Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 139 . mál.


Nd.

145. Frumvarp til laga



um listamannalaun.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.


     Alþingi veitir tilteknum listamönnum heiðurslaun. Nýir heiðurslaunahafar skulu hafa náð 65 ára aldri.

3. gr.


     Almenn listamannalaun skulu veitt úr fjórum sjóðum:
     Launasjóði rithöfunda,
     Launasjóði myndlistarmanna,
     Tónskáldasjóði,
     Listasjóði.
    Þrír hinna fyrstnefndu sjóða eru sérgreindir sjóðir í þágu einstakra listgreina sem eingöngu veita starfslaun, en Listasjóður er almennur sjóður sem auk starfslauna veitir verkefnastyrki til allra listgreina. Enn fremur aðra styrki og framlög, sbr. 10. gr.

4. gr.


     Þriggja manna stjórn listamannalauna hefur yfirumsjón með sjóðum skv. 3. gr. Stjórnin skal skipuð af menntamálaráðherra, einum samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla, ef stofnaður yrði, og loks einum án tilnefningar. Stjórn sjóðsins skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald þeirra.
     Stjórnin úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern hinna sérgreindu sjóða veita fé úr þeim, sbr. 13. gr.

5. gr.


     Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Þeir sem taka starfslaun hverju sinni skulu vera á launaskrá hjá stjórn listamannalauna og greiðast laun til þeirra mánaðarlega. Þeir skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og stendur þá launagreiðandi skil á iðgjaldshluta þeirra ásamt mótframlagi sínu. Þeir skulu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna og skila skýrslu um störf sín. Fella má niður starfslaun sem veitt hafa verið til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni.

6. gr.


     Samanlögð starfslaun miðast við 840 mánaðarlaun, eða 70 árslaun, og síðan bætast við 60 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.

7. gr.


     Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun sem svara til 360 mánaðarlauna og bætast við 24 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár. Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.

8. gr.


     Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun sem svara til 240 mánaðarlauna og bætast við 16 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.

9. gr.


     Tónskáldasjóður veitir árlega starfslaun sem svara til 60 mánaðarlauna og bætast við átta mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.

10. gr.


     Listasjóður veitir starfslaun og styrki er svara til 180 mánaðarlauna og bætast við tólf mánaðarlaun á ári næstu fimm ár. Listasjóður veitir einnig verkefnastyrki, náms og ferðastyrki og jafnframt sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri.

11. gr.


     Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs, til þriggja eða fimm ára. Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.

12. gr.


     Stjórn listamannalauna skal vinna markvisst að því að sveitarfélög og fyrirtæki veiti listamönnum starfslaun eða leggi fram fé í Listasjóð.

13. gr.


     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara þar sem m.a. skal kveða á um skipun úthlutunarnefnda hinna sérgreindu sjóða að höfðu samráði við Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra myndlistarmanna og Tónskáldafélag Íslands. Ákvarðanir úthlutunarnefnda eru endanlegar og verður ekki áfrýjað.

14. gr.


     Við gildistöku þessara laga falla eftirtalin lög úr gildi:
    Lög nr. 29 29. apríl 1967, um listamannalaun.
    Lög nr. 29 20. maí 1975, um Launasjóð rithöfunda.

15. gr.


     Lög þessi taka gildi hinn 1. janúar 1991 og skulu endurskoðuð eftir fimm ár frá gildistöku.

A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Menntamálaráðherra skipaði 20. júlí 1989 nefnd sem fjalla skyldi um launamál listamanna og gera tillögur um nýtt fyrirkomulag. Skipaðir voru: Ragnar Arnalds alþingismaður, formaður, en meðnefndarmenn voru skipaðir Eiður Guðnason alþingismaður, Gerður Steinþórsdóttir kennari, Brynja Benediktsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna, og Guðný Magnúsdóttir myndlistarmaður. Kristni Hallssyni, deildarsérfræðingi í menntamálaráðuneytinu, var falið að starfa með nefndinni. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 31. júlí 1989. Alls hélt nefndin 16 fundi.
    Áður höfðu þessi mál verið rædd í nefndum og innan samtaka listamanna, m.a. Bandalagi íslenskra listamanna. Enn fremur hafði Tónskáldafélag Íslands barist fyrir stofnun sérstaks tónskáldasjóðs allt frá árinu 1982 og lagt fram drög að lagafrumvarpi og greinargerð þar að lútandi. Lá því fyrir nefndinni allmikið af gögnum og tillögum sem nefndin kynnti sér rækilega. Þá var leitað eftir upplýsingum um launa og styrktarkerfi í þágu listamanna í hinum ýmsu löndum, m.a. Norðurlöndum, Hollandi, Frakklandi og víðar. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að reglur þær, sem gilda um þetta efni í Finnlandi, mætti einna helst hafa til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps. Enn fremur hefur verið höfð hliðsjón af tillögum, sem fyrir liggja frá Bandalagi íslenskra listamanna.
    Tillögur nefndarinnar voru fullgerðar 30. nóvember 1989 og voru sendar menntmálaráðherra og fleiri aðilum til kynningar. Kom í ljós að þeir sem leitað var til voru sammála um að tillögurnar væru til mikilla bóta. Fól því menntamálaráðherra nefndinni að semja frumvarp til laga byggt á þessum tillögum. Nefndin naut aðstoðar Sigurðar Reynis Péturssonar hrl. við endanlega gerð þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að listamannalaun séu greidd úr ríkissjóði svo sem tíðkast hefur og fé í því skyni veitt árlega á fjárlögum. Að auki er stjórn listamannalauna falið að vinna markvisst að því, sbr. 12. gr. frumvarpsins, að sveitarfélög og fyrirtæki veiti einstökum listamönnum starfslaun eða leggi fram fé í Listasjóð.

