Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 476 . mál.


Sþ.

1042. Tillaga til þingsályktunar



um kynningu á Guðríði Þorbjarnardóttur.

Flm.: Skúli Alexandersson, Ragnar Arnalds, Stefán Guðmundsson,


Salome Þorkelsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra og samgönguráðherra að þeir beiti sér fyrir öflugri kynningu á fyrstu evrópsku móðurinni í Norður - Ameríku, íslensku konunni Guðríði Þorbjarnardóttur.
     Menntamálaráðherra beiti sér fyrir því að Guðríður verði kynnt með sérstöku átaki hér á landi og framvegis með sögukennslu í skólum til jafns við önnur mikilmenni Íslandssögunnar.
     Samgönguráðuneyti beiti sér fyrir að útbúin verði upplýsingarit fyrir ferðamenn um Vínlandsdvöl Guðríðar, ferðalög hennar (sigldi átta sinnum yfir norðlæg heimshöf og fór suður til Rómar) og tengsl hennar við Ísland ásamt með góðum upplýsingum um þá staði á Íslandi, Laugarbrekku undir Jökli og Glaumbæ í Skagafirði, sem tengjast sögu hennar.

Greinargerð.


    Norðmenn, frændur okkar, hafa löngum haldið við þeim leiða sið að eigna sér Íslendinginn Leif Eiríksson og segja hann hafa verið Norðmann. Stundum eigna þeir sér líka Snorra Sturluson á sama hátt. Íslendingar munu sjálfsagt um ókomin ár sitja uppi með þessa stríðni Norðmanna og þá skoðun nokkurra þeirra að það sé rétt og satt að Leifur Eiríksson, sá er fyrstur Norðurálfumanna fann Ameríku, hafi verið landi þeirra.
    Um þetta málefni fór fram umræða á Alþingi á yfirstandandi þingi. Tilefnið var fyrirspurn Þorvalds Garðars Kristjánssonar til forsætisráðherra um áform um að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi. Þessi umræða staðfesti enn vandræðastöðu okkar gagnvart Norðmönnum. En umræðan leiddi einnig fram að hér á landi er lítið sem ekkert gert til að minna á þennan Íslending. Fáir vita um staði honum tengda hér á landi og ferðaskrifstofur láta sér varla til hugar koma að nefna Leif Eiríksson í upplýsingaritum sínum. Nafnið á flugstöðinni í Keflavík er því eins og ókennilegur hlutur sem enginn veit hvað táknar eða hvaða saga stendur að. Eru kannski aðgengilegar upplýsingar um það í Flugstöð Leifs Eiríkssonar?
    Áðurnefnd fyrirspurn og sú umræða, sem tengdist henni, varð til þess að flutningsmenn fóru að hugleiða að flytja þessa þingsályktunartillögu sem er um tengt málefni.
    Sjálfsagt eru uppi breytilegar skoðanir á því hvað leggja skal mikið upp úr almennri kynningu á sögu og arfleifð okkar. Almennur söguáhugi er mismunandi frá ári til árs. Þar hafa ýmsir þættir áhrif á. Sumir segja að sagan gleymi engu staðreyndir breytist ekki þótt stundum sé því haldið fram sem ekki á við rök að styðjast. Sú staðreynd að Leifur Eiríksson var Íslendingur breytist ekki þó að Norðmenn haldi öðru fram. Það sem skiptir máli er að Íslendingar sjálfir gleymi honum ekki og þeirri sögu og sögustöðum sem honum eru tengd.
    Að mati flutningsmanna hefur saga landafundanna í Vesturheimi og búsetutilrauna Íslendinga þar verið vanrækt í kynningu og umfjöllun. Með flutningi þessarar tillögu er lagt til að mikilsverðum þætti þessara viðburða og einni af glæsilegustu persónum Íslandssögunnar verði gerð verðug skil. Lífsferli Guðríðar Þorbjarnardóttur verður varla betur lýst en með þætti Hallgríms Jónassonar kennara sem hann nefnir „Geislar yfir kynkvíslum“. Þessi þáttur fylgir hér með sem fylgiskjal.
    Enginn hefur reynt að gera Guðríði Þorbjarnardóttur upp annað þjóðerni en það íslenska. Á því er heldur enginn vafi að hún er fyrsta móðirin af evrópskum kynstofni í Vesturheimi og Snorri sonur hennar fyrsta hvíta barnið sem þar fæðist. Líklegast er að allir núlifandi Íslendingar eigi ætt sína að rekja til þessara mæðgina. Þar með eru nokkrir tugir þúsunda af núverandi íbúum Norður - Ameríku, þeir sem eiga ættir að rekja til Íslands, afkomendur sonar Guðríðar sem fæddist þar fyrir um eitt þúsund árum. Það er kominn tími til að sögu þessarar konu verði betur haldið til haga í sögukennslu í skólum og í almennri umræðu. Er ekki lífsferill Guðríðar Þorbjarnardóttur enn glæsilegri en Leifs heppna Eiríkssonar, en hann telst þó einn af stórmennum sögunnar?
    Nú fjölgar ár frá ári þeim erlendu mönnum sem gista Ísland. Kynning á Íslandi beinist að mestu að náttúru þess og þá fyrst og fremst að sérstæðustu náttúruperlunum, Gullfossi, Geysi, Mývatni og fleirum. Ferðaskrifstofur beina ferðamönnum á mjög takmörkuð skoðunarsvæði og á þeim svæðum er nú víða hætt við örtröð. Lítið er gert að því að kynna ferðamönnum íslensk fornrit. Þó er kannski nefnt að slíkar bækur séu til, en hvað á þeim bókum stendur er látið liggja í þagnargildi, t.d. um landnám Íslendinga á Grænlandi og landafundi þeirra í Norður - Ameríku.
    Með því að þeim sem heimsækja Ísland sé kynnt saga og menningararfleifð þjóðarinnar á nokkuð markvissari hátt en gert hefur verið er nokkuð víst að áhugi á því að koma til landsins beinist ekki fyrst og fremst að sumarmánuðunum. Með slíkri kynningu mundu Íslendingar sjálfir einnig átta sig á því að ferðalag um Ísland þarf ekki að vera kapphlaup um að komast undan rigningu eða stormi yfir í sólríkari hluta landsins í þetta eða hitt skiptið, heldur það að fara í rólegheitum um landshluta sem eru tengdir merkilegri sögu sem er þess virði að rifja upp með því að skoða það svið sem sagan gerðist á.
    Ferðaþjónusta er atvinnugrein þar sem starfsfólki fjölgar. Starfsreynsla er því í mörgum tilfellum takmörkuð. Miklu skiptir að menntun nýliðanna sé góð. Sem flestir starfsmenn í þessari atvinnugrein þurfa að hafa þekkingu á sögu og menningu a.m.k. síns nánasta umhverfis og þeir sem með stærri málefni fara á þessum vettvangi ættu að vera sögufróðir, t.d. væri æskilegt að forstjórar ferðaskrifstofa hefðu háskólamenntun í íslenskri sögu.
    Þetta málefni tengist því tveimur ráðuneytum, fyrst og fremst menntamálaráðuneyti varðandi fræðslu almennt í skólum, og þó sérstaklega á þeim fræðslustigum þar sem væntanlegt starfsfólk við ferðaþjónustu nýtur uppfræðslu, og samgönguráðuneyti vegna þess að undir það ráðuneyti fellur sú fjölþætta atvinnustarfsemi sem einu nafni kallast ferðaþjónusta. Einnig mætti hér að sjálfsögðu nefna til utanríkisráðuneytið til þess að sjá um kynningu á sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur erlendis, t.d. í Norður - Ameríku á svipaðan máta og utanríkisráðuneytið hefur gert til kynningar á Leifi heppna Eiríkssyni.
    Flutningsmenn telja þó ekki rétt að nefna utanríkisráðuneytið í tillögugreininni. Rétt sé að sjá hverju fram vindur hér heima áður en það ráðuneyti er hvatt til sérstakra aðgerða. Sú hugmynd hefur komið fram að það sem mætti gera án mikils kostnaðar og undirbúnings til þess að vekja athygli á Guðríði Þorbjarnardóttur væri það að tileinka henni ákveðinn kynningardag á hverju ári og einnig það að setja upp á Laugarbrekku og í Glaumbæ upplýsingaskilti þar sem fram kæmu upplýsingar um tengsl hennar við þessa staði og nefndir yrðu helstu þættir í sögu Guðríðar.
    Tilgangur flutningsmanna með flutningi þessarar þingsályktunartillögu var ekki sá að benda á leiðir til að ná fram málefni því sem felst í tillögugreininni, heldur eingöngu sá að vekja athygli á íslenskri konu. Saga hennar á að vera meðal frásagna af stórmennum sögunnar. „Við hlið þvílíkra manna stendur Guðríður Þorbjarnardóttir, framúrskarandi að glæsileik, vitsmunum og skörungsskap . . .



