Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 383 . mál.


Sþ.

688. Skýrsla



um 42. þing Evrópuráðsins.

Frá íslensku þingmannanefndinni í Evrópuráðinu.



    Líkt og á 41. þingi Evrópuráðsins einkenndust störf þess á 42. þingi af breyttum þjóðfélagsháttum í Mið- og Austur-Evrópu.
    Þing Evrópuráðsins samþykkti sl. haust fulla aðild Ungverjalands að Evrópuráðinu. Þá samþykkti þingið einnig fulla aðild Póllands að því skilyrði uppfylltu að fram hefðu farið frjálsar almennar kosningar til þingsins þar í landi. Þegar þær hafa farið fram með lýðræðislegum hætti, að mati eftirlitsnefndar Evrópuráðsins, nægir samkvæmt ályktuninni samþykki stjórnarnefndar ráðsins og viðurkenning ráðherranefndar, þ.e. sendiherranna sem eru fastafulltrúar ríkja sinna hjá ráðinu.
    Með sameiningu Þýskalands er fyrrum Austur-Þýskaland með fulla aðild í þýsku sendinefndinni. Nú í janúar var svo full aðild Tékkóslóvakíu samþykkt.
    Nú á janúarþinginu tóku Ungverjar þátt í störfum þingsins sem fullgildir aðilar.

Sameiningu Þýskalands fagnað í Evrópuráði.


    Það var áhrifamikil stund á þingi Evrópuráðs þegar forseti þess, Anders Björck, flutti ávarp vegna sameiningar Þýskalands áður en sendinefnd Vestur-Þýskalands, svo og gestasendinefnd Austur-Þýskalands fóru heim til að taka þar þátt í sameiningarathöfninni.
    Forsvarsmenn beggja þessara sendinefnda fluttu ávörp. Reddemann, formaður sendinefndar Vestur-Þjóðverja, fagnaði komu landa sinna í austri í fjölskyldu lýðræðisins og formaður sendinefndar Austur-Þjóðverja, Heltzig, sagðist tala í síðasta sinn sem slíkur, næst yrði ein þýsk nefnd og ný Evrópa. Hann lauk máli sínu á því að segja:
    „Við kveðjum Evrópu. Við bjóðum Evrópu velkomna.“
    Á sameiningardaginn sjálfan var sérstök dagskrá í þýska sjónvarpinu þar sem m.a. nokkrir þingmenn Evrópuráðsins komu fram, þar á meðal formaður íslensku sendinefndarinnar, en hún hafði átt sæti í eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með þingkosningunum í Austur-Þýskalandi í mars 1990.

Íslenska nefndin á þingi Evrópuráðsins.


    Í samræmi við stofnskrá Evrópuráðsins eru þrír fulltrúar af hálfu Íslands á þingi þess og þrír til vara. Þeir eru: Ragnhildur Helgadóttir, formaður og einn af varaforsetum ráðsins, Guðmundur G. Þórarinsson varaformaður og Eiður Guðnason. Til vara eru: Ragnar Arnalds, Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðmundur Ágústsson. Ritari nefndarinnar er Ólafur Ólafsson varaskrifstofustjóri, en aðstoðarmaður er Þóra Guðnadóttir, umsjónarmaður skjalavörslu.
    Líkt og áður fer meginvinna ráðsins fram í nefndum og eiga Íslendingar sæti í eftirtöldum nefndum:

     Stjórnmálanefnd     Ragnhildur Helgadóttir.
     Efnahagsnefnd     Guðmundur G. Þórarinsson,
              til vara          Ragnar Arnalds.
     Laganefnd          Eiður Guðnason,
              til vara          Ragnhildur Helgadóttir.
     Mennta- og menningarmálanefnd     Ragnar Arnalds,
              til vara          Guðmundur G. Þórarinsson.
     Félags- og heilbrigðismálanefnd     Ragnhildur Helgadóttir.
     Landbúnaðarnefnd     Eiður Guðnason.
     Nefnd um samskipti við lönd utan
              Evrópuráðsins     Þórhildur Þorleifsdóttir.
     Nefnd um almannatengsl þingsins     Guðmundur Ágústsson.
     Þingskapanefnd     Ragnar Arnalds.
     Vísinda- og tækninefnd     Eiður Guðnason,
              til vara          Guðmundur G. Þórarinsson.
     Fjárlaganefnd     Ragnar Arnalds.
     Skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd     Guðmundur Ágústsson.
     Flóttamannanefnd     Guðmundur G. Þórarinsson.

    Yfirlit yfir tíðni funda í nefndum á sl. starfsári, en íslensku fulltrúarnir tóku aðeins þátt í þeim fundum sem aðstæður leyfðu.

    Stjórnmálanefnd      9 fundir      7 í undirnefndum
    Efnahagsnefnd      8           6     
    Laganefnd      9           4     
    Mennta- og menningarmálanefnd      5           8     
    Félags- og heilbrigðismálanefnd      7           6     
    Landbúnaðarnefnd      4           4     
    Nefnd um samskipti við lönd
       utan Evrópuráðsins      7           2     
    Nefnd um almannatengsl þingsins      6           4     
    Vísinda- og tækninefnd      7           2     
    Fjárlaganefnd      4           4     
    Skipulags- og sveitarstjórnanefnd      8          11     
    Flóttamannanefnd     10           6     

    Við þetta bætast fundir í stjórnarnefnd (bureau), fastanefnd (standing committee) og sameiginlegu nefndinni (þ.e. stjórnarnefnd og ráðherranefnd).

Störf 42. þings Evrópuráðsins í Strassborg.


