
     4.      að sá látni hafi haft með höndum reikningshald á vegum hins opinbera,
     5.      að sá látni hafi mælt fyrir í erfðaskrá um að opinber skipti skuli eiga sér stað eða að skiptaforstjóri verði löggiltur til að annast skiptin,
     6.      að einn erfingi eða fleiri óski beinlínis eftir opinberum skiptum hvort sem ágreiningur hefur staðið milli erfingja um skiptin eða ekki,
     7.      að einn erfingi eða fleiri taki ekki að sér ábyrgð á skuldbindingum þess látna og skilyrði eru ekki til að ljúka skiptunum allt að einu vegna eignaleysis þess látna eða með því að veita maka hans leyfi til setu í óskiptu búi,
     8.      að ekki sé vitað um neinn erfingja og talið að arfur muni því renna til ríkisins,
     9.      að vafi sé uppi um hver geti átt tilkall til arfs.
    Í þeim tilvikum, þar sem hafist var handa um aðgerðir við opinber skipti á dánarbúum í Reykjavík á árunum 1988 og 1989 og skiptum á þeim eftir atvikum lokið með þeim hætti, átti það rætur að rekja til ofangreindra orsaka í eftirfarandi mæli þegar tölur frá báðum árunum eru lagðar saman:

Fjöldi tilvika þar sem aðgerðir
byrjuðu við opinber skipti:
Þar af þau tilvik þar sem opinber skipti fóru fram til enda:
1. 40 6
2. 0 0
3. 7 3
4. 0 0
5. 5 5
6. 64 37
7. 12 10
8. 1 1
9. 3 3

    Af þessu má ráða að það sé misjafnt hve mikið reyni á einstakar reglur laga nr. 3/1878 sem mæla fyrir um nauðsyn aðgerða við opinber skipti. Það skiptir þó væntanlega meira máli að varla verður séð tilefni til að kveða á um þessa nauðsyn í öllum þeim tilvikum sem hér um ræðir. Verður til dæmis ekki séð hvað vinnist með skyldu til aðgerða við opinber skipti vegna ófjárræðis erfingja því að lögráðamenn slíkra erfingja koma fram og gefa nauðsynlegar yfirlýsingar fyrir þeirra hönd og gæta hagsmuna þeirra, sérreglur um meðferð fjár ófjárráða manna gilda um varðveislu arfs eftir greiðslu hans, en afskipti skiptaráðenda hafa ekki þjónað raunhæfum tilgangi við þessar aðstæður. Röksemdir má færa með sambærilegum hætti fyrir því að opinber skipti þjóni ekki sérstökum tilgangi í þeim tilvikum sem voru talin í 2., 3. og 4. lið hér á undan. Er því lagt til í frumvarpinu að nauðsyn aðgerða við opinber skipti verði afnumin í umræddum fjórum tilvikum, en eftir atvikum komi í staðinn sérstök aðgæsla og eftirlit af hendi sýslumanns ef ófjárráða erfingi á hlut að máli, sbr. einkum 30., 31. og 94. gr. frumvarpsins, heimildir sýslumanns til að skipa ófjárráða erfingja sérstakan lögráðamann og málsvara handa erfingja sem næst ekki til, sbr. 13. og 14. gr. frumvarpsins, og ákvæði 17.–23. gr. frumvarpsins um skráningu eigna og mat á þeim sem sýslumaður annast án þess að koma þurfi til opinberra skipta til að þær aðgerðir fari fram. Má ætla að þetta hafi í för með sér að talsvert dragi úr aðgerðum við opinber skipti dánarbúa ef frumvarpið verður að lögum, en þetta mun hins vegar að einhverju marki leiða til aukinna verka sýslumanna en ella hefði orðið.
    Þótt þannig sé gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins leiði til talsverðrar fækkunar á tilvikum þar sem opinber skipti dánarbúa fara fram gefa þau ekki tilefni til að vænta sambærilegra breytinga á tíðni opinberra skipta við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar eða félagsslit, enda eru opinber skipti aldrei lögskyld við þessar aðstæður heldur koma þau alltaf til að kröfu einhvers hlutaðeiganda samkvæmt reglum laga nr. 3/1878. Þó má vekja athygli á því í þessu sambandi að í framkvæmd er mjög sjaldgæft að opinber skipti eigi sér stað til fullnaðar undir þessum kringumstæðum, heldur lýkur aðgerðum í meginþorra tilvika áður en til þess kemur með því að samningar takist um málalok. Virðist sem tilefni opinberra skipta við þessar aðstæður sé oft að leysa þurfi úr afmörkuðu ágreiningsefni milli aðilanna, en að því leystu sé grundvöllur til samninga um önnur atriði. Hefur þá verið leitað opinberra skipta gagngert til að fa leyst úr slíkum ágreiningi með skjótum hætti eftir sérreglum laga nr. 3/1878 án þess að aðrar aðgerðir hafi þurft að eiga sér stað í tengslum við opinberu skiptin, en ekki hefur verið unnt að leita slíkrar úrlausnar eftir öðrum leiðum. Í 2. mgr. 125. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að hjón geti leitað slíkrar skjótrar úrlausnar um afmarkað ágreiningsefni sitt við fjárslit.vegna skilnaðar án þess að koma þurfi til opinberra skipta af þeim sökum. Þessi heimild kynni þannig að draga úr því að krafist yrði opinberra skipta við fjárslit vegna hjónaskilnaðar.

V.


    Í ákvæðum laga nr. 3/1878 er gerður verulegur greinarmunur á því hvernig staðið verði að framkvæmd opinberra skipta á dánarbúum eftir því hvort erfingjar þess látna lýsi yfir að þeir taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans eða ekki. Í 19.–49. og 81.–87. gr. laganna koma fram sérreglur sem taka til tilvika þar sem yfirlýsingar um slíka ábyrgð fást ekki, án tillits til þess hvort þetta eigi rætur að rekja til skuldastöðu þess látna, varfærni af hendi erfingja eða þess að ekki hafi tekist að ná til þeirra allra. Við þessar aðstæður ber að gefa út innköllun til skuldheimtumanna og leysa úr um réttmæti krafna þeirra sem tekur minnst 5 til 6 mánuði eftir ákvæðum laganna. Meðan á þessu stendur ráða skuldheimtumenn gangi mála í alla staði án tillits til efnahags dánarbúsins, m.a. hvernig eignum verði ráðstafað, og er þá staðið að aðgerðum á sambærilegan hátt og við gjaldþrotaskipti. Að umræddum tíma liðnum kann að koma fram að eignir dánarbúsins nægi til greiðslu skulda þannig að erfingjar fái ráðið gangi mála upp frá því, en nægi eignirnar ekki helst forræði skuldheimtumanna á hagsmunum búsins allt til enda. Ef erfingjar lýsa hins vegar yfir að þeir taki þessa ábyrgð að sér og opinber skipti fara allt að einu fram erframkvæmd skiptanna miklu einfaldari í sniðum því að sambærilegt tillit er ekki tekið til skuldheimtumanna og erfingjar taka ákvarðanir um hvernig hagsmunum dánarbús verði ráðstafað, en um þetta eru reglur í 50.–55. gr. laga nr. 3/1878.
    Sá meginmunur, sem ákvæði laga nr. 3/1878 gera á framkvæmd opinberra skipta eftir því hvort erfingjar lýsa yfir ábyrgð á skuldum eða ekki, er um margt óeðlilegur, m. a. vegna þess að ekkert tillit er tekið til þess af hvaða ástæðum ábyrgð erfingjanna fæst ekki. Áðurnefndar reglur laganna um framkvæmd opinberra skipta, þegar ábyrgð er ekki lýst yfir, eru að mestu miðaðar við þau tilvik þar sem þetta kemur til af því að dánarbú eigi ekki eignir fyrir skuldum. Reyndin er hins vegar oft sú að vöntun ábyrgðar erfingja stafi af öðru, t.d. að ekki náist til eins erfingja af fjölmörgum í tilviki þar sem eignir eru langt umfram skuldir. Þegar þannig stendur á er óeðlilegt svo að ekki sé meira sagt að skuldheimtumenn ráði um lengri tíma hvernig staðið verði að skiptunum án þess að tillit verði tekið til hugsanlegra hagsmuna erfingja.
    Í frumvarpinu er leitast við að ráða bót á þeirri aðstöðu sem hér hefur verið lýst. Er þetta gert með því að gera ekki meiri mun á framkvæmd opinberra skipta eftir því hvort erfingjar lýsi yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús eða ekki en sem telja má óumtlýjanlegt. Mismunandi reglur koma að vísu eftir sem áður fram um hvernig verði kallað eftir kröfum skuldheimtumanna og farið með þær. Í VII. kafla frumvarpsins er kveðið á um hvernig staðið verði að þessu ef erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum, en á sama hátt og eftir lögum nr. 3/1878 verður þá að gefa út innköllun til skuldheimtumanna og taka síðan afstöðu til þeirra krafna sem koma fram. Frestir eru hins vegar styttir mjög og reglur um meðferð krafna skuldheimtumanna eru einfaldaðar, en hvoru tveggja er lagt til eftir fyrirmynd í ákvæðum gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, og ætti að flýta meðferðinni verulega. Í VIII. kafla frumvarpsins er síðan mælt fyrir um hvernig staðið verði að þessu ef erfingjar ábyrgjast skuldbindingar dánarbús og er þar leitast við að greiða fyrir í þessum efnum frá því sem nú gildir. Mestu skiptir hins vegar að ákvæði IX. kafla frumvarpsins veita erfingjum rétt til afskipta af þvíhvernig eignum og réttindum dánarbús verði ráðstafað þótt þeir hafi ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum þess meðan ekki hefur verið staðreynt að dánarbúið eigi ekki eignir fyrir skuldum.
    Reglur 19.–49. gr. (3. kapítula) laga nr. 3/1878, sem geyma ákvæði þeirra um opinber skipti dánarbúa þegar erfingjar lýsa ekki yfir ábyrgð á skuldbindingum þess, taka sem áður segir einkum mið af aðstæðum við framkvæmd skipta þegar eignir dánarbús megja ekki fyrir skuldum. Þegar þannig er ástatt er í reynd um það að ræða að gjaldþrotaskipti fari fram á dánarbúinu, enda var stuðst að öllu leyti við umræddar reglur við framkvæmd gjaldþrotaskipta á búum lifenda um margra ára skeið eftir setningu laga nr. 3/1878 þar til fyrstu sérlögin voru sett hér á landi um þau efni og að vissu marki var þessum reglum enn beitt til fyllingar á fyrirmælum löggjafar um gjaldþrotaskipti eftir þann tíma og allt til gildistöku núgildandi gjaldþrotalaga frá 1978. Er þetta meðal ástæðna þess að reglur um rétthæð krafna skuldheimtumanna við gjaldþrotaskipti hafa frá upphafi verið í 8. kapítula laga nr. 3/1878 þótt sjaldan reyni á þær við skipti dánarbúa. Í ljósi þess, að sjálfstæð löggjöf gildir orðið um framkvæmd gjaldþrotaskipta og ekki síður vegna þess hve sjaldgæft er að opinber skipti fari fram þar sem eignir dánarbúa nægja ekki fyrir skuldum, hefur sú leið verið við samningu frumvarpsins að láta ógert að setja fram sérreglur um gjaldþrotaskipti dánarbúa, en þess í stað er kveðið á um það í 62. gr. frumvarpsins að hafi erfingjar ekki tekið á sig ábyrgð á skuldum og í ljós kemur eftir innköllun til skuldheimtumanna að eignir búsins nægi ekki fyrir kröfum þeirra fari framkvæmd skiptanna upp frá því í einu og öllu eftir lagareglum um gjaldþrotaskipti. Er þetta fyrst og fremst gert til einföldunar því að öðrum kosti hefði orðið að setja í frumvarpið yfirgripsmikil fyrirmæli um hvernig staðið yrði að framkvæmd opinberra skipta ef eignir dánarbús nægja ekki fyrir skuldbindingum þess og þau fyrirmæli hefðu að auki ekki orðið annað en endurtekning á þeim reglum sem koma fram í löggjöf um gjaldþrotaskipti. Í ljósi þessara breytinga er jafnframt gert ráð fyrir því í frumvarpinu að núverandi reglur 8. kapítula laga nr. 3/1878 verði ekki framvegis í löggjöf um skipti dánarbúa, heldur í lögum um gjaldþrotaskipti þar sem telja verður að þær eigi með réttu heima. Í frumvarpi, sem hefur verið gert til nýrra heildarlaga um gjaldþrotaskipti og var minnst á hér í upphafi, eru umræddar reglur 8. kapítula laga nr. 3/1878 teknar upp þessu til samræmis.

VI.


    Við gerð frumvarpsins hefur því viðhorfi verið fylgt sem núgildandi lög byggja á að í skiptalöggjöf eigi að koma fram reglur um verklag við framkvæmd skipta (svokallaðar formreglur) meðan önnur lög geymi reglur sem kveði á um tilkall til muna eða verðmæta við skiptin (svokallaðar efnisreglur). Þýðingarmestu efnisreglurnar, sem reynir á í tengslum við skipti á sviði þessa frumvarps, eru reglur um erfðaréttindi, sem er að finna í erfðalögum, nr. 8/1962, og reglur um fjármál hjóna sem koma einkum fram í lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, en að auki reynir á margvíslegar efnisreglur af öðrum meiði, t.d. reglur félagaréttar þegar um skipti til félagsslita er að ræða, reglur fjármunaréttar varðandi kröfuréttindi annarra við búskipti o.s.frv. Þótt frumvarpið hafi verið samið með það fyrir augum að það tæki ekki til slíkra efnislegra atriða og að verklagsreglur þess gætu eins átt við þótt efnisreglum yrði breytt á síðari tímum er um sumt örðugt að gera fullkominn greinarmun á formreglum og efnisreglum í þessum skilningi, auk þess að vissar efnisreglur varða svo mjög framkvæmd skipta að óhjákvæmilegt er að taka þær upp í tengslum við formreglurnar. Má af þessum sökum finna einstakar reglur í frumvarpinu, líkt og í lögum nr. 3/1878, sem fremur mætti telja til efnisreglna í þessum skilningi, t.d. í 104. gr. þess auk ýmissa ákvæða í III. kafla. Á hinn bóginn hefur sú leið verið farin að taka upp i frumvarpið formreglur sem til þessa hafa verið í öðrum lögum en nr. 3/1878 og leggja um leið til brottnám slíkra fyrirmæla sérlaga. Áhrifa af þessu gætir einkum varðandi formreglur um skipti milli hjóna sem eru nú að nokkru í lögum nr. 20/1923, en reglur um þetta eru teknar upp í XIV. kafla frumvarpsins samhliða því að lagt er til í 135. gr. þess að allmörg ákvæði laga nr. 20/1923 falli niður ef það verður að lögum.

VII.


    Hér á undan hefur sérstaklega verið getið nokkurra meginatriða frumvarpsins sem er ætlað að leiða til breytinga frá núgildandi lögum. Tillögur um slíkar breytingar eru þó fleiri og þykir rétt að gera hér stutta grein fyrir þeim helstu í sömu röð og þær koma fram í frumvarpinu og geta þá um leið nokkurra atriða sem varða efnisskipan frumvarpsins.
     1.      Fyrsti þáttur frumvarpsins hefur að geyma fyrstu þrjá kafla þess sem fjalla um almenn atriði um skipti dánarbúa. Í I. kafla frumvarpsins koma fram reglur um lögsögu við skipti dánarbúa sem er ætlað að koma í stað reglna í 95. gr. laga nr. 3/1878 og tilskipun 21. júní 1793. Ákvæði frumvarpsins um þessi atriði eru mun ítarlegri en núgildandi reglur og eru meðal annars gerð til að taka af skarið um atriði sem vafi hefur leikið um í framkvæmd.
     2.      Í II. kafla frumvarpsins, sem geymir ákvæði um það tímaskeið sem dánarbú á undir forræði sýslumanns eftir að andlát hefur borið að höndum, koma fyrst fram mun nánari reglur en í núgildandi lögum um hverjar upplýsingar þurfi að veita þegar andlát er tilkynnt, hvernig staðið verði að tilkynningunni sem slíkri og hver gögn þurfi að leggja fram í sambandi við hana. Reglur frumvarpsins um þessi atriði, í 5.–8. gr., taka að miklu leyti mið af því hvernig þessu hafi verið hagað í framkvæmd á liðnum árum. Í 13.–15. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður skipi ófjárráða erfingja sérstakan lögráðamann ef reglulegur lögráðamaður er vanhæfur til að koma fram fyrir hönd erfingjans við skipti og er einnig ráðgert að sýslumaður skipi erfingja sem ekki næst til sérstakan málsvara til að gæta hagsmuna hans. Svipaðar reglur koma nú fram í 14. gr. laga nr. 3/1878, en þær eru bundnar við að skipun sem þessi geti aðeins átt sér stað við opinber skipti sem er horfið með öllu frá í reglum frumvarpsins. Í þessum sömu ákvæðum frumvarpsins er að auki að finna nýmæli sem felast í heimild sýslumanns til að skipa fjárráða erfingja málsvara ef erfinginn er ófær um að gæta hagsmuna sinna af heilsufarsástæðum. Bein heimild til þess er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum og hefur það leitt til að stundum hafi reynst óumflýjanlegt að svipta mann fjárræði af því eina tilefni að hann hafi verið ófær um að gæta hagsmuna sinna við arftöku. Hjá þeirri aðgerð mætti komast í mörgum tilvikum ef frumvarpið verður að lögum með skipun málsvara handa erfingja eftir umræddri heimild. Í 17.–23. gr. koma síðan fram almennar reglur um hvernig verði staðið að skrásetningu og mati á eignum dánarbúa, en eins og áður hefur komið fram er ráðgert í þessum ákvæðum frumvarpsins að slík aðgerð fari með öllu fram án tengsla við opinber skipti. Þessi fyrirmæli eiga sér nokkra hliðstæðu í 16. og 47. gr. laga nr. 3/1878, en eru þó mun ítarlegri og taka að nokkru mið af venjum sem hafa myndast í þessum efnum í framkvæmd. Ákvæði 25. og 26. gr. frumvarpsins svara að nokkru til 10. gr. laga nr. 3/1878, en liðka þó fyrir að ljúka megi skiptum með einföldum hætti þegar eignir dánarbús eru litlar sem engar. Í 29.–31. gr. koma loks fram reglur um umsókn erfingja um leyfi til einkaskipta og eftir hverju verði farið þegar afstaða er tekin til hennar. Þessar reglur eiga sér ekki hliðstæðu að teljandi leyti í lögum nr. 3/1878, en byggja um margt á venjum um þetta í framkvæmd.
     3.      Í III. kafla frumvarpsins er að finna reglur sem varða sérstök réttindi erfingja við skipti dánarbúa. Ákvæði 33. gr. geyma heimild til að tryggja maka þess látna og óuppkomnum börnum rétt til að halda vissum verðmætum án tillits til skipta, en þessi regla er mun rýmri en núgildandi ákvæði um sambærilegt atriði í 58. gr. laga nr. 20/1923 sem veitir þó ekki börnum þess látna þessi réttindi. Reglur 35. og 36. gr. eru áþekkar ákvæðum 46., 59. og 62. gr. laga nr. 3/1878 en er skipað saman á einum stað í frumvarpinu til einföldunar.
     4.      Í öðrum þætti frumvarpsins, sem nær yfir IV.–X. kafla þess, eru reglur þess um opinber skipti á dánarbúum. Áður hefur verið minnst sérstaklega á ýmis atriði frumvarpsins sem er ætlað að leiða til breytinga á framkvæmd opinberra skipta og óþarft er að víkja frekar að hér. Í IV. kafla frumvarpsins koma fram reglur um upphaf opinberra skipta, en af helstu nýmælum um þetta má í fyrsta lagi nefna að í 37. gr. er mælt fyrir um hvenær sýslumaður skuli eiga frumkvæði að opinberum skiptum vegna gæslu almannahagsmuna, en í framkvæmd hefur þótt skorta skýrari reglur um hvenær og hvernig eigi að hefjast handa um opinber skipti við hliðstæðar aðstæður án frumkvæðis erfingja. Í öðru lagi er tekin upp heimild í 40. gr., sem skortir með öllu í lögum nr. 3/1878 til að lánardrottinn þess látna geti krafist opinberra skipta að liðnum vissum tíma frá andláti, en í núgildandi lögum er staða lánardrottna lítt tryggð ef dánarbú er ekki tekið til opinberra skipta af öðrum sökum og leyfi er ekki veitt erfingjum til einkaskipta eða maka til að setjast í óskipt bú. Þá er loks í þriðja lagi kveðið skýrar á um það í 42.–45. gr. en í núgildandi lögum hvernig staðið verði að kröfu um opinber skipti og farið með hana fyrir dómi, en að auki er þar mælt fyrir um að héraðsdómari kveði upp úrskurð um slíka kröfu í stað þess að taka afstöðu til hennar með ákvörðun eins og nú er tíðast.
     5.      Í V. kafla frumvarpsins er að finna almennar reglur um störf og stöðu skiptastjóra sem eins og áður hefur komið fram er ætlað að annast framkvæmd opinberra skipta. Í ljósi þess, að þessi tilhögun á sér ekki hliðstæðu í lögum nr. 3/1878, er hér að sjálfsögðu um nýmæli að ræða á þessu sviði. Reglur þessa kafla taka að nokkru mið af reglum gjaldþrotalaga nr. 6/1978 um störf bústjóra og skiptastjóra við gjaldþrotaskipti og af venjum um störf skiptaforstjóra sem eru löggiltir til starfa eftir heimild í 91. gr. laga nr. 3/1878. Af einstökum atriðum í V. kafla frumvarpsins, sem eiga sér ekki samsvörun í nýnefndum reglum gjaldþrotalaga, má einkum nefna að í 46. og 47. gr. eru ítarleg ákvæði um hæfi skiptastjóra og úrræði til að koma fram aðfinnslum um störf þeirra og í 50. gr. er gert ráð fyrir að skiptastjórar haldi skiptafundi með erfingjum og lánardrottnum líkt og löggiltum skiptaforstjórum er nú talið heimilt að gera við skipti dánarbúa. Eftir gjaldþrotalögum eiga slíkir fundir við gjaldþrotaskipti sér stað fyrir dómi, en sú tilhögun hefur um margt leitt til óþarfa þyngsla án teljandi tilgangs og yrði í andstöðu við þá stefnu þessa frumvarps að dómstólar hafi ekki afskipti af framkvæmd opinberra skipta nema ágreiningur rísi um hana sem beint er til þeirra til úrlausnar.
     6.      Í VI. kafla frumvarpsins eru reglur um fyrstu aðgerðir við opinber skipti. Í 53. gr. er skiptastjóra gert að boða erfingja til fundar við sig tafarlaust eftir að dánarbú er tekið til opinberra skipta og leita þar afstöðu þeirra til þess hvort þeir taki að sér ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins, en afstaða erfingjanna til þessa atriðis hefur þýðingu um hvernig staðið verði að framhaldi aðgerða eins og áður hefur verið nefnt og ráða má af ákvæðum VII.–IX. kafla frumvarpsins. Ákvæði 53. gr. eiga sér nokkra hliðstæðu í 15., 17. og 18. gr. laga nr. 3/1878 sem leggja sambærilegar skyldur á skiptaráðanda við upphaf opinberra skipta, en umrædd regla frumvarpsins miðar þó að skjótari og einfaldari afgreiðslu þessa atriðis. Ákvæði 54. og 55. gr. frumvarpsins fjalla um upphafskönnun skiptastjóra á því hverjar séu eignir og skuldir dánarbúsins og ráðstafanir sem honum ber að grípa til í því skyni að tryggja varðveislu eigna. Þessi ákvæði svara að nokkru til þess hvernig reglum 12. og 15. gr. laga nr. 3/1878 hefur verið beitt í framkvæmd þótt orðalag þeirra og efni sé með nokkuð öðrum hætti.
     7.      Í VII. kafla frumvarpsins er að finna sérreglur um meðferð krafna á hendur dánarbúum þegar erfingjar taka ekki að sér ábyrgð á skuldbindingum þess. Af einstökum atriðum þessa kafla má í fyrsta lagi nefna að í 56. gr. er mælt fyrir um að ávallt verði að gefa út innköllun til skuldheimtumanna þegar erfingjar fást ekki allir til að taka að sér ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins, svo sem nú er skylt eftir ákvæðum laga nr. 3/1878, en hér er sú breyting lögð til í samræmi við almenna stefnu frumvarpsins að skiptastjóri gefi innköllunina út og að kröfum skuldheimtumanna verði beint til hans í kjölfarið í stað þess að dómstólar komi við sögu í þessum efnum svo sem nú er. Þá felst einnig sú breyting í 56. gr. frumvarpsins frá ákvæðum laga nr. 3/1878 að gert er ráð fyrir að kröfulýsingarfrestur handa skuldheimtumönnum verði tveir mánuðir frá því að innköllun birtist í fyrra af tveimur skiptum í Lögbirtingablaði í stað þess að vera fjórir mánuðir frá því að hún birtist þar í þriðja skipti, en þessi breyting á sér fyrirmynd í ákvæðum gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Í öðru lagi má geta þess að 57. gr. frumvarpsins geymir reglur um hvers efnis kröfulýsingar skuldheimtumanna til skiptastjóra skuli vera, en ákvæði skortir um þetta í núgildandi lögum. Í þriðja lagi er kveðið beinlínis á um það í 58. gr. að hverju leyti kröfur skuldheimtumanna falli niður ef þeim er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests, en sambærileg regla er ekki lögfest þóft hún hafi talist gilda. Í fjórða lagi eru lagðar til gerbreyttar reglur um meðferð lýstra krafna skuldheimtumanna í 59.–61. gr. frumvarpsins, en þær eiga sér fyrirmyndir í ákvæðum gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, og ættu að stuðla að miklu greiðari meðferð en eftir núgildandi ákvæðum 37. og 38. gr. laga nr. 3/1878 um þetta efni. Loks má benda á að í 62. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ef erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús verði þáttaskil á framkvæmd opinberra skipta eftir lok kröfulýsingarfrests þegar komið er fram hvort eignir þess nægi fyrir skuldum. Ef ljóst þykir að eignir muni nægja gerir reglan ráð fyrir að skiptastjóri fari í flestum atriðum með skiptin upp frá því eins og erfingjar hefðu tekið umrædda ábyrgð að sér, en ef eignir nægja ekki er kveðið á um að beita skuli reglum um gjaldþrotaskipti við áframhald opinberra skipta og ráðast skiptin þá ekki frekar af ákvæðum þessa frumvarps. Þessi regla felur í sér verulega breytingu og um leið einföldun í samanburði við skipanina eftir lögum nr. 3/1878.
     8.      Í VIII. kafla frumvarpsins er að finna reglur um meðferð krafna skuldheimtumanna ef erfingjar hafa tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum dánarbús. Þessar reglur eru áþekkar ákvæðum 4. kapítula laga nr. 3/1878 að öðru leyti en því að ef innköllun er gefin út til skuldheimtumanna þá annast skiptastjóri það verk og þau nýmæli, sem var lýst hér á undan í tengslum við VII. kafla frumvarpsins og varða kröfulýsingarfrest, gerð kröfulýsinga og áhrif þess að kröfu sé ekki lýst, eiga hér einnig við. Þá má einnig nefna að í umræddum 4. kapítula laga nr. 3/1878 hefur vantað skýr fyrirmæli um hvernig afstaða verði tekin til krafna sem koma fram á hendur dánarbúum við þessar aðstæður, en leitast er við að bæta úr þeirri vöntun í þessum kafla frumvarpsins.
     9.      Í IX. kafla frumvarpsins eru reglur um hvernig staðið verði að ákvörðunartöku um ráðstöfun á hagsmunum dánarbúa við opinber skipti. Í lögum nr. 3/1878 er byggt á því að ákvarðanir sem þessar verði teknar á skiptafundum sem skiptaráðandi heldur fyrir dómi, ýmist með skuldheimtumönnum eða erfingjum eftir þvf hvort erfingjar hafa tekið ábyrgð á skuldbindingum bús, en skiptaráðandi framfylgi síðan slíkum ákvörðunum og komi fram sem fyrirsvarsmaður búsins þegar það er gert. Ákvæði IX. kaflans fela þá meginbreytingu í sér að skiptastjóri haldi þessa skiptafundi utan réttar og gegni að öðru leyti því hlutverki sem skiptaráðandi hefur með höndum í þessum efnum eftir núgildandi lögum. Að öðru leyti er reglum IX. kafla ætlað að leiða í fyrsta lagi til þeirra breytinga sem áður voru nefndar, að erfingjar fái rétt til afskipta til jafns við skuldheimtumenn af ráðstöfunum á hagsmunum búsins þótt þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum þess, en þessi réttur fellur þó niður ef afráðið hefur verið skv. 62. gr. frumvarpsins að fara með búið eftir reglum um framkvæmd gjaldþrotaskipta því að þá fara skuldheimtumenn einir með þetta ákvörðunarvald. Í öðru lagi veita ákvæði kaflans skiptstjórum mun rýmri heimildir til sjálfstæðrar ákvörðunartöku án þess að bera ráðstafanir undir skiptafundi en núgildandi fyrirmæli laga nr. 3/1878 veita skiptaráðendum að þessu leyti, en þessar breytingar eiga sér nokkra fyrirmynd í ákvæðum gjaldþrotalaga nr. 6/1978 og er ætlað að draga úr þyngslum í þessum efnum. Þá er í þriðja lagi leitast við að setja mun ítarlegri reglur en nú gilda um hvernig verði brugðist við ef skiptafundur kemst ekki að einróma niðurstöðu um ákvörðun eða ef ákvörðunin þykir óeðlileg í garð þeirra sem eiga hagsmuna að gæta en hafa ekki átt þátt að henni. Í framkvæmd hefur verið talið að þau sjónarmið ættu við sem er lagt til að verði lögfest að þessu leyti, en fyrir því hefur þó skort nægilega skýra lagaheimild.
     10.      Í X. kafla frumvarpsins er að finna reglur um hvernig opinberum skiptum verði lokið, til hverra ráðstafana skiptastjóri þurfi að grípa til að ljúka hlutverki sínu og að hverju marki verði heimilað að taka opinber skipti upp á ný þegar þeim hefur verið lokið. Reglur 72.–79. gr. varða verklag við undirbúning skiptaloka og hvernig þau eiga sér formlega stað, en þeim svipar mjög til núgildandi reglna laga nr. 3/1878 eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd að því frátöldu að ráðgert er að skiptastjórar annist þessi verk án afskipta dómstóla nema ágreiningur rísi í tengslum við þau, en eftir núgildandi lögum hafa skiptaráðendur þessi störf með höndum. Í 80. og 81. gr. er meðal annars kveðið á um hvernig skiptastjóri ljúki verki sínu með útborgun arfs og eftir atvikum hvernig farið verði með arf sem erfingi hefur ekki gefið sig fram til að taka við og arf sem kemur í hlut erfingja sem er ólögráða eða getur ekki gætt hagsmuna sinna af heilsufarsástæðum. Skortir á að nægilega skýrar reglur komi fram um þessi atriði í núgildandi lögum, en ákvæði frumvarpsins miða að nokkru við framkvæmd í þessum efnum. Þá er loks í 82.–84. gr. kveðið á um hvenær opinber skipti verði endurupptekin og hvernig það verði gert, en um þetta eru ekki teljandi reglur í lögum nr. 3/1878.
     11.      Í þriðja þætti frumvarpsins eru reglur um framkvæmd og lok einkaskipta sem erfingjar annast sjálfir að fengnu leyfi sýslumanns, svo og um réttarstöðu erfingja og þeirra sem telja til réttinda á hendur dánarbúi meðan á einkaskiptum stendur. Þessar reglur eru í flestum atriðum sambærilegar núgildandi ákvæðum laga nr. 3/1878 og þeirri framkvæmd sem hefur mótast á grundvelli þeirra., Þó skal tekið fram að nánari reglur eru lagðar til í XI. kafla frumvarpsins en nú gilda um hvort og þá hvernig skuldheimtumenn og aðrir kröfuhafar geti framfylgt réttindum sínum á hendur dánarbúi meðan á einkaskiptum stendur með málsókn eða fullnustugerðum. Þá má vekja athygli á að reglur XII. kafla frumvarpsins um hvenær leyfi til einkaskipta verði fellt niður og afleiðingar slíkrar aðgerðar eiga sér ekki beina fyrirmynd í núgildandi lögum þótt gengið hafi verið út frá þargreindum viðhorfum í framkvæmd. Loks má benda á að í 93. gr. frumvarpsins er kveðið skýrar á en í lögum nr. 3/1878 um nauðsyn þess að erfingjar geri sérstakan samning sín á milli við lok einkaskipta, svokallaða einkaskiptagerð, og í 95. gr. er tekið af skarið um hvenær einkaskiptum telst nákvæmlega lokið sem ekki er gert í umræddum lögum.
     12.      Í fjórða þætti frumvarpsins koma fram reglur um opinber skipti þegar ekki er um dánarbú að ræða, en þær taka nánar tiltekið til opinberra skipta við fjárslit milli hjóna og fólks í óvígðri sambúð og við slit á félögum þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldum. Fyrirmælum þessa þáttar er ætlað að telja með tæmandi hætti hvenær opinber skipti geti farið fram eftir ákvæðum frumvarpsins á öðru en dánarbúum, þannig að beinlínis verður ályktað að opinber skipti komi ekki til álita undir öðrum kringumstæðum, t.d. við slit hlutafélaga eða annarra félaga þar sem félagsmenn bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum. Þýðingarmestu ákvæði þessa þáttar frumvarpsins koma fram í XIV. kafla sem tekur til opinberra skipta við fjárslit milli hjóna og fólks í óvígðri sambúð. Núgildandi fyrirmæli 6. kapítula laga nr. 3/1878 um opinber skipti við skilnað hjóna hafa ekki átt við þá skipan á fjármálum hjóna sem var tekin upp með lögum nr. 20/1923 og gildir enn, þannig að lítið sem ekkert hefur verið fært að styðjast við þau frá þeim tíma. Helstu núgildandi lagaákvæði, sem verður fylgt í þessum efnum, koma fram í VII. kafla laga nr. 20/1923 sem varða skipti milli hjóna við andlát annars þeirra eða skilnað og í VI. kafla sömu laga sem varða svonefnd slit á fjárfélagi hjóna án þess að um skilnað eða andlát annars þeirra sé að ræða. Reglur þessar hafa ekki gefið nægilega skýra mynd af því hvernig verði staðið að aðgerðum við slík skipti í einstökum atriðum og að auki verður að telja þeim ranglega komið fyrir í lögum sem kveða aðallega á um efnisleg réttindi milli hjóna í stað þess að vera skipað í löggjöf sem fjallar um sjálfa framkvæmd skiptanna. Með frumvarpinu er lagt til að þessar reglur færist í löggjöf um framkvæmd skipta, auk þess að leitast er við að gera þær mun skýrari og fyllri. Þá er reglum XIV. kafla frumvarpsins um framkvæmd skiptanna skipað með þeim hætti að þær taka í senn til opinberra skipta við fjárslit milli hjóna vegna skilnaðar eða ógildingar hjúskapar eða án hjúskaparslita og við fjárslit milli fólks við lok óvígðrar sambúðar, en áðurnefnd ákvæði laga nr. 20/1923 hafa ekki tekið eftir orðanna hljóðan til allra þessara tilvika þótt stuðst hafi verið við þau með þeim hætti í framkvæmd. Að öðru leyti má almennt segja um ákvæði XIV. kafla frumvarpsins að þau séu í flestum atriðum byggð á þeirri framkvæmd sem hefur mótast undanfarna áratugi á grundvelli núgildandi laga, en þar er þó líkt og í öðrum þætti frumvarpsins byggt á því að sérstakir skiptastjórar framkvæmi opinber skipti við þessar aðstæður, en dómstólar komi þar ekki við sögu í ríkara mæli en við opinber skipti á dánarbúum.
     13.      Í fimmta þætti frumvarpsins er kveðið á um meðferð ágreiningsmála sem rísa við skipti fyrir dómstólum, en reglum þáttarins er skipt í þrjá kafla, XVI. kafla þar sem mælt er fyrir um hver mál verði borin undir úrlausn dómara eftir sérreglum frumvarpsins og hver aðdragandi að því yrði, XVII. kafla þar sem kveðið er á um afbrigði frá almennum reglum um meðferð einkamála í héraði við meðferð þessara mála og XVIII. kafla sem fjallar um málskot úrlausna héraðsdómara til æðra dóms. Sérákvæði um meðferð ágreiningsmála, sem rísa við opinber skipti, koma nú fram í 33., 35., 38. og 39. gr. laga nr. 3/1878 og um meðferð mála sem rísa við einkaskipti á dánarbúum í 75. gr. laganna. Þeim reglum hefur verið beitt með þeim hætti í framkvæmd að nokkuð svipi til reglna XVI. og XVII. kafla frumvarpsins. Sú grundvallarbreyting er þó óhjákvæmileg í þessum efnum að með því að ekki er ráðgert í frumvarpinu að dómari komi við sögu við skipti að öðru leyti en til að leysa úr um hvort opinber skipti muni eiga sér stað og til að leysa úr ágreiningsmálum eftir 5. þætti þess þá verða nýjar reglur að koma til skjalanna um það hvernig málum verði beint til dómarans. Sá háttur, sem er lagður til í þessum efnum í ákvæðum XVI. kafla, er um sumt líkur þeim sem er kveðið á um í lögum um aðför, nr. 90/1989, en einnig hefur að nokkru verið höfð hliðsjón af þeim aðferðum sem hefur verið beitt í framkvæmd þegar þurft hefur að leysa úr ágreiningi við opinber skipti dánarbúa sem skiptaforstjórar skv. 91. gr. laga nr. 3/1878 hafa farið með. Ákvæði XVI. kafla taka þó einnig til þess hver ágreiningsmál geti komið til úrlausnar dómstóla eftir sérreglum frumvarpsins, en í þeim efnum er ekki um teljandi breytingar að ræða frá því sem nú gildir. Þó má benda á að ákvæði 123.–126. gr. frumvarpsins gera ráð fyrir að mun fleiri ágreiningsmál geti sætt sérmeðferð eftir reglum þess, ýmist með samkomulagi milli málsaðila eða án þess. Um einstakar breytingar, sem þessum ákvæðum er ætlað að leiða til, má vísa hér til sérstakra athugasemda við þau. Í XVII. kafla má síðan finna ákvæði frumvarpsins um hvernig farið verði með umrædd ágreiningsmál, en eins og fram kemur í 131. gr. verður í meginatriðum byggt á almennum reglum laga um meðferð einkamála í héraði í þessum efnum með þeim frávikum sem mælt er fyrir um í 127.–130. gr. Þau frávik, sem hér um ræðir, eru almennt því marki brennd að þeim er ætlað að leiða til hraðari málsmeðferðar en ella. Í málskotsreglum XVIII. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að úrskurðir héraðsdómara í ágreiningsmálum vegna skipta verði allir kæranlegir að því leyti sem þeim verður skotið til æðra dóms, en með þessu er lögð til breyting frá núgildandi fyrirmælum 21. gr. laga nr. 75/1973, um Hæstarétt Íslands, þar sem kveðið er á um að slíkir úrskurðir sæti ýmist kæru eða áfrýjun. Þessi breyting er lögð hér til í því skyni að flýta fyrir málalokum, enda er meðferð áfrýjunarmála verulega seinlegri en meðferð kærumála.
     14.      Í sjötta og síðasta þætti frumvarpsins koma fram reglur um gildistöku ef það verður að lögum, brottnám og breytingu annarra laga og bráðabirgðaákvæði sem varða tengsl eldri laga og yngri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins koma fram fyrirmæli sem er ætlað að afmarka hvenær dánarbúi verður skipt hér á landi. Í löggjöf einstakra ríkja Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er ýmist um að ræða að lögsaga þeirra við skipti dánarbúa ráðist af því hvort sá látni hafi verið búsettur í ríkinu við lát sitt án tillits til ríkisfangs hans eða að lögsagan ráðist af ríkisfangi án tillits til heimilisstaðar hans við andlát.
    Hér á landi líkt og annars staðar á Norðurlöndum hefur verið byggt á því að dánarbú komi til skipta í því ríki þar sem sá látni bjó við andlát sitt, sbr. 95. gr. laga nr. 3/1878, og að nokkru lög nr. 108/1935 varðandi Norðurlandasamning um erfðir og skipti á dánarbúum og er þeirri reglu haldið í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þó er tekið fram í ákvæðinu að þessi meginregla gildi ekki þótt sá látni hafi átt heimili hér við lát sitt ef annað verður leitt af reglum þjóðaréttar, en í þessu felst einkum vísan til almennra reglna um áhrif úrlendisréttar. Leiðir þessi undantekning til dæmis til þess að dánarbú eftir sendimann erlends ríkis kæmi ekki til skipta hér á landi þótt hann hafi verið búsettur hér við lát sitt, sbr. einnig lög nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Þá er enn fremur gert ráð fyrir þeirri undantekningu í 1. mgr. 1. gr. að það kunni að vera vikið frá meginreglunni með samningi sem íslenska ríkið gerir við annað ríki og hefur lagagildi hér á landi, en ekki verður séð að neinir slíkir samningar séu nú í gildi sem varða ekki fyrrgreinda undantekningu vegna áhrifa úrlendisréttar.
    Í 2. mgr. 1. gr. kemur fram sérregla um að skipta megi dánarbúi hér á landi eftir íslenskan
ríkisborgara þótt hann hafi verið búsettur í öðru ríki við lát sitt ef skipti geta ekki farið fram í heimilisríkinu. Þessi sérregla á rætur að rekja til þess að sú staða geti komið upp að íslenskur ríkisborgari hafi verið búsettur við lát sitt í ríki sem miðar lögsögu sína við áðurnefnda reglu um að skiptastaður ráðist af ríkisfangi þess látna. Þegar svo er ástatt geta skiptin ekki farið fram þar sem hlutaðeigandi bjó við lát sitt og ef ekki væri gert ráð fyrir sérstakri undantekningu í þessum efnum gætu þau heldur ekki farið fram hér á landi. Þessi regla gerir því ráð fyrir lausn á slíkri aðstöðu, en sama regla gildir nú eftir ákvæðum 95. gr. laga nr. 3/1878 og hefur reynt á notkun hennar fáein skipti á undanförnum árum. Rétt er að benda hér á að vikið er frekar að þessu ákvæði frumvarpsins í athugasemdum við 3. mgr. 3. gr.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er sett fram regla sem afmarkar að nokkru merkingu hugtaksins dánarbú með því að kveða á um rétthæfi þess, hver réttindi renni til þess og hverjar skyldur falli á það.
    Í norrænum lögfræðikenningum hafa löngum verið uppi ólíkar skoðanir um hver merking þessa hugtaks sé og um leið hverjum dánarbú tilheyri. Í eldri kenningum var þetta hugtak skilgreint á þann veg að dánarbú væri eignarheild látins manns sem kæmi til skipta eftir atvikum milli lánardrottna hans eða erfingja. Hugtakið taldist þannig í reynd aðeins samheiti fyrir margvísleg réttindi og muni sem höfðu tilheyrt þeim látna. Þegar hugtakið var notað í þessum skilningi var litið svo á að ýmist eignuðust lánardrottnar þess látna þessa eignarheild þegar við lát hans eða erfingjar hans, allt eftir því hvort erfingjar lýstu yfir ábyrgð á skuldbindingum hans eða ekki. Hugtakanotkun laga nr. 3/1878 miðar að flestu leyti við skilgreiningu af þessum meiði. Á seinni tímum hefur hins vegar verið bent á að margt sé í vegi fyrir að skilgreining sem þessi fái staðist. Hún standist t.d. ekki í ljósi þess að dánarbú eigi sjálfstæða aðild að dómsmálum, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 85/1936, að það verði talið sjálfstæður skattaðili, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, eða að dánarbúi geti áskotnast réttindi eða það geti bakað sér skyldur því að útilokað sé að neitt af þessu geti átt við um svokallaða eignarheild látins manns sem eigi sér ekki sjálfstæða tilvist. Þá má einnig benda á að viðhorf um að dánarbú tilheyri annaðhvort lánardrottnum eða erfingjum þess látna þegar frá andlátsstund standist ekki heldur því að á þeirri stundu hefur ekki enn verið leitt í ljós hvort erfingjar muni ábyrgjast skuldbindingar hans eða ekki, en einmitt þetta atriði átti eftir þessum kenningum að ráða hverjum búið tilheyrði. Þessi viðhorf geta enn síður ráðið fram úr aðstöðunni ef maður fellur frá sem hvorki stendur í skuldum við neina lánardrottna né lætur eftir sig neina erfingja.
    Þeir ágallar á eldri kenningum, sem hér hefur verið lýst í einfaldaðri mynd, hafa leitt til þess að leitast hefur verið við að skilgreina hugtakið dánarbú eftir öðrum leiðum. Telja má að sá skilningur sé nú orðið almennt ríkjandi að dánarbú sé ekki eignarheild látins manns, heldur sjálfstæð lögpersóna eða lögaðili sem verði til við andlát manns, taki við fjárhagslegum réttindum hans og skyldum í öllum meginatriðum, njóti hæfis til að öðlast ný réttindi og baka sér nýjar skyldur, en líði að endingu undir lok með því að henni verði slitið með skiptum og skyldur hennar efndar eftir föngum og réttindi hennar sem kunna að standa eftir færðar í hlut erfingja þess látna. Þegar dánarbú er skilgreint með þessum hætti á hvorki við að ræða um að það tilheyri lánardrottnum né erfingjum þess látna, heldur sé nánast um sjálfseignarstofnun að ræða. Dánarbúið lúti forræði ríkisins frá því andlát beri að höndum, en það forræði geti eftir atvikum flust í hendur maka þess látna ef honum er veitt leyfi til setu í óskiptu búi eða erfingja þess látna ef þeim er veitt leyfi til einkaskipta. Eins geti þetta forræði ríkisins yfir dánarbúi staðið allt þar til því er endanlega slitið við lok skipta ef opinber skipti eiga sér stað. Skilgreining hugtaksins eftir þessum leiðum sfenst m. a. gagnvart þeim atriðum sem áður voru nefnd og hafa þótt mæla gegn notkun eldri skilgreininga.
    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins fela í sér að hugtakið dánarbú er skilgreint eftir þeim yngri kenningum sem hér hafa verið nefndar með því að þar kemur fram að dánarbú njóti hæfis til að eiga réttindi og bera skyldur eða sé með öðrum orðum sjálfstæður lögaðili. Þessi regla er ekki lögð hér til í því skyni að löggjöf taki afstöðu til fræðilegra vangaveltna, heldur þykir hún nauðsynleg til afmörkunar á hugtakanotkun frumvarpsins og reyndar uppbyggingu reglna þess að mörgu öðru leyti. Rétt er að geta þess að byggt er á hliðstæðum skilningi á hugtakinu þrotabú í gjaldþrotalögum, nr. 6/1978, þannig að hér er ekki lögð til afgerandi breyting á hugtakanotkun á þessum vettvangi í lögum.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna þau ákvæði frumvarpsins sem er ætlað að ráða því í hvaða umdæmi skipti dánarbús eigi að fara fram. Nugtakið umdæmi er hér notað til að tákna stjórnsýsluumdæmi sýslumanna skv. 11. gr. laga nr. 92/1989, enda eiga málefni dánarbúa almennt undir þá eftir ákvæðum II. kafla frumvarpsins nema til opinberra skipta komi, en þá ræðst sá staður sem skiptin teljast fara fram reyndar einnig af umdæmamörkum sýslumanna, sbr. 1. mgr. 42. gr. frumvarpsins.
    Núgildandi fyrirmæli laga um hvar skipti fari fram á dánarbúum koma fram í tilskipun um takmörkin milli lögsagna hinna einstöku uppboðshaldara og skiptaráðenda frá 21. júní 1793 sem vísað er til með óbeinum hætti í upphafsmálslið 95. gr. laga nr. 3/1878. Skv. 1. gr. nefndrar tilskipunar á þetta að ráðast af því hvar sá látni „átti sjálfur varnarþing, er skiptin hófust“. Þessi regla hefur ekki reynst nægilega markviss og hafa ýmis vafaatriði komið upp í framkvæmd um beitingu hennar.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er stefnt að því að eyða óvissu í þessum efnum með því að taka afdráttarlaust af skarið um að lögheimili í skilningi laga nr. 21/1990 ráði því undir hvaða sýslumann skiptin geti átt, en ef svo færi að sá látni hafi ekki átt tiltekið lögheimili þá er mælt sérstaklega fyrir um að fastur dvalarstaður hans ráði skiptaumdæminu eða að endingu dánarstaður ef enginn slíkur dvalarstaður hefur heldur verið fyrir hendi. Þá má benda sérstaklega á að ákvæði 1. mgr. 3. gr. taka einnig skýlausa afstöðu til þess hvar skipti eigi að fara fram ef til skipta kemur á dánarbúi eftir að maki þess látna hefur setið í óskiptu búi um lengri eða skemmri tíma. Er þá miðað við að skiptin fari fram þar sem makinn á lögheimili þegar skiptin byrja eða átti lögheimili við lát sitt efhann hefur setið í óskiptu búi til æviloka, en ef makinn hefur ekkert lögheimili átt ræðst skiptaumdæmi með sama hætti og áður greindi af dvalarstað hans eða eftir atvikum dánarstað. Núgildandi fyrirmæli laga hafa ekki gert ráð fyrir að þessi aðstaða geti komið upp og hefur það leitt til óvissu í framkvæmd, en framkvæmdin virðist að auki hafa verið með nokkuð misjöfnum hætti í einstökum umdæmum á undanförnum áratugum.
    Í 2. mgr. 3. gr. er kveðið á um að ef ágreiningur eða vafi verður um skiptaumdæmi þá skuli leita ákvörðunar dómsmálaráðherra um hvar skiptin fari fram. Eins og reglu 1. mgr. 3. gr. er háttað ætti almennt ekki að geta komið til vafa eða ágreinings um þetta nema svo stæði á að sá látni hafi ekkert lögheimili átt og það þætti orka tvímælis hvort hann hafi átt fastan dvalarstað í skilningi 1. mgr. eða fleiri en einn slíkur staður þætti koma til greina. Þetta úrræði er fyrst og fremst lagt til í því skyni að koma í veg fyrir að neitað verði að sinna dánarbússkiptum í t.d. báðum af tveimur umdæmum sem kynnu að koma til greina og að þetta verði rökstutt á báðum stöðum með því að skiptin eigi að fara fram í hinu umdæminu, en aðstaða sem þessi hefur komið upp í framkvæmd án þess að neitt skjótvirkt úrræði hafi boðist eftir núgildandi lögum til að höggva á hnútinn. Þótt ólíklegt sé að á það mundi reyna má vekja athygli á að ákvörðun ráðherra um þetta gæti sætt endurskoðun dómstóla á grundvelli almennrar reglu 60. gr. stjórnarskrárinnar, t.d. við dómsmeðferð kröfu um opinber skipti skv. 42.–44. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að ef leitað verður eftir skiptum hér á landi skv. 2. mgr. 1. gr. á dánarbúi eftir íslenskan ríkisborgara sem hefur átt heimili erlendis við lát sitt þá skuli sá sem æskir þess hefja aðgerðir sínar með því að leita ákvörðunar dómsmálaráðherra um það í hverju umdæmi skiptin geti farið fram. Ætlast er til að það orðalag ákvæðisins að ráðherra ákveði hvar skiptin „geti farið fram“ verði skilið á þann veg að ráðherra eigi ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum 2. mgr. 1. gr. sé fullnægt til að slíkt dánarbú komi til skipta hér á landi, heldur eigi hann aðeins að benda á það umdæmi þar sem hlutaðeigandi getur borið upp erindi sitt við sýslumann eða krafist opinberra skipta fyrir dómi. Kæmi þannig að öðru jöfnu í hlut sýslumanns að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum 2. mgr. 1. gr. sé fullnægt til að taka búið til skipta hér á landi, en eftir atvikum mætti bera ákvörðun hans um þetta undir héraðsdómara eftir almennri reglu 119. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. 3. gr. er ekki unnt að láta uppi neina leiðbeiningarreglu um það til hvaða umdæmis ráðherra ætti að beina erindi sem þessu, enda hlýtur það að ráðast af atvikum hverju sinni, t.d. hvar dánarbúið kynni að eiga eignir hér á landi, hvar sá látni kynni síðast að hafa átt lögheimili hér á landi o.s.frv. Er hér um að ræða slíkt mat ráðherra að síður gæti komið til þess að dómstólar teldu sér fært að hnekkja því eftir þeim viðhorfum sem voru nefnd hér á undan í tengslum við 2. mgr. 3. gr.

