Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég fagna því að þing skuli hafa verið kvatt saman svo skömmu eftir kosningar til þess sérstaklega að staðfesta breytingar á stjórnarskipunarlögum, þær sem samþykktar voru í lok síðasta þings, og til þess að ákvarða ný lög um þingsköp Alþingis. Ég átti aðild að undirbúningi þessa máls á síðasta þingi og var 1. flm. þess frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, og ætla mér ekki að endurtaka neitt af því sem ég sagði á síðasta þingi um það mál. Það liggur allt fyrir í Alþingistíðindum. Ég nefni aðeins það sem hér hefur þegar verið drepið á, að samþykkt þessa frv. og frv. til nýrra þingskapalaga fylgir mikil breyting á störfum Alþingis. Í fyrsta lagi að þingið mun starfa allt árið og í einni málstofu sem er auðvitað mjög veigamikil breyting. Ég tel líka að sú breyting út af fyrir sig hafi það í för með sér að útgáfa bráðabirgðalaga ætti því sem næst að vera úr sögunni, ef ekki alveg. Þá nefni ég líka það ákvæði sem þetta felur í sér að þingrof verði aðeins frá kjördegi, þannig að landið verður aldrei þingmannslaust.
    Þetta eru vissulega veigamiklar breytingar á starfi Alþingis sem nánar eru skilgreindar í frv. til þingskapalaga sem er nú til meðferðar í hv. Nd. Það var prentað sem fskj. með stjórnarskrárfrv. á síðasta þingi en hefur núna tekið nokkrum breytingum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið það svo nákvæmlega að ég viti hverjar þær eru og ég geymi mér af eðlilegum ástæðum að ræða það sérstaklega þangað til það frv. kemur til meðferðar í þessari hv. deild.
    En vegna þess að aðeins var komið inn á forsætisnefndina, sem var mjög eðlilegt, af hv. 1. flm. Margréti Frímannsdóttur og af fleirum reyndar, þá vil ég aðeins taka undir það að mér þykir mjög eðlilegt að stjórnarandstaða komi beint að stjórn þingsins og það verði ekki háð einhverri hefð sem hér er nú komin reyndar. Um 20 ára skeið, eða allt frá árinu 1971, hefur það verið ákvörðun meiri hluta þingsins eða stjórnarflokkanna hverju sinni að stjórnarandstöðu er boðin aðild að stjórn þingsins með því að bjóða stjórnarandstöðunni fyrri varaforseta í deildum og sameinuðu þingi. Núna er gert ráð fyrir að þetta verði lögfest með því að listakosning verði viðhöfð við kosningu fjögurra varaforseta. Þetta þykir mér mjög eðlileg leið. Það kom fram hjá hv. 1. flm. að flutningsmönnum frv., ég held ég hafi skilið 1. flm. rétt, þætti eðlilegt að allir flokkar sem sæti eiga á þingi fái þannig beina aðild að stjórn þingsins. Nú liggur það auðvitað í augum uppi að ekki er hægt að tryggja slíkt með þessu ákvæði. Það væri hægt með samkomulagi í dag þar sem aðeins fimm flokkar eiga fulltrúa á Alþingi en við höfum auðvitað ekki vissu fyrir því að svo verði um alla framtíð. Þeir geta orðið fleiri og ég vara aðeins við því að menn gefi sér það sem eðlilega reglu að allir flokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi eigi að eiga einhvern sjálfkrafa rétt á því að fá einhvern af varaforsetum þingsins.
    Ég er alveg tilbúinn að ræða það hvort talan fjórir sé heilög tala, hvort það eigi að fjölga varaforsetum eða ekki. Mér sýnist ekki þörf á því en er, eins og ég segi, alveg tilbúinn að hlusta á rök fyrir því að einhver önnur tala verði fundin. Ef við fjölgum gæti það tryggt það að allir flokkar sem sætu á þingi í dag fengju fulltrúa í forsætisnefnd án einhverra sérstakra samninga milli flokka, en eins og ég sagði áðan þá getur það ekki tryggt slíkt um alla framtíð. Þetta vildi ég láta koma fram varðandi forsætisnefndina.