    42. þingið var haldið í Strassborg. Það skiptist í þrjá hluta og stóð hver hluti yfir í 5 8 daga.
    Allir aðalfulltrúar og varafulltrúar sóttu fyrsta hluta þingsins, svo og ritari sendinefndarinnar, Ólafur Ólafsson varaskrifstofustjóri. Þessi þinglota stóð frá 7. 11. maí, en 4. og 5. maí hafði þingfulltrúunum verið boðið til Berlínar til kynningarfundar um málefni Austur- og Vestur-Þýskalands.
    Fundir hófust að morgni mánudagsins 7. maí. Í fyrstu voru kjörbréf rannsökuð, þar sem þess þurfti, og síðan kjörnir varaforsetar o.fl. Formaður þýsku nefndarinnar, Reddemann, flutti skýrslu stjórnarnefndar. Umræður einkenndust af væntingum vegna sameiningar þýsku ríkjanna. Síðdegis fóru fram umræður um mennta- og menningarmál og samvinnu við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Samþykkt var tillaga um hagnýta menntunaraðstoð við Austur-Evrópuríkin.
    Þriðjudaginn 8. maí hófst fundur kl. 10 árdegis að loknum nefndafundum og fundum pólitísku hópanna (þingflokka). Þar var tekin til umræðu stefna Evrópuráðsins um tengsl við Mið- og Austur-Evrópuríki. Framsögumaður var Soares Costa, fulltrúi Portúgals. Um hádegisbilið ávarpaði Janez Drnovsek, forseti Júgóslavíu, þingið og svaraði fyrirspurnum.
    Umræðum um tengslin við Mið- og Austur-Evrópuríki var síðan fram haldið síðdegis. Margir tóku til máls og þar á meðal Guðmundur G. Þórarinsson. Lét hann m.a. í ljós furðu sína á að málefni baltnesku landanna voru ekki rædd við þessa umræðu. Í lok umræðunnar var samþykkt ályktun (þskj. 6216 og 6220) þar sem m.a. var hvatt til samkomulags um endurreisn sjálfstæðis Eystrasaltsríkja í anda lokasamþykktar Helsinki-ráðstefnunnar.
    Miðvikudaginn 9. maí hófst fundur að venju kl. 10 fyrir hádegi en nefndafundir hófust kl. 8 árdegis. Til umræðu voru málefni flóttamanna. Að loknum umræðum var samþykkt ályktun, þar sem varað var við hræðslu við útlendinga og þjóðernisfordómum.
    Um hádegi ávarpaði Mauno Koivisto, forseti Finnlands, þingið og svaraði fyrirspurnum. Síðan fór fram umræða um málefni Austur-Þýskalands.
    Síðdegis flutti utanríkisráðherra Portúgals skýrslu ráðherranefndarinnar. Þá var fram haldið umræðum um málefni Evrópuríkja sem standa utan Evrópuráðsins með tilliti til málefna Austur-Þýskalands og samþykkt var ályktun þar sem lýst var stuðningi við sjónarmið fjórveldanna í Þýskalandsmálum. Enn fremur var ákveðið að halda sérstakan umræðufund um RÖSE á haustþingi.
    Fimmtudaginn 10. maí hófst fundur þingsins kl. 10 árdegis að loknum nefnda- og „þingflokkafundum“. Umræðuefni var mengun Norðursjávar og Eystrasalts og fór umræðan fram samkvæmt reglu sem eins konar utandagskrárumræða án ályktunar. Ragnhildur Helgadóttir tók til máls og lét m.a. í ljós áhyggjur vegna mengunar sem kynni að berast til nyrsta hluta Atlantshafsins frá þessum hafsvæðum og á hvern hátt mætti koma í veg fyrir slíkt. Um hádegisbil ávarpaði Havel, forseti Tékkóslóvakíu, þingið og svaraði síðan fyrirspurnum. Síðdegis fór fram umræða um tengsl Evrópu við Bandaríki Norður-Ameríku og Kanada. Í lok umræðu fór fram atkvæðagreiðsla og samþykkt nauðsyn þess að styrkja þessi tengsl, einkanlega á grundvelli RÖSE.
    Föstudaginn 11. maí hófust fundir kl. 10 að loknum nefndafundum. Samþykkt var ályktun um fjármögnun æðri menntunar og rannsókna.
    Sumarþing Evrópuráðsins (framhald 1. hluta þingsins) fór fram í Innsbruck í Austurríki dagana 29. júní til 3. júlí. Þingnefndafundi sóttu allir aðalfulltrúar íslensku sendinefndarinnar, þ.e. Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Eiður Guðnason, svo og Ragnar Arnalds. Ragnar Arnalds var framsögumaður menntamálanefndar um þýðingamál og samþykkti menntamálanefndin drög hans að ályktun.

Störf þings Evrópuráðsins, 2. hluti.


(26. september til 4. október 1990.)


    Annar hluti 42. þings Evrópuráðsins fór fram í Strassborg dagana 26. september til 4. október. Af hálfu Íslands sóttu þingið Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds og Þórhildur Þorleifsdóttir auk ritara, Ólafs Ólafssonar.
    Fundir hófust 26. september kl. 11.30 að loknum fundi stjórnmálahópa. Soares Costa flutti skýslu um uppbyggingu stjórnmálasamstarfs í Evrópu og Sir Geoffrey Finsberg flutti skýrslu um öryggi og samstarf í Evrópu, framtíð CSCE-ferilsins. Þeirri umræðu var fram haldið daginn eftir, 27. september, en um þessa umræðu hefur íslenska sendinefndin lagt fram skýrslu á yfirstandandi þingi, á þskj. 135. Að henni lokinni ávarpaði forseti spænsku ríkisstjórnarinnar þingið og svaraði fyrirspurnum. Svaraði hann m.a. fyrirspurn Guðmundar G. Þórarinssonar um fríverslun með fisk innan Evrópubandalagsins og tengingu fríverslunar við aðgang að auðlindum.
    Fundir hófust að nýju kl. 9.30 28. september að afloknum fundum stjórnmálahópa. Fram var haldið umræðu um öryggi og samstarf í Evrópu og tók Guðmundur G. Þórarinsson þátt í umræðunum.
    Forsætisráðherra Möltu, Edward Fenech-Adami, ávarpaði þingið. Utanríkisráðherra San Marínó, Gabriele Gatti, lagði fram skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins flutti skýrslu. Sir Geoffrey Finsberg flutti skýrslu Bureau of Standing Committee. Umræður um umhverfismál urðu miklar þennan dag.
    Verndun Norðursjávar og nálægra hafsvæða var tekin til umræðu 29. september, en í upphafi fundar bauð forseti, sem í þessu tilviki var Ragnhildur Helgadóttir, forsætisnefnd Norðurlandaráðs velkomna í heimsókn til Evrópuráðsins en þar voru þeir Páll Pétursson og Ólafur G. Einarsson. Eiður Guðnason tók þátt í umræðunni en að henni lokinni var samþykkt ályktun á þskj. 6282. Síðdegis var rætt um ferðamannaár Evrópu og ályktun á þskj. 6230 samþykkt að loknum umræðum.
    Mánudaginn 1. október hófust fundir kl. 10 árdegis. Meginumræðuefni dagsins var ástand mála við Persaflóa. Fundi var fram haldið kl. 15.
    Í upphafi minntist forseti sameiningar Þýskalands sem átti sér stað sama dag. Flutti hann þýsku þjóðinni árnaðaróskir. Umræður urðu um ástandið í Rúmeníu og réttindi minnihlutahópa.
    Þriðjudaginn 2. október hófust þingfundir kl. 10 árdegis að loknum nefndafundum. Aðild Ungverjalands að Evrópuráðinu var samþykkt. Forsætisráðherra Ungverjalands, József Antall, flutti ávarp og svaraði síðan fyrirspurnum. Síðdegis var umræðum fram haldið og tekin til umræðu þýðingamál en þar var Ragnar Arnalds framsögumaður. Nokkrar umræður urðu en tillagan var síðan samþykkt, þskj. 6277.
    Rætt var um aðild Póllands og hún samþykkt með þeim skilyrðum að fyrst færu fram lýðræðislegar fjölflokkakosningar.
    Þann 3. október fóru fram umræður um starfsemi OECD efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu, og einkavæðingu.
    Þingfundir hófust kl. 10 árdegis 4. október að loknum fundi forsætisnefndar og annarra nefnda. Samþykkt var tillaga um stefnu í áfengismálum. Eftir það fóru fram umræður um eiturlyfjaneyslu og ólöglega sölu eiturlyfja, en afgreiðslu var frestað. Síðan þessum þinghluta slitið.