Fylgiskjal.


Hallgrímur Jónasson:

Geislar yfir kynkvíslum.


    Sjaldan fer ég svo um vestanvert hérað Skagafjarðar og ráði sjálfur farartæki að ekki sé staðar numið á hæðarbungunni milli Páfastaða og Holtsmúla. Af þjóðvegum sýslunnar þykir mér þaðan einna fegurst útsýn um meginsvið héraðsins. Eftir að Stíflan í Austur - Fljótum var lögð undir vatn, eru ekki margir þröngir og afmarkaðir staðir skagfirskrar byggðar, séðir frá alfaraleiðum, sem bera yfir sér ótvíræða fegurðartöfra á borð við sum einstök svæði annarra byggðarlaga á landinu. Aftur á móti þykir mér, sem fleirum, héraðið í heild fegurra en flest eða öll önnur, er ég þekki á landi okkar.
    Frá áður nefndum stað liggur breidd þess opin fyrir til suðausturs. Eylendið og austurfjöllin eru í nánum stærðarhlutföllum; þau bera hvorugt annað ofurliði, brúnalínur fjallanna að sínu leyti álíka jafnar og undirlendið er mishæðalaust. Þau eru að vísu mörgum skörðum skorin, líkt og sléttlendið vatnsrásum; klettabelti hið efra, grænar hlíðar að neðan. Hegranesið í norðaustri með ása sína og brúnir, þeim mun lægra yfir sléttlendinu sem það er nær útsýnisstað og raskar ekki hlutföllum í neinu.
    Til suðurs, yfir dalbotninum, tekur við hásléttan, hallalítil allt til Hofsjökuls, sem nær því í góðviðrishillingum að sjást vel úr utanverðum firðinum.
    Miklu nær, í hásuðri, rís Mælifellshnjúkur ofar vesturfjallgarðinum, og úti í norðrinu ber uppi eyjarnar og Þórðarhöfða.
    Og nú hlýðir vel að þoka sér nær upphafsefni þessa þáttar, en hafa inngangsorðin ekki fleiri.
    Fyrir áratugum var ég sem oftar leiðsögumaður á ferð um Norðurland m.a. og staðnæmdist þá með förunauta mína í nánd einu söguríkasta höfuðbóli sýslunnar. Þegar við að kveldi höfðum slegið tjöldum og búist til gistingar en ég lokinn við nánari lýsingar á ýmsum náttúrusérkennum héraðsins, er ekki blöstu augum af leiðum þeim er við myndum fara veik einn förunauta minna að mér orðum, sem að efni til voru á þessa leið:
    Þú hefur nú farið með okkur um meginhluta Skagafjarðar og sýnt okkur svipmót héraðsins og merkustu staði. Viltu nú ekki segja okkur eitthvað frá þeirri persónu, konu eða karli, sem hér hefir fæðst og lifað eða hingað flust og sögur eru af og þér finnst einna mest til koma?
    Ég varð ekki við þeim tilmælum þá; taldi mig þess ekki búinn. Spurningin hefir þó ekki gleymst að fullu, en stöku sinnum gerst dálítið áleitin. Hér ætla ég að gera tilraun til að svara henni, þótt seint sé, og mér ekki lengur kunnugt, hvort minn gamli förunautur og fyrirspyrjandi muni enn ofar moldu eða ekki.
    Þá hverf ég burt úr Skagafirði um sinn, langar leiðir, bæði um tíma og vegalengdir. Áður en þeirri vegferð lýkur, kemur frásaga mín hingað aftur með þá persónu í fylgd, sem mér hefur hugþekkust orðið úr bókmenntum okkar, fornum og nýjum, allra þeirra, sem mér eru að nokkru kunnar og í Skagafirði hafa dvalist og lokið ævi sinni.