    Ég lýsi sérstakri ánægju minni með þær hugmyndir sem hér eru uppi um fjárlaganefndina, eins og lagt er til að hún eigi að heita, ég tel það eðlilega breytingu á nafni hennar að hún heiti fjárlaganefnd. Ég er sérstaklega ánægður með þau ákvæði sem eru í 25. gr. um að fjárlaganefnd skuli að jafnaði vísa til fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra. Ég er sannfærður um að það mun verða til mikilla bóta hér í þinginu að fagnefndirnar fái til meðferðar þá þætti sem þær fjalla sérstaklega um frá fjárlaganefndinni. Ég hefði talið að vísu að þessi orð ,,að jafnaði`` þyrftu ekkert að vera, heldur væri það skylda fjárlaganefndar að vísa þessum málum til fagnefndanna, en geri ekki neinn sérstakan ágreining um það. Ég geri ráð fyrir að það verði reglan að vísa þessum málum til fagnefndanna og síðan koma þau að sjálfsögðu aftur til fjárlaganefndarinnar sem gengur endanlega frá tillögum til þingsins.
    Ég fagna líka sérstaklega ákvæðunum í 2. mgr. 56. gr., um heimildir þingmanna til þess að gera stuttar athugasemdir við ræður án þess að þurfa að bíða eftir því að komast að eftir röð á mælendaskrá. Ég er sannfærður um að þetta muni gera umræðu líflegri og hef trú á því að það muni fremur stytta umræður en lengja að gefa þingmönnum kost á því að koma með stuttar athugasemdir við ræðu.
    Í 49. gr. þingskapalagafrv. eru ákvæði um fyrirspurnir. Mér þykir miður að enn skuli vera ákvæði um að heimiluð séu skrifleg svör við fyrirspurnum. Ég tel að heppilegra væri að afnema þessa heimild og það eigi að binda það eingöngu við skýrslur, sem þýðir ósköp einfaldlega að það þurfi fleiri en einn þingmann til til þess að biðja um skýrslu eða skriflegt svar. Ég bendi aðeins á þetta og vænti þess að nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar athugi það sérstaklega hvort ekki sé ástæða til að afnema þetta ákvæði. Ég held því fram að reynslan af þessu sé ekki það góð að ástæða sé til að halda því áfram.
    Þá held ég líka að í þessari grein sé mjög gott ákvæði, þ.e. 7. mgr., þar sem forseti getur heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra óundirbúið. Ég held að það geti líka orðið til þess að lífga upp á fundarhaldið.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hreyfði þeirri hugmynd hvort ekki væri rétt að kjörin yrði sérstök stjórn yfir Ríkisendurskoðun. Mér finnst sjálfsagt að athuga þessa hugmynd. Ég held að það komi vel til greina að hafa þann háttinn á fremur en að forsetar þingsins séu í raun yfirmenn Ríkisendurskoðunar. Ég held að það sé sjálfsagt að nefndin athugi þessa hugmynd alveg sérstaklega.

    Svo fór hv. þm. í dálitla upprifjun um utandagskrárumræðu sem hér varð í hv. Ed. og ég hef heyrt af. Á þeim tíma hafði ég ekki náð þeirri forfrömun að komast í Ed. en ég hef náð því núna en ég þekki hins vegar lítillega til umræðunnar eins og hún fór fram. Ég ætla ekki að rifja það sérstaklega upp eða neitt frekar en hv. þm. gerði, en hann spurði hvort það væri skoðun okkar að við ættum endanlega að festast í vetrarkosningum. Svo er ekki. Ég held að það sé ekki heppilegt að við festumst endanlega í vetrarkosningum en ég bendi aðeins á það, og fell þá kannski í þá gryfju að rifja eitthvað upp af þeirri umræðu sem varð á síðasta þingi, að það að komast inn á þann tíma sem kosningalög ákváðu, annan laugardag í maí, tryggði auðvitað ekki maíkosningar um alla framtíð. Þótt við hefðum með rúmri lögskýringu, svo ég kveði nú ekki fastar að, getað sæst á það að kosningar gætu farið fram 11. maí á þessu ári, þá tryggði það okkur auðvitað ekki maíkosningar um alla framtíð. Meðan við höfum það ákvæði í okkar löggjöf að þingrof er mögulegt og heimilt er auðvitað alltaf hægt að stytta kjörtímabilið. Það er þá undir hælinn lagt hvort það gerist að vetri, vori eða sumri sem stytting þingtímabilsins er ákveðin. Nú ætla ég ekki að fara að deila um stjórnarskrárbrot eða ekki stjórnarskrárbrot, skýt því aðeins hér inn að ég taldi það aldrei vera stjórnarskrárbrot þótt ákveðinn yrði kjördagur 11. maí, en ég taldi það nokkuð frjálslega umgengni við stjórnarskrána að fara þannig að. Sem sagt, ég tel það illt ef við værum að festa okkur í einhverjum vetrarkosningum en tel ekki að við séum að því með þessum ákvæðum.