Störf þings Evrópuráðsins í Strassborg, 3. hluti.


(28. janúar til 1. febrúar 1991.)


    Að loknum hefðbundnum störfum í upphafi fundar mánudaginn 28. janúar hófust umræður um almenna stefnu Evrópuráðsins, nýja Evrópu (RÖSE, EB og Evrópuráðið) og Persaflóastríð.
    Fyrir lágu tvær ályktunartillögur, annars vegar um hlutverk Evrópuráðs í álfu þar sem leitast er við að skapa aukna einingu og hins vegar um ástandið fyrir botni Persaflóa og í Miðausturlöndum.
    Í fyrrnefndu tillögunni er sérstaklega fagnað yfirlýsingu leiðtogafundarins í París í nóvember 1990 sem talinn er marka upphaf nýrra tíma lýðræðis, friðar og einingar í álfunni. Fagnað er sameiningu Þýskalands og undirritun samkomulags um hefðbundið herlið (CFE) í Evrópu. Lögð er áhersla á að ekki verði settar á fót nýjar pólitískar stofnanir þegar fyrir hendi eru stofnanir sem sinnt geta þeim hlutverkum sem nýir tímar hafa skapað. Ráðherranefndin er hvött til þess í samvinnu við þing Evrópuráðsins að tryggja að Evrópuráðið geti til hlítar gegnt skyldum sínum í þeirri nýskipan mála sem nú er að skapast í stjórnmálasamvinnu í Evrópu.
    Framsögumaður þessarar tillögu, Soares Costa frá Portúgal, flutti í umræðunum viðbótartillögu þar sem vikið er að stöðu mála í Eystrasaltslýðveldunum, en nýlegir hörmungaratburðir þar voru vissulega ofarlega í hugum þingfulltrúa. Tillaga hans var svohljóðandi:
    „[Þingmannafundurinn] telur að núverandi staða mannréttindamála í sovésku Eystrasaltslýðveldunum feli í sér alvarleg mannréttindabrot gagnvart RÖSE-samkomulaginu og sé alvarlegt íhugunarefni í tengslum við undirbúning þriðju ráðstefnunnar um mannlega þáttinn (human dimension) sem halda á í Moskvu í september 1991.“
    Eiður Guðnason flutti breytingartillögu við þessa tillögu um að bætt væri við orðunum: „Enn fremur ber að líta á þetta sem gróft brot á sjöundu meginreglu Helsinki-samkomulagsins og Kaupmannahafnaryfirlýsingunni um mannlega þáttinn.“
    Báðar tillögurnar voru samþykktar.
    Í ályktuninni um Persaflóastríð og ástandið í Miðausturlöndum er vísað til samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega ályktunarinnar frá 29. nóvember (nr. 278). Því er fagnað að þess sjáist nú merki að Bandaríkin í fyrsta skipti sýni stuðning við að haldin verði alþjóðleg ráðstefna um frið og öryggi í Miðausturlöndum, en Sameinuðu þjóðirnar og Evrópustofnanir ýmsar, ekki síst Evrópuráðið, hafa lengi hvatt til þess að boðað yrði til slíkrar ráðstefnu.
    Miklar umræður urðu um þessi mál. Guðmundur G. Þórarinsson og Eiður Guðnason tóku þátt í umræðunum og fjölluðu báðir um Persaflóastríðið, svo og ástandið í Eystrasaltslöndunum.
    Utanríkisráðherra Spánar, Fransisco Fernandez Ordónez, flutti þinginu skýrslu ráðherranefndarinnar og svaraði spurningum þingmanna.

Eystrasaltslýðveldin.


    Dagskrárnefnd þingsins hafði ákveðið að staða mála í Eystrasaltslýðveldunum yrði rædd undir þeim lið þingskapa sem heitir umræður um mál ofarlega á baugi (current affairs debate) og er þá ekki heimilt að álykta. Tilraunir, m.a. af hálfu fulltrúa Íslands, til að fá þessu breytt þannig að umræðan færi fram undir öðrum lið (urgent procedure) og lyki með ályktun báru ekki árangur.
    Umræðunni var ætluð ein og hálf klukkustund og ræðutími var takmarkaður við fimm mínútur. 56 þingmenn voru á mælendaskrá en aðeins 16 komust að. Ragnhildur Helgadóttir flutti þar ræðu fyrir Íslands hönd og ræddi m.a. sérstaklega þá áleitnu spurningu hvort Sovétríkin hefðu ekki með valdbeitingu í Eystrasaltsríkjunum fyrirgert rétti sínum til gestaaðildar að Evrópuráðinu, en ákvæðin um gestaaðild gera það að skilyrði að viðkomandi ríki virði gerða mannréttindasáttmála í hvívetna. Þeir þingmenn sem ekki komust í ræðustól vegna tímamarka gátu lagt fram skrifaðar ræður. Það gerði einn íslensku fulltrúanna, Eiður Guðnason.
    Ekki verða umræður raktar hér en afstaða manna til aðgerða Sovétríkjanna var mjög á eina lund, almenn fordæming, þótt vissulega væri misfast að orði kveðið.
    Þar sem ljóst var að ekki var unnt að fá gerða ályktun um málið lagði Eiður Guðnason fram skriflega yfirlýsingu um ástandið í Eystrasaltslýðveldunum. Slíkt er leyfilegt samkvæmt þingsköpum og verður slík yfirlýsing þá þingskjal sem dreift er til allra þingmanna. Til þess að skrifleg yfirlýsing verði þingskjal þarf undirskriftir þingmanna af þrennu þjóðerni.
    Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Skrifleg yfirlýsing Evrópuráðsins nr. 203


um Eystrasaltslýðveldin.


    Við, undirritaðir þingmenn á þingmannafundi Evrópuráðsins,
    1. lýsum eindregnum stuðningi við þá ákvörðun þingmannafundar Evrópuráðsins að senda könnunarnefnd til Eystrasaltslýðveldanna;
    2. minnumst með hryggð í huga hörmulegra atburða og dauða saklausra borgara í Eystrasaltslýðveldunum á nýliðnum vikum;
    3. styðjum þjóðir Eystrasaltslýðveldanna heils hugar í baráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði;
    4. hvetjum leiðtoga Sovétríkjanna til að fækka í herliðinu í Eystrasaltslýðveldunum og hefja þegar í stað í fullri alvöru samningaviðræður við lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Eystrasaltslýðveldunum í anda „perestrojku“ til þess að draga úr spennu og efla lýðræði;
    5. hvetjum öll aðildarríki Evrópuráðsins til að senda þingmannasendinefndir til höfuðborga Eystrasaltslýðveldanna til þess að sýna samstöðu í baráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði.
    Undirritað: Guðnason (Ísland), Björklund (Finnland), Helgadóttir (Ísland), Tarschys (Svíþjóð), Håvik (Svíþjóð), Þórarinsson, (Ísland), Atkinson (Bretland), Fenner (Bretland), Bjerregaard (Danmörk), Anttila (Finnland), Svensson (Svíþjóð), Elo (Finnland), Haglund (Svíþjóð), Espersen (Danmörk), Severinsen (Danmörk), Gustafsson (Svíþjóð), Newall (Bretland), Hardy (Bretland).
    Skylt er að geta þess að nöfn norskra þingmanna eru ekki á yfirlýsingunni þar sem þeir voru ekki á fundinum vegna útfarar Ólafs Noregskonungs.
    Meðal þeirra tillagna sem fjallað var um á fundunum og samþykktar voru skulu hér nokkrar nefndar:

