Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að þau mál sem nú eru helst á döfinni, Evrópska efnahagssvæðið og þær fréttir sem okkur berast núna um þá mikilvægu samninga sem e.t.v. er verið að vinna að, þurfa að fá góða og ítarlega umfjöllun með þeim hætti sem best verður gert. Um það hefur verið rætt á fundum þótt ekki hafi sérstaklega verið talað um að þörf væri á að kjósa í utanrmn., en ég tek undir það að mikilvæg rök hníga að því að farið sé að þingsköpum að þessu leyti og að það dragist ekki lengi að kjósa í utanrmn.
    Jafnframt vil ég ítreka það að ég tel fulla þörf á því að það verði umræða hér í þinginu hið bráðasta utan dagskrár eða um skýrslu ráðherra. En hvort það er dregið deginum lengur eða skemur að kjósa í þessa nefnd held ég að sé nú ekki úrslitaatriði svo framarlega sem að þessu er farið.