Rannsókn kjörbréfa
Þriðjudaginn 14. maí 1991


     Aldursforseti (Matthías Bjarnason) :
    Samkvæmt 1. gr. þingskapa skal nú prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna. Ber að skipa þingmönnum í þrjár deildir. Forseti leggur til að kjördeildir verði skipaðar þannig:

     1. kjördeild:
    AÓB, ÁMM, EH, EKG, FrS, GB, GHelg, HBl, ISG, JóhS, JHelg, JVK, KÁ, MF, ÓRG, PJ, SalÞ, SAÞ, StH, SvG, VE.

     2. kjördeild:
    ÁRÁ, BBj, EgJ, EKJ, GHH, GHall, GunnS, HG, IP, JGS, JónK, KSG, KE, MB, ÓÞÞ, RA, SigG, SP, SJS, TIO, ÞorstP.

     3. kjördeild:
    ÁJ, DO, EG, FI, GuðjG, GÁ, HÁ, IBA, JÁ, JBH, JónS, KHG, LMR, ÓE, PP, RG, SighB, StG, StB, VS, ÖS.

    Ef enginn hreyfir mótmælum skoðast þessi tilhögun samþykkt. Jafnframt er þess óskað að kjördeildirnar rannsaki kjörbréf varaþingmanna, þau sem útgefin hafa verið og verður þeim skipt jafnt á milli kjördeildanna. Fundarstaðir fyrir kjördeildir verða sem hér segir: 1. kjördeild í fundarsal Ed., 2. kjördeild í flokksherbergi Sjálfstfl. og 3. kjördeild í flokksherbergi Framsfl.
    Ég bið hv. 9. þm. Reykn. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að kalla saman 1. kjördeild, hv. 5. þm. Reykn. Árna M. Árnason að kalla saman 2. kjördeild og hv. 3. þm. Suðurl. Árna Johnsen að kalla saman 3. kjördeild.
    Samkvæmt ákvæðum í 1. gr. þingskapa skal 1. kjördeild taka við kjörbréfum þingmanna sem eru í 3. kjördeild, 2. kjördeild rannsakar kjörbréf þingmanna í 1. kjördeild og 3. kjördeild rannsakar kjörbréf þingmanna sem eru í 2. kjördeild.
    Alþingi hafa borist tvö bréf, annað frá Heimastjórnarsamtökunum í Reykjavík þar sem er kært vegna meints stórfellds, ólöglegs kosningaáróðurs og kosningaspjalla. Helstu atriði sem eru kærð til landskjörstjórnar eru í fyrsta lagi sérstakar fjárveitingar úr ríkissjóði til starfandi þingflokka, sérstakir tímar í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins, birtingar á skoðanakönnunum tvær síðustu vikur fyrir kjördag og gróf mismunun frambjóðenda í fréttum til þjóðar.
    Í öðru lagi er bréf frá Flokki mannsins þar sem tekið er undir þessar kærur. Ég vil geta þess að landskjörstjórn tók þessi bréf til meðferðar og þar var felldur svohljóðandi úrskurður:
    ,,Landskjörstjórn er sammála um að efni erindis þessa falli ekki undir starfssvið landskjörstjórnar svo sem það er ákveðið í lögum. Um það var landskjörstjórn öll sammála.``
    Það er ósk mín til allra kjördeildanna að þessi bréf verði kynnt þar um leið og afgreidd eru kjörbréf þingmanna.

    Nú verður gert hlé á þessum fundi á meðan kjördeildir starfa. --- [Fundarhlé.]