Aðild Tékkóslóvakíu að Evrópuráðinu.
    Umsókn Tékkóslóvakíu um aðild að Evrópuráðinu hefur verið til umfjöllunar um skeið og var samþykkt 30. janúar. Laganefnd Evrópuráðsins hélt tveggja daga fund í Prag í annarri viku janúar þar sem ítarlega var fjallað um ýmsar hliðar mannréttindamála í Tékkóslóvakíu og þróun þeirra að undanförnu.
    Tæpri viku eftir fall Berlínarmúrsins hófust viðamiklar breytingar í frelsisátt í Tékkóslóvakíu sem fóru fram með svo friðsömum hætti að þær hafa verið kallaðar „flauelsbyltingin“. Frjálsar þingkosningar fóru fram í lok júní 1990 og Václav Havel var kjörinn forseti sambandsríkisins.
    Tillagan um aðild Tékkóslóvakíu að Evrópuráðinu var samþykkt samhljóða. Tékkóslóvakía fær átta fulltrúa í Evrópuráðinu. Utanríkisráðherra Tékkóslóvakíu Jirí Dienstbier flutti þinginu ávarp við þetta tækifæri og Alexander Dubsjek sendi þingfulltrúum ávarpsorð bréflega.

Efnahagslegar umbætur og tækniaðstoð.
    Tvær tillögur, sem annars vegar fjalla um efnahagslegar umbætur í Mið- og Austur-Evrópu og hins vegar um tækniaðstoð við löndin í Mið- og Austur-Evrópu, voru ræddar og samþykktar síðdegis þriðjudaginn 29. janúar. Við það tækifæri fluttu Leszek Balcerowicz, varaforsætisráðherra og fjármálaráðherra Póllands, og Petre Roman, forsætisráðherra Búlgaríu, ávörp og svöruðu spurningum þingmanna.
    Í tillögunni um efnahagslegar umbætur er lögð áhersla á að markaðshagkerfi verði ekki komið á í þessum löndum, nema söðlað sé algjörlega um og leifar hins miðstýrða kommúnístíska hagkerfis upprættar. Tryggja verði eignarrétt einstaklinga, gæta þess að verðmyndunarkerfi vöru og þjónustu endurspegli markaðsástand og að raunveruleg samkeppni ríki milli framleiðenda. Spyrna verði fast við verðbólguþróun og koma á fót starfhæfu bankakerfi þar með töldum seðlabönkum. Brýnt sé að endurskoða mennta- og verkmenntakerfi og hafa samstarf við iðnvæddu ríkin um aðlögun að markaðskerfi heimsins.
    Aðildarríki Evrópuráðsins eru hvött til að kanna með jákvæðum huga leiðir til að draga úr skuldabyrði landa á þessu svæði og auka við þau fjárhagsaðstoð. Sérstaklega er tekið fram að jafnframt þessu skuli Evrópuráðslöndin halda áfram aðstoð við þróunarlönd og styrkja norður-suður tengslin enn frekar.
    Í tillögunni um tækniaðstoð kemur fram að á leið sinni til hagsældar og framfara þurfa Austur-Evrópulöndin á verulegri tækniaðstoð að halda því að framleiðsluaðferðir og framleiðslutæki séu víðast úrelt. Þótt nokkuð hafi þegar verið slakað á reglum um tækniaðstoð við þessi lönd þurfi þar enn frekari slökun til að koma, einkum að því er varðar svonefndar COCOM-reglur.
    Lagt er til að iðnvæddu ríkin taki höndum saman og aflétti smám saman ýmsum útflutningshömlum sem verið hafa í gildi gagnvart Austur-Evrópulöndunum, einkum þeirra sem nú sigla hraðbyri í átt til fjölflokkalýðræðis og markaðskerfis.

Breytingar í umhverfismálum og hlutverk vísinda og lýðræðis.
    Þessi tillaga kom fram í framhaldi af 7. þingmanna- og vísindaráðstefnunni sem haldin var í Ottawa í Kanada í júní 1990. Ráðstefnan var ekki sótt af Íslands hálfu. Þar var fjallað um þau vandamál sem byrjað var að ræða fyrir um tveimur áratugum og nú ógna jörðinni. Þar kom helst við sögu:
     Þynning ósonlagsins.
     Loftslagsbreytingar vegna hækkandi meðalhita.
     Eyðing regnskóga.
     Útbreiðsla eyðimarka.
     Aukin útbreiðsla efnamengunar í jarðvegi, sjó og vötnum.
     Aukin fábreytni lífkerfisins sem m.a. má rekja til ofangreindra orsaka.
    Í tillögunni er fjölmörgum tilmælum beint til aðildarríkjanna á sviði vísinda og tæknimála, efnahagsmála og að því er varðar alþjóðlega samvinnu og pólitískar stofnanir. Lagt er til að ráðherranefndin íhugi gaumgæfilega að ákvæði um réttinn til heilbrigðs umhverfis verði felld inn í Mannréttindasáttmála Evrópu. Því er beint til ráðherranna að þeir beiti sér fyrir undirritun alþjóðasáttmála um loftslagsbreytingar á ráðstefnunni um umhverfi og þróun, sem haldin verður í Brasilíu 1992, og að starfsáætlun Evrópuráðsins verði endurskoðuð með það að markmiði að leggja aukinn skerf af mörkum á þessu sviði með hagnýtum tillögum, m.a. á sviði skipulagsmála og að því er varðar ábyrgð sveitarstjórna.

Staðbundið útvarp.
    Í tillögu um staðbundið útvarp, sem samþykkt var fimmtudaginn 31. janúar, kemur m.a. fram að staðbundið útvarp geti verið mikilvæg stoð á sviði menningarframfara og frjálsrar skoðanamyndunar auk þess að vera tjáningar- og upplýsingamiðill. Samt sé það svo að sum lönd leyfi ekki staðbundið útvarp og annars staðar sé staðbundið útvarp starfrækt án þess að um það gildi nokkrar reglur.
    Lagt er til að ríkisstjórnir leyfi starfrækslu staðbundins útvarps og setji meginreglur um gæði, fjölbreytni, sjálfstæði og fagmennsku. Samráð skuli haft á landamærasvæðum til að koma í veg fyrir óhefta samkeppni. Lagt er til að ríkisstjórnir komi sérstökum stofnunum á fót til að tryggja að slíkum reglum sé fylgt.