Um 4. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins koma fram almennar reglur um takmarkanir á því að dómsmál verði höfðað á hendur dánarbúi og að leitað verði fullnustugerða gagnvart því auk
þess að kveðið er á um afdrif dómsmáls sem kann að hafa verið höfðað á hendur þeim látna en var ólokið þegar hann féll frá.
    Reglur 4. gr. eru efnislega þær sömu og nú koma fram um þessi atriði í 33. og 34. gr. laga nr. 3/1878 eins og þau ákvæði hafa verið skýrð í dómaframkvæmd og fræðikenningum og er því ekki ástæða til að fara hér mörgum orðum um þær. Þó er rétt að benda á að þótt reglur 4. gr. banni almennt að dómsmál verði höfðað á hendur dánarbúi og að fullnustugerðum verði komið fram gegn því þá er tekið fram að þetta bann sæti undantekningum ef mælt er fyrir um annað í lögum. Undantekningar frá banni 1. mgr. 4. gr. við höfðun dómsmáls á hendur dánarbúi eru hverfandi fáar, en í dæmaskyni má þó benda á að í 2. mgr. 44. gr. barnalaga, nr. 9/1981, er gert ráð fyrir að barnfaðernismál verði höfðað á hendur dánarbúi ef ætlaður faðir er látinn og jafnframt er mælt fyrir í 3. mgr. 88. gr. frumvarpsins um heimild til málshöfðunar á hendur dánarbúi sem er til einkaskipta við ákveðnar aðstæður. Heimildir til að halda uppi refsimáli á hendur dánarbúi, sem einnig er gert ráð fyrir í 1. mgr. 4. gr., eru að sama skapi fáar en til slíks gæti til dæmis komið varðandi skattsektir, sbr. 3. mgr. 107. gr. og 108. gr. laga nr. 75/1981. Bann 3. mgr. 4. gr. við fullnustugerðum á hendur dánarbúi sætir að sama skapi fáum undantekningum, en hér má þó benda á að í XI. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild til þeirra innan vissra marka ef einkaskipti eiga sér stað og eins má nefna að ef farið yrði með ógjaldfært dánarbú sem er til opinberra skipta eftir reglum um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. frumvarpsins, þá gæti komið til kasta heimilda skuldheimtumanna til að krefjast nauðungarsölu á eign búsins, sbr. 74. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins, sem er jafnframt upphafsákvæði II. kafla þess um tilkynningu andláts og fyrstu aðgerðir skipta, er mælt fyrir um skyldu til að tilkynna andlát. Reglur 5. gr. eru í flestum atriðum sama efnis og ákvæði 1. gr. laga nr. 3/1878 eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd.
    Eftir 1. mgr. 5. gr. er skylt að tilkynna andlát til sýslumanns í umdæminu þar sem skiptin ættu að fara fram samkvæmt reglum 3. gr., en eins og tíðkast hefur í framkvæmd til þessa er ætlast til að slíkri tilkynningu yrði almennt ekki vísað á bug þótt hún kæmi fram í röngu umdæmi, heldur yrði tekið við henni og hún framsend áréttan stað, sbr. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Hér er að sjálfsögðu ekki ætlast til annars en að sýslumenn geti falið starfsmönnum sínum að annast þessi störf, þar á meðal að tekið yrði við andlátstilkynningu í útibúi frá embætti sýslumanns eftir 13. gr. laga nr. 92/1989. Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir að umboðsmaður sýslumanns geti tekið við andlátstilkynningu og að hann framsendi sýslumanni síðan gögn um hana, sbr. 1. mgr. 8. gr., en hugtakið umboðsmaður getur hér eftir atvikum átt við hreppstjóra.
    Í 2. mgr. 5. gr. er kveðið á um það á hverjum skylda hvíli til að tilkynna andlát. Fyrst og fremst snýr skyldan að þeim sem geta talið til lögerfðaréttar eftir þann látna, en að þeim frágengnum gæti komið til þess að bréferfingja væri þetta skylt eða þeim sem hlutast til um útför. Er hér efnislega um að ræða sambærilega reglu við 2. mgr. 1. gr. laga nr. 3/1878. Því til viðbótar er þó sérstaklega getið í 2. mgr. 5. gr. að yfirvöldum geti verið þetta skylt ef þau hafa haft afskipti af málefnum þess látna, en hér gæti t.d. verið um lögreglu að ræða ef hún annast rannsókn á mannsláti og enginn erfingi væri þekktur sem skyldan gæti annars hvílt á. Hefur þessu viðhorfi verið fylgt í framkvæmd um árabil þótt ekki sé mælt fyrir um það í lögum nr. 3/1878. Í lokamálslið 2. mgr. 5. gr. er tekið fram að aðrir geti tilkynnt andlát, en sýslumanni sé þó rétt að vísa slíkri tilkynningu á bug ef sá sem gefur sig fram er ekki fær um að gefa nægar npplýsingar um málefni þess látna eftir því sem kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins og ekkert virðist því til fyrirstöðu að einhver kunnugri málefnum þess látna tilkynni andlátið frekar. Sambærileg regla er ekki í núgildandi lögum en þessu viðhorfi hefur þó verið fylgt í framkvæmd.
    Í 3. mgr. 5. gr. kemur fram hvernig aðhaldi verði beitt til að tilkynningarskyldu um andlát verði sinnt, en eins og í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 3/1878 er hér lagt bann við að útför fari fram nema presti eða þeim sem annast hana sé afhent vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt. Er rétt að benda hér á að mjög er brýnt að þessi regla sé virt því að vanræksla um tilkynningu andláts leiðir oftar en ekki til verulegra erfiðleika í framkvæmd. Sú vanræksla hefur oft í för með sér að aðstandendur þess látna fari á mis við að fá almennar leiðbeiningar um nauðsynlegar aðgerðir varðandi skipti dánarbúa og telji af misskilningi að ekkert þurfi að hafast að í þeim efnum, en þegar um síðir kemur fram með samanburði á andlátstilkynningum og gögnum úr þjóðskrá að vanrækt hafi verið að tilkynna andlát vantar með öllu upplýsingar um málefni þess látna og til hvers megi beina tilmælum um að koma þeim í rétt horf. Hefur á köflum gengið erfiðlega í ftamkvæmd á undanförnum áratugum að koma því til leiðar að þeir sem gegna þessu aðhaldshlutverki fáist til að sinna því sem skyldi.
    Taka má fram að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir viðurlögum við því að skyldu til að tilkynna andlát sé ekki sinnt eða að útför sé látin fara fram án þess að sýnt sé fram á að tilkynnt hafi verið, en reglu um slík viðurlög í 2. gr. laga nr. 3/1878 virðist aldrei hafa verið beitt.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ekki verði tekið við andlátstilkynningu nema sá sem tilkynni framvísi úm leið sönnunargagni fyrir andlátinu. Þótt sambærileg regla sé ekki í lögum nr. 3/1878 hefur lengi verið gengið út frá því í framkvæmd að framvísa verði slíkum gögnum við tilkynningu andláts, enda væri með öllu ófært ef það viðgengist að skipti færu fram eftir mann án þess að þau yfirvöld, sem veita atbeina sinn við skiptin og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra, fái áður í hendur nauðsynleg gögn til staðfestingar á láti hans.
    Í 1. mgr. 6. gr. eru þau gögn, sem hér geta komið að haldi, talin upp í fimm töluliðum, en í þessari talningu er tekið tillit til þeirra tegunda sönnunargagna sem reynir á í framkvæmd og geta komið til álita eftir lögum. Fyrstnefndi kosturinn í 1. mgr. 6. gr., að framvísað sé dánarvottorði læknis til sönnunar á mannsláti, er svo af ber sá algengasti í framkvæmd, en hér er átt við vottorð sem eru gefin út eftir fyrirmælum laga nr. 64/1962. Í 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að annars konar embættisvottorð en dánarvottorð geti komið að sama haldi ef það er gefið út af einhverjum sem er bær vegna opinberra starfa sinna um að votta andlátið, en hér er einkum haft í huga vottorð prests úr kirkjubók og dánarvottorð Hagstofu Íslands sem væri þá gefið út í kjölfar þess að hlutaðeigandi hafi áður fengið í hendur dánarvottorð læknis. Í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. kemur fram að lögregluskýrsla um mannslát geti verið nægilegt sönnunargagn við andlátstilkynningu, en slík skýrsla kæmi því aðeins að haldi að lögreglan hafi staðreynt lát hlutaðeigandi manns og það komi fram í skýrslunni. Í 4. og 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. er síðan gert ráð fyrir að sýna megi fram á heimild til að hefjast handa um skipti með því að framvísa dómsúrlausn skv. I. eða III. kafla laga um horfna menn, nr. 44/1981. Ætlast er til að þessi talning hugsanlegra sönnunargagna sé tæmandi þannig að ekki yrði t.d. talið nægilegt í þessu skyni að leggja fram svokallaða mannskaðaskýrslu sem væri gerð eftir lögum nr. 42/1913 án þess að lík hlutaðeigandi manns hafi fundist, heldur yrði þá að afla dómsúrlausnar eftir fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 44/1981 til að sýna nægilega fram á heimild til að hefjast handa um skipti.
    Í öllum töluliðum 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að mannslát verði sannað með tilteknum gögnum af innlendum uppruna. Í 2. mgr. er hins vegar mælt fyrir um að sams konar erlend gögn verði lögð að jöfnu, en sá fyrirvari er þó gerður í því sambandi að ekki megi vera ástæða til að draga sönnunargildi slíkra erlendra gagna í efa. Þessi fyrirvari hefur ekki teljandi raunhæfa þýðingu, en er þó settur með það fyrir augum að hugsanlegt sé að gögn sem þessi verði fengin í öðrum ríkjum eftir reglum sem eru gerólikar þeim sem gilda hér á landi og það sem að baki þeim byggi yrði ekki metið nægilegt til að fá í hendur sambærilegt vottorð eða dómsúrlausn hér.
    Rétt er að taka sérstaklega fram að með fyrirmælum 6. gr. er ætlast til að neitað verði að taka við tilkynningu um andlát ef ekki er framvísað um leið einhverju af áðurtöldum gögnum, en slík neitun hefði þá í för með sér að ekki væri unnt að hefjast handa um skipti fyrr en bætt hefði verið úr. Þá má einnig vekja athygli á því að aðeins er ætlast til að sönnunargagni sé framvísað við sýslumann en ekki að hann taki almennt við eintaki af því til varðveislu, enda leiðir af reglum laga nr. 64/1962 að algengasta sönnunargagnið til þessara þarfa, dánarvottorð lækna, séu afhent presti og hann sendi það síðan Hagstofu Íslands til varðveislu.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. eru settar almennar reglur um þau atriði sem sýslumaður eða umboðsmaður hans verður að leita upplýsinga um þegar andlát er tilkynnt. Þessi atriði eru talin upp í fimm töluliðum 1. mgr. 7. gr. og eiga það almennt sammerkt að varða þýðingarmikil atriði í sambandi við þær aðgerðir sem að öðru jöfnu verða að eiga sér stað í framhaldinu. Ekki þykir ástæða til að gera hér grein fyrir einstökum atriðum í þessu sambandi þar sem ætla má að þessar reglur skýri sig sjálfar, en þó má taka fram að hér er ekki ætlast til að ítarlegar eða tæmandi upplýsingar séu gefnar um þessi atriði á þessu stigi, heldur aðeins nægilegar til að sýslumanni sé fært að sinna hlutverki sínu samkvæmt síðari ákvæðum frumvarpsins að þessari aðgerð lokinni. Gert er ráð fyrir að sýslumaður eða umboðsmaður hans færi þessar upplýsingar í svokallaða dánarskrá sem dómsmálaráðherra er ætlað að setja nánari reglum um skv. 2. mgr. 9. gr., en í þeim reglum mætti vænta að mælt yrði frekar fyrir um þessi atriði með það fyrir augum að samræmi verði um hverra upplýsinga verði krafist. Tekið skal fram að hér er gert ráð fyrir að fengnar séu mun meiri upplýsingar við tilkynningu andláts en nú tíðkast í framkvæmd, en þessi breyting er lögð til að danskri fyrirmynd í því skyni að tryggja markvissari meðferð í kjölfarið.
    Í 1. mgr. 7. gr. er ætlast til að þessar upplýsingar séu að meginreglu fengnar áður en tilkynnanda verður látið í té vottorð til að afhenda presti skv. 3. mgr. 5. gr., en sýslumanni eða umboðsmanni hans er þó heimilað í 4. mgr. 7. gr. að láta vottorðið af hendi og veita tilkynnandanum eða öðrum í hans stað skamman frest til að koma þessum upplýsingum á framfæri. Frestun sem þessi getur reynst nauðsynleg, t.d. af tilliti til aðstandenda þess látna eða vegna þess að tilkynnandi hafi ekki næga vitneskju um þessi atriði að svo stöddu, en henni ætti ekki að beita að nauðsynjalausu.
    Í 2. og 3. mgr. 7. gr. kemur fram að þeim sem tilkynnir andlát sé ekki aðeins skylt að segja deili á sjálfum sér og skýra í hverjum tengslum hann standi við þann látna, heldur einnig að veita þær upplýsingar skv. 1. mgr. sem sýslumaður eða umboðsmaður hans leitar eftir. Í ljósi reynslu í framkvæmd er ekki ástæða til að vænta annars en að upplýsingar sem þessar verði látnar greiðlega af hendi, en nefna má að neitun tilkynnanda um að veita upplýsingar hefði í för með sér að sýslumanni væri rétt að neita að láta af hendi vottorð um tilkynningu andláts og röng upplýsingagjöf í þessum efnum gæti varðað við ákvæði 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Í 5. mgr. 7. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður eða umboðsmaður hans veiti þeim sem tilkynnir andlát almennar upplýsingar um það sem gera þarf í kjölfar tilkynningar varðandi búskiptin. Þetta hefur að jafnaði verið gert í framkvæmd án beinnar lagaskyldu og hefur þótt gefa góða raun til að greiða fyrir um framhald mála.
    Í tengslum við ákvæði 7. gr. má að endingu benda á að ef fram kemur við tilkynningu andláts að dánarbúið eigi ekki eignir umfram kostnað af útför, þá er ráðgert að ljúka megi skiptum þegar í stað með einfaldri yfirlýsingu tilkynnandans um þetta, en að þessu er vikið nánar í athugasemdum við 25. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Ákvæði 8. gr. taka til þeirra aðstæðna að umboðsmaður sýslumanns hafi tekið við andlátstilkynningu eða annar sýslumaður en sá sem skiptin eiga undir skv. 3. gr., en þegar þannig stendur á er ætlast til að tilkynningin sé sem fyrst send þeim sýslumanni sem málefnið á undir. Þessi regla er lögð til í þeim tilgangi að stuðla að því að málefni dánarbúsins komist sem fyrst í hendur þess sem þau koma til með að eiga undir, en þeir sem hefðu tekið við tilkynningu í hans stað, hvort sem væri umboðsmaður eða annar sýslumaður, hefðu ekki vald til að fást á neinn hátt við málefni búsins eða veita erfingjum eða öðrum heimildir til ráðstafana.
    Þegar rætt er í 8. gr. um sendingu andlátstilkynningar er nánar tiltekið átt við að senda eigi upplýsingar skv. 7. gr. sem hlutaðeigandi hefur tekið við, en vænta má að þær yrðu almennt færðar á þar til gerð eyðublöð eða með sambærilegum hætti og hefðu að geyma undirritun tilkynnanda og þess sem tók við tilkynningu. Ef gögn hafa verið afhent við tilkynningu andláts, t.d. erfðaskrá þess látna, yrðu þau einnig framsend, enda ekki ætlast til að slík gögn verði varðveitt annars staðar en hjá þeim sýslumanni sem skiptin eiga undir.

Um 9. gr.


    Í 1.–3. mgr. 9. gr. er að finna fyrirmæli um sérstaka dánarskrá sem er ætlast til að haldið verði við hvert sýslumannsembætti og geymi upplýsingar um hvert dánarbú sem komi til kasta hlutaðeigandi embættis og um gerðabækur sem sýslumönnum er ætlað að nota þar sem þess gerist þörf við einstök verk eftir frumvarpinu. Skrár á borð við umrædda dánarskrá hafa verið færðar um árabil við embætti skiptaráðenda og hafa reyndar borið þetta heiti þótt það hafi ekki verið boðið í lögum. Koma þar fram ýmsar upplýsingar um þann látna, eignastöðu hans og nánustu aðstandendur, auk upplýsinga um heimildir sem eru veittar til ráðstafana á hagsmunum dánarbúsins og hver málalok verða. Í 2. mgr. 9. gr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um efni og færslu þessara skráa. Ekki er ástæða til að vænta að stórfelldar breytingar verði í þessum efnum frá því sem hefur tíðkast, en gera má ráð fyrir að allar upplýsingar, sem er ætlast til að verði fengnar við tilkynningu andláts skv. 7. gr., verði færðar í dánarskrá.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir verulegri notkun þeirra gerðabóka sýslumanna sem fjallað er um í 2. og 3. mgr. 9. gr., en almennt er tekið fram í einstökum ákvæðum þegar ætlast er til notkunar þeirra. Sem dæmi af þessu má benda á að færa ætti í gerðabók skipun sérstakra lögráðamanna og málsvara, sbr. 2. mgr. 14. gr., hverjar eignir dánarbús sýslumaður taki í vörslur sínar, sbr. 3. mgr. 16. gr., og ýmis atriði varðandi skrásetningu og mat á eignum dánarbúa, sbr. 18., 19. og 22. gr.
    Í 3. mgr. 9. gr. kemur fram að ekki megi veita öðrum en þeim sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta upplýsingar úr dánarskrá eða gerðabók sýslumanns. Almennt væri ekki um það að ræða að aðrir en erfingjar og eftir atvikum lánardrottnar þess látna gætu átt slíkra hagsmuna að gæta, en þetta yrði að meta hverju sinni eftir sömu viðhorfum og gilda almennt við skýringu svipaðra ákvæða í réttarfarslögum. Þessi fyrirmæli frumvarpsins undirstrika að gengið er út frá að upplýsingar um þessi efni standi ekki almenningi til boða.
    Í 4. mgr. 9. gr. eru reglur varðandi hæfi sýslumanns til að gegna störfum við meðferð dánarbús hverju sinni. Kemur þar fram að sýslumaður megi ekki leysa þessi störf af hendi ef hann hefur sjálfur hagsmuna að gæta af skiptunum af öðrum sökum en vegna rækslu embættis síns. Samkvæmt þessu yrði sýslumaður talinn vanhæfur ef hann væri sjálfur erfingi eða ætti skuldakröfu á hendur dánarbúinu, en hins vegar ekki vegna þess eins að hann annist til dæmis innheimtu skattkröfu á hendur því sem honum er falið vegna embættis síns. Þá er mælt svo fyrir í 4. mgr. 9. gr. að sýslumaður teljist vanhæfur ef hann er svo skyldur eða mægður erfingja eða einhverjum öðrum sem hefur verulega hagsmuni af skiptunum að hann væri vanhæfur til að vera dómari í einkamáli sem sá ætti aðild að, en mörk skyldleika eða mægða í þessum efnum færu samkvæmt þessu eftir 36. gr. laga nr. 85/1936. Í þessu sambandi er vert að benda á að ekki er út af fyrir sig nóg að skyldmenni sýslumanns kunni að hafa einhverja hagsmuni af málefnum dánarbúsins, t.d. að sá eigi lága peningakröfu á hendur búinu, heldur verða hagsmunirnir að vera verulegir eins segir í ákvæðinu, en mörkin í þessum efnum hljóta eftir eðli máls að verða háð mati hverju sinni. Ef sýslumaður væri í aðstöðu sem leiddi til vanhæfis eftir þessum reglum er ekki þar með sagt að hann geti ekkert aðhafst í tengslum við málefni dánarbúsins því að tekið er fram í 4. mgr. 9. gr. að hann víki fyrst eftir að andlát hefur verið tilkynnt og getur hann þannig annast þau verk sem snúa að viðtöku tilkynningarinnar og einnig kemur hér fram að hann geti tekið við yfirlýsingu um eignaleysi dánarbúsins og lokið þannig skiptum eftir 25. gr. frumvarpsins þrátt fyrir þessar aðstæður. Að öðru leyti yrði sýslumaður hins vegar að víkja sæti með tilkynningu til dómsmálaráðherra sem er ætlast til að eigi sér stað án tafar eftir tilkynningu andláts, en ráðherra yrði þá að skipa annan mann sem fullnægði skilyrðum til að gegna embætti sýslumanns til að annast þau viðfangsefni sem varða dánarbúið.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um aðgerðir sýslumanns ef upplýsingagjöf við tilkynningu andláts skv. 7. gr. hefur verið áfátt. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ónógar upplýsingar hafi komið fram í byrjun, t.d. að andlátið hafi verið tilkynnt af manni sem hefur ekki haft næga vitneskju um málefni þess látna og ekki hefur tekist þegar í kjölfarið að fá nánari upplýsingar eða jafnvel að andlátið hafi ekki verið tilkynnt og sýslumanni hafi borist upplýsingar um það með öðrum hætti, svo sem með gögnum úr þjóðskrá. Reglum 10. gr. er ætlað að stuðla að því að hafist verði handa um upplýsingaleit innan skamms tíma eftir andlátið, þannig að sýslumaður geti eftir atvikum beint því til erfingja að taka ákvörðun um aðgerðir og eins til að hann verði fær um að krefjast opinberra skipta skv. 37. gr. frumvarpsins ef þess þarf með.
    Í 1. mgr. 10. gr. er kveðið á um að þessi upplýsingaleit skuli eiga sér stað ekki síðar en mánuði eftir tilkynningu andláts, en þessi mánaðarfrestur gæti eftir atvikum byrjað að líða þegar vitneskja berst sýslumanni um andlát sem hefur ekki verið tilkynnt eftir almennum reglum. Í sambandi við 1. mgr. 10. gr. verður að hafa í huga að í sumum tilvikum verður ekki beðið með aðgerðir í þann mánuð sem hér um ræðir, t.d. ef þegar hefur komið fram við tilkynningu andláts að ekki sé vitað um neinn erfingja eftir þann látna, og eins getur verið örðugleikum háð að afla vitneskju þótt liðinn sé mánuður frá andlátstilkynningu, t.d. vegna þess að ekki náist til erfingja sem er þó vitað að eru fyrir hendi. Má því segja að hér sé um leiðbeiningarreglu að ræða sem verður ekki ætlast til að geti átt við í öllum tilvikum þótt vitanlega sé gengið út frá að henni verði fylgt í öllum meginatriðum.
    Í 2. og 3. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um það á hverjum skylda hvíli til að veita sýslumanni upplýsingar um málefni þess látna og hvernig verði gengið eftir upplýsingunum. Í 2. mgr. er fyrst og fremst gert ráð fyrir að þessi skylda hvíli á þeim sem tilkynnti andlátið. Sama skylda hvílir þó á öðrum þeim sem sýslumaður telur eftir fyrirliggjandi upplýsingum að geti veitt frekari vitneskju um atriði sem talin eru í 1. mgr. 7. gr., en þar gæti til dæmis verið um að ræða mann sem var nákomnari þeim látna en tilkynnandinn eða sem hafði með höndum fjárhald fyrir þann látna. Gert er ráð fyrir að sýslumaður kveðji slíka menn á sinn fund í þessu skyni, en vert er að benda á að í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um heimild hans til að fela umboðsmanni sínum eða öðrum sýslumanni að gera þetta sem til dæmis gæti átt við ef hlutaðeigandi er búsettur fjarri starfsstöð sýslumanns.
    Í 3. mgr. 10. gr. kemur fram að opinberum stofnunum, stjórnvöldum og sýslunarmönnum sé skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst og enn fremur viðskiptabönkum, sparisjóðum og þeim sem hafa staðið í slíkum viðskiptatengslum eða sambærilegu sambandi við þann látna að þeir verði taldir geta veitt vitneskju um eignir dánarbúsins eða skuldir. Þessi fyrirmæli eru í reynd sett hér til áréttingar því að hafa ber í huga að eftir 2. gr. frumvarpsins tekur dánarbúið við fjárhagslegum réttindum og skyldum þess látna og er sýslumaður í reynd að leita upplýsinga í þágu dánarbúsins um réttindi þess sjálfs og skyldur. Opinberum stofnunum og þeim öðrum, sem hér um ræðir, væri því hvort eð er án þessarar reglu skylt að veita sýslumanni þessar upplýsingar með sama hætti og þeim hefði borið að veita þeim látna þær ef hann væri enn meðal lifenda. Eftir orðalagi 3. mgr. 10. gr. getur þessi upplýsingaskylda hvílt á ýmsum. Meðal opinberra stofnana gætu til dæmis verið skattyfirvöld sem væri þá skylt að láta af hendi skattframtöl þess látna eftir kröfu sýslumanns. Meðal sýslunarmanna gætu til dæmis verið lögmaður eða löggiltur endurskoðandi sem hefur starfað fyrir þann látna. Meðal þeirra sem hafa staðið í viðskiptatengslum eða sambærilegu sambandi við þann látna og gætu veitt upplýsingar um eignir eða skuldir dánarbúsins væru til dæmis verðbréfasjóðir, vátryggingafélög eða fyrirtæki sem sá látni hefur átt föst viðskipti við. Í 3. mgr. 10. gr. er ekki ráðgert að sýslumaður kveðji þá sem þar eru taldir á sinn fund, gagnstætt því sem um ræðir í 2. mgr. ákvæðisins, heldur yrði upplýsinga af þessum toga almennt leitað bréflega líkt og nú er gert í framkvæmd.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. 11. gr. kemur fram meginregla sem var gerð að umtalsefni hér áður í almennum athugasemdum við frumvarpið, en í henni felst að sýslumaður hafi formlega með höndum forræði á öllum hagsmunum dánarbúsins frá því það verður til við andlátið og þar til eitthvað af eftirtöldu ber að höndum:
     1.      að skiptum þess ljúki vegna eignaleysis skv. 25. eða 26. gr. frumvarpsins,
     2.      að forræði á hagsmunum búsins flytjist í hendur maka þess látna með því að sýslumaður veiti honum leyfi til að setjast í óskipt bú, sbr. 27. gr. frumvarpsins og ákvæði II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962,
     3.      að forræði á hagsmunum búsins flytjist í hendur erfingja þess látna í sameiningu með því að þeim sé veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúinu, sbr. 31. gr. og 3. þátt frumvarpsins,
     4.      að forræði á hagsmunum búsins flytjist í hendur skiptastjóra með því að úrskurður héraðsdómara hafi gengið um að búið sé tekið til opinberra skipta.
    Forræði sýslumanns á hagsmunum dánarbús stendur þannig yfir á því millibilsástandi sem hefst við andlát og líður undir lok þegar beinar aðgerðir við skiptin byrja eða þeim er lokið fyrir sýslumanni. Þetta svonefnda millibilsástand getur staðið um mislangan tíma, allt frá fáeinum dögum, ef skiptum er lokið við tilkynningu andláts með yfirlýsingu um eignaleysi dánarbús, upp í nokkra mánuði, t.d. ef dráttur verður á að erfingjar sæki um leyfi til einkaskipta.
    Eins og fram kom í almennum athugasemdum hér á undan er það forræði á hagsmunum dánarbúa, sem sýslumönnum er ætlað að hafa með höndum, það sama og skiptaráðendur hafa farið með eftir lögum nr. 3/1878. Hér áður hefur verið tekið svo til orða að þetta forræði sé formlegs eðlis, en með því er átt við að sýslumaður yrði einn bær á þessu tímabili um að ráðstafa málefnum dánarbús svo að gilt sé. Þetta hefur í för með sér að maka þess látna, aðra erfingja eða utanaðkomandi menn brestur með öllu heimild til ráðstafa hagsmunum dánarbúsins eða svara fyrir skyldur þess svo að bindandi verði. Sýslumanni er á hinn bóginn ekki ætlað að gera neinar teljandi ráðstafanir á því tímabili sem hann fer með þetta forræði á málefnum dánarbúsins, heldur er almennt ætlast til að hlutirnir haldist í óbreyttu horfi þar til aðrir taka við forræðinu af sýslumanni. Þó má benda á að í 2. mgr. 11. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður geti ráðstafað eða heimilað aðstandendum þess látna að ráðstafa fjármunum eða eignum dánarbúsins til að greiða kostnað af útför og þar er einnig gert ráð fyrir að sýslumaður kunni að þurfa að gera aðrar ráðstafanir til að varna tjóni, en þar gæti fyrst og fremst verið um að ræða aðgerðir til að tryggja varðveislu eigna eftir ákvæðum 16. gr. frumvarpsins eins og sérstaklega er vísað til í 2. mgr. 11. gr. Aðstaðan í þessum efnum er í alla staði sambærileg þeirri sem nú tíðkast í framkvæmd á grundvelli reglna laga nr. 3/1878, en þess má geta að almennt eru einu aðgerðinar, sem fara fram á þessu tímabili, fólgnar í ráðstöfun peningaeignar þess látna til að kosta útför hans.
    Að því leyti sem nauðsynlegt gæti verið að grípa til ráðstafana skv. 2. mgr. 11. gr. leiðir af orðalagi 1. mgr. ákvæðisins að valdið til þess sé í höndum þess sýslumanns sem skiptin eiga undir, sbr. 3. gr. Eins og minnst var á í athugasemdum við 8. gr. væri því hvorki umboðsmaður sýslumanns né annar sýslumaður, sem tekur við andlátstilkynningu, bær um að gera slíkar ráðstafanir eða heimila þær, nema þá eftir atvikum að fengnum sérstökum fyrirmælum þess sem skiptin eiga undir. Að því leyti sem ráðstafanir sem þessar ættu sér stað er ætlast til þess í 3. mgr. 11. gr. að sýslumaður láti þeirra getið í dánarskrá eða gerðabók, en um notkun gerðabókar í þessu skyni má vísa til þess sem áður kom fram við umfjöllun um 9. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Á því tímabili, sem sýslumaður fer með forræði á málefnum dánarbús, fer ekki hjá því að hann þurfi að meira eða minna leyti að eiga í samskiptum við erfingja um þau ef kunnugt er um þá á annað borð. Í 12. gr. eru lagðar til reglur um það hvernig ætlast verði til að þeir sem leiti til sýslumanns í þessum efnum sýni fram á að þeir séu erfingjar eða verði taldir bærir um að koma fram fyrir hönd erfingja.
    Í fyrri málsgrein 12. gr. kemur fram að sýslumaður eigi almennt að fyrra bragði að treysta réttmæti frásagnar þess sem gefur sig fram við hann og segist vera í þeim skyldleikatengslum við þann látna sem leiði til lögerfðaréttar. Þetta ákvæði frumvarpsins er sama efnis og regla í 2. málsl. 70. gr. laga nr. 3/1878. Almennt er því ekki ætlast til að sýslumaður krefjist sönnunargagna í þessum efnum, en þó gæti komið til þess, líkt og eftir núgildandi lögum, að krefjast yrði slíkra gagna ef frásögn um lögerfðatengsl yrði dregin í efa af öðrum lögerfingjum eða sýslumanni þætti sérstakt tilefni til að tortryggja hana eins og tekið er fram í 1. mgr. 12. gr. Undir þessum kringumstæðum er hins vegar ekki ráðgert að stórfelld sönnunarfærsla eigi sér stað fyrir sýslumanni því að ef ekki yrði ráðið fram úr aðstöðu sem þessari með skjótum og óyggjandi hætti bæri sýslumanni að krefjast opinberra skipta skv. 3. tölul. 37. gr. frumvarpsins. Gagnstæð regla er hins vegar lögð til í 1. mgr. 12. gr. varðandi þá sem styðja erfðaréttindi sín við erfðaskrá þess látna sem er ætlað að framvísa eintaki af henni til sönnunar, en þessari reglu hefur verið fylgt til þessa í framkvæmd eftir eðli máls þótt ekki sé mælt fyrir urn hana í lögum nr. 3/1878.
    Í 2. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um að ef maður gefur sig fram við sýslumann og kveðst hafa umboð frá erfingja til að koma fram fyrir hans hönd, þá verði umboðsmaðurinn að sýna fram á heimild sína með skriflegri og vottfestri yfirlýsingu erfingjans. Þetta táknar með öðrum orðum að frásögn um umboð, sem ekki er studd við slíkt skjal, yrði virt að vettugi og það án tillits til þess hver ætti hlut að máli, hvort sem það væri nákominn aðstandandi erfingjans eða til dæmis lögmaður sem gæti borið við stöðuumboði eftir 1. mgr. 4. gr. laga nr. 61/1942 ef hann kæmi fram með sambærilegum hætti fyrir dómi. Þessari reglu hefur verið fylgt í framkvæmd án þess að mælt sé fyrir um hana í lögum, en hún byggist á því að við skipti dánarbúa getur reynt á hvort erfingjar fáist til að gefa ýmsar yfirlýsingar sem geta reynst afdrifaríkar fyrir hagsmuni þeirra, t.d. yfirlýsingar um að þeir taki að sér ábyrgð á skuldbindingum dánarbús, og væri varhugavert að láta öðrum eftir að gefa slíkar yfirlýsingar fyrir hönd erfingja nema tryggt sé að heimild standi til þeirra. Um umfang skriflegs umboðs frá erfingja kemur á hinn bóginn fram í niðurlagi 2. mgr. 12. gr. að ef slíku umboði er framvísað þá skuli líta svo á að umboðsmaðurinn hafi heimild til sérhverra aðgerða í þágu umbjóðanda síns ef engra takmarkana er getið í umboðsskjalinu. Hafi erfingi þannig gert skriflega og vottfesta yfirlýsingu eftir fyrri málslið 2. mgr. 12. gr. sem segði það eitt að hann veitti tilteknum manni umboð til að koma fram fyrir sína hönd við skipti á tilteknu dánarbúi, þá teldist umboðið fela í sér að umboðsmaðurinn gæti lýst yfir að erfinginn tæki að sér ábyrgð á skuldum búsins eða þess vegna að erfinginn afsalaði sér rétti til arfs. Sú tilhögun, sem hér um ræðir, er lögð til í ljósi þess að það yrði verulegum örðugleikum háð að tíunda hverju sinni í umboðsskjali öll þau hugsanlegu atriði sem væri ætlast til að umboðsmaður ráði til lykta og miklum mun einfaldara að tiltaka þar sérstaklega til hverra atriða umboðið næði ekki.

Um 13. gr.


    Í 13.–15. gr. frumvarpsins koma fram reglur um skipun sérstakra lögráðamanna eða málsvara fyrir erfingja sem geta ekki gætt hagsmuna sinna sjálfir eða gefa sig ekki fram til þess og um þær ráðstafanir sem slíkir menn geta gert í þágu erfingja. Eins og minnst var á hér áður í almennum athugasemdum fela þessi ákvæði í sér ýmsar tillögur um breytingar frá núgildandi reglum. Einna þyngst vegur í þeim efnum að hér er gert ráð fyrir að sýslumaður skipi almennt sérstakan lögráðamann eða málsvara áður en aðgerðir hefjast við skipti dánarbús, þannig að lögráðamaðurinn eða málsvarinn verði fær um að standa að öllum slíkum aðgerðum frá öndverðu með sömu áhrifum og ef erfinginn stæði að þeim sjálfur, en eftir reglum laga nr. 3/1878 getur skipun sem þessi ekki átt sér stað nema dánarbú sé til opinberra skipta sem leiðir í reynd ekki til annars en óþarfa þyngsla og fyrirhafnar. Þá er einnig um það að ræða að ákvæði 13.–15. gr. gera ráð fyrir skipunum sem þessum í tilvikum sem ekki hefur verið bein heimild fyrir til þessa og svigrúm sérstakra lögráðamanna og málsvara yrði mun meira til einstakra aðgerða.
    Í 13. gr. koma fram reglur um það hvenær heimilt sé að skipa erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara. Í fyrsta lagi kemur fram í 1. mgr. ákvæðisins að sýslumaður skipi ófjárráða eða ósjálfráða erfingja sérstakan lögráðamann ef reglulegur lögráðamaður hans hefur sjálfur hagsmuna að gæta af skiptum dánarbúsins. Hér er því gengið út frá þeirri meginreglu sem hefur verið fylgt í framkvæmd til þessa þótt ef til vill mætti leggja annan skilning í orð 14. gr. laga nr. 3/1878 að reglulegur lögráðamaður ófjárráða eða ósjálfráða erfingja komi fram af hálfu hans við búskipti nema því aðeins að hann sé vanhæfur til að gegna því verki vegna sinna eigin hagsmuna. Í framkvæmd hefur einna helst reynt á skipun sérstakra lögráðamanna í þeim tilvikum þar sem maki og ófjárráða börn þess látna hafa skipt dánarbúi, makinn hefur verið reglulegur lögráðamaður barnanna og verið vanhæfur til að koma fram fyrir þeirra hönd við skiptin þar sem hann er sjálfur, eins og börnin, erfingi eftir þann látna.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um sérstaka heimild í 2. mgr. 13. gr. til að skipa fjárráða erfingja málsvara til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin ef hann telst ófær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur af heilsufarsástæðum. Sambærilega heimild er ekki að finna í núgildandi lögum, en áþekk leið hefur þó verið farin að einhverju marki í framkvæmd með lögjöfnun frá 14. gr. laga nr. 3/1878 sem umdeilanlegt má vera hvort fái staðist. Heimild 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er einkum ætluð fyrir þau tilvik þar sem til dæmis aldraður erfingi á í hlut sem óvíst er hvort beri nægilegt skynbragð á gerðir sínar eða fjárráða og sjálfráða erfingi er þroskaheftur. Ef heimild sem þessi væri ekki fyrir hendi væri óhjákvæmilegt að svipta hlutaðeiganda lögræði til þess að hægt væri að skipa honum lögráðamann til að koma fram fyrir hans hönd við búskipti. Slík aðgerð er að vonum oft særandi fyrir nánustu aðstandendur og hún er jafnframt viðurhlutamikil vegna þess eins að hlutaðeiganda tæmist arfur sem er jafnvel óverulegur. Hér skal þó vakin athygli á því að í niðurlagi 2. mgr. 13. gr. kemur fram að skipun málsvara við þessar aðstæður geti því aðeins átt sér stað að hún komi að haldi til að fyrirbyggja að svipta verði erfingjann fjárræði. Með þessu er haft í huga að málsvarinn hefur aðeins heimild til að gæta hagsmuna erfingjans meðan búskiptin sem slík standa yfir, en að þeim loknum væri erfinginn sjálfur einn bær um að ráðstafa þeim fjármunum sem hann fékk að arfi. Oftar en ekki mætti koma málum svo fyrir að hlutaðeigandi erfingi fengi slíkar eignir í sinn hlut við skiptin að ekki reyndi á meðferð þeirra eða ráðstöfun eftir þann tíma, t.d, með því að hann fengi peninga í sinn hlut sem yrðu lagðir á bundinn bankareikning. Í öðrum tilvikum gæti hins vegar farið svo að erfinginn yrði eigandi að eign sem þyrfti að sýsla með á einhvern hátt, t.d. atvinnurekstur þess látna, fasteign sem er leigð út o.s.frv. Ef þannig færi yrði óhjákvæmilegt að svipta erfingjann lögræði til þess að einhver yrði fær um að gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir hans hönd sem lögráðamaður eftir lok skipta, en við þær aðstæður væri í alla staði eðlilegra að lögræðissvipting ætti sér strax stað við skiptin og lögráðamaður kæmi þá fram fyrir erfingjann við þau. Er þannig ætlast til þess í 2. mgr. 13. gr. að sýslumaður meti þegar í upphafi hvort skipun málsvara eftir ákvæðinu muni fela í sér nægilega lausn á þörfum erfingjans og að sú skipun eigi sér þá aðeins stað ef svo verður talið þótt hugsanlega mætti grípa til hennar meðan á aðgerðum stæði til að svipta erfingjann lögræði.
    Í 3. mgr. 13. gr. er loks að finna heimild til að skipa málsvara fyrir erfingja sem vitað er hver sé en ekki er vitað hvar verði náð til og erfinginn gefur sig hvorki fram til að gæta hagsmuna sinna sjálfur né tilnefnir umboðsmann til þess. Sams konar heimild er nú í 14. gr. laga nr. 3/1878 en hefur lítið verið beitt í framkvæmd. Hún kemur eingöngu til álita í tilvikum þar sem upplýsingar liggja fyrir um að tiltekinn maður eigi rétt til arfs, en ekki reynist unnt að finna hann með neinum almennum úrræðum, t.d. með upplýsingaöflun úr þjóðskrá hér á landi eða erlendis, fyrirspurnum til þeirra sem kunna að þekkja til erfingjans o.s.frv. Getur aðallega reynt á þessa heimild ef erfingi hefur til dæmis horfið án þess þó að dómsúrlausn hafi gengið um lát hans eða erfingi hefur flust úr landi og engin vitneskja fæst um hvar hann hefst við.
    Í 4. mgr. 13. gr. kemur fram að reglur lögræðislaga eigi að gilda um hæfi og heimildir málsvara eftir 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Reglur um hæfi lögráðamanna koma fram í 29. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984, en reglur um heimildir þeirra, eða með öðrum orðum þær ráðstafanir sem þeir eru bærir um að gera í þágu skjólstæðinga sinna, eru í öðrum ákvæðum V. kafla sömu laga. Með þessum hætti er lagt til að málum verði skipað þannig að málsvarar verði í sömu aðstöðu til að gera ráðstafanir við skiptin og ef þeir væru lögráðamenn fyrir hlutaðeigandi erfingja sem væru þá ófjárráða.

Um 14. gr.


    Í 14. gr. frumvarpsins koma einkum fram reglur um hvernig staðið verði að vali sérstaks lögráðamanns eða málsvara og þeirri aðgerð að skipa hann til starfans. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að farið verði að með líkum hætti og nú er gert í framkvæmd, m. a. með því að sýslumaður leiti að öðru jöfnu tillagna aðstandenda erfingjans áður en hann tekur ákvörðun um skipunina. Hefur þetta verið gert til að reyna að haga málum þannig að maður veljist til verksins sem nánustu aðstandendur erfingjans geta fellt sig við og eftir atvikum til að maður fáist til að gegna þessu starfi sem mun ekki áskilja sér þóknun fyrir rækslu þess. Sýslumaður yrði þó ekki fremur en nú gildir bundinn af ábendingum sem þessum. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um að skipunin sem slík eigi sér stað með bókun um hana í gerðabók sýslumanns, en áður yrði búið að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi gefi kost á sér til verksins og geri sér ljóst hvað felist í því.
    Í ákvæðum 1. mgr. 14. gr. kemur fram að sýslumaður eigi að skipa erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara svo fljótt sem verða má, en ætla verður að upplýsingar komi að öðru jöfnu fram við tilkynningu andláts eða fljótlega í kjölfarið um þá aðstöðu sem geri skipunina nauðsynlega og ætti hún þá að eiga sér stað svo fljótt sem verða mætti eftir það. Í 1. mgr. 14. gr. er þó gert ráð fyrir að sýslumaður geti látið ógert að skipa erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara ef hann telur að hægt verði að ljúka skiptunum án þess að atbeina erfingjans verði þörf. Þannig mætti komast hjá slíkri skipun ef ljúka mætti skiptum þegar í stað eftir 25. gr. frumvarpsins vegna eignaleysis dánarbúsins. Það sama ætti við ef aðstæður 13. gr. frumvarpsins ættu við um niðja þess látna en skilyrðum 7. gr. eða 3. mgr. 8. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, væri fullnægt til að veita leyfi til setu í óskiptu búi án þess að leita afstöðu niðjans til umsóknar maka þess látna um slíkt leyfi.
    Í 3. mgr. 14. gr. er mælt fyrir um rétt sérstaks lögráðamanns eða málsvara til þóknunar, en eins og nú er gengið út frá í framkvæmd yrði hún greidd af arfi þess sem hlutaðeigandi er skipaður til að gæta hagsmuna fyrir ef hún yrði áskilin á annað borð. Rétt er að taka fram að fremur heyrir til undantekninga í framkvæmd að ætlast sé til endurgjalds fyrir þessi störf því að oftast eru skyldmenni erfingja fengin til þeirra eða aðrir nákomnir þeim.

Um 15. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er mælt fyrir um eftirlit sýslumanns með störfum sérstakra lögráðamanna og málsvara sem hann skipar eftir fyrrnefndum heimildum. Í 1. mgr. 15. gr. er þannig í fyrsta lagi kveðið á um að sýslumaður geti áminnt og eftir atvikum vikið sérstökum lögráðamanni frá eða málsvara ef hann telur ráðstafanir hlutaðeiganda varhugaverðar fyrir hagsmuni erfingjans. Hér er ekki gert ráð fyrir að sýslumaður fylgist að fyrra bragði með öllum athöfnum sérstaks lögráðamanns eða málsvara, en hins vegar fengi sýslumaður vitneskju um ýmsar aðgerðir við störf sín samkvæmt frumvarpinu, t.d. ef hann fengi í hendur einkaskiptagerð þar sem fram kæmi að hlutaðeigandi hafi fallið frá einhverjum réttindum í nafni skjólstæðings síns eða samþykkt að taka við eign að arfi sem hefði umdeildanlegt verðgildi. Eins gæti hugsast að sýslumanni bærist ábending frá aðstandanda erfingjans eða skiptastjóra við opinber skipti um óheimila háttsemi sérstaks lögráðamanns eða málsvara sem gæfi þá tilefni til aðgerða af hendi sýslumanns.
    Í 2. og 3. mgr. 15. gr. er mælt fyrir um nauðsyn þess að sérstakur lögráðamaður eða málsvari leiti eftir samþykki sýslumanns til tiltekinna ráðstafana við búskiptin, en þar er um að ræða sambærilegar reglur við þær sem gilda almennt um störf reglulegra lögráðamanna eftir V. kafla lögræðislaga, nr. 68/1984. Er því ekki ástæða til geta einstakra atriða þessara reglna.
    Í 4. mgr. 15. gr. er loks mælt fyrir um að við framkvæmd opinberra skipta eigi skiptastjóri að hafa með höndum það eftirlit með störfum sérstakra lögráðamanna og málsvara sem sýslumaður hefði annars haft skv. 2. og 3. mgr. Tillaga er hér gerð um þessa reglu til hagræðis við framkvæmd opinberra skipta því að það gæti leitt til verulegra þyngsla ef gera yrði hlé á aðgerðum hverju sinni til að bera einstakar yfirlýsingar sérstakra lögráðamanna eða málsvara undir sýslumann til samþykkis eða synjunar. Hér má hafa í huga að sérstakar hæfiskröfur eru gerðar til skiptastjóra í 46. gr. frumvarpsins og þeir bera jafnframt skyldur sem opinberir sýslunarmenn í störfum sínum, sbr. 3. mgr. 48. gr., þannig að ætla má að hagsmunum erfingja sé engan veginn teflt í hættu með reglu sem þessari.

Um 16. gr.


    Í 16. gr. er að finna reglur um hvernig fari um vörslur á eignum dánarbús eða umsjón með þeim á því tímabili sem sýslumaður fer með forræði á málefnum þess, sbr. 1. mgr. 11. gr. Í 1. mgr. 16. gr. kemur fram sú meginregla að vörslur eða umsjón skuli almennt haldast í óbreyttu horfi frá því sem var í kjölfar andlátsins fram til þess tíma að lögmæt ákvörðun sé tekin um breytingar í þessum efnum, en þessi regla er sama efnis og ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/1878. Sá sem hefði vörslur eignar dánarbúsins eða umsjón með henni við andlátið ætti þannig að öðru jöfnu að gegna því verki áfram þar til eitthvað af eftirfarandi ætti sér stað:
     1.      Að sýslumaður neyti heimildar 2. mgr. 11. gr. til að ráðstafa eigninni eða leyfa ráðstöfun hennar til að kosta útför eða varna tjóni.
     2.      Að sýslumaður framselji eignina til þess sem kostar útför ef skiptum er lokið samkvæmt 25. eða 26. gr.
     3.      Að sýslumaður veiti maka þess látna leyfi til setu í óskiptu búi, en upp frá því hefði maki vald til ákvörðunartöku um afdrif eigna, sbr. 12. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.
     4.      Að sýslumaður veiti erfingjum leyfi til einkaskipta, en þannig hefðu þeir vald til að ákveða hvað verði gert við eignir, sbr. 1. mgr. 85. gr. frumvarpsins.
     5.      Að úrskurður hafi gengið um opinber skipti, en þá ætti ákvörðun um þessi efni undir skiptastjóra, sbr. 1. mgr. 54. gr. frumvarpsins.
    Í framkvæmd hefur það almennt verið svo að nákomnir ættingjar þess látna, sem eru jafnframt lögerfingjar hans, hafi með höndum gæslu með eignum dánarbúsins í kjölfar andlátsins og taki að sér að gegna því verki áfram. Sú aðstaða getur þó komið upp að manni, sem hefur vörslur eignar dánarbús eða umsjón með henni, verði ekki treyst til þess eða að hann færist undan því vegna fyrirhafnar, kostnaðar eða áhættu sem þessu tengist. Þótt lítið reyni á þá aðstöðu í framkvæmd er ófært að skylda mann gegn vilja sínum til að gegna verki sem þessu eða láta eignir í hendur manns sem verður ekki treyst fyrir henni. Af þeirri ástæðu er kveðið sérstaklega á um það í 1. mgr. 16. gr. að sýslumaður verði að bregðast við slíkri aðstöðu með því að taka sjálfur við eigninni, en þá verði dánarbúið eftir atvikum að bera kostnað af geymslu hennar eða af eftirliti með henni. Sambærilegri reglu hefur verið fylgt í framkvæmd á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ef eignir dánarbús eru ekki undir eftirliti neins, þá verði sýslumaður að bregðast þannig við að taka þær í sína umsjón. Upplýsingar um þessa aðstöðu ættu almennt að koma fram við tilkynningu andláts, en í ljósi reynslu í framkvæmd ætti sjaldan að reyna á þetta og þá tæpast nema sá látni láti ekki eftir sig nein nákomin skyldmenni.
    Ef sýslumaður tæki við umsjón eigna dánarbús er mælt svo fyrir í 3. mgr. 16. gr. að þess skuli getið í gerðabók hans. Sýslumaður yrði þá að gegna þessu hlutverki fram til þess tíma að öðrum væri heimilt að taka við því samkvæmt áðurgreindu.

Um 17. gr.


    Í 17.–23. gr. frumvarpsins er að finna reglur um hvernig staðið verði að formlegri skrásetningu á eignum og skuldbindingum dánarbúa ef slíkra aðgerða er þörf og eftir atvikum verðmat á þeim. Í 15. og 16. gr. laga nr. 3/1878 telst aðgerð sem þessi þáttur í opinberum skiptum og hefur hún almennt verið kölluð uppskriftargerð í framkvæmd. Eftir nefndum ákvæðum núgildandi laga er aðgerð sem þessi ekki nauðsynleg nema opinber skipti fari fram og er tiltölulega fátítt í framkvæmd að erfingjar leiti gagngert eftir að hún eigi sér stað. Í 17.–23. gr. frumvarpsins er hins vegar lögð til sú meginbreyting að skrásetning og mat á eignum og eftir atvikum skuldbindingum dánarbúa standi í engum tengslum við opinber skipti, heldur geti þetta átt sér stað óháð því hvernig staðið sé að skiptunum. Gert er ráð fyrir að sýslumaður annist þetta verk eða tilnefni einn mann eða fleiri til þess.
    Ýmis tilefni geta búið að baki því að leitað sé skrásetningar og mats á eignum og eftir atvikum skuldbindingum dánarbús. Erfingjar kunna að óska eftir að fá gerða skrá um eignirnar í heild sinni eða tiltekna muni til að ekki orki tvímælis hvað hafi verið fyrir hendi eða til að hafa aðgengileg gögn til að vinna eftir við einkaskipti, en til að fyrirbyggja misklíð getur verið heppilegt að leita til utanaðkomandi manna til að leysa þetta verk af hendi. Að sama skapi getur erfingjum þótt nauðsynlegt að fá vissar eignir metnar af óháðum manni til að þeir geti skipt þeim milli sín. Enn má vera að lögráðamaður eða umboðsmaður erfingja telji heppilegt að fá skrá um eignir og eftir atvikum verðmat á þeim til að hafa undir höndum ef brigður yrðu bornar síðar á starfshætti hans. Almennt má ætla að síður sé ástæða til að skrásetja skuldbindingar með hliðstæðum hætti, enda hefur slík aðgerð engan teljandi tilgang, en heimild til að æskja hennar er þó allt að einu ráðgerð í 1. mgr. 17. gr. Í reglum 17.–23. gr. er byggt á því að sá sem óskar eftir þessum aðgerðum láti uppi hve langt hann vilji láta ganga í framkvæmd þeirra. Þannig mætti láta við það sitja að óska aðeins eftir skrásetningu eigna en ekki eftir verðmati á þeim. Á sama hátt mætti biðja um að tilteknar eignir verði skrásettar og eftir atvikum metnar, t.d. innanstokksmunir, bókasafn o.s.frv., en aðrar eignir ekki. Með þessum hætti er gert ráð fyrir að hlutaðeigendur ráði því með öllu sjálfir hvert umfang verksins verði og að þarfir þeirra sjálfra ráði því, enda er gert ráð fyrir að kostnaður fylgi framkvæmd þess eins og eftir núgildandi reglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 1. mgr. 17. gr. kemur fram að erfingjar hafi heimild til að leita aðgerða sem þessara meðan skiptum hefur ekki verið lokið á dánarbúi og það hefur ekki verið tekið til opinberra skipta. Sú regla, að þetta þurfi að gerast áður en skiptum lýkur, er þó ekki án undantekninga því að eftir 4. mgr. 25. gr. getur erfingi krafist þessara aðgerða þótt skiptum hafi verið lokið á grundvelli yfirlýsingar um að eignir búsins nægi ekki nema til greiðslu útfararkostnaðar og skv. 2. mgr. 27. gr. getur erfingi krafist þessara aðgerða þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi ef hann verður talinn hafa hagsmuni af því til að staðreyna hvort makinn hafi rýrt eignir búsins með þeim hætti að það gefi tilefni til að krefjast skipta skv. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga, nr. 8/1962. Ef dánarbú væri til opinberra skipta er ekki gert ráð fyrir að erfingjar njóti heimildar til að krefjast þessara aðgerða, en þær gætu hins vegar átt sér stað að tilhlutan skiptastjóra, sbr. 54. gr. frumvarpsins.
    Heimild til að krefjast skrásetningar og mats á eignum og skuldum er, eins og fram kemur í 1. mgr. 17. gr., í höndum erfingja, en lögráðamaður erfingja, málsvari hans eða umboðsmaður væri að sjálfsögðu bær um að hafa uppi kröfu sem þessa í nafni hans. Þá er tekið fram í 3. mgr. ákvæðisins að sá sem var í óvígðri sambúð með þeim látna eigi sama rétt og erfingi í þessum efnum ef skilyrðum 100. gr. frumvarpsins um sambúðartíma eða önnur þargreind atvik er fullnægt. Rétturinn til æskja þessara aðgerða er í höndum hvers og eins sem hér um ræðir án tillits til afstöðu annarra erfingja. Þá er skiptastjóra við opinber skipti og rétt að æskja þessara aðgerða eins og áður var vakin athygli á. Sýslumanni er hins vegar ekki ætlað að hefjast handa um þessar aðgerðir ótilkvaddur, en hann gæti stuðlað með óbeinum hætti að því að þær ættu sér stað með því að neita að veita leyfi til einkaskipta fyrr en þetta yrði gert, sbr. 3. og 5. mgr. 30. gr., eða með því að gefa út einkaskiptaleyfi með skilyrði um framkvæmd þessara aðgerða, sbr. 2. mgr. 31. gr.
    Í 1. mgr. 17. gr. kemur fram að sá sem vill leita skrásetningar og eftir atvikum mats eigi að beina skriflegri kröfu um aðgerðina til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Eins og nánar er talið upp í ákvæðinu er ætlast til að krafan geymi upplýsingar um, hvert dánarbú sé að ræða og hver geri kröfuna, en einnig á að taka fram hverjir séu erfingjar að öðru leyti og hvar verði náð til þeirra sem er nauðsynlegt í ljósi þess að þá verður að boða þegar aðgerðin fer fram, sbr. 1. mgr. 29. gr. Þá kemur fram í 2. tölul. 1. mgr. 17. gr. að tiltaka verði í kröfunni hverjar þær eignir séu sem óskað er skrásetningar á og að hverju marki sé leitað eftir mati á þeim, en eftir atvikum ætti sama regla við ef hlutaðeigandi leitar eftir sérstakri skráningu á skuldbindingum búsins.
    Heimildin til að fá eignir skrásettar og eftir atvikum metnar tekur að sjálfsögðu aðeins til eigna sem telja má sýnt að fyrra bragði að tilheyri dánarbúinu. Frá þessu er þó vikið í 3. mgr. 17. gr. þar sem mælt er sérstaklega fyrir um heimild til að krefjast skrásetningar og mats á eignum maka eða sambýlismanns þess látna, en sú heimild er ráðgerð í ljósi þess að hér er um eignir að ræða sem má ætla að dánarbúið kunni að geta krafist hlutdeildar af. Að þessari undantekningu frátalinni yrði kröfu um skrásetningu og mat á eign þriðja manns vísað á bug sbr. 4. mgr. 19. gr.

Um 18. gr.


    Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um það hverjir annist skrásetningu og eftir atvikum mat á eignum, en sem fyrr segir verður kröfu um þær aðgerðir beint til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í 1. mgr. 18. gr. kemur fram að ef þær eignir, sem krafan lýtur að, eru utan umdæmis sýslumannsins sem skiptin eiga undir, geti hann beint erindinu til sýslumannsins í því umdæmi. Þetta ætti jafnt við hvort sem allar eignirnar væru utan umdæmisins eða aðeins hluti þeirra, en rétt er að benda sérstaklega á að hér er aðeins um heimild að ræða þannig að sýslumaðurinn, sem kröfunni er beint til, væri allt að einu bær um að hlutast til um þessar aðgerðir utan umdæmis síns. Ef hann kýs hins vegar að fela öðrum sýslumanni málefnið, er ætlast til að sá annist þau verk sem ákvæði 18. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. taka til og endursendi síðan gögn um það til frekari meðferðar.
    Í ákvæðum 18. gr. er gert ráð fyrir að mismunandi reglur gildi um hverjir annist umrædd verk eftir því hvort aðeins er krafist skrásetningar á eignum og eftir atvikum skuldbindingum eða einnig er krafist mats á þeim. Ef meta þarf eignir og eftir atvikum skuldbindingar til verðs er mælt fyrir um það í 2. og 3. mgr. 18. gr. að sýslumaður kveðji til mann til leysa verkið af hendi, en þeim sama yrði þá að öðru jöfnu falið að annast skrásetningu um leið, sbr. 4. mgr. 18. gr., enda væri þar í reynd um að ræða þátt í framkvæmd matsstarfa. Í 2. mgr. 18. gr. er gert ráð fyrir þeirri aðstöðu að krafist sé mats á eign sem sérþekkingu þarf til að verðleggja, en þegar þannig stæði á yrði sýslumaður að kveðja sérfróðan mann til verksins. Ef sérþekkingarinnar væri aðeins þörf varðandi eina af mörgum eignum gæti sýslumaður hvort heldur falið sama manni að meta þær allar eða tilnefnt fleiri en einn mann til verksins og skipt með þeim verkum, svo sem tekið er fram í ákvæðinu, en rétt er að benda sérstaklega á að hér er ætlast til að það verði aðeins einn matsmaður sem meti hverja eign fyrir sig. Sýslumanni er ætlað að tilnefna þannig einn eða fleiri matsmenn svo fljótt sem verða má eftir að krafa um mat er komin fram og geta tilnefninga til verksins í gerðabók þar sem matsmaður mundi eftir atvikum undirrita heit um rækslu starfans, sbr. niðurlag 2. mgr. 18. gr. Sérstakar hæfisreglur um matsmenn koma fram í 3. mgr. 18. gr., en þær eru hliðstæðar reglum laga nr. 85/1936 um dómkvadda matsmenn og þarfnast því ekki frekari skýringa hér.
    Ef hins vegar væri aðeins krafist skrásetningar á eignum og eftir atvikum skuldbindingum leiðir af fyrirmælum 4. mgr. 18. gr. að sýslumaður geti annast það verk sjálfur eða falið það starfsmanni sínum eða umboðsmanni. Undir þessum kringumstæðum er ekki gert ráð fyrir formlegri tilnefningu til að annast verkið og ekki er mælt sérstaklega fyrir um hæfisskilyrði til að gegna því.
    Um ákvæði 18. gr. má að öðru leyti geta þess að þau eru um margt byggð á venjum sem hafa mótast um þessi verk í framkvæmd á grundvelli 16. gr. laga nr. 3/1878.

