Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég var ein af þeim sem voru fylgjandi því frv. til stjórnarskipunarlaga sem nú er flutt hér í annað sinn og er ég þeirrar skoðunar að mjög margt geti verið til bóta við það að Alþingi starfi í einni málstofu. Einnig er hér gert ráð fyrir því að Alþingi sitji allt árið. Tel ég það líka til mjög mikilla bóta, sérstaklega með tilliti til þess að þá munu nefndir starfa allt árið og þá á að vera hægt að kalla Alþingi saman hvenær sem er þannig að ekki á að þurfa að setja bráðabirgðalög nema í hreinum undantekningartilvikum þegar um væri að ræða einhverja þá viðburði sem gerðu það að verkum að ekki væri hægt að koma því við að kalla Alþingi saman með stuttum fyrirvara, en það ætti varla að geta komið fyrir. En til þess að vel takist til um þetta þurfa þingsköpin að vera með þeim hætti að ekki sé gengið á svig við lýðræðislegar hefðir og þau vinnubrögð sem eru Alþingi sæmandi.
    Það frv. sem hefur kannski meira verið til umræðu hér en frv. til stjórnarskipunarlaga er 2. mál þessa þings, frv. til laga um þingsköp Alþingis. Þar er þingflokksformaður Kvennalistans einn af flm. en það breytir ekki því að við höfum ýmsa fyrirvara á um það mál. Ég vil fyrst nefna það sem síðasta hv. ræðumanni varð tíðræddast um, þ.e. um kjör varaforseta sem kemur fram í 3. gr. frv. Þar er talað um að varaforsetar verði kosnir samkvæmt reglum 68. gr. en þar er gert ráð fyrir listakosningum. Í athugasemd við 3. gr. er talað um að þetta sé talið miklu heppilegra og þar segir jafnframt, með leyfi forseta: ,, . . . tryggir einnig að forsætisnefndin (forseti og varaforsetar) sé skipuð í samræmi við þingstyrk flokkanna. Jafnframt er með þessu skipulagi svigrúm fyrir þingflokkana að semja um skiptingu varaforseta milli sín ef vilji er til þess, t.d. með því að skila einum lista. Eðlilegt er að halda þeirri hefð sem verið hefur frá 1971 að fyrsti varaforseti sé úr röðum stjórnarandstæðinga og jafnframt þykir æskilegt að sem flestir flokkar eigi aðild að forsætisnefnd.``
    Þarna finnst mér ekki nægilega fast að orði kveðið um það að stjórnarandstaðan eigi eðlilega aðild. Eins og hefðin hefur verið hafa verið níu forsetar samtals, þ.e. sex varaforsetar, og af þeim hafa þrír komið úr röðum stjórnarandstöðunnar. Yfirleitt hefur það þýtt að allir þingflokkar hafa átt þar aðild að nema ef um mjög marga litla þingflokka er að ræða, þá hafa að sjálfsögðu ekki allir átt aðild þar að.
    Ég tel mjög mikilvægt að allir flokkar eigi aðild að stjórn þingsins ef hægt er að koma því við. Með því fyrirkomulagi að fjórir varaforsetar verði kosnir listakosningu er langt frá því að svo geti orðið eins og ástandið er núna. Ég tel því að það þurfi að athuga þetta sérstaklega í þeirri nefnd sem málinu verður vísað til og tel þá frekar koma til greina að fjölga varaforsetum ef það gæti orðið til samkomulags. Í frv. er gert ráð fyrir fjórum varaforsetum en með núverandi skipulagi eru varaforsetarnir sex. Yfirleitt hefur ekkert veitt af því, sérstaklega þegar um langa fundi er

að ræða, en þarna er sem sagt eingöngu gert ráð fyrir fjórum varaforsetum.
    Það er líka þyrnir í augum kvennalistakvenna að takmarka málfrelsi eins og gert er ráð fyrir í þessum þingsköpum. Það er gert ráð fyrir að í utandagskrárumræðum, lengri umræðunni, hafi málshefjandi hálftíma og ráðherra sem hlut á að máli en aðrir fimmtán mínútur. Þetta þykir mér í knappasta lagi og hefði talið að þar sem við erum að breyta mjög miklu hér í þinginu hefði verið eðlilegra að hafa ræðutímann eins og hann er núna, en tel þó að hægt sé að sætta sig við þessa grein frv. eins og hún er. En þarna finnst mér samt tíminn vera í knappasta lagi og það gildir reyndar líka um 55. gr. þar sem talað er um ræðutímalengd í þingskapaumræðum.
    Þetta vildi ég nefna hér, virðulegur forseti, við þessa umræðu. Það eru nokkur fleiri atriði sem ég tel mjög eðlilegt að sú nefnd sem fær þetta frv., og þá væntanlega bæði frv., til meðferðar taki rækilega til athugunar, bæði þau atriði sem ég hef nefnt og fleiri sem þarf að líta betur á vegna þess að það er ekki fullt samkomulag um frv. eins og það lítur út núna.