Vímuefnanotkun og ólögleg verslun með vímuefni. Á að lögleyfa vímuefni?
    Varpað er fram þeirri spurningu hvort svarið við vaxandi vímuefnavanda, ólöglegum viðskiptum með vímuefni og fjölgun glæpa eigi að hluta til að vera að lögleyfa þessi efni.
    Svarið við spurningunni, sem fram kemur í tillögunni, er afdráttarlaust nei. Röksemdafærslan að baki hugsuninni um lögleyfingu sé sprottin úr jarðvegi örvæntingarinnar og svarti markaðurinn sé til vegna þess að eftirspurnin sé til staðar hún muni áfram verða til staðar hvað sem löggjöf líði. Leiðin til lausnar sé að draga úr eftirspurninni.
    Í tillögunni er lögð áhersla á að leiðin til lausnar liggi einnig í aukinni fræðslu og áherslu á gildi heilbrigðra lífshátta. Ráðherranefndin er m.a. hvött til að leggja þegar í stað fram ítarleg mótrök gegn óskum um að lögleyfa vímuefni, auka aðgerðir aðildarríkjanna á alþjóðavettvangi til að vinna gegn framleiðslu hvers kyns ólöglegra vímuefna, gera upptækan hagnað þeirra sem slík viðskipti stunda og auka og bæta meðferðarúrræði vímuefnaneytenda. Þá er hvatt til þess að Sameinuðu þjóðirnar taki í auknum mæli þátt í viðleitninni til að uppræta framleiðslu vímuefna og alþjóðalega verslun með vímuefni.

Tengsl kvikfjárræktar og umhverfisgæða.
    Mykjumengun er vandamál á vissum svæðum í Evrópu þar sem landrými er knappt og kvikfjárrækt stunduð í stórum stíl. Mykja getur valdið loft- jarðvegs- og vatnsmengun og gerir vatn sums staðar óhæft til drykkjar.
    Í tillögunni er bent á eftirfarandi leiðir til lausnar þessum vanda:
     Breyta fóðrun þannig að magn og steinefnainnihald mykjunnar minnki. Hluti þurrefnis í fóðrinu verði aukinn.
     Þróaðar verði aðferðir til breyta umframmykju í auðflytjanlegan áburð.
     Beita ítölu þar sem landrými er af skornum skammti.

Gæðamerking matvöru.
    Áhugi neytenda á tengslum mataræðis og góðrar heilsu fer ört vaxandi. Eftirspurn fer vaxandi eftir gæðavöru frá ákveðnum svæðum. Neytendur gera í auknum mæli kröfur um upplýsingar og leiðsögn varðandi val á hollum neysluvörum.
    Í tillögunni er hvatt til þess að ráðherranefndin kanni í náinni samvinnu við Evrópubandalagið möguleika á að koma á fót samræmdu gæðamerkingarkerfi á matvöru í Evrópu í samvinnu við framleiðendur, dreifingaraðila, neytendur og sveitarstjórnir.

Annað.
    Á fundinum fór fram kjör nýs dómara í Mannréttindadómstól Evrópu. Kjörinn var Bigi frá San Marino.
    Í landbúnaðarnefnd Evrópuráðsins er til meðferðar tillaga um framtíð fiskveiða þar sem m.a. er fjallað um framtíð fiskveiða og nýtingu auðlinda sjávar. Grannt er fylgst með framgangi þess máls af hálfu Íslands. Í september sl. hélt nefndin opinn fund með fjölmörgum vísindamönnum á sviði hafrannsókna og fiskveiða í Aberdeen í Skotlandi. Þar flutti dr. Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, erindi og tók þátt í pallborðsumræðum.
    Í laganefnd ráðsins sem fjallar einnig um jafnréttis- og mannréttindamál er í undirbúningi tillaga og skýrslugerð um jafna þátttöku karla og kvenna í stjórnmálum og opinberum lífi. Þess hefur verið farið á leit við íslenska fulltrúann í nefndinni að hann verði framsögumaður og skýrsluhöfundur í því máli.

Ráðstefnur sem íslensku þingmennirnir sóttu.


    Auk vinnu á þinginu sjálfu og í nefndum er í verkahring þingmanna að taka þátt í ýmsum Evrópuráðstefnum um afmörkuð efni. Standa jafnan að þessum ráðstefnum sérfræðingar, embættismenn og þingmenn sameiginlega. Þingmennirnir eru yfirleitt sérstaklega kosnir til þessara verkefna af þeim nefndum sem þeir starfa í.

Ráðstefna um landbúnað í Evrópu


haldin í Igls í Austurríki 2. 4. maí 1990.


    Ráðstefnan var haldin á vegum þings Evrópuráðsins, búnaðarsambands Evrópu og austurríska landbúnaðarráðuneytisins og er sú fyrsta sinnar tegundar. Í tengslum við ráðstefnuna var haldinn óformlegur fundur landbúnaðarráðherra Evrópuráðsríkja. Ráðstefnuna sátu þingmenn og ráðherrar, en einnig voru þar fulltrúar bændasamtaka, svo og vísinda - og fræðimenn. Fulltrúar frá Sovétríkjunum, Póllandi, Júgóslavíu og Austur - Þýskalandi voru einnig mættir. Meðal fyrirlesara var landbúnaðarráðherra Póllands.
    Landbúnaðarnefnd Evrópuráðsins, sem Eiður Guðnason á sæti í, hélt fund í tengslum við ráðstefnuna. Auk þess sat annar íslenskur fulltrúi hluta ráðstefnunnar, Guðbjörn Árnason, sem er í þann veginn að ljúka doktorsprófi í landbúnaðarhagfræði í Stuttgart. Hann var þar sem fulltrúi Stéttarsambands bænda.
    Landbúnaðarmál eru nú meira rædd á alþjóðavettvangi en nokkru sinni fyrr. Á ráðstefnunni, sem var í senn fróðleg og gagnleg, var fjallað um hlutverk landbúnaðar í nýrri (stærri) Evrópu framtíðarinnar og þann vanda sem blasir við í landbúnaðarmálum í hinum nýju lýðræðisríkjum álfunnar. Ekki síður var þó fjallað um afstöðuna til þess sem nú er að gerast á vettvangi GATT (Úrúgvæ - viðræðurnar) þar sem landbúnaðarmál eru nú í brennidepli. Ekki skal í þessari stuttu frásögn farið út í smáatriði heldur reynt að draga fram nokkur meginatriði.
    GATT - viðræðurnar, sem nú standa yfir, beinast einkum að því að auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, afnema hömlur og hindranir, svo sem útflutningsbætur og ýmiss konar styrki og jafna framboð og eftirspurn neytendum og bændum til hagsbóta. Ljóst er að ef samkomulag næst mun þetta gerast á alllöngum tíma. Svíar kynntu fimm ára áætlun í þessum málum 23. apríl sl. Þeir munu leggja af útflutningsbætur í áföngum en gera jafnframt ýmsar ráðstafanir til að viðhalda byggð og landbúnaði á harðbýlum svæðum, t.d. í Norður - Svíþjóð.
    Fram kom að bændasamtök hafa nokkrar áhyggjur af því sem gerast kann á vettvangi GATT takist þar allsherjarsamkomulag, en eins og formaður landbúnaðarsambands Evrópu sagði: „Bændur verða að horfast í augu við frjálsari viðskipti með landbúnaðarvörur í heiminum.“
    Breytingarnar í Austur - Evrópu, GATT - viðræðurnar og nauðsyn þess að ástunda landvernd og draga úr mengun voru rauði þráðurinn í ræðum á ráðstefnunni. Hvatt var til þess að í GATT - viðræðunum hefðu menn í huga að hlutverk landbúnaðar er langtum fjölþættara og mikilvægara en það eitt að framleiða mat eða leggja til hráefni til annarrar framleiðslu. Landbúnaður á að geta falið í sér landvernd, hann varðar og öryggismál (að eiga birgðir matvæla) og ekki má gleyma félagslega og menningarlega þættinum.
    Í stærstu matvælaframleiðslulöndunum er landbúnaður víða stóriðja. Í Bandaríkjunum eru t.d. tvær milljónir bænda og meðalstærð jarða er 187 hektarar. Í Evrópu er landbúnaður yfirleitt fjölskyldurekstur. Þar eru bændur 11 milljónir og meðalstærð jarða 13 hektarar. Til samanburðar er meðalstærð jarða í Japan 1,5 2 hektarar.
    Meginniðurstöður ráðstefnunnar eru í örfáum orðum þessar:
    Í GATT - viðræðunum, sem snúast um frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir, mega menn ekki einblína á viðskiptahliðina heldur líka horfa á hina félagslegu og menningarlegu eða mannlegu þætti sem eru ekki síður mikilvægir og alls ekki horfa fram hjá því að landbúnaður og bændur geta og munu gegna mikilvægum hlutverkum að því er varðar landvernd og náttúruvernd í framtíðinni.