    Með ákvæði 15. gr. stjórnarskrárfrv. sýnist mér að við losnum við þær deilur sem hafa risið upp öðru hverju um kjörtímabilið, hvort verið væri að fara fram yfir fjögur árin sem stjórnarskráin ákveður eða ekki. Ég tel að með þessu ákvæði sé komið í veg fyrir frekari deilur um það hvenær kjörtímabili lýkur. Það er alveg skýrt kveðið á um það að upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum. Þetta sýnist mér vera alveg nægilega skýrt ákvæði og ætti að tryggja að ekki verði frekari deilur þar um.
    Í þessari umræðu ætla ég að stilla mig um að ræða byggingu húss fyrir Alþingi eða kaup á Hótel Borg, en vegna orða hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og fyrirspurnar hvort við séum tilbúnir að taka upp viðræður við borgarstjórn Reykjavíkur um kaup á Hótel Borg þá get ég alveg lýst áhuga mínum á að slíkar viðræður verði teknar upp. En ég held að það verði að teljast fremur hæpið að þær viðræður verði við núv. borgarstjóra vegna þess að mér skilst að hann sé að láta af starfi sem slíkur. En hann kann að hafa þar einhver áhrif áfram sem borgarstjórnarfulltrúi, sem ég sé nú ekki að sé í hrópandi ósamræmi við hans starf sem forsætisráðherra. Mér sýnist að það sé ekkert sem banni honum að vera borgarstjórnarfulltrúi.
    Ég var einn í hópi þeirra sem töldu það vera heppilega bráðabirgðalausn að kaupa Hótel Borg og lét þess getið í þingræðu. Sú skoðun mín hefur í

sjálfu sér ekkert breyst þótt mér finnist hins vegar að það sé kominn tími til að metnaður Alþingis standi til þess að byggja yfir þingið. Sá tími tel ég reyndar að sé löngu kominn og ástæða sé til að taka það mál upp að nýju. Þá er ég ekki að tala um að byggja endilega eftir þeirri teikningu sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni sem hleypt var af stokkunum fyrir nokkuð mörgum árum. Mér finnst að metnaður Alþingis hafi verið furðu lítill í þessu máli og Alþingi hafi ekkert efni á að vera að tala um lítinn metnað borgarstjórnar Reykjavíkur til þess að Alþingi búi sæmilega um sig. Metnaður Alþingis sjálfs hefur þar verið allt of lítill.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. Ég ætla ekki að tefja tímann vegna þess að ég tel ákaflega mikilvægt að þetta mál komist til nefndar í dag þannig að umræður um það þurfi ekki að tefja afgreiðslu þess.
     Svavar Gestsson :
     Herra forseti. Það frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem nú liggur fyrir er í veigamiklum atriðum frábrugðið þeim drögum að frv. sem lágu fyrir sl. vetur. Það er margt sem hefur breyst og flest til bóta. Ég minni á að í þessari virðulegu deild komu fram athugasemdir við það frá fjölmörgum þingmönnum að í þeim drögum að þingskapalögum sem þá lágu fyrir væri í raun og veru ekki nægilega vel frá hlutum gengið að því er varðar öryggi stjórnarandstöðunnar, öryggi lýðræðisins og þingræðisins í þeirri skipan sem nú er verið að taka upp í einni málstofu.
    Ég talaði nokkrum sinnum í þeim umræðum í þessari deild, sömuleiðis þáv. hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrv. hæstv. forseti sameinaðs þings, og fleiri blönduðu sér í umræðurnar, þar á meðal núv. hæstv. forseti sameinaðs þings, Salome Þorkelsdóttir. Það var augljóst mál að um það var full samstaða hér í þinginu þá með fulltrúum allra flokka að nauðsynlegt væri að búa þessi þingskapalög miklu betur úr garði en gert hafði verið ráð fyrir.