    Það er að hallandi sumri laust fyrir árið eitt þúsund. Út frá Hraunhafnarósi á Snæfellsnesi, vestarlega, hefir skip lagt og tekið stefnu vestur í haf. Ferðinni er heitið til Grænlands, sem þá er nýlega fundið og byggt, sunnanvert. Innanborðs er rúmlega þrjátíu manna hópur. Hann ætlar að setjast að í landnámi Eiríks rauða. Stýrimaður og skipseigandi heitir Þorbjörn Vífilsson bóndi frá Laugarbrekku á Hellisvöllum undir Snæfellsjökli. Vífill faðir hans var talinn vel ættaður; hafði út komið með Auði djúpúðgu. Þorbjörn sonur hans fékk að konu Hallveigu Einarsdóttur á Laugarbrekku. Þangað fluttist hann og tók við búsforráðum. Hann var mikils virtur, vinmargur og drengur góður.
    Dóttur áttu þau, er Guðríður hét. Var hún, er hér er sögu komið, gjafvaxta og allra kvenna fríðust. Auk þess „hinn mesti skörungur í öllu athæfi sínu.“ Skammt var milli bæjanna, Laugarbrekku og Arnarstapa. Þar bjuggu Ormur og Halldís kona hans. Hjá þeim dvaldist Guðríður löngum að fóstri, og var vinátta mikil milli heimilanna.
    Innileg vináttutengsl voru og milli Þorbjarnar og Eiríks rauða, enda þótt Laugarbrekkubóndi og fjölskylda hans væri fyrir stuttu snúin til kristinnar trúar fyrir tilkomu og boðskap sendimanns Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs. En sökum þess, að Þorbjörn taldi sig skorta lausafé og tæpast fá haldið virðingu sinni þess vegna, ákvað hann að selja lönd sín, kaupa skip, er uppi stóð í Hraunhafnarósi, og flytjast til Grænlands. Var þá liðið á annan áratug frá því floti 25 skipa lagði undir forystu Eiríks til Grænlands og landnáms þar, þótt þangað kæmust einungis 14 skip heilu og höldnu, en hin ýmist týndust í hafi eða sneru aftur til Íslands.
    Eitt haust, er Guðríður dvaldist hjá fósturforeldrum sínum að Arnarstapa, kom þangað ungur, íslenskur farmaður, Einar Þorgeirsson. Faðir hans bjó þar innar á nesinu, undir Þorgeirsfelli, og var auðugur að fé. Einar var vænn yfirlitum, vel mannaður og skartmaður mikill. Hann var jafnan í siglingum landa millum og farnaðist vel. Þá er Einar, þetta sinn, sá Guðríði ganga andartak fyrir húsdyr, hreifst hann svo af fegurð hennar og gjörvuleik, að hann hét á húsbónda að leita þar bónorðs fyrir sína hönd, sem hún væri. Ormur kvað þvílíka fyrirætlun eigi liggja lausa fyrir, enda varð ekki af þeim ráðahag.
    Kemur nú aftur þar að, er Þorbjörn siglir skipi sínu vestur í Grænlandshaf. Ásamt Laugarbrekkufólkinu voru þar innanborðs hjónin að Arnarstapa, er réðust til Grænlandsfarar með vinum sínum, auk annarra, sem ekki vildu við Þorbjörn skilja.
    Ekki hafði skip þeirra verið lengi í hafi, er byr tók af og lentu þau í miklum hafvillum og hrakningum. Leið að hausti og ýfðust veður. Velktist skipið í stórsjóum og illviðri. Kom loks upp sótt mikil í liði Þorbjarnar, og lést nær helmingur áhafnarinnar. Meðal þeirra, sem dóu á hafinu, var Ormur og Halldís, fósturforeldrar Guðríðar. Eftir margra vikna hrakninga og þjáningar, tókst þeim, er af lifðu, að ná landi við Herjólfsnes, kennt við Herjólf Bárðarson, sem byggði þar, syðst á Grænlandi. Þá var komið fram um veturnætur.
    Þeir sem lentu í miklum hafvillum eða volki á þeirrar tíðar skipum, hafa löngum reynt meiri raunir, líkamlegar sem andlegar, en gera má sér í hugarlund og því um síður lýsa. Þá er byr tók af, gerðist fleytan ferðlaus, en í stórviðrum réðist ekki við neitt. Þokan þvöl og köld og dimm villti um allar áttir. Hinir ísbornu hafstraumar ægðu þunnri og veikbyggðri súðarskelinni. Síðan kom fæðuskorturinn, vannæring og hungursjúkdómar, skyrbjúgurinn sem fáir vissu af hverju stafaði, „sóttirnar,“ sem nefndar eru alloft. Svo hlóðst á hin andlega ofþjökun, kvíðinn, óvissan um hver endirinn yrði.
    Hrakningsfólkið fékk hinar bestu viðtökur á Herjólfsnesi og var boðin þar veturseta. Ekki er vitað, hvort börn voru með í þessum leiðangri, en líklegt má það telja. Eflaust hafa fleiri konur en Halldís verið í hópi hinna látnu, en þær mæðgur, Guðríður og Hallveig, komust lífs á land ásamt Þorbirni Vífilssyni. Veturinn, sem í hönd fór, dvaldist ferðafólkið á Herjólfsnesi hjá Þorkeli bónda og konu hans, er þar bjuggu.