Efnahagslegar umbætur í Mið - og Austur - Evrópu,


verðugt verkefni fyrir öll Evrópulönd.


    Ráðstefnan er sú fyrsta sem Evrópuráðið gengst fyrir til að fjalla um þann vanda, sem nú blasir við nýju lýðræðisríkjunum, er þau hverfa frá hagkerfi kommúnismans til markaðsbúskapar. Ráðstefnan er einnig sú fyrsta á vegum Evrópuráðsins sem fram fer í fyrrverandi kommúnistaríki. Við þetta bætist að hún er haldin á sögulegum tíma:
     Þegar Evrópubandalagið stefnir að stofnun innri markaðar í janúar 1993.
     Þegar formlegir samningar EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði eru á næsta leiti.
     Þegar sameining Þýskalands er að verða að veruleika.
     Þegar fyrir hendi er mikill vilji til að styrkja starfið sem fram fer á ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu (CSCE).
    Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Efnahagsnefndar Evrópuráðsins, en að auki sóttu hana fulltrúar ýmissa annarra nefnda, fulltrúar þjóðþinga aðildarríkjanna, fulltrúar alþjóðastofnana og sérfræðingar. Ráðstefnan fór fram í þinghúsinu í Búdapest.
    Meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna eða fluttu þar erindi voru Jószef Antall, forsætisráðherra Ungverjalands, György Szabad, forseti ungverska þingsins, M. Swiecicki, efnahagssamvinnuráðherra Póllands, T. Necker, forseti samtaka iðnrekenda í Vestur-Þýskalandi, G. Bounitch, varaformaður efnahagsumbótanefndar æðsta ráðsins í Sovétríkjunum, P. Defraigne, yfirmaður utanríkisdeildar EB, H. Maier, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Camdessus, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og S. Zecchini, aðstoðarforstjóri OECD.
    Ráðstefnan var haldin í framhaldi af samþykkt Evrópuráðsins frá 26. júní 1989 þar sem aðildarríkin voru hvött til „að leita leiða til að miðla efnahagslegri reynslu sinni og auka samvinnu við umbótaríkin í Austur - Evrópu til að aðstoða við umbætur á efnahagskerfi þessara þjóða og eflingu lýðræðis“.
    Það verk, sem nú blasir við í þessum löndum, hefur ekki verið unnið áður, þ.e. að stökkva frá miðstýrðu hagkerfi kommúnismans yfir í markaðsbúskap. Því hafa menn enga reynslu eða fordæmi til að styðjast við. Það kom afar skýrt fram að lýðræði er forsenda markaðsbúskapar og að þar eru órjúfanleg tengsl á milli. Markaðsbúskapur er óhugsandi án fjölflokkakerfis og lýðræðis.
    Hér verður ekki farið út í þá sálma að rekja efnislega úr umræðum á ráðstefnunni, en ljóst er að hagfræðinga greinir á, bæði um aðferðir og aðgerðaröð. „Það er ekki hægt að stökkva yfir gjá í tveimur skrefum“ segja Pólverjar sem gripið hafa til mjög harkalegra efnahagsaðgerða sem haft hafa miklar verðhækkanir og atvinnuleysi í för með sér, en virðast ætla að skila árangri. Menn greindi á um það hvort fara ætti hægt eða hratt í sakirnar og mikil áhersla var lögð á hið félagslega öryggisnet, svo sem atvinnuleysisbætur og fleiri aðgerðir af félagslegum toga handa þeim sem harðast verða úti.
    Ýmsir héldu því fram að atvinnuleysi og gjaldþrot fyrirtækja væru óhjákvæmilegir fylgifiskar þessara breytinga.
    Í lok ráðstefnunnar var gerð samþykkt þar sem segir:
    „Ráðstefnan hvetur ríkisstjórnir og þjóðþing allra þeirra landa sem í hlut eiga til að nýta vettvang Evrópuráðsins til hins ýtrasta, þar sem þátttökuríkjunum hefur fjölgað og samstarfskerfið er sveigjanlegt og skapa þannig eðlileg skilyrði fyrir framtíðarsamtök sem ná til allra Evrópuríkja.“
    Þessi ráðstefna er enn ein staðfesting hins nýja mikilvægis sem Evrópuráðið nú hefur öðlast sem samstarfsvettvangur allra Evrópuþjóða.
    Formlega eru aðildarríkin 23, en sex ríki hafa auka - eða gestaaðild og njóta allra réttinda nema atkvæðisréttar. Þessi ríki eru: Pólland, Sovétríkin, Júgóslavía, Ungverjaland, Austur - Þýskaland og Tékkóslóvakía. Hin tvö síðastnefndu bættust í hópinn í þessum mánuði. Nær öll hafa þessi ríki lýst því yfir að þau stefni að fullri aðild.
    Það var afar fróðlegt að eiga þess kost að sækja þessa ráðstefnu og komast þannig í návígi við þær grundvallarbreytingar sem eru að verða í Evrópu og óhjákvæmilega munu snerta okkur með ýmsum hætti.

Sjöunda alþjóðlega ráðstefnan um Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins.


(30. maí til 2. júní 1990.)