    Það er ástæða til að þakka það að fulltrúar allra flokka hafa lagt sig fram um að reyna að ná um þetta mikilvæga mál samstöðu. Það er auðvitað þannig að ekki er hægt að afgreiða stjórnarskrárbreytinguna öðruvísi en að þingskapalögin séu sæmilega úr garði gerð, það er forsendan. Þingsköpin eru hjartað í þingræðinu og þess vegna hljótum við að taka þetta mál alvarlega, vanda okkur við meðferð þess og reyna að ná samstöðu um leið og við hljótum að leggja á það áherslu að tryggja að rétti minni hluta sé með eðlilegum hætti skipað í hinum nýju lögum.
    Ég vil aðeins koma að einu almennu atriði í sambandi við það mál sem hér er á dagskrá, þ.e. frv. til stjórnarskipunarlaga. Þannig háttar til í þingum í grannlöndum okkar víða að þar eru kosnar fastar stjórnlaganefndir sem starfa alltaf eða eru alltaf til til að taka við frv. til stjórnarskipunarlaga. Við höfum ekki haft þessa skipan á heldur hefur verið skipuð nefnd úti í bæ til að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Síðan hafa verið kosnar lausanefndir samkvæmt sérstökum ákvæðum þingskapa til þess að fjalla um málin þegar þau hafa komið inn í þingið. Ég vil þess vegna hreyfa þeirri hugmynd minni hér, minni persónulegu hugmynd, að það verði kannað í þeirri nefnd sem málið fær til meðferðar að kosin verði hér ævinlega sérstök stjórnlaganefnd sem fær öll stjórnarskrárfrv. til meðferðar, ef einhver eru, stundum líða auðvitað heilu þingin og það koma engin stjórnarskrárfrv., það er engin tillaga uppi um breytingar á stjórnarskránni, en stundum koma tvö, þrjú frv. á sama vetri og þá sé þessi nefnd til.
    Ég held satt að segja að það sé þinginu ekki til verulegs sóma hvernig þessi stjórnarskrármál öll hafa verið hjá nefndum utan þingsins. Þar hafa auðvitað yfirleitt verið þingmenn en þó hafa þær í raun og veru ekki verið undir forræði þingsins heldur hafa þær verið, ef ég man rétt, undir forræði forsrn. á hverjum tíma, a.m.k. var það þannig býsna oft. Ég vil þess vegna hreyfa þessari hugmynd, virðulegur forseti, til að hún verði skoðuð vinsamlega í þeirri nefnd sem fær málin til meðferðar.
    Ég vil síðan víkja að nokkrum álitamálum í frv. til laga um þingsköp. Ég geri það vegna þess að gert er ráð fyrir því að mér skilst að nefndir beggja deilda starfi saman og þess vegna þurfum við að tala um málin dálítið við 1. umr. þessa máls strax núna.
    Ég vil þá fyrst víkja að 3. gr. Þar segir í 3. mgr.: ,,Forseti gengst fyrir kosningu fjögurra varaforseta samkvæmt reglum 68. gr.`` Það þýðir listakosningu um varaforsetana og að þeim er síðan úthlutað samkvæmt reglu d'Hondt eins og greint er frá í greinargerðinni. Þetta þýðir það, ef strangt er sótt af hálfu stjórnarliðsins á hverjum tíma, að stjórnarliðið ætti þá ævinlega fyrsta varaforseta vegna þess að stjórnarliðið er væntanlega fjölmennara á hverjum tíma og á fyrsta varaforseta þó að það sé um leið búið að neyta afls til þess að eignast aðalforseta. Þetta er í raun og veru brot á þeirri hefð sem hefur verið hér um 20 ára skeið.
    Eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh. áðan eru í raun og veru allir sammála um að halda þessari hefð. Spurningin er þá væntanlega aðeins um það hvernig lagatextinn verði útbúinn þannig að hann tryggi hefðina. Ein leið væri auðvitað sú að kjósa aðalforsetann og varaforsetana af lista. Sá sem fyrstur er á lista þeim sem flest fær atkvæði verður aðalforseti. Það er auðvitað hugsanleg leið, en það finnst mér út af fyrir sig lakari leið, vegna þess að ég tel að forseti sameinaðs þings sé auðvitað mikilvægur embættismaður sem gegnir hlutverkum fyrir utan þingið, m.a. sem einn af handhöfum forsetavalds, og er þannig stofnun í sjálfu sér og því er í sjálfu sér óeðlilegt að blanda kosningu aðalforseta saman við kosningu varaforsetanna. Þess vegna þyrfti að finna orðalag á þessari grein sem tryggir að stjórnarandstaða, með eðlilegum, lýðræðislegum hætti, ætti fyrsta varaforsetann miðað auðvitað við að í grófum dráttum sé skipan á milli stjórnar og stjórnarandstöðu nokkuð knöpp. Ég er þó ekki að tala um að ef við værum t.d. með stjórn sem styddist við 60 þingmennn þá þyrfti þriggja manna

stjórnarandstaða endilega að eiga fyrsta forsetann. Þetta nefni ég vegna þess að þetta er flókið mál að orða í texta. En mér heyrist að allir séu sammála um að það eigi að reyna að glíma við það. Og ég skildi hæstv. menntmrh. þannig hér áðan, en hann flutti þetta frv. í upphafi þegar það var til meðferðar á síðasta þingi.