    Um þessar mundir var hallæri mikið á Grænlandi, veðrátta hörð, en veiðifang lítið. Þar í byggð átti heima kona, er Þorbjörg hét. Hún var talin forvitri og spákona. Níu átti hún systur og höfðu allar verið framsýnar. Af þeim var Þorbjörg ein eftirlifandi. Viðurnefni átti hún og var kölluð lítilvölva.
    Þorbjörg fór bæja milli og sagði fyrir forlög manna og svo um veðurfar.Var mörgum forvitni á um þvílík efni. Og þar eð Þorkell var þar fyrir öðrum bændum, þótti sem honum stæði næst að leita um það vitneskju, hvenær létta myndi óárani því, er yfir stóð. Bauð hann spákonunni heim til sín og var henni þar vel fagnað. Hásæti var henni búið og skyldi þar í vera hænsnafiður. Þorbjörg var svo búin, að „hún hafði yfir sér tuglamöttul bláan og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur, lambskinnskofra svartan á höfði og við innan kattskinn hvít. Og hún hafði staf í hendi og var á knappur. Hann var búinn með messingu og settur steinum ofan um knappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda, og var þar skjóðupungur mikill, og varðveitti hún þar í töfur (töfragripi) sín, þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði á fótum kálfskinnsskúa loðna og í þvengi langa og á tinknappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.“
    Völvunni var borinn grautur úr kiðjamjólk „og matbúin hjörtu úr öllum kvikindum, þeim er þar voru til. Hún hafði messingspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var brotinn af oddurinn.“ (Svo einstök lýsing er á búnaði völvunnar og matargerð henni til handa, að hún er tekin hér orðrétt enda þótt ekki komi beint við söguþræði, en bendir ekki til að atburðurinn sé tilbúningur, sem slegið hefir verið fram.)
    Að áliðnum degi, er völvan skyldi upp láta spár sínar og framsýni, bað hún þess að fá sér til aðstoðar konur þær, sem kynnu töfrasöng þann er Varðlokur nefndist og til þurfti við seiðinn. En er eftir var leitað, fannst engin, er kunni, hvorki texta né lag. Þá var betur leitað um bæinn, því margt var aðkomufólk samankomið úr byggðinni, en engin fannst þaðan af heldur, er kynni. Þorbjörn Vífilsson og fjölskylda hans var kristið fólk og vildi ekki eiga hlut að þessu athæfi, en þá, er enn var um leitað, mælti Guðríður: „Hvorki er ég fjölkunnug né vísindakona, en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það kvæði, er hún kallaði Varðlokur.“ En í seið völvunnar vildi unga stúlkan engan þátt eiga. Þorbjörg lítilvölva kvað Guðríði ekki verða að verri konu, þótt hún yrði öðrum að liði. En þar sem bóndi var þessa mjög fýsandi, en þau Þorbjörn nauðleitarfólk hans, þótti ekki annað hlýða en verða við þessum tilmælum. Slógu þá konur hring um hásæti völvunnar, en Guðríður söng kvæðið „svo fagurt og vel, að enginn þóttist heyrt hafa með fegri rödd kvæði kveðið, sá er þar var hjá.“ Þorbjörg spákona þakkaði sönginn og kvæðið og „kvað margar þær náttúrur nú til hafa sótt og þykja fagurt að heyra, er kvæðið var svo vel flutt, er áður vildu við oss skiljast og enga hlýðni oss veita.“ Því næst lýsti hún því yfir, að hallæri þetta myndi ekki lengi standa, og sóttarfar það batna, sem á hefði legið um sinn. „En þér, Guðríður, skal ég launa í hönd liðsinni það, er oss hefir af þér staðið, því að þín forlög eru mér nú allglöggsæ. Þú munt gjaforð fá hér á Grænlandi, það er sæmilegast er, þó að þér verði það ekki til langæðar, því að vegir þínir liggja út til Íslands, og mun þar koma frá þér mikil ætt og góð, og yfir þínum kynkvíslum skína bjartari geislar en ég hafi megin til að geta slíkt vandlega séð. Enda far þú nú vel, dóttir.“
    Ekki minnist ég þess, að nokkur önnur kona í okkar bókmenntum, fyrr né síðar, hafi hlotið þvílíka forspá eða umsögn, er bæði vörðuðu sjálfa hana og afkomendur hennar í marga ættliði.
    Ekki leið á löngu þar til spá völvunnar rættist um batnandi veðráttu. Svo fór og með veiðifang og heilsufar manna. Hrakningsfólkið frá Íslandi rétti og við áður en langir tímar liðu.
    Upp úr því bjó Þorbjörn skip sitt á nýjan leik og sigldi með eftirlifandi lið sitt upp með vesturströnd Grænlands og inn í Eiríksfjörð til Brattahlíðar. Fagnaði Eiríkur honum vel og bauð öllum hjá sér að dveljast, þar sem eftir lifði vetrar.
