Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 130 . mál.


Nd.

134. Frumvarp til laga



um hlut Íslands í stofnfé Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Ríkisstjórninni er heimilt að greiða og ábyrgjast fjárhæðir þær er leiðir af stofnfjárskuldbindingum Íslands í Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.


A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við tillögu til þingsályktunar um heimild til fullgildingar samnings um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu en sá samningur var gerður í París 29. maí 1990. Vísast til athugasemda við þá tillögu um stofnun bankans og stofnsamninginn. Eftirfarandi athugasemdir verða þó gerðar hér:
    Í II. kafla samningsins, 4. 7. gr., er fjallað um hlutafé í bankanum. Í 4. gr. segir að stofnféð skuli vera 10 milljarðar evrópskra mynteininga (ECU) sem er jafnvirði 748 milljarða króna miðað við gengi ECU 1. október 1990 (1 ECU er 74,83 kr.). Af stofnfénu skulu 3 milljarðar ECU (jafnvirði 224 milljarða kr.) greiddir bankanum á næstu fimm árum en afgangurinn er ábyrgðarfé sem ekki þarf að greiða nema á ábyrgðarskuldbindingar reyni vegna fjárhagslegra áfalla í starfsemi bankans eða vegna uppgjörs við slit bankans, sbr. 17. og 42. gr. samningsins.
    Hlutur Íslands í upphaflegu hlutafé í bankanum, stofnfénu, yrði 0,1%. Það gerir 10 milljónir evrópskra mynteininga eða jafnvirði 748 milljóna kr. miðað við gengi 1. október 1990. Greiðsluhlutaféð verður 3 milljónir ECU eða 224 milljónir kr. og skal inna greiðslur af hendi á fimm árum í jöfnun ársgreiðslum, í fyrsta sinn 1991. Áætlað er fyrir fyrstu greiðslunni í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1991 undir liðnum hluta - og stofnfjárframlög. Ábyrgðarhlutaféð, 7 milljónir ECU eða 524 milljónir króna, yrði því aðeins af hendi innt að öllu leyti eða hluta til ef á þyrfti að halda vegna fjárhagslegra áfalla eða slita bankans. Tekið skal fram að ákvæði samningsins um ábyrgð taka mið af samsvarandi ákvæðum samningsins um Alþjóðabankann. Aldrei hefur þó reynt á ábyrgðarskuldbindingar Íslands hjá Alþjóðabankanum þótt Ísland hafi verið aðili að honum um áratuga skeið.
    Gert er ráð fyrir því í 5. gr. Evrópubankasamningsins að tekið verði til athugunar á fimm ára fresti hvort auka þurfi hlutafé í bankanum. Er hverjum aðila í sjálfsvald sett hvort hann tekur þátt í slíkri hlutafjáraukningu. Þetta er svipað kerfi og hjá Alþjóðabankanum. Ef Ísland tæki þátt í slíkri hlutafjáraukningu mundi lagafrumvarp verða lagt fyrir Alþingi þar að lútandi á svipaðan hátt og gert hefur verið vegna aðildar Íslands að Alþjóðabankanum.
    Vegna skuldbindinga í 54. gr. samningsins, sem eru sambærilegar skuldbindingum Íslands vegna aðildar að ýmsum öðrum alþjóðastofnunum, þarf að leggja fram sérstakt lagafrumvarp um réttarstöðu bankans, svo og friðhelgi, forréttindi og undanþágur er tengjast honum og starfsliði hans.