Forseti Íslands setur þingið
Mánudaginn 13. maí 1991


     Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir) :
    Hinn 3. maí 1991 var gefið út svofellt bréf:
    ,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:
    Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 13. maí 1991.
    Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 3. maí 1991.

Vigdís Finnbogadóttir.


_____________
Davíð Oddsson.
    Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 13. maí 1991.``
    Samkvæmt bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.
    Það þing sem hér hefur störf er 114. löggjafarþing Íslendinga frá því að Alþingi var endurreist. Það markar þau tímamót að þinghald hefst að þessu sinni að nýafstöðnum kosningum og að til starfa tekur hér í dag meiri fjöldi nýrra þingmanna en áður hefur verið á nýkjörnu þingi. Á nýrri vegferð njóta þeir trausts og liðsinnis þeirra mörgu sem um árabil hafa sinnt fyrir þjóðarhag verkefnum þessarar virðulegustu stofnunar hins íslenska lýðveldis.
    Meginstyrkur okkar Íslendinga er metnaður okkar, hvers og eins, fyrir hönd ættjarðar okkar og þjóðar. Land, þjóð og sameiginlegar minningar á einni tungu, fortíð og nútíð samofin í eitt eru hornsteinar framtíðar. Á lýðræðiskjörna fulltrúa okkar er lögð sú ábyrgð að þeir stýri fleyi okkar til farsældar og að vera um leið aflgjafi þess að þegnar landsins trúi á landið og skynji innra með sjálfum sér að þeir eru ómissandi hluti af heilsteyptri þjóð sem með atorku sinni, þekkingu og vilja stefnir ætíð á bjarta tíma.
    Ég óska alþingismönnum öllum góðrar stjórnvisku og ríkrar gæfu.    
    Bið ég yður nú að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.
    [Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]
    Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að

stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram og bið ég aldursforseta, Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestfjarðakjördæmis, að ganga til forsetastóls.