    Þá er voraði og hlýnaði betur, gaf Eiríkur Þorbirni vini sínum land að Stokkanesi, hinum megin fjarðar. Reisti Þorbjörn þar bæ sinn, bjó þar meðan lifði og þótti hinn besti drengur.
    Nú halda heimildir áfram að segja frá atburðum, sem hér verður að litlu eða engu getið, heimssögulegum viðburðum að vísu, en svo alkunnum okkur, að ekki er ástæða um að fjalla að neinu ráði, nema þar sem mál snerta sögupersónu okkar.
    Ekki ber Eiríkssögu alls staðar saman við Grænlendingasögu eins og hverjum er augljóst, sem báðar les. Hefir hin síðarnefnda þótt, við auknar rannsóknir, öllu traustari heimild, þó að ef til vill megi um deila. Verða hér báðar notaðar, eftir því sem ljósar verður rakinn ferill Guðríðar Þorbjarnardóttur. Einstaka atriði í frásögnum, sem snerta Guðríði, eru tæplega svo skýr að skilja megi til fullnustu. En það breytir engu um, að æviferill þessarar konu er svo einstakur að furðu gegnir. Slóð hennar fellur saman við heimssögulega atburði og stendur því vitanlega í skugga þeirra, er nánast grafin undir þeim. Þungi frásagnanna um landafundina er vitanlega öðru ríkari. Það skýtur upp einstaka setningum um Guðríði á stöku stað. Hún er sögð „væn kona,“ þ.e. fögur álitum, „sköruleg . . . vitur og kunni vel að vera með ókunnum mönnum“ og með söngrödd, sem ekki átti sinn líka. Að kunna að vera með ókunnum mönnum þýðir m.a. að búa yfir skaplyndi, sem laðar aðra að sér er á vegi verða.
    Af sonum Eiríks rauða er Þorsteinn talinn gjörvilegastur maður, sem þá fannst á Grænlandi. Hann hóf nú bónorð til Guðríðar, sem dvalist hafði í Brattahlíð, og var hún honum gefin. Þorvaldur nefndist þriðji sonur Eiríks.
    Bjarni Herjólfsson hafði borist vestur í höf og sennilega séð fyrstur strendur landa, sem Leifur Eiríksson kannaði og nefndi Vínland. Bar hann fregnir þær til Grænlands og vaktist þá upp mikið umtal og áhugi um siglingar þangað. Í Grænlendingasögu er frá því sagt, að Þorvaldur, bróðir Leifs, hafi ráðist til Vínlandsferðar í landkönnun. Verður hér ekki frá þeirri för annað sagt en það, að á þeim ókunnu ströndum var hann lostinn öru til bana af frumbyggjum landsins. Grófu menn hans foringja sinn þar á höfða einum og héldu að svo búnu til Grænlands á ný og sögðu ill tíðindi.
    Þegar hér var komið sögu, hafði Þorsteinn, bróðir Þorvalds, fengið Guðríðar Þorbjarnardóttur og sest að í Lýsufirði, sunnarlega í Vestribyggð. Er þess getið, að hann hafi fýst að sækja lík bróður síns og fá það jarðað í vígðri mold að kristinna manna hætti, þar eð fólk á Grænlandi var þá gengið undir þann trúarsið. Geta má og þess til, að löngun til nánari landkönnunar hafi þar miklu ráðið, en ekki það eitt að sækja dauðan mann um svo miklar fjarlægðir. Fór einvala lið með Þorsteini og svo kona hans.
    Í þessum leiðangri velkti þau úti mestallt sumarið, vissu aldrei hvar þau fóru, en náðu loks til heimastöðva, þegar vika var liðin af vetri. Var þetta önnur úthafs - og hrakningasigling hinnar ungu konu, efalítið með hinum mestu þrekraunum, enda dóu margir hinna vösku manna úr „sótt,“ sem á þeim vann, er á land komu, þar á meðal Þorsteinn maður Guðríðar. Fluttist hún þá aftur að Brattahlíð til Leifs mágs síns, er þá var tekinn við valdi og forsjá föður síns, eftir því er sumar heimildir gefa í skyn.
    Mér þykir sem lesa megi út úr grænlensku sögunum, að Guðríður Þorbjarnardóttir hafi ekki sóst fast eftir því að eyða ævi sinni á Grænlandi, a.m.k. eftir að foreldrar hennar voru báðir dánir. Hún er talin hafa hvatt mann sinn, Þorstein Eiríksson, til að sigla vestur á Vínlandsstrandir. Ævintýraþráin hefir eilítið ólgað henni í æðum og reynslan úr fyrstu siglingunni ekki dregið úr henni kjark. Ekki er ósennilegt, að oft hafi henni orðið hugsað heim til æskustöðvanna á Laugarbrekku og Arnarstapa, þar sem náttúran var bæði fögur og stórbrotin til allra átta. Ef til vill hefur henni verið kunnugt ljóðið, sem eitthvert skáld hefir lagt í munn þjóðsagnapersónunnar Helgu Bárðardóttur Snæfellsáss, og hún átti að hafa kveðið í útlegð sinni á Grænlandi:

                                       „Sæl væri eg,
                                       ef sjá mætti
                                       Búrfell og Bala,
                                       báða Lóndranga,
                                       Aðalþegnshóla
                                       og Öndvertnes,
                                       Heiðarkollu
                                       og Hreggnasa,
                                       Dritvík og möl
                                       fyr dyrum fóstra.“

    Örnefni þessi eru á Snæfellsnesi í nánd Laugarbrekku mörg.
    En nú er skammt nýrra atburða að bíða.
    Að hallandi sumri, litlu eftir árið 1000, sigla tveir knerrir inn Eiríksfjörð. Öðrum þeirra stýrir einhver stórættaðasti Íslendingur, sem þá var í förum milli landa hins norðlæga, kunna heims. Hann hét Þorfinnur karlsefni frá Þórðarhöfða í Skagafirði. Þessi kunni og auðugi farmaður átti konunga í ættum sínum á bæði borð og ekki ýkja langt undan. En hans miklu bestu kostir voru þó gjörvuleiki og drengskapur, auk mikils dugnaðar og manndóms. Nú sigldi hann beint frá Noregi, hlöðnu skipi vörum, sem á Grænlandi skorti tilfinnanlegast um þær mundir. Hinu skipinu stýrðu Bjarni Grímólfsson úr Breiðafirði og Þórhallur Gamlason.
    Báðar skipshafnirnar höfðu vetursetu í Brattahlíð. Þar sá Þorfinnur karlsefni Guðríði fyrsta sinn fullvaxna konu. Þau virðast hafa verið eins og sköpuð hvort fyrir annað, bæði forkunnar gjörvuleg, með skaplyndi, er laðaði að þeim aðra menn. Á því bar og fljótt, að þau felldu hugi saman. Hóf Þorfinnur upp bónorð til Guðríðar, og var brúðkaup þeirra drukkið þann vetur í Brattahlíð.
    Sem geta má nærri var um þetta leyti margt rætt varðandi Vínlandsfund Leifs og þau kostalönd, er þar lágu. Hinum víðsigldu farmönnum hefir munað í að kynnast þeim furðuheimum, sem Leifur hafði nokkuð kannað, en nú var hann orðinn bundinn stjórn og forsjá Grænlands, að ætla má.
    Svo má sögurnar skilja sem Guðríður hafi hvatt en ekki latt eiginmann sinn í könnunarferð til þessara ævintýralanda. Þráin hefir ólgað henni í blóði sem fyrr. Festist brátt sú ákvörðun ungu hjónanna að sigla þangað næsta sumar og jafnvel setjast þar að, ef hagfellt þætti og landkostir álitlegir. Grænland gat ekki freistað þeirra til aðseturs, það var henni fullljóst.
    Svo leggja þrjú skip samflota út frá Eiríksfirði áleiðis til Vínlands. Er Þorfinnur karlsefni talinn forystumaður leiðangursins. Farmannskunnátta hans kemur fljótt í ljós. Skipin stefna fyrst norður með vesturströnd Grænlands; taka síðan vesturleiðina, þar sem skammt er til landa, og svo suður með hinum nýfundnu ströndum í fullri landsýn. Þessum leiðangri verður ekki lýst hér nema að því einu, sem snertir forystuskipið og sögupersónu okkar. Annað yrði allt of langt mál. Svo ber Eiríkssögu og Grænlendingasögu ekki fyllilega saman, eins og áður er getið. Leiðangursmenn finna búðir Leifs. Sundrung kemur upp með áhöfnum skipanna. Þórhallur veiðimaður yfirgefur félaga sína við tíunda mann og siglir einu skipinu aftur norður á bóginn, en hrekst til Írlands. Hinir halda lengra suður og finna enn frjórri lönd en við Leifsbúðir. Þar hitta þeir fyrir frumbyggja landsins. Leituðu hinir norrænu menn þá til fyrri stöðva á ný.
    Eftir hinn fyrsta vetur þar fæddi Guðríður sveinbarn, sem Snorri var heitinn, líklega eftir afa Þorfinns. Snorri er fyrsti hvítur maður, sem fæðist í Vesturheimi svo vitað sé.
    Vöruskipti, friðsamleg, fóru í byrjun fram millum hinna norrænu manna og þeirra, sem fyrir voru í landinu og aðkomufólkið nefndi skrælingja, en fljótt versnaði sambúðin og urðu af skærur og mannfall. Sat Guðríður yfir vöggu síns unga sonar meðan hinir ólíku kynflokkar áttust við.
    Þá er brostnar voru vonir landnemanna um friðsamlega búsetu vegna aragrúa frumbyggja, tók Karlsefni þá ákvörðun að halda brott af Vínlandi og sigla til Grænlands á ný. Reyndist þar með lokið tilraunum norræna manna að festa sér byggð á ströndum lands þessa, a.m.k. um sinn. Komst Þorfinnur með lið sitt, nær allt, heilu og höldnu til Grænlands.
    Skip Bjarna Grímólfssonar fórst í maðksjó ekki fjarri Írlandsströndum. Hluti áhafnar bargst í skipsbátnum, en stýrimaður dó hetjudauða sem sagan greinir.
