Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Sú er sérstaða utanrmn. í hópi þeirra nefnda sem hér á að kjósa að utanrmn. er heils árs nefnd og hún hefur samkvæmt lögum sérstakar skyldur til þess að vera ríkisstjórn til ráðuneytis í mikilvægum málum og ríkisstjórnin hefur sérstakar skyldur að hafa samráð við utanrmn. um meðferð utanríkismála. Það er þess vegna fullkomlega óeðlilegt að kjöri í utanrmn. sé frestað um langan tíma þegar ljóst er að í gangi eru einhverjar mikilvægustu viðræður á sviði utanríkismála sem Íslendingar hafa staðið í um langt árabil.
    Þær samræður flokkanna um að fresta kjöri annarra nefnda byggðust á því hvort hér kæmu fram á þinginu frumvörp eða þingsályktunartillögur sem hugsanlega þyrfti að vísa til þeirra nefnda. Hitt er hins vegar nú þegar orðið ljóst að utanrmn. hefur fengið upp í hendur mjög mikilvægt verkefni. Þær yfirlýsingar t.d. sem hæstv. utanrrh. gefur í viðtali við DV í dag eru þess eðlis að það er óhjákvæmilegt að það fari bæði fram umræður hér á Alþingi strax og ráðherrann er kominn til landsins og eins fari fram á vettvangi utanrmn. trúnaðarviðræður við ráðherrann um samningafund utanríkisráðherra Evrópubandalagsins og EFTA í gær.
    Ég ítreka þess vegna ósk mína um það sem þingflokkur Alþb. samþykkti að gera að tillögu sinni hér við þingið að utanrmn. yrði kjörin annaðhvort á morgun eða á fimmtudag og flokkarnir ættu að vera reiðubúnir til þess að kjósa í nefndina strax. Ég tel að það geti ekki verið háð því hvort samkomulag náist milli þingflokkanna eins og hv. þm. Geir Haarde orðaði það hér áðan. Það getur ekki verið háð samkomulagi þingflokka hvort hér á að kjósa utanrmn. eða ekki. Það er beinlínis skylda að sú nefnd sé starfandi.
    Hins vegar finnst mér eðlilegt að forseti fái tíma til þess að ræða málið við forustumenn flokkanna og aðra embættismenn þingsins en tel nauðsynlegt, eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti hér á, að það verði í atkvæðagreiðslu gerður greinarmunur annars vegar á utanrmn., sem þá verði frestað kjöri í um skamma hríð, og hins vegar kjöri á öðrum nefndum í Sþ.