Um 19. og 20. gr.


    Þessi ákvæði frumvarpsins geyma reglur um framkvæmd skráningar og mats á eignum og eftir atvikum skuldbindingum dánarbús. Vænta má að þessar reglur skýri sig að mestu sjálfar, en af einstökum atriðum þeirra má í fyrsta lagi nefna að í 1. mgr. 19. gr. er gert ráð fyrir að sá eða þeir sem hafa verkið með höndum ákveði hvar og hvenær það fari fram eða byrji og tilkynni þetta þeim sem hefur krafist verksins og erfingjum sem hefur verið getið í kröfunni. Segir í ákvæðinu að tilkynningar til erfingja skuli sendar með þeim fyrirvara að þeir geti átt kost á að vera viðstaddir ef unnt er án verulegra tafa eða óhagræðis, en að þessu leyti á ákvæðið sér hliðstæðu í upphafsmálslið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 3/1878. Með þessu er gefið til kynna að það standi ekki í vegi framkvæmdar á aðgerðum þótt erfingi sé til dæmis búsettur erlendis og geti tæplega komið því við að vera viðstaddur með þeim fyrirvara sem honum er gefinn, en eins og hingað til er ætlast til að þessarar undantekningarheimildar verði ekki neytt nema ríkar ástæður séu til. Þótt ekkert sé tekið sérstaklega fram í ákvæðinu um hvernig tilkynningum sem þessum verði komið á framfæri yrði að ganga út frá að það yrði gert með þeim hætti að sannað yrði eftir á að það hafi átt sér stað. Í öðru lagi er gert ráð fyrr að gefa eigi þeim sem eru viðstaddir við framkvæmd verksins kost á að tjá sig um atriði sem að því snúa, sbr. 2. mgr. 19. gr., og að þeir geti eftir atvikum krafist þá skriflega að verkið verði víðtækara en upphaflega var ætlast til, sbr. 3. mgr. 19. gr., en rétt er að taka fram að erfingi teldist ekki hafa fyrirgert rétti til að krefjast síðar að frekari eignir verði skráðar eða metnar þótt hann sé viðstaddur þegar verkið fer fram og hafi þar ekki uppi kröfur sínar í þeim efnum þá þegar. Ef krafa um aukið umfang verksins kæmi fram við framkvæmd þess er ætlast til þess í 3. mgr. 19. gr. að sá eða þeir sem sýslumaður fól að annast það í byrjun annist verkið í heild, nema krafist sé þar mats sem sérþekkingar þurfi til að leysa af hendi eða þær eignir, sem þá sé fyrst krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á, séu utan umdæmisins. Í þriðja lagi er í 4. mgr. 19. gr. kveðið á um skyldu vörslumanns eignar, sem er krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á, til að veita aðgang að henni til framkvæmdar verksins. Þótt ólíklegt sé að mikið geti reynt á það er þar einnig mælt fyrir um sérstaka heimild sýslumanns til að ákveða dagsektir á hendur vörslumanninum ef hann sinnir ekki þessari skyldu, en kröfu um slíkar dagsektir mætti þá fullnægja með aðför. Loks ber í fjórða lagi að nefna að í 20. gr. er sérstaklega vikið að því á hverjum forsendum eignir verði metnar undir þessum kringumstæðum, en sambærilegar reglur hafa ekki verið fyrir hendi í núgildandi lögum sem hefur leitt til nokkurra vandkvæða. Sú meginregla er lögð til í þessum efnum í 1. mgr. 20. gr. að eignir verði metnar eftir gang verði við frjálsa sölu gegn staðgreiðslu, en þeirri nánast sjálfgefnu reglu er þar bætt við að ef veðbönd eða önnur höft hvíli á eign skuli matsverðið miðast við staðgreiðslu á andvirði eignarinnar að frádregnum veðkröfum eða andvirði hafta. Í 2. mgr. 20. gr. er erfingjum þó heimilað að krefjast þess sérstaklega að eign verði einnig metin til verðs á annarri tiltekinni forsendu, t.d. miðað við nánar tilgreind greiðslukjör, en þessi heimild er þó eftir orðum ákvæðisins háð því að hlutaðeigandi geri sennilegt að slíkt mat geti haft þýðingu fyrir hagsmuni hans við skiptin. Þetta gæti til dæmis átt við ef erfingjar hafa náð samkomulagi sín á milli um að einn þeirra leysi tiltekna eign dánarbúsins til sín gegn greiðslu til annarra án þess að um staðgreiðslu væri að ræða, en samkomulag hafi ekki tekist um verðlagningu eignarinnar.

Um 21. gr.


    Í 21. gr. er mælt fyrir um hvenig staðið verði að verki þegar skrásetningu og eftir atvikum mati er lokið, en skv. 1. mgr., ákvæðisins ber þeim sem annaðist verkið að afhenda sýslumanninum, sem fól honum það, sérstaka eignaskrá þar sem matsverðs eigna yrði getið eftir því sem mats hefur verið krafist. Þá er ætlast til að fram komi í eignaskránni hverjir hafi verið viðstaddir þegar aðgerðin fór fram og hvort og þá hverjar athugasemdir kunni að hafa komið fram af þeirra hendi, t.d. um frekari eignir dánarbúsins en áður hafði verið upplýst um. Um aðgerðir sýslumanns eftir að eignaskráin hefur borist honum má benda á það sem kom fram hér áður í tengslum við ákvæði 1. mgr. 18. gr. að ef sýslumaður utan skiptaumdæmis hefur tilnefnt mann til að annast framkvæmd verksins og fengið síðan eignaskrána í hendur ætti hann að framsenda hana á þessu stigi máls þeim sýslumanni sem skiptin ættu undir. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. er sýslumanninum, sem skiptin eiga undir, ætlað að taka við eignaskránni til varðveislu, en að greiddum kostnaði af framkvæmd verksins er boðið að hann sendi þekktum erfingjum eintak skrárinnar á sannanlegan hátt. Er þetta gert í því skyni að erfingjar fái sem fyrst vitneskju um niðurstöður af framkvæmd skráningar og eftir atvikum mats og eigi þess þá kost að koma fram aðfinnslum eða kröfum um yfirmat skv. 22. gr. án þess að það valdi frekari töfum en nauðsyn krefur.

Um 22. gr.


    Í 22. gr. koma fram fyrirmæli um úrræði handa þeim sem vilja ekki una við niðurstöður í eignaskrá, en reglur um þau úrræði eru tvenns konar.
    Annars vegar kemur fram í 1. mgr. 22. gr. að sá sem krafðist skráningar og eftir atvikum mats geti komið fram athugasemdum við sýslumann ef hann telur eign ranglega skráða, t. d. að lýsing hennar sé röng í skránni. eða að vanrækt hafi verið að sinna kröfu hans um að tiltekin eign yrði skráð og eftir atvikum metin. Um þetta má geta þess í fyrsta lagi að heimildin til athugasemda sem þessara er eingöngu veitt þeim sem krafðist aðgerðarinnar hvort sem það var sá sem krafðist hennar í öndverðu eða hann hafi fyrst komið fram kröfum um frekari skráningu eða mat þegar aðgerðin fór fram, sbr. 3. mgr. 19. gr. Í öðru lagi ber að árétta það sem felst í orðalagi 1. mgr. 22. gr. að þessi regla veitir ekki heimild til að krefjastendurskoðunar á matsverði eigna sem kemur fram í eignaskrá, heldur verður slíkri endurskoðun aðeins komið við með yfirmati skv. 2.–4. mgr. 22. gr. Ef sýslumanni berast athugasemdir sem þessar innan hæfilegs tíma frá því hlutaðeiganda barst eignaskráin og hann telur þær réttmætar er gert ráð fyrir að hann leggi fyrir þann sem annaðist verkið að bæta úr því sem fundið var að.
    Hins vegar eru reglur í 2.–4. mgr. 22. gr. um heimildir erfingja, eða þeirra sem njóta sömu réttarstöðu í þessum efnum og erfingjar, til að krefjast endurskoðunar á því mati á eignum sem kann að koma fram í eignaskrá, en hún ætti sér þá stað með yfirmati. Um þessar heimildir skal í fyrsta lagi getið að í 2. mgr. 22. gr. er kveðið á um að krafa um yfirmat verði að koma fram meðan skiptum er enn ólokið og innan fjögurra vikna frá því að eignaskrá var komið á framfæri við hlutaðeiganda eða honum varð á annan hátt kunnugt um niðurstöður mats. Ætlast er til að orð ákvæðisins verði skýrð á þann hátt að umræddur frestur byrji almennt að líða þegar hlutaðeiganda hefur sannanlega gefist kostur á að kynna sér matið í eignaskrá sem sýslumaður hefur sent honum eftir reglu 1. mgr. 21. gr. Komi ekki fram krafa um yfirmat innan þess tíma telst hlutaðeigandi hafa fyrirgert rétti til að krefjast þess. Í öðru lagi má nefna að skv. 2. mgr. 22. gr. á krafa um yfirmat að vera skrifleg og á að beina henni til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Komi slík krafa fram og frestir til að hafa hana uppi eru ekki liðnir er mælt fyrir um það í 3. mgr. 22. gr. að sýslumaður eigi að tilnefna tvo menn til að framkvæma yfirmat, þannig að yfirmatsmenn verða tveir um að meta eign sem einn maður mat í öndverðu. Ætlast er til að sá sýslumaður, sem skiptin eiga undir, tilnefni yfirmatsmennina þótt sú eign, sem þeim er ætlað að meta, sé utan umdæmis hans. Um aðferðir við tilnefninguna, hæfi yfirmatsmanna, framkvæmd yfirmats og lok þess verks er í 3. mgr. 22. gr. vísað til reglna frumvarpsins um sömu atriði varðandi undirmatið. Í þriðja lagi skal þess getið að skv. 4. mgr. 22. gr. geta niðurstöður yfirmats ekki sætt endurskoðun við búskiptin því að þar kemur fram að yfirmat sé bindandi fyrir erfingja um verðmæti þeirra eigna sem það tekur til. Í ákvæðinu er tekið fram að þetta eigi við hvort sem erfingja var gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd yfirmats eða ekki. Ástæðan að baki þessari reglu er sú að nauðsynlegt er að endanleg niðurstaða fáist um verðgildi eigna svo fljótt sem auðið er, þannig að unnt verði að byggja framkvæmd skiptanna á henni án þess að eiga á hættu að hún sæti breytingum löngu síðar. Hagsmunum erfingja af verðlagningu eigna við yfirmat ætti ekki að vera nein hætta búin vegna þessarar reglu, enda byggir verðmat sem þetta á sjálfstæðri skoðun þeirra sem framkvæma það. Á hinn bóginn er rétt að undirstrika sérstaklega að þessari reglu er engan veginn ætlað að létta skyldum af yfirmatsmönnum til að tilkynna erfingjum hvenær þeir muni efna til matsfundar, heldur er hér aðeins stefnt að því að erfingi sem til dæmis gefur sig fyrst fram á síðari stigum verði bundinn af því sem þegar hefur verið gert.
    Eins og kom fram hér á undan telst upphafleg matsgerð bindandi um verðmæti eigna ef krafa um yfirmat kemur ekki fram innan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 22. gr., en ef yfirmat fer fram telst það endanlegt. Þetta leiðir til þess að stuðst verði við niðurstöður mats um verðgildi einstakra eigna sem það tekur til að því leyti sem á það getur reynt við framkvæmd skiptanna. Fyrst og fremst hefði matið þýðingu ef maki þess látna vildi leysa til sín eignir umfram arfs- og búshluta með því að greiða dánarbúinu andvirði þeirra í peningum, sbr. 35. gr. frumvarpsins, eða erfingi krefðist að fá tiltekinn hlut lagðan sér út að arfi, sbr. 36. gr. Með því hins vegar að nokkur tími geti liðið frá því mat færi fram og þar til maki þess látna greiddi búinu matsverð eigna sem hann leysir til sín eða erfingi fengi eign lagða sér út er óeðlilegt að matsverðið standi í óbreyttri fjárhæð til viðmiðunar um lengri tíma meðan til dæmis peningaeign búsins stæði á bankareikningi og vextir ynnust af henni. Er af þessum sökum mælt fyrir um það í 5. mgr. 22. gr. að hafi innlausn eða útlagning ekki átt sér stað á grundvelli matsniðurstöðu innan þriggja mánaða frá því matið var gert og erfingjar semja ekki um annað skuli hækka matsfjárhæðir til samræmis við vexti af innlánsreikningum í bönkum frá matsdegi til þess tíma sem innlausn eða útlagning fer fram. Verður að telja þetta nauðsynlegt til að tryggja jafnræði milli erfingja. Að öðru leyti en þessu leiða ákvæði 22. gr. hins vegar til þess að matsniðurstöðum verði ekki breytt við skiptin.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. er að finna reglur um greiðslu kostnaðar af skrásetningu og eftir atvikum mati á eignum sem þykja skýra sig að mestu sjálfar. Um efni þeirra má geta þess að gengið er út frá því að sá sem hefur krafist slíkra aðgerða verði almennt að bera kosfnað af þeim fyrst í stað, sem sýslumaður hefði með höndum að ákveða, en að öðru jöfnu gæti hlutaðeigandi síðan endurkrafið dánarbúið um þá fjárhæð við skiptin, enda er ætlast til að hver og einn erfingi eigi rétt á að fá þjónustu óvilhallra manna til að staðreyna hverjar eignir séu fyrir hendi og hvert andvirði þeirra sé án þess að standa einn undir þeim kostnaði. Sá fyrirvari er þó gerður í niðurlagi 3. mgr. 23. gr. að slík endurkrafa komi ekki til álita ef aðgerðin hefur verið þýðingarlaus eða bersýnilega ástæðulaus. Þessi fyrirvari er gerður til að koma í veg fyrir að erfingi geti bakað dánarbúinu algerlega óþarfan kostnað með aðgerð sem þjónar engum tilgangi, t.d. með því að krefjast mats á verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs þegar að öðru jöfnu er ljóst hvert gangverð þeirra sé eða með kröfu um mat á fasteign sem áður er ákveðið að verði seld við búskiptin. Þá má einnig vekja athygli á því í þessu sambandi að sérregla um endurkröfu á slíkum kostnaði kemur fram í 2. mgr. 27. gr. varðandi þau tilvik þar sem krafist hefur verið skráningar og eftir atvikum mats á eignum í óskiptu búi, en samkvæmt þeirri sérreglu verður ekki krafist endurgreiðslu kostnaðarins nema aðgerðin verði til þess að til skipta komi á búinu á grundvelli hennar.

Um 24. gr.


    Í 24. gr. er gert ráð fyrir að erfingi eða lögráðamaður hans, málsvari eða umboðsmaður, geti leitað til sýslumanns og fengið skriflega heimild hans til að afla upplýsinga um atriði sem varða eignir og skuldir dánarbúsins, enda sé það gert á þeim tíma sem sýslumaður hefur forræði búsins með höndum. Að fenginni slíkri heimild gæti erfingi síðan krafist upplýsinga um þessi málefni hjá þeim sem væri skylt að veita sýslumanni sams konar upplýsingar samkvæmt áðurnefndri reglu 3. mgr. 10. gr. Tillaga er gerð um þessa reglu til hagræðis þannig að sýslumaður þurfi ekki sjálfur að annast þetta verk ef erfingi er fús til að taka það að sér. Sambærileg leið hefur oft og tíðum verið farin í framkvæmd þótt ekki sé beinlínis gert ráð fyrir henni í lögum nr. 3/1878.

Um 25. gr.


    Í 1. mgr. 25. gr. kemur fram almenn heimild til að ljúka skiptum með einföldum hætti ef lýst er yfir fyrir sýslumanni við tilkynningu andláts eða síðar á því tímaskeiði sem hann fer með forræði dánarbúsins að eignir þess séu ekki meiri að andvirði en nemi kostnaði af útför. Sömu heimild má nú finna í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 3/1878 og er skiptum á dánarbúum lokið á grundvelli hennar í verulegum mæli, svo sem ráða má af þeim tölulegu upplýsmgum sem áður hafa komið fram. Er ætlast til að ákvæðum 1. mgr. 25. gr. verði beitt með sama hætti og núgildandi reglu, en um notkun hennar hafa að vonum myndast fastar venjur. Af þeirri ástæðu er ekki tilefni til að fjallahér að ráði um einstök atriði ákvæðisins. Þó skal í fyrsta lagi bent á að gengið er út frá því að sýslumaður taki ekki yfirlýsingu sem þessa gilda til þessara þarfa nema hún komi fram frá manni sem telja má að hafi næga yfirsýn yfir fjárhag þess látna til að geta fullyrt hvernig eignastöðu hans sé háttað, en eins er nú farið að í framkvæmd. Þá má í öðru lagi geta þess að ráðgert er í reglu 1. mgr. 25. gr. að þær eignir, sem sá látni kann að láta eftir sig, verði afhentar eða framseldar þeim sem leggur út fyrir kostnaði af útför, en engar sérstakar takmarkanir eru gerðar á því hvers konar eignir verði látnar af hendi með þessum hætti þó að yfirleitt hafi verið um það að ræða í framkvæmd að innanstokksmunir og inneignir á bankareikningum hafi verið framseldar með stoð í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 3/1878. Í þriðja lagi má benda á að málalok að hætti 1. mgr. 25. gr. hefðu í för með sér, með sama hætti og málalok eftir 1. mgr. 10. gr. laga nr. 3/1878, að ekki kæmi til þess að leitað yrði eftir afstöðu erfingja til ábyrgðar á skuldbindingum búsins því að þær féllu þegar niður gagnvart búinu með þessum málalokum og hvorki erfingjar né sá sem tæki við framsali eigna eftir ákvæðinu bæru ábyrgð af þessum sökum á frekari skuldbindingum en þeim sem tengdust útför. Loks má í fjórða lagi geta þess að vænst er að 1. mgr. 25. gr. yrði beitt með sama hætti og núgildandi reglu að því leyti að þegar sýslumaður tæki afstöðu til þess hvort skiptum verði lokið með þessu móti hefði hann hliðsjón af því hver kostnaður sé almennt af útför á hverjum tíma, að meðtöldum útgjöldum vegna auglýsinga, frágangs á leiði, legsteini, hóflegum veitingum handa þeim sem kynnu að sækja útför o.s.frv., en gengi ekki eftir gögnum um þann kostnað nema hann væri sagður vera að mun hærri en almennt væri.
    Í 2. mgr. 25. gr. er lögð til regla að danskri fyrirmynd um aðstöðu sem ekki er vikið að í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 3/1878 og óvíst hefur þótt í framkvæmd hvernig brugðist verði við. Er þar tekið af skarið um að ljúka megi skiptum eftir reglu 1. mgr. 25. gr. þótt andvirði heildareignar þess látna fari fram úr kostnaði af útför ef veðbönd eða sambærileg höft hvíla á eignunum og andvirði eignanna að frádregnum veðböndum sé innan marka útfararkostnaðar. Þessi heimild er þó háð því að sá sem fengi eignir framseldar gegn því að leggja út fyrir útförinni tæki einnig að sér ábyrgð á greiðslu þeirra krafna sem hvíla á eignunum. Þetta ákvæði felur að vissu leyti í sér undantekningu frá þeirri meginreglu 1. mgr. 25. gr., að málalok með þessum hætti séu almennt háð því að andvirði heildareigna (brúttóeigna) þess látna sé innan marka útfararkostnaðar, en þó ber að hafa í huga að ef aðrir eiga óbein eignarréttindi, t.d. veðréttindi, í eign þess látna megi segja að eignarhluti hans í henni sé í reynd aðeins mismunurinn áheildarandvirði hennar og fjárhæð veðkrafna. Ef ljúka ætti skiptum eftir reglu 2. mgr. 25. gr. verður að telja óhjákvæmilegt að gögn séu lögð fyrir sýslumann til staðfestingar á því að skilyrðum sé fullnægt fyrir þessu úrræði. Má þannig ætla að sá sem leitar eftir slíkummálalokum verði að leggja fram gögu um fjárhæðir veðkrafna og andvirði þeirrar eignar sem kröfurnar hvíla á, auk staðfestingar á því að hann taki að sér ábyrgð á greiðslu krafnanna.
    Í 3. mgr. 25. gr. kemur fram sérregla um hvernig sýslumaður geti brugðist við ef fleiri en einn erfingi eða aðstandandi þess látna gefur sig fram og óskar eftir að fá eignir búsins framseldar sér gegn því að taka að sér greiðslu kostnaðar af útförinni. Í framkvæmd hefur sárasjaldan reynt á þessa aðstöðu, en það hefur þó komið fyrir og ákvæði núgildandi laga taka ekki af skarið um hvernig ráðið verði fram úr henni. Má ætla að frekar gæti komið til þess að á þetta reyndi en hingað til í ljósi þeirrar heimildar sem er lögð til í 2. mgr. 25. gr.
    Í 4. og 5. mgr. 25. gr. koma fram reglur til áréttingar á því að skiptalok eftir 1. eða 2. mgr. ákvæðisins séu ekki endanleg ef leiddar eru líkur að því að eignir dánarbús hafi í reynd verið meiri en nam kostnaði af útför. Í þessum efnum ber að hafa í huga að við málalok eftir 1. eða 2. mgr. 25. gr. leggur sýslumaður til grundvallar upplýsingar sem tilkynnandi andláts veitir eða annar sem gefur sig fram í þessum erindagerðum. Sýslumanni er ekki ætlað að rannsaka réttmæti þessara upplýsinga nema hann telji sérstaka ástæðu til að tortryggja þær, svo sem fram kemur í 1. mgr. 25. gr. Í framkvæmd hefur reynslan verið sú að upplýsingar sem þessar séu almennt áreiðanlegar, en komið getur fyrir að þeim sem veitti þær hafi ekki verið kunnugt um allar eignir þess látna eða eftir atvikum að hann hafi gefið þær gegn betri vitund. Ef skiptum hefur verið lokið á þessum grundvelli en síðar kemur á daginn að ekki hafi verið skilyrði fyrir því hefur reynslan verið sú í framkvæmd að þau málalok hafi yfirleitt verið leiðrétt að frumkvæði erfingja. Ófært er hins vegar að láta málalok sem þessi teljast bindandi ef sýnt er fram á að ekki hafi verið skilyrði til þeirra og erfingjar hlutast ekki sjálfir til um að koma fram leiðréttingu á því, en í núgildandi lögum er ekki mælt beinlínis fyrir um hvernig brugðist verði við því. Til að bæta úr þeirri vöntun eru ráðgerðir tveir kostir í 4. og 5. mgr. 25. gr. til að knýja á um leiðréttingu þessara málaloka. Annars vegar getur erfingi gefið sig fram við sýslumann og krafist að fram fari skráning og eftir atvikum mat á eignum sem tilheyrðu dánarbúinu til að staðreyna hvort andvirði þeirra hafi verið innan marka útfararkostnaðar, en ef leitt er þannig í ljós að eignir hafi verið meiri en þessu nam er kveðið á um það í 4. mgr. 25. gr. að sýslumaður skuli taka skiptin upp á ný. Hins vegar er mælt fyrir um það í 5. mgr. 25. gr. að málalok skv. 1. eða 2. mgr. ákvæðisins falli sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er síðar tekið til opinberra skipta, en með þessu er vísað til þess að erfingi geti krafist opinberra skipta með heimild í 2. mgr. 38. gr. þótt skiptum hafi áður verið lokið með þessum hætti og lánardrottni þess látna er veitt sams konar heimild í 3. mgr. 40. gr., en í báðum tilvikum yrði þá að sýna fram á að eignir hafi verið meiri en nam útfararkostnaði þegar krafist væri opinberra skipta.

Um 26. gr.


    Þótt reglur 25. gr. frumvarpsins ættu almennt að ráða málalokum ef dánarbú er með öllu eignalaust eða eignir eru svo litlar að þær hrökkvi ekki nema fyrir kostnaði af útför er beiting þeirra háð því að maður, sem hefur næga vitneskju um málefni þess látna, treysti sér til að fullyrða að þannig sé ástatt um fjárhag dánarbúsins. Af reynslu í framkvæmd má vænta þess að einhver tilvik muni koma upp á ári hverju þar sem veruleg líkindi eru fyrir að dánarbú eigi ekki eignir umfram útfararkostnað en enginn treysti sér þó til að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um það að viðlagðri þeirri ábyrgð sem henni fylgir. Getur þetta einkum stafað af því að enginn hafi staðið í svo nánum tengslum við þann látna að geta tekið af skarið í þessum efnum. Í núgildandi lögum eru engin einföld úrræði til að ráða fram úr aðstöðu sem þessari. Í 26. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir þeim kosti við þessar aðstæður að sýslumaður geti lokið skiptum að eigin frumkvæði vegna eignaleysis dánarbús eða vegna þess að andvirði eigna þess fer ekki fram úr útfararkostnaði þótt enginn fáist til að gefa yfirlýsingu um fjárhag þess. Í 1. mgr. ákvæðisins er þó ætlast til að þetta verði ekki gert nema sýslumaður hafi áður kannað eftir reglum 10. gr. hvort hugsanlegt sé að einhverjar eignir kunni að vera fyrir hendi, t.d. með könnun skattframtala þess látna og annarra skjala hans, fyrirspurnum til banka og sparisjóða, leit í opinberum skrám um eignarhald að fasteignum og bifreiðum o.s.frv. Ef slík leit ber engan árangur og erfingjar eða aðrir kunnugir geta ekki vísað á neinar eignir er gert ráð fyrir að sýslumaður ljúki skiptum með sambærilegum hætti og gert yrði eftir 25. gr., nema hér kæmi könnun sýslumanns á fjárhag þess látna í stað yfirlýsingar annars manns um fjárhaginn. Ef sýslumaður fengi upplýsingar um einhverjar eignir við þessar aðgerðir sínar, en þær nægðu aðeins fyrir kostnaði af útför eða væru annars mjög óverulegar, er gert ráð fyrir að hann komi þeim í verð og ráðstafi andvirðinu til þess sem hefur kostað útförina, en greiði það ella í ríkissjóð.
    Önnur atriði 26. gr. en nú hafa verið nefnd eru í flestu tilliti sambærileg ákvæðum 25. gr. og þykir því ekki ástæða til að víkja frekar að þeim.

Um 27. gr.


    Eins og ráða má af þeim tölulegu upplýsingum sem komu fram hér áður lýkur skiptum í verulegum fjölda tilvika með því að maka þess látna er veitt leyfi til setu í óskiptu búi, en eftir atvikum má telja réttara að taka svo til orða í þessu sambandi að skiptum sé slegið á frest um ótiltekinn tíma með veitingu slíks leyfis fremur en að skiptum sé lokið þannig. Fyrirmæli um heimildir maka til að setjast í óskipt bú, umsókn um leyfi til þess, veitingu leyfisins og réttaráhrif þess koma fram í II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962. Skiptar skoðanir kunna að vera um það hvort þeim reglum sé eðlilega komið fyrir í þeirri löggjöf eða hvort þær ættu fremur heima í löggjöf um skipti dánarbúa, en breyting á þeirri skipan er ekki lögð til í þessu frumvarpi. Hins vegar þykir rétt að setja tilvísunarreglu til þessara heimilda erfðalaganna í 27. gr. frumvarpsins til að taka meðal annars af tvímæli um stöðu þessa úrræðis til málaloka gagnvart öðrum kostum frumvarpsins í þeim efnum.
    Fjallað hefur verið um ákvæði 2. mgr. 27. gr. í athugasemdum við 1. mgr. 17. gr. og 23. gr. sem hér skal vísað til.

Um 28. gr.


    Þegar skipti eiga sér á annað borð stað í eiginlegum skilningi, þ.e. ef dánarbú er ekki eignalaust og maka þess látna er ekki veitt leyfi til setu í óskiptu búi, þá fara einkaskipti fram í miklum meiri hluta tilvika og er því ljóst að reglur um þau hafi að sama skapi mikla þýðingu. Reglur frumvarpsins um einkaskipti koma í meginatriðum fram á tveimur stöðum. Annars vegar eru ákvæði í 28.–31. gr. um skilyrði fyrir einkaskiptum, umsókn erfingja um leyfi til þeirra og veitingu þess leyfis, en hins vegar er í 3. þætti mælt fyrir um framkvæmd einkaskipta, þar á meðal réttaráhrif leyfis til einkaskipta og hvernig staðið verði að skiptunum og þeim lokið. Meginástæðan fyrir þessari aðgreiningu reglna um einkaskipti er sú að II. kafli frumvarpsins, þar sem 28.–31. gr. er meðal annars að finna, fjallar um það tímabil sem sýslumaður fer með forræði á dánarbúum og þar er kveðið á um flest þau atvik sem geta leitt til þess að því forræði ljúki, en veiting leyfis til einkaskipta yrði einmitt eitt algengasta tilefni þess að forræði á dánarbúi hverfi úr höndum sýslumanns. Þykja því reglur um þetta efni best eiga heima í samhengi við önnur ákvæði II. kafla þótt nokkuð bil myndist með þessu fram að því að þráðurinn sé tekinn upp á ný í 3. þætti og þá lýst hvernig staðið verði að aðgerðum eftir veitingu leyfisins.
    Í 1.–6. tölul. 28. gr. frumvarpsins eru talin upp almenn skilyrði fyrir að erfingjum verði veitt leyfi til einkaskipta og er ástæða til að víkja mun nánar að hverju þeirra fyrir sig.
    Í 1. tölul. 28. gr. kemur fram það grundvallarskilyrði fyrir leyfi til einkaskipta að erfingjar þurfi allir að vera á einu máli um að sækjast eftir því og skiptir engu í þessu sambandi hvort erfingi eigi mikinn arf í vændum eða hverfandi lítinn. Verður þannig hver og einn erfingi að standa að umsókn um leyfið, en eftir atvikum gæti reglulegur eða sérstakur lögráðamaður erfingja staðið að umsókninni af hans hálfu, málsvari sem væri skipaður til að gæta hagsmuna hans eða umboðsmaður sem hann hefur tilnefnt. Ákvæði 1. tölul. 28. gr. mæla hins vegar aðeins fyrir um að erfingjar þurfi að vera einhuga um þessa umsókn og þurfa gjafþegar því ekki að eiga þátt að henni, en greinarmunur á erfingjum og gjafþegum hefur byggst á fræðilegum hefðum sem ástæðulaust er að víkja nánar að hér. Sama meginskilyrði er sett fyrir heimild til einkaskipta í ákvæðum 7. kapítula laga nr. 3/1878 þótt þar sé að vísu gert ráð fyrir undantekningu frá því í 72. gr. laganna, en ekki er vitað til að þeirri undantekningu hafi verið beitt í framkvæmd og þykir ekki ástæða til að taka hana upp á ný.
    Í 2. tölul. 28. gr. kemur fram að það sé skilyrði fyrir einkaskiptum að sá látni hafi ekki mælt fyrir um það í erfðaskrá eða gerningi í formi erfðaskrár að opinber skipti skuli fara fram, en að auki leiðir af 1. tölul. 42. gr. að fyrirmæli í slíkum gerningi um að tiltekinn maður eigi að annast skiptin skoðist ígildi ákvörðunar um opinber skipti. Hafi sá látni látið þannig í ljós vilja sinn til að opinber skipti fari fram telst sú ákvörðun útiloka einkaskipti þótt erfingjar væru einhuga um að fara þá leið. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 6. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 3. tölul. 28. gr. er það skilyrði sett að þeir sem æskja leyfis til einkaskipta þurfi að sanna erfðaréttindi sín fyrir sýslumanni eftir því sem leiðir af ákvæðum 1. mgr. 12. gr. sem áður var vikið sérstaklega að. Þetta skilyrði fyrir leyfi til einkaskipta á sér hliðstæðu í 70. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 4. tölul. 28. gr. er mælt fyrir um það skilyrði fyrir einkaskiptum að erfingjar þurfi að gefa yfirlýsingu þess efnis að þeim sé ekki kunnugt um að aðrir en þeir geti kallað eftir arfi og að ekki megi vera tilefni til að draga réttmæti þeirrar yfirlýsingar í efa. Skilyrði sem þetta er ekki orðað sérstaklega í ákvæðum laga nr. 3/1878 en í framkvæmd hefur verið gengið út frá því sem sjálfgefnu.
    Í 5. tölul. 28. gr. kemur fram annað meginskilyrði fyrir einkaskiptum þar sem segir að erfingjar verði að lýsa yfir að þeir taki að sér solidaríska sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem kunna að falla til vegna skiptanna eða arftöku þeirra. Sama skilyrði gildir eftir núgildandi lögum, en tilvist þess byggir á því að þegar erfingjum er veitt leyfi til einkaskipta fá þeir í hendur forræði á öllum hagsmunum dánarbúsins og geta með litlum takmörkunum ráðstafað þeim að eigin geðþótta án þess að þurfa að taka sérstakt tillit til hagsmuna þeirra sem telja til skuldbindinga á hendur búinu. Hefur verið gengið út frá að þetta frjálsræði erfingja um ráðstafanir þurfi að vera keypt því verði að þeir ábyrgist allir sem einn efndir á skuldbindingum búsins. Í sambandi við þessa reglu er rétt að benda á að yfirlýsing erfingja um ábyrgð á skuldbindingum má ekki vera takmörkuð á neinn hátt, enda leiðir af ákvæðum 97. gr. að ábyrgðin nái til allra skuldbindinga án tillits til vitneskju um tilvist þeirra.
    Í 6. tölul. 28. gr. er að endingu mælt fyrir um það skilyrði einkaskipta að ef erfingi er ófjárráða eða atvikum er annars svo háttað að honum hafi verið skipaður málsvari samkvæmt 2. eða 3. mgr. 13. gr., þá verði fjárráða samerfingjar hans að lýsa yfir að þeir ábyrgist honum að hann muni ekki þurfa að svara til skuldbindinga búsins með öðru en arfi sínum. Ef svo er ástatt að þetta eigi við um alla erfingja þess látna er gert ráð fyrir að í staðinn geti komið yfirlýsing af hendi hvers lögráðamanns eða málsvara um sig um að hann taki sjálfur að sér þessa ábyrgð gagnvart erfingjanum sem hann kemur fram fyrir. Þessi ákvæði 6. tölul. 28. gr. breyta því ekki að eftir sem áður verða að koma fram yfirlýsingar af hálfu allra erfingja um óskerta ábyrgð gagnvart skuldheimtumönnum, sbr. 5. tölul. 28. gr. Ef skuldheimtumaður gengi hins vegar að erfingja sem ákvæði 6. tölul. taka til í skjóli ótakmarkaðrar ábyrgðar hans í sinn garð gæti erfinginn endurkrafið fjárráða samerfingja sína eða eftir atvikum lögráðamann eða málsvara um það sem hann hefur orðið að greiða af þessum sökum umfram arf sinn. Ekki er að finna sambærilega reglu í lögum nr. 3/1878.
    Eins og ráða má af þessum athugasemdum eiga flest þau almennu skilyrði fyrir einkaskiptum, sem eru talin í 28. gr., sér hliðstæðu í lögum nr. 3/1878. Hér ber hins vegar að benda sérstaklega á það sem kemur fram í almennum athugasemdum hér á undan að ákvæði frumvarpsins miða að því að rýmka um heimildir til einkaskipta með því að ýmis fyrirmæli laga nr. 3/1878 um skyldu til opinberra skipta eru ekki tekin upp í frumvarpinu. Er þannig meðal annars horfið frá skyldu til opinberra skipta þótt erfingi þess látna sé ófjárráða eða ekki sé vitað hvar verði náð til hans, en þess í stað er ráðgert í frumvarpinu að lögráðamaður eða málsvari slíks erfingja geti óskað eftir einkaskiptum án undanfarandi aðgerða við opinber skipti. Má hafa í huga í þessu sambandi að þessi breyting á ekki að leiða til neinnar hættu fyrir hagsmuni slíkra erfingja sem opinber skipti eftir fyrirmælum laga nr. 3/1878 kæmu í veg fyrir, enda er bæði gert ráð fyrir sérstöku aðhaldi og eftirliti sýslumanns þegar einkaskipti ættu sér stað undir þessum kringumstæðum, auk þess að mælt er fyrir um sérstaka ábyrgð gagnvart þeim erfingjum sem hér um ræðir í ákvæði 6. tölul. 28. gr. sem felur í sér nýmæli eins og áður var nefnt.

Um 29. gr.


    Í 29. gr. koma fram reglur um form og efni umsóknar erfingja um leyfi til einkaskipta og hvað skuli fylgja slíkri umsókn, en ekki er að finna hliðstæðar reglur í lögum nr. 3/1878. Í þessu ákvæði frumvarpsins er í flestu tilliti byggt á venjum sem hafa myndast í þessum efnum í framkvæmd, en þó má segja að í þremur atriðum hafi það að geyma ráðagerðir um nýmæli eða breytingar frá ríkjandi venjum. Í fyrsta lagi er ætlast til meiri nákvæmni í tilgreiningu eigna og skuldbindinga dánarbús í beiðni um leyfi til einkaskipta en nú tíðkast. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í 6. tölul. 1. mgr. 29. gr. að erfingjar lýsi yfir í beiðni sinni að þeir muni hlíta skilyrðum sem sýslumaður kann að setja við veitingu leyfisins, en þetta tengist einkum ákvæðum 2. mgr. 31. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um heimild sýslumanns til að veita skilyrt einkaskiptaleyfi. Í þriðja lagi er tekin upp regla í 2. mgr. 29. gr. sem á sér fyrirmynd í venju í danskri framkvæmd, en samkvæmt henni geta erfingjar látið uppi í eitt skipti fyrir öll yfirlýsingu í beiðni sinni um að þeir veiti einum eða fleiri mönnum heimild til að koma fram út á við í nafni búsins til tiltekinna ráðstafana. Slík yfirlýsing fæli í sér umboð handa hlutaðeiganda, m.a. til að skuldbinda búið í ákveðnum efnum, en umboðið gæti hvort heldur náð til einnar tiltekinnar aðgerðar eða fjölmargra. Tillaga er hér gerð um þetta til einföldunar og hagræðis við framkvæmd einkaskipta.
    Ekki verður séð að önnur atriði 29. gr. en nú hafa verið nefnd þarfnist sérstakra skýringa.

Um 30. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er kveðið á um afgreiðslu sýslumanns á beiðni sem berst honum um leyfi til einkaskipta. Við meðferð beiðninnar verður sýslumaður að sjálfsögðu einkum að líta til þess hvort hún fullnægi þeim kröfum um efni og form sem koma fram í 1. mgr. 29. gr., hvort þau gögn fylgi henni sem kunna að vera nauðsynleg skv. 3. mgr. 29. gr. og ekki síst hvort almennum skilyrðum 28. gr. fyrir einkaskiptum sé fullnægt. Að auki verður þó að gefa því gaum að ákvæði 2.–5. mgr. 30. gr. geyma fyrirmæli um frekari skilyrði fyrir einkaskiptum en áður eru talin og verður þannig að taka tillit til þeirra við afgreiðslu beiðninnar þótt það heyri til undantekninga í framkvæmd að það reyni á atriði sem þessi. Er rétt að víkja nánar að einstökum atriðum í þessum ákvæðum.
    Í 2. mgr. 30. gr. kemur fram að sýslumaður geti neitað að taka afstöðu til umsóknar erfingja um leyfi til einkaskipta, ef þeir byggja erfðarétt sinn á erfðaskrá þess látna þar til þeir hafi kynnt lögerfingjum þess látna efni hennar. Hér er ekki gert ráð fyrir að aðgerð sem þessi þurfi almennt að eiga sér stað, heldur gæti fyrst og fremst átt við að fara þessa leið ef erfðaskrá væri haldin augljósum formgalla sem gæti leitt til að hún yrði ekki lögð til grundvallar við skiptin ef lögerfingjar vefengdu hana. Er því ætlast hér til að sýslumaður geti lagt fyrir bréferfingja að tilkynna lögerfingjum um erfðaskrána og ætlan sína um að leita leyfis til einkaskipta á grundvelli hennar, en lögerfingjum gæfist þá kostur á að koma fram mótmælum gegn því við sýslumann eða krafist eftir atvikum opinberra skipta þegar í stað til að varna að einkaskiptaleyfi verði veitt. Sambærileg regla er ekki í lögum nr. 3/1878 en þessi leið hefur stundum verið farin í framkvæmd þegar reynt hefur á þessa aðstöðu.
    Í 3. og 4. mgr. 30. gr. er að finna sérreglur um úrræði sem sýslumaður getur þurft að grípa til ef sótt er um leyfi til einkaskipta og erfingi er ófjárráða eða málsvari hefur verið skipaður til að gæta hagsmuna erfingja eftir 2. eða 3. mgr. 13. gr. Þegar þannig stendur á er gert ráð fyrir að sérstakar skyldur hvfli á sýslumanni til að huga að hagsmunum hlutaðeigandi erfingja. Í þessu skyni er annars vegar mælt fyrir um það í 3. mgr. 30. gr. að sýslumaður geti neitað að taka afstöðu til beiðni um leyfi til einkaskipta nema fram komi ítarlegri upplýsingar um efnahag dánarbúsins en fyrir liggja og geti hann meðal annars mælst til þess að fram fari skráning og eftir atvikum mat á eignum búsins eftir áðurlýstum reglum. Er kveðið á um þetta til að fyrirbyggja að sýslumaður láti óátalið að gengist verði í ábyrgð á skuldbindingum búsins fyrir slíka erfingja ef fyrirliggjandi gögn gefa tilefni til að óttast um að hætta sé á að eignir muni ekki nægja fyrir skuldum. Hins vegar er sýslumanni heimilað í 4. mgr. 30. gr. að neita að taka afstöðu til beiðninnar þótt samerfingjar þess sem er ófjárráða eða málsvari kemur fram fyrir hafi lýst yfir ábyrgð gagnvart honum eftir fyrirmælum 6. tölul. 28. gr. nema lögð sé fram trygging fyrir þeirri ábyrgð. Sýslumaður gæti að sama skapi synjað um leyfið ef hann teldi þessa ábyrgð ekki nægja til að tryggja hagsmuni hlutaðeigandi erfingja. Gæti þetta einkum komið til álita ef tilefni væri til að draga í efa greiðslugetu þeirra manna sem hafa lýst yfir ábyrgð eftir 6. tölul. 28. gr. Ef lögráðamenn eða málsvarar yrðu ekki við tilmælum sýslumanns um úrbætur í þessum efnum gæti sýslumaður neytt þeirra úrræða sem eru heimiluð í 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins og eftir atvikum í V. kafla lögræðislaga, nr. 68/1984, ef ekki er um sérstakan lögráðamann eða málsvara að ræða.
    Í 5. mgr. 30. gr. er mælt fyrir um heimild sýslumanns til að neita að veita leyfi til einkaskipta þótt hún stafi eingöngu frá fjárráða erfingjum, nema þeir afli mats á eignum dánarbúsins eftir reglum 17.–23. gr., enda þyki sýslumanni það nauðsynlegt til að geta lagt erfðafjárskatt á erfingjana. Þessi heimild er þannig bundin við þau tilvik þar sem sýslumanni kynni að þykja verðmat erfingja á tilteknum eignum áfátt og um eignir væri að ræða sem greiða ætti erfðafjárskatt af á grundvelli matsverðs samkvæmt reglum 9. gr. laga nr. um erfðafjárskatt, nr. 83/1984. Undir þessum kringumstæðum gæti þó sýslumaður eins kosið að fara þá leið að veita erfingjum leyfi til einkaskipta með því skilyrði að þeir afli mats á viðkomandi eignum, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. frumvarpsins. Regla 5. mgr. 30. gr. snýr aðeins að höfnun umsóknar um leyfi til einkaskipta vegna verðlagningar á eignum dánarbús, en ef sýslumanni þætti bersýnilegt að eignir væru vantaldar í umsókn gæti hann hafnað henni með þeirri röksemd að umsókninni sem slíkri væri áfátt, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 29. gr.
    Í 1. mgr. 30. gr. kemur fram að sýslumaður eigi að taka afstöðu til beiðni um leyfi til einkaskipta svo fljótt sem verða má eftir að hún berst honum, en í framkvæmd hefur til þessa að jafnaði verið leitast við að afgreiða erindi sem þessi jafnharðan og þau berast. Ef sýslumaður teldi annmarka á beiðninni sem mætti ráða bót á getur hann veitt erfingjum tiltekinn frest til þess eins og fram kemur í niðurlagi 1. mgr. 30. gr. Í 6. mgr. 30. gr. er kveðið á um höfnun sýslumanns á beiðni um leyfi til einkaskipta sem annað tveggja gæti stafað af því að áðurgreindum skilyrðum þætti ekki fullnægt til að verða við henni eða af því að sýslumaður telji sýnt að erfingjar muni ekki geta lokið skiptum á þeim tíma sem mætti veita þeim til þess skv. 2. mgr. 31. gr. Ef sýslumaður teldi þannig að synja yrði um leyfi til einkaskipta er mælt fyrir um það í niðurlagi 6. mgr. 30. gr. að erfingjar geti krafist stuttra skriflegra röksemda fyrir þeirri afstöðu, en erfingjar gætu eftir atvikum borið þessa synjun undir héraðsdómara skv. 119. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.


    Ákvæði 31. gr. taka til þess þegar sýslumaður telur unnt að verða við umsókn um leyfi til einkaskipta, en þessar reglur taka mið af því sem hefur tíðkast í framkvæmd. Í 1. mgr. 31. gr. er mælt fyrir um að sýslumaður veiti að öðru jöfnu leyfi til einkaskipta með áritun sinni um það á beiðni erfingjanna, en einnig gæti hann látið erfingjum í té sérstaka yfirlýsingu um leyfisveitinguna. Annað af þessu tvennu yrði yfirleitt nauðsynlegt til þess að erfingjar hefðu undir höndum sönnunargagn um heimild sína til að ráðstafa hagsmunum búsins hvort sem væri í samningum eða á annan hátt sem reynt gæti á í samskiptum við aðra.
    Í 2. mgr. 31. gr. er kveðið á um skilyrði sem sýslumaður setur við veitingu leyfis til einkaskipta. Annars vegar yrði hann ávallt að setja skilyrði um að erfingjar verði að ljúka skiptunum innan tiltekins tíma, en samkvæmt ákvæðinu yrði frestur til þess almennt eitt ár frá andláti eins og nú gildir skv. 78. gr. laga nr. 3/1878, en eins mætti kveða á um skemmri eða lengri frest eftir því hvert umfang verka við skiptin virðist munu verða. Í þremur töluliðum við 2. mgr. 31. gr. er að auki mælt fyrir um heimildir sýslumanns til að setja tiltekin skilyrði fyrir leyfinu sem eiga sér ekki hliðstæðu í ákvæðum núgildandi laga. Þykja þessi ákvæði ekki þarfnast sérstakra skýringa, en væntanlega yrði þeim sjaldan beitt.
    Í 3. mgr. 31. gr. er mælt fyrir um heimild sýslumanns til að verða við skriflegri og rökstuddri beiðni erfingja um lengingu frests sem hann hefur ákveðið þeim til að ljúka einkaskiptum. Gert er ráð fyrir því skilyrði fyrir að verða við slíkri beiðni að erfingjum hafi ekki reynst kleift að ljúka skiptunum af óviðráðanlegum sökum. Er hér um sömu reglu að ræða og hefur verið beitt í framkvæmd á grundvelli fyrirmæla 78. gr. laga nr. 3/1878.

Um 32. gr.


    Í 32. gr., sem er jafnframt lokaákvæði II. kafla frumvarpsins, er að finna fyrirmæli um hvernig sýslumaður eigi að bregðast við ef skiptum hefur ekki verið lokið vegna eignaleysis dánarbúsins, leyfi hefur hvorki verið veitt til setu í óskiptu búi né einkaskipta og krafa hefur ekki komið fram um opinber skipti. Ef fjórir mánuðir eru liðnir frá andláti án þess að neitt af þessu hafi gerst er ætlast til þess að sýslumaður skori á þá erfingja, sem hann hefur upplýsingar um, að gera einhverjar þessar ráðstafanir innan skamms frests að því viðlögðu að hann krefjist opinberra skipta skv. 6. tölul. 37. gr. Sýslumanni er þó heimilt að fresta þessari aðgerð um skamman tíma ef erfingjar hafa áður greint honum frá ástæðum fyrir töfum af þeirra hendi og hann telur þær skýringar á rökum reistar.
    Með ákvæðum 32. gr. er í senn reynt að stuðla að því að erfingjum verði veitt aðhald um að hefjast handa um aðgerðir við búskiptin, að regla verði á embættisfærslu sýslumanna í þessum efnum og ekki síst að fyrirbyggja að mál staðnæmist óhæfilega lengi í óbreyttu horfi í höndum sýslumanna með þeim erfiðleikum sem geta fylgt því að koma því síðar til leiðar að þeim verði lokið, enda má telja þann frest sem ákvæðið veitir í þessum efnum nægan í ljósi reynslunnar af núverandi framkvæmd. Er ákvæðið einnig fallið til þess að koma í veg fyrir að svokallað millibilsástand, þegar málefni dánarbúa eiga undir forræði sýslumanna og sem ákvæði II. kafla frumvarpsins taka meira eða minna til, vari lengur en nauðsyn krefur.

Um 33.–36. gr.


    Þessum ákvæðum frumvarpsins er skipað í III. kafla þess og fjalla um ýmis sérstök réttindi sem erfingjar njóta við skipti dánarbúa. Þessum ákvæðum er það sammerkt að þau eiga að mestu hliðstæður í núgildandi lögum og að þau eigi við án tillits til þess hvernig skiptin verða framkvæmd.
    Í 33. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um réttindi maka þess látna til að fá ýmist sína eigin muni undanþegna við skiptin eða muni þess látna afhenta sér til eignar án tillits til skiptanna, ef um er að ræða persónulega muni til nota makans eða muni sem hann þarfnast til menntunar sinnar eða atvinnu. Verðgildi þessara muna má ekki vera verulegt af tilliti til hagsmuna annarra erfingja eða skuldheimtumanna, sá látni má ekki hafa ráðstafað þeim sérstaklega á annan veg með erfðaskrá og makinn verður að taka að sér skuldbindingar sem hvort heldur njóta tryggingarréttinda í mununum eða hafa orðið til við öflun þeirra. Ef þessum skilyrðum er fullnægt getur makinn fengið munina í sinn hlut án þess að það reiknist honum til arfs eða búshluta og án þess að máli skipti hvort skiptum sé lokið eftir 25. eða 26. gr. frumvarpsins, einkaskipti eiga sér stað eða opinber skipti. Enn fremur er lagt til í 33. gr. að börn, stjúpbörn eða fósturbörn þess látna, sem hafa verið á framfæri hans við andlátið, geti nýtt sér sama rétt án tillits til þess hvort makinn notfæri sér hann einnig fyrir sitt leyti. Reglur 33. gr. eiga um margt rætur að rekja til sömu viðhorfa og reglur 43. gr. laga nr. 90/1989 um undanþágur frá og frátökurétt við aðför. Ákvæði 58. gr. laga nr. 23/1920, sem lagt er til í 135. gr. frumvarpsins að falli brott, miða að svipuðum réttindum handa maka og kveðið er á um í 33. gr., en umræddu ákvæði hefur verið beitt í mun rýmra mæli í framkvæmd en orðalag þess gefur tilefni til að ætla.
    Í 34. gr. er að finna tilvísun til tiltekinna reglna XIV. kafla frumvarpsins um það hvernig fari um vörslur eigna dánarbús ef sá látni lætur eftir sig maka, afnot eignanna og rétt til að ráðstafa þeim. Þá er einnig vísað til reglna XIV. kafla um það hvernig fjárslit eigi að fara fram milli dánarbúsins og maka þess látna ef til einkaskipta eða opinberra skipta kemur á dánarbúinu meðan makinn er á lífi. Er sú skipan, sem hér um ræðir, sambærileg við þær aðferðir sem er beitt í framkvæmd eftir núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. 35. gr. er kveðið á um rétt maka þess látna til að leysa til sín eignir dánarbúsins að því leyti sem hann fær þær ekki í sinn hlut að arfi eða upp í búshluta. Þetta getur makinn gert með greiðslu matsverðs eignanna til dánarbúsins og á sú heimild við án tillits til þess hvort einkaskipti fari fram eða opinber skipti. Ef opinber skipti fara fram hefur ekki þýðingu fyrir beitingu reglunnar hvort erfingjar hafi tekið að sér ábyrgð á skuldbindingum búsins. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 3/1878 að öðru leyti en því að beinlínis er tekið fram í niðurlagi 1. mgr. 35. gr. að makinn njóti ekki þessa réttar að því leyti sem sá látni kann að hafa ráðstafað einstökum eignum með erfðaskrá. Í 2. mgr. 35. gr. er mælt sérstaklega fyrir um það að ef maki neytir réttar síns eftir 1. mgr. ákvæðisins og þeim peningum sem hann yrði að láta þá af hendi yrði varið til greiðslu arfs ófjárráða niðja þess látna geti makinn krafist gjaldfrests á greiðslunni þar til hver erfingi fyrir sig verði fjárráða. Er kveðið á um að reglur um lán af fé ófjárráða manna gildi þá um skuldbindingu makans, en í þessu felst einkum vísun til 2. mgr. 38. gr. og 39. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984. Ákvæðum 2. mgr. 35. gr. er ætlað að leysa af hólmi 62. gr. laga nr. 3/1878 sem er sama efnis að öðru leyti en því að þar er gert ráð fyrir að arfsinnstæða ófjárráða niðja sé tryggð með almennu veði í öllum eignum maka þess látna.
    Í 36. gr. er mælt fyrir um réttindi maka og annarra erfingja til að fá muni dánarbúsins lagða sér út til greiðslu arfs, auk réttar maka til að fá muni lagða út upp í búshluta sinn. Ákvæði 36. gr. eru nánast í öllum atriðum sama efnis og reglur 46. gr. og að nokkru 2. mgr. 59. gr. laga nr. 3/1878 og verður því ekki séð að þau þarfnist sérstakra skýringa.

Um 37. gr.


    Reglur 37. gr. eru þær fyrstu sem koma fram í IV. kafla frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um hvernig dánarbú komi til opinberra skipta. Í 37. gr. er kveðið á um tilvik þar sem ráðgert er að sýslumanni beri að krefjast opinberra skipta ef skiptum hefur ekki verið lokið skv. 25.–27. gr., en þessi tilvik eru um margt þau sömu og mundu leiða til að skiptaráðandi ætti að taka dánarbú til opinberra skipta ótilkvaddur eftir skipan laga nr. 3/1878. Ýmist er hér um að ræða aðstæður þar sem óvíst er hverjir geti átt réttindi við skiptin eða að sýslumaður setji kröfu sem þessa fram til að fylgja því eftir að skiptin eigi sér stað með því að ekki hafi orðið af því að erfingjar fengju leyfi til einkaskipta eða lykju málinu á annan hátt.
    Í 37. gr. kemur fram að sýslumanni sé skylt að krefjast opinberra skipta við þær aðstæður sem eru taldar í ákvæðinu og að honum beri að sinna þessari skyldu svo fljótt sem þessar aðstæður hafa komið upp. Misjafnlega langur tími gæti liðið frá andláti þar til sýslumanni yrði kunnugt um þau atvik sem leiddu til skyldu hans til aðkrefjastopinberra skipta eða þar til frestir handa erfingjum til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja kröfu sem þessa væru liðnir. Sýslumanni gæti verið skylt að krefjast opinberra skipta þegar í kjölfar tilkynningar andláts, t.d. ef honum yrði afhent eintak erfðaskrár þess látna við tilkynninguna þar sem fram kæmu fyrirmæli um að hann hafi óskað eftir opinberum skiptum eftir sinn dag, sbr. 1. tölul. 37. gr., eða ef tilkynnandi greindi sýslumanni frá því að sá látni láti ekki eftir sig nein skyldmenni sem gætu talið til lögerfðaréttar og að hann hafi enga erfðaskrá gert þannig að vænta megi að arfur falli til ríkisins, sbr. 2. tölul. 37. gr. Á hinn bóginn gæti nokkur tími verið liðinn frá andláti þar til sýslumanni væri orðið skylt að krefjast opinberra skipta vegna fyrirmæla 4., 5. eða 6. tölul. 37. gr.
    Talning þeirra tilvika, þar sem raðgert er að sýslumanni beri að krefjast opinberra skipta, í 1.–6. tölul. 37. gr. þykir skýra sig sjálf og er því ástæðulaust að víkja að einstökum atriðum í því sambandi.