Um 2. gr.


    Hér er vikið frá núgildandi reglum og lagt til að heiðurslaun verði einungis veitt þeim sem náð hafa 65 ára aldri.

Um 3. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.


     Hér er gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri stjórn listamannalauna er hafi yfirumsjón með öllum sjóðunum, sem gert er ráð fyrir að starfi skv. 3. gr. Hún úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar úthlutunarnefndir, skipaðar af menntamálaráðherra samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, veita starfslaun úr hinum sérgreindu sjóðum.

Um 5. gr.


     Starfslaun verða nú miðuð við lektorslaun II við Háskóla Íslands, þ.e. launaflokk 146, 5. þrep samkvæmt launatöflu BHMR nr. 525, í staðinn fyrir laun framhaldsskólakennara í launaflokki 142, 5. þrep samkvæmt launatöflu BHMR nr. 505. Hækka því mánaðarlaunin úr 70.950 kr. í 77.922 kr. samkvæmt kjarasamningi BHMR og fjármálaráðherra frá 27. apríl 1989. Þá er einnig gert ráð fyrir að ýmsir styrkþegar, sem eru ekki félagar í lífeyrissjóði, öðlist lífeyrisréttindi í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Um 6. gr.


     Lagt er til að starfslaun svari samanlagt til 840 mánaðarlauna og síðan bætist við 60 mánaðarlaun á ári næstu fimm árin. Gert er því ráð fyrir að framlag til listamanna, starfsstyrkir og laun, miðað við 840 mánaðarlaun, verði um 60 millj. kr. samkvæmt gildandi kjarasamningum. Til samanburðar skal nefnt að á árinu 1989 voru veitt listamannalaun og starfslaun úr Launasjóði rithöfunda og enn fremur af fjárveitingu til starfslauna listamanna sem jafngiltu 764 mánaðarlaunum eða 64 árslaunum, alls um 45 millj. kr.

Um 7. 9. gr.


     Launasjóður rithöfunda er þegar fyrir hendi. Einnig er til Starfslaunasjóður myndlistarmanna sem annast úthlutun fylgiréttargjalds vegna listmunauppboða. Tónskáldin hafa ítrekað sótt um að fá Tónskáldasjóð. Þessir hópar listamanna vinna að list sinni á eigin vegum og hafa því langmesta þörf fyrir starfslaun. Þessi þörf er löngu viðurkennd og fengu þessir hópar listamanna 584 af 644 mánaðarlaunum sem veitt voru í formi starfslauna á sl. ári.

Um 10. gr.


     Listasjóði er, auk starfsstyrkja, ætlað að veita verkefnastyrki, náms og ferðastyrki og jafnframt sérstök framlög til listamanna sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og hafa náð vissum aldri. Hér er m.a. reynt að koma til móts við þá listamenn sem eiga stutta listamannsævi, svo sem listdansara og söngvara.

Um 11. gr.


     Ljóst er að sumir okkar bestu listamanna starfa eingöngu á eigin vegum og hafa löngum litlar tekjur við að vinna að verkefnum sínum. Hér er því þörf fyrir breytingu frá fyrri reglum um starfsstyrki sem aðeins veitti einn starfsstyrk til eins árs. Eftir að nefndin kynnti sér hvernig staðið er að styrkveitingum í öðrum löndum, m.a. í Finnlandi, var komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt þótti að breyta starfsstyrkjareglunum þannig að hægt yrði að veita starfsstyrki til lengri tíma en eins árs. Gert er því ráð fyrir að fjórðungur heildarstarfslauna verði veittur til listamanna sem taki starfslaun í meira en eitt ár.

Um 12. gr.


     Auk þess sem tilgreint er í 4. gr. um verksvið stjórnar listamannalauna þykir rétt að stjórnin hvetji sveitarfélög og stórfyrirtæki til að styrkja listamenn. Þetta gera sum sveitarfélög nú og má nefna Reykjavík og Kópavog. Þá hafa fyrirtæki í nokkrum tilfellum styrkt listamenn og eru framlög þessi frádráttarbær við álagningu tekjuskatts.

Um 13. gr.


     Hér er gert ráð fyrir að ákvæði um skipan úthlutunarnefnda sérsjóðanna séu sett í reglugerð og er það í samræmi við núgildandi reglur um Launasjóð rithöfunda, sbr. 4. gr. laga um þann sjóð nr. 29 frá 20. maí 1975 og reglugerð nr. 232/1976. Gengið er út frá því að skipað verði í nefndirnar með hliðstæðum hætti og þar greinir.

Um 14. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.


     Nauðsynlegt þykir að endurskoða þessi lög eftir fimm ár frá gildistöku.