    Hér eru menn ekki að tala um það heldur að tryggja að allir flokkar endilega eigi menn í forsæti, það er ekki hægt að setja neinar slíkar reglur. Hvað voru margir flokkar hér á síðasta kjörtímabili, voru þeir sjö? Stundum voru þeir átta. Svo fóru tveir heim til sín, eins og kunnugt er, en komu aftur eins og gengur. Það er því ekkert hægt að tryggja í þeim efnum. En þarna þarf að búa til almenna reglu og reyna að orða hana í lagatextanum, sem okkur tókst ekki í nefndinni. Ég viðurkenni það, við fundum ekki nægilega góða aðferð til þess af því að við vildum skilja að varaforsetana annars vegar og aðalforsetann hins vegar.
    Sú hugmynd að fjölga varaforsetum er út af fyrir sig. Ég er ekki að tala um að fjórir sé nein heilög tala en mér finnst það samt alveg nóg, svona fyrir minn smekk, alveg nóg að vera með fjóra ef það er hægt að komast af með þá. Ég tek það fram að ég tel að ég hafi átt talsverðan hlut að því í nefndinni sem hefur fjallað um þingskapafrumvarpið að undanförnu að greina skýrt á milli forsetans og forsætisnefndarinnar. Forsetinn er stjórnvald í sjálfum sér en forsætisnefndin, með forsetanum og varaforsetunum, er í raun og veru ekki fjölskipað stjórnvald sem greiðir atkvæði heldur eru varaforsetarnir til samráðs með forsetanum en úrslitavaldið er í höndum forsetans og á að vera það.
    Þá er aftur komin upp sú spurning sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi áðan. Á forsætisnefndin að skipa ríkisendurskoðanda eins og hér er gerð tillaga um? Ég er alveg sammála honum um að það er í raun og veru óeðlilegt fyrirkomulag. Ég er sammála honum um það að annaðhvort ætti að kjósa stjórn Ríkisendurskoðunar eða þá að kjósa ríkisendurskoðanda beint í hinni einu málstofu, rétt eins og gert er í sambandi við umboðsmann Alþingis. Alla vega held ég að þessi ábending hv. 1. þm. Austurl. sé með þeim hætti að allir hljóti að fallast á hana vegna þess að hún er rétt. Það er fullkomlega skothent að þessi forsætisnefnd sé að ganga frá svona máli. Það getur auðvitað verið, án þess að ég muni það úr lögum, að forsetarnir hafi áður haft tilteknar aðrar sameiginlegar skyldur en þessa, sem þyrfti þá að kanna og um leið að breyta ef svo hefur verið.
    Varðandi stöðu forsetans kemur það auðvitað mjög skýrt fram hver hans ábyrgð er í 9. gr. frv. um þingsköp þar sem tekin eru af öll tvímæli.
    Varðandi rétt stjórnarandstöðunnar vil ég halda því til haga að við meðferð málsins, ég hygg á undanförnum mánuðum, var alltaf um það talað, m.a. af núverandi hæstv. menntmrh., þáverandi formanni þingflokks Sjálfstfl., að það væri eðlilegt að stjórnarandstaðan ætti einhverja formenn fastanefndanna. Það

væri reynt að koma á þeirri skipan að stjórnarandstaðan ætti með beinum hætti einhverja af formönnum fastanefndanna. Ég segi fyrir mig að burt séð hvort ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu þá tel ég að þessi vinnubrögð mundu til lengri tíma litið bæta vinnu þingsins og vanda hana. Ég verð að segja að ég harma það að mér mistókst að halda fram þessum gömlu, góðu tillögum eftirmanns míns í ráðherrastóli í þessari nefnd. Menn voru ekki tilbúnir til að fallast á þessa hugmynd þar, en ég segi: Ég tel og fer fram á það að sú sérstaka nefnd sem kosin verður væntanlega á eftir skoði það með hvaða hætti hægt sé að tryggja að stjórnarandstaðan eigi formennsku í nefndum í einhverjum tilvikum. Ég veit að þetta er ekkert einfalt. T.d. er flókið að finna út í hvaða nefndum það ætti að vera. Auðvitað hlýtur stjórnin að ráða úrslitum um þau mál eða meiri hlutinn í þinginu á hverjum tíma og allt gott um það að segja. Það er það venjulega. En ég held að við ættum að glíma við þetta og reyna að koma á með skipulegum hætti jafnvægi í stjórn þingsins, sem ég held að muni bæta vinnubrögð þess í heild þegar til lengri tíma verður litið.