Um 38. gr.


    Í 38. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir erfingja og eftir atvikum þess sem hefur búið í óvígðri sambúð með þeim látna til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi.
    Meginreglan í þessum efnum kemur fram í 1. mgr. ákvæðisins þar sem erfingjum er mæltur skilyrðislaus réttur til að krefjast opinberra skipta svo lengi sem skiptum hefur ekki þegar verið lokið vegna eignaleysis dánarbúsins eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi, en um þau tvö tilvik er nánar mælt í 2. og 3. mgr. 38. gr. Regla 1. mgr. 38. gr. heimilar hverjum erfingja fyrir sig að gera kröfu sem þessa hvort sem arfshluti hans væri stór eða lítill og með öllu án tillits til vilja annarra erfingja. Skiptirheldur ekki máli í þessu sambandi hvort erfingjar hafi áður fengið leyfi til einkaskipta, en ef það hefur verið veitt getur erfingi gripið til þessa ráðs upp á eindæmi sitt og komið því til leiðar að dánarbúið hverfi úr einkaskiptum hvort sem slíkt kynni að stafa af ósamkomulagi erfingja eða öðrum sökum. Þá er heldur ekki mælt fyrir um neina nauðsyn þess að sá sem vilji krefjast opinberra skipta eftir þessari heimild sýni að fyrra bragði fram á réttmæti arfstilkalls síns, heldur er þvert á móti ætlast til að ef ágreiningur risi til dæmis milli tveggja manna um það hvor þeirra skuli talinn einkaerfingi þess látna geti hvor þeirra sem væri leitað úrlausnar á þeim ágreiningi með því að krefjast opinberra skipta og styðja rétt sinn til þess við þá forsendu að hann sé með réttu erfingi. Niðurstaða um þá kröfu mundi þá ráðast af því hvort arfstilkall hans væri talið á rökum reist. Regla 1. mgr. 38. gr. er sama efnis og núgildandi ákvæði 4. og 8. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 2. mgr. 38. gr. er mælt fyrir um heimild erfingja til að krefjast opinberra skipta þótt skiptum hafi áður verið lokið fyrir sýslumanni skv. 25. eða 26. gr. vegna eignaleysis dánarbúsins. Fjallað var um forsendur fyrir þessari heimild í athugasemdum við 25. gr. og er því ástæðulaust að víkja nánar að þeim hér.
    Í 3. mgr. 38. gr. er vakin athygli á því að erfingi getið krafist opinberra skipta þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, en sú krafa er þá háð því að heimild standi til hennar í ákvæðum II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962. Regla 3. mgr. 38. gr. geymir engar efnislegar heimildir handa erfingja í þessum efnum, heldur er aðeins vikið að þessu samhengis vegna. Þarfnast þessi regla því ekki frekari skýringa.
    Í 4. mgr. 38. gr. er mælt fyrir um rétt þess sem hefur verið í óvígðri sambúð með þeim látna til að krefjast opinberra skipta ef skilyrðum 100. gr. um sambúðartíma eða önnur þargreind atvik er fullnægt. Sama heimild felst nú í ákvæðum 1. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 3/1878.

Um 39. gr.


    Í 39. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimild til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi handa þeim sem sá látni hefur tilnefnt í erfðaskrá til að annast skipti eftir sig. Eins og getið var að nokkru í athugasemdum við 28. gr. hefur sú regla lengi gilt að skylt sé að opinber skipti fari fram ef sá látni hefur ákveðið það sjálfur í erfðaskrá. Hefur verið gengið út frá því í fræðikenningum og framkvæmd að ef sá látni hefur tilnefnt tiltekinn mann í erfðaskrá til að annast skipti eftir sig þá eigi það að teljast ákvörðun hans um að opinber skipti skuli fara fram og að sá maður, sem hefur verið tilefndur, verði löggiltur sem skiptaforstjóri án dómsvalds, sbr. 91. gr. laga nr. 3/1878. Slík löggilding hefur oft verið veitt í framkvæmd að tilhlutan þess sem hefur verið tilnefndur sem skiptaforstjóri í erfðaskrá og hefur þannig verið tryggt að hann geti sjálfur framfylgt vilja þess látna í þessum efnum en þurfi ekki að treysta til dæmis á að erfingjar sækist eftir löggildingunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afnema þá tilhögun að skiptaforstjórar verði löggiltir af dómsmálaráðherra, en þess í stað verði farin sú leið að dánarbú verði tekið til opinberra skipta og sá maður, sem sá látni hefur tilnefnt til að annast skiptin, verði skipaður skiptastjóri, sbr. 3. mgr. 46. gr. Vegna þeirrar breytingar er nauðsynlegt að tryggja að sá tilnefndi geti líkt og nú gerist átt sjálfur frumkvæði að því að fá forræði dánarbúsins í hendur, en sá er einmitt tilgangur 39. gr. frumvarpsins. Rétt er að benda á að þessi regla skarast að nokkru við ákvæði 1. tölul. 37. gr. þar sem mælt er fyrir um skyldu sýslumanns til að krefjast opinberra skipta ef honum verður kunnugt um tilvist erfðaskrár með fyrirmælum sem þessum. Sú regla gerir þó ekki heimildina í 39. gr. óþarfa því að sýslumanni og erfingjum þarf ekki endilega að vera kunnugt um tilvist erfðaskrárinnar sem kann að vera varðveitt af þeim sem hefur verið tilnefndur til að annast skiptin.

Um 40. gr.


    Í 4. gr. laga nr. 3/1878 er kveðið á um heimild erfingja til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi, en þar er beinlínis tekið fram að hvorki skuldheimtumenn né gjafþegar njóti slíks réttar. Þessi skipan hefur almennt ekki komið að sök því að þótt skuldheimtumenn og gjafþegar hafi ekki notið réttar til að krefjast opinberra skipta hefur réttindum þeirra á hendur dánarbúi yfirleitt verið borgið með því að maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi tiltölulega skömmu eftir andlátið og þeir hafa geta gengið að honum til að fá kröfum sínum fullnægt eða erfingjar þess látna hafa fengið leyfi til einkaskipta og skuldheimtumenn og gjafþegar hafa þá getað snúið sér að þeim um fullnustu, enda ábyrgjast erfingjar skuldbindingar búsins sjálfir ef þeir fá slíkt leyfi líkt og maki ábyrgist þær ef hann fær leyfi til setu í óskiptu búi. Eins hefur staða skuldheimtumanna og gjafþega verið tryggð ef dánarbú hefur komið til opinberra skipta þótt ekki sé að frumkvæði þeirra. Þrátt fyrir þessa óbeinu réttarvernd gagnvart skuldheimtumönnum og gjafþegum hefur sú aðstaða oft komið upp í framkvæmd að réttindi þeirra hafi staðið í óviðunandi óvissu vegna þess að ekkert af framangreindu hafi gerst og þeim hefur verið meinað að lögum að krefjast opinberra skipta. Hefur þetta fyrst og fremst verið í tilvikum þar sem erfingjar hafa ekkert aðhafst í tengslum við skiptin og skiptaráðendur hafa ekki getað tekið eða fengist til að taka málin í sínar hendur með því að hefja aðgerðir við opinber skipti án þess að krafa komi fram um það frá einhverjum þeim sem er bær um að hafa hana uppi.
    Til að ráða bót á þessari aðstöðu er lagt til í 40. gr. frumvarpsins að þeir sem eigi gjaldfallna kröfu á hendur dánarbúi geti átt sjálfstæðan rétt til að krefjast opinberra skipta á því, en bæði skuldheimtumenn og gjafþegar gætu átt gjaldfallna kröfu í þessum skilningi. Heimildirnar í þessum efnum eru þrenns konar og eiga þær hver um sig við mismunandi aðstæður.
    Í 1. mgr. 40. gr. er kveðið á um þennan rétt í þeim tilvikum þar sem skiptum hefur ekki verið lokið vegna eignaleysis dánarbús skv. 25. eða 26. gr., maka þess látna hefur ekki verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi, sbr. 27. gr., og erfingjum hefur ekki verið veitt leyfi til einkaskipta, en þá getur skuldheimtumaður eða gjafþegi krafist opinberra skipta þegar sex mánuðir eru liðnir frá andláti án þess að frekari skilyrðum þurfi að vera fullnægt. Í sambandi við þessa reglu má benda á að þegar sex mánuðir yrðu liðnir frá andláti án þess að neinar þessar aðgerðir hefðu átt sér stað, þá væri sýslumanni að jafnaði þegar orðið skylt að krefjast opinberra skipta á búinu skv. 6. tölul. 37. gr., sbr. 32. gr. Þessi heimild er þannig í reynd til öryggis ef sýslumaður sinnir ekki þessari skyldu í tæka tíð.
    Í 2. mgr. 40. gr. er heimild handa skuldheimtumanni eða gjafþega til að krefjast opinberra skipta þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta, en þá eru þau skilyrði sett að sá sem krefst opinberra skipta verði að sýna fram á að framferði erfingjanna stefni hagsmunum hans í bráða hættu og að hann hafi áður skorað á erfingjana að efna skuldbindinguna innan sanngjarns frests. Orðalag 2. mgr. 40. gr. gefur til kynna að reglan geti aðeins átt við í mjög óvenjulegum tilvikum, enda verður einnig að taka tillit til þess að leyfi til einkaskipta veitir skuldheimtumanni eða gjafþega heimild til að ganga að erfingjunum persónulega um fullnustu. Í ljósi þess gæti þessi heimild tæplega átt við nema gert væri sennilegt að ábyrgð erfingjanna á skuldbindingum þess látna væri nánast einskis verð og að sýnt sé að framferði þeirra muni leiða til að eignir búsins verði ekki tiltækar til fullnustu.
    Í 3. mgr. 40. gr. er skuldheimtumanni eða gjafþega loks heimilað að krefjast opinberra skipta þótt skiptum hafi áður verið lokið fyrir sýslumanni skv. 25. eða 26. gr. Verður honum þá að takast að sýna fram á annars vegar að eignir hafi verið meiri en svo að skiptum hafi mátt ljúka eftir þeim heimildum og hins vegar að hann eigi ekki önnur úrræði til að fá kröfu sinni fullnægt, t.d. ábyrgð þriðja manns á skuldbindingu.

Um 41. gr.


    Í 41. gr. koma fram sérstök fyrirmæli varðandi kostnað af opinberum skiptum, en gengið er hér út frá þeirri meginreglu sem á sér hliðstæðu í gjaldþrotalögum, nr. 6/1978, að kostnaður skuli greiðast af fjármunum búsins. Sá kostnaður, sem hér um ræðir, getur verið af ýmsum toga, en helsti liðurinn, sem mætti almennt gera ráð fyrir, væri þóknun skiptastjóra. Til að tryggja að þessi kostnaður fáist greiddur er sú regla lögð til í 1. mgr. 41. gr. að þótt skilyrðum 38.–40. gr. sé annars fullnægt verði dánarbú ekki tekið til opinberra skipta nema leitt sé í ljós þegar skiptanna er krafist að eignir búsins nægi fyrir kostnaðinum eða að sá sem krefst þeirra setji tryggingu fyrir greiðslu hans. Er að auki tekið fram í 2. mgr. ákvæðisins að sá sem krefst opinberra skipta beri alltaf ábyrgð á kostnaði af þeim þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu. Í þessu sambandi er vert að benda sérstaklega á að gengið er út frá að þóknun skiptastjóra verði ákveðin með tilliti til vinnuframlags hans. Ef eignir búsins eru óverulegar má að öðru jöfnu ganga út frá því að vinnuframlag skiptastjóra verði lítið og þóknun hans að sama skapi. Er þannig ekki ástæða til að ætla að trygging fyrir skiptakostnaði yrði hárrar fjárhæðar eða að nein teljandi hætta sé á að sá sem hafi krafist skiptanna verði fyrir útgjöldum eftir reglu 2. mgr. 41. gr.
    Í 3. mgr. 41. gr. kemur fram sérregla í þessum efnum varðandi þau tilvik þar sem sýslumanni er ætlað að krefjast opinberra skipta skv. 37. gr. Þegar þannig stendur á er kveðið á um að skiptakostnaður greiðist úr ríkissjóði ef fjármunir búsins nægja ekki fyrir honum. Er því ekki um það að ræða að kröfu sýslumanns um opinber skipti yrði hafnað þótt óvíst væri hvort eignir nægi fyrir kostnaði og tryggingar yrði heldur ekki krafist.

Um 42. gr.


    Í 42. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig sá sem nýtur heimildar til að krefjast opinberra skipta samkvæmt fyrirmælum 37.–40. gr. eigi að haga gerðum sínum til að koma slíku til leiðar. Samkvæmt ákvæðinu verður hlutaðeigandi að gera skriflega kröfu um það þar sem tiltekin atriði verða að koma fram og henni verða eftir atvikum að fylgja tiltekin gögn. Í ákvæðinu felst um leið sú grundvallarregla að opinber skipti geti aldrei komið til eftir sjálfsdáðarákvörðun dómara, heldur aðeins eftir kröfu einhvers þess sem á rétt til að hafa hana uppi samkvæmt áðurnefndum fyrirmælum frumvarpsins.
    Í 1. mgr. 42. gr. kemur fram að kröfu um opinber skipti verði að beina til héraðsdómstóls, sem leysir síðan úr um hvort orðið verði við kröfunni. Sú skipan, að dómstólar kveði á um hvort opinber skipti fari fram, byggist á sama grunni og ákvæði laga nr. 3/1878 með því að litið er svo á að opinber skipti feli í sér fullnustugerð sem fari fram án tillits til vilja hlutaðeigenda og geti því ekki verið á valdi annarra en dómstóla að taka ákvörðun um að hún eigi sér stað. Er þetta einnig í samræmi við þær grundvallarreglur um verkaskipti milli dómstóla og annarra handhafa ríkisvalds sem verða dregnar af ákvæðum laga nr. 92/1989 og hefur verið byggt á meðal annars í lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990. Hér má enn fremur benda á að þessi skipan er hliðstæð þeirri sem gildir við gjaldþrotaskipti því að eftir gjaldþrotalögum, nr. 6/1978, kveður dómari á um hvort slík skipti fari fram, en ráðgert er að sú skipan verði óbreytt í frumvarpi sem hefur verið gert til nýrra heildarlaga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. á að beina kröfu um opinber skipti til héraðsdómstólsins sem hefur lögsögu í umdæmi sýslumannsins sem skiptin eiga undir. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins um það, undir hvern sýslumann skipti dánarbús eiga, ráða þannig með þessum óbeina hætti hvaða dómstóll geti kveðið á um opinber skipti og leyst síðan úr ágreiningsefnum sem kunna að rísa við framkvæmd þeirra eftir fyrirmælum 5. þáttar.
    Reglur 1. og 2. mgr. 42. gr. kveða á um hvers efnis krafa um opinber skipti þurfi að vera og hver gögn þurfi að fylgja henni. Sambærilegar reglur eru ekki í lögum nr. 3/1878, en efnislega er hér byggt á venjum sem hafa myndast um þessi atriði í framkvæmd. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist sérstakra skýringa.
    Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. á sá sem krefst opinberra skipta á grundvelli 38.–40. gr. að tilkynna það sýslumanninum sem skiptin eiga undir með því að senda honum samrit kröfu sinnar. Þessi regla er lögð til í því skyni að sýslumanni berist vitneskja um kröfu sem þessa, en slíkt er nauðsynlegt í ljósi þess að hann kynni ella að haga gerðum sínum með þeim hætti að ekki fengi samrýmst að opinber skipti standi fyrir dyrum.

Um 43. og 44. gr.


    Þessi ákvæði frumvarpsins snúa bæði að því hvernig héraðsdómari fari með kröfu um opinber skipti og þykir því hentugast að fjalla um þau sameiginlega.
    Af 1. mgr. 43. gr. má leiða að ætlast sé til að héraðsdómari hefjist handa um aðgerðir vegna kröfu um opinber skipti með því að kanna hvort einhverjir bersýnilegir annmarkar séu á henni því að honum er heimilað að hafna kröfunni með úrskurði þegar í stað ef hann telur ljóst að ekki séu efni til að verða við henni. Ýmis atvik gætu leitt til þess að héraðsdómara væri rétt að hafna kröfunni af sjálfsdáðum, t.d. að hún sé höfð uppi af einhverjum sem nýtur ekki heimildar til að krefjast opinberra skipta, öðrum skilyrðum opinberra skipta sé bersýnilega ekki fullnægt, krafan hafi borist röngum héraðsdómstól eða efni hennar sé áfátt. Ef héraðsdómari teldi skilyrði til að hafna kröfunni þegar í stað eftir þessari heimild þyrfti hann hvorki að kveðja þann fyrir sig sem hefur haft uppi kröfuna né aðra sem kunna að eiga hlut að máli, en úrskurður héraðsdómara um höfnunina væri kæranlegur til æðra dóms, sbr. 133. gr.
    Ef krafa um opinber skipti stenst þessa frumskoðun dómara og hann hefur annaðhvort gengið úr skugga um að tryggingar fyrir skiptakostnaði skv. 41. gr. sé ekki þörf eða fengið slíka tryggingu í hendur er ætlast til að hann ákveði sem fyrst þinghald til að taka kröfuna fyrir og tilkynni þeim um þinghaldið sem eru sagðir erfingjar þess látna í kröfunni eða lögráðamenn erfingja, málsvarar eða umboðsmenn. Reglur 1.–3. mgr. 43. gr. um þetta efni skýra sig að mestu sjálfar, en rétt er þó að geta nánar nokkurra atriða í þessu sambandi. Í fyrsta lagi segir ekki í 1. mgr. 43. gr. hvar þinghald eigi að fara fram þar sem krafa um opinber skipti er fyrst tekin fyrir, en í þeim lögsagnarumdæmum héraðstóla sem ná yfir fleira en eitt stjórnsýsluumdæmi sýslumanna skv. I. kafla laga nr. 92/1989 gæti bæði komið til greina að þetta þinghald yrði háð á aðsetursstað dómstólsins eða á þingstaðnum í umdæmi sýslumannsins sem skiptin eiga undir. Ef héraðsdómi Suðurlands bærist þannig krafa um opinber skipti á dánarbúi sem ætti undir sýslumanninn í Vestmannaeyjum tekur 1. mgr. 43. gr. ekki af skarið um hvort þinga ætti um kröfuna á Selfossi, þar sem dómstóllinn hefur aðsetur, sbr. 2. gr. laga nr. 92/1989, eða á föstum þingstað í Vestmannaeyjum, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Héraðsdómara er hér ætlað að meta sjálfstætt á hvorum staðnum hann telji rétt að halda þing um kröfuna og hafa þá fyrst og fremst hliðsjón af því hvar þeir séu búsettir sem þarf að boða til þinghaldsins. Ef enginn þeirra væri búsettur í umdæmi sýslumannsins sem skiptin ættu undir væri héraðsdómara að öðru jöfnu réttast að taka kröfuna fyrir á aðsetri dómstólsins. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í 43. gr. að tilkynning með tilteknu efni verði send þeim sem krefst opinberra skipta og að auki hverjum og einum sem upplýst er í kröfunni að kunni að telja til erfðaréttar eftir þann látna. Þessi tilkynning þarf að sendast með tilteknum hætti og berast hlutaðeigendum með ákveðnum fyrirvara. Reglurnar um þessi atriði eru í flestu tilliti sambærilegar reglum um birtingu stefnu í einkamáli og stefnufrest. Í þriðja lagi má vekja athygli á ákvæðum 3. mgr. 43. gr. þar sem mælt er fyrir um hvernig bregðast eigi við ef krafa kemur fram um opinber skipti og sá sem hefur hana uppi getur ekki fullnægt áskilnaði 3. tölul. 1. mgr. 42. gr. um að upplýsa í kröfunni hverjir séu hugsanlegir erfingjar þess látna. Slík aðstaða gæti komið til með þeim hætti að sýslumaður krefjist opinberra skipta á grundvelli 2. tölul. 37. gr. með því að ekki sé vitað um neinn sem geti krafist arfs eftir þann látna eða að ættingi þess látna, sem telur til lögerfðaréttar eftir hann, viti ekki hvort hugsanlegt sé að sá látni láti eftir sig nánari eða jafnnána ættingja. Undir þessum kringumstæðum er augljóst að ekki verði ætlast til þess að bent verði í kröfunni á einhverja tiltekna menn sem þyrfti að boða til þinghalds um hana. Hér gæti að vísu komið til greina að mæla fyrir um að héraðsdómari skuli auglýsa þinghaldið opinberlega og skora þar á þá sem teldu sig eiga erfðarétt eftir þann látna að gæta hagsmuna sinna þar. Sú leið væri hins vegar til þyngsla og ósennilegt er að slík opinber auglýsing bæri árangur, en að auki verður að taka tillit til þess að undir þessum kringumstæðum væri óhjákvæmilegt að gefa út innköllun til erfingja og skuldheimtumanna við opinberu skiptin, sbr. 2. mgr. 56. gr., þannig að réttur hugsanlegra erfingja væri engan veginn fyrir borð borinn. Af þessum sökum er ráðgert í 3. mgr. 43. gr. að undir þessum kringumstæðum taki héraðsdómari kröfu um opinber skipti fyrir á dómþingi án þess að tilkynna öðrum um þinghaldið en þeim sem hefur kröfuna uppi.
    Í 44. gr. koma síðan fram reglur varðandi það þinghald sem héraðsdómari boðar eftir 43. gr. Í þremur fyrstu málsgreinum 44. gr. er mælt fyrir um hvað verði gert ef sá sem krefst opinberra skipta sækir ekki þing, hvað verði gert ef hann mætir og enginn mótmælir kröfu hans og hvernig farið verði með kröfuna ef hún sætir andmælum. Síðastgreinda aðstaðan, að mótmæli komi fram gegn kröfu um opinber skipti, getur komið til af ýmsum sökum. Þannig getur verið að þeir sem eru boðaðir til þinghalds um kröfuna telji þann sem hefur gert hana ekki njóta erfðaréttar eftir þann látna og því ekki njóta heimildar sem erfingi til að krefjast opinberra skipta skv. 38. gr. Í 4. mgr. kemur síðan fram sú regla að héraðsdómari kveði upp úrskurð um hvort krafan sé tekin til greina og að hann gæti að því í úrskurði sínum hvort lagaskilyrði séu fyrir að taka hana til greina hvort sem mótmæli hafi komið fram eða ekki. Eftir ákvæðum laga nr. 3/1878 verður úrskurður ekki kveðinn upp um kröfu sem þessa nema hún sæti andmælum, en að öðrum kosti tekur dómari afstöðu til hennar með ákvörðun sem hann bókar í þingbók. Breyting er lögð til í þessum efnum til samræmis við reglur gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, um meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti. Í 5. mgr. 44. gr. er mælt fyrir um hverjar afleiðingar það hafi ef úrskurður héraðsdómara um að opinber skipti fari fram er kærður til æðra dóms, en þessi regla er sama efnis og ákvæði 2. mgr. 19. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978. Í 6. mgr. 44. gr. er loks mælt fyrir um að héraðsdómari skuli tilkynna sýslumanni um niðurstöður dómstóla um kröfu um opinber skipti, en sú tilkynning á að eiga sér stað hvort sem héraðsdómari tekur kröfuna til greina eða hafnar henni og einnig á héraðsdómari að tilkynna um niðurstöðu æðra dóms ef því er að skipta. Þessi tilkynning á að þjóna sama tilgangi og tilkynning skv. 3. mgr. 42. gr. og má vísa hér til umfjöllunar um það ákvæði.

Um 45. gr.


    Í reglum IV. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir því með sama hætti og í lögum nr. 3/1878 að krafa kunni að koma fram um opinber skipti á dánarbúi þar sem leyfi hefur áður verið veitt til setu í óskiptu búi eða einkaskipta. Ef krafa um opinber skipti er tekin til greina í slíku tilviki hefur til þessa verið gengið út frá því í framkvæmd að það hafi eðli málsins samkvæmt í för með sér að leyfi sem þessi falli sjálfkrafa niður, en þetta er beinlínis tekið fram í 3. mgr. 45. gr. frumvarpsins. Á hinn bóginn hefur ekki þótt víst í framkvæmd hver áhrif það geti talist hafa á gildi leyfis til einkaskipta eða setu í óskiptu búi að krafa komi fram um opinber skipti meðan afstaða hefur ekki verið tekin til kröfunnar. Ef ágreiningur rís um hvort krafan verði tekin til greina getur tekið nokkurn tíma að fá leyst úr um réttmæti hennar, en ef leyfi til einkaskipta eða setu í óskiptu búi væri óhaggað meðan á því stæði yrði að telja leyfishafana njóta heimilda til að ráðstafa hagsmunum dánarbúsins á því tímaskeiði. Er því augljós hætta á að leyfishafar kunni vísvitandi að halda uppi tilgangslausu andófi gegn kröfu um opinber skipti til að halda forræði á dánarbúinu í andstöðu við hagsmuni þess sem hefur kröfuna uppi. Til að taka af tvímæli um þessa aðstöðu er lögð til sérstök heimild í 1. og 2. mgr. 45. gr. til að héraðsdómari geti fellt niður slík leyfi um stundarsakir meðan leyst er úr hvort krafa um opinber skipti verði tekin til greina, en kveðið er nánar á um hvernig verði staðið að þessu í 120. gr.
    Rétt er að vekja athygli á því að í ákvæðum 45. gr. er tekið svo til orða að umrædd leyfi geti fallið niður af þessum sökum að einhverju leyti eða öllu. Þetta orðalag á eftir eðli máls helst við þegar um er að ræða leyfi til setu í óskiptu búi, en áhrif slíks leyfis geta fallið niður að hluta með því að t.d. einn af mörgum samerfingjum maka þess látna krefjist skipta sér til handa án þess að aðrir samerfingjar sækist eftir því fyrir sitt leyti. Ef krafa eins erfingja um opinber skipti væri tekin til greina við þessar aðstæður hefði það ekki annað í för með sér eftir reglum 45. gr. en að leyfi maka þess látna til setu í óskiptu búi félli niður gagnvart þeim erfingja, en ekki í öðru tilliti.

Um 46. gr.


    Eins og minnst var á í almennum athugasemdum hér á undan er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að framkvæmd opinberra skipta verði í höndum sérstakra skiptastjóra. Þar kom fram að samkvæmt lögum nr. 3/1878 er þetta verk almennt í höndum dómara, skiptaráðenda, þótt hér sé um að ræða umsýsluverkefni sem tengist ekki almennum störfum dómara. Sú breyting, sem hér um ræðir, er lögð til samræmis við stefnu laga nr. 92/1989 og fyrirmæli gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, og á sér að auki fyrirmyndir víða erlendis þar sem algengast er að verk sem þessi séu falin svokölluðum „executor“ eða „administrator“ án dómsvalds, líkt og gert er ráðið fyrir að geti átt sér stað í 91. gr. laga nr. 3/1878. Þessi breyting setur að sjálfsögðu mark sitt á fjölmörg ákvæði frumvarpsins, en víða er þó um það að ræða að reglur þess um skiptastjóra eigi sér hliðstæðu í núgildandi reglum laga nr. 3/1878, um framkvæmdarstörf skiptaráðenda, og ákvæðum gjaldþrotalaga um störf bústjóra og skiptastjóra við gjaldþrotaskipti.
    Í 1. mgr. 46. gr. er mælt fyrir um að héraðsdómari skuli skipa skiptastjóra til að framkvæma opinber skipti um leið og úrskurður hefur gengið um opinber skipti eða eftir atvikum dómur æðra dóms. Þessi skipun á að eiga sér stað með bókun í þingbók, en sú tilhögun á sér hliðstæðu í ákvæðum gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, þegar bústjóri til bráðabirgða er ráðinn við gjaldþrotaskipti. Í tengslum við þetta ákvæði frumvarpsins er rétt að benda á að gert er ráð fyrir að héraðsdómari hafi með höndum val á þeim manni sem á að gegna þessu hlutverki og þurfi ekki að taka tillit til óska annarra í þessum efnum nema svo standi á sem segir í 3. mgr. ákvæðisins að sá látni hafi sjálfur tilnefnt mann til verksins í erfðaskrá. Héraðsdómara er þannig ekki ætlað að leita tillagna erfingja í þessum efnum eða að fara að óskum sem þeir kunna að setja fram, enda er skiptastjóra ætlað eftir ákvæðum frumvarpsins að vera með öllu hlutlaus gagnvart erfingjum jafnt sem skuldheimtumönnum og mundi því illa samrýmast þeirri stöðu hans ef hann yrði skipaður eftir tillögu erfingja. Þá má einnig minnast þess í tengslum við þetta ákvæði frumvarpsins að skipun skiptastjóra á að eiga sér stað með þessum hætti í eitt skipti fyrir öll nema því aðeins að hlutaðeigandi maður hverfi frá verkinu óloknu skv. 4. mgr. 46. gr. Er því ekki um það að ræða að fram fari kosning skiptastjóra á síðari stigum skiptanna eins og nú gildir við gjaldþrotaskipti eftir lögum nr. 6/1978. Þetta er lagt til í ljósi þeirrar reynslu sem hefur fengist við gjaldþrotaskipti eftir umræddum lögum þar sem héraðsdómari skipar bústjóra til bráðabirgða í byrjun en sérstök kosning skiptastjóra fer fram á síðari stigum. Er nánast undantekningarlaust um það að ræða í framkvæmd að sá maður, sem var ráðinn bústjóri í upphafi, sé kjörinn skiptastjóri í fyllingu tímans. Þessi tilhögun í frumvarpinu ætti þannig að leiða til einföldunar og koma að auki í veg fyrir að skiptastjóri telji sig þurfa að vinna hylli þeirra sem ættu atkvæði um kosningu hans, en sú aðstaða gæti af augljósum ástæðum leitt til hættu á að staðið yrði ómálefnanlega að skiptunum. Hagsmunum þeirra, sem teldu val á skiptastjóra óeðlilegt, er jafnframt borgið í frumvarpinu með sérstakri heimild þeim til handa í 47. gr. til að hafa uppi kröfu fyrir héraðsdómara um frávikningu skiptastjóra.
    Í upphafi 2. mgr. 46. gr. kemur fram sú sjálfsagða regla að maður verði ekki skipaður til starfa skiptastjóra nema með samþykki hans, en þar á eftir eru talin þau hæfisskilyrði sem hann þarf að fullnægja til að geta tekið þetta starf að sér. Þau skilyrði eru að nokkru hliðstæð almennum skilyrðum laga nr. 92/1989 fyrir skipun manns í embætti sýslumanns, en í ýmsum atriðum er þó vikið frá þeirri samsvörun. Þýðingarmesta frávikið í þessum efnum snýr að 5. tölul. 2. mgr. 46. gr. þar sem að vísu má ráða af orðalagi að almennt sé ætlast til að skiptastjóri sé lögfræðingur að mennt, en þetta er þó ekki sett að skilyrði. Gæti helst reynt á heimild til að skipa aðra en lögfræðinga til þessara starfa á þeim landsvæðum þar sem þeirra er ekki kostur í nálægð eða ef sá látni hefur tilnefnt mann til verksins í erfðaskrá. Önnur hæfisskilyrði ákvæðisins þykja ekki þarfnast sérstakra skýringa.
    Í 3. mgr. 46. gr. kemur fram regla sem hefur þegar verið minnst nokkuð á, en samkvæmt henni á héraðsdómari að öðru jöfnu að skipa þann mann til starfa skiptastjóra sem sá látni hefur mælt fyrir um í erfðagerningi ef hlutaðeigandi fullnægir hæfisskilyrðum 2. mgr. Sérstaklega er vikið að því í 3. mgr. að sá látni kunni að hafa tilnefnt fleiri menn en einn til að annast verkið í sameiningu, en dæmi eru úr framkvæmd af slíkri tilnefningu manna í erfðaskrá til starfa skiptaforstjóra skv. 91. gr. laga nr. 3/1878. Ef fyrirmæli sem þessi liggja fyrir er gengið út frá því í 3. mgr. að héraðsdómari hlýti þeim að öðru jöfnu, en þó er gerður sá fyrirvari í þessum efnum að héraðsdómari geti vikið frá ákvörðun sem þessari ef honum þykir verkið ekki standa undir þeim íburði að fleiri en einn skiptastjóri hafi það með höndum. Í sambandi við 3. mgr. 46. gr. má að öðru leyti minnast á það í fyrsta lagi að gengið er út frá að tilnefning sem þessi teljist fyrir hendi þótt tekið hafi verið þannig til orða í erfðaskrá að hlutaðeigandi eigi að „sjá um skipti“, vera „skiptaforstjóri“ o.s.frv., ef það þykir aðeins mega skilja fyrirmælin efnislega sem tilnefningu af þessum toga. Í öðru lagi ber að vekja athygli á því að sú almenna regla 2. mgr. 46. gr. gildir einnig í tilvikum sem þessum að sá tilnefndi þurfi að vera fús til að taka starfann að sér, en ef svo er ekki eða hann er látinn eða ófær um að gegna starfinu af öðrum sökum yrði héraðsdómari að velja mann til þess sjálfstætt. Loks má í þriðja lagi benda á að ákvæði 46. gr. gera ekki ráð fyrir að skiptastjórar geti verið tveir eða fleiri í öðrum tilvikum en þeim þar sem sá látni hefur mælt fyrir um það. Er reglan að þessu leyti frábrugðin ákvæðum gjaldþrotalaga sem takmarka ekki heimild héraðsdómara til að skipa tvo eða fleiri menn til slíkra starfa við gjaldþrotaskipti.
    Í 4. mgr. 46. gr. er gert ráð fyrir að héraðsdómari eigi að skipa nýjan skiptastjóra ef sá upphaflegi hverfur frá verkinu óloknu. Sömu aðferðum yrði fylgt við þá skipun eins og gert yrði við upphaf skipta og þarfnast þessi regla því ekki frekari skýringa.
    Í 5. mgr. 46. gr. er gert ráð fyrir að héraðsdómari geti krafið skiptastjóra um tryggingu vegna starfans um leið og hann er skipaður ef hann sýnir ekki skilríki fyrir að hann hafi ábyrgðartryggingu sem taki til þessara starfa. Trygging sem þessi væri ætluð til að mæta hugsanlegum kröfum sem kynnu að falla á skiptastjóra vegna starfa hans og gæti þar einkum orðið um skaðabótakröfur að ræða vegna mistaka hans í starfi. Ráðagerð ákvæðisins um að skiptastjóri kunni að hafa ábyrgðartryggingu sem geti náð til þessara starfa snýr fyrst og fremst að lögmönnum sem hafa í einhverjum mæli tekið sér almennar ábyrgðartryggingar vegna starfa sinna, en slík vátrygging kæmi að sömu notum og ef skiptastjóri legði fram peningatryggingu, veð eða ábyrgð vegna tjóns sem hann kynni að baka í starfi. Ekki er gert ráð fyrir að héraðsdómari þurfi alltaf að krefjast trygginga af skiptastjórum, enda væri slíkt oft óþarfi ef um lítil dánarbú væri að ræða. Sambærileg regla er í 95. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, um bústjóra og skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, en mjög lítið hefur reynt á hana í framkvæmd.
    Í 6. mgr. 46. gr. er mælt svo fyrir að ákvörðun héraðsdómara um skipun manns í starf skiptastjóra verði ekki skotið til æðra dóms. Þessi regla er lögð til með hliðsjón af því að héraðsdómari mundi ekki rökstyðja í bókun um skipunina hvers vegna hann hafi valið tiltekinn mann til starfans öðrum fremur, þannig að ef þeirri ákvörðun væri einni út af fyrir sig skotið til æðra dóms kæmi til kasta hans að meta á fyrsta og eina dómstigi hvort valið hafi verið réttmætt. Í stað slíks málskots er gengið út frá þeirri reglu í 47. gr. að sá sem vilji hafa uppi mótmæli gegn skipun manns í starf skiptastjóra verði að bera upp umkvörtun sína við héraðsdómara og krefjast þá að hlutaðeiganda verði vikið úr starfinu, en héraðsdómari tæki þá rökstudda afstöðu til slíkrar kröfu í úrskurði og um leið til atriða sem varða hæfi eða hæfni hlutaðeiganda til að gegna starfinu og mætti þá skjóta þeim úrskurði til æðra dóms.

Um 47. gr.


    Í 47. gr. er að finna helstu fyrirmæli frumvarpsins um það hvernig aðhald og eftirlit verði haft með störfum skiptastjóra og hvernig verði eftir atvikum staðið að því að víkja skiptastjóra úr starfi ef hann hefur til dæmis vanrækt það, brotið rétt á erfingjum eða þeim sem hafa uppi kröfur á hendur búinu, glatað hæfi til að rækja starfið eða ekki orðið við tilmælum héraðsdómara um að setja tryggingu vegna starfa sinna innan tilskilins frests. Reglur 47. gr. heimila erfingjum og þeim sem hafa haft uppi kröfur á hendur búinu sem hefur ekki verið hafnað að hafa uppi aðfinnslur við héraðsdómara um hæfi skiptastjóra, starfsháttu eða framferði hans í starfi og eftir atvikum að krefjast að skiptastjóri sæti aminningu, að honum verði gert að ráða bót á starfsháttum sínum eða verði vikið úr starfi. Héraðsdómara er sömuleiðis heimilað að taka slíkt upp hjá sjálfum sér ef hann kemst með öðrum hætti að því að störfum skiptastjóra sé ábótavant.
    Ákvæði 47. gr. lýsa því hvernig staðið verði nánar að aðgerðum ef framangreind tilefni verða til afskipta héraðsdómara af störfum skiptastjóra. Er gert ráð fyrir að héraðsdómari kveðji skiptastjóra á fund sinn og eftir atvikum þann sem hefur fundið að störfum hans, en einnig getur héraðsdómari kvatt til fleiri af slíku tilefni, til dæmis erfingja eða lánardrottna sem eiga verulegra hagsmuna að gæta. Gert er ráð fyrir að héraðsdómari gefi þeim sem koma á fund hans kost á að tjá sig um málefnið og taki síðan ákvörðun um viðbrögð sín. Þau gætu orðið á þann veg að hann teldi ekki tilefni til frekari aðgerða af sinni hendi eða að veita ætti skiptastjóra áminningu og frest til að bæta úr starfsháttum sínum, en ákvörðun sem þessi yrði bókuð í þingbók og er ekki ætlast til að hún geti sætt kæru til æðra dóms. Einnig gæti héraðsdómari talið efni til að víkja skiptastjóra úr starfi af þessum sökum hvort sem aður hafi verið veitt áminning eða ekki, en um frávikningu yrði kveðinn upp rökstuddur úrskurður sem væri kæranlegur til æðra dóms. Ef sá sem hefur haft uppi aðfinnslur um störf skiptastjóra eða kröfu um frávikningu hans vildi ekki sætta sig við ákvörðun héraðsdómara um að hafast ekkert að vegna umkvörtunar eða kröfu eða við ákvörðun dómarans um að veita áminningu í stað þess að víkja skiptastjóra úr starfi, gæti hlutaðeigandi krafist rökstudds úrskurðar héraðsdómara um afstöðu hans og væri sá úrskurður kæranlegur. Um málsmeðferð þegar héraðsdómari yrði að taka afstöðu til þessara málefna með úrskurði er nánar mælt í 121. gr.

Um 48. gr.


    Í 48.–52. gr. frumvarpsins er að finna ýmis almenn fyrirmæli um skiptastjóra þar sem kveðið er á um helstu réttindi þeirra og skyldur í starfi sem varða annað en viðfangsefni þeirra við meðferð á kröfum á hendur dánarbúum, ráðstöfun á hagsmunum dánarbúa og lok skipta. Má þannig segja að þessi ákvæði móti vissan ramma um störf skiptastjóra sem að nokkru er fyllt frekar út í þegar komið er til kasta fyrirmæla VI.–X. kafla um sérstök verkefni þeirra.
    Í 1. mgr. 48. gr. kemur fram sú almenna regla að skiptastjóra beri að annast öll störf sem varða meðferð dánarbús eða með öðrum orðum framkvæmd opinberra skipta, en í þessu felst einkum að skiptastjóri gegni því hlutverki að leita þeirra eftir þörfum sem telja til réttinda á hendur búinu, að gæta, halda uppi og ráðstafa hagsmunum búsins, að ljúka skiptum með því að fullnægja réttindum annarra á hendur því og að annast aðra umsýslu vegna búsins hvort sem beinlínis er mælt fyrir um hana í frumvarpinu eða nauðsyn hennar leiðir af öðrum sökum. Í þessum efnum er skiptastjóra þó heimilað að leita aðstoðar og þjónustu annarra á eigin ábyrgð en kostnað búsins. Vandasamt er að gera greinarmun í eitt skipti fyrir öll á því sem skiptastjóra er annars vegar rétt og skylt að gera sjalfur gegn þeirri þóknun sem hann á tilkall til og hins vegar því sem hann getur leitað til annarra um gegn sérstakri greiðslu til þeirra frá búinu. Hér má þó að hafa í huga að gengið er út frá því í frumvarpinu að þóknun skiptastjóra verði ákveðin af tilliti til vinnuframlags hans, t.d. sem viss fjárhæð fyrir hverja vinnustund, þannig að ekki ætti að vera hætta á að þóknun hans taki mið af rækslu starfs sem hann hefur ekki sjálfur innt af hendi, heldur fengið annan til að vinna á kostnað búsins. Verður það því að miklu leyti að ráðast af venjum og tilliti til eðlis einstakra viðfangsefna hvort skiptastjóra beri að leysa þau af hendi sjálfur fyrir þá þóknun sem honum yrði ákveðin eða hvort honum væri rétt til að leita til annarra um þau.
    Í 2. mgr. 48. gr. er kveðið á um tilkall skiptastjóra til þóknunar fyrir störf sín, en nú þegar hefur verið fjallað um atriði sem þessu tengjast og verður því vísað hér til þeirrar umfjöllunar. Í síðari málslið 2. mgr. er mælt fyrir um rétt skiptastjóra til að taka sér greiðslu upp í áfallna þóknun af fjármunum búsins sem hann hefur í vörslum sinum, en þetta er þó háð því að hann kynni þá ákvörðun sína á skiptafundi og að fé búsins hrökkvi þá að minnsta kosti fyrir rétthærri kröfum áður en þóknun greiðist. Með þeim áskilnaði, að ákvörðun um slíka greiðslu upp í þóknun þurfi áður að vera kynnt á skiptafundi, er ætlast til að tryggt verði að erfingjar eða skuldheimtumenn fái tækifæri til að láta uppi skoðanir sínar um ráðagerð skiptastjórans og að þeir geti þá mótmælt henni og eftir atvikum fengið úrlausn héraðsdómara um hana eftir reglum 47. eða 122. gr. Skiptastjóra væri almennt ekki þörf að kynna ákvörðun sína um greiðslu hverju sinni sem hún stæði fyrir dyrum, heldur væri honum eftir atvikum nægjanlegt að gera skiptafundi til dæmis grein fyrir því að hann hafi í hyggju að fá greiðslu með reglubundnu millibili se.m yrði ákveðin með nánar tilteknum hætti. Þeir sem hefðu hagsmuni af skiptunum gætu síðan fylgst með að ekki hafi verið farið fram úr því sem skiptastjóri kynnti þeim með könnun yfirlita um efnahag og rekstur búsins skv. 49. gr.
    Í ákvæðum 3. og 4. mgr. 48. gr. er mælt fyrir um að skiptastjóri teljist opinber sýslunarmaður við rækslu starfans og að honum beri að bæta tjón sem hann kann að baka öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum, en ekki verður séð að þörf sé sérstakra skýringa á þessum fyrirmælum.

Um 49. gr.


    Í 49. gr. er fjallað um reikningshald skiptastjóra vegna dánarbús, skyldu hans til að gefa skýrslur til yfirvalda um fjármuni þess, t.d. að telja fram til skatts o.s.frv., skyldu hans til að gera eða láta gera yfirlit um efnahag og rekstur búsins með reglubundnu millibili og réttindi erfingja og skuldheimtumanna sem hafa ekki fengið fullnægt kröfum sínum á hendur búinu til að fá aðgang að þessum yfirlitum. Ekki þykir ástæða til að víkja nánar að einstökum atriðum þessa ákvæðis.

Um 50. gr.


    Í 50. gr. er að finna almennar reglur frumvarpsins um skiptafundi, en í frumvarpinu er líkt og í lögum nr. 3/1878 gengið út frá að skiptafundir verði haldnir í ferns konar tilgangi, í fyrsta lagi til að leita eftir afstöðu erfingja til þess hvort þeir taki ábyrgð á skuldbindingum bús, í öðru lagi til að taka afstöðu til krafna á hendur búi, í þriðja lagi til að taka afstöðu til frumvarps að úthlutunargerð við lok skipta og loks í fjórða lagi til að fjalla um ráðstafanir á hagsmunum búsins. Þessir fundir eru þannig haldnir í misjöfnum tilgangi og er umfjöllunarefni á þeim að sama skapi ólíkt. Þrjú fyrstnefndu afbrigði skiptafunda eru sérstaks eðlis því að í hverju þessara tilvika eru slíkir fundir að meginreglu aðeins haldnir einu sinni við skipti dánarbús, umfjöllunarefni þeirra er bundið algerlega við ákveðið efni samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og þar eru hvorki teknar ákvarðanir í eiginlegum skilningi né fara þar fram atkvæðagreiðslur, heldur eru þessir fundir haldnir til að leita afstöðu eða mótmæla þeirra sem eiga hagsmuna að gæta til afmarkaðra atriða þar sem hver og einn þeirra á sín réttindi án tillits til afstöðu meiri hluta. Mun nánari fyrirmæli koma fram um þessa fundi í 53. gr. og ýmsum ákvæðum VII., VIII. og X. kafla. Skiptafundir til að fjalla um ráðstafanir á hagsmunum búsins eru hins vegar í flestum atriðum gerólíkir framangreindum. Slíkir fundir eru að jafnaði fleiri en einn við skipti hvers dánarbús. Þar er fjallað um hvernig verði farið með ýmsa hagsmuni sem má ætla að geti verið mjög misjafnir hverju sinni og því ógerningur að binda nánar í lög hver umfjöllunarefnin geti orðið og á fundunum eru teknar ákvarðanir um ráðstafanir, eftir atvikum með því að greidd séu atkvæði þar sem meiri hluti ræður niðurstöðum að meginreglu. Frekari fyrirmæli koma fram um ákvörðunartöku á þessum fundum í ákvæðum IX. kafla.
    Þrátt fyrir þann mun sem getur verið á skiptafundum samkvæmt framangreindu eru ýmis atriði varðandi þá sameiginleg og taka ákvæði 50. gr. einmitt til þeirra. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að skiptastjóri ákveði hvenær þurfi að halda skiptafundi að því leyti sem ekki er beinlínis mælt fyrir um skyldu til að halda þá, en um slíka skyldu er að ræða varðandi þau þrjú afbrigði skiptafunda sem fyrst voru nefnd hér áður. Er þetta sjálfræði skiptastjóra til að ákveða nauðsyn skiptafundar þannig í reynd bundið við þá fundi sem eru haldnir til að taka ákvarðanir um ráðstöfun hagsmuna dánarbús. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 23. gr. laga nr. 3/1878.
    Í 2. mgr. 50. gr. er mælt fyrir um að skiptastjóri ákveði fundarstað, fundartíma, fyrirvara sem boðað er til fundar með og fundarefni, en vísað er þó til þess að hann kunni að vera bundinn í þessum efnum af öðrum ákvæðum frumvarpsins. Sú aðstaða er uppi varðandi fundarefnin á þeim þrenns konar skiptafundum sem fyrst voru nefndir hér áður og enn fremur um þann fyrirvara sem þarf að vera á boðun skiptafunda skv. 59., 72. og 78. gr. Í niðurlagi 2. mgr. 50. gr. kemur fram sú regla að skiptastjóri eigi að halda þessa fundi á slíkum stað og tíma að ætla megi að sem flestir, sem eigi erindi á fundinn, geti sótt hann með góðu móti. Þessi regla getur ekki orðið meira en til almennra leiðbeininga, enda geta aðstæður verið mjög ólíkar í þessum efnum hverju sinni.
    Í 3. mgr. 50. gr. er síðan mælt fyrir um hvernig boðað verði til skiptafunda og er gert ráð fyrir að þetta verði gert með tilkynningu til hvers og eins sem á rétt til fundarsóknar, en ekki með opinberri auglýsingu eins og nú er talið heimilt þar sem hlutaðeigendur verða að bera áhættu af því hvort fundarboðið fari fram hjá þeim. Nánari fyrirmæli koma fram í ákvæðinu um hvernig verði staðið að sendingu boðunar og hvernig megi bregðast við ef fundarboð misferst, en ekki verður séð að þau fyrirmæli þarfnist frekari skýringa.
    Í 4. og 5. mgr. 50. gr. kemur fram að skiptastjóri stjórni skiptafundum, þar á meðal umræðum og atkvæðagreiðslum sem fara þar fram, að honum sé heimilt að víkja mönnum af fundi ef því er að skipta og að hann færi fundargerðir sem skylt er að kynna fundarmönnum áður en fundi er slitið. Þessi ákvæði skýra sig sjálf og eru hliðstæð núgildandi reglum að öðru leyti en því sem skiptir verulegu máli, að skiptastjóri heldur og stjórnar skiptafundum upp á sitt eindæmi, en eftir lögum nr. 3/1878 gegnir skiptaráðandi þessum störfum og eru fundir haldnir fyrir dómi nema skiptaforstjóri hafi verið löggiltur eftir 91. gr. laganna.

Um 51. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er mælt fyrir um að skiptastjóri taki við skjölum varðandi búskiptin og hvernig fari síðan um varðveislu þeirra og heimildir annarra til aðgangs að þeim. Þessar reglur eru sambærilegar þeim sem nú gilda að öðru leyti en því að skiptaráðendur sinna þeim verkum sem skiptastjórum er hér ætlað. Verður því ekki séð að ástæða sé til að fjalla frekar um þetta ákvæði.

Um 52. gr.


    Í 1. mgr. 52. gr. er að finna reglu um skyldu annarra til að veita skiptastjóra upplýsingar og gögn sem í nær öllum atriðum er hliðstæð ákvæðum 2. og 3. mgr. 10. gr. um skyldu til að veita sýslumanni upplýsingar á fyrri stigum skipta. Má því vísa hér til athugasemda við 10. gr. um þetta.
    Í 2. mgr. 52. gr. er kveðið á um úrræði skiptastjóra ef einhver sá, sem ákvæði 1. mgr. taka til, lætur ekki í té upplýsingar eða gögn sem hann krefst. Getur þá skiptastjóri óskað eftir því við héraðsdómara að hann kveðji hlutaðeiganda fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið eftir almennum reglum um vitni í lögum nr. 85/1936. Gilda þannig ákvæði þeirra laga um hvernig verði nánar staðið að aðgerð sem þessari, þar á meðal um skyldu vitnis til að verða við fyrirmælum dómara um að hafa gögn meðferðis við skýrslugjöf sína, sbr. 3. mgr. 124. gr. nefndra laga, en óþarfi er að fjalla hér frekar um þær reglur.

Um 53. gr.


    Ákvæði 53.–55. gr. heyra til VI. kafla frumvarpsins sem fjallar um fyrstu aðgerðir við opinber skipti.
    Í 53. gr. er kveðið á um eina fyrstu starfsskyldu skiptastjóra sem er að boða þá erfingja sem er vitað um, lögráðamenn þeirra, málsvara eða umboðsmenn til skiptafundar. Á þessum fundi á skiptastjóri annars vegar að leita vitneskju um eignir og skuldbindingar búsins, sbr. 54. og 55. gr., og hugmynda erfingja um hvernig megi ráðstafa eignum, sbr. ákvæði IX. kafla, en hins vegar á hann að leita afstöðu erfingjanna til þess hvort þeir taki að sér ábyrgð á skuldbindingum búsins og hvort ágreiningur sé uppi um erfðaréttindi eftir þann látna. Um þessi síðarnefndu atriði er fjallað 2. og 3. mgr. 53. gr. sem vert er að víkja mun nánar að.
    Í 2. mgr. 53. gr. er kveðið á um nauðsyn þess að skiptastjóri leiti afstöðu erfingja til ábyrgðar á skuldbindingum og hvernig það verði gert. Nokkur skýring kom fram í almennum athugasemdum við því hverja þýðingu það hafi að erfingjar lýsi þessari ábyrgð yfir eða eftir atvikum að þeir geri það ekki, en afleiðingarnar af þessu koma aðallega fram í mismunandi reglum um hvernig skiptin verði framkvæmd og því hvort skuldheimtumenn dánarbúsins geti gengið beint að erfingjum til að leita fullnustu krafna sinna í skjóli ábyrgðar þeirra. Með sama hætti og eftir lögum nr. 3/1878 er gengið út frá þeirri reglu í 2. mgr. 53. gr. að erfingjar teljist ekki hafa tekið þessa ábyrgð að sér nema beinar yfirlýsingar þess efnis komi fram frá þeim öllum og að ekki þyki ástæða eftir fyrirliggjandi upplýsingum tíl annars en að ætla að þeir erfingjar, sem hafa gefið slíkar yfirlýsingar, séu jafnframt þeir einu sem geti kallað til arfs. Þetta hefur meðal annars áhrif á það hvort skiptastjóra sé skylt að leita afstöðu erfingja til skuldaábyrgðar á skiptafundi því að ekki verður gengið eftir þessu ef fyrir fram er útilokað að það þjóni tilgangi. Segir þannig í upphafi 2. mgr. 53. gr. að skiptastjóri haldi fund í þessu skyni ef náð verður til allra sem má telja eftir fyrirliggjandi upplýsingum að geti talið til erfðaréttinda eftir þann látna eða eftir atvikum umboðsmanna þeirra, lögráðamanna eða málsvara. Af þessu verður sú ályktun dregin að ef enginn erfingi er þekktur eða óvissa stendur um hvort fleiri geti talið til arfs en þegar er kunnugt um verði ekki gengið eftir yfirlýsingum um ábyrgðina, enda væri útilokað að þær fengjust frá öllum erfingjum. Þá er í annan stað tekið fram í 2. mgr. 53. gr. að skiptastjóri leiti ekki yfirlýsinga erfingja um þessa ábyrgð ef þeir hafa áður fengið leyfi til einkaskipta, enda hafa þeir þá þurft að láta uppi slíkar yfirlýsingar til að fá það leyfi, sbr. 5. tölul. 28. gr., og teljast bundnir við þá afstöðu þótt til opinberra skipta komi síðar. Undir öðrum kringumstæðum en þessum yrði skiptastjóri hins vegar að láta reyna á það hvort ábyrgðin fengist með því að krefja erfingja svara um afstöðu þeirra til hennar á skiptafundi. Því er nánar lýst í 2. mgr. 53. gr. hvernig gengið verði eftir svörum við þessu og eru reglurnar um þetta að mestu sama efnis og ákvæði 17. og 18. gr. laga nr. 3/1878. Um þær má annars vegar taka fram að erfingjar verða ekki taldir hafa tekið þessa ábyrgð að sér nema yfirlýsingar þess efnis komi fram af hálfu hvers þeirra og eins. Nægir þannig að einn skorist undan ábyrgðinni til að litið verði svo á að enginn erfingjanna hafi tekið hana að sér og skiptir engu í því tilliti hvort sá erfingi eigi rétt til mikils arfs eða hverfandi lítils. Hins vegar er vert að benda á að skiptastjóra er ætlað að leita eftir yfirlýsingum um ábyrgðina á þessum fyrsta skiptafundi sem hann heldur og eftir atvikum að ganga frekar eftir svörum erfingja í framhaldi af þessum fundi ef afstaða þeirra hefur ekki komið þar fram og enginn erfingi hefur enn þá hafnað að taka ábyrgðina að sér. Skiptastjóri getur á hinn bóginn ekki dregið að komast að niðurstöðu um þetta nema skamman tíma því að honum ber að gefa erfingjum, sem hafa ekki látið uppi afstöðu sína á skiptafundinum, tiltekinn frest til þess og ef ekkert svar berst frá þeim jafngildir það því að þeir hafi hafnað að taka ábyrgðina að sér.
    Í 3. mgr. 53. gr. kemur sú meginregla fram að skiptastjóri eigi að kanna af sjálfsdáðum hvort kröfur um arf fái staðist, en af þessu leiðir að hann eigi ekki að láta við það sitja að leita eftir athugasemdum hvers og eins erfingja við arfskröfum annarra, heldur eigi hann eftir atvikum að meta sjálfur hvort þær eigi við rök að styðjast. Þessi athugun skiptastjóra ætti þannig að taka til þess hvort krafa um arf á grundvelli lögerfðaréttinda standist eftir fyrirmælum I. kafla erfðalaga, nr. 8/1962, og hvort krafa um bréfarf styðjist við erfðagerning þess látna. Ef erfðagerningi þess látna væri framvísað til stuðnings arfskröfu brysti skiptastjóri hins vegar heimild til gera athugasemdir við hana þótt hann teldi annmarka vera á gerningnum því að eftir ákvæðum VI. og VIII. kafla erfðalaga eru það eingöngu erfingjar og eftir atvikum Erfðafjársjóður sem hafa heimild til að vefengja erfðaskrá í því skyni að tillit verði ekki tekið til hennar við skipti. Í 3. mgr. 53. gr. er að öðru leyti gert ráð fyrir að skiptastjóri leitist við að útkljá þegar á fyrstu stigum opinberra skipta hverjir geti átt réttindi til arfs og beini þá eftir atvikum ágreiningi um það til héraðsdóms, sbr. 122. gr.