    Hitt var sem fyrr, að farsæld fylgdi för þeirra Guðríðar og Þorfinns manns hennar. Fjórum sinnum hafði þessi hugrakka og stórvel gefna kona siglt um úthöf hins norðlæga heims. Tæpast hefir hana þá rennt í það grun, að aðrar jafn margar ætti hún eftir að sigla og raunar lengri, sumar hverjar.
    Næsta vetur dvöldust þau enn í Brattahlíð. Báðir foreldrar hennar voru dánir, Eiríkur rauði vinur hennar sömuleiðis. Ekkert batt hana við þetta stóra, hrjóstruga land, og farmanninum, eiginmanni hennar, var annað hugstæðara en eyða hér árum. Hingað hafði hann sótt sér eiginkonu, sem af fór mesti mannkosta orðrómur. Sonur þeirra myndi helst til ungur að leggjast í langar, áhættusamar siglingar um sollin úthöf. Honum hentaði betur kyrrlát dvöl og heimili. Frá Grænlandi var áætluð sigling til Noregs. Og var svo ekki mál til komið að vitja ættmenna og óðals heima í Skagafirði? Þorfinnur þekkti, eins og Leifur, beina siglingaleið til Noregs. Hún var miklu lengri en sjóleiðin til hinna nýfundnu stranda, og verslunarhagsmunir gátu verið augljósir í því að halda þangað fyrst, áður en stafni væri snúið heim til Íslands og ættaróðala.
    Guðríði þurfti ekki að brýna til þeirrar farar. Hún var tilbúin að halda í sína fimmtu úthafssiglingu, efalaust í einskis manns fylgd öruggari, en þar sem maður hennar var til forystu. Og svo var nú fjárhlut hans farið, að sá var almannarómur, „að eigi mundi auðugra skip gengið hafa af Grænlandi en það, er hann stýrði.“
    Vel gekk þeim förin til Noregs þetta sumar. Dvöldust þau þar næsta vetur. Seldi Þorfinnur varning sinn „og hafði þar gott yfirlæti og þau bæði hjón af inum göfgustum mönnum í Noregi, en um vorið eftir bjó hann skip sitt til Íslands.“
    Í Noregi hafa þau fengið af því sannar spurnir, hver afdrif urðu Bjarna Grímólfssonar og Þórhalls veiðimanns og manna þeirra.
    Enn ræðst Guðríður í úthafssiglingu í sjötta skipti. Þetta sinn er stefnan til ættlands hennar. Að vísu ekki undir Jökul á Snæfellsnesi, þar sem æskuheimkynni hennar stóðu, heldur norður í Dumbshaf, þar sem sólin gengur ekki undir um langdegið. Á þeirri ferð í góðu leiði og á farsælli siglingu, hefir ef til vill sett að Guðríði Þorbjarnardóttur nokkurn áhyggjuþela, sem fyrr hafði aldrei gert vart við sig í brjósti hennar; því olli framtíðarheimili hennar. Þótt hún væri sjálf af góðum ættum, lá leið hennar nú til samvistar við fólk, sem átti hvað tignastar og virðingarmestar ættir og forfeður á öllu Íslandi. Hvernig yrði litið á kvonfang Þorfinns hins auðuga, fræga farmanns, sem átti konungablóð í báðum ættum sínum, jafnvel sjálfan Ragnar loðbrók. Það var ekki vandalaust að giftast slíkum ættarlauk. Á móti þvílíkri ættgöfgi gat hún eingöngu lagt fram það, sem í henni sjálfri bjó. Hingað til hafði það dugað við hvern, sem hún átti að skipta. Hin bjarta og grómlausa skaphöfn Guðríðar hefir ef vill engum slíkum áhyggjum sinnt. Hingað til hafði þess ekki þurft.
    Vera má, að einhverjar svipaðar áhyggjur hafi vaknað í hugskoti Þorfinns. Liðinn var meir en hálfur áratugur frá því hann lagði í siglingar. Farmannsfrægð hans hafði vafalaust spurst heim í Skagafjörð og fyllt foreldra hans, Þórð hesthöfða og Þórunni konu hans, auknu mikillæti vegna orðstírs sonarins fyrir auðlegð og manngildi, sem allir dáðu. Hann þekkti foreldra sína og nánustu ættmenni og hefir ekki viljað leggja konu sína í þá hugraun, sem ættarhroki þeirra kynni að geta valdið. Grænlendingasaga segir, að eftir fyrsta vetur þeirra hjóna í Skagafirði, hafi Karlsefni keypt Glaumbæjarland, reist þar bú og stýrði meðan lifði og þótti hinn göfugasti maður.
    Í Eiríkssögu eru þau látin setjast að á Reynisnesi, sem mun hafa verið í eigu ættarinnar; faðir Þorfinns þá verið andaður, en ættardrambið vel lifandi í brjósti Þórunnar ekkju hans. Þótti henni sem sonur sinn „hefði lítt til kosta tekið,“ sem þýðir, að kona hans væri honum ekki samboðin. Vildi Þórunn ekki vera samvistum við þau og fluttist burt af staðnum fyrir stórmennsku sakir. En að fyrsta vetri loknum, sem hin aðkomna húsfreyja hafði dvalist í Reynisnesi, var orðrómurinn af mannkostum hennar, skörungshætti og vitsmunum svo útbreiddur og óvefengjanlegur, að Þórunn kaus að flytjast til hennar og lifa þar sem eftir var. Fór vel á með þeim. Þessar frásagnir gætu vel verið báðar réttar. Eftir burtför Þórunnar frá Reynisnesi, gat sonur hennar hafa fest kaup á Glaumbæjarlandi, svo eiginkona hans og móðir þyrftu ekki að leggja á sig þá raun að vera samvistum, en orðrómurinn af tengdadótturinni sannfært gömlu konuna um, að mannkostir gætu fyllilega vegið eins þungt og ættartign.
