Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirra fjölmörgu nýrra hv. þm. sem hér hafa nú tekið sæti þykir mér rétt að ítreka það sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., en í 15. gr. þingskapalaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á 2. fundi sameinaðs Alþingis skulu kosnar þessar fastanefndir`` og síðan eru þær taldar upp og hirði ég ekki að gera það hér, en síðan segir um utanrmn.: ,,Til utanríkismálanefndar skal vísa utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þingtíma.``
    Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.``
    Ég vil ítreka það að hv. utanrmn. hefur þá sérstöðu hér í þinginu að hún er ráðgefandi afl fyrir ríkisstjórnina og hana ber að kjósa á 2. fundi Sþ. Ég tel þess vegna að þinginu sé beinlínis óheimilt að fresta lengur en í hæsta lagi til morguns eða til næsta fundar í Sþ. kosningu hv. utanrmn. Ég tel hins vegar að við gætum leitað afbrigða og frestað kosningu annarra nefnda, en mér sýnist að það sé í meira lagi hæpið að draga kosningu utanrmn. lengur en til næsta fundar.