    Mannréttindamál eru veigamikill þáttur í starfsemi Evrópuráðsins. Sérstök deild í skrifstofu þess fjallar um þetta svið, þar á meðal hugsanlegar breytingar á Mannréttindasáttmála Evrópu og fræðslu og fræðaiðkanir á því sviði. Mannréttindadómstóll Evrópu og mannréttindanefnd Evrópu halda áfram að sinna málum sem til þeirra er skotið. Er nú svo komið að þessar tvær stofnanir fá til muna fleiri erindi en þær geta með góðu móti sinnt. Hjá þeim er að vísu allfjölmennt starfslið en nefndarmenn og dómarar eru aðeins í hlutastarfi í Strassborg. Nýlega var reglum um mannréttindanefndina breytt og starfar hún nú í deildum. Flýtir þetta meðferð mála um sinn en lítil von er að svo verði til langframa.
    Ráðstefnur um mikilvæga þætti mannréttindamála hafa verið á starfsáætlunum Evrópuráðsins alllengi. Dagana 30. maí til 2. júní efndi ráðið til slíkrar ráðstefnu í samvinnu við mannréttindastofnanir á Norðurlöndum. Hafa slíkar stofnanir verið settar á fót á síðustu árum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þessi ráðstefna var hin sjöunda í röðinni og sérstök að því leyti að fundirnir voru í þremur löndum.
    Danadrottning setti ráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Var henni síðan fram haldið í Ósló og loks í Lundi. Aðalumræðuefnin voru tvö: mannréttindi fólks, sem svipt hefur verið frelsi, og jafnrétti og jafnræðisvernd. Framsöguerindi voru flutt af sérfræðingum úr hópi lögfræðinga, lækna og heimspekinga.
    Meðal atriða, sem um var fjallað og varða fyrra umræðuefnið, voru réttindi minnihlutahópa. Aðalframsögumaður um það efni var íslenskur, dr. Guðmundur Alfreðsson, starfsmaður á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf.
    Þá var rætt um jafnræðisvernd eyðnisjúklinga, félagslegt jafnrétti, fátækt og jafnrétti og stöðu utangarðsmanna. Frelsissvipting og mannréttindi hafa verið mikið til umfjöllunar á síðari árum, þar á meðal staða fanga og sjúklinga. Um bæði aðalefnin, sem komu til umræðu, var skýrt frá alþjóðlegum viðhorfum, þar á meðal því sem gert er á þessum sviðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Jón Helgason, forseti efri deildar Alþingis, og Ragnhildur Helgadóttir, formaður sendinefndar Íslands á þingi Evrópuráðsins, sóttu ráðstefnu þessa. Margir töldu það auka á mikilvægi ráðstefnunnar að hún var haldin rétt áður en RÖSE-ráðstefnan um „hinn mannlega þátt“ var haldin í Kaupmannahöfn (skjöl ráðstefnunnar og erindi eru fáanleg í skjalasafni Evrópuráðsins í Alþingi).

Evrópuráðstefna um heilbrigðisfræðslu.


(20. 22. september 1990.)


    Ráðstefnan var haldin í Strassborg í samvinnu Evrópuráðsins, Evrópubandalagsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Gerð var grein fyrir og reynt að meta árangur heilbrigðisfræðslu og aðferða í ellefu staðbundnum tilraunaverkefnum í Evrópu sem nutu stuðnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Tilgangurinn með verkefnunum, sem staðið hafa í fimm ár, var fyrst og fremst að byggja ungt fólk upp til að verjast fíkn og fíkniefnum.
    Flestir verkefnastjórarnir komust að þeirri niðurstöðu að fræðsla og hvatning til almennra heilbrigðra lífshátta væru mun áhrifaríkari í baráttunni gegn fíkniefnum en fræðsla um áhrif og skaðsemi fíkniefna einvörðungu. Einnig komust flestir að þeirri niðurstöðu að fræðsla gegn fíkniefnum ætti ekki að vera skólafræðsla í venjulegum skilningi heldur bæri að ná samstarfi skólans og þess samfélags sem væri umhverfi hans. Íslenski fulltrúinn í félags- og heilbrigðisnefnd þingsins sótti ráðstefnu þessa.

Ráðherrafundur um mannafla í heilbrigðisþjónustu.


(18. 19. október 1990.)


    Fjórða ráðstefna heilbrigðisráðherra ríkja Evrópuráðsins var haldin í Nikósíu á Kípur dagana 18. og 19. október sl.
    Á opnunarfundinum töluðu þau Adinolfi, varaframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Jo Asvall, forstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og Ragnhildur Helgadóttir, varaforseti þings Evrópuráðsins.
    Á framhaldsfundunum voru fluttar skýrslur ráðherra allra þátttökuríkjanna. Í öllum skýrslunum, nema þeirri pólsku, kom fram að skortur á hjúkrunarfólki væri geigvænlegur, einkum við hjúkrun aldraðra og langlegusjúklinga. Komu fram ýmsar kenningar um orsakir og úrbætur. Ragnhildur lét þá skoðun í ljós að vanmetinn væri einn orsakaþáttur sem væri fólginn í gömlu karlaviðhorfi til þessarar hefðbundnu kvennastéttar. Meiri hluti þeirra, sem tækju ákvarðanir um störf hennar og skipulegðu þau, væru karlmenn. Viðhorf karla gagnvart kvennastéttum þyrfti að breytast. Einnig væri hugsanlegt að minnkuð virðing fyrir hefðbundnu starfi kvenna væri bakhliðin á hinni nýju kvenfrelsishreyfingu. Afla þyrfti hjúkrunarstéttinni nýrrar virðingar til að fjölga í hjúkrunar- og umönnunarstörfum.
    Að öðru leyti fjallaði ræða hennar um ýmsar ályktanir og verkefni Evrópuráðsins á sviði heilbrigðismála auk sérstakrar umfjöllunar um hinar nýju skyldur ráðsins vegna pólitískrar þróunar í álfunni.
    Ræður ráðherranna frá nýfrjálsu ríkjunum í Mið-Evrópu fólu í sér ákall um hjálp vegna hins bága heilbrigðisástands, ekki síst hjálp sem fólgin væri í þjálfun, tækjum og tækni.
    Erindi sérfræðinganna fjölluðu um væntanlegar úrbætur í heilbrigðisþjónustu, þróun vísinda, tækni og umhverfis. Einnig var fjallað um menntun heilbrigðisstétta.

Tengsl þings Evrópuráðsins og annarra fjölþjóðastofnana.


Evrópuráðið og CSCE (RÖSE).