Um 54. og 55. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er mælt fyrir um fyrstu aðgerðir skiptastjóra til að fá upplýst hverjar séu eignir og skuldbindingar dánarbúsins, upphafsráðstafanir hans til að tryggja varðveislu eigna og heimildir hans til að afhenda þær maka eða öðrum erfingjum þess látna þegar á þessu stigi.
    Í 1. mgr. 54. gr. er kveðið á um að skiptastjóri eigi þegar við upphaf opinberra skipta að leita upplýsinga um hverjar eignir búsins séu, hvar þær séu varðveittar og hverjir fari með umráð þeirra og að honum sé rétt að taka eignirnar í sínar hendur ef þeim er ekki tryggilega fyrir komið í höndum annarra, en þessar reglur eiga sér hliðstæður í 12., 15. og 16. gr. laga nr. 3/1878. Í 54. gr. er að öðru leyti mælt fyrir um heimildir skiptastjóra til að koma eignum búsins þegar í stað í hendur maka eða annarra erfingja þess látna, eftir atvikum án þess að þurfa áður að taka þær í sínar vörslur. Kostirnir í þessum efnum koma fram í 2. og 3. mgr. 54. gr. þar sem annars vegar er kveðið á um heimild til að afhenda þegar í stað maka þess látna eignir sem hann vill leysa til sín umfram arfs- og búshluta sinn gegn peningagreiðslu, sbr. 35. gr., og hins vegar um heimild til að afhenda erfingjum eignir sem þeir vilja fá lagðar sér út við skiptin til greiðslu á arfi, sbr. 36. gr., enda hafi þeir þá tekið að sér ábyrgð á skuldbindingum búsins eða skuldbindingarnar þegar verið efndar að fullu. Þegar um er að ræða innlausn maka á eignum eða útlagningu eigna til erfingja verður að liggja fyrir hvert verðgildi eignanna sé til þess að unnt verði að ákveða hvað eigi að greiðast við innlausn eða koma í hlut hvers við útlagningu og er því ráðgert í 2.–4. mgr. 54. gr. að skiptastjóri leiti mats á eignunum eftir reglum 17.–23. gr. ef maki eða aðrir erfingjar óska eftir ráðstöfunum sem þessum. Hjá þessu getur skiptastjóri þó komist eftir 2. og 3. mgr. 54. gr., annars vegar ef slíkt mat hefur þegar verið fengið á fyrri stigum og hins vegar ef hlutaðeigendur eru sammála um verðgildi þeirra eigna sem kemur til álita að ráðstafa með þessum hætti og skiptastjóri telur fært að leggja það samkomulag til grundvallar, eftir atvikum af tilliti til hagsmuna lánardrottna eða vegna ákvörðunar á gjaldstofnum til greiðslu erfðafjárskatts. Í 5. mgr. 54. gr. er loks mælt fyrir um hvernig brugðist verði við ágreiningi milli erfingja og eftir atvikum maka þess látna um heimildir til innlausnar á eignum eða útlagningu á þeim, en skiptastjóra er þá ætlað að reyna að jafna slíkan ágreining og að beina honum til héraðsdóms til úrlausnar eftir 122. gr. ef sættir takast ekki.
    Með umræddum reglum 2.–5. mgr. 54. gr. er leitast við að stuðla að því að einfalda opinber skipti og flýta þeim svo sem frekast er kostur með því að skiptastjóriþurfi ekki að taka eignir búsins í sínar vörslur og koma þeim síðan í verð, heldur geti hann þegar við upphaf skiptanna komið eignunum í hendur maka eða annarra erfingja þess látna. Sams konar aðferðum er nú beitt í framkvæmd á grundvelli laga nr. 3/1878 og gefa góða raun. Hins vegar ber að hafa í huga að aðgerðir sem þessar eru háðar því að sá látni láti eftir sig maka, sbr. 2. mgr. 54. gr., eða eftir atvikum að erfingjar hans taki að sér ábyrgð á skuldbindingum búsins, sbr. 3. mgr. 54. gr., auk þess sjálfgefna skilyrðis að hlutaðeigendur æski þessara ráðstafana. Ef þessum aðgerðum verður ekki komið við eða ef eignum er aðeins ráðstafað að hluta með þessum hætti verður skiptastjóri að fara með eignirnar eftir reglum IX. kafla, sem er nánar lýst hér síðar.
    Í 55. gr. er gert ráð fyrir að skiptastjóri framkvæmi nokkra könnun á skuldbindingum búsins þegar í stað við upphaf opinberra skipta, en þessi regla á sér hliðstæðu í 15. gr. laga nr. 3/1878. Ekki verður ætlast til að skiptastjóri gengi lengra í þessari könnun en að athuga gögn þess látna, t.d. skattframtöl, beina fyrirspurnum til erfingja og leita upplýsinga sem mætti ganga greiðlega að, t.d. um þinglýstar veðskuldir á eignum búsins, ógreidd opinber gjöld o.s.frv. Umfang könnunarinnar gæti einnig ráðist að nokkru af því hvort erfingjar tækju að sér ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins því að ef sú ábyrgð fengist ekki væri skylt að gefa út innköllun til skuldheimtumanna, sbr. 56. gr., sem yrðu þá að gefa sig fram sjálfir og væri þá könnun skiptastjóra skv. 55. gr. nánast ofaukið. Ef erfingjar tækju hins vegar að sér ábyrgð á skuldbindingum væri háð vilja þeirra hvort innköllun yrði gefin út til skuldheimtumanna, sbr. 63. gr., en ef innköllun væri ekki gefin út yrði meiri þörf á könnun skiptastjóra og yrði hann þá að hafa hliðsjón af óskum erfingja í þessum efnum.

Um 56. gr.


    Í 56.–62. gr., sem heyra til VII. kafla frumvarpsins, koma fram sérreglur um hvernig verði farið með kröfur á hendur dánarbúi ef erfingjar hafa ekki fengist til að ábyrgjast skuldbindingar þess eftir fyrrnefndri 53. gr. Þessar reglur eru talsvert frábrugðnar ákvæðum 3. kapítula laga nr. 3/1878, en eiga sér hins vegar um margt fyrirmyndir í XVI. kafla gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, að öðru leyti en því að í frumvarpinu er gengið út frá að skiptastjóri annist ýmis viðfangsefni sem ákvæði gjaldþrotalaga fela skiptaráðendum.

    Í 1. mgr. 56. gr. er mælt fyrir um skyldu skiptastjóra til að gefa út og fá birta innköllun til þeirra sem telja til réttinda á hendur dánarbúi ef erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum þess eða óvissa er um hvort þeir hafi allir gefið sig fram. Hér er um að ræða fortakslausa skyldu við þessar aðstæður eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 3/ 1878. Í 2. mgr. 56. gr. er kveðið á um hvað þurfi að koma fram í innköllun og er þar í flestum atriðum stuðst við venjur í þessum efnum í framkvæmd sem hafa byggst á fyrirmælum 20. og 21. gr. laga nr. 3/1878. Þó ber að vekja athygli á því að í 56. gr. frumvarpsins kemur fram að kröfulýsingarfrestur verði tveir mánuðir frá því innköllun birtist fyrra skiptið af tveimur í Lögbirtingablaði, sbr. 3. mgr. 56. gr., en hér er um breytingu að ræða frá núgildandi reglum því að innköllun þarf nú að birtast þrívegis og kröfulýsingarfrestur er fjórir mánuðir frá þriðju birtingu talið. Þessi breyting er lögð hér til í samræmi við 3. mgr. 19. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6 1978, enda hafa reglur um þessi efni við opinber skipti dánarbúa leitt til þarflausra tafa.
    Rétt er að benda á að í 56. gr. er ekki kveðið á um skyldu skiptastjóra til að tilkynna þekktum lánardrottnum um innköllun og kröfulýsingarfrestinn, heldur er ætlast til að þeir sem eigi kröfur á hendur búinu verði að gæta réttinda sinna ótilkvaddir. Er með þessu lagt til afnám reglu í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 3/1878 þar sem mælt er fyrir um takmarkaða skyldu til tilkynninga um þetta efni, en ekki hefur verið farið eftir þeirri reglu í framkvæmd um langa hríð.

Um 57. gr.


    Í 57. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig skuldheimtumenn og aðrir, sem telja til réttinda á hendur dánarbúi, komi fram réttindum sínum við opinber skipti þar sem erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar búsins, en þetta verður að jafnaði gert með kröfulýsingu eins og eftir núgildandi reglum.
    Fyrirmæli 1. og 2. mgr. 57. gr. um efni kröfulýsingar og fylgigögn með henni eiga sér ekki hliðstæðu í 36. gr. laga nr. 3/1878, en þau byggjast á venjum í þessu sambandi í framkvæmd. Er þannig ráðgert í 1. mgr. 57. gr. að kröfulýsing verði í meginatriðum gerð á þann hátt að hún geymi sambærileg atriði og verða að koma fram í stefnu í einkamáli eftir ákvæðum 88. gr. laga nr. 85/1936 og skv. 2. mgr. 57. gr. verða gögn að fylgja henni með sama hætti og ef verið væri að höfða einkamál um þá kröfu sem er höfð uppi.
    Í 3. og 4. mgr. 57. gr. kemur fram að beina eigi kröfulýsingu til skiptastjóra, en með þessu er ráðgerð breyting frá skipan laga nr. 3/1878 og 6/1978 þar sem byggt er á því að kröfum verði lýst fyrir skiptaráðanda. Kemur fram í 3. mgr. að skiptastjóri eigi að staðfesta móttöku kröfulýsingar ef leitað er eftir því sem er sambærileg regla og kemur fram um staðfestingu skiptaráðanda í þessum efnum í 2. mgr. 107. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978. Þessari reglu er ætlað að gefa þeim sem lýsir kröfu kost á að tryggja sér sönnur fyrir að henni hafi verið komið á framfæri. Í 4. mgr. 57. gr. kemur síðan fram að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem honum barst kröfulýsingin, en þessi regla er efnislega sú sama og nú kemur fram í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 3/1878.

Um 58. gr.


    Í fræðikenningum og framkvæmd hefur verið gengið út frá þeirri meginreglu að innköllun við opinber skipti dánarbús hafi þau áhrif að þær kröfur falli niður sem ekki er lýst innan kröfulýsingarfrests, en í þessum efnum hefur verið tekið svo til orða að innköllun hafi „præklusiv“ eða útilokandi áhrif. Vissar undantekningar hafa þó verið gerðar frá þessari meginreglu. Þrátt fyrir mikilvægi þessarar meginreglu og afdrifaríkar afleiðingar sem hún getur haft fyrir réttindi annarra á hendur dánarbúi er ekki mælt fyrir um tilvist hennar eða efni í núgildandi lögum og aðeins er vikið að nokkru marki að undantekningum frá henni. Í 58. gr. frumvarpsins er leitast við að ráða bót á þessu með því að kveða afdráttarlaust á um þessa reglu í upphafi 1. mgr. og tiltaka síðan undantekningar frá henni í öðrum fyrirmælum 1. mgr., svo og í 2. og 3. mgr. Efnislega eru fyrirmæli 58. gr. í samræmi við fræðikenningar á þessu sviði, dómafordæmi og framkvæmdarvenjur, auk þess að tekin eru þar upp ákvæði sem snúa að þessu í 21. gr. laga nr. 3/1878 og IX. kafla og 111. gr. laga nr. 6/1978. Í þessu ljósi þykir ekki tilefni til að fjalla hér frekar um einstök atriði 58. gr.

Um 59. og 60. gr.


    Í 37. og 38. gr. laga nr. 3/1878 eru reglur um hvernig afstaða verði tekin til þess hvort lýstar kröfur á hendur dánarbúi verði viðurkenndar við opinber skipti og þar með efndar eftir því sem fjárhagur búsins leyfir. Þar er gert ráð fyrir að skiptaráðandi geri skrá um kröfurnar þegar að loknum kröfulýsingarfresti og boði síðan til skiptafundar þar sem hlutaðeigendum gefst kostur á að hafa uppi andmæli gegn kröfum. Ef ágreiningur verður um kröfu er mælt fyrir um að leyst verði úr honum í dómsmáli sem ber að með nánar tilgreindum hætti og verður rekið fyrir skiptarétti. Í þessum reglum er gert ráð fyrir fremur seinlegri meðferð og um margt ofauknum frestum, auk þess að erfiðlega getur gengið að ná fram málalokum um viðurkenningu krafna.
    Í 59. og 60. gr. frumvarpsins eru lagðar til reglur varðandi þau atriði sem 37. og 38. gr. laga nr. 3/1878 taka til. Í þessum ákvæðum frumvarpsins er gert ráð fyrir talsverðum breytingum frá eldri reglum sem er ætlað að ráða bót áðurgreindum ókostum þeirra, en 59. og 60. gr. eiga sér beina fyrirmynd í reglum 108.–110. gr. laga nr. 6/1978 sem fjalla um sömu atriði við gjaldþrotaskipti og hafa gefið góða raun í framkvæmd.
    Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. á skiptastjóri að gera svokallaða kröfuskrá þegar í stað eftir lok kröfulýsingarfrests eða eftir atvikum jafnharðan og kröfur berast meðan á frestinum stendur. Í þessari skrá á að tiltaka kröfur sem hefur verið lýst á frestinum með því að geta hver hafi hverja þeirra uppi, hvers efnis þær séu, t.d. með tilgreiningu fjárhæða peningakrafna og hverrar stöðu hafi verið krafist að þær njóti í skuldaröð, og hver afstaða skiptastjóra sé til viðurkenningar hverrar kröfu um sig. Mælt er beinlínis fyrir um að skiptastjóri eigi að taka sjálfstæða afstöðu til viðurkenningar krafna, en með því orðalagi er átt við að hann eigi ekki til dæmis að leita viðhorfa erfingja eða annarra til einstakra krafna áður en hann gerir skrána, heldur eigi hann að meta hvort sýnt sé nægilega fram á réttmæti kröfu í kröfulýsingu og fylgigögnum með henni, eftir atvikum í ljósi gagna sem hann kann að hafa undir höndum úr skjalasafni eða bókhaldi þess látna. Í 1. mgr. 59. gr. er gengið út frá að í kröfuskrá verði getið allra krafna sem hafa komið fram innan kröfulýsingarfrests með þeirri undantekningu sem er þó ekki nefnd berum orðum að ástæðulaust væri að greina sérstaklega frá arfskröfum sem kunna að hafa borist, enda sæta þær meðferð eftir öðrum reglum, sbr. 53. gr. Skiptastjóra er sem áður segir ætlað að taka afstöðu til þess í kröfuskrá hvort viðurkenna eigi hverja kröfu um sig, en mælt er þó sérstaklega fyrir um undanþágu frá þeirri skyldu ef um kröfur er að ræða sem verður talið víst í ljósi efnahags dánarbúsins að fáist ekki greiddar, enda mundi erfiði við mat á slíkum kröfum ekki þjóna neinum tilgangi. Reglur 1. mgr. 59. gr. eru að verulegu leyti sambærilegar ákvæðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 6/1978 eins og þeim hefur verið beitt í framkvæmd.
    Í 2. mgr. 59. gr. er kveðið á um að skiptastjóri eigi að hoða erfingja og þá sem hafa lýst kröfum til sérstaks skiptafundar til að fjalla um kröfuskrána. Í ákvæðinu eru fyrirmæli um efnisatriði fundarboðs, með hverjum fyrirvara það verði að berast hlutaðeigendum og hver gögn eða upplýsingar þurfi að fylgja fundarboði. Verður ekki séð að einstök atriði ákvæðisins þarfnist sérstakra skýringa.
    Í 60. gr. frumvarpsins er síðan að finna reglur um hvernig því verði ráðið til lykta hvort eða hvernig einstakar kröfur verði viðurkenndar við skiptin, en þær eru hliðstæðar ákvæðum 110. gr. laga nr. 6/1978. Í 60. gr. kemur nánar fram að sú afstaða skiptastjóra til viðurkenningar hverrar kröfu um sig, sem honum er ætlað að setja fram í kröfuskrá, hafi öðru fremur þýðingu í þessum efnum því að sé afstöðu hans er ekki mótmælt bréflega eða munnlega á skiptafundinum sem er boðað til eftir 2. mgr. 59. gr. telst hún endanleg niðurstaða um viðurkenningu kröfunnar við búskiptin, sbr. 3. mgr. 60. gr. Gildir einu í þessu sambandi hvort afstaða skiptastjóra sé sú að viðurkenna eigi tiltekna kröfu að fullu, að vissum hluta eða að engu leyti og bindandi áhrif afstöðunnar eru þau sömu fyrir alla hlutaðeigendur hvort sem er erfingja, kröfuhafa og skiptastjórann sjálfan. Vegna þessa mikilvægis afstöðu skiptastjóra má vera ljóst að hún þurfi að koma fram með svo skýlausum hætti í kröfuskrá að hægt sé að leggja hana til grundvallar um afdrif kröfunnar ef afstaðan sætir engum mótmælum og verður því að tiltaka hana af nákvæmni og án fyrirvara. Vilji einhver ekki una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu á sá þann kost einan eftir 1. mgr. 60. gr. að koma mótmælum á framfæri með þeim hætti sem þar er nánar lýst. Samkvæmt þessu ákvæði getur kröfuhafi mótmælt þeirri afstöðu sem skiptastjóri hefur tekið til viðurkenningar á kröfu hans sjálfs, en einnig getur hann mótmælt afstöðu til viðurkenningar krafna annarra. Erfingjar geta enn fremur haft uppi mótmæli gegn afstöðu skiptastjóra, en eftir 1. mgr. 60. gr. er þessi réttur til mótmæla þó alltaf háður því að sá sem hafi þau uppi, hvort sem er erfingi eða kröfuhafi, hafi hagsmuni af því að fá afstöðunni hrundið. Þannig gæti til dæmis kröfuhafi, sem hefur fengið viðurkennda forgangskröfu, ekki mótmælt að skiptastjóri viðurkenni réttlægri kröfu, enda hefði niðurstaða um síðarnefndu kröfuna engin áhrif á það hvort forgangskrafan fengist greidd við skiptin. Í 2. mgr. 60. gr. er að finna nánari fyrirmæli um hvernig sá skiptafundur fari fram þar sem fjallað er um kröfuskrána og hvernig skiptastjóri eigi að bregðast við mótmælum gegn afstöðu sinni til viðurkenningar kröfu og eftir atvikum að beina ágreiningi um hana til héraðsdómara til úrlausnar, sbr. 122. gr. Einstök atriði í þessu sambandi þykja ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 61. gr.


    Í 61. gr. er fjallað um hvernig skiptastjóri eigi að fara með kröfu sem berst honum ekki fyrr en eftir lok kröfulýsingarfrests, en sú meðferð er nánast sú sama og mælt er fyrir um í 59. og 60. gr. að teknu tilliti til þess að í tilviki sem þessu yrði ekki gerð kröfuskrá, heldur tæki skiptastjóri hér afstöðu til einnar tiltekinnar kröfu og boðað yrði til sérstaks skiptafundar til að fjalla um hana nema hún hafi borist svo skömmu eftir lok kröfulýsingarfrests að unnt væri að taka hana fyrir á skiptafundinum sem er haldinn til að fjalla um kröfuskrá. Að einu leyti er þó gert ráð fyrir að krafa sem kæmi of seint fram geti sætt annars konar meðferð en nú var lýst. Í upphafi 61. gr. segir að skiptastjóri eigi að fara með kröfu á framangreindan hátt ef hún berst honum eftir lok kröfulýsingarfrests en ekki er víst að hún sé fallin niður af þeim sökum. Af þessum orðum ber að draga þá ályktun að skiptastjóri verði fyrst í stað að athuga hvort krafan verði talin endanlega fallin niður fyrir vanlýsingu eða hvort einhver undanþága 58. gr. geti átt við þannig að henni megi allt að einu koma að þótt um síðir sé. Ef skiptastjóri teldi kröfuna endanlega fallna niður eftir fyrirmælum 58. gr. þyrfti hann hvorki að taka frekari afstöðu til réttmætis hennar né boða til skiptafundar til að fjalla um hana, heldur gæti hann látið við það sitja að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um þá niðurstöðu sína. Ef kröfuhafinn vildi ekki sæta þessu ætti hann heimtingu á að skiptastjóri legði ágreining þeirra fyrir héraðsdómara til úrlausnar, sbr. 122. gr.

Um 62. gr.


    Í 62. gr. koma fram reglur sem mæla fyrir um viss þáttaskil við framkvæmd opinberra skipta þegar skiptafundur er haldinn til að fjalla um kröfuskrá og erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins. Ákvæði frumvarpsins miða að því að þegar slík ábyrgð hefur ekki fengist verði aðgerðum við opinber skipti hagað á þann veg fram að þessum skiptafundi að tekið verði jöfnum höndum tillit til hagsmuna erfingja og kröfuhafa, sbr. 69. gr., og leitast við að sneiða hjá ráðstöfunum sem gætu orðið öðrum hvorum hópnum til tjóns eða íþyngingar. Á skiptafundi, sem er haldinn til að fjalla um kröfuskrá, verður hins vegar leitt í ljós hverjar kröfur séu þegar viðurkenndar og hverjar kunni að hljóta viðurkenningu á síðari stigum þegar ágreiningur um þær yrði leiddur til lykta, þannig að tiltölulega skýrar línur fást þar um hverjar skuldbindingar geti í mesta lagi hvílt á búinu. Þegar komið er að þessum fundi ættu að sama skapi að hafa átt sér stað nægilegar aðgerðir til að áætla megi með nokkurri vissu hvers virði eignir búsins komi til með að verða. Á fundinum ættu þannig að öðru jöfnu að vera skilyrði til að komast að raunhæfri niðurstöðu um hvort eignir dánarbúsins muni nægja til að fullnægja skuldbindingum þess og afgangur þeirra að renna til erfingja eða hvort eignir hrökkvi hér ekki til. Á þessu stigi á með öðrum orðum að vera unnt að slá því föstu hvort skiptin muni upp frá því fara fram með hagsmuni erfingja að leiðarljósi með því að eignir nægi til greiðslu skulda og arfs eða hvort skiptin fari fram með hagsmuni lánardrottna að leiðarljósi með því að eignir hrökkvi ekki til að greiða kröfur þeirra að fullu. Hér er því hægt að ákveða hvor hópurinn muni ráða ferðinni við frekari aðgerðir, erfingjar eða kröfuhafar og yrði þannig það tímabil liðið undir lok þar sem tekið væri tillit til hagsmuna beggja hópanna í senn.
    Til þess að leiða til þeirra þáttaskila, sem hér um ræðir, er ætlast til þess í 1. mgr. 62. gr. að skiptastjóri geri grein fyrir því á skiptafundinum sem hann heldur til að fjalla um kröfuskrá hvernig hann meti efnahagsstöðu búsins og hvort hann muni upp frá því fara með skiptin af tilliti til hagsmuna erfingja, sbr. 2. mgr. 62. gr., eða kröfuhafa, sbr. 3. mgr. 62. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. er það forsenda þess að skiptastjóri fari með búið frá þessum tíma með hagsmuni erfingja að leiðarljósi þótt þeir hafi ekki lýst yfir ábyrgð á skuldum búsins að hann telji víst að andvirði eigna þess muni nægja til að efna þær kröfur sem teljast þegar viðurkenndar á skiptafundinum, að viðbættri heildarfjárhæð krafna sem ágreiningur kann að standa um eða mætti enn þá koma að eftir lok kröfulýsingarfrests samkvæmt undantekningarreglum 58. gr. og kunnugt væri um þá þegar. Hér ber að leggja áherslu á það skilyrði 2. mgr. 62. gr. að skiptastjóri telji víst að staða búsins sé sú sem hér um ræðir. Ef vafi væri þannig um hvort andvirði eigna kunni að nægja til fullnustu skuldbindinga yrði ekki korrlist hjá að skiptastjóri færi þannig að sem lýst er í 3. mgr. ákvæðisins. Í þessu sambandi má þó benda á að erfingjar gætu valið þann kost að lýsa yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins á þessu stigi þótt óvíst væri hvort eignir nægi fyrir skuldum eða jafnvel sýnt að þær muni ekki nægja, en slík yfirlýsing þeirra hefði sjálfkrafa í för með sér að ákvæði VIII. kafla frumvarpsins ættu við um framkvæmd skiptanna upp frá því og kæmi þannig ekki til kasta þeirrar leiðar sem kveðið er á um í 3. mgr. 62. gr.
    Ef efnahagsstaða dánarbúsins er slík að hægt sé að telja umræddum skilyrðum 2. mgr. 62. gr. fullnægt er mælt svo fyrir í ákvæðinu að skiptastjóri greiði annars vegar þær kröfur á hendur búinu sem eru gjaldfallnar og viðurkenndar og taki hins vegar frá fé til að standa skil á þeim kröfum sem ekki eru komnar í gjalddaga, ágreiningur stendur um, háðar eru ókomnum skilyrðum eða vitað er um að megi koma að samkvæmt reglum 58. gr. þótt þeim hafi ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests. Eftir atvikum yrðu greiðslur eða frátaka fjármuna í þessu skyni að eiga sér stað á einhverjum tíma, allt eftir því hvort eignum hafi verið komið í verð í nægilegum mæli til að standa undir þeim aðgerðum. Þá er mælt svo fyrir í 2. mgr. 62. gr. að ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt skuli skiptastjóri, eftir því sem á við, haga frekari aðgerðum við skiptin eftir þeim reglum sem gildi þegar erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins þótt slíkar yfirlýsingar hafi ekki verið gefnar. Með þessu er með öðrum orðum verið að beina skiptunum inn á þá braut að erfingjar fari einir með atkvæði á skiptafundum um ráðstafanir á hagsmunum búsins, sbr. ákvæði IX. kafla, að leggja megi erfingjum út eignir til fullnustu á kröfum þeirra um arf, sbr. 3. mgr. 54. gr. og 75. gr., og að skiptum megi ljúka eftir ákvæðum X. kafla að því leyti sem þau geta átt við án þess að erfingjar hafi berum orðum lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins. Um síðastgreint atriði ber að hafa í huga að sumar reglur X. kafla gera ráð fyrir að skiptum verði lokið án þess að ráðstafanir verði gerðar til að greiða lýstar eða þekktar kröfur eða taka frá fé fyrir þeim. Slík málalok eru háð því að erfingjar standi í ábyrgð fyrir skuldbindingum búsins, enda geta þá öfullnægðir kröfuhafar gengið að erfingjunum í stað þess að krefjast fullnustu við skiptin. Þessi málalok kæmu hins vegar aldrei til greina í þeim tilvikum þar sem framkvæmd skiptanna réðist af 2. mgr. 62. gr. því að erfingjar hefðu ekki tekið umrædda ábyrgð að sér, enda er beinlínis tekið fram fyrr í ákvæðinu að skiptastjóri eigi í þessum tilvikum að greiða allar kröfur eða taka frá fé til að standa skil á þeim á síðari stigum.
    Ef efnahagur dánarbús er ekki með þeim hætti að því megi slá föstu að eignir muni nægja fyrir skuldum er mælt svo fyrir í 3. mgr. 62. gr. að skiptastjóri verði að taka þá ákvörðun að frekari framkvæmd skiptanna fari eftir lagareglum um gjaldþrotaskipti, en þessa ákvörðun yrði hann að kynna á skiptafundinum þar sem fjallað væri um kröfuskrá og hann yrði einnig að tilkynna héraðsdómara um hana. Þegar þannig stæði á væri um það að ræða að dánarbúið teldist ógjaldfært, en lagafyrirmæli um gjaldþrotaskipti taka einmitt gagngert til búskipta við þær aðstæður. Þessi tilhögun í 3. mgr. 62. gr. leiðir þannig til þess að ekki þurfi að gera ráð fyrir sérstökum fyrirmælum í frumvarpinu um hvernig staðið verði að skiptum á ógjaldfæru dánarbúi, en eins og vikið var að í almennum athugasemdum hér á undan þykir þessi leið horfa til mikillar einföldunar því að ella hefði orðið að taka hér upp efnislega fjölda reglna úr löggjöf um gjaldþrotaskipti að ófyrirsynju.
    Tekið er fram í 3. mgr. 62. gr. að sú breyting, að framkvæmd opinberra skipta færist af sviði reglna þessa frumvarps yfir á svið reglna um gjaldþrotaskipti, eigi sér stað með því einu að skiptastjóri kunngeri ákvörðun sína um það og þurfi ekki sérstakan dómsúrskurð eða frekari tilkynningar, auglýsingar eða innköllun. Er þannig gert ráð fyrir að það nægi að þetta sé tilkynnt héraðsdómstólnum þar sem úrskurður gekk um að opinber skipti skyldu fara fram á dánarbúinu, jafnframt því að greint sé frá þessu á skiptafundi. Helstu afleiðingarnar af þessari ákvörðun yrðu þær að kröfur á hendur dánarbúinu teldust sjálfkrafa fallnar í gjalddaga þótt umsaminn efndatími væri enn ókominn, neyta mætti heimilda til skuldajafnaðar eftir sérreglum sem gilda við gjaldþrotaskipti, ákvörðunartaka um ráðstafanir á hagsmunum búsins færi eftir reglum um gjaldþrotaskipti en ekki fyrirmælum IX. kafla þessa frumvarps, höfða mætti mál til riftunar á ráðstöfunum þess látna, skuldheimtumenn ættu mun víðtækari rétt til að framfylgja kröfum sínum á hendur búinu vegna heimilda til að krefjast nauðungarsölu á eignum þess, greiðsla krafna færi eftir sérreglum um skuldaröð við gjaldþrotaskipti og sömuleiðis hvernig staðið yrði að því að ljúka skiptum og eftir atvikum gætu erfingjar leitað nauðasamnings fyrir dánarbúið.
    Í niðurlagi 3. mgr. 62. gr. er tekið fram að ef ákveðið hefur verið að fara með dánarbú eftir reglum um framkvæmd gjaldþrotaskipta og eignir reynast vera fyrir hendi að greiddum skuldum leiði það til þeirrar breytingar að farið verði með skiptin frá þeim tíma eftir reglum 2. mgr. 62. gr. að því leyti sem ráðstöfunum hefur ekki verið lokið.
    Í 4. mgr. 62. gr. er gert ráð fyrir að erfingjar eða kröfuhafar kunni að vera annarrar skoðunar um efnahag dánarbús en skiptastjóri, en með því að ákvörðun hans um hvort farið verði eftir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins hefði umtalsverðar afleiðingar í för með sér fyrir hagsmuni hlutaðeigenda þykir eðlilegt að veita þeim rétt til að fá úrlausn héraðsdómara um hvort sú ákvörðun verði talin á rökum reist. Telja verður ólíklegt að ákvörðun um þessi efni gæti oft orðið tilefni til málefnalegs ágreinings.

Um 63.–66. gr.


    Ákvæði 63.–66. gr. mynda VIII. kafla frumvarpsins og fjalla um meðferð krafna á hendur búi ef erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum þess, en þau eru í mörgum atriðum hliðstæð reglum 4. kapítula laga nr. 3/1878. Verulegur munur er á reglum um meðferð krafna á hendur dánarbúi eftir því hvort erfingjar hafi lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum þess eða ekki, bæði í núgildandi lögum og ákvæðum þessa frumvarps. Þetta byggist á því að þegar erfingjar hafa lýst þessari ábyrgð yfir fara skiptin að öllu leyti fram í þágu þeirra en ekki í þágu skuldheimtumanna, enda geta skuldheimtumenn þá neytt réttar til að ganga að einum eða fleiri erfingjum til að fá fullnustu á kröfum sínum án tillits til framvindu skiptanna, sbr. 66. gr. Af þessum ástæðum er gengið út frá því að erfingjar upplýsi almennt að fyrra bragði hverjar skuldbindingar hvíli á dánarbúinu og láti eftir atvikum uppi hvort þeir vilji láta efna þær við skiptin eða ætli sér að sjá um greiðslu þeirra sjálfir, en til undantekninga heyri að skuldheimtumenn gefi sig fram við skiptin til að krefjast fullnustu. Í þessu ljósi og að fenginnireynslu af framkvæmd eftir núgildandi lögum eru ekki lagðar til yfirgripsmiklar reglur ífrumvarpinu um hvernig verði farið með kröfur á hendur þessum dánarbúum.
    Í 63. gr. er með sama hætti og í núgildandi lögum gengið út frá því að almennt komi ekki til þess að innköllun verði gefin út til skuldheimtumanna við opinber skipti þar sem erfingjar hafa ábyrgst skuldbindingar dánarbúsins, heldur verði þetta því aðeins gert að einn eða fleiri erfingjar óski sérstaklega eftir því þegar við upphaf skipta eða annars svo fljótt að það fái samrýmst því sem hefur þegar verið gert við skiptin og leiði ekki til þarflausra tafa á framkvæmd þeirra. Ef innköllun yrði gefin út við þessar aðstæður sem hefur heyrt til undantekninga eftir núgildandi lögum yrði hún sama efnis og kveðið er á um í ákvæðum VII. kafla frumvarpsins, kröfulýsingarfrestur yrði sá sami, kröfulýsingar yrðu að vera gerðar eins úr garði og þeim mundu fylgja sömu réttaráhrif og innköllunin hefði sömu áhrif og mælt er fyrir um í 58. gr. ef kröfu yrði ekki lýst. Frekar gæti hins vegar reynt á þá heimild, sem er kveðið á um í 3. mgr. 63. gr., til að skuldheimtumenn megi lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra án þess að innköllun hafi verið gefin út, en slík kröfulýsing mundi þá veita skuldheimtumanni rétt til að fá fullnustu ef krafa hans yrði viðurkennd, hún væri komin í gjalddaga og eignir væru enn fyrir hendi til að greiða hana.
    Í 64. gr. koma fram reglur um hvernig leyst verði úr hvort lýst krafa verði viðurkennd og eftir atvikum efnd við skiptin hvort sem innköllun hefur verið gefin út eða kröfu hefur verið lýst án innköllunar. Er gert ráð fyrir því að skiptastjóri boði erfingja til skiptafunda til að fjalla um lýstar kröfur, ýmist jafnharðan og hver krafa kemur fram eða til að fjalla um fleiri kröfur í senn. Erfingjum gefst kostur á að hafa uppi mótmæli gegn kröfum á þessum skiptafundum, en skiptastjóri á hér ekki að taka afstöðu til krafna andstætt því sem mælt er fyrir um í 59. gr. og áður var lýst. Komi fram mótmæli af hálfu erfingja gegn lýstri kröfu er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 64. gr. að skiptastjóri leiti sátta um ágreininginn, en beri sú viðleitni ekki árangur vísi hann ágreiningnum til héraðsdómara til úrlausnar. Ef mótmæli koma hins vegar ekki fram á skiptafundi þar sem krafa hlýtur umfjöllun leiðir það til þess eftir 3. mgr. 64. gr. að hún teljist endanlega viðurkennd við skiptin.
    Fyrirmæli koma fram í 3. mgr. 64. gr. og 65. gr. um heimildir þeirra sem telja til réttinda á hendur dánarbúi til að krefjast efnda undir þessum kringumstæðum og hver áhrif þeir geti haft á framkvæmd skiptanna. Kemur þannig í fyrsta lagi fram í 3. mgr. 64. gr. að ef krafa hefur verið viðurkennd og efndatími hennar er kominn eigi skiptastjóri að efna hana ef fjárhagur búsins leyfir nema erfingjar efni hana sjálfir eða nái samkomulagi við kröfuhafann um að gera það á síðara stigum gegn því að hann falli frá henni gagnvart búinu. Ef þannig stæði á að skiptastjóra bæri að efna fleiri kröfur en eina kemur fram í ákvæðinu að það skuli gert í þeirri röð sem þeim var lýst, en á þessum vettvangi gilda ekki reglur um skuldaröð eftir efni eða uppruna krafna. Þótt það sé ekki tekið fram í 3. mgr. 64. gr. verður sú ályktun dregin af ákvæðinu að ef á annað borð væri orðið skylt að efna kröfu sem hefur verið lýst væri óheimilt áður að efna kröfu sem hefur ekki verið lýst en erfingjar hafa bent á og óskað eftir að yrði fullnægt, nema því aðeins að fé búsins hrökkvi fyrir þeim báðum. Getur þannig skuldheimtumaður öðlast forgangsrétt til greiðslu af fjármunum búsins með lýsingu kröfu sinnar umfram þá sem hafa ekki gripið til þeirrar ráðstöfunar. Þetta mundi þó vitanlega ekki gilda um kröfur sem væru tryggðar með veði eða öðrum réttindum í eignum búsins að því leyti sem verið væri að ráðstafa andvirði þeirra eigna. Rétt er að undirstrika það sérstaklega að þessar reglur 3. mgr. 64. gr. gilda aðeins um kröfu ef efndatími hennar er þegar kominn, en lýsing ógjaldfallinnar kröfu veitir kröfuhafanum engan rétt til fullnustu nema að því leyti sem hún kynni að falla í gjalddaga fyrir lok skipta og fært væri þegar að því kæmi að efna hana.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í 3. mgr. 64. gr. að kröfuhafi geti öðlast rétt til fullnustu af eignum dánarbús með lýsingu kröfu sinnar þótt hún sæti mótmælum ef krafan er þegar fallin í gjalddaga og skilyrði hefðu að öðru leyti verið til að efna hana ef engin mótmæli hefðu komið fram. Skiptastjóra ber þá að taka frá fé til greiðslu kröfunnar og varðveita það þar til ágreiningur um hana er leiddur til lykta, nema samkomulag takist um annað milli erfingja og kröfuhafans.
    Í þriðja lagi koma fram reglur í 65. gr. um takmarkanir á heimild til að leggja erfingjum út eignir til greiðslu arfs ef innköllun hefur verið gefin út eða kröfu hefur verið lýst sem telst skylt að efna eða taka frá fé fyrir eftir ákvæðum 3. mgr. 64. gr. Er þannig mælt svo fyrir í 1. mgr. 65. gr. að ef innköllun hefur verið gefin út sé óheimilt að leggja erfingjum út eignir meðan kröfulýsingarfresti er ólokið, en í 2. mgr. kemur fram að útlagning megi ekki fara fram fyrr en lýstar kröfur hafa verið efndar að því leyti sem það getur talist skylt samkvæmt áðursögðu. Í sambandi við þetta er rétt að taka fram að ef innköllun hefur ekki verið gefin út og kröfu er fyrst lýst eftir að eignir hafa verið lagðar erfingjum út að einhverju leyti eða jafnvel öllu öðlast kröfuhafinn engan rétt til að fá hnekkt fyrri aðgerðum í þessum efnum heldur aðeins til að fyrirbyggja að frekari útlagning kunni að eiga sér stað.
    Loks má benda á að í 66. gr. eru tekin af tvímæli um að lýsing kröfu við opinber skipti, þar sem erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins, breyti á engan hátt rétti kröfuhafans til að ganga að erfingjunum persónulega og gildir einu hvort krafan hafi verið viðurkennd eða ágreiningur standi um hana eða hvort skylt sé að efna hana við skiptin skv. 3. mgr. 64. gr. eða ekki.

Um 67. gr.


    Ákvæði 67.–71. gr. mynda þann kafla frumvarpsins sem fjallar um bústjórn eða ráðstöfun á hagsmunum dánarbús, en hér er um að ræða eitt helsta viðfangsefnið við framkvæmd opinberra skipta þar sem fengist er meira eða minna við umsýslu í þágu búsins. Skiptastjóra er ætlað að gegna störfum að þessu, en að talsverðu leyti leiða ákvæði þessa kafla til þess að hann verði háður ákvörðunum sem erfingjar og eftir atvikum skuldheimtumenn taka í þessum efnum á skiptafundum. Má því að nokkru líkja hlutverki skiptastjóra á þessu sviði við störf framkvæmdarstjóra meðan skiptafundir hafa sambærileg völd eins og um væri að ræða félagsstjórn. Reglur frumvarpsins í þessum efnum bera í senn keim af ákvæðum 24.–29. gr. laga nr. 3/1878, með þeim fyrirvara að skiptastjóri gegnir hér þeim störfum sem skiptaráðandi og eftir atvikum tilkvaddir aðstoðarmenn hans gegna eftir umræddum lögum og af ákvæðum XIII. kafla gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, þar sem bústjórar til bráðabirgða og skiptastjórar við gjaldþrotaskipti standa sambærilega að verki og mælt er fyrir um í frumvarpinu.
    Í 1. mgr. 67. gr. er kveðið á um þá meginreglu að meðan á opinberum skiptum standi sé skiptastjóri einn bær um að gera ráðstafanir í þágu dánarbúsins og svara fyrir skyldur þess. Er tekið fram til áréttingar að hann komi fram fyrir dómi af hálfu búsins og geri samninga eða aðra löggerninga í þágu þess. Ófært er að telja með tæmandi hætti öll þau mismunandi tilvik þar sem gæti reynt á fyrirsvar skiptastjóra fyrir dánarbúið og má ekki skilja 1. mgr. 67. gr. á þann veg að það sé gert þar. Efnislega yrði líkast til komist næst réttri afmörkun á þessu með því að taka svo til orða að skiptastjóri komi fram í nafni búsins í nánast öllu hugsanlegu tilliti og að sama skapi séu engir aðrir bærir til þess svo gilt verði talið. Í tengslum við þetta má þó benda á að þótt þetta ótakmarkaða forræði á málefnum dánarbús sé falið skiptastjóra með ákvæði 1. mgr. 67. gr., útilokar reglan engan veginn að hann geti veitt öðrum umboð til að skuldbinda dánarbú eða gera aðrar ráðstafanir í nafni þess. Ef skiptastjóri tæki þannig til dæmis þá ákvörðun að halda áfram um sinn atvinnurekstri þess látna meðan á opinberum skiptum stæði gæti hann að sjálfsögðu veitt öðrum manni umboð til að hafa daglega stjórn rekstrarins með höndum að einhverju leyti eða öllu undir eftirliti sínu.
    Í 2. mgr. 67. gr. er að finna eins konar leiðbeiningarreglu um helstu atriðin sem skiptastjóri verður að gæta að við stjórn dánarbúsins. Verður ekki séð að einstök atriði ákvæðisins þarfnist skýringa.

Um 68. gr.


    Í 1. og 2. mgr. 68. gr. er leitast við að draga fram meginatriðin í skilunum milli þeirra ákvarðana eða ráðstafana sem skiptastjóri yrði talinn bær um að taka eða gera upp á sitt eindæmi án þess að bera málefnið undir skiptafund og þeirra ákvarðana sem yrði að taka á skiptafundum. Vandasamt er að draga mörkin hér á milli og það verður heldur ekki gert með afgerandi hætti í lagafyrirmælum vegna þess hve fjölbreytilegar aðstæður geta komið upp í framkvæmd. Þegar reynt er að draga þessi mörk vegast einkum á tvenn sjónarmið, annars vegar hagræði og lipurð í aðgerðum í framkvæmd sem mæla mjög með að auka svigrúm skiptastjóra til aðgerða án samráðs við skiptafundi og hins vegar tillitið til hagsmuna þeirra sem krefjast fullnustu eða arfs úr hendi dánarbúsins sem mælir óneitanlega gegn verulegu svigrúmi skiptastjóra til sjálfstæðra ákvarðana. Síðarnefnda sjónarmiðið getur að auki haft mismikið vægi eftir því hvort verið er að horfa á hagsmuni þeirra sem krefjast fullnustu úr hendi búsins eða hvort horft sé til hagsmuna erfingja. Ef aðeins er tekið tillit til lánardrottna væri óhætt að veita skiptastjóra talsvert svigrúm því að reynslan af framkvæmd hefur sýnt að lánardrottnar vilji sem minnst afskipti hafa af einstökum ráðstöfunum ef það er aðeins tryggt að þær gefi sem mest af sér. Ef hagsmunir erfingja eru hins vegar hafðir í fyrirrúmi er nærri alveg um það gagnstæða að ræða, enda gætir þar oft áhrifa af því að einstakir munir dánarbús hafi tilfinningalegt gildi fyrir erfingja og þeim standi þannig ekki á sama hvernig mununum sé ráðstafað þótt hægt sé að tryggja eðlilegt verð fyrir þá.
    Í 1. og 2. mgr. 68. gr. er leitast við að þræða meðalveg milli þeirra andstæðu sjónarmiða sem hér hefur verið lýst. Er það gert með þeirri meginstefnu að skiptastjóri geti gert vissar ráðstafanir upp á eindæmi sitt og eru þær helstu þeirra annars vegar ýmsar aðkallandi og mikilsverðar ráðstafanir sem verða ekki taldar þola bið eftir ákvörðun skiptafundar, sbr. 1. mgr., og minni háttar ráðstafanir sem gætu einkum lotið að daglegri umsýslu eða öðrum atriðum sem varða enga verulega hagsmuni, sbr. 2. mgr. Skiptastjóra væri að auki ávallt rétt og skylt að taka ákvarðanir um mikilsverð málefni án samráðs við skiptafundi ef það væri nauðsynlegt til að varna tjóni, sbr. einnig 2. mgr. Skiptafundum er hins vegar ætlað að taka ákvarðanir um ráðstöfun mikilsverðra réttinda, hvort kröfum sem einhverju skipta verði haldið uppi eða þær gefnar eftir og hvernig haldið verði um aðra hagsmuni sem geta skipt miklu fyrir hag búsins, sbr. 2. mgr. Hjá þessum reglum mættu hlutaðeigendur hæglega víkja ef þeim sýndist svo því að tekið er fram í niðurlagi 2. mgr. að skiptastjóri geti borið fleiri málefni undir skiptafundi en beinlínis er skylt, en engar takmarkanir eru settar við því hversu lítilfjörleg ákvörðunaratriði það gætu orðið. Þetta gæti skiptastjóri ákveðið upp á sitt eindæmi eða eftir óskum erfingja ef honum sýndist ástæða til. Eins mætti víkja frá þessu á gagnstæðan veg þótt það sé ekki berum orðum tekið fram í ákvæðum 68. gr., t.d. með því að allir hlutaðeigendur lýsi yfir á fyrsta skiptafundi að þeir vilji láta skiptastjóra um allar ráðstafanir eftir því sem honum þyki skynsamlegast hverju sinni eða með því að erfingjar ákveði til dæmis að fasteign búsins verði seld á frjálsum markaði og feli skiptastjóra að velja fasteignasala til að leita kaupenda og taka afstöðu til tilboða sem kynnu að koma fram án samráðs við skiptafund.
    Í 3.–5. mgr. 68. gr. er kveðið á um rétt erfingja og lánardrottna sem hafa ekki fengið fullnustu hjá dánarbúinu til að halda uppi hagsmunum sem búið hefur ákveðið að halda ekki uppi sjálft, enda hafi þá skiptastjóri ekki áður skuldbundið búið með gagnstæðri yfirlýsingu. Er gert ráð fyrir að hver og einn þessara geti gripið til slíkrar aðgerðar á eigin áhættu og kostnað til hagsbóta fyrir búið, en ef hagsmunirnir ynnust með þessum hætti ætti hlutaðeigandi rétt á að fá kostnað sinn endurgreiddan, sbr. 3. mgr. Skiptastjóra er heimilað í 5. mgr. að taka hagsmunina í sínar hendur á ný ef hann telur tilefni til, en þá ber að greiða hlutaðeiganda það sem hann kann að hafa kostað til fram að því. Þessar reglur eru hliðstæðar ákvæðum 40. og 41. gr. laga nr. 3/1878 og 114. gr. laga nr. 6/1978, en mjög lítið hefur reynt á þau í framkvæmd.

Um 69. gr.


    Í 69. gr. er að finna fyrirmæli um það hverjir eigi rétt til að sækja skiptafundi og njóta þar málfrelsis og tillöguréttar og hvernig atkvæði fundarmanna verði ákveðin ef þau þarf að greiða til að komast að niðurstöðu um ákvörðun skiptafundar um tiltekið málefni.
    Í 1.–3. mgr. 69. gr. er kveðið á um rétt erfingja og kröfuhafa til að sækja skiptafundi. Í 1. mgr. kemur fram að erfingjar eigi þennan rétt þótt þeir hafi ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins, meðan skiptastjóri hefur ekki orðið að ákveða að framkvæmd skiptanna fari eftir reglum um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr., en ef sú ákvörðun yrði tekin glata erfingjar rétti til fundarsóknar. Í 3. mgr. 69. gr. kemur hins vegar fram að ef erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins eigi þeir einir rétt til að sækja skiptafundi. Í 2. mgr. 69. gr. er mælt fyrir um rétt kröfuhafa til að sækja skiptafundi sem er verulega takmarkaður. Sá réttur yrði aðeins fyrir hendi í tilvikum þar sem erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins og stæði aðeins yfir á kröfulýsingarfresti og þeim tíma sem liði eftir lok hans án þess að hlutaðeigandi kröfuhafar hafi fengið efndir. Sérstaklega er tekið fram í 2. mgr. að kröfuhafi sem telur sig eiga tilkall til annars en peningagreiðslu úr hendi búsins eigi ekki rétt til að sækja skiptafundi nema verið sé að fjalla um hagsmuni hans, enda ætti umfjöllun á skiptafundum um ráðstöfun einstakra eigna til að afla fjár til að efna peningakröfur almennt ekki að varða hagsmuni slíks kröfuhafa.
    Í 4. mgr. 69. gr. er mælt fyrir um hvernig atkvæðisréttur verði ákveðinn handa hverjum erfingja og skuldheimtumanni á skiptafundi, en þessi réttur fylgir því sjálfkrafa að eiga rétt til fundarsóknar eftir 1.–3. mgr.
    Meginreglan um skiptingu atkvæða milli erfingja er á þann veg að hver þeirra fari með atkvæði sem nemi arfshlutfalli sínu, en ef sá látni lætur eftir sig maka fari hann að auki með atkvæði í skjóli búshluta síns ef verið sé að fjalla um afdrif hjúskapareignar. Ef erfingjar þess látna væru þannig til dæmis maki hans og þrjú börn, engin erfðaskrá lægi fyrir og verið væri að fjalla um hjúskapareignir mætti líta svo á að samanlögð atkvæði þeirra allra væru 100. Af þeim færi maki með 50 í skjóli búshluta síns og 16,7 til viðbótar í skjóli lögerfðaréttar eða alls 66,7 atkvæði. Hvert barnanna þriggja nyti hins vegar 11,1 atkvæðis í skjóli lögerfðahlutfalls síns. Ef erfðaréttindi réðust af fyrirmælum erfðaskrár mundi síður reyna á almennar atkvæðagreiðslur um ráðstöfun einstakra muna því að almennt væri kveðið þar á um að tilteknir munir kæmu í hlut hvers erfingja og ættu þá aðrir erfingjar ekki atkvæði um meðferð munanna. Ef tiltekin verðmæti ættu hins vegar að skiptast milli ákveðins hóps erfingja kæmu atkvæði eftir eðli málsins aðeins í þeirra hlut og þá í þeim hlutföllum sem erfðaskrá segði að skipting milli þeirra ætti að fara eftir. Í ákvæðum 4. mgr. 69. gr. er ekki vikið að því hvernig færi um atkvæði við þá hugsanlegu aðstöðu að ágreiningur stæði um hver ætti með réttu tilkall til arfs, en undir þeim kringumstæðum yrði skiptastjóri að styðjast við þær reglur ákvæðisins með lögjöfnun sem varða atkvæðisrétt á grundvelli umdeildrar kröfu annars en erfingja. Rétt er að endingu að benda á það í þessu sambandi að ef ekki lægju fyrir upplýsingar um neinn sem gæti kallað til arfs eftir þann látna þá yrði að telja Erfðafjársjóð fara með öll atkvæði erfingja, sbr. 1. mgr. 55. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.
    Í 4. mgr. 69. gr. er kveðið á um að atkvæði skiptist milli kröfuhafa eftir fjárhæðum krafna þeirra, en þar er um sömu reglu að ræða og kemur fram í 1. mgr. 97. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978. Við ákvörðun atkvæða innbyrðis milli kröfuhafa yrði þannig að leggja saman fjárhæðir krafnanna og finna síðan hvert hlutfall hver kröfuhafi ætti af heildarfjárhæðinni. Ef kröfur væru þannig alls að fjárhæð 1.000.000 kr. færi kröfuhafi sem ætti kröfu að fjárhæð 100.000 kr. með 10 af 100 atkvæðum. Því er bætt við í 4. mgr. 69. gr., eftir fyrirmynd í 98.–100. gr. laga nr. 6/1978, að atkvæðisréttur geti fylgt ógjaldfallinni, skilyrtri eða umdeildri kröfu, en þá kæmi í hlut skiptastjóra að ákveða til bráðabirgða hvert atkvæðið yrði. Sama regla á við um kröfu sem er tryggð að hluta, en þá tæki skiptastjóri ákvörðun um það hver hluti kröfunnar teldist ótryggður og hver atkvæði fylgdu þeim hluta hennar. Af þessari síðastnefndu reglu verður gagnályktað á þann veg að ef krafa nýtur tryggingar í eignum búsins fylgi henni ekki atkvæði sem má telja óþarft að taka fram berum orðum, en vitanlega ætti þá hlutaðeigandi rétt til afskipta af ráðstöfun þeirrar eignar sem hann nyti tryggingarréttar í ef ekki væri víst að hann fengi fullar efndir af andvirði eignarinnar. Rétt er að vekja athygli á því að í ljósi þess, að atkvæði kröfuhafa ráðist af fjárhæðum krafna þeirra, er sjálfgefið að þeir sem telji sig eiga tilkall til annars en peningagreiðslu úr hendi búsins njóti ekki atkvæðisréttar á skiptafundum.
    Í 4. mgr. 69. gr. er gert ráð fyrir þeirri aðstöðu að atkvæðisréttur geti í senn verið í höndum erfingja og kröfuhafa, en þetta ætti aðeins við í tilvikum þar sem erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og ekki hefur enn verið ákveðið hvort frekari framkvæmd skiptanna fari eftir 2. eða 3. mgr. 62. gr. Vikið hefur verið að því hér áður að þessari tillögu sé ætlað að ráða bót á þeim ókosti núgildandi laga að erfingjar eigi engan rétt til afskipta af ráðstöfunum ef þeir hafa ekki tekið að sér umrædda ábyrgð, jafnvel þótt ljóst sé að eignir nægi ríflega fyrir skuldum. Þessar úrbætur felast í því að við þessar aðstæður eigi að skipta heildaratkvæðum í tvo jafna hluta og skipta öðrum helmingnum milli erfingja og eftir atvikum maka eftir áðurgreindum almennum reglum 4. mgr. 69. gr., en hinum helmingnum milli kröfuhafa eftir þeim reglum ákvæðisins sem að þeim snúa. Hver erfingi og kröfuhafi færi síðan með sjálfstætt atkvæði fyrir sínu hlutfalli.
    Loks má geta þess um 4. mgr. 69. gr: að mælt er fyrir um það í niðurlagi ákvæðisins að ef greiða eigi atkvæði um málefni sem varði sérstaklega hagsmuni tiltekins erfingja eða kröfuhafa skuli atkvæði hlutaðeiganda falla niður. Þetta gæti til dæmis átt við ef fimm börn þess látna væru erfingjar hans að jöfnu og eitt þeirra gerði kauptilboð í fasteign búsins sem þyrfti að greiða atkvæði um. Þar sem segir í ákvæðinu að atkvæði hlutaðeiganda falli niður þegar þannig standi á er átt við að reikna verði atkvæðahlutföll sjálfstætt við atkvæðagreiðsluna. Í því dæmi, sem hér var nefnt, yrði þannig að telja hvert þeirra fjögurra barna þess látna, sem ættu atkvæðisrétt um kauptilboð þess fimmta, færi með 25 af 100 atkvæðum.
    Í 5. mgr. 69. gr. er mælt fyrir um að skiptastjóri geti ákveðið að aðrir en áðurtaldir fái að sækja skiptafund ef hann telur nærveru þeirra geta orðið til hagræðis eða fundarefni varðar hagsmuni þeirra. Hagræði gæti orðið af því að fá til dæmis sérfróðan mann um verðlagningu vissra eigna til að koma á skiptafund og skýra fyrir fundarmönnum hvers virði hann telji slíka eign dánarbúsins vera. Eins gæti fundarefni snúið að hagsmunum manns sem væri hvorki erfingi né kröfuhafi, t.d. ef um væri að ræða mann sem ætti hlut í sameignarfélagi á móti dánarbúinu. Skiptastjóra er ætlað að ráða fram úr því hvort slíkir utanaðkomandi menn eigi erindi á skiptafund, hvort sem hann tæki það upp hjá sjálfum sér eða erfingi eða kröfuhafi gerði tillögu um að boða hlutaðeiganda á fund. Menn, sem sæktu fund eftir þessari heimild, ættu vitanlega ekki atkvæðisrétt og fengju ekki notið málfrelsis eða tillöguréttar nema eftir ákvörðun skiptastjóra. Rétt er að benda á að draga megi þá almennu ályktun af 5. mgr. 69. gr. að aðrir en erfingjar, kröfuhafar og þeir sem fengju að sitja skiptafund eftir þessari sérheimild eigi ekki rétt á að koma á skiptafund þótt skiptastjóri yrði að virða heimildir erfingja eða kröfuhafa til að hafa með sér lögfræðilega ráðgjafa á fundum.