    Ég vil aðeins, virðulegi forseti, víkja að því að í 19. gr. þingskapafrv. er talað um að nefndarfundir skuli vera lokaðir nema nefnd ákveði annað. Ég tel að nefnd eigi að geta ákveðið það að hún haldi opna nefndarfundi. Um þetta mál höfum við átt talsverðar umræður hér í þinginu á fyrri árum, aðallega fyrir 10 -- 15 árum eða svo. Í frv. er gert ráð fyrir þessum möguleika. Ég tel að texti greinargerðarinnar að þessu leytinu til sé of neikvæður, en ég vil láta það koma fram að ég lít svo á að þarna sé verið að opna þann möguleika að nefndirnar geti starfað opið, þ.e. fyrir fjölmiðlum, þegar kallaðir eru til aðilar utan þings til þess að ræða við um ýmis mikilvæg mál.
    Ég vil sérstaklega fara nokkrum orðum um 25. gr. í sambandi við fjárlög og segja að ég tel að þar sé um að ræða mjög mikla framför og geti orðið mikil framför í starfsemi þingsins. Ég sé þetta þannig fyrir mér að fjárveitinganefndarmennirnir úr stjórn og stjórnarandstöðu muni skipta með sér verkum þannig t.d. að hver fjárveitinganefndarmaður hafi með að gera tiltekið ráðuneyti og þessir fjárveitinganefndarmenn fylgist síðan með því með beinum eða óbeinum hætti eða þeim aðferðum sem verða taldar í lagi, að fastanefndirnar séu á móti að skoða tiltekna kafla. Af því að ég sé hérna stórvin minn, hv. þm. Egil Jónsson, þá sé ég þetta þannig fyrir mér að það sé einn maður í fjvn. sem sé sérstaklega ábyrgur fyrir landbrn. og síðan gerist það að landbn. fjalli um þennan sama kafla og það verði samstarf með beinum hætti þarna á milli.
    Sumir hafa sagt sem svo: Ja, þetta verður nú þrifalegt. Þarna kemur nú bara einn þrýstihópurinn í viðbót þar sem er landbn., af því ég nefndi alveg sérstaklega minn góða vin Egil Jónsson. En það er fullkominn misskilningur að mínu mati. Ég segi: Ég held að þingnefndirnar, fastanefndirnar mundu verða ábyrgari eftir áramótin en þær hafa verið. Reynslan hefur nefnilega verið sú á undanförnum árum og áratugum

að þingnefndir hafa verið tiltölulega ábyrgar í fjármálum fyrir áramótin en sleppt fram af sér beislinu eftir áramótin. Ég held að með því að tryggja að þarna sé alltaf um gagnvirkni að ræða hjálpist menn að og muni skila þessu mikið betur og vandaðra en það hefur verið. Ég er algerlega sammála hæstv. menntmrh. um það að orðin ,,að jafnaði`` í 2. mgr. 25. gr. mættu mín vegna fara út, ég er algerlega sammála því og tel að það mætti skoða og er full ástæða til að skoða það í nefndinni hvort þetta eigi ekki að vera regla.
    Ég vek einnig athygli, virðulegi forseti, á 36. gr. Þar er komin inn mjög mikilvæg breyting sem gott er að lesa saman við 90. gr. frv. Í 36. gr. segir að þegar máli er útbýtt skuli líða a.m.k. tvær nætur áður en það kemur til umræðu. Til þess að fá málið tekið fyrir til umræðu verður síðan að líta á 90. gr. þar sem komið er inn ákvæði um það að ævinlega þurfi aukinn meiri hluta þegar um er að ræða afbrigði frá þingsköpum. Ég tel satt að segja að þetta sé eitt allra mikilvægasta ákvæði frv. og í raun og veru úrslitamál, a.m.k. í mínum huga, að því er varðar þingskapafrv. í heild til þess að maður geti með góðri samvisku fallist á það að þingið verði ein málstofa. Við vitum að tvær málstofur voru á marga lund trygging fyrir því að hægt væri að skoða málin aðeins betur en ella hefði verið.