    Þorfinnur karlsefni varð ekki gamall maður, þó er ekki fullkunnugt, hvenær hann dó. Ekki er heldur vitað til, að á þessum tímum hafi aðrir leiðangrar verið gerðir út frá Grænlandi í því skyni að nema land á Vínlandi. Þó hafa siglingar sennilega eitthvað verið tíðkaðar þangað vestur og norrænir menn haft þar aðsetur á tímabili. Sagnir eru um ferð Grænlandsbiskups, Eiríks Gnúpssonar, árið 1121. Mætti trúlegt þykja, að þá ferð hefði biskup farið til fundar við landa sína, er þar dvöldu.
    Eftir dauða Þorfinns bjó Guðríður með syni sínum, Snorra, þeim er hún sat yfir í vöggu vestur á ströndum Vínlands. En er hann gerðist fulltíða og kvongaður og þurfti ekki lengur forsjá móður sinnar, afhenti hún honum búið og forráð þess.
    Nú tók hún að hugsa um sjálfa sig og þann tíma, sem hún ætti eftir ólifað. Sennilega er hún komin eitthvað yfir miðjan aldur, hefir reynt margt á fjölbreytilegri ævi, gædd miklu líkamlegu þreki, en þó enn meiri andlegum hæfileikum, kristin í hugsun og atferli og með hamingjuríkari og glæsilegri forspá, en nokkur íslensk kona hefir hlotið fyrr eða síðar. Skorti nokkuð á að hún gæti verið ánægð með sig og æviferil sinn? Já, hún var ekki ánægð með sjálfa sig ekki að fullu. Eina ferð átti hún enn ófarna, sem ekki mátti undan dragast. Þá för skuldaði Guðríður guði sínum. Hún hugði á Suðurgöngu og syndalausn. Sú för átti að verða lokaþátturinn í öllum hennar ferðalögum.
    Suður til Rómar var löng leið norðan af Íslandi. Frá Danmörku eða Noregi tók slík ferð á þriðja mánuð hvora leið. Heitið Suðurganga bendir til ferðaháttanna. Sumir örmögnuðust á þvílíkum langleiðum.
    Með föður sínum og móður hafði Guðríður lagt í sína fyrstu langferð yfir Grænlandshaf, er nær hafði kostað hana lífið. Mikinn hluta annars sumars lenti hún í hinum mestu hafvillum með fyrri manni sínum, og létust margir, þótt á land kæmust.
    Þessa síðustu áætluðu ferð varð Guðríður að fara ein síns liðs bæði um úthafið og þvera heimsálfu og þá komin yfir miðjan aldur. Það hefir þurft meira en lítið þrek til að framkvæma þvílíka ákvörðun, andlegt og líkamlegt.
    Heimildirnar eru ekki fjölorðar um þetta fyrirtæki. Grænlendingasaga segir þetta eitt: „Og er Snorri var kvongaður, þá fór Guðríður utan og gekk suður og kom út aftur til bús Snorra, sonar síns, og hafði hann þá látið gera kirkju í Glaumbæ. Síðan varð Guðríður nunna og einsetukona og var þar meðan hún lifði.“
    Í þetta sinn er hún í þjónustu við guð sinn og sáluhjálp sína. Þetta gerist sennilega seint á þriðja tug 11. aldar. Hún lýkur ferðinni og hefir þá tvívegis gengið yfir þvera Norðurálfu, en siglt átta sinnum norðlæg heimshöf. Víðförlasta kona veraldar hefir hún verið talin á sinni tíð og sennilega mörgum öldum saman. Saga hennar fellur eins og á hefir verið drepið saman við heimssögulega atburði, er jafnan hafa risið ofar umhverfi og samtíð. En jafnvel í orðknöppum frásögnum af stórmennum sögunnar, er finna ókunn lönd og fjarlægar heimsálfur, verður nafn hennar ekki falið í skugga þeirra og afreksverka, sem þeir inna af höndum. Við hlið þvílíkra manna stendur Guðríður Þorbjarnardóttir, framúrskarandi að glæsileik, vitsmunum og skörungsskap og með skaplyndi, sem laðar að hugi þeirra, er henni kynnast; búin mannkostum, sem ættardramb og opinskátt sjálfsálit og metnaður hlýtur að beygja sig fyrir. Þannig verður mál sagnanna skilið í hversdagslegum orðum nútímans.
    Um afkomendur Guðríðar og Þorfinns karlsefnis segir Grænlendingasaga þetta: „Snorri átti son þann, er Þorgeir hét. Hann var faðir Yngveldar, móður Brands biskups. Dóttir Snorra Karlsefnissonar hét Hallfríður. Hún var kona Runólfs, föður Þorláks biskups. Björn hét sonur Karlsefnis og Guðríðar. Hann var faðir Þórunnar, móður Bjarnar biskups.“
    Líklega hefði mátt fleiri nefna og alla merka.
    Þetta var mikill ættbogi og góður. Frá Guðríði og yfir hennar kynkvíslir skinu bjartari geislar en hin skyggnustu augu og hugur fengju að fullu skilgreint og metið.

    Sé minn gamli förunautur enn ofar moldu, sá er innti mig eftir því, hver væri mér eftirminnilegust og hugþekkust sagnapersóna, tengd héraði því, er við þá áttum leið um, eins og á er drepið í upphafi greinar þessarar, þá er svar mitt að finna á þessum blöðum.