Um 70. gr.


    Í 70. gr. er mælt fyrir um hvernig komist verði að niðurstöðu á skiptafundi um málefni sem á undir ákvörðunarvald hans. Í framkvæmd er almennt um það að ræða að sammæli verði um ákvarðanir á skiptafundum og þá oftast um að fara að tillögu þess sem hefur framkvæmd skiptanna með höndum, en við þær aðstæður reynir að sjálfsögðu ekki á atkvæðagreiðslur til að komast að niðurstöðum. Hins vegar geta verið uppi þær aðstæður að einróma niðurstaða fáist ekki eða að fundarsókn sé lítil eða engin og verða því að vera tiltækar reglur til að ráða fram úr því hver verði talin ákvörðun skiptafundar sem skiptastjóra væri síðan ætlað að framfylgja.
    Í 1. og 2. mgr. 70. gr. koma fram reglur um það hver þurfi að vera lágmarksfundarsókn til að skiptastjóri geti talið ályktanir skiptafundar marktækar og hvernig hann bregðist við ef fundarsókn nær ekki því lágmarki. Á sama hátt og í 2. mgr. 97. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978, er ráðgert í 1. mgr. 70. gr. frumvarpsins að skiptafundur verði ekki talinn fær um að taka ákvörðun nema hann sé sóttur af þeim sem fara með að minnsta kosti þriðjung heildaratkvæða á honum. Er þannig litið svo á að ef fundarsökn er minni sé of mikil óvissa um hvort álit fundarmanna gefi marktæka mynd af almennum vilja þeirra sem njóti atkvæða til að byggt verði á því. Skiptastjóra verður ekki ætlað að starfa við þá aðstöðu að geta ekki gert ráðstafanir við skiptin sökum þess að erfingjar eða kröfuhafar sýni ekki þann áhuga á að gæta hagsmuna sinna að þeir sæki skiptafundi. Af þeirri ástæðu er skiptastjóra ætlað sjálfum að ráða fundarefninu til lykta ef fundur reynist ekki vera ályktunarfær, sbr. 2. mgr. 70. gr., en í þeim efnum gæti hann að sjálfsögðu tekið meira eða minna tillit til álits þeirra sem sóttu þó fundinn. Skiptastjóra er einnig heimilað í 2. mgr. að reyna að ná fram áliti á nýjum fundi ef hann kýs að boða til hans fremur en að taka ákvörðun sjálfur. Reglur 1. og 2. mgr. 70. gr. eru svipaðar ákvæðum 26. gr. laga nr. 3/1878 að því gættu að þar er ekki mælt fyrir um lágmarksfundarsókn.
    Í 3.–5. mgr. 70. gr. koma fram reglur um hvernig niðurstaða ráðist um fundarefni á skiptafundi sem er ályktunarfær skv. 1. mgr. Reglurnar í þessum efnum eru í flestum atriðum þær sömu og hafa verið byggðar á 24. gr. laga nr. 3/1878 í framkvæmd og fræðikenningum. Í meginatriðum verður leitt af 3.–5. mgr. 70. gr. að skiptastjóri sé almennt bundinn af einróma niðurstöðu fundar eða áliti meiri hluta fundarmanna við atkvæðagreiðslu, sbr. 3. og 4. mgr., en ef atkvæði féllu jafnt eða þau dreifðust um fleiri en tvær tillögur með þeim hætti að enginn meiri hluti fundarmanna myndaðist um eina þeirra yrði skiptastjóri að ráða niðurstöðu nema hann kysi frekar að bjóða til nýs fundar um málefnið, sbr. 5. mgr. Í ákvæðum 3. og 4. mgr. eru hins vegar settir ýmsir fyrirvarar sem gætu leitt til þess að skiptastjóri þyrfti ekki að fara eftir einróma ályktun eða ályktun meiri hluta. Þessir fyrirvarar heimila skiptastjóra að virða slíkar ályktanir að vettugi ef þær væru að mati hans andstæðar lögum, óheiðarlegar, óframkvæmanlegar, ósamrýmanlegar hagsmunum erfingja eða kröfuhafa sem sóttu ekki fund eða hafa ekki enn haft uppi kröfur eða fælu í sér misnotkun aðstöðu af hendi meiri hluta fundarmanna á kostnað minni hluta. Með þessum hætti yrðu skiptastjóra í orði kveðnu veitt talsverð völd til að hnekkja ákvörðun skiptafundar sem væri annars bindandi fyrir hann, en þegar litið er til þeirra atriða sem gætu gefið honum tilefni til slíks má telja sýnt að lítið geti reynt á þetta. Ef þessara heimilda yrði hins vegar neytt er mælt svo fyrir í 3. og 4. mgr. að skiptastjóri geti tekið sjálfstæða ákvörðun um málefnið eða boðað til nýs fundar um það ef hann teldi það réttara.

Um 71. gr.


    Í 1. mgr. 71. gr. er mælt fyrir um að skiptastjóri verði að meginreglu að láta uppi jafnharðan á skiptafundi hver niðurstaða hafi orðið um hvert málefni, en með þessu er einkum stefnt að tvennu. Annars vegar að fundarmönnum sé gert tvímælalaust ljóst hvað teljist hafa verið ákveðið, t.d. hvernig hafi verið reiknað að atkvæði hafi fallið og hver teljist þannig ályktun meiri hluta, hvort skiptastjóri ætli að fylgja ályktun meiri hlutans eða víkja frá henni samkvæmt heimild í 3. eða 4. mgr. 70. gr. eða hvernig skiptastjóri hafi ákveðið að ráða málefni til lykta á fundi sem er ekki ályktunarfær eða þar sem meiri hluti hefur ekki myndast. Hins vegar er þessari meginreglu ætlað að stuðla að ákveðnari og hraðari framkvæmd skiptanna með því að komist verði að niðurstöðu um einstök málefni jafnharðan en ekki látið frestast milli funda að taka af skarið um ráðstafanir. Í 1. mgr. 71. gr. er að vísu gert ráð fyrir að fresta megi ákvörðun til nýs fundar, en þessi orð ákvæðisins fela aðeins í sér vísun til heimilda í 70. gr. handa skiptastjóra til að ákveða að leggja málefni fyrir nýjan skiptafund. Hér er því ekki um að ræða almenna heimild handa skiptastjóra til að fresta ákvörðunartöku þótt hann mætti eftir atvikum fallast á einróma óskir fundarmanna eða óskir meiri hluta þeirra um að fresta tiltekinni ákvörðun milli funda ef hann teldi málefnanlega ástæðu búa að baki slíkum óskum. Um 1. mgr. 71. gr. má loks benda á að skiptastjóra er ætlað að gera grein fyrir því á skiptafundum hvað hann hafi gert sem máli skiptir um hagsmuni búsins frá síðasta fundi. Skiptastjóri ætti þannig til dæmis að greina fundarmönnum frá því hvernig hann hafi fylgt eftir ákvörðun þeirra um að selja tiltekna eign búsins eða hverjar ráðstafanir hann hafi gert án samráðs við skiptafund um hagsmuni sem einhverju skipta.
    Í 2. mgr. 71. gr. er kveðið á um að erfingjar og eftir atvikum kröfuhafar, sem sæki ekki skiptafund sem þeir hafa verið sannanlega boðaðir til, glati rétti til að mótmæla ákvörðunum sem þar voru teknar og ráðstöfunum sem þar voru kynntar. Þessi regla er sama efnis og ákvæði 25. gr. laga nr. 3/1878 og má því telja þarflaust að fjalla frekar um hana hér.
    Í 3. mgr. 71. gr. er mælt fyrir um rétt erfingja og kröfuhafa til að hafa uppi mótmæli ef þeir telja ákvörðun á skiptafundi eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta og hafa ekki glatað rétti til að mótmæla henni, sbr. 2. mgr. 71. gr., en ef slík mótmæli koma fram og skiptastjóra tekst ekki að leysa ágreininginn ber honum að leggja málefnið fyrir héraðsdómara til úrlausnar, sbr. 122. gr. Um helstu atriði þessa ákvæðis má annars vegar nefna að erfingi eða kröfuhafi kann að telja ákvörðun eða niðurstöðu sem er kynnt á skiptafundi skv. 1. mgr. 71. gr. ólögmæta af ýmsum sökum. Sá galli gæti t.d. verið á boðun fundarins að aðeins fáir þeirra sem áttu rétt til að sækja fundinn vissu um hann og líklegt er að atkvæði hefðu fallið á annan veg ef réttilega hefði verið að þessu staðið. Eins má vera að skiptastjóri hafi ákveðið að virða niðurstöðu atkvæðagreiðslu að vettugi án nægrar heimildar í 3. eða 4. mgr. 70. gr. eða að hann hafi látið hjá líða að grípa í taumana eftir heimildum þeirra atkvæða þótt ástæða hafi verið til. Með því að koma fram mótmælum gætu hlutaðeigendur átt þess kost að fá niðurstöðu fundarins hnekkt áður en heani yrði framfylgt, en eftir niðurlagsorðum 3. mgr. 71. gr. mætti skiptastjóri að öðru jöfnu ekki fylgja niðurstöðunni eftir meðan ágreiningurinn væri óleystur. Hins vegar má benda á að erfingi eða kröfuhafi gæti talið ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta ef hann hefði til dæmis gripið til aðgerðar án samráðs við skiptafund og án nægrar heimildar til sjálfstæðrar ákvörðunar í 1. eða 2. mgr. 69. gr. eða ef skiptastjóri hefði farið út fyrir heimild skiptafundar í tiltekinni ráðstöfun. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að verið er að ræða um ráðstafanir sem skiptastjóri hefði þá þegar gert og væri því um orðinn hlut að ræða sem að öðru jöfnu yrði ekki horfið frá. Úrlausn um það hvort ráðstöfunin hafi verið lögmæt gaeti hins vegar haft þá þýðingu að niðurstaða fengist um hvort skiptastjóri hafi brotið af sér í starfi eða honum hafi orðið á mistök sem gætu t.d. varðað hann bótaskyldu eða frávikningu.

Um 72. gr.


    Í X. kafla frumvarpsins, sem 72.–84. gr. heyra til, er fjallað um hvernig opinberum skiptum verði lokið, til hverra aðgerða verði að grípa í tengslum við skiptalok og að hverju leyti megi taka opinber skipti upp á ný. Nokkrir kostir eru um það hvernig opinberu skiptunum verði lokið sem eru háðir aðstæðum hverju sinni, en rétt er benda þegar á það að eftir hugtakanotkun í frumvarpinu er hugsanlegt að opinberum skiptum ljúki þótt skiptum á dánarbúinu ljúki ekki um leið. Er til dæmis rætt um lok opinberra skipta í 74. gr. með því að erfingjum sé veitt leyfi til einkaskipta sem verður síðan lokið á síðari stigum. Þá má einnig nefna að kostirnir um hvernig opinberum skiptum á dánarbúi verður lokið eru ekki með öllu tæmandi taldir í X. kafla frumvarpsins því að ef skipti dánarbús færu eftir reglum um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr., færi einnig eftir þeim reglum um lok skiptanna. Af almennum atriðum varðandi ákvæði X. kafla er að endingu rétt að nefna að þar er hvergi gert ráð fyrir einfaldri aðferð til að ljúka opinberum skiptum vegna eignaleysis dánarbús á borð við þá sem kemur fram í 42. gr. laga nr. 3/1878. Þetta er einfaldlega byggt á því að gengið er út frá að ákvæði 25. og 26. gr. frumvarpsins leiði til þess að skiptum á dánarbúum, sem svo er ástatt um, ljúki þegar í stað í höndum sýslumanna og að auki að enginn sjái sér hag í því að krefjast opinberra skipta á eignalausu dánarbúi án brýns tilefnis og þurfa að bera kostnað af þeirri aðgerð, sbr. 41. gr. Því má enn fremur bæta við að málalok verða nánast aldrei eftir 42. gr. laga nr. 3/1878 í framkvæmd.
    Í 72. gr. er mælt fyrir um hvernig skiptum verði lokið á dánarbúi þar sem erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins ef í ljós kemur undir skiptunum að andvirði eigna þess muni ekki hrökkva fyrir öðru en skiptakostnaði og kröfum sem hefur verið lýst fyrir skiptastjóra og krefjast má fullnustu á skv. 3. mgr. 64. gr. Er þá gert ráð fyrir að skiptastjóri noti fé búsins til greiðslu á þessum skuldbindingum svo langt sem það nær, en geri síðan yfirlit um meðferð á fjármunum búsins og boði erfingja til skiptafundar til að tjá sig um efni þess. Ef erfingjar geta ekki bent á frekari eignir eða réttindi búsins á skiptafundinum er skiptastjóra ætlað að ljúka skiptunum þá þegar með áritun sinni þar um á yfirlitið, sbr. 2. mgr. 72. gr. Samkvæmt 4. mgr. 72. gr. gæti skiptastjóri eftir atvikum lokið skiptum með þessum hætti og haldið eftir fé til að greiða gjaldfallna umdeilda kröfu eftir reglum 1. mgr. 76. gr. með því að geta þeirrar ráðstöfunar í yfirliti sínu og hann gæti einnig ákveðið að ljúka skiptum með þessum hætti þótt búið kynni að telja til frekari eigna ef ekki þætti réttmætt að fresta skiptalokum þar til unnt yrði að ráðstafa þeim, sbr. 2. mgr. 76. gr.
    Í athugasemdum við 3. mgr. 64. gr. var vikið að því að sú staða gæti komið upp að innköllun væri ekki gefin út og skiptastjóri hafi lagt erfingjum út eignir áður en kröfu yrði lýst fyrir honum sem eftirstöðvar eignanna mundu ekki nægja fyrir. Við þær aðstæður ætti kröfuhafinn ekki rétt á því að útlagningin gengi tilbaka þannig að búið ætti fé til að fullnægja kröfu hans. Þessi aðstaða er síður en svo líkleg til að koma upp í framkvæmd, en ef á hana reyndi gæti skiptastjóri ekki lokið skiptum eftir 72. gr. heldur yrði hann að fara þá almennu leið sem er mælt fyrir um í 77. gr., enda yrði að öðrum kosti ekki fært að koma fram formlegum málalokum varðandi þær eignir sem voru lagðar erfingjum út á fyrri stigum.
    Í 3. mgr. 72. gr. er mælt fyrir um það úrræði handa þeim sem vilja ekki fella sig við ákvörðun skiptastjóra um að ljúka skiptum eftir öðrum reglum greinarinnar að þeir geti mótmælt ákvörðuninni og komið því eftir atvikum til leiðar að héraðsdómari verði að leysa úr hvort skilyrði séu fyrir þessum málalokum, sbr. 122. gr. Þetta ákvæði á rætur að rekja til þess að skiptastjóra er ætlað að taka af skarið um þessi málalok án tillits til vilja erfingja, enda væri að öðrum kosti hætt við skiptum yrði haldið áfram að þarflausu, en í því ljósi má telja eðlilegt að unnt verði að fá leyst úr um réttmæti slíkrar ákvörðunar skiptastjóra. Réttur til að hafa uppi mótmæli sem þessi yrði aðeins í höndum erfingja, en ekki kröfuhafa, enda yrðu ekki aðrir boðaðir til skiptafundar um þessi málalok en erfingjar samkvæmt niðurlagi 1. mgr. 72. gr.
    Í 2. mgr. 72. gr. er ráðgert að skiptastjóri tilkynni héraðsdómara um málalok sem þessi, svo og sýslumanni sem skiptin áttu undir í öndverðu, en ekki yrði um að ræða afhendingu á frekari gögnum af þessu tilefni til sýslumanns með því að ekki kæmi til greiðslu erfðafjárskatts undir þessum kringumstæðum.

Um 73. gr.


    Í 73. gr. er mælt fyrir um heimild til að ljúka opinberum skiptum á þann hátt að maka þess látna verði veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Er gert ráð fyrir að þessi heimild verði fyrir hendi í öðrum tilvikum en þeim þar sem farið yrði með búið eftir reglum um gjaldþrotaskipti vegna ógjaldfærni þess, sbr. 3. mgr. 62. gr., og að gera mætti þetta án þess að efna lýstar kröfur eða setja tryggingu fyrir þeim, sbr. 2. mgr. 73. gr., enda ábyrgðist þá að minnsta kosti maki þess látna efndir á kröfunum ef ekki aðrir erfingjar með honum. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að beita mætti þessari heimild til að ljúka skiptum að hluta með því að makinn fengi leyfi til setu í óskiptu búi með einhverjum af erfingjum þess látna en öðrum yrði greiddur út arfur eftir almennum reglum.
    Í reglum 73. gr. er ráðgert að málalok sem þessi beri að með þeim hætti að maki þess látna láti uppi ósk sín um þau við skiptastjóra með því að afhenda honum umsókn um leyfi til setu í óskiptu búi sem væri gerð eftir almennum reglum II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962. Ætlast er til að skiptastjóri athugi hvort einhver tormerki séu á að makanum verði veitt leyfið. Ef skiptastjóri teldi svo vera yrði hann að halda skiptunum áfram eftir almennum reglum, en makinn gæti þá eftir atvikum krafist úrlausnar héraðsdómara um þá afstöðu á grundvelli 47. eða 122. gr. Ef skiptastjóri teldi ekkert standa í vegi fyrir veitingu leyfisins er ráðgert í 1. mgr. 73. gr. að hann framsendi erindið sýslumanninum sem skiptin áttu undir, en sýslumaður taki afstöðu til þess eftir almennum reglum. Ef leyfið yrði síðan veitt væri skiptastjóra skylt að ljúka opinberu skiptunum þá þegar, en áður bæri þó að greiða kostnað af þeim. Skiptastjóri bæri síðan að tilkynna héraðsdómara um þessi málalok, sbr. 3. mgr. 73. gr.
    Í framkvæmd hefur verið sjaldgæft á síðustu árum að opinberum skiptum hafi lokið með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi. Stafar það væntanlega af því að heimildir maka til setu í óskiptu búi hafa verið rýmkaðar mjög á undanförnum árum með breytingu ákvæða erfðalaga, þannig að leyfi sem þessi hafa væntanlega verið veitt án þess að það reyni á opinber skipti í tilvikum þar sem slíkt hefði verið óhjákvæmilegt eftir eldri reglum.

Um 74. gr.


    Í 74. gr. er gert ráð fyrir heimild til að ljúka opinberum skiptum með því að erfingjar fái leyfi til einkaskipta á dánarbúi að undangengnum einhverjum meiri eða minni aðgerðum við opinberu skiptin. Þessi leið hefur verið nokkuð algeng í framkvæmd eftir lögum nr. 3/1878, en hún hefur fyrst og fremst komið til í tilvikum þar sem skylt hefur verið eftir ákvæðum þeirra laga að byrja að minnsta kosti aðgerðir við skiptin með opinberum skiptum. Með því að þær reglur laga nr. 3/1878, sem hafa öðrum fremur valdið þessari aðstöðu, eiga sér ekki hliðstæður í ákvæðum þessa frumvarps má vænta að mjög dragi úr þessari leið ef frumvarpið verður að lögum. Allt að einu er hugsanlegt að erfingjar kynnu að telja þennan kost ákjósanlegan ef opinber skipti hafa til dæmis komið til vegna ágreinings milli þeirra sem hefur verið leystur eða vegna þess að þeir hafi ekki viljað ábyrgjast skuldbindingar búsins af ótta við að eignir þess mundu ekki hrökkva fyrir skuldum en innköllun hafi síðan leitt í ljós að sá ótti hafi verið ástæðulaus. Þykir því nauðsynlegt að þetta úrræði verði áfram heimilað sérstaklega.
    Skilyrði þess, að opinberum skiptum verði lokið með veitingu leyfis til einkaskipta, koma fram í 1. mgr. 74. gr. en til þess að það geti orðið verður í fyrsta lagi að vera fullnægt almennum skilyrðum fyrir einkaskiptum skv. 28. gr., í öðru lagi verður kröfulýsingarfresti að vera lokið ef innköllun hefur verið gefin út, í þriðja lagi verða lýstar kröfur að hafa verið greiddar að því leyti sem þær eru gjaldfallnar, trygging sett fyrir þeim eða kröfuhafinn samþykkt annars að af einkaskiptum verði og loks í fjórða lagi verður kostnaður af skiptunum að greiðast. Í því skilyrði einkaskipta skv. 1. mgr. 74. gr., að ákvæðum 28. gr. sé fullnægt, felst meðal annars að erfingjar verði að lýsa yfir ábyrgð á skuldbindingum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þetta yrði nauðsynlegt þótt innköllun hafi verið gefin út við opinberu skiptin og allar lýstar kröfur hafi verið greiddar því að erfingjar yrðu að ábyrgjast einn fyrir alla og allir fyrir einn kröfur sem kynni að mega koma að eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 58. gr., og greiðslu gjalda vegna arftöku, þar á meðal erfðafjárskatt.
    Í 1. mgr. 74. gr. er gert ráð fyrir að þessi málalok beri að með hliðstæðum hætti og áður var lýst varðandi 1. mgr. 73. gr. og þarf því ekki að tíunda þetta frekar hér. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. er ætlast til að skiptastjóri tilkynni héraðsdómara ef opinberum skiptum lýkur með þessum hætti.

Um 75. gr.


    Í 1. mgr. 75. gr. er tekið af skarið um að skiptastjóri þurfi ekki að bíða með að leggja út eignir til að fullnægja kröfum erfingja um arf þangað til skiptunum verður endanlega lokið, en byggt er á þeirri reglu bæði í 3. mgr. 54. gr. og 65. gr. Af tilliti til hagsmuna kröfuhafa verður þetta þó ekki gert nema að vissum skilyrðum fullnægðum og önnur atriði geta einnig haft áhrif í þessu sambandi. Leiðir þannig annars vegar af fyrirmælum í upphafi ákvæðisins að útlagning megi ekki fara fram nema annaðhvort að erfingjar hafi lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og skilyrðum 65. gr. sé fullnægt eða ef þeir hafa ekki lýst þeirri ábyrgð yfir að svo standi á sem segir í 2. mgr. 62. gr., með öðrum orðum að kröfulýsingarfresti sé lokið og kröfur hafi verið efndar eða tekið frá fé fyrir þeim án tillits til gjalddaga þeirra, skilyrða fyrir þeim eða ágreinings um þær. Hins vegar er tiltekið í 1. mgr. 75. gr. að útlagning megi ekki fara fram í þeim mæli að fé liggi ekki fyrir til greiðslu skiptakostnaðar og erfðafjárskatts, en eftir atvikum gætu erfingjar komist hjá þeirri hindrun með því að greiða sjálfir kostnaðinn og skattinn. Að öðru leyti er vert að nefna að skiptastjóri yrði að gæta þess sérstaklega við útlagningu að hún leiði ekki til hættu á að einn eða fleiri erfingjar kynnu að fá meira í sinn hlut en þeim bæri að endingu, en til að forðast þá hættu yrði nærtækast að láta ekki verða af útlagningu nema hún ætti sér stað samtímis og í sambærilegum mæli til allra.
    Í 2. mgr. 75. gr. er kveðið á um efndir á kröfum gjafþega, en þessar reglur þykja skýra sig
sjálfar.

Um 76. gr.


    Í framkvæmd er almennt staðið að opinberum skiptum með þeim hætti að ekki sé hugað að því að ljúka þeim fyrr en lokið hefur verið að ráðstafa eignum dánarbús og efna skuldbindingar þess og er sú leið í alla staði eðlileg þótt hún kunni að kosta nokkurn drátt á málalokum. Í undantekningartilvikum kann hins vegar að standa þannig á að eitt atriði eða örfá standi óleyst þegar öllum öðrum hefur verið ráðið til lykta og fyrirsjáanlegt þyki að allnokkur bið geti orðið eftir því að greitt verði úr þeim. Ef þetta gerist getur orðið til óhagræðis og jafnvel tjóns fyrir erfingja að beðið sé með að ljúka skiptum. Af þessum ástæðum er gert ráð fyrir heimild til að ljúka skiptum við aðstæður sem þessar í 45. gr. laga nr. 3/1878, svo og í 126. gr. laga nr. 6/1978 þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða, með það fyrir augum að skiptin verði tekin upp á ný þegar viðkomandi málefnum er endanlega ráðið til lykta. Þessar heimildir verða þó að skoðast með því hugarfari að nánast sé um þrautalendingu að ræða, enda hefur þeim verið sparlega beitt í framkvæmd. Við opinber skipti dánarbús gæti þetta til dæmis átt rétt á sér ef sá látni hefur átt inni arf í óskiptu búi sem hefur runnið til dánarbúsins, dánarbúið telji sig eiga lága skuldakröfu sem engu skiptir fyrir efnahag þess í heild og ágreiningur stendur um eða erfingjar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins, kröfu hefur verið lýst sem fellur ekki í gjalddaga fyrr en að mörgum árum liðnum og kröfueigandinn vill ekki taka við greiðslu þegar í stað.
    Reglum 76. gr. er ætlað að koma að þörfum við þær undantekningaraðstæður sem hér um ræðir, en með sambærilegum hætti og mælt er fyrir um í 45. gr. laga nr. 3/1878 er gert ráð fyrir að ljúka megi skiptum þótt enn sé óvissa um skuldbindingu búsins eða hugsanlega eign þess. Í 76. gr. er byggt á því að skiptastjóri ljúki þá skiptum án þess að taka frekara tillit til þess atriðis sem enn er óútkljáð en taki frá fé til að mæta skuldbindingum sem kunna að tengjast því. Þrátt fyrir að opinberum skiptum yrði lokið á þessum grundvelli er eftir sem áður gert ráð fyrir að skiptastjóri fylgi hagsmunum búsins eftir í nafni þess, en að fengnum málalokum yrðu skiptin tekin upp á ný eftir 82. eða 83. gr. ef málalokin gæfu tilefni til þess. Lok opinberu skiptanna mundu því ekki leiða til þess við þessar aðstæður að dánarbúið nyti ekki lengur hæfis til að eiga réttindi eða bera skyldur, enda er orðalagi ákvæða 2. og 3. mgr. 2. gr., sem snúa að rétthæfi dánarbús sem lögpersónu, hagað af tilliti til þessa möguleika.
    Einstök atriði í reglum 76. gr. þykja ekki þarfnast frekari skýringa en hér hafa komið fram.

Um 77.–79. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig opinberum skiptum verði lokið á dánarbúi með svonefndri úthlutunargerð, en þessi leið yrði farin ef skiptum væri ekki lokið eftir 72., 73. eða 74. gr. og dánarbúið væri gjaldfært, þannig að ekki væri farið með það eftir reglum um framkvæmd og lok gjaldþrotaskipta, sbr. 3. mgr. 62. gr. Ákvæði 77.–79. gr. eru að talsverðu leyti sambærileg reglum 49. gr. laga nr. 3/1878 og XVIII. kafla gjaldþrotalaga, nr. 6 1978, en styðjast aðöðru leyti við venjursem hafa mótastí þessum efnumí framkvæmd. Er þvíekki tilefni til teljandi umfjöllunar hér um einstök atriði þessara ákvæða.
    Í 77. gr. er kveðið á um að skiptastjóri eigi að gera frumvarp til úthlutunar svo fljótt sem verða má eftir að öll málefni búsins hafa verið útkljáð. Um efni frumvarpsins eru nokkuð ítarleg ákvæði í einstökum töluliðum 1. mgr. 77. gr., en þau eru hliðstæð því sem hefur tíðkast í framkvæmd um árabil.
    Í 78. og 79. gr. er mælt fyrir um hvernig skiptastjóri standi síðan að verki þegar hann hefur gert frumvarp sitt. Eftir 1. mgr. 78. gr. á hann að boða erfingja til skiptafundar og eru reglurnar í þeim efnum um margt þær sömu og koma fram í 2. mgr. 59. gr. um boðun til skiptafundar um kröfuskrá. Á fundinum á skiptastjórinn að gera grein fyrir frumvarpinu og veita nánari upplýsingar eftir beiðni erfingja, sbr. 2. mgr. 78. gr. Þar skal erfingjum gefinn kostur á að hafa uppi mótmæli gegn frumvarpinu, en komi engin mótmæh fram telst frumvarpið samþykkt sem úthlutunargerð, sbr. 3. mgr. 78. gr., og áritar þá skiptastjóri frumvarpið um það og að skiptum sé þar með lokið. Ef mótmæli koma hins vegar fram gegn frumvarpinu er mælt fyrir í 79. gr. um hvernig skiptastjóri bregðist við þeim. Í þessu sambandi ber að leggja áherslu á að það telst skilyrði þess að mótmælin leiði til frekari aðgerða að sá sem hafi þau uppi hafi ekki þegar glatað rétti til að hafa uppi athugasemdir um málefnið. Þetta skilyrði hefur verulega þýðingu því að þegar skiptin væru komin á þetta stig væri almennt þá þegar endanlega útkljáð hverjir ættu rétt til arfs, sbr. 53. gr., hverjar kröfur á hendur búinu verði viðurkenndar, sbr. 3. mgr. 60. gr. eða 3. mgr. 64. gr., og hvernig hagsmunum búsins yrði ráðstafað, sbr. 2. og 3. mgr. 71. gr. Má þannig segja að hverfandi líkindi séu fyrir því að mótmæli geti komið fram gegn efni frumvarpsins sem ekki verður þegar vísað á bug vegna þessa skilyrðis, enda hefur reynslan verið sú af sambærilegri beitingu 49. gr. laga nr. 3/1878 að mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar séu nánast óþekkt. Ekki verður séð að ástæða sé til að gera nánari grein fyrir einstökum efnisatriðum 79. gr. sem má telja að skýri sig sjálf.

Um 80. gr.


    Í 1. mgr. 80. gr. er mælt fyrir um hvernig skiptastjóri standi að greiðslum í samræmi við úthlutunargerð vegna skiptanna að því leyti sem greiðslur hafa ekki þegar átt sér stað á fyrri stigum. Skiptastjóri á þannig að standa skil á erfðafjárskatti sem tillit yrði tekið til í úthlutunargerð skv. 4. tölul. 1. mgr. 77. gr., en um álagningu og greiðslu skattsins við opinber skipti eru reglur í lögum nr. 83/1984 eins og lagt er til að þeim verði breytt með 18. tölul. 136. gr. frumvarpsins. Samhliða þessu bæri skiptastjóra að greiða erfingjum, lögráðamönnum þeirra eða umboðsmönnum út arf eða gefa þeim út heimildarbréf fyrir eignum sem væru lagðar út erfingjum til greiðslu arfs, að því leyti sem greiðslur hefðu ekki átt sér stað eða útlagning meðan á skiptunum stóð, sbr. 75. gr. Í sambandi við útborgun arfs er vert að benda hér á tvennt. Annars vegar er skiptastjóra ekki ætlað að greiða arf til sérstakra lögráðamanna sem hafaverið skipaðir eftir 1. mgr. 13. gr., heldur á hann eftir hljóðan 1. mgr. 80. gr. að greiða arfinn lögráðamanni og er þá átt við reglulegan lögráðamann hlutaðeigandi erfingja. Stafar þetta af því að hlutverki sérstaks lögráðamanns lýkur við lok skipta og á hann því hvorki erindi til að taka við fénu fyrir ólögráða erfingja né til að hafa það undirhöndum eðaráðstafa því eftir þann tíma, heldur er slíkt aðeins á færi reglulegs lögráðamanns að gættum reglum lögræðislaga, nr. 68/1984. Hins vegar er skiptastjóra ekki ætlað að greiða út arf til málsvara sem hefði verið skipaður fyrir erfingja eftir heimildum 2. eða 3. mgr. 13. gr., heldur færi eftir ákvæðum 81. gr. í þeim efnum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skiptastjóra beri að tilkynna héraðsdómara skriflega um skiptalokin og jafnframt sýslumanni sem skiptin áttu undir, en með tilkynningu til sýslumanns skal úthlutunargerðin fylgja. Úthlutunargerð, erfðafjárskýrsla og jafnvel frekari gögn tengd skiptalokum yrðu þó hvort eð er send sýslumanni í sambandi við álagningu erfðafjárskatts eftir því sem ráðgert er í tillögum um breytingar á reglum laga nr. 83/1984 í 136. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 80. gr. er loks mælt fyrir um hvernig fari um ábyrgð erfingja á skuldbindingum dánarbúsins eftir skiptalok. Hafi þeir lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum berum orðum og innköllun hefur ekki verið gefin út er gert ráð fyrir að þeir beri einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð (sohdaríska ábyrgð) á öllum kröfum sem yrði síðar beint að þeim, án tillits til þess hvort kunnugt hafi verið um skuldbindinguna meðan á skiptunum stóð. Hafi þeir lýst yfir slíkri ábyrgð en innköllun hefur verið gefin út ábyrgjast þeir aðeins efndir krafna sem var lýst við skiptin og greiddust ekki og krafna sem mætti koma að á síðari stigum án tillits til vanlýsingar eftir ákvæðum 58. gr., en í báðum tilvikum yrði ábyrgð þeirra sem fyrr solidarísk. Ekki er tekið fram um hvernig fari um ábyrgð í þeim tilvikum sem erfingjar hafa ekki lýst henni yfir berum orðum, en sú niðurstaða liggur væntanlega í augum uppi að engin ábyrgð yrði fyrir hendi eftir skiptalok fremur en meðan á skiptunum stóð, auk þess að beinlínis er gefið til kynna að sú ábyrgð sé útilokuð í 2. mgr. 62. gr. Ákvæði 3. mgr. 80. gr. um ábyrgð erfingja á skuldbindingum eftir skiptalok er frábrugðin ákvæðum laga nr. 3/1878 að því leyti að í 52. gr. laganna er kveðið á um solidaríska ábyrgð erfingja á skuldbindingum sem hefur verið lýst meðan á skiptum stóð en greiddust ekki, en ábyrgð þeirra er hlutafallsleg (pro rata) á skuldbindingum sem ekki var lýst við skiptin þótt undantekningar í ákvæðinu leiði til að ábyrgðin geti einnig orðið solidarísk undir þeim kringumstæðum. Reglur umræddrar 52. gr. laga nr. 3/1878 þykja hvorki svo skýrar né eðlilegar í ljósi ákvörðunarvalds erfingja um hvort innköllun verði gefin út við opinber skipti þegar þeir ábyrgjast skuldbindingar búsins að þær verði hafðar til fyrirmyndar í 3. mgr. 80. gr. frumvarpsins.

Um 81. gr.


    Í 1.–3. mgr. 81. gr. er mælt fyrir um hvernig skiptastjóri ráðstafi arfi sem hefur verið ætlaður erfingja sem vitað var um en gaf sig ekki fram við skiptin. Hér er um erfingja að ræða sem málsvari yrði skipaður fyrir við skiptin eftir fyrirmælum 3. mgr. 13. gr., en svo sem vikið var að í athugasemdum við 1. mgr. 80. gr. hér á undan yrði arfurinn aldrei greiddur málsvaranum. Þess í stað kemur fram í 1. mgr. 81. gr. að skiptastjóri verði að leggja arfinn á reikning við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur sé, en þessi fyrirmæli hafa þannig sjálfkrafa í för með sér að skiptastjóri gæti aldrei ráðgert að slíkur erfingi fái annað í sinn hlut við skiptin en peninga. Þegar féð hefði verið lagt á slíkan innlánsreikning er mælt svo fyrir í niðurlagi 1. mgr. 81. gr. að skiptastjóri skuli afhenda sýslumanninum sem skiptin áttu undir skilríki fyrir reikningnum. Eftir 2. mgr. 81. gr. á sýslumaður að gæta að því þegar eftir viðtöku skilríkja fyrir slíkum reikningi hvort innköllun hafi verið gefin út til erfingja við skiptin. Hafi það ekki verið gert er sýslumanni skylt að fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði sérstaka áskorun til erfingjans um að vitja fjárins. Í 3. mgr. 81. gr. er síðan kveðið á um það að erfinginn hafi frest til að kalla eftir fénu hjá sýslumanni í tíu ár frá því birt var innköllun til erfingja við skiptin eða sérstök áskorun skv. 2. mgr. 81. gr., en sama réttar njóta þó þeir sem gætu sannað fyrir sýslumanni að þeir ættu rétt til fjárins í stað erfingjans, t.d. dánarbú erfingjans ef dómsúrlausn hefði gengið um lát hans. Ef þessi tíu ára frestur liði án þess að erfingi eða réttartaki hans kallaði eftir fénu leiða ákvæði 3. mgr. 81. gr. til þess að sérstakur eins árs frestur byrji þá að líða, en á honum gætu þeir sem teldu til erfðaréttar eftir erfingjann, sem féð var varðveitt fyrir, krafist greiðslu þess eins og hann hefði verið látinn þegar arfurinn féll honum til handa í öndverðu. Er rétt að taka fram að eftir 3. mgr. 81. gr. þyrfti engra sannana við um lát erfingjans ef kallað yrði eftir arfinum á umræddum eins árs fresti. Liði hins vegar þessi frestur án þess að kallað yrði eftir arfinum er mælt svo fyrir í 3. mgr. 81. gr. að sýslumaður greiði féð í ríkissjóð, en þetta yrði þannig gert að liðnum ellefu árum frá birtingu innköllunar eða sérstakrar áskorunar skv. 2. mgr. ákvæðisins. Í þessu sambandi er rétt að benda á að reglur koma fram í 2. mgr. 84. gr. um rétt manns til að krefjast endurgreiðslu arfs úr hendi annars manns sem hefur fengið hann ranglega greiddan við opinber skipti, en sú regla gæti átt við um endurheimtu arfs sem væri greiddur öðrum en erfingjanum sjálfum eftir 3. mgr. 81. gr. ef frestur til endurheimtu skv. 2. mgr. 84. gr. væri þá ekki liðinn. Reglum 1.–3. mgr. 81. gr. og 2. mgr. 84. gr. er ætlað að koma meðal annars í stað ákvæða 56. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, en kveðið er á um brottfall þeirra ákvæða í 5. tölul. 136. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 81. gr. er síðan kveðið á um hvernig fari um útborgun arfs sem hefur fallið í hlut erfingja sem málsvari var skipaður fyrir eftir 2. mgr. 13. gr., en þar er um að ræða tilvik þar sem málsvari yrði skipaður vegna þess að fjárráða erfingi væri ófær um að gæta hagsmuna sinna. Eins og í þeim tilvikum, sem ákvæði 1.–3. mgr. 81. gr. taka til, yrði málsvaranum ekki greiddur arfurinn, heldur yrði skiptastjóri yfirleitt að hafa arfinn handbæran ípeningum og leggja hann á reikning við banka eða sparisjóð eftir fyrirmælum 1. mgr. Skilríki fyrir reikningnum yrðu síðan afhent sýslumanninum sem skiptin áttu undir, en honum bæri að varðveita þau þar til erfinginn gæti sjálfur gefið sig fram til að taka við þeim eða annar sem sannaði rétt sinn til fjárins í stað erfingjans eða í þágu hans. Undir þessum kringumstæðum er sýslumanni þannig ekki ætlað að ráðstafa fénu í ríkissjóð að liðnum vissum tíma eins og mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr.

Um 82. og 83. gr.


    Í þessum ákvæðum er mælt fyrir um skyldu skiptastjóra til að taka opinber skipti upp á ný ef hann hefur lokið þeim með því að taka frá fé fyrir ógreiddum kröfum á hendur búinu eða án þess að taka tillit til óvissra réttinda þess, sbr. 76. gr. Er hér gert ráð fyrir að skiptastjóri taki upp skiptin án formlegs aðdraganda og fari síðan að með áþekkum hætti og hann hefði annars gert áður en skiptum var lokið.
    Þannig kemur fram í 82. gr. að skiptastjóri eigi að verja fé, sem hann tók frá til að mæta óvissri kröfu, til greiðslu hennar ef hún telst að endingu eiga að hljóta efndir, en ef féð fellur nákvæmlega fyrir kröfunni þyrfti ekki frekari aðgerða við. Ef fé stæði hins vegar eftir yrði að fara með það eftir ákvæðum 83. gr. eins og ef um væri að ræða annað fé sem hafi losnað um til ráðstöfunar fyrir búið.
    Í 83. gr. kemur fram að skiptastjóri eigi að ráðstafa réttindum sem hafa fallið til búsins eftir skiptalok, eftir atvikum eftir að hafa haldið skiptafundi eftir fyrirmælum IX. kafla, og gera síðan frumvarp til viðbótarúthlutunar handa erfingjum og ljúka skiptum endanlega eftir reglum 78.–81. gr. Samkvæmt 2. mgr. 83. gr. yrði farið eins að ef eign kæmi fram eftir skiptalok sem átti að renna til búsins en ekki var vitað um meðan á skiptunum stóð.
    Í 82. og 83. gr. koma fram sérstakar heimildir handa skiptastjóra til að láta hjá líða að framkvæma viðbótarúthlutun til erfingja við endurupptöku, en þess í stað að greiða fyrirliggjandi fé í ríkissjóð. Fyrir þeirri ráðstöfun eru þau skilyrði sett að fjárhæðin sé svo óveruleg að hlutdeild hvers erfingja í því stæði ekki undir kostnaði af viðbótarúthlutun. Þessar heimildir eiga sér hliðstæðu í 2. mgr. 131. gr. gjaldþrotalaga, nr. 6/1978.

Um 84. gr.


    Í 1. mgr. 84. gr. eru tekin af tvímæli um að opinber skipti verði ekki endurupptekin undir öðrum kringumstæðum en þeim sem mælt er fyrir um í 82. og 83. gr. Skiptir þannig ekki máli hver ástæða eða röksemd yrði færð fyrir endurupptöku, hvort sem bent væri á að maður hafi tekið við arfi sem átti ekki réttmætt tilkall til hans eða að skiptin hafi annars farið ranglega fram. Ef slík aðstaða kæmi upp er gert ráð fyrir að sá sem kynni að leita breytinga eða leiðréttinga haldi uppi kröfum sínum með höfðun einkamáls eftir almennum reglum á hendur þeim sem hafi ranglega fengið verðmæti í hendur við skiptin.
    Í 2. mgr. 84. gr. er mælt fyrir um hvers efnis sú krafa gæti orðið sem maður héldi uppi á hendur þeim sem hefði fengið ranglega arf í hans stað og á hverjum tíma slík krafa fyrnist. Þessari reglu er ætlað að koma í stað 2. mgr. 56. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, en mælt er fyrir um brottfall þess ákvæðis í 5. tölul. 136. gr. frumvarpsins.

Um 85. gr.


    85. gr. er upphafsákvæði 3. þáttar frumvarpsins þar sem reglur þess koma fram um einkaskipti á dánarbúum. Þessum þætti er skipt í þrjá kafla og fjallar XI. kafli, 85.–90. gr., um stöðu erfingja og kröfuhafa við einkaskipti, XII. kafli, 91. og 92. gr., geymir reglur um niðurfellingu leyfis til einkaskipta og í XIII. kafla, 93.–97. gr., eru reglur um lok einkaskipta. Ákvæði 3. þáttar frumvarpsins eiga sér ekki hliðstæður í öllum atriðum í ákvæðum laga nr. 3/1878, en reglur frumvarpsins um einkaskipti eru að verulegu leyti sniðnar eftir venjum sem hefur verið fylgt í áratugi á þessu sviði.
    Í 1. mgr. 85. gr. kemur fram sú regla að frá því að leyfi til einkaskipta hefur verið veitt og þar til annaðhvort skiptum lýkur eða leyfið er fellt niður fari erfingjarnir í sameiningu með forræði á dánarbúinu og eru einir bærir um að ráðstafa hagsmunum þess og svara fyrir skyldur þess. Þessi regla á sér ekki hliðstæðu í orðum laga nr. 3/1878 þótt þar sé tvímælalaust byggt á þessari skipan. Vert er að vekja athygli á því að eitt meginatriði þessarar reglu er það að erfingjar fari í sameiningu með umrætt forræði. Ákvörðunartaka um hagsmuni búsins á þannig undir erfingjana sameiginlega og þeir verða allir að standa í sameiningu að ráðstöfunum. Af augljósum ástæðum getur orðið þungt í vöfum að standa að einstökum aðgerðum varðandi hagsmuni búsins við einkaskipti ef erfingjar eru margir. Af þeim sökum er í 2. mgr. 85. gr. sérstaklega minnst á ráðagerð 2. mgr. 29. gr. um að erfingjar geti í beiðni um leyfi til einkaskipta tilnefnt einn eða fleiri úr sínum hópi eða utanaðkomandi mann til að koma fram af hálfu búsins í samskiptum við aðra. Hér er í reynd um það að ræða að þeir sem fara með forræði á dánarbúinu veiti tilteknum manni eða mönnum umboð af hálfu búsins til ráðstafana og þyrfti því ekki sérstaka heimild í ákvæðum frumvarpsins til að það yrði talið heimilt, en tillaga er þeim mun frekar gerð um þessa reglu til að vekja athygli á þessum kosti sem gæti leitt til verulegs hagsræðis við framkvæmd einkaskipta.

Um 86. gr.


    Í 86. gr. kemur frant regla til áréttingar á því sem hefur verið gengið út frá í fræðikenningum og framkvæmd þótt ekki sé kveðið berum orðum á um það í lögum nr. 3/1878 að erfingjar þurfi að vera á einu máli um allar aðgerðir við einkaskipti til þess að af þeim geti orðið, en frá þessu megi þeir þó víkja með samningi. Með þessu er verið að undirstrika það grundvallareinkenni einkaskipta að erfingjar þurfi ekki aðeins að vera einhuga um að þau fari fram heldur þurfi einnig að vera sammæli um allar ráðstafanir sem eiga sér stað við einkaskiptin. Við einkaskipti er því ekki um það að ræða eins og við opinber skipti að meiri hluti geti ráðið ákvörðun af hálfu búsins, enda fengi það ekki staðist við einkaskipti þar sem erfingjar verða allir sem einn að standa að því að framfylgja slíkri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 85. gr. Ef sú staða kæmi upp við einkaskipti að til dæmis einn erfingi af tíu fengist ekki með nokkru móti til að fella sig við ráðagerð sem hinir væru allir sammála um væri almennt ekki um annað úrræði að tefla en að erfingjar leituðu eftir opinberum skiptum, enda yrði afstaða meiri hlutans að öðru jöfnu lögð þar til grundvallar, sbr. 4. mgr. 70. gr. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 86. gr. að erfingjar geti samið um það sín á milli að láta meiri hluta ráða hverju sinni, er eins og tekið er beinlínis fram í ákvæðinu stæði slíkur samningur ekki í vegi fyrir að erfingi gæti krafist opinberra skipta skv. 1. mgr. 38. gr. sem mundi leiða til þess að leyfi til einkaskipta félli niður. Þessi varnagli um skuldbindingargildi slíks samnings er nauðsynlegur af tilliti til þess, að meiri hluti erfingja kann að vera á einu máli um að gera tiltekna ráðstöfun sem yrði minni hlutanum til tjóns eða væri beinlínis andstæð lögum. Minni hlutinn ætti þá þann kost að krefjast opinberra skipta til að koma í veg fyrir að ráðstöfunin næði fram að ganga með því að skiptastjóri gæti þar virt ákvörðun meiri hlutans að vettugi eftir heimildum 4. mgr. 70. gr.

Um 87. gr.


    Í 1. mgr. 87. gr. er mælt fyrir um að erfingjar geti gefið út og fengið birta í Lögbirtingablaði innköllun til þeirra sem telja til réttinda á hendur búinu. Innköllun af þessum toga hefði litla þýðingu því að fram kemur í niðurlagi þessa ákvæðis að henni fylgi ekki þau áhrif sem mælt er fyrir um í 58. gr. eða með öðrum orðum að innköllunin leiddi ekki til að vanlýstar kröfur féllu niður. Innköllunin mundi því í reynd þjóna þeim eina tilgangi við þessar aðstæður að upplýsingar gætu komið fram um skuldbindingar sem erfingjunum var ekki kunnugt um að fyrra bragði, en í ljósi þessa tilgangs er sú regla eðlileg sem kemur fram í 1. mgr. 87. gr. að erfingjar hafi í hendi sér að ákveða kröfulýsingarfrest og hvert kröfulýsingum yrði beint. Í 76. gr. laga nr. 3/1878 er heimild handa erfingjum til að gefa út innköllun við einkaskipti í þessum sama tilgangi, en henni hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið beitt í framkvæmd. Þrátt fyrir það þykir ekki fyllilega réttmætt að leggja til að heimild til þessarar aðgerðar verði felld úr lögum.
    Í 2. mgr. 87. gr. er kveðið á um þá sjálfsögðu reglu að kröfuhafi geti lýst kröfu á hendur dánarbúi fyrir erfingjum eða tilkynnt þeim um tilvist hennar á annan þann hátt sem hann kýs. Í niðurlagi 2. mgr. kemur hins vegar fram meginatriði þessa ákvæðis þar sem tekin eru af tvímæli um að kröfulýsing eða tilkynning sem þessi hafi ekki þau áhrif sem kröfulýsing hefði við opinber skipti skv. 4. mgr. 57. gr., að vera ígildi málshöfðunar, nema mál verði rekið um kröfuna eftir sérstakri heimild í 2. mgr. 90. gr.
    Í 3. mgr. 87. gr. kemur fram sú regla að mál verði ekki höfðað eftir almennum reglum á hendur dánarbúi þótt það sé til einkaskipta nema á grundvelli tiltekinna ákvæða frumvarpsins, en sérstaklega er þó tekið fram að þessi regla girði ekki fyrir að kröfuhafi geti haft uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms á hendur dánarbúi ef búið hefur höfðað mál á hendur honum um kröfu sem það kann að eiga. Er regla 3. mgr. byggð á því viðhorfi að ef kröfuhafi þarf að afla sér dóms um réttindi sín á hendur búinu eigi hann að beina málsókn sinni að erfingjunum persónulega, einum eða fleiri, á grundvelli ábyrgðar þeirra á skuldbindingum búsins, en ekki að búinu sem slíku.

Um 88. gr.


    Í 88. gr. er að finna reglur sem mæla fyrir um það í hverjum mæli megi beina fullnustugerðum og tryggingargerðum að dánarbúi sem er til einkaskipta. Fyrirmæli eru ekki fyrir hendi um þetta efni í ákvæðum laga nr. 3/1878 sem hefur leitt fil nokkurrar óvissu, en ákvæði 88. gr. byggjast á þeirri meginreglu að aðgerðum sem þessum verði ekki beint að dánarbúi eða eignum þess þótt það sé til einkaskipta, heldur verði kröfuhafi að öðru jöfnu að fylgja eftir réttindum sínum með slikum aðgerðum gagnvart erfingjunum persónulega. Undantekningar eru þó ráðgerðar frá þeirri meginreglu með því að í fyrsta lagi er heimilað í 1. mgr. 88. gr. að fjárnám, kyrrsetning eða löggeymsla geti átt sér stað í eign dánarbúsinsef eignin stendur fyrir fram að veði eða á annan hátt til tryggingar fyrir þeirri kröfu sem fullnustu- eða tryggingargerðarinnar er krafist fyrir. Í öðru lagi er kveðið á um heimild í 2. mgr. 88. gr. til að beina aðfarargerð að dánarbúi ef henni er ætlað að fullnægja kröfu um annað en peningagreiðslu, sbr. XI. og XII. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, en þessi heimild nær þó ekki til þess að fjárnám verði gert í skjóli hennar fyrir peningakröfu sem tengist aðalkröfunni eða gæti eftir atvikum komið í stað hennar, sbr. 5. mgr. 77. gr. ívitnaðra laga. Í þriðja lagi er heimild í 3. mgr. 88. gr. til að krefjast lögbanns við athöfn sem erfingjar framkvæma eða munu fyrirsjáanlega framkvæma í nafni dánarbúsins, en um skilyrði fyrir lögbannsgerðinni og framkvæmd hennar færi þá eftir almennum reglum IV. kafla laga nr. 31/1990. Í 3. mgr. 88. gr. er gert ráð fyrir að mál til staðfestingar lögbanni verði höfðað á hendur dánarbúinu, en þar er um undantekningu að ræða frá áðurgreindri meginreglu 3. mgr. 87. gr. Loks er í fjórða lagi að finna ákvæði í 4. mgr. 88. gr. um heimildir til að krefjast nauðungarsölu á eign dánarbús sem er til einkaskipta. Segir að þetta fari eftir almennum reglum ef því skilyrði sé fullnægt að nauðungarsölunni verði komið fram án aðgerða sem 3. mgr. 87. gr. og 1. mgr. 88. gr. girða fyrir, en í þessu skilyrði felst að heimild þurfi að vera fyrir hendi til að krefjast nauðungarsölu án frekari málshöfðunar eða fjárnáms en kunna að hafa átt sér stað fyrir andlátið, nema fjárnámið hafi verið gert eftir upphaf einkaskipta með stoð í undantekningarreglunni í 1. mgr. 88. gr.

Um 89. gr.


    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um að takmarkaðar heimildir kröfuhafa skv. 87. og 88. gr. til að beina málsókn eða fullnustugerð að dánarbúi sem er til einkaskipta breyti í engu rétti hans til að sækja kröfu sína á hendur erfingjum. Þessu ákvæði er aðeins ætlað að taka af tvímæli um tilvist reglu sem að öðrum kosti hefði mátt draga ályktun um.

Um 90. gr.


    Í 90. gr. koma fram reglur um hvernig verði leyst úr ágreiningi sem kann að rísa við einkaskipti á dánarbúi.
    Í 1. mgr. 90. gr. er mælt fyrir um hvernig verði leyst úr ágreiningi sem rís innbyrðis meðal erfingja hvort sem er um réttindi þeirra til arfs, réttindi eða skyldur búsins eða einstakar ráðstafanir, en hverjum þeirra fyrir sig er þar heimilað að leggja ágreiningsatriðið undir úrlausn héraðsdómara eftir sérreglum 123. gr. og XVII. kafla frumvarpsins. Ef ágreiningur sem þessi kæmi upp milli erfingja hefði það oftar en ekki í för með sér að einhver þeirra eða eftir atvikum þeir allir mundu leita eftir opinberum skiptum, en allt að einu þykir rétt að þessi sérstaka heimild verði til staðar ef það gæti orðið til þess að koma í veg fyrir nauðsyn opinberra skipta. Regla sama efnis kemur nú fram í 75. gr. laga nr. 3/1878, en lítið hefur reynt á notkun hennar í framkvæmd. Í niðurlagi 1. mgr. 90. gr. eru tekin af tvímæli um að dómsmál verði ekki höfðað á annan hátt til að leysa úr ágreiningi milli erfingja við einkaskipti, en fyrrnefnd regla laga nr. 3/1878 hefur verið skilin á sama veg þótt orðalag hennar sé ekki afdráttarlaust að þessu leyti.
    Í 2. mgr. 90. gr. kemur fram heimild sem á sér ekki beina hliðstæðu í lögum nr. 3/1878, en hún felur í sér kost til að fá leyst úr ágreiningi milli kröfuhafa og erfingja um réttindi þess fyrrnefnda á hendur dánarbúinu eftir sérreglum 123. gr. og XVII. kafla frumvarpsins ef allir hlutaðeigendur eru á einu máli um að fara þá leið. Yrði þá um málsókn kröfuhafans að ræða á hendur búinu sem slíku sem gæti að öðru jöfnu ekki annars átt sér stað, sbr. 3. mgr. 87. gr. Sú heimild, sem hér um ræðir, felur í sér valkost sem erfingjar og kröfuhafi geta nýtt sér fremur en að kröfuhafinn höfði mál eftir almennum reglum á hendur erfingjunum um réttindi sín. Þessi valkostur er veittur með það fyrir augum að hlutaðeigendum kynni að þykja hagræði af þessari málsmeðferð. Rétt er að benda á það um þessa reglu að ef mál yrði rekið eftir henni teldist það höfðað við þingfestingu, sbr. 1. mgr. 129. gr.
    Í 3. mgr. 90. gr. er kveðið á um að einkaskiptum verði ekki lokið meðan mál eftir 1. eða 2. mgr. er óútkljáð nema erfingjar og eftir atvikum kröfuhafi, sem ætti aðild að máli skv. 2. mgr., væru allir sammála um það. Þessi regla er einkum nauðsynleg af tilliti til hagsmuna kröfuhafa ef heimildar 2. mgr. 90. gr. væri neytt, enda væri óeðlilegt ef erfingjar gætu leitt hann út í málsókn á hendur búinu og haft á sama tíma í hendi sér að ljúka skiptum á því.