    Hér eru fjöldamörg önnur atriði, virðulegi forseti, eins og t.d. að gert er ráð fyrir því að framvegis verði hægt að nefna þingmenn með fullu nafni en ekki með kjördæmistilvísun. Það er ágætt, þó að sumir séu orðnir nokkuð leiknir í því að nefna menn alltaf með kjördæmistilvísun og númerum, þá vill maður ruglast, sérstaklega þegar komið er að öllum þessum þingmönnum Reykv. sem núna eru 18 og gætu orðið 19 ef flakkarinn slæddist hingað einn góðan veðurdag sem getur auðvitað alveg orðið.
    Ég vil vekja athygli á 73. gr. Þar er mjög mikilvægt ákvæði í sambandi við það hvenær stefnuræða forsrh. er tekin til meðferðar. Þar stendur ,,innan tíu daga``. Það er hlaup í þessu, þetta er aðeins öðruvísi en það var í uppkastinu í fyrra og ég tel að þetta sé heldur til bóta. Í það heila tekið er ég heldur sáttur við þetta frv. þó að ég vilji ganga aðeins lengra í því að tryggja rétt stjórnarandstöðunnar, sérstaklega að því er varðar nefndirnar í fyrsta lagi og í öðru lagi vil ég biðja menn um að hugleiða betur hvernig forsetakjörinu verður hagað þannig að hefðinni verði við haldið sem hefur verið í gildi frá 1971.
    Ég vil aðeins víkja þá næst að því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. varðandi það hvenær kosningar eiga að vera. Við áttum nokkuð athyglisverða umræðu um þetta fyrir nokkrum mánuðum í þessari deild, eins og oft voru í þessari deild, mjög skemmtilegar umræður, og það er náttúrlega ein meginástæðan fyrir því að maður sér eftir því að sameina þingið í eina málstofu. Það verður að vísu Nd. sem verður lögð niður, má segja, og sameinuð þessari. En allt um það, þá þyrfti maður aðeins að fá betri skilning á þessu máli.

    Hæstv. menntmrh. orðaði það þannig að það væri frjálsleg túlkun á stjórnarskránni að hafa kosningarnar 11. maí, eða rúm lögskýring. Ef hæstv. menntmrh. hefði verið hvað nútímalegastur í því að nefna þetta hefði hann örugglega kallað þetta oftúlkun samkvæmt því sem nýjast er í fræðum þegar um það er að ræða að menn vilja glenna hlutina fyrir sér til þess að þoka þeim áleiðis. Hann mundi vilja nefna þetta oftúlkun ( Menntmrh.: Á heiðursmannasamkomulagi.), oftúlkun á heiðursmannasamkomulagi. En það skulum við ekki tala mikið hér um, hæstv. menntmrh., þetta heiðursmannasamkomulag. Ég held að það sé alveg útilokað. A.m.k. væri sniðugt að kalla í borgarfulltrúann og hafa hann viðstaddan áður en mikið er farið að tala um þetta heiðursmannasamkomulag. Það hefði auðvitað verið ástæða til þess að kalla í hæstv. forsrh., sem er borgarstjóri í aukavinnu eins og kunnugt er, á lágu kaupi væntanlega, en mér er kunnugt um það að hann er núna að sinna sínum skyldum í aukavinnunni sem borgarfulltrúi og gera tillögu um það hver eigi að taka við af honum því að hann vill auðvitað ráða því eins og öðru í Sjálfstfl.