    Athygli þings Evrópuráðsins beinist um þessar mundir mjög að samstarfi við CSCE eða RÖSE (ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu). Ástæður þessa eru einkum fjórar:
     Á sl. sumri komu fram sterkar raddir um þörf á þingmannasamkundu RÖSE-ríkjanna og raunar að fella starfsemi RÖSE í fastar stofnanir. Hvorugt hafði áður verið, heldur fór starfsemin fram á reglulegum fundum embættismanna eða ráðherra. Meðal RÖSE-leiðtoga komu fram hugmyndir um að RÖSE-þing yrði að stofni og starfi byggt á þingi Evrópuráðsins í Strassborg.
     Eins og mannréttindaráðstefna RÖSE í Kaupmannahöfn sl. sumar sýndi beinist athyglin nú æ meir að þeim kafla Helsinki - samþykktarinnar sem fjallar um mannréttindi og félagsleg réttindi, en þetta hefur verið meginþátturinn í starfi Evrópuráðsins frá stofnun þess 1949.
     Fyrir nokkrum árum var stór hluti RÖSE-ríkjanna utan Evrópuráðsins, þ.e. Sovétríkin og þau Mið-Evrópuríki sem voru undir áhrifavaldi þeirra. Núna eru þessi ríki flest með gestaaðild að Evrópuráðinu sem breytist í fulla aðild ef ríkið æskir þess og fullnægir skilyrðum ráðsins um lýðræðislegt stjórnarfar og mannréttindi. Að vísu eru Bandaríki Norður-Ameríku og Kanada aðilar að RÖSE auk Evrópuríkjanna, en gert yrði ráð fyrir því í sérstökum starfsreglum, enda yrði RÖSE - þing ekki hið sama og Evrópuráðsþing þótt hagnýtar ástæður mæli með nánum tengslum.
     Af þremur ofangreindum ástæðum má sjá að um tvíverknað væri að ræða ef nýjar Evrópustofnanir með nýju skrifstofubákni með sömu verkefni og Evrópuráðið væru settar á fót. Einkanlega væri það óhagræði fyrir smærri ríkin vegna kostnaðar. Loks má nefna að hætta er á að slakað yrði á þeim mannréttindakröfum sem unnið er eftir í Evrópuráðinu ef til kæmu aðrar Evrópustofnanir með sams konar verkefni, en ramma sem félli að mannréttindaviðhorfum allra RÖSE-ríkja eins og þau birtast í dag.
    Með allt þetta í huga var í tengslum við haustlotu Evrópuráðsþingsins efnt til fyrstu þingmannasamkundu RÖSE-ríkjanna þar sem yfirgnæfandi meiri hluti ríkja samþykkti hugmynd að starfsreglum og fyrirkomulagi RÖSE-þings. Yfir þessum tímamótum hvíldi þó sá skuggi að Bandaríkjamenn sendu ekki fulltrúa á fundinn og var það þó forseti þeirra sem borið hafði fram hvað ákveðnasta tillögu um að hið nýja RÖSE-þing yrði byggt á grunni þings Evrópuráðsins. Kapp er því lagt á að fá Bandaríkjamenn til þátttöku í undirbúningi þessa máls.
    Næsti fundur um mál þetta verður í apríl í Madrid. Af hálfu íslensku sendinefndarinnar tók Ragnhildur Helgadóttir þátt í umræðunum um þetta á haustþingi Evrópuráðsins.

Evrópuráðið og Evrópubandalagið.


    Í skýrslum tveggja síðustu ára hefur verið vikið að samstarfi við EB. Menn hafa einnig í því efni lagt áherslu á að forðast tvíverknað og stefnt að skýrri verkaskiptingu. Óhjákvæmilegt er þó að verk skarist nokkuð, en þá hefur reynt á samstarf þessara stofnana, svo sem er, einkanlega á sviði félagsmálasáttmálans.

Evrópuráðið og OECD.


    OECD (Efnahags- og framfarastofnunin) hefur þá sérstöðu gagnvart Evrópuráðinu að þing þess í Strassborg er eini vettvangurinn þar sem þingmannanefndir allra þessara ríkja koma saman til umræðna. Á hverju þingi Evrópuráðsins flytur framkvæmdastjóri OECD, Paye, skýrslu og svarar síðan munnlegum fyrirspurnum þingmanna.

Evrópuráðið og Norðurlandaráð.


    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs heimsótti í haust Evrópuráðið í Strassborg þar sem stjórnarnefndin tók á móti henni og bauð til sameiginlegs fundar. Höfuðumræðuefni var hin mikla pólitíska breyting sem nú á sér stað á Evrópu og aukið samstarf beggja þessara þingmannasamkunda.
    Íslendingar, sem tóku þátt í fundinum, voru af hálfu Norðurlandaráðs þeir Páll Pétursson, forseti ráðsins, og Ólafur G. Einarsson, auk Snjólaugar Ólafsdóttur og Elínar Flygenring. Af hálfu Evrópuráðs var einn Íslendingur, Ragnhildur Helgadóttir, varaforseti þess.

Aðrar fjölþjóðastofnanir.


    Evrópuráðið, sem sjálft fjallar ekki um varnar- og öryggismál, er í nánum tengslum við Vestur-Evrópubandalagið á þann veg að samkvæmt reglum þess eru þingmenn á þingi Vestur-Evrópubandalagsins einnig á þingi Evrópuráðsins.
    Formaður ráðherranefndar EFTA eða framkvæmdastjóri þess hefur stundum ávarpað þing Evrópuráðsins.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópuráðið munu taka upp nánara samstarf en um það fjallar m.a. skýrsla um samræmda evrópska heilbrigðisstefnu og tillaga félags- og heilbrigðisnefndar ráðsins. Ragnhildur er höfundur skýrslunnar og framsögumaður tillögunnar sem bíður lokaafgreiðslu.

    

Eftirlitsnefndir með kosningum í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.


    Ráðið hefur sinnt tímabundnum verkefnum vegna umsókna Austur- og Mið-Evrópuríkja um aðild að störfum þess. Vegna þessa var fyrir tveimur árum gerð breyting á reglum þingsins sem opnaði þessum ríkjum þátttöku í þingi lýðræðisþjóða, enda teldust þau fullnægja mannréttindaskilyrðum lokasamþykktar Helsinki - sáttmálans. Full aðild kemur hins vegar ekki til álita nema fram hafi farið lýðræðislegar fjölflokka þingkosningar. Ráðið ákvað því að stofna sérstakar þingmannanefndir til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Þannig kom það til að fyrsta eftirlitsnefndin af þessu tagi fór til Austur-Þýskalands fyrir ári síðan. Meðal þingmanna í þeirri nefnd var Ragnhildur Helgadóttir. Störfum var hagað þannig að þrjá daga fyrir kosningar hélt nefndin fundi með forsvarsmönnum framboðslista og fóru fram afar opnar viðræður við þá hvern um sig um aðstæður við undirbúning kosninganna að því er varðaði möguleika til kynningar, fundahalda og fjármögnunar. Á kjördaginn sjálfan fóru nefndarmenn tveir og tveir allan daginn milli kjörstaða og fylgdust með frágangi kjörklefa, kjörkassa og framkvæmd utankjörstaðakosningar. Í lok kjörfundar var fylgst með byrjun talningar og hvort fulltrúar lista væru viðstaddir. Heimamönnum var ekki kunnugt fyrir fram hvaða kjörstaðir yrðu heimsóttir. Sams konar verkefni voru svo unnin í öðrum þeim löndum sem lokið hafa kosningum.

Alþingi, 19. febr. 1991.



Ragnhildur Helgadóttir.

Guðmundur G. Þórarinsson.

Eiður Guðnason.