Um 91. og 92. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er kveðið á um atvik sem geta valdið að leyfi til einkaskipta verði fellt niður og hver áhrif brottfall leyfisins hefði. Þessar reglur eiga sér nokkra hliðstæðu í 77.–79. gr. laga nr. 3/1878, en að öðru leyti eru reglurnar í samræmi við það semhefur þótt gilda án beinna lagafyrirmæla.
    Í 91. gr. er mælt fyrir um þau tilvik þar sem sýslumanni verður talið skylt að fella niður einkaskiptaleyfi, en þetta getur átt rætur að rekja til þess að erfingjar ljúki ekki skiptum innan þess frests sem sýslumaður hefur veitt þeim, sbr. 2. og 3. mgr. 31. gr., að þeir hafi ekki fullnægt öðrum skilyrðum sem hann hefur sett fyrir leyfi til einkaskipta, sbr. 1.–3. tölul. 2. mgr. 31. gr., eða að hann neiti að staðfesta einkaskiptagerð þeirra skv. 2. mgr. 94. gr. Gert er ráð fyrir því í 1. mgr. 91. gr. að sýslumaður gefi erfingjum að öðru jöfnu kost á að tjá sig um málefnið áður en þessu úrræði yrði beitt og eftir atvikum að þeir fengju frest til að ráða bót á því sem kynni að valda niðurfellingu leyfisins, en hér er þó ekki um fortakslausa skyldu að ræða eins og orðalag ákvæðisins gefur til kynna og gæti því sýslumaður fellt niður leyfið án slíks aðdraganda ef til dæmis væri um að ræða stórfellda vanrækslu af hendi erfingja eða brot í garð ófjárráða erfingja sem yrði uppvíst um. Niðurfelling leyfisins yrði að eiga sér stað með tilkynningu til erfingja, en að þeirri aðgerð afstaðinni er ráðgert að sýslumaður taki við formlegu forræði á málefnum búsins á ný, sbr. 11. gr., og krefjist opinberra skipta í beinu framhaldi af því, sbr. 5. tölul. 37. gr. Af fyrirmælum 2. mgr. 91. gr. leiðir að leyfi til einkaskipta verði ekki fellt niður af sýslumanni af öðrum ástæðum en þessum, heldur geti það aðeins gerst með því að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta, sbr. 45. gr., hvort sem þess yrði krafist af hendi erfingja sem átti þátt að einkaskiptunum, manns sem teldi sig að réttu lagi erfingja, en hefði ekki átt hlut að einkaskiptunum, eða kröfuhafa.
    Í 92. gr. er mælt fyrir um hvernig fari um gildi og áhrif ráðstafana sem erfingjar hafa gert meðan á einkaskiptum stóð ef leyfi þeirra til einkaskipta fellur niður hvort sem sýslumaður fellir leyfið niður skv. 1. mgr. 91. gr. eða það gerist með því að búið sé tekið til opinberra skipta. Efnisatriði þessarar greinar eru í samræmi við fræðikenningar og eru að nokkru þau sömu og koma fram í ákvæðum 79. gr. laga nr. 3/1878. Þykir því ekki ástæða til að skýra þau frekar hér.

Um 93.–95. gr.


    Þessi ákvæði frumvarpsins geyma reglur um það hvernig staðið verði að því að ljúka einkaskiptum sem eru til muna ítarlegri en núgildandi fyrirmæli 77. gr. laga nr. 3/1878, en reglur 93.–95. gr. eru að mestu byggðar á venjum sem hafa myndast í þessum efnum í framkvæmd.
    Í upphafi 1. mgr. 93. gr. kemur fram að erfingjar hafi í hendi sér að ákveða hvenær þeir telji málefni dánarbúsins komin á það stig að tímabært sé að ljúka skiptunum, en þetta verður að sjálfsögðu að vera innan þess frests sem sýslumaður hefur veitt þeim í þessum efnum eins og tekið er fram í ákvæðinu. Erfingjar verða því meðal annars að gera upp við sig hvort þeir ætli að ráðstafa öllum eignum dánarbúsins meðan á skiptum stendur, t.d. með sölu þeirra eða útlagningu einstakra muna til ákveðinna erfingja, eða hvort þeir vilji ljúka einkaskiptum á sem skemmstum tíma og taka til dæmis við öllum eignum dánarbúsins með útlagningu til óskiptrar sameignar sín á milli. Erfingjarnir hefðu þannig frjálsræði í þessum efnum eins og eftir núgildandi lögum og væri engan veginn skylt að útkljá öll atriði til fullnaðar meðan á einkaskiptum stæði. Ef erfingjarnir veldu hins vegar að fara þá leið að ljúka einkaskiptum án þess að ráða öðru en brýnustu atriðum til lykta og tækju við öllum eignum til öskiptrar sameignar og öllum skuldbindingum í sameiningu ber að benda á að þeir hefðu þar með útilokað endanlega að hægt yrði að nota úrræði frumvarpsins til að leysa úr málum sínum á síðari stigum. Þeir gætu þannig ekki krafist opinberra skipta eða leitað úrlausnar dómstóla á ágreiningi sínum eftir sérreglum frumvarpsins því að skiptunum væri lokið þegar hér væri komið sögu og þau yrðu ekki endurupptekin, sbr. 1. og 2. mgr. 95., og yrðu erfingjar þannig að leita annarra og ólíkt þyngri úrræða til að útkljá sín mál. Þessi aðstaða er sú sama og leiðir af núgildandi lögum og ætti að vera erfingjum umhugsunarefni áður en þeir tækju ákvörðun um að ljúka einkaskiptum án þess að hafa ráðið öllum atriðum til lykta.
    Í 93. gr. kemur fram sú meginregla um aðdragandann að því að einkaskiptum verði lokið að erfingjar geri skriflegan samning sín á milli, einkaskiptagerð, þar sem tíundað yrði í einstökum atriðum hverjar eignir hafi komið til skipta, hverjar skuldbindingar hafi hvílt á búinu, hvað hver þeirra fái í sinn hlut við skiptin og hverjar skuldbindingar hver þeirra kann að taka að sér, en leiðbeiningarreglur um nauðsynlegt efni samningsins koma fram í 1.–5. tölul. 1. mgr. 93. gr. Samhliða þessu er ráðgert í 3. mgr. 93. gr. að erfingjar geri svokallaðar skiptayfirlýsingar sem þeir gæfu út í eigin nafni og geymdu ákvæði um hverjir þeirra hafi fengið tiltekin verðmæti lögð sér út að arfi, en yfirlýsingar sem þessar yrðu líkt og eftir núgildandi reglum nauðsynlegar til að þinglýsa eignarréttindum erfingja að fasteign eða skipi, skrásetja eignarréttindi að bifreið, fá bankareikninga eða verðbréf færð af nafni þess látna yfir á nafn erfingja o.s.frv. Erfingjar hefðu að vísu í hendi sér að láta hjá líða að gera sérstakar yfirlýsingar sem þessar ef þeir vildu fremur leggja einkaskiptagerð sína í heild fyrir á hverjum stað sem skiptayfirlýsingu hefði annars verið framvísað, en slík aðferð yrði til verulegs óhagræðis. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því í 3. mgr. 93. gr. að erfingjar verði á þessu stigi að gera nauðsynlegar skýrslur vegna greiðslu erfðafjarskatts, en í þeim efnum yrði farið að eftir fyrirmælum laga nr. 83/1984. Í 4. mgr. 93. gr. er mælt fyrir um heimild handa erfingjum til að ljúka einkaskiptum án þess að þurfa að gera einkaskiptagerð eftir þeim reglum sem hér um ræðir, en skilyrði þess eru nánar tiltekið þau að eignir séu óverulegar eða skiptin séu einföld af öðrum ástæðum og að nægar upplýsingar komi að öðru leyti fram að mati sýslumanns í erfðafjárskýrslu sem væri gerð eftir ákvæðum laga nr. 83/1984. Þessi leið yrði þó að öllu leyti háð því að erfingjar væru ásáttir við að gengið verði út frá að sérhver eign dánarbúsins hafi verið lögð þeim út til óskiptrar sameignar eftir arfshlutföllum, sbr. 2. malsl. 4. mgr. 93. gr., hvort sem um væri að ræða fasteign eða sjönvarpstæki og gætu þeir þá ekki borið því við á síðari stigum út á við að skiptum hafi verið hagað með öðru móti nema þeir stæðu allir í sameiningu að skriflegum samningi eða yfirlýsingu því til staðfestingar. Þær reglur, sem hér um ræðir, eru í nær öllum atriðum í samræmi við núverandi framkvæmd, en þó er rétt að benda á að ákvæðum 93. gr. er ætlað að herða nokkuð á að einkaskiptagerð verði látin af hendi en viðgengist hefur til þessa í framkvæmd.
    Þau gögn, sem nú hafa verið nefnd, yrðu afhent þeim sýslumanni sem skiptin ættu undir og eftir 1. mgr. 94. gr. bæri honum að yfirfara þau og taka afstöðu til þess hvort þau verði metin fullnægjandi svo fljótt sem verða mætti. Í þessu ákvæði er að finna fyrirmæli um að sýslumaður geti krafist frekari gagna eða skýringa áður en hann taki afstöðu til þess sem erfingjar hafa lagt fyrir hann og skv. 2. mgr. 94. gr. gæti hann gefið erfingjum kost á að ráða bót á annmörkum í þessum efnum. Ef verulegir ágallar væru á einkaskiptagerð eða öðrum gögnum sem erfingjar legðu fyrir sýslumann og ekki yrði eftir atvikum bætt úr þeim er mælt fyrir um það í 2. mgr. 94. gr. að sýslumaður synji um staðfestingu einkaskiptagerðar. Líkt og leiðir af 77. gr. laga nr. 3/1878 hefði sú synjun sjálfkrafa í för með sér að leyfi til einkaskipta félli niður, sbr. 1. mgr. 91. gr. frumvarpsins, en slík synjun er nú nánast óþekkt í framkvæmd þar sem erfingjar bæta að jafnaði úr annmörkum sem gætu valdið henni.
    Í 3. mgr. 94. gr. er kveðið á um það að þegar sýslumaður hefur staðreynt nægilega að einkaskiptagerð og önnur gögn, sem erfingjar leggja fyrir hann, séu fullnægjandi þá áriti hann þau um staðfestingu sína. Þannig yrði einkaskiptagerð árituð um þetta og einnig skiptayfirlýsingar sem erfingjar hefðu lagt fyrir sýslumann, sbr. 3. mgr. 93. gr. Að auki verður hér að taka tillit til þess að sýslumaður yrði samhliða þessu að yfirfara, fallast á og árita erfðafjárskýrslu til þess að hægt væri að ljúka einkaskiptum, en reglur um þau efni koma fram í lögum nr. 83/1984 sem er lítillega breytt að þessu leyti með 18. tölul. 136. gr. frumvarpsins. Ákvæði 94. gr. geta hins vegar eftir efni sínu tekið til þess að sýslumaður krefjist frekari gagna varðandi erfðafjárskýrslu á grundvelli 1. mgr. þótt engir annmarkar væru á öðrum skjölum og að hann synji um staðfestingu einkaskiptagerðar á grundvelli 2. mgr. vegna atriða sem varða álagningu erfðafjárskatts.
    Í 1. mgr. 95. gr. kemur síðan fram sú meginregla að einkaskiptunum sé lokið þegar sýslumaður hefur áritað einkaskiptagerð og eftir atvikum önnur gögn eftir fyrirmælum 3. mgr. 94. gr. Sambærileg regla kemur ekki fram í lögum nr. 3/1878 sem hefur gefið tilefni til vafa í þessum efnum í framkvæmd. Lok einkaskipta hafa í för með sér sömu áhrif og þegar opinberum skiptum yrði lokið eftir öðrum ákvæðum X. kafla en 73. og 74. gr. eða með öðrum orðum að lokið væri þeim aðgerðum sem þyrfti til að slíta dánarbúinu sem lögpersónu. Eftir 2. mgr. 95. gr. verða einkaskiptin ekki tekin upp á ný nema undir þeim einu kringumstæðum að eign komi fram eftir skiptalok sem láðist að taka tillit til við skiptin. Ef sú aðstaða kæmi upp er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að erfingjar taki að meginreglu upp einkaskipti sín á ný til að ráðstafa viðkomandi eign og geri síðan viðbótarskiptagerð sem þeir legðu fyrir sýslumann eftir almennum reglum 93. og 94. gr., en ákvæði 2. mgr. 95. gr. útiloka þó ekki að opinber skipti geti átt sér stað til að leiða endurupptöku til lykta. Rétt er að benda sérstaklega á að fyrirmæli í niðurlagi 2. mgr. 95. gr. fela í sér að við endurupptökuna yrði aðeins um aðgerðir að ræða varðandi eignina sem varð tilefni hennar hvort sem hún ætti sér stað með einkaskiptum eða opinberum skiptum og yrði því í engu hróflað við því sem áður var gert. Endurupptaka gæti þannig ekki farið fram til að ráða bót á atriðum sem mátti útkljá áður en skiptum var lokið en var látið hjá líða að gera. Ákvæði 3. mgr. 95. gr. fela jafnframt þá meginreglu í sér að einkaskipti verða heldur ekki endurupptekin þótt gengið hafi verið ranglega fram hjá erfingja við þau, heldur yrði slíkur erfingi að halda uppi tilkalli sínu með málsókn eftir almennum reglum, sbr. 2. mgr. 84. gr.

Um 96. gr.


    Í 96. gr. koma fram reglur um það hvernig sérstakur lögráðamaður eða málsvari, sem kann að hafa verið skipaður fyrir erfingja, ljúki hlutverki sínu þegar einkaskipti fara fram á dánarbúi. Í athugasemdum við 81. gr. var vikið að því hvernig yrði staðið að þessu við lok opinberra skipta, en segja má að reglur 96. gr. séu í alla staði samsvarandi ef tillit er tekið til þess að við einkaskipti leiðir af eðli máls að sérstakur lögráðamaður eða málsvari yrði á einhverju stigi að taka við arfi skjólstæðings síns meðan komist yrði hjá því við opinber skipti. Kemur þannig skv. 96. gr. í hlut sérstaks lögráðamanns eða málsvara að standa skil á arfinum við lok einkaskipta með sama hætti og skiptastjóri mundi gera við lok opinberra skipta. Af þessum ástæðum þykir 96. gr. ekki þarfnast frekari skýringa.

Um 97. gr.


    Samkvæmt 5. tölul. 28. gr. er eitt af skilyrðunum fyrir veitingu leyfis til einkaskipta að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um tilvist skuldbindinganna. Til að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra er aftur kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. og þá með þeim hætti að hún nái til skuldbindinga sem enn væru við lýði eftir lok einkaskipta.

Um 98.–100. gr.


    Í 98.–115. gr., sem heyra til XIV. kafla frumvarpsins, koma fram reglur um opinber skipti til fjárslita milli hjóna og sambýlisfólks. Eins og vikið var að í almennum athugasemdum hér á undan er þessum reglum frumvarpsins meðal annars ætlað að koma í stað ákvæða 6. kapítula laga nr. 3/1878, fyrirmæla í 90. gr. laganna um skipti við slit óvígðrar sambúðar og ýmissa ákvæða í VI. kafla laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, og VI. og VII. kafla laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923. Er í XIV. kafla frumvarpsins leitast við að setja fram reglur um þessi opinberu skipti með þeim hætti að þær taki almennt til allra tilvika þótt mismunandi tilefni kunni að búa að baki skiptunum og er reglunum að mestu skipað í röð sem mundi svara til atburðarásar við framkvæmd skiptanna. Þá hefur einnig verið stefnt að því að ákvæði XIV. kafla taki skýrari afstöðu en fyrirmæli núgildandi laga til ýmissa álitaefna sem geta risið við framkvæmd þessara skipta, en í þeim efnum hefur að mestu verið byggt á venjum sem hafa mótast í framkvæmd.
    Rétt er að geta þess áður en lengra verður haldið að í reglum XIV. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir nokkuð breyttri notkun hugtaka frá því sem virðist almennt byggt á í núgildandi lögum. Í ákvæðum fyrrnefndra laga er yfirleitt tekið svo til orða að verið sé að skipta „búi“ eða „félagsbúi“ hjóna og eftir atvikum „búi“ fólks í óvígðri sambúð. Notkun hugtaksins „bú“ verður að teljast verulega villandi í þessu samhengi þó að ekki væri litið til annars en þess að öll áðurgreind lög byggja á þeim grunni að einstakar eignir tilheyri öðru hvoru hjóna eða eftir atvikum að hjón geti átt tiltekna eign að sérstakri sameign og á það sama við þegar litið er til óvígðrar sambúðar. Eignir hjóna eða sambúðarfólks tilheyra þannig ekki „búi“ sem myndast milli þeirra og enn síður hvíla skuldbindingar á slíkri ímyndaðri lögpersónu, heldur á öðru hvoru hjónanna eða sambýlismanninum eða eftir atvikum á báðum í senn hafi bæði gengist undir hana. Þá ber að auki að benda á að í athugasemdum við 2. gr. þessa frumvarps var vikið sérstaklega að því að hugtakið dánarbú sé notað til að tákna sjálfstæða persónu að lögum sem verði til við andlát og taki við réttindum og skyldum látins manns. Sambærileg sjálfstæð lögpersóna getur hins vegar ekki orðið til að lögum við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og tekið við réttindum og skyldum hjónanna eða sambúðarfólksins því að líkt og meðan á hjúskap eða óvígðri sambúð stendur tilheyra eignirnar aðilunum sjálfum eftir lok hjúskapar eða sambúðar og skuldbindingarnar hvíla eftir sem áður á þeim. Er því forðast að öllu leyti að haga orðum XIV. kafla frumvarpsins með þeim hætti að verið sé að skipta „búi“ milli hjóna eða sambýlisfólks, en þess í stað er tekið svo til orða að opinber skipti séu hér að fara fram til fjárslita milli hlutaðeigenda. Hugtakið fjárslit er notað í þessu sambandi eftir fyrirmynd í 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/1972 og þykir mega nota það jafnt þegar rætt er um fjárhagslegt uppgjör við skilnað hjóna, ógildingu hjúskapar eða án þess að hjúskapnum ljúki, svo og við sambærilegt uppgjör við slit óvígðrar sambúðar.
    Í 98.–100. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þau tilvik þar sem heimilt yrði að krefjast opinberra skipta til að koma fram fjárslitum í áðurgreindum skilningi milli hjóna eða sambúðarfólks, en þessi fyrirmæli eiga sér hliðstæður í núgildandi lögum. Þannig er í fyrsta lagi mælt fyrir í 98. gr. um heimildir til opinberra skipta til fjárslita milli hjóna vegna yfirvofandi hjúskaparslita, annars vegar í 1. mgr. þegar leitað hefur verið skilnaðar fyrir yfirvaldi og hins vegar í 2. mgr. þegar dómsmál hefur verið höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar. Ákvæði 98. gr. eiga sér efnislega samsvörun í VII. kafla laga nr. 20/1923 og 6. kapítula laga nr. 3/1878. Í öðru lagi koma fram ákvæði í 99. gr. frumvarpsins um heimildir annars hjóna eða þeirra beggja til að leita fjárslita sín á milli með opinberum skiptum án tengsla við hjúskaparslit, en reglur sama efnis koma nú fram í 39. og 40. gr. laga nr. 20/1923. Þá er í þriðja lagi tekin upp regla í 100. gr. frumvarpsins um heimild til að leita opinberra skipta til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar, en sú regla er í alla staði sama efnis og núgildandi ákvæði um þetta í 1. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 3/1878, sbr. lög nr. 13/1986. Í þessu ljósi þykir ekki ástæða til að fjalla hér nánar um einstök atriði þessara reglna.

Um 101. og 102. gr.


    Í 101. og 102. gr. er fjallað um hvernig verði krafist opinberra skipta til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks, hvernig verði farið með slíka kröfu og leyst úr henni og hver megináhrif það hafi að krafan verði tekin til greina. Þessi ákvæði eiga sér í flestum atriðum hliðstæður í reglunum um sömu atriði við opinber skipti á dánarbúum.
    Í 1. mgr. 101. gr. kemur sú regla fram að beina verði kröfu um opinber skipti við þessar aðstæður til héraðsdómstóls, með sama hætti og ef verið væri að krefjast opinberra skipta á dánarbúi. Er jafnframt tekið fram í ákvæðinu í hvaða héraðsdómsumdæmi krafa sem þessi verði sett fram, en það yrði annaðhvort í umdæminu þar sem hlutaðeigendur áttu síðast eða kunna enn að eiga sameiginlegt lögheimili eða í öðru umdæmi sem kann að verða samið sérstaklega um án tillits til heimilisstaðar. Er með þessum hætti gert ráð fyrir tvímælalausri reglu um það undir hvern dómstól það ætti að leysa úr kröfu um opinber skipti eftir XIV. kafla, en slík regla er ekki fyrir hendi í ákvæðum núgildandi laga og hefur það leitt til óvissu í framkvæmd.
    Í 2. og 3. mgr. 101. gr. er mælt fyrir um hvers efnis krafa um opinber skipti þurfi að vera við þessar aðstæður og hvað þurfi að fylgja henni. Þessar reglur eru áþekkar ákvæðum 42. gr., en eftir eðli máls verður efni kröfunnar þó að vera með öðrum hætti í vissum atriðum en þegar krafist væri opinberra skipta á dánarbúi, svo sem ráða má nánar af 1.–3. tölul. 2. mgr. 101. gr. Um 3. mgr. 101. gr. má nefna að þar er ætlast til að gögn fylgi kröfunni til stuðnings því að skilyrðum 98., 99. eða 100. gr. sé fullnægt, en eftir atvikum yrði þetta gert með því að leggja til dæmis fram vottorð eða endurrit úr gerðabók yfirvalds um meðferð skilnaðarkröfu, sbr. 1. mgr. 98. gr., stefnu til sönnunar um málshöfðun, sbr. 2. mgr. 98. gr., sönnunargögn um aðstæður sem heimili kröfu um opinber skipti eftir 99. gr. eða vottorð úr þjóðskrá um að sambýlisfólk hafi haft sameiginlegt heimili tiltekinn tíma en ekki sé lengur um það að ræða.
    Ákvæði 4. mgr. 101. gr. eiga sér samsvörun í 41. gr. og þarfnast því ekki sérstakra athugasemda hér.
    Í 5. mgr. 101. gr. er vísað til ákvæða 43. og 44. gr. um hvernig héraðsdómari fari með og leysi úr kröfu um opinber skipti til fjárslita eftir XIV. kafla, að því frátöldu að honum yrði ekki ætlað að tilkynna sýslumanni um niðurstöður í þessum efnum eins og mælt er fyrir um í 6. mgr. 44. gr. Má því segja að reglurnar um meðferð kröfunnar og úrlausn um hana þarfnist ekki frekari athugasemda hér, en þó er rétt að benda á að líklegra gæti verið á þessum vettvangi en varðandi dánarbú að til ágreinings kæmi um hvort skilyrði væru fyrir opinberum skiptum, t.d. með því að sambýlisfólk deili um hvort sambúð þeirra hafi fullnægt áskilnaði 101. gr. til að opinber skipti geti átt sér stað.
    Í 102. gr. er mælt annars vegar fyrir um hvenær skipti teljast byrja í þessum tilvikum, en þau tímamörk geta haft þýðingu varðandi beitingu annarra ákvæða kaflans, t.d. 108. gr. Hins vegar kemur fram í 102. gr. að héraðsdómari eigi, með sama hætti og við opinber skipti á dánarbúi, að skipa skiptastjóra til að framkvæma opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks með bókun þar um í þingbók þegar í stað eftir uppkvaðningu úrskurðar þar sem krafa um skiptin yrði tekin til greina. Kemur fram í 102. gr. að fyrirmæli V. kafla eigi við um skiptastjóra í þessum tilvikum og gilda því sömu reglur hér um hæfi, frávikningu, réttindi og skyldur skiptastjóra og áður hefur verið lýst í einstökum atriðum.

Um 103. gr.


    Í 103. gr. eru ákvæði um hvernig verði brugðist við ef annað hjóna eða annar sambýlismaðurinn eða jafnvel þau bæði eru ófær um að gæta hagsmuna sinna við opinber skipti til fjárslita milli þeirra eða ekki er vitað hvar verði náð til hlutaðeiganda. Reglurnar í þessum efnum þykja skýra sig sjálfar, en ætla má að mjög lítið gæti reynt á þær í framkvæmd.

Um 104. gr.


    Í 104. gr. koma fram reglur um það til hverra réttinda og skuldbindinga verði tekið tillit við opinber skipti til fjárslita samkvæmt XIV. kafla, en skýr ákvæði eru ekki um þessi efni í núgildandi lögum. Ákvæði 104. gr. taka að talsverðu leyti til álitaefna um efnisleg réttindi hjóna eða sambýlisfólks við opinber skipti til fjárslita milli þeirra og má þannig segja að hér sé brotið gegn þeirri almennu stefnu frumvarpsins að sneiða hjá því að taka upp reglur um efnisleg réttindi við skipti. Þetta þykir hins vegar óhjákvæmilegt og mega helgast af því að þau atriði, sem 104. gr. tekur til, hafa grundvallarþýðingu við framkvæmd opinberu skiptanna, auk þess að ekki verður séð hvar mætti skipa á einum öðrum stað í löggjöf reglu sem tæki í senn til réttinda hjóna í þessu sambandi, án tillits til þess hvort hjúskap þeirra væri slitið, sambýlisfólks og barna þeirra.
    Meginefni 1. mgr. 104. gr. felst í afmörkun ákvæðisins á því á hverjum tíma eignir eða skuldbindingar þurfi að hafa verið til staðar til að tillit verði tekið til þeirra við opinberu skiptin. Er þannig talið upp hver tímamörkin séu í þessum efnum varðandi hvert tilefni sem getur orðið til opinberra skipta samkvæmt 98.–100. gr. Að auki er tekið af skarið um að tekið verði tillit til tekna af eignum sem hafa fengist eftir þau tímamörk sem yrðu ráðandi í hverju tilviki. Rétt er þó að benda á að beinlínis er gert ráð fyrir því í 1. mgr. 104. gr. að víkja megi frá reglum ákvæðisins ef samkomulag tækist um það milli hlutaðeigenda.
    Í 2. og 3. mgr. 104. gr. er mælt fyrir um undantekningar frá aðalreglunni 1. mgr. með því að aðilunum og eftir atvikum sameiginlegum ófjárráða börnum þeirra er heimilað sérstaklega að krefjast þess að fá tiltekna muni til eignar án tillits til skiptanna, en hér væri um muni að ræða sem hefðu að öðrum kosti fallið undir fyrirmæli 1. mgr. 104. gr. Afmörkunin á því um hverja muni geti hér verið að ræða er sambærileg þeirri sem kemur fram í 33. gr. frumvarpsins og þarfnast þessar reglur því ekki frekari skýringa hér.

Um 105. og 106. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins er mælt fyrir um þær upphafsaðgerðir skiptastjóra við opinber skipti samkvæmt XIV. kafla sem felast í öflun upplýsinga um eignir og skuldbindingar sem tillit verður tekið til við fjarslitin, sbr. 104. gr. Í þessu skyni er skiptastjóra gert að boða aðilana eða eftir atvikum umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar og leita þar vitneskju jöfnum höndum um eignir og skuldbindingar, en gert er ráð fyrir að þetta geti þurft að gerast í nokkrum áföngum og þá á fleiri fundum en einum, sbr. 2. mgr. 105. gr. Í báðum ákvæðunum er byggt á þeirri meginreglu að aðilarnir verði sjálfir að leggja til upplýsingar um eignir og skuldbindingar og verði því ekki ætlast til að skiptastjóri leiti þeirra nema krafist sé og hann geti orðið við þeirri kröfu með góðu móti, sbr. 2. mgr. 105. og 1. mgr. 106. gr.
    Í 105. gr. er fjallað sérstaklega um þá öflun upplýsinga um eignir sem hefur verið minnst á, en af einstökum atriðum í þessu sambandi má benda á að í 1. mgr. eru veittar nokkrar leiðbeiningar um hverra upplýsinga eigi nánar að leita í þessum efnum. Þannig verður ekki aðeins leitað upplýsinga um tilvist einstakra eigna, heldur einnig hvort skilyrði séu til að taka tillit til þeirra skv. 104. gr., hvorum aðilanum hver eign tilheyri eða hvort eignin sé eftir atvikum sameign þeirra, hvar hverja einstaka eign sé að finna og hver hafi vörslur hennar og hvert verðgildi hverrar eignar sé. Ef sammæli verða ekki um hvert verðgildi eigna sé er mælt fyrir um það úrræði í 3. mgr. 105. gr. að leita megi mats á þeim eftir því sem þörf krefur eftir sömu reglum og mælt er fyrir um varðandi verðmat á eignum dánarbúa, sbr. 17.–23. gr. Þá er enn fremur kveðið sérstaklega á um það í 4. mgr. 105. gr. hvernig verði brugðist við ef upplýst yrði að eign hafi þegar verið ráðstafað sem taka ætti tillit til við fjárslitin eftir ákvæðum 1. mgr. 104. gr.
    Í heild má leiða af ákvæðum 105. gr. að skiptastjóri eigi að ná saman fullnaðarupplýsingum um þær eignir sem tillit verður tekið til og að hann geri þá eftir atvikum skrá um þær þar sem mætti á einum og sama stað geta verðgildis þeirra, geymslustaðar, hver fari með umráðin o.s.frv. Þessi tilhögun er hér ráðgerð í ljósi þeirra frekari aðgerða sem þurfa að eiga sér stað við framkvæmd fjárslitanna og koma fram í 107.–111. gr., en þeim ákvæðum verður lýst nánar hér á eftir. Rétt er að nefna í þessu sambandi að ágreiningur gæti risið á þessu stigi aðgerða milli aðilanna um til dæmis hvort tiltekin eign hafi verið til, hvort taka ætti tillit til hennar við fjárslitin eða hvert verðgildi hennar sé, en úr slíkum ágreiningi yrði þá að leysa eftir fyrirmælum 112. og 122. gr.
    Í 106. gr. er að finna um margt sambærileg ákvæði um þær upplýsingar varðandi skuldbindingar aðilanna sem skiptastjóri þyrfti að leita. Þannig þyrfti að komast að raun um hvort skuldbinding sé fyrir hendi, hvers efnis hún sé nákvæmlega og á hvorum aðilanum hún hvíli eða hvort hún beinist eftir atvikum að þeim báðum í senn. Þá er einnig ætlast til þess í 2. mgr. 106. gr. að fram komi þegar á þessu stigi hvort annað hjóna telji sig eiga kröfur gagnvart hinu eftir sérreglum 2. mgr. 48. gr. og 52.–54. gr. laga nr. 20/1923. Gengið er út frá því í reglum 106. gr. að almennt megi fá fullnaðarupplýsingar um skuldbindingar með því að leita þeirra hjá aðilunum sjálfum, enda er það í samræmi við reynsluna í framkvæmd eftir núgildandi reglum. Ekki er þó útilokað að sú aðstaða geti komið upp að aðilarnir hafi annaðhvort ekki yfirsýn yfir skuldastöðu sína eða að annar þeirra fáist ekki til að veita raunhæfar upplýsingar í þessum efnum. Af þeim sökum er gert ráð fyrir heimild í 3. mgr. 106. gr. til að gefa út innköllun til skuldheimtumanna við opinber skipti sem þessi. Samkvæmt 4. mgr. 106. gr. hefði slík innköllun hins vegar ekki þau áhrif að vanlýstar kröfur féllu niður og lýsing kröfu eftir innkölluninni yrði heldur ekki ígildi málshöfðunar, sbr. 4. mgr. 57. gr. og 58. gr. Innköllun undir þessum kringumstæðum væri því aðeins til upplýsingaöflunar, þannig að fenginn yrði grundvöllur til að ákveða til hverra skuldbindinga yrði tekið tillit, en að þessu leyti svipar innkölluninni hér til innköllunar við einkaskipti sem fjallað var um hér áður í athugasemdum við 87. gr. Í 5. mgr. 106. gr. er gert ráð fyrir að hvor aðilinn um sig eigi kost á að tjá sig um skuldbindingar sem hinn kann að segja til um eða upplýst yrði um með kröfulýsingu. Ekki verður útilokað að ágreiningur gæti þá risið milli aðilanna um til dæmis réttmæti skuldbindingar, fjárhæð hennar eða hvort tillit ætti að taka til hennar skv. 1. mgr. 104. gr. Leysa yrði úr slíkum ágreiningi eftir fyrirmælum 112., sbr. 122. gr., en í þessu sambandi ber að vekja athygli á því að hér yrði að öllu leyti um að ræða ágreiningsmál milli hjónanna eða sambýlisfólksins þar sem annað héldi til dæmis fram tilvist skuldbindingar en hitt andmælti að hún væri til. Sá sem væri sagður kröfuhafi ætti þannig ekki aðild að ágreiningsmálinu, enda væri hér ekki verið að leysa úr réttindum hans á hendur öðrum eða báðum aðilunum heldur aðeins hvort eða hvernig tekið yrði tillit til skuldbindingar við fjárslitin milli aðilanna.

Um 107. og 108. gr.


    Í athugasemdum við 98.–100. gr. hér á undan var bent á að opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks breyti ekki þeirri skipan sem var við lýði meðan á hjúskap eða sambúð stóð, að hvort hjónanna eða hvor sambýlismaðurinn hafi átt sínar eignar og borið sínar skuldbindingar, en eftir atvikum gætu hlutaðeigendur hafa átt tilteknar eignir í sérstakri sameign með því til dæmis að hafa báðir lagt fé til kaupa þeirra og eins gætu tilteknar skuldbindingar hvílt á báðum með því að þeir hafi stofnað til þeirra í sameiningu eða annar þeirra stæði í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld hins. Meginatriðið í þessu sambandi er þannig að lögum samkvæmt er ekki almenn sameign milli hjóna um allar eignir og heldur ekki almenn sameiginleg ábyrgð þeirra á skuldbindingum og er ekki frekar um slíkt að ræða milli fölks í óvígðri sambúð.
    Athygli er vakin á þessu hér á ný til að árétta að þegar opinber skipti fara fram til fjárslita samkvæmt XIV. kafla er um þá aðstöðu að ræða að hvor aðilinn telst eftir sem áður eigandi að sínum munum eða réttindum, en skiptin fara fram til að fullnægja því tilkalli sem hinn aðilinn getur talist eiga til hlutdeildar í andvirði þeirra muna eða réttinda eftir lagareglum um fjármál hjóna eða ólögfestum fordæmisreglum um fjármál fólks í óvígðri sambúð. Eftir almennum reglum fylgja ýmsar heimildir því að njóta eignarréttar að munum eða réttindum, t.d. heimild til afnota af eign, til að hafa vörslur hennar og ráðstafa henni. Ef engar takmarkanir væru gerðar á þessum almennu heimildum eiganda yfir munum sínum þegar til opinberra skipta kæmi til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks má telja augljóst að skiptin yrðu illframkvæmanleg, auk þess að brýn hætta væri á að annar aðilinn kynni að grípa til ráðstafana á eignum sínum vísvitandi til að rýra hlut hins. Ákvæði 107. og 108. gr. eru lögð til gagngert til að mæta þessum þörfum, en í fyrrnefnda ákvæðinu er mælt fyrir um reglur sem víkja frá almennum reglum um vörslu- og afnotarétt eiganda og í því síðarnefnda eru gerðar veigamiklar takmarkanir á rétti eiganda til að ráðstafa munum sínum eða öðrum réttindum.
    Í 1. mgr. 107. gr. kemur fram sú meginregla að hvor aðilinn njóti réttar til þess við opinber skipti að hafa áfram vörslur þeirra eigna sem hann hafði í umráðum sínum við upphaf skiptanna og að sama skapi að hafa áfram afnot af því sem hann hafði á því tímamarki, en þetta á við án tillits til þess hvor aðilinn teljist eigandi að viðkomandi eignum. Þessi regla á þó aðeins við um þær eignir sem tillit verður tekið til við fjárslitin skv. 104. gr., þannig að réttur annars aðilans til að hafa vörslur eða afnot gæti ekki náð til eignar sem kæmi ekki til skipta og hinn ætti rétt yfir samkvæmt því ákvæði. Í 2. og 3. mgr. 107. gr. koma hins vegar fram ýmsar heimildir handa skiptastjóra til að ákveða að vikið verði frá umræddri meginreglu 1. mgr., ýmist af tilliti til þarfa hvors aðilans um sig, meðferðar vörslu- eða afnotahafans á eign eða nauðsynja við framkvæmd skiptanna, en einstakar heimildir í þessum efnum þykja skýra sig sjálfar. Í 4. mgr. 107. gr. er síðan mælt fyrir um sérstakt úrræði skiptastjóra til að framfylgja ákvörðun sinni skv. 2. eða 3. mgr. um breytingu á vörslum eða afnotarétti, en í þessu skyni er ráðgert að skiptastjóri geti leitað atbeina héraðsdóms, sbr. 1. mgr. 124. gr.
    Í 108. gr. er síðan kveðið á um að skiptastjóri sé einn bær um að ráðstafa eignum aðilanna meðan á opinberum skiptum stendur, nema þær hafi þegar verið lagðar öðrum aðilanum út við skiptin til frjálsrar ráðstöfunar skv. 110. gr. Skiptastjóri væri því til dæmis einn bær um að selja eign, sbr. 3. mgr. 111. gr., eða að taka ákvörðun um að gefa réttindi eftir og gæti sá aðilanna, sem teldist eigandi, ekki gert slíka ráðstöfun án heimildar skiptastjóra eða til dæmis gefið eign, veðsett hana eða fargað henni. Til þess að tryggja að þessi regla yrði höfð í heiðri kynni skiptastjóri eftir atvikum að þurfa að fá til dæmis þinglýsta athugasemd á fasteign um skiptin og gera viðeigandi tryggingarráðstafanir varðandi annars konar eignir.

Um 109.–111. gr.


    Eins og minnst hefur verið á hér áður á hvort hjóna um sig sínar eignir og ber sínar skuldbindingar, bæði meðan á hjúskap stendur og þegar honum er slitið, og á það sama við um fólk í óvígðri sambúð. Við fjárslit milli hjóna verða hins vegar að jafnaði virk gagnkvæm réttindi handa öðru þeirra til að njóta hlutdeildar í skuldlausu andvirði eigna hins. Eftir meginreglunni í þessum efnum í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1923 telst þessi hlutdeild helmingur, en mælt er þó fyrir heimildir til að beita öðrum hlutföllum í 27. og 57. gr. laga nr. 60/1972. Lögfestar reglur eru ekki til um slík gagnkvæm réttindi við slit óvígðrar sambúðar, en dómaframkvæmd hefur beinst í þá átt að viðurkenna viss afbrigði slíkra réttinda þótt reglur í þessum efnum séu óljósar. Einn helsti tilgangur opinberra skipta skv. XIV. kafla frumvarpsins er að fullnægja þeim gagnkvæmu réttindum sem kunna að vera fyrir hendi og hér hefur verið rætt um. Ákvæði 109.–111. gr. mæla fyrir um hvernig verði staðið að þeirri aðgerð.
    Fyrsta skrefinu við fullnustu þeirra réttinda, sem hér um ræðir, er lýst í 109. gr. þar sem mælt er fyrir um hvernig eigi að finna hve mikið hvor aðilinn eigi að fá í sinn hlut ef samkomulag tækist ekki milli þeirra um aðra tilhögun. Í 109. gr. er byggt á því að hvor aðilinn um sig eigi rétt á að fá fyrst í stað reiknaða sér til handa fjárhæð af andvirði sinna eigin eigna á móti sínum eigin skuldum og yrði þá talið með andvirði hlutdeildar hans í sérstökum sameignum aðilanna og hlutdeild hans í sameiginlegum skuldum þeirra, sbr. 2. mgr. Ef skuldir hans væru umfram andvirði eigna hans sjálfs yrði ekkert tillit tekið til skuldanna sem umfram væru, sbr. 3. mgr. Ef andvirði eigna hans væri hins vegar meira en næmi skuldum hans ætti hann rétt á að fá sér reiknaða þá hlutdeild sína í hreinu eigninni sem leiddi eftir atvikum af reglum um fjármál hjóna eða sambýlisfólks, sbr. 4. mgr., en gagnaðila hans yrði þá færð sín hlutdeild í hreinu eigninni hans eftir sömu reglum og yrði sú millifærsla milli aðilanna gagnkvæm ef þeir ættu báðir eignir umfram skuldir. Með þessum hætti væri reiknaður tölulegur stofn handa hvorum aðilanum um sig og ætti síðan hvor þeirra rétt til eigna eða andvirðis þeirra til að fullnægja þessu reiknaða tilkalli sínu, sbr. 5. mgr. Þessum rétti yrði nánar tiltekið fullnægt annaðhvort með útlagningu eigna, sbr. 110. gr., eða greiðslu af söluandvirði eigna, sbr. 111. gr., en eftir atvikum mætti fullnægja þessum rétti að nokkru með útlagningu og að öðru leyti með greiðslu. Þessa aðferð má telja efnislega þá sömu og lýst er í 1. mgr. 48. gr. og 49. gr. laga nr. 20/1923, þótt framsetning hennar í 109. gr. frumvarpsins sé með nokkuð öðrum hætti.
    Annað skrefið í þeim ferli, sem hér um ræðir, kemur þá til eftir reglum 110. gr., en samkvæmt þeim ætti skiptastjóri að leitast við að veita hvorum aðilanum um sig fullnustu með því að leggja honum út eignir eftir því sem hann krefðist og unnt væri, en enn eru fyrirmælin í þessum efnum því marki brennd að víkja megi frá þeim með samkomulagi. Í 1. mgr. 110. gr. er gert ráð fyrir að skiptastjóri geti hafist handa um að bjóða aðilunum útlagningu þegar á fyrstu stigum skipta ef því væri fullnægt að víst væri að þeir ættu hvor fyrir sig rétt til eigna að einhverju marki við fjárslitin. Í ákvæðum 2.–4. mgr. 110. gr. er því síðan lýst stig af stigi í hverri röð einstakar eignir gætu komið til útlagningar og hvor aðilinn nyti forgangs umfram hinn til útlagningar í hverju tilviki. Í 5. mgr. 110. gr. er sérstaklega tekið fram að hverju leyti útlagning gæti átt sér stað móti skuldum sem hvíldu á báðum aðilum í senn. Í 6. mgr. er loks gefið til kynna að fullnægja megi réttindum aðilanna við fjárslitin að öllu leyti með útlagningu eða með öðrum orðum með því að hvor þeirra fengi eignir afhentar upp í tilkall sitt án þess að neinar eignir yrðu seldar eða komið í verð með öðrum hætti, en heimildin til þessa væri háð því eina skilyrði að fé lægi fyrir eða yrði reitt af hendi til greiðslu skiptakostnaðar. Samkvæmt því sem segir í 1. mgr. fæh útlagning í sér endanlega ráðstöfun á eign, þannig að aðilinn, sem fengi hana lagða sér út, væri upp frá því réttur eigandi að henni, án tillits til þess hvort skiptunum væri enn lokið að öðru leyti, og væri frjálst að ráðstafa henni. Ef nauðsyn krefði er skiptastjóra ætlað í þessu ákvæði að gefa út heimildarskjöl fyrir þessum eignarrétti, t.d. afsal fyrir fasteign eða bifreið, framsal nafnskráðs verðbréfs o.s.frv., og yrði þetta gert með sömu áhrifum og ef hann hefði umboð til útgáfu heimildarskjalsins frá aðilanum sem taldist fram að því eigandi að viðkomandi eign. Skiptastjóri þyrfti hins vegar að sjálfsögðu ekki að gefa út slík heimildarskjöl ef eignin væri lögð þeim aðilanum út sem var skráður eigandi að henni fram til þess tíma eða ef eignarréttindi að slíkri eign yrðu ekki skrásett.
    Þriðja skrefinu í þessum ferli er loks lýst í 111. gr., en það felst í því að skiptastjóri komi eignum í verð að því leyti sem þeim verður ekki ráðstafað með útlagningu eftir 110. gr., og yrði þá andvirði þeirra varið til að fullnægja réttindum aðilanna. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. yrðu teknar ákvarðanir á skiptafundum um hvernig eignum yrði ráðstafað með þessu móti, en atkvæðisréttur um þessi efni væri að öllu leyti í höndum aðilanna, sbr. 2. mgr. Í þessu síðastnefndu ákvæði er tekið fram að atkvæðisréttur ráðist af því hlutfalli sem hvor aðilinn ætti rétt til af hreinni eign, en þegar um hjón væri að ræða yrði það hlutfall að meginreglu helmingur. Er því ljóst að atkvæði gætu hæglega fallið jöfn á skiptafundum, en í 2. mgr. 111. gr. er vísað til ákvæða 70. gr., m.a. til lausnar á þessu, og kæmi þannig í hlut skiptastjóra að ráða málefnum til lykta við þær aðstæður skv. 5. mgr. 70. gr. Í 3. mgr. 111. gr. kemur fram sú regla að skiptastjóri framfylgi ákvörðunum skiptafunda um ráðstöfun eigna og hafi í því skyni heimild til að gefa út heimildarskjöl af því tilefni eins og hann hefði umboð til þess frá þeim aðilanum sem teldist eigandi að viðkomandi eign. Í 4. mgr. 111. gr. er loks mælt fyrir um það að hverju leyti andvirði eigna verði varið til greiðslu skulda, en meginreglurnar í þeim efnum eru á þann veg að ef skuld hvílir aðeins á öðrum aðilanum verði hún ekki greidd nema að ósk hans, en ef skuld hvílir á báðum aðilunum þurfi að fá samþykki beggja til að hún verði ekki greidd nema annar þeirra hafi fengið hinn leystan undan skuldbindingunni eða sett honum tryggingu fyrir að honum verði ekki gert að greiða hana.

Um 112. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er mælt fyrir um almennt úrræði til að fá leyst úr ágreiningi sem kann að rísa um réttindi eða skyldur aðila að opinberum skiptum skv. XIV. kafla, en takist skiptastjóra ekki að jafna slíkan ágreining ber honum að vísa málefninu til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 122. gr. Minnst var hér áður á kosti um beitingu þessa ákvæðis í athugasemdum við 105. og 106. gr., en því til viðbótar gæti risið ágreiningur um ýmis atriði sem reglur 107.–111. gr. taka til. Í niðurlagi 112. gr. kemur fram að ágreiningur um þessi málefni verði ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt, en þetta er tekið fram til að taka af tvímæli um að ekki sé til dæmis unnt að höfða einkamál eftir almennum reglum til að fá leyst úr ágreiningsatriðum sem rísa við opinberu skiptin.
    Rétt er að benda á að ætlast er til að regla 112. gr. verði skýrð þannig að ágreiningsefni við fjárslit milli hjóna eða sambýlisfólks hljóti úrlausn að hætti reglunnar í sama mæli og dómaframkvæmd hefur til þessa viðurkennt lögsögu skiptaréttar til að leysa úr slíkum ágreiningi við opinber skipti. Er þannig ætlast til að leysa mætti úr ágreiningi í máli eftir 112. gr. um til dæmis hvort annað hjóna teljist eiga tiltekna eign að séreign í skjóli kaupmála eða hvort annað hjóna eigi endurgjaldskröfu skv. 52. eða 53. gr. laga nr. 20/1923 á hendur hinu ef fyrirliggjandi eignir hrökkva til að fullnægja þeirri kröfu. Þótt úrlausn gæti þannig fengist eftir 112. gr. á flestum ágreiningsefnum sem varða uppgjör milli hjóna eða sambýlisfólks nægir reglan ekki til að fá úrlausn um greiðsluskyldu milli þeirra ef rétti til greiðslunnar yrði ekki fullnægt við fjárslitin. Ef dregist hefði til dæmis að koma fram opinberum skiptum til fjárslita kynni annar aðilinn að hafa ráðstafað eignum sínum, sem taka ætti tillit til við fjárslitin skv. 104. gr., í þeim mæli að það sem eftir stæði nægði ekki til að fullnægja réttindum gagnaðila hans. Undir þeim kringumstæðum kynni gagnaðili hans að eiga greiðslukröfu á hendur honum, en regla 112. gr. næði þá ekki til að fá leyst úr um hana. Af þessum sökum er gert ráð fyrir sérstakri heimild í 2. mgr. 124. gr. til að fá úrlausn um slíkar kröfur í máli eftir XVII. kafla frumvarpsins ef hlutaðeigandi kysi að nýta sér það hagræði, en aðdragandi að slíku máli yrði talsvert frábrugðinn þeim sem ætti við um mál eftir 112. gr., sbr. 122. gr.

Um 113. gr.


    Í frumvarpinu er byggt á því sama meginviðhorfi og í núgildandi lögum að engin skylda standi til opinberra skipta til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks þótt hjúskap eða sambúð sé slitið, heldur sé hér um að ræða úrræði sem annar aðilinn eða þeir báðir geti kosið að notfæra sér til að greiða úr málum sínum. Ekki verður sagt að teljandi almannahagsmunir geti tengst því að fjárslit fari fram milli hjóna eða sambýlisfólks þótt hjúskap eða sambúð ljúki, gagnstætt því sem á við um skipti á dánarbúum. Af þessum sökum er ekki aðeins gengið út frá því í frumvarpinu að aðilarnir hafi samningsfrelsi um uppgjör sín á milli við opinberu skiptin, heldur einnig að þeim sé almennt frjálst að stöðva framkvæmd opinberu skiptanna á hvaða stigi þeirra sem er, en gengið hefur verið út frá sömu viðhorfum í framkvæmd eftir núgildandi lögum.
    Þessu til samræmis er mælt svo fyrir í 1. mgr. 113. gr. að opinber skipti skv. XIV. kafla verði felld niður ef aðilarnir eru sammála um það, en fyrir því eru þó sett þau skilyrði að kostnaður af skiptunum sé greiddur og að hvorugur aðilanna hafi neytt réttinda sem séu háð því samkvæmt lögum að opinber skipti fari fram. Með þessu síðarnefnda skilyrði er einkum haft í huga að skv. 31. gr. laga nr. 60/1972 verður hjónum ekki veitt leyfi til skilnaðar nema samkomulag hafi tekist milli þeirra fyrir yfirvaldi um fjárslit eða opinber skipti séu byrjuð í því skyni að koma fjárslitum fram. Annað hjóna eða þau bæði kynnu þannig að hafa aflað sér leyfis til skilnaðar á þeirri forsendu að opinber skipti hafi byrjað, en frjálsræði þeirra til að falla frá opinberu skiptunum að því gerðu væri í ósamræmi við umrædda reglu. Í niðurlagi 1. mgr. 113. gr. er tekið fram að ef opinber skipti yrðu felld niður með þessum hætti stæði það óhaggað sem kynni að hafa verið gert við þau fram til þess tíma, t.d. útlagning einstakra eigna, ráðstöfun þeirra o.s.frv.
    Í 2. mgr. 113. gr. er mælt fyrir um heimildir til að ljúka opinberum skiptum skv. XIV. kafla með samningi milli aðilanna um tilhögun fjárslita, en skiptastjóra er þá ætlað að skrásetja þann samning ef aðilarnir gera það ekki sjálfir og árita samninginn um að opinberu skiptunum hafi verið lokið samkvæmt ákvæðum hans. Gera mætti slíkan samning á hvaða stigi skipta sem væri, en í framkvæmd eftir núgildandi lögum heyrir til undantekninga að samningar af þessum toga takist ekki um málalok áður en komið er að því að ljúka opinberum skiptum með úthlutunargerð.
    Í 3. mgr. 113. gr. er síðan mælt fyrir um hvernig skiptastjóri ljúki opinberu skiptunum með úthlutunargerð ef málalok hafa ekki fengist að hætti 1. eða 2. mgr. Ætlast er til að sömu aðferðum verði beitt í þessum tilvikum eins og þegar opinberum skiptum á dánarbúi yrði lokið með úthlutunargerð og er því í 3. mgr. 113. gr. vísað til fyrirmæla 77.–79. gr. og 1. mgr. 80. gr. um þessi atriði, en þeim reglum yrði þá að beita með þeim breytingum sem leiðir af eðli máls. Að auki er tekið fram að skiptastjóri skuli fara eftir 2. mgr. 96. gr. ef því er að skipta, en með þessu er tekin afstaða til þess hvernig hann geti skilað af sér fjármunum sem hafa komið í hlut aðila sem málsvari kynni að hafa verið skipaður fyrir, sbr. 2. mgr. 103. gr.
    Í 4. mgr. 113. gr. er mælt fyrir um takmarkaða heimild til endurupptöku opinberra skipta skv. XIV. kafla. Ekki verður séð að þetta ákvæði þarfnist sérstakra skýringa.

Um 114. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. er ætlast til að skiptastjóri tilkynni héraðsdómara skriflega um niðurfellingu eða önnur lok opinberra skipta samkvæmt XIV. kafla og er hér um sams konar skyldu að ræða og við lok opinberra skipta á dánarbúum eftir reglum X. kafla.
    Í 2. mgr. 114. gr. er mælt svo fyrir að ef opinberum skiptum til fjárslita milli hjóna er lokið með samningi milli aðilanna, sbr. 2. mgr. 113. gr., eða úthlutunargerð skiptastjóra, sbr. 3. mgr. 113. gr., án þess að hjúskapnum sé þó lokið á þeim tíma geti annað hjónanna eða þau bæði fengið samninginn eða úthlutunargerðina skráða eins og um kaupmála væri að ræða. Með slíkri skráningu teldist þá það sem hvor aðilinn fékkí sinn hlut við fjárslitin séreign hans í hjúskapnum, svo og það sem hvor um sig kynni að hafa eignast eftir það tímamark 1. mgr. 104. gr. sem hefði ráðið til hverra eigna væri tekið tillit við fjárslitin. Þessi fyrirmæli 2. mgr. 114. gr. eiga sér hliðstæðu í 44. gr. laga nr. 20/1923 sem nær þó aðeins til aðstæðna eftir að svokölluðum slitum á fjárfélagi hjóna er lokið án hjúskaparslita skv. VI. kafla þeirra laga. Fyrirmæli 2. mgr. 114. gr. eru þannig víðtækari og yrði beitt ef til dæmis fjárslit hafa átt sér stað milli hjóna vegna yfirvofandi hjúskaparslita án þess að skilnaðarleyfi hafi verið veitt áður en opinberu skiptunum væri lokið.

Um 115. gr.


    Í 115. gr. kemur fram að opinber skipti skv. XIV. kafla frumvarpsins breyti að engu leyti rétti annarra til að höfða dómsmál á hendur hjónum eða sambýlisfólki eða til að krefjast fullnustugerða í eignum þeirra eða að öðru leyti á hendur þeim. Þótt telja megi þessa reglu nánast sjálfsagða í ljósi eðlis opinberra skipta við þessar aðstæður þykir nauðsynlegt að hún komi berum orðum fram til að fyrirbyggja að gagnstæðar ályktanir verði dregnar í þessum efnum af ákvæðum 4. gr. frumvarpsins.

Um 116.–118. gr.