    En vandinn er sá fyrir okkur hér í stjórnarandstöðunni, sem vorum einu sinni í ríkistjórn og verðum það auðvitað fljótlega aftur, að núverandi stjórnarforusta hefur engu svarað þessu mikilvæga máli: Hvenær á að kjósa? Á að kjósa, samkvæmt túlkun hæstv. menntmrh., vorið 1994 til þess að geta lent á réttum kjördegi? Ef maður notar þá túlkun sem hæstv. menntmrh. var með hér áðan þá kemur aftur upp þessi vandi sem menn stóðu frammi fyrir í almanakinu í aprílmánuði sl., að kosningarnar gætu lent á milli föstudagsins langa og páskadagsins. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti Sþ. býðst til þess að skoða almanakið en það hrekkur skammt vegna þess að möguleikarnir eru margir á næstu árum. Það mætti kannski fara yfir það í heild og setja inn sérstök ákvæði um það að þó sé það ekki þegar daginn ber upp á daginn milli föstudagsins langa og páskadagsins en það þætti klúðurslegur lagatexti er ég hræddur um, þannig að þetta er hinn mesti vandi. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við sem erum í minni hluta í þinginu núna, hvað sem síðar verður eins og ég sagði, fáum upplýsingar um það hvaða skoðun ríkisstjórnin hefur á þessu máli. (Gripið fram í.) Hv. 4. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson bendir náttúrlega á þann möguleika að breyta dagatalinu. ( Gripið fram í: Eins og Kastró.) Já, og frestaði jólunum með bráðabirgðalögum, var sagt. En nú er vandi á höndum, erfitt að gefa út bráðabirgðalög, þannig að þetta verður stöðugt flóknara. Um þetta þyrftum við að fá álit. Auðvitað væri hugsanlegt að kalla hingað hæstv. landbrh. og samgrh. sem er einhver allra mesti stjórnlagaspekingur Sjálfstfl. og er þá langt til jafnað. En hann er nú fjarri góðu gamni, hann er kominn í aðra deild og ekki svo forframaður lengur að hann sé í Ed. þó hann sé kominn í ríkisstjórn og satt að segja held ég að það greiði ekkert fyrir umræðum að fara að kalla hann hingað, blessaðan.
    En allt um það. Ég held að það sé óhjákvæmilegt

að fara fram á það við hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta að við fáum um það yfirlit hvaða skoðun ríkisstjórnin hefur á þessu. Og í alvöru talað vil ég fara fram á það að hæstv. forseti hlutist til um það að sú sérnefnd, sem kosin verður til að fjalla um málið, fái lögfræðiálit á þessum málum til þess að hafa til hliðsjónar við meðferð málsins þegar þar að kemur. Það er auðvitað ómögulegt að menn séu með eitthvert rugl um það hvenær á að kjósa, þó það sé auðvitað eins með mig og hv. 1. þm. Austurl. að við vildum gera það sem allra fyrst og helst strax, en þá er engu að síður þannig háttað að svo gæti farið að stjórnin hökti langleiðina út kjörtímabilið og þá þyrftum við að vita þetta. Og af því að við tökum okkur alvarlega í þessari virðulegu deild og viljum vita hvað við erum að gera, sérstaklega þegar við erum að breyta stjórnarskránni sem er ekkert smámál, þá er eins gott að það liggi alveg nákvæmlega fyrir hvernig menn sjá fyrir sér hvenær eigi að kjósa. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann hlutist til um að vandaðir lögfræðingar verði fengnir til þess að skoða málið.
    Svo aðeins að lokum þetta, herra forseti, sem ég gleymdi áðan þegar ég var að fara yfir þingskapafrv., það var 4. umr. sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi hér áðan. Sú hugmynd var uppi í drögum að þessum þingsköpum að gert yrði ráð fyrir 4. umr. í sumum tilvikum og mér leist satt að segja alltaf heldur illa á þetta. Ég óttaðist að þetta yrði ruglingslegt og þess vegna yrði reynt að koma inn sérstöku ákvæði, og er reynt í textanum, um hlé á meðferð máls þannig að það geti gengið til nefndar þótt atkvæðagreiðslu sé í raun og veru lokið. En það er líka rétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að eins og frá þessum hnútum er gengið í textanum núna, þá er það ekki nægilega skýrt. Ég tek undir það með honum að það þarf að laga, en ég segi það sem mína persónulegu skoðun að ég held að það væri ekki til bóta að fara að opna fyrir það að það væri 4. umr. stundum og stundum ekki. Ég held að ákvarðanir um það yrðu tilviljanakenndar, þær færu ekki bara eftir því hvort væri verið að fjalla um mikilvæg mál eða ekki heldur færi það eftir því í hvernig skapi þingmenn væru þá og þá. Og eins og kunnugt er fer það ekki endilega saman að menn séu í sérstaklega merkilegu skapi þegar þeir eru að fjalla um merkileg mál.