    Í XV. kafla frumvarpsins, sem geymir ákvæði 116.–118. gr., er mælt fyrir um heimild til opinberra skipta til að koma fram slitum á félögum þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þeirra og hvernig slík skipti verði framkvæmd. Í 90. gr. laga nr. 3/1878 er að finna heimild til opinberra skipta við slit félaga sem þessara, en í því ákvæði felast þó einnig ýmsar aðrar heimildir til opinberra skipta sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frumvarpi og er þannig lagt til að verði felldar úr lögum. Þannig er útilokað berum orðum í 2. mgr. 116. gr. frumvarpsins að opinber skipti fari fram til að koma fram slitum á öðrum félögum en hér um ræðir, t.d. á hlutafélögum, samvinnufélögum eða svokölluðum almennum félögum þar sem félagsmenn bera enga ábyrgð á skuldbindingum. Þá leiðir einnig af gagnályktun frá ákvæðum frumvarpsins í heild að opinberum skiptum yrði ekki beitt til að slíta sameign, en skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort slík heimild felist í 90. gr. laga nr. 3/1878. Ástæður þess, að lagt sé til í frumvarpinu að fella brott þessar frekari heimildir til opinberra skipta, eru fyrst og fremst þær að sérstök úrræði standa yfirleitt til boða lögum samkvæmt til að koma fram félagsslitum eða slitum sameignar sem telja verður nærtækara að nýta fremur en að leitast við að koma þeim fram með opinberum skiptum, t.d. ákvæði XIV. kafla hlutafélagalaga, nr. 32/1978, og VII. kafla laga um samvinnufélög, nr. 46/1937. Í einhverjum tilvikum sem fyrirmæli 90. gr. laga nr. 3/1878 kynnu að geta tekið til er að vísu um það að ræða að lagafyrirmæli kveða ekki á um almenn úrræði til félagsslita. Þetta gæti til dæmis átt við almenn félagssamtök á borð við stjórnmálaflokk, íþróttafélag eða líknarfélag. Í þessum efnum ber hins vegar að hafa í huga að lagafyrirmæli skortir einnig um skilyrði fyrir slitum slíkra félaga og hverjir geti átt rétt til að fá eignir þeirra í sinn hlut við félagsslit og yrðu því opinber skipti hvort eð er í reynd algerlega óframkvæmanleg til að slíta félögum eða samtökum sem þessum. Verður því að vænta að séð verði fyrir öðrum kostum í löggjöf til að koma fram slitum á slíkum félögum eða samtökum ef þeirra þykir á annað borð þörf, en opinber skipti ein út af fyrir sig gætu ekki orðið haldbært úrræði í því skyni.
    Rétt er að taka fram svo ekki orki tvímælis að þótt ákvæði frumvarpsins feli samkvæmt framansögðu í sér ráðagerð um afnám einhverra hugsanlegra heimilda til að beita opinberum skiptum er þeim að sjálfsögðu ekki ætlað að koma í veg fyrir að mæla megi sérstaklega fyrir í öðrum lögum um að opinber skipti geti átt sér stað í ákveðnum tilvikum eða að reglum um opinber skipti verði beitt að einhverju leyti eða öllu við slit félaga eða stofnana.
    Í 116. gr. kemur fram það meginskilyrði fyrir opinberum skiptum eftir XV. kafla frumvarpsins að um félag þurfi að vera að ræða þar sem báðir eða allir félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum. Eins og 2. mgr. ákvæðisins gefur til kynna er ætlast til að þetta skilyrði leiði til þeirrar gagnályktunar að opinber skipti komi ekki til greina ef ábyrgð eins félagsmanns væri takmörkuð á einhvern hátt, t.d. við ákveðna hámarksfjárhæð. Önnur atriði 116. gr. þykja ekki þarfnast sérstakra skýringa.
    Í 117. gr. er síðan mælt fyrir um hvert beina ætti kröfu um opinber skipti til slita á félagisem ákvæði 116. gr. gætu tekið til, hvað þyrfti að koma fram í kröfunni og eftir atvikum að fylgja henni, hvernig yrði farið með kröfuna og hvernig færi um ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar. Fyrirmæli 117. gr. eru hliðstæð reglum frumvarpsins um þessi atriði við opinber skipti undir öðrum kringumstæðum að teknu tilliti til séreðlis þeirra tilvika sem hér um ræðir.
    Í 118. gr. er loks mælt fyrir um hvernig opinber skipti verði framkvæmd til að slíta félögum sem ættu undir ákvæði XV. kafla, en í þessum efnum er vísað til þeirra kafla frumvarpsins sem fjalla um opinber skipti á dánarbúum þar sem erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum. Er þetta gert í ljósi þess að félagsslit eftir XV. kafla gætu aðeins átt sér stað þegar félagsmenn bæru ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum og að sú ábyrgð væri þá sambærileg ábyrgð erfingja á skuldbindingum dánarbús. Umræddum köflum frumvarpsins um dánarbússkipti yrði vitanlega ekki beitt í öllu tilliti eftir orðanna hljóðan við opinber skipti til félagsslita, enda segir í niðurlagi 118. gr. að það verði stuðst við þær reglur með þeim breytingum sem leiði af eðli máls. Þannig yrði að beita hér einstökum reglum 2. þáttar frumvarpsins með hliðsjón af þessu, t.d. með þeirri sjálfsögðu ályktun að það séu ekki erfingjar sem eigi atkvæði um ráðstöfun eigna við félagsslit heldur félagsmenn.

Um 119. gr.


    Í 5. þætti frumvarpsins koma fram reglur um hvernig úrlausn dómstóla verði fengin um ágreiningsefni sem rísa í tengslum við skipti eftir öðrum þáttum þess, en ákvæði 5. þáttar leiða að mestu leyti til þess að sams konar ágreiningsefni komi til úrlausnar eftir þessum sérreglum frumvarpsins eins og nú koma til sérstakrar meðferðar fyrir skiptarétti eftir fyrirmælum laga nr. 3/1878 og sjálf málsmeðferðin yrði einnig lík þeirri sem leiðir af þeim fyrirmælum. Ákvæðum 5. þáttar er skipt í þrjá kafla, XVI. kafla sem fjallar um hver mál komi til meðferðar eftir sérreglum frumvarpsins og hver aðdragandi þess sé, XVII. kafla sem fjallar um meðferð þessara mála og XVIII. kafla sem fjallar um málskot til æðra dóms.
    Í reglum XVI. kafla frumvarpsins, sem 119.–126. gr. heyra til, er annars vegar mælt fyrir um hver þau ágreiningsefni séu sem dómstólar færu með eftir reglum XVII. og XVIII. kafla, en í þessum efnum er bæði um það að ræða að reglur framar í frumvarpinu hafa vísað til tiltekinna ákvæða XVI. kafla um hvernig verði leyst úr ákveðnum ágreiningsefnum og að einstök ákvæði þessa kafla fjalla um áður ónefnd atriði sem leita má úrlausnar á. Hins vegar er mælt fyrir um það í 119.–126. gr. hvernig þessum málum verði beint til héraðsdóms og hver gögn þurfi að láta af hendi í því skyni, auk þess að í nokkrum tilvikum er kveðið sérstaklega á um vissar frumaðgerðir sem héraðsdómara er ætlað að leysa af hendi áður en komið yrði að sjálfri málsmeðferðinni eftir reglum XVII. kafla.
    Í 1. mgr. 119. gr. er kveðið á um almenna heimild til að fá skorið úr um lögmæti aðgerða sýslumanns skv. II., XII. eða XIII. kafla í tengslum við skipti á dánarbúi, en í þessum köflum er fjallað í fyrsta lagi um aðgerðir og ráðstafnir sýslumanns á því tímaskeiði sem hann fer með forræði á málefnum dánarbús, í öðru lagi um niðurfellingu sýslumanns á leyfi til einkaskipta og í þriðja lagi um aðgerðir sýslumanns í tengslum við lok einkaskipta. Í 1. mgr. 119. gr. er ekki mælt frekar fyrir um einstök málefni sem mætti fá leyst úr, en tilvísun ákvæðisins til umræddra kafla frumvarpsins felur í sér að fjölbreytileg atriði gætu komið hér til álita. Varðandi ákvæði II. kafla gæti til dæmis risið ágreiningur um hvort sýslumanni væri rétt að telja sönnunargögn um andlát ófullnægjandi, sbr. 6. gr., hvort hann hafi með réttu neitað að láta í té upplýsingar úr dánarskrá, sbr. 3. mgr. 9. gr., hvort hann hafi að ófyrirsynju neitað að ljúka skiptum á dánarbúi vegna eignaleysis, sbr. 25. gr., hvort hann hafi ranglega hafnað beiðni um leyfi til setu í óskipti búi eða til einkaskipta, sbr. 27. og 30. gr., auk ýmissa atriða varðandi lögráðamenn og málsvara, sbr. 13.–15. gr. og skráningu og mat á eignum, sbr. 17.–23. gr. Úr ákvæðum XII. kafla gæti reynt á réttmæti niðurfellingar einkaskiptaleyfis en varðandi XIII. kafla væri fyrst og fremst hugsanlegt að reynt gæti á réttmæti þess að sýslumaður neiti að staðfesta einkaskiptagerð, sbr. 2. mgr. 94. gr. Þótt þessi dæmi kunni við fyrstu sýn að gefa til kynna að heimildir 1. mgr. 119. gr. séu mjög víðtækar, þá er reyndin ekki alls kostar sú þar sem gefa verður því gaum að í ákvæðinu er áskilið að hlutaðeigandi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá aðgerð eða ákvörðun sýslumanns hnekkt. Þetta táknar ekki aðeins að óviðkomandi maður geti ekki leitast við að fá ákvörðun eða aðgerð sýslumanns hnekkt, heldur einnig að þótt málefnið komi hlutaðeíganda við þá verði hann að sýna fram á að það hafi þýðingu fyrir sig að lögum að koma slíku fram og að því markmiði sem hann stefnir að verði ekki náð með öðrum og nærtækari hætti. Þannig yrði til dæmis að telja að það hefði enga þýðingu að lögum fyrir mann að fá leyst úr því hvort sýslumanni hafi verið rétt að taka við tilkynningu andláts frá fjarlægu skyldmenni þess látna fremur en að neita því og krefjast að einhver nákomnari tilkynnti látið, sbr. 2. mgr. 6. gr. Eins yrði að telja langsótt að fá leyst úr því í máli eftir 119. gr. hvort sýslumanni hafi verið rétt að taka til greina beiðni um leyfi til setu í óskiptu búi eða einkaskipta þvf að nærtækara væri í öllu tilliti að hlutaðeigandi krefðist að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta og hefði þar meðal annars uppi þau sjónarmið að leyfisveitingin stæði ekki í vegi opinberra skipta þar sem hún væri ógild vegna tiltekinna annmarka. Eins og þessi dæmi sýna verður að taka tillit til þess við skýringu 1. mgr. 119. gr. að úrlausn um það eitt hvort sýslumaður hafi staðið ranglega að verki mundi oft og tíðum ekki þjóna neinum sjálfstæðum tilgangi og þar með yrði að telja að það skorti lögvarða hagsmuni til að afla hennar.
    Ef um atriði væri að tefla sem mætti leita úrlausnar um eftir framangreindum viðhorfum er mælt fyrir um þá leið til þess í 1. mgr. 119. gr. að hlutaðeigandi leiti fyrst eftir breyttri afstöðu til málefnisins hjá sýslumanni. Ef sýslumaður yrði við slíkri ósk yrði ekkert frekar úr málinu, en ef hann neitaði að víkja frá fyrri afstöðu sinni er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi afhendi sýslumanni skriflega kröfu sína um að héraðsdómari leysi úr ágreiningi þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. er ætlast til að sýslumaður sendi kröfuna þegar í stað til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi hans og láti eftir atvikum fylgja frekari skriflegar upplýsingar um málefnið svo að þau atriði liggi fyrir sem nánar er mælt fyrir um í 1.–3. tölul. ákvæðisins. Þessu til viðbótar er mælt fyrir um það í 3. mgr. 119. gr. að sýslumaður eigi að láta gögn varðandi ágreiningsefnið fylgja ef þau þykja hafa þýðingu fyrir úrlausn þess. Yrði að ráðast hverju sinni af eðli ágreiningsefnisins um hver gögn gæti verið að ræða í þessu sambandi, en ef til dæmis væri deilt um neitun sýslumanns að taka við andlátstilkynningu vegna ónógra sannana um mannslát þá væri bersýnilega við hæfi að láta þau gögn af hendi sem kann að hafa verið framvísað og þóttu ekki nægja.
    Í 4. mgr. 119. gr. er mælt fyrir um hverjir yrðu aðilar til sóknar og varnar í ágreiningsmáli sem þessu fyrir héraðsdómi, en sá sýslumaður, sem í hlut ætti, væri varnaraðili, enda væri kröfum hér beint að honum í því skyni að fá ákvörðun hans eða aðgerð hnekkt og lagt fyrir hann að haga gerðum sínum með öðrum tilteknum hætti. Í þessu ákvæði er ekki berum orðum gert ráð fyrir að aðrir en þar eru nefndir geti átt aðild að máli sem þessu, en hér ber að hafa í huga að í 2. mgr. 131. gr. er mælt fyrir um að almennum reglum um meðferð einkamála í héraði verði beitt við málsmeðferð ef annað leiðir ekki af ákvæðum frumvarpsins. Þessi fyrirmæli 2. mgr. 131. gr. fela meðal annars í sér tilvísun til reglna um meðalgöngu í 50. gr. laga nr. 85/1936, en á grundvelli þeirra gæti til dæmis sá sem teldi sig hafa hagsmuni af því að afstaða sýslumanns stæði óhögguð sóst eftir að ganga inn í málið til varnar við hlið sýslumanns.
    Samkvæmt 4. mgr. 119. gr. færi héraðsdómari með mál sem þessi eftir almennum reglum XVII. kafla frumvarpsins, en mælt er svo fyrir í 5. mgr. ákvæðisins að meðan á rekstri máls standi beri sýslumanni að haga öðrum aðgerðum sínum varðandi dánarbúið með þeim hætti að hann raski ekki þeim hagsmunum sem málið varða nema nauðsyn krefji.

Um 120. gr.


    Í 1. mgr. 120. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvernig verði farið með ágreining um kröfu um opinber skipti sem gæti risið með því að hún sætti andmælum þegar hún væri tekin fyrir á dómþingi. Er gert ráð fyrir að héraðsdómari taki ágreininginn rakleitt til meðferðar eftir fyrirmælum XVII. kafla án frekari tilkynninga til þeirra sem gætu átt hlut að máli og yrði dómsmál til úrlausnar um hvort krafan um opinber skipti nái fram að ganga þá þingfest á því dómþingi þar sem ágreiningur reis án frekari aðdraganda. Er mælt svo fyrir að sá sem krefjist opinberra skipta verði sóknaraðili að málinu, en sá sem mótmæli kröfunni verði varnaraðili. Gert er ráð fyrir því í 1. mgr. 120. gr. að fleiri en einn kunni að hafa staðið í sameiningu að kröfu um opinber skipti að annar hlutaðeigandi kunni að taka undir kröfuna á dómþingi eða jafnvel að fyrir liggi tvær kröfur þessa efnis sem stafi hvor frá sínum aðila og að þær hafi verið teknar fyrir í sama þinghaldi. Einnig er gert ráð fyrir því að fleiri en einn kunni að hafa uppi mótmæli gegn kröfu um opinber skipti. Hvernig sem þessu væri farið er mælt svo fyrir að héraðsdómari taki ágreininginn til úrlausnar í einu dómsmáli, án tillits til þess hvort kröfur þeirra, sem stæðu samhliða til sóknar eða varnar, væru byggðar á sömu atriðum, en ekki verður komist hjá þessari tilhögun í ljósi þess að héraðsdómara er hér ætlað að kveða á um það hvort opinber skipti fari fram sem hlýtur eftir eðli máls að varða hagsmuni allra aðilanna í senn.
    Með þeirri undantekningu, sem leiðir af því að héraðsdómara er ætlað að þingfesta dómsmál þegar í stað án undangenginna tilkynninga skv. 127. og 128. gr. til að leysa úr um hvort opinber skipti fari fram, færi mál af þessum toga eftir almennum málsmeðferðarreglum XVII. kafla. Sá angi kann hins vegar að fylgja máli sem þessu að sá sem krefjist opinberra skipta hafi þá kröfu uppi vegna framkominna mótmæla gegn opinberum skiptum að leyfi til setu í óskiptu búi eða einkaskipta verði fellt niður til bráðabirgða meðan leyst verði úr málinu, sbr. 1. mgr. 45. gr. Krafa sem þessi stæði þannig í beinum tengslum við dómsmálið sem slíkt, en eðli hennar væri þó með þeim hætti að nauðsynlegt væri að leysa úr henni sem fyrst. Er því gert ráð fyrir afbrigðilegri meðferð slíkrar kröfu í 2. mgr. 120. gr. með því að héraðsdómari gefi aðilum aðalmálsins kost á að tjá sig um hana um leið og hún kemur fram og kveði upp úrskurð í beinu framhaldi af því um hvort hún verði tekin til greina, en ekki er ráðgert að aðilarnir fái frest til að gera skriflegar greinargerðir um kröfur sínar í þessu sambandi nema þeir séu báðir eða allir sammála um það. Úrskurður um þetta atriði yrði ekki kærður til æðra dóms eins og fram kemur í niðurlagi 2. mgr. 120. gr.

Um 121. gr.


    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um hvernig yrði farið að til að afla úrskurðar héraðsdómara um kröfu um frávikningu skiptastjóra, sbr. 3. mgr. 47. gr., en gert er ráð fyrir að sá sem telji efni til frávikningar beini kröfu sinni um það beint til þess héraðsdómstóls þar sem skiptastjórinn var skipaður til starfa. Í 1.–3. tölul. 1. mgr. 121. gr. er talið upp hvað þurfi að koma fram í kröfu um þetta efni og skv. 2. mgr. 121. gr. þurfa gögn sem kunna að varða málefnið að fylgja kröfunni. Í 3. mgr. 121. gr. er mælt fyrir um hvernig aðild að máli sem þessu yrði háttað, en farið yrði með það eftir almennum málsmeðferðarreglum XVII. kafla frumvarpsins. Verður ekki séð að einstök atriði í þessu sambandi þarfnist sérstakra skýringa.

Um 122. gr.


    Í 122. gr. kemur fram almenn regla frumvarpsins um hvernig leitað verði úrlausnar héraðsdómara um ágreiningsatriði sem rísa við framkvæmd opinberra skipta. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að skiptastjóra sé skylt að hlutast til um að leita úrlausnar héraðsdómara ýmist þegar ágreiningur hefur risið sem einstakar reglur frumvarpsins bjóða að verði farið með eftir 122. gr. eða þegar önnur ágreiningsefni hafa komið upp sem skiptastjóri telur þörf á að fá leyst úr eftir þessari leið. Af fyrrnefndu tilvikunum, þar sem einstök ákvæði frumvarpsins mæla beinlínis fyrir um að þessi leið skuli farin, má einkum benda hér á 3. mgr. 53. gr. þar sem þetta er boðið varðandi ágreining um tilkall til arfs, 5. mgr. 54. gr. þar sem fjallað er um ágreining um réttindi maka til að leysa eignir til sín og um rétt erfingja til að fá eignir útlagðar, 2. mgr. 60. gr. og 2. mgr. 64. gr. sem varða ágreining um lýstar kröfur á hendur búi, 4. mgr. 62. gr. varðandi ágreining um ákvörðun skiptastjóra um hvort farið verði með dánarbú eftir reglum um gjaldþrotaskipti eða ekki, 3. mgr. 71. gr. þar sem fjallað er um ágreining um ráðstöfun á hagsmunum bús, 3. mgr. 72. gr. og 3. mgr. 79. gr. sem varða ágreining sem ris í tengslum við lok skipta eða frumvarp til úthlutunar og loks 112. gr. sem snýr að ágreiningsefnum við skipti til fjárslita milli hjóna og fólks í óvígðri sambúð. Þótt þessi beinu ákvæði um skyldu til að leita úrlausnar um ágreiningsefni hljóti að taka til flestra aðstæðna þar sem ágreiningur gæti verið uppi er ekki útilokað að einhver óvenjuleg og ófyrirséð tilefni verði til þess að nauðsynlegt þyki að fá leyst úr öðrum atriðum, en sá möguleiki er einmitt tilefnið fyrir því að skiptastjóra sé boðið í 1. mgr. 122. gr. að bera önnur ágreiningsefni undir héraðsdóm en beinlínis verður talið skylt eftir einstökum ákvæðum frumvarpsins. Ágreiningsefni, sem gætu átt hér undir, væru væntanlega jafnan þess eðlis að þau gætu í fyllingu tímans orðið tilefni til mótmæla gegn frumvarpi til úthlutunar sem væri beinlínis skylt að bera undir héraðsdóm skv. 3. mgr. 79. gr., en það hlyti þá að vera eðlilegra og hagfelldara að fá leyst úr um slíkt atriði þegar í stað eftir umræddri leið 1. mgr. 122. gr. en að hafa það óútkljáð þar til komið væri að því að ljúka skiptum.
    Í 1. mgr. 122. gr. er gert ráð fyrir að skiptastjóra verði skylt að leita úrlausnar héraðsdómara við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst og er honum einum ætlað að eiga frumkvæðið í þessum efnum. Þótt ætla megi að ástæðulaust sé að óttast að skiptastjóri láti af einhverjum sökum hjá líða að sinna þessari skyldu verður eðlilega ekki fullyrt að það sé útilokað. Ef það gerðist hefði sá sem ætti hagsmuni í húfi þann kost í hendi sér að hafa uppi aðfinnslur vegna þessarar vanrækslu skiptastjóra eða eftir atvikum kröfu um brottvikningu hans, sbr. 47. gr., en með þessum óbeina hætti má telja tryggt að réttur erfingja eða annarra þeirra, sem hafa uppi kröfur við opinber skipti, verði ekki fyrir borð borinn þótt þeir njóti ekki sjálfstæðrar heimildar til að bera ágreiningsefni undir héraðsdóm eftir 122. gr.
    Í 1. mgr. 122. gr. er að öðru leyti mælt fyrir um að skiptastjóri eigi að bera ágreiningsefni undir héraðsdómstólinn þar sem hann var skipaður til starfa, með skriflegri kröfu um úrlausn og að þau atriði, sem eru talin í 1.–4. tölul. ákvæðisins, þurfi að koma fram í kröfunni. Samkvæmt 2. mgr. 122. gr. eiga gögn varðandi ágreiningsefnið að fylgja kröfunni.
    Í 3. mgr. 122. gr. koma fram leiðbeiningar um það hvernig héraðsdómari eigi að ákveða hver verði tafinn sóknaraðili að máli sem ber að með þessum hætti og hver verði varnaraðili, en ógerningur er að kveða á um þetta með tæmandi hætti í ákvæðinu í ljósi þess hve margvísleg ágreiningsmál gætu komið til kasta dómara eftir 122. gr. Að slepptum þeim leiðbeiningum, sem eru settar fram í 3. mgr., yrði héraðsdómari að ákveða þetta eftir eðli ágreiningsmálsins eins og tekið er þar fram, en í framkvæmd hafa mótast nokkuð föst viðhorf um hver atriði geti ráðið niðurstöðu í þessum efnum sem má ætla að væri unnt að taka tillit til þegar á reyndi.
    Mál, sem kæmu til kasta héraðsdóms eftir 122. gr., mundu sæta meðferð eftir almennum reglum XVII. kafla án sérstakra frávika.

Um 123. gr.


    Eins og vikið var að í athugasemdum við 1. og 2. mgr. 90. gr. er gert ráð fyrir að tvenns konar ágreiningsmál, sem gætu risið í tengslum við einkaskipti dánarbúa, verði rekin eftir sérreglum frumvarpsins, en þar er nánar tiltekið um að ræða annars vegar ágreiningsmál milli erfingjanna innbyrðis um erfðaréttindi þeirra, réttindi og skyldur búsins eða ráðstafanir á hagsmunum þess og hins vegar ágreiningsmál milli erfingja og kröfuhafa um réttindi þess síðarnefnda á hendur búi. Í fyrra tilvikinu leiðir af 1. mgr. 90. gr. að aðrar leiðir verði ekki farnar til að fá leyst úr ágreiningi um þargreind atriði en ákvæði frumvarpsins bjóða upp á, en í því síðara leiðir af 2. mgr. 90. gr. að málið geti því aðeins komið til meðferðar og úrlausnar eftir ákvæðum frumvarpsins að allir erfingjar og hlutaðeigandi kröfuhafi séu sammála um það.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. 123. gr. mæla nánar fyrir um það hvernig mál sem þessi yrðu lögð fyrir héraðsdómara, en í báðum tilvikum yrði þetta gert með skriflegri kröfu til héraðsdómara sem hefði að geyma upplýsingar um þau atriði sem eru talin í 1.–5. tölul. 1. mgr. Ef um ágreining væri að ræða milli erfingjanna innbyrðis væri nægilegt skv. 1. mgr. 123. gr. að einn þeirra stæði að kröfu til héraðsdómara, en ef ágreiningurinn væri milli erfingja og kröfuhafa yrðu allir hlutaðeigendur að standa að kröfunni. Kröfunni yrði í hvoru tilvikinu sem væri beint til héraðsdómstólsins í umdæmi þess sýslumanns sem veitti erfingjunum leyfi til einkaskipta og skv. 3. mgr. 123. gr. yrðu gögn að fylgja henni um ágreiningsefnið ásamt leyfisbréfi til einkaskipta eða öðru gagni um leyfisveitinguna.
    Í 4. mgr. og að nokkru í 5. mgr. 123. gr. er kveðið sérstaklega á um það að áður en héraðsdómari taki mál sem þessi til frekari meðferðar eftir ákvæðum XVII. kafla beri honum að kanna hvort ágreiningurinn falli með réttu undir 1. eða 2. mgr. Með þessu er nánar tiltekið átt við að héraðsdómari yrði að meta hvort til dæmis ágreiningur milli erfingja varði erfðaréttindi þeirra, réttindi eða skyldur búsins eða ráðstöfun á hagsmunum þess, en ekki önnur atriði sem féllu utan heimildar 1. mgr. 123. gr. Að sama skapi yrði hann að kanna hvort samþykki liggi fyrir frá öllum hlutaðeigendum fyrir rekstri máls eftir heimild 2. mgr. 123. gr. og hvort þar væri þá á ferðinni ágreiningur um réttindi kröfuhafa á hendur búinu. Ef héraðsdómari teldi ágreiningsefnið ekki eiga undir aðra hvora heimildina er honum heimilað í 4. mgr. 123. gr. að neita að taka það til meðferðar og er þá gert ráð fyrir að hann tilkynni þeim sem beindi kröfu um úrlausn til hans um þá afstöðu sína. Þyrfti héraðsdómari aðeins að láta þessa afstöðu sína uppi með formlegri hætti ef sá sem krafðist úrlausnar hans vildi ekki una við afstöðuna, en eins og fram kemur í niðurlagi 4. mgr. yrði héraðsdómari þá að kveða upp úrskurð um neitun sína ef krafist væri og mætti skjóta þeim úrskurði til æðra dóms. Yrði niðurstaða héraðsdómara af þessari athugun hins vegar sú að hann teldi skilyrðum 1. eða 2. mgr. fullnægt er honum boðið í 5. mgr. 123. gr. að taka málið til meðferðar eftir almennum reglum XVII. kafla án þess að þurfa að tilkynna þá niðurstöðu sína sérstaklega. Tekið er þó fram að héraðsdómari sé ekki bundinn af þeirri niðurstöðu á síðari stigum ef krafa kæmi fram um frávísun málsins á þeim grunni að það eigi ekki undir heimild 1. eða 2. mgr. 123. gr., enda gætu komið fram upplýsingar undir rekstri málsins sem lágu ekki áður fyrir og kynnu að raska forsendum fyrir upphaflegri afstöðu héraðsdómarans.
    Í 5. mgr. 123. gr. er að finna leiðbeiningarreglur um hvernig héraðsdómari ákveði hver verði sóknaraðili máls og hver varnaraðili, þegar mál kemur til kasta hans eftir þessari leið. Hér skal aðeins áréttað að reglan felur í sér leiðbeiningar sem verður ekki ætlast til að unnt yrði að fytgja í öllum tilvikum.

Um 124.–126. gr.


    Ákvæði 33. og 35. gr. laga nr. 3/1878 fela í sér þá meginreglu að þau ágreiningsmál komi ein til úrlausnar fyrir skiptarétti eftir sérreglum þeirra laga þar sem deilt sé um réttindi á hendur búi eða hvernig skuli staðið að framkvæmd skipta. Með fáum undantekningum, sem að mestu eru taldar upp í umræddri 35. gr. laganna, er að sama skapi gengið út frá þeirri meginreglu að í málum sem þessum verði ekki leyst úr um réttindi bús á hendur þriðja manni, en almennt hefur þó verið talið að víkja megi frá þessari meginreglu og fá leyst úr slíkum réttindum bús með samþykki þess sem þau eru talin beinast að.
    Það hefur komið fram hér áður að reglur þessa frumvarps, sem kveða á um það hver ágreiningsmál geti komið til úrlausnar eftir reglum 5. þáttar í stað þess að vera rekin fyrir dómstólum eftir öðrum reglum, hafa að mestu leyti verið sniðnar eftir fyrirmælum núgildandi laga. Eins og fyrirvarinn í því orðalagi gefur til kynna á þetta þó ekki við í hvívetna og felast helstu tillögurnar um breytingar frá eldri lögum í reglum 124.–126. gr. Beinast þær nánar tiltekið að því að annars vegar er ráðgert í 124. og að nokkru í 126. gr. að þriðji maður verði í nokkuð auknum mæli að sæta því að leyst verði úr um réttindi á hendur sér eftir þeim sérstöku málsmeðferðarreglum sem frumvarpið geymir og hins vegar að afstaða er tekin beinlínis til þess í 125. gr. hvenær megi semja um að leyst verði úr um skyldur þriðja manns í umæddum málum. Þessar reglur eru fyrst og fremst lagðar hér til í því skyni að stuðla að hagræði og skjótari málsmeðferð við skipti, en þetta er einmitt gert til samræmis við það markmið sem má víða finna merki um í öðrum atriðum frumvarpsins eins og í núgildandi lögum að þess eigi að gæta eins og frekast er kostur að skipti fari fram á sem skemmstum tíma.
    Um nánari atriði þessara ákvæða má fyrst geta reglna 1. mgr. 124. gr. Þar er mælt fyrir um heimild skiptastjóra til að halda uppi kröfum dánarbús, sem er til opinberra skipta, í máli að hætti XVII. kafla frumvarpsins ef kröfunar beinast að maka þess látna eða öðrum erfingja, úrlausn um þau hefur þýðingu fyrir skiptin, þeim verður ekki fylgt eftir í máli sem ber að eftir 122. gr. og hægt yrði að höfða mál til að sækja þau eftir almennum reglum laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði. Hér er um heimild að ræða handa skiptastjóra, en kjósi hann að fara þessa leið verður gagnaðili búsins að hlíta því.
    Í öðru lagi kemur fram sérregla í 2. mgr. 124. gr. um heimild annars hjóna eða sambýlismanns til að halda uppi réttindum sínum í máli að hætti XVII. kafla á hendur maka sínum eða sambýlismanni ef yfir standa opinber skipti eftir XIV. kafla frumvarpsins, úrlausn um réttindin hefur þýðingu fyrir fjárslitin milli þeirra, ekki verður leyst úr um þau í máli sem ber að eftir 122. gr. og hægt yrði að sækja þau í einkamáli eftir almennum reglum. Í þessari reglu, sem vikið var nánar að í athugasemdum við 112. gr. frumvarpsins, er gert ráð fyrir að um heimild sé að ræða handa öðru hjóna eða öðrum sambýlismanninum, en kjósi hann að halda uppi réttindum sínum í máli sem þessu verður gagnaðili hans að hlíta þeirri málsmeðferð.
    Í þriðja lagi er í 1. mgr. 125. gr. kveðið á um heimild handa dánarbúi, hvort sem það væri til opinberra skipta eða einkaskipta, til að halda uppi réttindum sínum í máli eftir XVII. kafla frumvarpsins á hendur öðrum en ákvæði 1. mgr. 124. gr. taka til ef réttindin hefðu þýðingu fyrir skiptin og mætti sækja í einkamáli eftir almennum reglum. Ákvæði þetta sker sig úr í samanburði við reglur 124. gr. að því leyti að hér er ekki um einhliða heimild dánarbúsins að ræða til að ákveða að mál verði rekið með þessum hætti, heldur verður gagnaðili þess að vera því samþykkur.
    Loks er í fjórða lagi mælt fyrir í 2. mgr. 125. gr. um heimild hjóna til að fá leyst úr ágreiningsefnum sín á milli í máli eftir XVII. kafla varðandi fjárslit vegna skilnaðar eða ógildingar hjúskapar þótt opinber skipti fari ekki fram í því skyni eftir fyrirmælum XIV. kafla ef málefnið hefði sætt þeirri meðferð við opinber skipti eftir 122. gr. eða 2. mgr. 124. gr. Ef leita ætti úrlausnar eftir þessari heimild yrðu hjónin að vera sammála um þá málsmeðferð.
    Framangreindum reglum 124. og 125. gr. er það sammerkt að þau mál, sem þar um ræðir, kæmu til kasta héraðsdóms með því að sá sem teldi til réttinda og vildi sækja þau eftir þessum heimildum yrði að gera stefnu og önnur sóknargögn með sama hætti og ef hann væri að höfða einkamál eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 124. gr., sem er vísað til í öðrum umræddum ákvæðum. Með þessum gögnum er ætlast til að skrifleg beiðni fylgi til héraðsdómara um þessa málsmeðferð, en þar yrði að rökstyðja sérstaklega að málið fullnægi skilyrðum viðeigandi ákvæðis 124. eða 125. gr. Hér er að auki ráðgert að áður en lengra yrði haldið framkvæmi héraðsdómari sérstaka könnun á því hvort skilyrðum sé fullnægt fyrir að fara með málið með þessum hætti, sbr. 3. mgr. 124. gr., en reglurnar um þá könnun eru sama efnis og ákvæði 4. og 5. mgr. 123. gr. sem áður hefur verið lýst. Ef héraðsdómari teldi þessum skilyrðum fullnægt færi hann með málið eftir fyrirmælum XVII. kafla.
    Í 126. gr. koma loks fram almennar reglur varðandi öll afbrigði mála, sem ákvæði XVI. kafla taka til, um það í hverjum mæli leyst verði úr skyldum þriðja manns í málum sem yrðu rekin eftir fyrirmælum XVII. kafla, að því leyti sem beinar heimildir standa ekki til að leysa úr slíkum skyldum eftir öðrum reglum XVI. kafla. Þessar heimildir eru taldar nánar í þremur töluliðum 126. gr., en þar er þess í fyrsta lagi getið að í máli eftir XVII. kafla megi dæma þriðja mann sem á aðild að því til að greiða gagnaðila sínum málskostnað og að gera megi honum aðgreiða réttarfarssekt. Sömu heimildir má nú finna í 3. mgr. 185. gr. og 6. mgr. 188. gr. laga nr. 85/1936, en afnám þeirra ákvæða er lagt til í 14. tölul. 135. gr. þessa frumvarps. Í öðru lagi er kveðið á um það í 2. tölul. 126. gr. að hafa megi uppi gagnkröfu á hendur þriðja manni í málisem er rekið skv. XVII. kafla hvort sem er til skuldajafnaðar eða sjálfstæðrar dómsúrlausnar, en skilyrðin fyrir því eru að þriðji maður hafi sjálfur uppi kröfu um réttindi sín í slíku máli, hafa mætti uppi gagnkröfuna í þessu skyni ef um væri að ræða einkamál eftir almennum reglum, sbr. 49. gr. laga nr. 85/1936, og að þriðji maður hafi mætt á dómþingi þegar gagnkrafan kom fyrst fram, sbr. 4. mgr. 130. gr. frumvarpsins. Þessar heimildir til að hafa uppi gagnkröfur á hendur þriðja manni fela í sér nokkra breytingu frá fyrirmælum 35. gr. laga nr. 3/1878 sem gera aðeins ráð fyrir slíkum gagnkröfum til skuldajafnaðar. Þá er í þriðja lagi mælt fyrir um heimild í 3. tölul. 126. gr. til að fá leyst úr um skyldu þriðja manns til að greiða kostnað vegna muna sem hann krefst afhendingar á ef mál um afhendingarkröfu hans er rekið eftir XVII. kafla. Tekið er þó fram í þessu ákvæði að þetta megi aðeins gera á þann veg að leyst sé úr skyldu þriðja manns til greiðslu sem skilyrði fyrir að hann fái munina afhenta sér, en sá kostnaður, sem hér gæti átt undir, kynni að vera af ýmsum toga, t.d. húsaleiga vegna geymslu muna, kostnaður af gæslu þeirra o.s.frv. Ákvæði 35. gr. laga nr. 3/1878 fela í sér sambærilega heimild og hér um ræðir.

Um 127.–131. gr.


    Reglur XVII. kafla frumvarpsins um sérstaka meðferð ágreiningsmála fyrir héraðsdómi eru í 127.–131. gr., en það einkennir þær helst að þar koma fram fyrirmæli um ákveðin afbrigði frá almennum reglum um meðferð einkamála í héraði samkvæmt lögum nr. 85/1936 sem gilda að því leyti sem frávik frá þeim verða ekki leidd af ákvæðum frumvarpsins, sbr. 2. mgr. 131. gr. Verður litið hér nánar til þess í hverju þessi frávik felast í helstu atriðum.
    Í fyrsta lagi er mælt fyrir um þann aðdraganda að málsmeðferðinni í 127. gr. að héraðsdómari geri tilkynningar eftir að hafa ákveðið stað og stund til þingfestingar og beini þeim til beggja eða allra aðila málsins. Er talið upp í fimm töluliðum 1. mgr. 127. gr. hvað eigi nánar að koma fram í þessum tilkynningum, en þeim eiga síðan að fylgja samrit þeirrar kröfu eða eftir atvikum stefnu, sbr. 124. og 125. gr., sem var beint til héraðsdómara eftir viðeigandi ákvæði XVI. kafla til að leita úrlausnar hans. Héraðsdómari má þó láta ógert að láta slík skjöl fylgja tilkynningu ef efni þeirra er tekið upp í tilkynninguna sjálfa, sbr. 2. mgr. 127. gr. Samkvæmt 128. gr. á síðan að birta þessar tilkynningar fyrir málsaðilum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, sbr. ákvæði VIII. kafla laga nr. 85/1936, en þó ákveður héraðsdómari þann fyrirvara sem birta verður með án tillits til almennra reglna um stefnufrest, sbr. 1. mgr. 128. gr. frumvarpsins. Þessar upphafsaðgerðir við meðferð máls eftir XVII. kafla ættu við í öðrum tilvikum en þeim þar sem mál kemur til kasta héraðsdómara eftir fyrirmælum 120. gr., enda rís tilefni til rekstrar máls eftir þeim fyrirmælum á dómþingi sem allir hlutaðeigendur hafa verið boðaðir til.
    Í öðru lagi er mælt svo fyrir í 1. mgr. 129. gr. að mál eftir XVII. kafla teljist höfðað við þingfestingu þess, en hér er vikið frá almennri reglu 103. gr. laga nr. 85/1936 sem miðar réttaráhrif málshöfðunar við birtingu stefnu í einkamáli nema mál sé þingfest fyrir dómi án undangenginnar stefnubirtingar með samþykki varnaraðilans. Við þingfestingu er héraðsdómara ætlað að leggja fram tilkynningar til aðilanna um málið með gögnum um birtingu þeirra og þau gögn sem honum hafa borist um ágreiningsefnið og hann telur hafa þýðingu, en um þetta má vekja athygli á því að ætlast er til með þessu orðalagi 1. mgr. 129. gr. að dómari leggi ekki fram í blindni öll skjöl sem hafa borist honum um málið, heldur yrði hann eftir atvikum að leitast við að einfalda málið með því að láta hjá líða að leggja sjálfur fram þýðingarlaus gögn við þingfestingu. Í tengslum við ákvæði 1. mgr. 129. gr. er rétt að benda á að ekki er minnst á það hvernig dómari eigi að haga gerðum sínurn ef ekki hefur tekist að birta tilkynningar réttilega eða í tæka tíð og ekki er sótt þing af hálfu beggja eða allra aðila allt að einu. Verður að telja þau viðbrögð nærtækust að ekki verði af þingfestingu máls, heldur ákveðinn nýr tími til þingfestingar, gerðar nýjar tilkynningar og leitast á ný við að birta þær.
    Í þriðja lagi má nefna að reglur 2. og 3. mgr. 129. gr. taka til þess hvernig verði farið með mál ef útivist verður af hálfu málsaðila. Þessar reglur víkja í reynd ekkert frá almennum reglum 118. gr. laga nr. 85/1936 um afleiðingar útivistar, en þær eru teknar hér upp gagngert vegna óvissu sem hefur virst ríkja í þessum efnum um mál sem eru rekin eftir ákvæðum laga nr. 3/1878.
    Í fjórða lagi er í 130. gr. mælt fyrir um málsmeðferðina ef báðir eða allir málsaðilar mæta við þingfestingu, en ef sátt verður ekki í máli gefur héraðsdómari sóknaraðilanum kost á að leggja þá þegar fram greinargerð um kröfur sínar, málsástæður, önnur málsatvik og lagarök ásamt gögnum sem hann kann að byggja málstað sinn á og hafa ekki þegar verið lögð fram af dómaranum. Hér ber þó að hafa í huga að ef málið væri komið til eftir 124. eða 125. gr. hefði dómarinn þá þegar undir höndum stefnu sóknaraðilans og önnur gögn, en dómarinn legði þau þá fram við þingfestingu, sbr. 1. mgr. 129. gr. Ekki er að finna nákvæm fyrirmæli í 1. mgr. 130. gr. um efni greinargerðar sóknaraðila, en líkt og í framkvæmd eftir núgildandi lögum er hér gengið út frá að orð 1. mgr. 130. gr. verði skilin á þann veg að greinargerðin eigi að geyma sömu atriði og verða að koma fram í stefnu og eftir atvikum greinargerð sækjanda í einkamáli, sbr. 1. mgr. 88. gr. og 1. mgr. 105. gr. laga nr. 85/1936. Tekið er fram í 1. mgr. 130. gr. frumvarpsins að héraðsdómari geti veitt sóknaraðila skamman frest við þingfestingu til að leggja fram greinargerð sína, en hér ber að leggja áherslu á að ætlast er til að frestur í þessu skyni sé skammur, líkt og aðrir frestir í þessum málum, enda á því byggt að mál sem þessi fái skjótari meðferð en einkamál eftir almennum reglum. Eftir 2. mgr. 130. gr. á héraðsdómari síðan að veita varnaraðila skamman frest að framkominni greinargerð sóknaraðilans til að leggja fram sambærilega greinargerð af sinni hendi ásamt gögnum sem hann byggir á, en þessi regla er hliðstæð ákvæðum 106. gr. laga nr. 85/1936.
    Í fimmta lagi má geta þess að í 3. mgr. 130. gr. er mælt fyrir um það að farið verði með frávísunarkröfu sem kann að koma fram af hálfu varnaraðila eftir almennum reglum laga nr. 85/1936. Þótt þessi regla kunni að virðast óþörf í ljósi almennrar tilvísunar 2. mgr. 131. gr. frumvarpsins til reglna nefndra laga þjónar hún þeim tilgangi að taka af skarið um að mál sem þessi geti sætt frávísun. Hafa verið uppi mjög skiptar skoðanir um heimildir til þess eftir núgildandi lögum og hefur dómaframkvæmd verið á reiki í þeim efnum. Af þessari reglu má draga þá ályktun að dómari geti vísað máli eftir fimmta þætti frumvarpsins frá dómi af sjálfsdáðum ef annmarkar eru á því sem mundu valda frávísun almenns einkamáls án kröfu.
    Í sjötta lagi má hér líta til ákvæða 4. mgr. 130. gr., en þar er mælt sérstaklega fyrir um heimild varnaraðila til að nafa uppi sjálfstæðar kröfur um úrlausn sakarefnisins sem verði þá farið með sem gagnkröfu í málinu, en því skilyrði verður þó að fullnægja að annaðhvort mætti leita sjálfstæðrar úrlausnar um kröfuna eina út af fyrir sig eftir einhverri heimild í ákvæðum XVI. kafla eða að heimild til gagnkröfunnar komi berum orðum fram í 126. gr. Þessi fyrirmæli verður að skoða í ljósi þess að í málum, sem yrðu rekin eftir ákvæðum XVII. kafla væri kröfugerð varnaraðila yfirleitt ekki sambærileg kröfugerð stefnda í einkamáli eftir almennum reglum, nema helst ef krafist væri frávísunar máls, sbr. 3. mgr. 130. gr. Í máli eftir XVII. kafla hefði varnaraðili ekki uppi kröfu um sýknu af kröfum sóknaraðila, heldur að þeim yrði hafnað eða að málalok yrðu á einhvern tiltekinn annan veg en sóknaraðilinn krefjist. Ef þess eins yrði krafist af hendi varnaraðila að kröfum gagnaðilans yrði hafnað væri ekki tilefni til að ræða um sjálfstæða kröfu varnaraðilans um úrlausn sakarefnisins í skilningi 4. mgr. 130. gr. Slík kröfugerð gæti komið að haldi ef sóknaraðilinn héldi til dæmis uppi í máli sem þessu kröfu um viðurkenningu lýstrar kröfu við opinber skipti dánarbús sem skiptastjóri mundi einfaldlega krefjast af hálfu búsins að yrði hafnað. Sú aðstaða væri hins vegar engan veginn uppi í öllum tilvikum. Ef ágreiningur væri til dæmis til úrlausnar milli tveggja erfingja sem vildu fá sama hlutinn lagðan sér út við skipti á dánarbúi kæmi öðrum þeirra að takmörkuðu gagni að geta krafist þess eins að kröfu hins um útlagningu yrði hafnað því að þótt sú krafa hans yrði tekin til greina væri ekki leyst úr því hvort hann ætti þá frekar rétt til útlagningarinnar en hinn. Undir þessum kringumstæðum væri beint tilefni til að varnaraðilinn hefði einnig fyrir sitt leyti uppi kröfu um að honum verði mæltur réttur til útlagningar, en hér væri þá einmitt um að ræða sjálfstæða kröfu varnaraðilans um úrlausn sakarefnisins í skilningi 4. mgr. 130. gr. Að öðru leyti er rétt að geta þess að í upphafsorðum 4. mgr. 130. gr. felst það skilyrði fyrir kröfu sem þessari af hendi varnarðilans að sóknaraðilinn þurfi að mæta á dómþingi þegar hún kemur fyrst fram, en ef útivist yrði af hálfu sóknaraðilans áður en gagnkrafan hefði komið fram félli málið niður, sbr. 2. mgr. 129. gr., án þess að leyst yrði úr henni í því máli. Ætlast er til þess í 4. mgr. 130. gr. að varnaraðili setji fram gagnkröfu sína í greinargerð, en héraðsdómara er heimilað í ákvæðinu að gefa sóknaraðila kost á að leggja fram stutt skriflegt svar við gagnkröfunum. Ber að leggja áherslu á að sóknaraðilanum er hér ekki veittur réttur til að fá að leggja slíkt svar fram, heldur er héraðsdómara ætlað að meta hvort tilefni sé til að gefa kost á því. Í þeim efnum yrði dómarinn væntanlega öðru fremur að taka tillit til þess hvort gagnkrafan sé svo óháð kröfum sóknaraðilans að svar felist ekki efnislega við henni þá þegar í málatilbúnaði sóknaraðilans, en þá væri eftir atvikum rétt að gefa kost á skriflegu svari við gagnkröfunni.
    Loks má í sjöunda lagi benda á að í 1. mgr. 131. gr. kemur fram að úrlausn héraðsdómara í málum skv. XVII. kafla yrði ávallt nefnd úrskurður, en ekki dómur. Kemur einnig fram að forsendur eigi alltaf að fylgja ályktunarorði úrskurða héraðsdómara í þessum málum.
    Um önnur atriði varðandi meðferð mála skv. XVII. kafla en þau sem hafa verið nefnd hér yrði stuðst við þá almennu tilvísun sem kemur fram í 2. mgr. 131. gr. til almennra reglna um meðferð einkamála í héraði, sbr. einkum lög nr. 85/1936. Þannig yrði stuðst í þessum efnum við reglur af þeim vettvangi um gagnaöflun og sönnunarfærslu, flutning máls, málskostnað og réttarfarssektir, svo að eitthvað sé nefnt. Munurinn milli meðferðar einkamála eftir almennum reglum annars vegar og meðferðar eftir XVII. kafla frumvarpsins hins vegar fælist helst í því hvernig mál kæmu til kasta héraðsdóms, auk þess að ætlast er til að frestir yrðu skemmri og eftir atvikum færri og meðferðin þannig að mun skjótvirkari eftir XVII. kafla. Í reynd væri þó einn helsti munurinn á tímanum, sem færi í málarekstur, fólginn í ólíkt skjótari úrlausn mala eftir fimmta þætti frumvarpsins við málskot til æðra dóms, en að því er vikið nánar í tengslum við 133. gr.

Um 132. gr.


    Í ákvæði þessu koma fram heimildir handa dómsmálaráðherra til að mæla fyrir reglugerð um málaskrár héraðsdómara. Verður ekki séð að hér sé þörf sérstakra skýringa.

Um 133. gr.


    Þessi grein frumvarpsins er eina ákvæði XVIII. kafla þess sem fjallar um málskot til æðra dóms. Reglur 133. gr. fela í sér ráðagerðir um breytingar frá núgildandi lögum sem ástæða þykir til að víkja nánar að.
    Annars vegar má vekja athygli á því að með 133. gr. er farin sú leið að leggja til að reglur um málskot úrskurða og eftir atvikum ákvarðana héraðsdómara um þau málefni, sem frumvarpið tekur til, verði ekki sem hingað til í lögum um Hæstarétt Íslands, heldur í þeirri löggjöf sem fjallar um leið um málsmeðferðina fyrir héraðsdómi. Hér er um nokkra stefnubreytingu að ræða frá núgildandi lögum, en hún er lögð hér til með hliðsjón af sambærilegri skipan í frumvarpi til laga um meðferð opinberra mála, sem var lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi en varð ekki útrætt þar.
    Hins vegar felst tillaga um veigamikla breytingu í því að skv. 1. mgr. 133. gr. er gert ráð fyrir að allar úrlausnir héraðsdómara, sem yrði skotið á annað borð til æðra dóms eftir frumvarpinu, sæti kæru til Hæstaréttar. Í núgildandi reglu 2. tölul. 1. mgr. 21. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, er gert ráð fyrir að sambærilegar úrlausnir sæti ýmist kæru eða verði áfrýjað, en greinarmunurinn milli þeirra tilvika, þar sem hvor leiðin um sig á við, er ekki fyllilega skýr. Að auki er sá umtalsverði ókostur á núverandi skipan að greint er milli mála sem saaa kæru og verður áfrýjað eftir því hvert meginefni máls telst vera hverju sinni, en sú aðgreining leiðir engan veginn sjálfkrafa til þess sem má þó vænta að hafi verið ætlast til með þessum reglum að minni mál sæti kæru og hljóti þar með skjóta meðferð en umfangsmeiri málum verði áfrýjað og sæti þá mun vandaðri og um leið seinlegri meðferð. Hefur þannig reyndin stundum orðið sú að lítilfjörleg mál hafa tafist mjög í meðförum með því að orðið hefur að fá leyst úr þeim fyrir Hæstarétti með áfrýjun, en viðamikil mál eða mál sem varða mikla hagsmuni hafa getað sætt kæru. Í þessu ljósi verður ekki séð að það þjóni teljandi tilgangi að láta núverandi reglur haldast, en að auki verður heldur ekki séð hvernig megi móta almennar reglur í þessum efnum sem geti þjónað því ætlunarverki á raunhæfan hátt að greina milli málskotsleiða eftir umfangi eða þýðingu mála og fengið samrýmst um leið þeirri almennri skipan við málskot sem nú gildir. Af þessum sökum verður varla um aðra kosti að velja en að leggja annaðhvort til að öll umrædd mál sæti kaeru eða að þeim verði áfrýjað, en í ljósi þeirra hagsmuna, sem eru almennt í húfi á þessum vettvangi af því að mál hljóti úrlausn á sem skemmstum tíma, er varla nema um fyrri kostinn að ræða. Þótt þetta geti óneitanlega haft í för með sér að umfangsmikil mál sæti kæru í vissum tilvikum má benda á að Hæstiréttur getur ákveðið að kærumál verði munnlega flutt þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1973, og að ágrip dómsgerða verði lagt fram í slíku máli, þannig að meðferð þess verði í reynd hliðstæð því sem gerist við áfrýjun í öðrum atriðum en varða málshraða.
    Rétt er að taka fram að í 135. gr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir brottfalli ákvæða 2. tölul. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1973. Stafar þetta af því að umrædd ákvæði ná í senn til málskots úrskurða héraðsdómara í tengslum við gjaldþrotaskipti, nauðasamninga og þau málefni sem þetta frumvarp tekur til. Ef þetta frumvarp verður að lögum má þó ganga út frá því eftir almennum lögskýringarviðhorfum að ákvæði 133. gr. þess gangi framar reglum 21. gr. laga nr. 75/1973 í þessum efnum. Þess má geta að í ákvæðum frumvarps til laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem er vænst að komi til meðferðar á Alþingi samhliða þessu frumvarpi, er mælt fyrir um brottfall umræddra ákvæða laga nr. 75/1973, enda er í því frumvarpi líkt og hér að finna sérfyrirmæli um málskot.
    Önnur atriði 133. gr. frumvarpsins eru í samræmi við núgildandi reglur og þykja því ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 134.–136. gr.


    Í 134. gr. er gert ráð fyrir að ef þetta frumvarp verður að lögum öðlist þau gildi 1. júli 1992 eða á sama tíma og lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, ásamt ýmsum nýjum heildarlögum á sviði réttarfars sem fylgja þeim í gildistöku.
    Í 135. gr. er mælt fyrir um brottfall ýmissa lagaákvæða, en af einstökum atriðum í þessu sambandi má einkum nefna að skv. 1. tölul. 135. gr. falla niður önnur ákvæði laga nr. 3/1878 en 8. kapítula þeirra sem fjalla um svokallaða skuldaröð. Er ástæða þess sú að ráðgert er að nýjar reglur um það efni verði í frumvarpi til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og að þar verði þá lagt til brottfall þessara ákvæða laga nr. 3/1878. Þá má benda á að í 11. tölul. 135. gr. er mælt fyrir um brottfall ýmissa ákvæða laga um réttindi og skyldur hjóna nr. 20/1923, en þetta kemur til vegna þeirra reglna frumvarpsins, einkum í XIV. kafla, sem er ætlað að leysa umrædd ákvæði af hólmi. Önnur fyrirmæli 135. gr. eru ýmist því marki brennd að verið sé að leggja til brottfall úreltra lagaákvæða á þessum vettvangi eða að lagaákvæði, sem er ætlað að falla niður, samræmast ekki fyrirmælum frumvarpsins efnislega eða í hugtakanotkun.
    Í 136. gr. eru loks lagðar til breytingar í 21 tölulið á jafnmörgum lögum, en í ýmsum þessara töluliða er gert ráð fyrir breytingum á fleiri en einu ákvæði viðkomandi laga. Umfangsmestu breytingartillögurnar snúa að lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, sbr. 18. tölul. 136. gr., en ákvæði þeirra laga byggja mjög á núgildandi skipan laga nr. 3/1878 og er því nauðsynlegt að mæla fyrir um breytingar á þeim til samræmis við reglur þessa frumvarps. Flest önnur fyrirmæli 136. gr. beinast að breytingu á hugtökum í viðkomandi lögum sem á reyndar við um allmargar breytingar á lögum nr. 83/1984 og er þá tíðast um að ræða að hugtökin „skiptaráðandi“ eða „skiptaréttur“ komi þar fyrir eða að vísað hafi verið algerlega að ástæðulausu til laga nr. 3/1878 eða tiltekinna ákvæða þeirra. Yrði að telja það verulegt lýti á löggjöf ef slík ákvæði fengju að standa óáreitt þótt þau yrðu mörg hver auðskýrð til samræmis við reglur þessa frumvarps.

Um 137.–157. gr.


    Í ákvæðum þessum koma fram reglur varðandi ýmis atriði um skil eldri laga og yngri ef frumvarp þetta verður að lögum. Verður ekki séð að ástæða sé til að skýra hvert þeirra sérstaklega hér.